Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar

Austlægar og norðlægar áttir hafa nú um hríð verið meira áberandi heldur en lengst af í sumar - og veðurlag því nokkuð annað. Við skulum fyrst líta á stöðuna í háloftunum fyrstu tíu daga ágústmánaðar á korti evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg110818a

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins. Daufar strikalínur sýna meðalþykkt. Við sjáum að mikil háloftalægð hefur verið í námunda við landið - köld miðað við umhverfið eins og venja er með slíkar lægðir. Litirnir sýna þykktarvik, bláir neikvæð vik, en gulir og brúnir jákvæð. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hærri er hitinn. 

Það er dálítið hlálegt að sjá eina kuldann á kortinu á litlum bletti í námunda við Ísland, en annars alls staðar jákvæð og mjög mikil austur í Evrópu og norður í höfum. Að vísu er miðað við meðaltal alls mánaðarins - fyrsti þriðjungur hans er venjulega nokkru hlýrri en síðari hlutinn og jákvæðra vika því heldur að vænta á korti sem þessu. 

Meðalhiti fyrstu tíu daga ágústmánaðar er 10,9 stig í Reykjavík, +0,1 stigi ofan meðallags áranna 1961-1990, en -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn lendir í 16.hlýjasta sæti (af 18) á öldinni, en í 82. á 144-ára listanum. Hlýjastir voru dagarnir tíu árið 2003, meðalhiti þá var 13,5 stig, en kaldastir 1912, meðalhiti aðeins 6,5 stig. Á þessari öld voru dagarnir tíu kaldastir árið 2013.

Á Akureyri er meðalhiti mánaðarins það sem af er 9,9 stig, -0,9 neðan meðallags 1961-1990, en -1,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags sömu daga síðustu tíu ára á rúmlega 20 stöðvum austan- og suðaustanlands lands. Mest er jákvæða vikið í Hvalnesi og við Lómagnúp, +0,9 stig og +0,7 stig í Papey. Neikvæða vikið er mest við Siglufjarðarveg, -2,0 stig, og -1,6 stig á Nautabúi og Gjögurflugvelli.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 8,2 mm og er það innan við helmingur meðalúrkomu sömu daga. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 12,8 mm - það er í ríflegu meðallagi.

Sólskinsstundir hafa mælst 73,4 í Reykjavík og er það í ríflegu meðallagi og í 24.sæti á 107-ára lista sömu daga.

Sem stendur er talsvert af hlýju lofti fyrir suðvestan land - en varla líklegt að við njótum þess svo mjög. Að sögn reiknimiðstöðva er hvergi mjög hlýtt loft að sjá í námunda við landið í framhaldinu - og ekki mjög kalt heldur. 


Bloggfærslur 11. ágúst 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 7
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 405
  • Frá upphafi: 2343318

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 366
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband