Gjóað augum á vetrarspá

Við lítum til gamans á vetrarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar. Fyrir verður kort sem sýnir hæðarvik 500 hPa-flatarins í desember til febrúar. Dreifing vikanna segir eitthvað um meðalstyrk og stefnu háloftavinda í þessum mánuðum.

w-blogg100918ia

Við sjáum hér hluta norðurhvels jarðar. Litafletirnir sýna vikin - gulir og brúnir litir eru svæði þar sem búist er við jákvæðum hæðarvikum, en á þeim bláu eru vikin neikvæð. Þó vikin séu í raun ekki stór verða þau samt að teljast nokkuð eindregin. Spáð er öllu flatari hringrás heldur en að meðaltali - vestanáttin við Ísland og fyrir sunnan það öllu slakari en algengast er. Háþrýstisvæði algengari norðurundan en vant er - og lægðabrautir fremur suðlægar - inn yfir Suður-Evrópu fremur en yfir Ísland og Noregshaf. Norðaustanáttir að tiltölu algengari en suðlægu og vestlægu áttirnar. 

En jafnvel þó spáin rætist er rétt að hafa í huga að hún tekur til þriggja mánaða og sá tími felur ótalmargt. Aðrar upplýsingar frá reiknimiðstöðinni gefa t.d. til kynna að þetta mynstur nærri Íslandi verði hvað eindregnast í janúar. 

Hringrás á okkar slóðum hefur verið býsna sveiflukennd síðasta áratuginn. Við teljum 2009/2010, 2012/2013, 2013/2014 og 2015/2016 til austanáttarvetra (miðað við desember til febrúar), en 2011/2012, 2014/2015 og 2017/2018 til vestanáttarvetra, 2009/2010, 2010/2011 og 2017/2018 hölluðust heldur til norðurs, en 2016/2017 til suðurs. Verður komandi vetur austan- OG norðanáttavetur eins og 2009/2010? Hringrásin var gríðarafbrigðileg þann vetur og á ritstjóri hungurdiska fremur erfitt með að ímynda sér að slíkt endurtaki sig nú. Enda hafa vikin á kortinu hér að ofan ekki roð í það. 

Árstíðaspár af þessu tagi eru algjör tilraunastarfsemi og lítt martækar, en merkilegt verður að telja rætist þessi - sérstaklega vegna þess að hér er veðjað á allt annað veðurlag en ríkt hefur undanfarna mánuði. 


Fellibyljatími

Nú er fellibyljatíminn í hámarki á Atlantshafi. Fellibyljamiðstöðin í Miami hefur nú þrjá hitabeltisstorma/fellibylji í meðferð og þarf að auki að fylgjast með minniháttar hroðasvæðum þar sem eitthvað gæti stokkið af stað. Við skulum líta á innrauða mynd frá því í kvöld (sunnudag) sem sýnir þau kerfi sem nú eru virk.

w-blogg100918a

Fellibylurinn Florence mun næstu daga nálgast austurströnd Bandaríkjanna og mun óhjákvæmilega verða mikið í fréttum. Enn er fullsnemmt að segja hversu mikið verður úr og hvar. Ísak er vaxandi kerfi - við að ná styrk fellibyls. Að meðaltali liggur fellibyljafjandsamlegt háloftavindabelti til austnorðausturs og norðausturs frá Antilleyjahorninu. Þegar Florence fór í gegnum það tættist kerfið að nokkru í sundur og missti verulega styrk um stund - en er nú að ná sér á strik aftur eftir að vera komið í gegn um vindinn. Ísak mun líka lenda í erfiðleikum - deyr jafnvel alveg lendi hann inni í því - hann er minni um sig heldur en Florence var. Kannski fer hann sunnan við þetta svæði - vestur um Antilleyjar hinar minni og inn á Karíbahaf. Þar eru líka erfiðleikar, en ljóst er þó að mjög verður fylgst með þróun hans. Þetta er ekki ósvipuð leið og hinn illvígi Harvey fór í fyrra - strögglandi mestallan tímann nafnlaus milli lífs og dauða allt inn á Mexíkóflóa þar sem hann loksins náði sér á strik svo um munaði. 

Svo er það fellibylurinn Helene sem á myndinni er suður af Grænhöfðaheyjum - nokkuð stórt kerfi. Spár um hreyfingar þess eru nokkuð út og suður, en þó aðallega þannig að braut þess liggi austar en hinna tveggja og lendi um síðir vestan Asóreyja og rekist þar á heimskautaröstina - en hún er mjög fjandsamleg fellibyljum - en getur notað þá sem orkuríkt viðbit á brauðið. Helene þarf þó líka að fara í gegn um háloftavindabeltið fjandsamlega.

Síðan fylgist fellibyljamiðstöðin með hroðasvæði undan ströndum Mið-Ameríku. Ekki er á þessari stundu reiknað með því að það breytist í fellibyl - en allur er samt varinn góður - að sögn miðstöðvarinnar. 

Þó fellibyljir sem slíkir komist aldrei til Íslands gera leifar þeirra það stundum - og alloft fáum við rakasendingar tengdar hitabeltiskerfum eða hroða alla leið til okkar - stundum verulega rigningu. Sömuleiðis á hið mikla rakauppstreymi hvarfbaugskerfanna það til að breyta bylgjumynstri heimskautarastarinnar. Það er þess vegna alltaf rétt að gefa þessum kerfum auga - jafnvel héðan af norðurslóðum. 


Bloggfærslur 10. september 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 127
  • Sl. sólarhring: 151
  • Sl. viku: 1751
  • Frá upphafi: 2349711

Annað

  • Innlit í dag: 118
  • Innlit sl. viku: 1589
  • Gestir í dag: 113
  • IP-tölur í dag: 109

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband