Enn af metingi

Ein af þeim leiðum sem ritstjóri hungurdiska notar í illviðrametingi er mismunur á hæsta og lægsta sjávarmálsþrýstingi landsins á hverjum tíma. Slíkar upplýsingar er að finna í gagnagrunni Veðurstofunnar og munurinn, sem við köllum þrýstispönn, auðreiknaður á 3 stunda fresti allt frá 1949 - auk þess sem ritstjórinn lúrir á nokkrum eldri tölum. Þar sem landið er lengra frá austri til vesturs heldur en norðri til suðurs eru slíkar tölur ekki alveg samanburðarhæfar sé ekki tekið til legu þrýstibrattans yfir landinu. Munur upp á 10 hPa milli norður- og suðurstranda landsins er því ávísun á meiri vind heldur en sami munur yfir landið frá austri til vesturs. Til að gera tölur samanburðarhæfari hefur ritstjórinn búið til töflu sem sýnir meðalvigurvindátt hvers sólarhrings aftur til 1949. Þá er hægt að metast um spannarstærð sérstaklega fyrir hverja vindátt. 

Oft hefur verið minnst á þessa gagnlegu reikninga hér á hungurdiskum. Í veðrinu á dögunum var vindátt úr norðri. Við berum því saman þrýstispönn í þeirri átt eingöngu. Mesti munur sem kom fram nú (á mönnuðu stöðvunum) var 29,7 hPa, kl.3 aðfaranótt þess 11. desember. Þess skal getið að þrýstispönn sjálfvirku stöðvanna var meiri - þær eru þéttari og mæla að auki oftar. Munur kerfanna tveggja hefur ekki verið kannaður ítarlega - en samt má reikna með því að tölur fyrri tíðar hefðu (að meðaltali) orðið lítillega hærri hefðum við haft alla þá mæla sem við höfum í dag og athugað jafnoft. 

Í skránum - aftur til 1949 - hefur þrýstispönn í norðanátt 22 sinnum verið meiri eða jafnmikil og nú - það gerist sum sé á um það bil 3 ára fresti að jafnaði að spönnin verði jafnmikil eða meiri.

Það er nokkur ánauð fyrir augu að horfa á allan listann hér inni í pistlinum - þannig að honum er komið fyrir í viðhengi (fyrir þá fáu sem kunna að hafa áhuga). Flest þessara veðra eru ritstjóranum kunnug - sum hefur hann meira að segja skrifað um (eða að minnsta kosti látið getið). Ekki er ísingar getið nema rétt stundum - enda er það fyrirbrigði algengara í norðaustan- eða jafnvel austanáttum. 

Þetta (og það sem ritstjórinn skrifaði í fyrradag) bendir til þess að hér sé alls ekki um neitt einstakt veður að ræða á landsvísu - ámóta veður hefur oft gert áður - ísingarveður verðum við þó e.t.v. að sækja meira í norðaustanáttarflokkinn. Á einstökum landsvæðum t.d. vestanverðu Norðurlandi og sumum útsveitum norðaustanland er þó um sjaldséðara veður að ræða.

Það er hins vegar augljóst af því mikla tjóni sem hefur orðið að samfélagið (eða öllu heldur tjónnæmi þess og innviða) er orðið eitthvað á skjön við það sem áður var. Mikilvægt er að farið verði i saumana á því hvernig megi draga úr tjónnæmi gagnvart veðrum sem þessum.

Mikilvægt er að viðurkenna að breytingar á tjónnæmi samfélagsins eru enn hraðari en breytingar á veðurfari (þó hraðar séu) - og að breytingar á veðurfari geta flett ofan af duldu tjónnæmi samfélagsins.  

Þó ísing samfara ofsaveðri sé mun sjaldgæfari um landið sunnanvert heldur en á Norður- og Norðausturlandi bíður slíkt veður samt færis í framtíðinni.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 13. desember 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 31
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 522
  • Frá upphafi: 2343284

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 474
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband