Mikill hitamunur í hægu veðri

Á vef Veðurstofunnar má á hverjum tíma sjá hæsta og lægsta hita sem mælst hefur á landinu þann sama dag. Í dag (mánudag 25.nóvember) vekur athygli að hæsti hiti dagsins (fram til kl.17) hefur mælst við Hafursfell á Snæfellsnesi, 8,6 stig. Þetta telst nokkuð hátt í bjartviðri og norðanátt í nóvembermánuði. Á sama tíma hefur víða verið vægt frost - og allmikið inn til landsins - eins og vera ber. Næsthæstu hitatölurnar koma frá Bláfeldi í Staðarsveit á Snæfellsnesi - þar fór hiti hæst í 7,2 stig og svo 7,1 stig undir Ingólfsfjalli. 

Fyrsta mynd þessa pistils sýnir hitamælingar á 10-mínútna fresti við Hafursfell og á Hvanneyri í Borgarfirði í dag. Við hefðum frekar viljað nota stöðina í Fíflholtum á Mýrum til samanburðarins við Hafursfell, en því miður hefur hún ekki skilað af sér undangenginn sólarhring (gögnin koma vonandi síðar). 

w-blogg251119a

Rauðu súlurnar sýna hita við Hafursfell, en þær bláu á Hvanneyri. Hiti fór rétt upp fyrir frostmark á Hvanneyri um kl.9 í morgun, en annars hefur verið þar -2 til -4 stiga frost í allan dag. Hiti hefur hins vegar verið ofan frostmarks við Hafursfell í allan dag. Þar hefur líka verið nokkur vindur, mjög breytilegur að vísu, en oft á bilinu 10 til 13 m/s. Hægviðri hefur verið á Hvanneyri - þó ekki logn. Munurinn á hita staðanna tveggja fór mest í nærri 11 stig. Ekki þurfti að leita langt frá Hvanneyri til að finna talsvert hærri hita en þar, úti á Hafnarmelum var hitinn í dag lengst af ofan frostmarks - en ekki þó nærri því eins hár og við Hafursfell, en á Húsafelli var harðara frost. 

Þessi breytileiki sést nokkuð vel á spákortum harmonie-líkansins - kannski þó lítillega útjafnaður. Við lítum á háupplausnargerð líkansins, 750 metrar eru milli líkanpunkta. Spáin gildir kl.20 í kvöld (mánudag 25.nóvember).

w-blogg251119b

Gulu svæðin sýna hita ofan frostmarks. Það er athyglisvert að sjá ákveðið mynstur. Þar sem vindur streymir niður hlíðar nær loftið að blandast hlýrra lofti fyrir ofan og hiti hækkar. Ef trúa má líkaninu nær niðurstreymi af Langjökli og Hofsjökli að hræra svo í loftinu að hiti fer í eða jafnvel upp fyrir frostmark - staðbundið - kortið sýnir þar einskonar gula kraga - sérstaklega á þeirri hlið sem snýr undan hinni ríkjandi vindátt - hún er úr norðaustri.

Við sjáum einnig að kragi af hlýrra lofti er í kringum mestallt suðurlandsundirlendið - þar sem bratt er. Aftur á móti er töluvert frost á sléttlendinu - rétt eins og uppi í Borgarfirði. Til þess að gera hlýtt er á öllu sunnanverðu Snæfellsnesi - rétt eins og mælingarnar sýna.

Kalda loftið er misdjúpt og vindi gengur því misvel að hræra því upp - þar sem brattlent er kemur þyngdarafl við sögu, styður þrýstivindinn og eykur líkur á hræru.

En loftið yfir landinu er mjög hlýtt - þó úr norðri blási. Það sést vel á síðasta kortinu en það sýnir mættishita í 850 hPa-fletinum. Sá þrýstiflötur er í dag í um 1450 metra hæð yfir landinu. Mættishiti - sem líka mætti kalla „þrýstinormaðan hiti“ (lengra og leiðinlegra nafn) sýnir þann hita sem loft fengi væri það dregið niður í 1000 hPa (nærri sjávarmáli). Mættishiti gerir okkur mögulegt að bera saman hita lofts í hinum ýmsu hæðum á eins konar jafnréttisgrundvelli - og býður þar með upp á alls konar bragðgóða valkosti.

w-blogg251119c

Jafnþrýstilínur eru heildregnar en mættishiti í 850 hPa-fletinum er sýndur í lit. Yfir Snæfellsnesi fer hann í 13,4 stig. Þetta er sá hiti sem loft í 850 hPa næði væri hægt að ná því óblönduðu niður í 1000 hPa (í dag er sá flötur í um 130 metra hæð). Hafursfellið og fjöllin þar í kring krækja með tindum sýnum upp í þetta hlýja loft og ná að blanda því saman við það kalda sem undir liggur. Hlutur hlýja loftsins var greinilega nokkuð mikill í dag - og hitinn náði nærri því 9 stigum þegar best lét.

Hiti í 850 hPa í dag var rétt ofan við frostmark - sem þýðir væntanlega að frostlaust hefur verið á sumum efstu fjallatindum (ekki öllum því fleira flækir málið). Það var t.d. frostlaust uppi á Skálafelli í mestallan dag og hiti var sömuleiðis ofan frostmarks lengst af á hinu 925 metra háa Ásgarðsfjalli nærri Kerlingarfjöllum og í Tindfjöllum, en -2 til -6 stiga frost var í Víðidal ofan Reykjavíkur í allan dag - svipað og víða á öðru flatlendi. 


Bloggfærslur 25. nóvember 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 399
  • Frá upphafi: 2343312

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 361
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband