Hæsti hiti ársins á athugunartíma

Sú ábending kom fram í spurningatíma á fjasbókarsíðu hungurdiska að hæsti hiti ársins í Reykjavík til þessa á hefðbundnum athugunartíma væri ekki nema 12,7 stig (þó hámarkið sé 14,3 stig) - og að sú ágæta mæling væri frá því í apríl. Þetta er auðvitað óvenjulegt - og reyndar það lægsta sem sést hefur fyrri hluta sumars (árs) frá því að farið var að athuga 8 sinnum á sólarhring í Reykjavík 1941. En þrjú dæmi eru um að 13,1 stig séu hámark á athugunartíma fyrri hluta árs (1961, 1977 og 1978).

Þetta er að sjálfsögðu nokkuð spennandi staða þannig að við skulum athuga við hvaða tölur er verið að keppa afgang ársins. Hver er lægsti hæsti hiti á athugunartíma árs í Reykjavík frá 1941? 

Auðvelt er að svara því - 15,4 stig og árið var 1973. Hámarkshiti það ár mældist 15,6 stig.

Fram kom í pistli hungurdiska fyrir nokkrum dögum að hámarkshiti í Reykjavík fyrstu sex mánuði ársins hefði sex sinnum verið lægri heldur en nú frá því að samfelldar hámarksmælingar byrjuðu í borginni 1920. Það hefur einu sinni gerst að hámarkshiti júlímánaðar í borginni hefur verið lægri heldur en 14,3 stigin sem enn eru hámark ársins 2018. Það var 1983, þegar hámarkshiti í júlí var 13,8 stig. 

Á þessu tímabili hefur hámarkshiti ársins í Reykjavík aðeins einu sinni verið lægri en 15 stig. Það var 1921 þegar hiti í Reykjavík fór aldrei upp fyrir 14,7 stig. Okkur vantar nú 0,4 stig til að jafna þá tölu. Hvenær skyldi sé dagur birtast úr djúpinu?

Í framhaldinu kom upp spurning um hæsta sólarhringslágmarkshita ársins til þessa í Reykjavík. Hann er ekki nema 8,8 stig. Staðan var svipuð 1978 - en þá mældist lágmarkshiti aðfaranótt 5.júlí 9,1 stig. Nú keppum við við 1931. Þá fór lágmarkshitinn fyrst upp fyrir 8,8 stig þann 8.júlí og 1922 ekki fyrr en þann 16. 

Hæsti lágmarkshiti ársins hefur alltaf verið ofan við 10 stig síðan samfelldar mælingar á honum byrjuðu í Reykjavík 1920, en lægstur 10,1 stig 1967. Hann var 10,2 stig 1922, 1979 og 1983. Dæmi eru um lægri tölur frá því á 19.öld. 

Fremur sjaldgæft er að hæsta lágmark ársins í Reykjavík komi snemma sumars. Það hefur gerst 13 sinnum síðustu 98 árin að hæsta lágmarki hefur verið náð fyrir 6.júlí - en 85 sinnum síðar á sumrinu. Einu sinni kom hæsta lágmarkið í maí, það var 1988, aðeins þrisvar hefur það lent í júní, en 46 sinnum í júlí, 41 sinni í ágúst, 6 sinnum í september og einu sinni í október (1959). Nokkrum sinnum hefur það orðið jafnhátt fleiri en einn dag - hér er fyrsta skiptið talið en hin ekki. 


Af árinu 1922

Árið 1922 er einkennilegt fyrir það að sjaldan eða aldrei hefur jafnlitlu munað á vetrar- og sumarhita hérlendis. Ekki munaði nema 9,4 stigum á meðalhita kaldasta vetrarmánaðar og hlýjasta sumarmánaðar í Reykjavík og 8,8 stigum í Stykkishólmi. Þetta er minnsta ársspönn hita sem vitað er um á báðum stöðum. Á Akureyri var munurinn 9.8 stig og er þetta í eina skiptið sem ársspönnin þar hefur verið minni en 10 stig. Hámarkshiti ársins í Reykjavík mældist ekki nema 16,1 stig og lægsta lágmarkið -9,7 stig. Munur á hæsta hámarki og lægsta lágmarki ársins hefur aðeins einu sinni verið minna en þetta í Reykjavík. Það var 1926. 

Samtímaumsagnir eru yfirleitt ekki neikvæðar fyrir árið í heild, mildur vetur, kalt sumar, heyskapur syðra rýr, en verkun góð. Nyrðra var misjafnara. Skelfileg sjóslys urðu á árinu og eru alls ekki öll talin hér að neðan. 

Fimm mánuðir ársins teljast hlýir, en sex kaldir. Það var sumarhelmingur ársins sem var kaldur, allt frá apríl til og með september, en janúar, febrúar, mars, október og desember hlýir.  

arid_1922t

Myndin sýnir hámarks- og lágmarkshita hvers dags í Reykjavík, flatneskjulegir ferlar. Aðeins þrjár nætur var lágmarkshiti hærri en 10 stig. Þær hafa aðeins tvisvar verið færri síðan samfelldar lágmarksmælingar hófust árið 1920 (1967 og 1979). Hiti komst aðeins 6 daga í 15 stig eða meira í Reykjavík, fyrst 9.júlí. Þeir voru þó enn færri árin 1972, 1973 og 1983. 

Mesta frost ársins mældist í Möðrudal 14.febrúar, -21,0 stig, en hæsti hitinn mældist á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 14.júní og 28.júlí, 21,5 stig. Tvö landsdægurlágmörk sett á árinu lifa enn, bæði frá Grímsstöðum á Fjöllum, annað 16.september og hitt 1.nóvember. Fjögur dægurlágmörk Reykjavíkur eru merkt árinu 1922, 29. og 30.júní, og 19. og 21.september. Dagarnir köldu síðast í júní voru þó sólríkir og fleiri fylgdu í kjölfarið - þó ekki kæmu þeir í hreinni röð. Alls fann ritstjóri hungurdiska 15 sérlega sólríka daga í Reykjavík sumarið 1922. 

Veturinn var órólegur með stöðugum lægðagangi allt fram í miðjan mars. Loftþrýstingur fór mjög neðarlega þann 19.febrúar, mældist 935,4 hPa í Grindavík síðdegis þann dag. Hæsti þrýstingur ársins mældist hins vegar á Teigarhorni 20.október 1038,1 hPa. Meðalmánaðarþrýstingur var með hærra móti í júlí og október. 

Alls eru fimm stormdagar á landsvísu á lista ritstjóra hungurdiska á árinu 1922 (ríkjandi vindátt í sviga). Þetta eru 2.janúar (N), 19.febrúar (A), 3. (A) og 24. mars (NA) og 24.nóvember (V).

Almanak Þjóðvinafélagsins 1923 lýsir árferði ársins 1922 svo: 

Veturinn yfirleitt góður; frostmildur og oftast snjóléttur; en heldur voru tíð veðraumskipti og stórviðri og rigningar. Vorið var oftast góðviðrasamt, en víða mjög kalt, einkum norðanlands, og grasspretta því nokkuð rýr og sumstaðar mjög slæm. Sumarið var oftast fremur hlýtt og gott og hey nýttust því mjög víða vel, en óþurrkar gengu þó um hríð sumstaðar, svo sem í Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslu, svo að hey tóku þar að skemmast; og heyskaðar urðu allmiklir í Fljótshlíð vegna ofviðra. Haustið var mjög gott, en nokkuð stormasamt. Síðan út árið öndvegistíð. 

Í blöðunum höfðu heldur stuttaralegar símafréttir tekið við af löngum tíðarlýsingum fréttabréfa úr héruðum landsins. Ber yfirlitið hér að neðan dám af þessu. 

Janúar: Nokkuð góð tíð, en umhleypingasöm. Fremur hlýtt.

Austurland segir frá þann 7.:

Síðastliðinn mánudag [2.] var hér eitt hið versta og hvassasta veður sem kemur. Skipt er nú um: sumarhiti og sunnanvindur.

Syðra snjóaði. Morgunblaðið segir frá:

[7.] Snjó óvanalega mikinn hafði sett niður hér suðurundan í hríðunum síðustu. Urðu til dæmis jarðbönn í Höfnum og kvað það vera mjög sjaldgæft. Bifreiðaferðir héldust þó suður þangað frá Hafnarfirði, en moka varð öðru hvoru frá bifreiðunum.

[10.] Það er sjaldgæft, að svo mikill snjór falli hér í Beykjavík, að plóginn þurfi að nota. En nú er komin þvílík fannkynngi hér á göturnar, að snjóplógi var ekið í gær um nokkrar götur.

Snjódýpt mældist mest 23 cm í Reykjavík þann 9. og 10. Alautt var síðustu 9 daga mánaðarins. 

Tíminn segir frá þann 21.janúar:

Ofan úr Borgarfirði, 12.janúar. Veðráttan erfið, suðvestan rosaveður dag hvern, með snjókomu og haglaust síðan fyrir nýár. 

Þann 28. lýsir Austurland einmunatíð:

Einmunatíð er nú um alt Austurland. Má heita örísa upp á fjallbrúnir, bæði í héraði og fjörðum, og öll vötn auð. Mestur hiti ca. 10 stig.

Tíminn er sammála sama dag:

Eimunarblíða hefir verið undanfarna daga um land allt.

Tíminn birtir 11.mars bréf úr V-Skaftafellssýslu. Þar er sagt frá strandi og yfirvofandi Skeiðarárhlaupi:

Úr Vestur-Skaftafellssýslu 31.janúar 1922. Miklar hagleysur voru hér frá því fyrri hluta desembermánaðar og fram til 18.janúar síðastliðinn. Þá kom hláku-blíðviðri, sem helst enn. Jörð er nú auð og komnir góðir hagar handa sauðfé. Þann 28. þ.m. strandaði þýskur botnvörpungur frá Lübeck á Rauðabergsfjöru á Skeiðarársandi. Togarinn heitir „Priwal". Á honum voru 13 menn, sem allir björguðust. Togarinn er sagður mjög vandað skip, aðeins 9 mánaða gamall. Hingað kom hann til lands 21. þ.m. og stundaði fiskiveiðar, en gengið tregt, svo lítið er af fiski í honum, en nokkuð mikið af kolum. Sá staður, sem hann strandaði á, er langt frá mannabyggðum og erfitt að komast þangað, nema þegar árnar, sem á milli eru, halda, og Skeiðarársandur frosinn. Strandið er beint í vegi fyrir Skeiðará, sem búist er við að hlaupi á hverri stundu og eyðileggi það með öllu.

Febrúar: Miklir umhleypingar, sæmileg tíð norðaustanlands. Fremur hlýtt.

Fram á Siglufirði lýsir tíð í febrúar í nokkrum pistlum - góðri langt fram eftir mánuði - en samt eru menn allaf að búast við að hann hljóti að fara að breytast til hins verra:

[4.] Sama einmuna góða tíðin. Maður hélt um síðustu helgi að eitthvað ætlaði að breyta til um veður, því að norðan-kalsa gerði hér á sunnudaginn [29.janúar], en úr því varð ekkert, og er logn og blíða hér vort daglega brauð, og sama er að segja hér um allar nærsveitir, í Fljótum er alrauð jörð, og víða gengur allt fé úti sjálfala ennþá.

[11.] Enn er sama tíðarfarið, svo mikil hlýindi að elstu menn muna eigi slíkt. Sunnan-þíðvindi, eins og best lætur á vordegi, hér marga dagana, og örísa að kalla má. Í dag er þó samt vestan-ofsarok og snjókoma nokkur, og ef til vill er  nú tíð að breytast.

[18.] Alltaf sama öndvegistíðin, stillur og hreinviðri með vægu frosti. Í dag er þorraþrællinn; flytur hann kveðju húsbóndans og lætur þess getið, að í þetta skipti þykist Þorri gamli ekki hafa verið tiltakanlega meinvirkur og muni flestir fúslega við það kannast. 

[25.] Þetta var fyrsta góuvikan og virðist Góa kerling, enn sem komið er, ætla að verða snakillari en Þorri gamli. Hafa skipst á alla vikuna bleytuhríðar, rigning og kafaldsfjúk með litlu eða engu frosti, en stormasamt mjög og ofsaveður suma dagana af vestri eða norðvestri.  

Orðið „snakillur“ mun þýða hvefsinn og „snaki“ er kaldur vindur eða gustur (segir orðabókin). 

Benedikt í Staðarseli við Þórshöfn getur þess í veðurskýrslu sinni fyrir febrúarmánuð að um miðnætti aðfaranótt þess 6. hafi gert skammvinnt „voðaofviðri“ þar um slóðir: „af SV en stóð ekki nema til 12:45, var logn á milli, en gerði á þessum tíma fjórar svo skarpa hvirfilbylji að sópaðist frosið torf af heyjum og húsum. Stór skúr fauk frá sölubúð á Þórshöfn og brotnaði í spón, rúður brotnuðu, grindur frá görðum reif upp. Vindmagn má ætla 10-11“. 

Laugardaginn 11.febrúar urðu miklir mannskaðar á sjó. Morgunblaðið segir frá þann 14. (nokkuð stytt hér). Blaðið hafði þann 12. sagt frá því að daginn áður hafi verið með allrahvassasta móti í bænum og óttaðist blaðið að illa kunni að hafa farið.

Fjórtán eða fimmtán menn farast í laugardagsveðrinu. Ofviðrið á laugardaginn var hefir því miður haft sorglegar afleiðingar í för með sér. 11. febrúar er langmesti mannskaðadagurinn á þessu ári, eða þeim stutta tíma, sem af því er liðinn og verður vonandi eigi annar dagur sorglegri á árinu. Tveir mótorbátar hafa að öllum líkindum farist, er fullvíst um annan, og því miður örlitlar vonir um hinn. Auk þess hefir menn tekið út af tveimur eða þremur bátum öðrum.

Á laugardagsmorguninn snemma var besta veður í Sandgerði en útlit eigi sem best. Ganga þaðan um 25 mótorbátar, eigi að eins frá Sandgerði heldur einnig frá öðrum veiðistöðvum og munu þeir flestir eða allir hafa farið í róður kl. 4-6 um morguninn. Fara bátarnir um það bil tveggja tíma leið á miðin. Undir klukkan átta versnaði veðrið nokkuð og hvessti á landsunnan og sneru sumir bátarnir þá þegar við. Hjá einum bátnum bilaði vélin um morguninn og sneri hann því til lands. Aðeins þessi bátur og tveir aðrir náðu lendingu í Sandgerði, sá seinasti um kl.10 um morguninn, en þá, var komið ofsarok á útsunnan svo að fleiri bátar náðu ekki lendingu í Sandgerði. Urðu þeir að leita lendingar í Njarðvík, Keflavík og 5 komust alla leið hingað til Reykjavíkur. Allir bátarnir nema tveir náðu lendingu og þessir bátar voru „Njáll“ frá Sandgerði og „Hera" frá Akranesi. Að því er vér höfum heyrt, höfðu skipverjar á mótorbátnum „Björg" séð „Njál" farast nálægt miðjum degi á laugardaginn. Kom feikimikill sjór á bátinn og sökkti honum. Á bát þessum voru fimm menn og hafa þeir allir farist. Formaðurinn var Kristjón Pálsson, ættaður úr Ólafsvík, en nú heimilisfastur hér. ... Þá missti m.k. „Ása" úr Hafnarfirði tvo menn og „Gunnar Hámundarson“ einn. Um aðra mannskaða höfum vér ekki sannfrétt.

Afburðagóða tíð og snjóleysi segja norðanmenn að hafi verið á öllu Norðurlandi í vetur. Er langt síðan þar hefir komið jafn mildur vetur. Eru því bændur allir óvenju birgir með hey og munu miklar fyrningar hjá flestum, ef ekki vorar því ver.

Tíminn staðfesti þann 18. að Hera hafi einnig farist. 

Tíminn birtir þann 25.mars bréf af Langanesi dagsett 12.febrúar:

Tíðin hér hefir verið afbragðs góð í vetur. Er nú svo autt, að flytja verður á reiðingum, ekki hægt að aka á sleðum, og hefir það ekki komið fyrir hér um þetta leyti árs síðan 1901.

Sérlega djúp lægð kom að landinu þann 19.febrúar. Eins og getið var um í inngangsyfirliti fór loftvog lægst niður í 935,4 hPa í Grindavík. Morgunblaðið segir frá þann 21.:

Loftvog féll í fyrradag neðar en dæmi eru til í mörg ár. Hér í Reykjavík sýndi hún 704 mm, en í Grindavík 702. Veðrið varð þó ekki ákaft hér í bænum, en fyrir sunnan land og jafnvel í öðrum landshlutum mun feiknastormur hafa verið á sunnudagskveldið [19.].

Vísir segir líka stuttlega frá veðrinu:

Ofsaveður eitt hið mesta, sem hér hefir lengi komið, fór víða yfir land i gær. Ekki hefir frést að það hafi valdið skemmdum, en sennilegt er þó, að svo hafi verið.

Mars: Góð tíð og þurrviðrasöm um mikinn hluta landsins. Fremur hlýtt.

Mikið illviðri gerði af austri í upphafi mánaðarins. Morgunblaðið segir frá þann 4.:

Ofsarok á austan var í fyrrinótt og urðu nokkrar skemmdir hér á höfninni en engar þó stórvægilegar. Má helst nefna að vélbáturinn Úlfur brotnaði allmikið. Símslit allmikil urðu í fyrrinótt hér í nágrenninu af völdum óveðursins, og var algerlega sambandslaust austur í sýslur og til Seyðisfjarðar í gær, en til Akureyrar náðist samband um miðjan dag. Skemmdirnar eru einkum fyrir ofan Grafarholt, þar eru 7 staurar brotnir á línunni austur, þrír skammt frá bænum og fjórir nokkru austar, og á norðurlínunni 4 staurar. Síminn er í lagi suður að Útskálahamri, en eigi var kunnugt í gær, hvort meiri skemmdir væru á línunni þaðan og að Grafarholti, en þær sem nefndar hafa verið. Var farið að gera við skemmdirnar strax í morgun og er búist við, að síminn þaðan verði kominn i lag aftur um miðjan dag í dag.

Tíminn birti 8.apríl bréf úr Rangárþingi, en í því er greint frá tjóni í veðrinu:

Rangárþingi 22.mars. Veðrátta hin besta upp á síðkastið, blíðviðri og frostleysur, úrkomulítið. En 3. þ m. var þó ofsaveður á austan, er gerði allmikið tjón. Í Vallatúni og Efrahóli undir Eyjafjöllum braut heyhlöður í spón, og á Garðsauka í Hvolhreppi stóra heyhlöðu með skúrum til beggja hliða; víða rauf þök á húsum. Róðrarskip Sæmundar oddvita Ólafssonar á Lágafelli í Landeyjum fauk og brotnaði í spón.

Skiptapi varð á Faxaflóa þann 9.mars, sex menn fórust. Morgunblaðið segir frá þessu þann 14. Ekki er annað að sjá að skipið „Ása“ hafi verið eitt þeirra sem nauðuglega slapp úr veðrinu þann 11.febrúar. 

Vatnsskortur varð nokkur í Reykjavík um miðjan mánuð. Morgunblaðið segir frá þann 17.mars:

Vatnsleysi hefir verið mjög mikið í bænum undanfarna daga, þar sem hæst er, og hefir sumstaðar ekki komið vatnsdropi í pípurnar allan daginn. Hefir því verið ákveðið, að láta þann hluta bæjarins, sem verst er settur í þessu tilliti, Skólavörðuholtið, njóta eitt vatnsins kl. 9-11 að morgninum, og er lokað fyrir vatnið allstaðar annarsstaðar þann tímann. Vitanlega þykir þetta bagalegt, því í flestum húsum þarf að nota vatn einmitt á þessum tíma, en eitthvað verða þeir þó að hafa, sem búa „í hæðunum".

Dagur á Akureyri segir frá snjóleysi þann 23. - og síðan af hríðarbyl:

[23.] Svo hefir mátt heita að sumartíð hafi verið, það sem af er þessu ári. Sífelldar hlákur og blíðviðri og verður naumast sagt, að snúist hafi til norðanáttar. Jörð er snjólaus í sveitum niðri og mun vera óvanalegt að sjá Vaðlaheiði að hálfu leyti snjólausa upp í brúnir í góulok. Enda standa elstu menn steinhissa yfir veðurblíðunni.

[30.] Stórhríðarbyl gerði hér á föstudagsnóttina [24.] með aftakaveðri og hlóð niður miklum snjó á föstudag og laugardag. Sterling náði til Siglufjarðar á fimmtudagskvöldið í slæmu veðri og lá þar til sunnudags. Á laugardagsnóttina strandaði á Súgandafirði mótorskipið „Talisman“ frá Akureyri og fórust tólf menn.

Skemmdir urðu á bátum og bryggjum í Reykjavík í sama veðri - sömuleiðis símabilanir. Morgunblaðið segir frá þann 25.:

Afspyrnu norðanrok gerði hér í fyrrinótt, og hélst það allan daginn í gær og fram á kvöld. Slys urðu engin hér í höfninni, en ýmis spell á bátum og bryggjum. Lítill, mannlaus bátur sökk við eina bryggju. Við aðra lá vélbátur, Sverrir frá Ísafirði, og var að því komið að hann mölvaði bryggjuna og brotnaði sjálfur. Var þá fenginn dráttarbátur frá „Kol og Salt" til þess að draga hann frá bryggjunni. Einnig dró franski kolabarkurinn akkeri allmikið í gærdag, meðan sem hvassast var, en þó urðu engin slys að. En heppni má það heita, að öll þau skip, sem hér eru skyldu halda kyrru fyrir í gær, svo afskaplegt var veðrið. Má t.d. nefna það, að sjórokið dreif yfir alla uppfyllinguna langan tíma.

Símabilanir urðu allmiklar í fyrrinótt og gær. Sambandslaust var við alla Vestfirði, og einnig hafði norðurlínan bilað, svo ekki var hægt að ná á stöðvar austan við Akureyri, og samband var mjög illt við Sauðárkrók.

Daginn eftir bætir Morgunblaðið því við að bæjarsíminn hafi víða bilað í veðrinu. En á þessum árum var sími allur á lofti - ekkert í jörð. 

Morgunblaðið segir þann 28. frá örlögum manna á þilskipinu Talisman:

Þær fréttir hafa borist hingað frá Vestfjörðum, að þilskipið „Talisman" frá Akureyri, sem var á leið hingað suður hafi strandað á laugardagsnóttina [25.] utarlega við Súgandafjörð að vestanverðu, í svonefndri Kleifavík. Var þá afspyrnu norðanveður. Sjö af skipshöfninni komust í land á öðru siglutrénu undir morgun. Skiptu þeir sér þegar og fóru að leita bæja. Fjórir þeirra fundust af mönnum frá Flateyri, er voru á leið til Súgandafjarðar. Voru þeir allir lifandi, en tveir mjög illa haldnir. Súgfirðingar leituðu einnig að hinum þremur, og fundust þeir nálægt Stað, tveir látnir, en hinn þriðji með lífsmarki, og lést hann stuttu síðar. - Skipið hefir allt liðast í sundur, og hafa 8 lík fundist af þeim 9 sem drukknuðu. Áður hafði skipið fengið mikið áfall á Húnaflóa, hafði káetukappinn losnað og skipið fyllst af sjó.

Dagur segir þann 12.apríl frá fjársköðum í þessu áhlaupi:

Fjárskaðar urðu nokkrir í Bárðardal í stórhríðarbylnum síðast. Munu hafa farist um 20 kindur í Víðikeri og nokkrar kindur í Stórutungu.

Tíminn greinir líka frá tjóni í veðrinu:

Í norðanveðrinu fuku tvær hlöður á Holti undir Eyjafjöllum. Í norðanveðrinu um síðustu helgi vildi það slys til, að „Svalan", skip Sambandsins, Kaupfélags Borgfirðinga og Völundar, sem lá hér á ytri höfninni, losnaði og rak hana á land. Skemmdist hún allmikið, en björgunarskipinu Geir tókst þó að ná henni á flot aftur og eru horfur á að við hana verði gert.

Apríl: Hægviðrasöm og hagstæð tíð víðast hvar. Lengst af þurrviðrasamt. Fremur kalt.

Austurland segir þann 1.apríl:

Komin er nú sama veðurblíðan og áður, logn og sólskin dag hvern og lítur svo út sem vetur þessi megi síðar kallast „búbætir“.

Fram segir þann 8. frá lítilsháttar íshröngli við Horn:

Fregn kom um það um síðustu helgi að „Helgi magri“ hefði siglt gegnum ís við Horn á leið sinni vestur. Þetta er rétt, skipið sá eitthvert íshröngl en mjög óverulegt, og hefir ekkert frést um ís síðan. 

Snjódýpt var 36 cm á Stórhöfða 5.apríl og 30 cm þann 9. eftir að hafa nær horfið á milli. 

Einhverjar kafaldshryðjur gerði norðanlands í mánuðinum. Fram segir frá:

[8.] Sunnudag [2.] kafaldsél og frostvægt fyrri partinn, seinni part bleytuhríð. Mánudaginn vægt frost um morguninn, annars gott veður. Þriðjudag hægviðri og kafaldsfjúk. Miðvikudag hríðarveður og talsvert frost. Fimmtudag hríðarél og allhvasst með byljum, lítið frost. Föstudaginn gott veður framan af, um kvöldið talsverð hríð og nokkurt frost. Laugardag hríðarveður en hægur og lítið frost.

[19.] Framan af páskavikunni voru kafaldshryðjur öðru hvoru og nokkur frost, einkum á nóttum, en síðan á páskum [16.] hefir hver dagurinn verið öðrum blíðari og betri t.d. 13 stiga hiti í gær.

[29.] Um helgina og næstu daga gerði hret, en þó næsta meinlítið, svo að á sunnudag [23.] voru kafaldshryðjur, en annars gott veður og frostlaust, á mánudag kafaldshryðjur en hægviðri og frostlaust, þriðjudag hvassveðri og bleytuhríð, miðvikudag hægviðri og frost um kvöldið, fimmtudag hægviðri og kafaldsýringur með vægu frosti, í gær og í dag indælisveður en nokkurt frost að nóttu.

Sjóslysin héldu áfram. Þann 17.apríl fórst bátur með 7 mönnum í brimi í Stokkseyrarsundi (Morgunblaðið 19.)

Þann 20. segir Morgunblaðið enn frá skipskaða:

Fjöldi róðrarbáta reri til fiskjar í fyrradag úr Hafnarfirði. En eins og menn muna gerði ofsarok er á daginn leið. Urðu margir bátarnir að hleypa suður í Hafnir og til annarra verstöðva fyrir sunnan Hafnarfjörð, en svo hörmulega tókst til með einn bátinn, að hann fórst. Voru á honum þrír menn.

Blaðið segir sama dag: „Veturinn kvaddi í gær með koldimmu hríðaréli um hádegisbilið, svo alhvítt varð. En stuttu síðar sást þó til sólar og varð þá jafnskjótt snjólaust. Þessi vetur hefir verið með allra mildustu vetrum, sem menn muna“.

Þann 21. ritar Sigurður Þórólfsson eftirmæli vetrarins í Morgunblaðið - við styttum pistilinn lítilsháttar. Ekki kemur fram hvar Sigurður er staddur:

Misjafnir eru venjulega dómar manna um veðurfar árstíða, þegar þær eru liðnar, þótt í sama byggðarlagi sé. Veðurfari gleyma menn oft fljótt. Þegar til dæmis einhver vetur er liðinn, muna fæstir hvernig hann hefir í rauninni verið. Og svo er skoðanamunur á veðráttufarinu. Einn t.d. kallar það mildan vetur sem annar kallar bara dágóðan. Við þessu má búast, þegar menn hafa engar veðurfarstölur til þess að styðjast við, heldur aðeins misjafnt minni. Það leggja heldur ekki allir sama mælikvarða fyrir veðráttufarinu, sömu árstíðina. Í morgun leit ég yfir veðurfarið í veðurfarsdagbók minni, yfir veturinn, sem nú er að renna út. Máske einhver hafi gaman af að kynnast athugunum mínum, þótt ekkert sé vísindasnið á þeim. En gott þætti mér að styðjast við líkar tölur um veðráttufar, þegar ég er að bisa við gamlar, ónákvæmar veðurfarsfrásagnir um fyrri alda veðurfar.

Á síðastliðnum vetri hafa verið 69 frostdagar, meira og minna allan daginn. Þar af 62 dagar með frosti frá 0°-5° C, en 7 dagar með meira frosti. Stöku dagana hefir ekki frosið allan daginn. Hiti yfir frostmark hefir verið í 111 daga. Þar af 53 dagar með hita frá 0°-4°, en 58 dagar með 4°-8°. Úrkoman hefir verið mikil. Í 127 daga hefir meira eða minna dropið úr loftinu, rignt eða snjóað; regn í 71 dag, en snjór eða hagl í 56 daga. Þar af éljagangur af SV eða V 20 daga og hríðarbylur 9 sinnum. Stormviðri mikil hafa komið 62 sinnum (veðurhæð 8-9), en rokveður 6 (með veðurhæð um 10). Logndagar 13 og 22 daga gola og kaldi (veðurhæð 1-3). ... Sólfar. Til sólar hefir sést meira og minna í 106 daga. ... Veðurfarsmerkin hin helstu: Rosabaugar sáust 9 sinnum, regnbogi 5, lofthyllingar 14, kvöldroði 5, morgunroði 3, norðurljós 16, þrumur 3, mistur 6, Cirrusský 5, Cirrus Stratus (blika) 18. Svona hefir veturinn litið út, og einkennir hann mest austanátt og margir heitir dagar óvetrarlegir. Veturinn var frostmildur, þó oft frysi, snjóléttur þó oft snjóaði, en mjög regnsamur og stórviðrasamur, og tíð umskipti veðra, t. d. í 15 daga mörg veður sama daginn. Er lítið tillit tekið til þeirra daga í tölum þeim, sem hér að ofan eru tilfærðar um veðurfarið. [Gert á] vetrardaginn síðasta.

Morgunblaðið segir þann 21. frá veðri í Reykjavík á sumardaginn fyrsta [20.]:

Leiðindaveður var á sumardaginn fyrsta og því fremur fátt fólk úti. Spillti þetta mjög fyrir sölu barnamerkjanna, sem á boðstólum voru þennan dag, og áhorfendur að víðavangshlaupinu voru ekki nærri eins margir og venja er til.

Maí: Góðviðra- og þurrviðrasöm tíð víðast hvar fyrir utan slæmt hret um miðjan mánuð. Fremur kalt.

Vísir segir þann 2. að tún séu nú sem óðast að grænka í bænum og nágrenni hans. 

Dagur segir frá þann 4.:

Á mánudagsmorguninn var [1.] strandaði Sterling á Brimnesi í Seyðisfirði. Kafþoka var á. Mönnum og pósti var þegar bjargað. Sagt er að sjór sé kominn í skipið og líkur fyrir að það sé ónýtt. Fullyrt er að skipið sé vátryggt fyrir rúma eina miljón kr.

Laugardaginn 13.maí gerði mikið illviðri með feykilegu manntjóni á sjó. Tíminn gefur yfirlit þann 27.maí:

Mjög hætt er við að enn hafi orðið miklir mannskaðar. Telja menn nálega víst að þessi skip hafi farist: Maríanna frá Akureyri, með 12 eða 14 skipverjum, Aldan frá Akureyri, með 15 skipverjum, Samson frá Siglufirði, með 7 skipverjum og Hvessingur frá Hnífsdal með 9 skipverja. Munu mörg ár liðin síðan svo margir hafa farið í sjóinn, eins og í vor, ef þessar fregnir reynast sannar.

Dagur segir þann 18.:

Ofsaveður með fannkomu gerði fyrir öllu Norðurlandi á föstudagskvöldið [12.]. Villemoes tepptist hér á Akureyri en Sírius á Álftafirði. Fiskiskip, sem úti voru fyrir Norðurlandi komu inn vestanlands og norðan og sum löskuð. 

Fram segir frá skipunum þann 27.:

Þess var getið í síðasta blaði að vélbátinn „Samson“ eign, Þorsteins Péturssonar hér, vantaði. Til hans hefir ekkert spurst síðan og munu nú flestir talja hann af. Vélbáturinn „Skarphéðinn“ var sendur héðan að leita Samsons fyrra laugardag; lá hann á Kálfshamarsvík vegna óveðurs þar til á miðvikudagskvöld, mun nú vera að leita á Ströndunum - gjörði hann ráð fyrir að láta ekkert heyra frá sér, fyrr en hann kæmi hingað heim. Á Samson voru 7 menn, allir héðan úr Siglufirði og Siglunesi. Einnig vantar tvö skip önnur af norðlenska flotanum, kútter „Mariann“ eign Höepfnersverslunar á Akureyri. Á henni voru 12 menn, allir úr Fljótum. Skipstjóri var Jóhann Jónsson frá Syðsta-Mói, — og vélskipið „Aldan“ eign Guðmundar Péturssonar kaupmanns Akureyri. Á henni voru 16 menn, þar af 1 héðan úr Siglufirði, Bergur Sigursson skipstjóri og 4 af Höfðaströnd. Skipstjóri hennar var Vésteinn Kristjánsson frá Akureyri. Tveir togarar fóru frá Reykjavík í fyrrakvöld að leita skipa þessara, — átti annar að fara 80 og hinn 100 mílufjórðunga á haf út, og í gærmorgun lagði herskipið „Fylla“ einnig á stað frá Reykjavík að leita. Menn eru mjög hræddir um skip þessi, en þó eigi alveg vonlausir enn, því bæði eru sögð ágæt sjóskip, en bylurinn 13. og 14. þ.m. er af öllum sem vit hafa á slíku, talinn einhver hinn versti sem komið hafi nú síðustu áratugina.

Morgunblaðið segir frá þann 19.:

Á laugardaginn var [13.] hrepptu bátar, sem voru að veiðum við Horn, versta óveður. Einn þeirra, m.b. Tryggvi af Ísafirði, missti út mann, að nafni Ásgeir Busch, og annar bátur [Hvessingur], úr Hnífsdal, var ekki kominn fram þegar síðast fréttist og halda menn að hann hafi farist. Á þeim báti voru 9 menn.

Í 4.-5. tölublaði Ægis 1922 (s.68) segir:

Norskt eimskip, Agnes,strandaði 16. maí nálægt Kúðaósi. Mannbjörg varð. Skipið finnst hvergi og ekkert spyrst til þess.

Júní: Lengst af úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi, en fremur þurrt norðaustanlands. Kalt.

Heldur kalsamt var á Siglufirði - lítum á þrjá pistla Fram:

[10.] Norðvestan ruðningur og bleytuhríð á sunnudaginn [4.] og fram á mánudag. Varð alhvítt af snjó á sunnudagskvöldið og mánudagsnóttina. Síðan hefir verið hagstæð tíð, hægð og blíðuveður með sólskini og regni á víxl, og grær nú og grænkar óðum þótt mikill snjór sé í fjöllum ennþá.

[24.] Tíðin hefir verið fremur köld alla vikuna. Sunnudag [18.], mánudag og þriðjudag var norðan og norðvestan óveður og bleytuhríð, festi þó ekki snjó á láglendinu en gjörði nokkra fönn til fjalla. Seinnipart vikunnar hægviðri en fremur kalt.

[1.júlí] Hlýtt og gott veður á sunnudag [25.] og mánudag. Utan stormur og kuldi með hríð til fjalla og hríðaréljum i byggð á þriðjudag og miðvikudag. Hægur seinnipart vikunnar en alltaf kuldi og oftast nær frost á nóttum, síðast í nótt voru bryggjur og síldarpallar hvítt af hélu. Grassprettu hefir lítið eða ekkert farið fram þessa viku.

Þann 29.júní var grátt í rót á Grænavatni í Mývatnssveit. Benedikt í Staðarseli segir í lok júní: „Elstu menn muna ekki aðra eins kulda síðari hluta mánaðarins og úrfelli sem nú. Blóm í mánaðarlok hvergi nema á víði“.

Morgunblaðið segir frá slætti á Austurvelli þann 15.júní:

Austurvöllur var sleginn í gær. Er nú óðum verið að slá túnbletti hér í bænum og er það óvenjulega snemmt og nærri mánuði fyrr en sláttur byrjar tíðast til sveita. Í flestum sveitum hefur sprottið ágætlega síðasta hálfa mánuðinn og besta útlit fyrir gott grassumar.

Og veðrið á 17.júní [laugardagur] var gott í Reykjavík að þessu sinni - var þó ekki opinber þjóðhátíðardagur. Morgunblaðið segir þann 18.:

Oft hefir 17.júní verið bjartur og hlýr, en sjaldan eins og í gær [14,5 sólskinsstundir - en hámarkshiti dagsins var ekki nema 12,5 stig]. Enda sást það á mannfjölda þeim, sem safnaðist saman þar sem einhver hátíðabragur var, en þó einkum við Austurvöll og suður á íþróttavellinum.

Júlí: Hagstæð tíð en fremur köld. Hiti í meðallagi nyrðra.

Mánuðurinn byrjaði kuldalega nyrðra. Fram segir frá þann 8.:

Logn og sólskin á sunnudag [2.]. Norðan stormur með kulda og regni á mánudag og talsverður sjór. — Svipað veður á þriðjudag en nokkru hægari. Logn og sólskin á miðvikudag. Fimmtudag austan stormur og kuldi og á föstudaginn norðvestan slydduveður. - Alltaf voru kuldar og oft frost á nóttum og er útlitið hvað landið snertir hið versta, grasspretta afar rýr og gróður til fjalla nær enginn. 

Þann 30. er í Morgunblaðinu bréf úr Hofshreppi í Skagafirði dagsett þann 7.júlí og greinir það frá leiðindatíð þar um slóðir (og rifjar upp flekaveiðina svonefndu):

Útlit er hér ekki gott, því kuldar hafa verið miklir — oft hríðar og frost um nætur. T.d. átti að ganga á Unadalsafrétt síðastliðinn mánudag til að smala fé til rúnings. En gangnamenn sneru heimleiðis þegar fram á afréttina kom — treystust ekki til að smala svo að fullt gagn yrði að. Stormar og óstillingar hafa dregið mjög úr Drangeyjarvertíðinni. Má hún samt heita góð. Sumir eru þó að hætta þar, þykjast hafa misst helst til marga fleka upp á síðkastið.

Betra var syðra. Vísir segir alla vega frá einum góðum degi í Reykjavík í pistli þann 17. - Reyndar hlýtur að vera átt við laugardaginn 15.júlí því samkvæmt veðurbókum var nær alskýjað þann 16. og hámarkshiti 13,7 stig. Þann 15. fór hiti hins vegar í 16,1 stig í Reykjavík - skamma stund um hádegi - áður en hafgolan kom inn. Þetta var hæsti hiti sumarsins 1922 í Reykjavík - en Vísir segir:

Í gær var einhver heitasti dagur. sem komið hefir á sumrinu. Margir notuðu daginn til að létta sér upp og mátti sjá gangandi fólk úti um öll holt og hæðir í nágrenni við bæinn.

Morgunblaðið segir frá heyskap þann 26. og 27.:

[26.] Sláttur er byrjaður almennt í Eyjafirði nú, en spretta með lakasta móti bæði á túnum og engjum.

[27.] Fréttir að norðan segja sömu söguna þaðan, af grassprettunni eins og héðan af Suðurlandi. Tún og valllendi sæmilega sprottið, en mýrar með lakasta móti. Hefir veðrátta verið óvenjulega köld á Norðurlandi það sem af er sumri. 

Víða varð hvasst af austri þann 25. og 26. Vísir segir frá þann 31.júlí:

Heyskaðar höfðu orðið austur í Fljótshlíð á sumum jörðum í veðrunum eftir fyrri helgi, og sumstaðar hafði skemmst í görðum. Einnig hafði þá klofnað elsta tré í hinum kunna trjágarði Guðbjargar húsfreyju í Múlakoti.

Ágúst: Stopulir þurrkar um mikinn hluta landsins. Hiti í meðallagi nyrðra, en annars fremur kalt.

Ekki fer mikið fyrir fréttum af veðri í blöðum í ágúst - en aðeins þó. Fram á Siglufirði greinir ítarlegast frá tíðinni. Rennum í gegnum þá pistla:

[5.]  Hiti fyrripart [vikunnar] en þokuloft síðustu dagana. ... Túnasláttur stendur nú sem hæst yfir í nærsveitunum, en er nýbyrjaður hér. Allstaðar er hin sama umkvörtun um grasbrest. Nýting á heyjum ágæt það sem af er.

[12.] Logn og blíðuveður alla vikuna. Þurrkalítið fremur, og regn að öðru hvoru seinni part vikunnar.

[19.] Austan stormur allan fyrripart vikunnar. Þokuloft og þurrkalítið. — Norðan aftaka úrfelli á fimmtudaginn [17.] en á föstudagsmorguninn birti upp. Föstudag austan þurrkur og sólskin. Laugardag logn og rigning.

[26.] Fyrripart vikunnar regn og stormar. Seinnipartinn þokur en þurrklaust og logn. Heyskapurinn gengur afleitlega nú um tíma, því að ofan á grasbrestinn bætast nú óþurrkar, og eru töður víða farnar að skemmast hér í firðinum.

[2.september] Austan þurrkur og sólskin á sunnudaginn [27.ágúst] , en annars sífeldir óþurrkar alla vikuna, — skipst á rigningar og þokumollur. Talsverður norðan sjór um miðja vikuna, en annars hægðar veður.

Morgunblaðið segir úr Skagafirði þann 13. að þar væri ágætt veður og hefði verið undanfarna daga. Grasspretta lítil. Þann 18. segir Morgunblaðið frá rigningu og norðanstormi í Eyjafirði og sömuleiðis þann 23. Þá hafði verið lítill síldarafli norðanlands vegna storma og kulda.  

September: Þokkaleg tíð. Uppskera úr görðum í góðu meðallagi. Kalt og um miðjan mánuð snjóaði sums staðar á Norður- og Austurlandi.

Þótt almennir eftirádómar um septembertíðina hafi ekki verið slæmir er heldur dauft yfir Fram á Siglufirði í mánuðinum:

[12.] Rigning og þoka fyrripart vikunnar og talsverður sjór. Um miðja vikuna létti upp, og var sólskin og góður heyþurrkur, á fimmtudag [7.] og föstudag en að litlu gagni varð hann sökum þess, að hellirigningu gjörði á laugardagsnóttina. Laugardag vestan stormur. 

[16.] Alla vikuna hefir verið hin mesta ótíð, Hefir skipst á úrhellisregn og hríðarél með kulda og síðari hluta vikunnar sjógangur og brim til sjávarins. Í dag er þó þurrt og kyrrt veður en kuldi, og hríðardimma á fjöllum. Hvítt er nú af snjó niður til sjóar hér í kaupstaðnum. Heyskapurinn hefir gengið hörmulega. Framan af bagaði grasbrestur og nú á síðkastið ótíðin. Töður liggja hér á túnunum að meira og minna leyti og eru orðnar lítt nýtar. Mun heyjafengur um alt Norðurland, vera með minnsta og lélegasta móti og er því útlitið mjög ískyggilegt með landbúnaðinn, þegar þess er gætt, að sökum tollhækkunarinnar á kjötinu er lágt verð á því fyrirsjáanlegt.

[23.] Heita má að óslitin hríð hafi verið alla vikuna fram á föstudagsmorgun [22.]. Þá birti upp og var sólskin og heiðríkt veður en kalt allan föstudaginn. Í dag er hlýtt veður en aðgerðalaust. Hér er nú meira en ökklasnjór og illfært röskum karlmönnum að brjótast yfir Siglufjarðarskarð; sagt að þar sé snjórinn í mitti. Smádrengir voru í gær að renna sér á skíðum yfir heyflekkina á túnunum hér og eftir götum bæjarins var ekið á sleðum. Ekki hefir verið fært á sjó alla vikuna fyrir hríð og foráttubrimi. Ástandið hér í nærsveitunum er mjög ískyggilegt hvað landbúnaðinn snertir. Hey liggur allsstaðar úti meira og minna, og sumstaðar í Fljótum er sama og ekkert af útheyi komið í tóftir, en mikið hey liggur hjá flestum undir snjónum. Hér eru nú margir að panta hey frá Noregi og Svíþjóð og hafa heyrst margar raddir um það, að bæjarstjórn ætti að gangast fyrir pöntunum, virðist það ótvírætt vera eðlilegasta og besta úrlausnin, og telur „Fram“ sjálfsagt að bæjarstjórn bregðist vel við áskorunum í því efni, ef henni berast þær.

[30.] Fyrripart vikunnar votviðri og heldur kalt en tók þó talsvert upp fönnina sem komin var. Norðan garður til sjávarins. Seinnipart vikunnar þurrkar og hefir nú náðst inn talsvert af heyi sem úti var.

Morgunblaðið segir þann 15. af snjó í fjöllum:

Snjóað hefir mikið í fjöll undanfarnar nætur. Skarðsheiðin var hvít niður í miðjar hlíðar í gærmorgun og enn meiri snjór virðist vera á vesturfjöllunum.

Alhvít jörð í Stykkishólmi framan af degi 17.september. Á Teigahorni var alhvítt að morgni þess 15. sem og víða norðanlands.

Ólafur á Lambavatni segir um september: „Tíðarfar yfir mánuðinn hefur verið ágætt. Kalt og þurrt fyrir og um leitirnar. Jarðeplavöxtur í görðum hér allstaðar ágætur. Heyfengur eftir sumarið varla í meðallagi. Útengi víða mjög snögg, nýting ágæt. 

Október: Úrkomutíð á Suður- og Vesturlandi fyrstu 3 vikurnar, en annars var fremur þurrviðrasamt. Fremur hlýtt.

Þann 14. birtist langur pistill í Fram á Siglufirði með yfirskriftinni „Er langur vetur í vændum?“ - Veturinn varð reyndar einn hinn mildasti um langt skeið, en pistillinn er samt áhugaverður. Bréfið sjálft og skott þess birtust fyrst í Vísi 15.september, en var „auðsleikjanlegra“ í Fram, sem bætti inngangi við:

Eldri menn taka mark á ýmsum atvikum í daglega lífinu sem þeir yngri ganga fram hjá og taka ekki eftir. Þessi nákvæma athyglisgáfa er undirstaða veðurspánna og veðurgleggni, sem einkennir einstaka mann. Nú mun af mörgum vera lagður lítill trúnaður á þessar veðurspár, nema þær aðeins að segja fyrir veður einn eða tvo næstu daga, en varla þegar spáð er fyrir tíðarfari heils misseris fyrir fram. Þó er alltaf spáð af fjölda mörgum mönnum fyrir hverjum vetri og hverju sumri, og þó segja megi að það sé hending ein, þá ganga þessar spár oft eftir. Það eru margir sem spá hörðum vetri þeim, er nú fer að. Þess er óskandi og vonandi, að slíkar spár ekki rætist, því harður vetur er ætíð vágestur, en ekki síst nú eftir þetta bága sumar. Gömlu mennirnir taka mark á ýmsu í sjálfri náttúrunni og draga ályktanir sínar af því. Um eitt slíkt fyrirbrigði er „Vísi“ skrifað af skilríkum manni í Dalasýslu á þessa leið:

„Ég veit ekki nema það sé ábyrgðarhluti fyrir mig að þegja um það, hvernig skaflinn í Kollugili hagaði sér í sumar. Þetta Kollugil er skammt fyrir framan Svarfhólsbæinn í Laxárdal í Dalasýslu. Gilið er bæði breitt og djúpt, og tekur ósköpin öll, en aldrei er forsjónin svo spör á mjöllinni vestur hér, að ekki barmafylli gilið. Af því að gilið gín við norðri og skaflinn er þykkur, tekur hann eðlilega seint upp; ná þeir þar að jafnaði saman gamli og nýi snjórinn, eins og kjötið hjá góðu búhöldunum. Þetta gátum við nú allt saman skilið, Dalakarlarnir,en í einstaka sumrum er eins og einhver þremillinn fari í skaflinn þarna, svo að hann, sem býður steikjandi sólargeislunum og hlýjum sumarskúrunum byrginn, rennur sundur eins og kynt væri undir honum, og það þó að næðings- og kuldatíð sé. Sjálfsagt verður nú vísindamönnunum ekki skotaskuld úr því að skilja þetta, ráða þessa gátu; en frómt frá að segja höfum við Dalakarlarnir aldrei skilið þetta. En á hinu höfum við fengið að kenna, að þegar skaflinn í Kollugili hverfur alveg, þá er betra að vera við hörðum vetri búinn; því að sú hefir reynslan jafnan orðið. — Í sumar fór skaflinn úr gilinu í júlímánuði, þrátt fyrir alla kulda og næðinga. Er það trú manna hér um slóðir, að þetta muni boða harðindi á komandi vetri, því að, eins og fyrr segir, hefir skaflinn aldrei leyst svo, að ekki hafi harður vetur fylgt á eftir og ótrúlegt, að öðruvísi fari nú en áður“.

Vísir bætir því við að hann hafi átt tal um þetta við gagn kunnugan mann úr Dölum sem nú býr í Rvík og „vissi hann ekki annað en þau væru á rökum byggð“. Bætti hann því við, að þetta þætti þeim mun meiri illsviti, sem kaldara væri í sumri, þegar skaflinn leysti, en í sumar hefir verið fremur kalt þar vestra. Sennilega telja margir þetta hjátrú eina og hindurvitni, en ekki veldur sá er varir, og er aldrei of gætilega sett á, allra síst þegar lítið heyjast, eins og nú. Er þess vegna sérstök ástæða til þess að hvetja menn, — meðan tími er til, — til að setja gætilega á í haust. Og hvað sem öðru líður, þá ætti þessi fyrirboði fremur að vera mönnum hvatning en hitt í því efni.

Ólafur á Lambavatni segir í októberlok: „Haustið hefir verið óvenju gott, sífelld hlýja og stilla“.

Morgunblaðið segir 29.október:

Einmuna tíð hefir verið í austur sveitunum í allt haust og er enn, segir maður nýkominn að austan. Ganga kýr enn úti.

Gísli í Papey heyrði bresti í vestri kl.17 þann 5. október. Jón á Teigarhorni kl. 13:30. Stórt eldgos hófst þá í Grímsvötnum. Öskufall hófst norðaustan- og austanlands skömmu síðar. Blöðin fjölluðu þó nokkuð um Grímsvatnagosið. Það var e.t.v. ekki langt, en gos varð líka í Öskju síðari hluta nóvembermánaðar. Þá rann hraun í Öskjuvatn. Ítarlega má lesa um þessi gos í greinargerð sem Þorkell Þorkelsson veðurstofustjóri ritaði í Tímarit Verkfræðingafélagsins 4. og 5. tölublað 1923. Við sleppum frekari umfjöllun hér.

Mjög stórt hlaup í Skeiðará fylgdi Grímsvatnagosinu - aðalgosið kom í lok hlaups. Tíminn segir frá hlaupinu þann 28.október (JP-ritar stafi sína undir). Bréfið greinilega ritað í Öræfum þann 6.:

Skeiðará [var] óvanalega lítil í sumar. En 22.september fór hún að vaxa, en fór þó óvanalega hægt að því í 6 daga, en svo óx hún með hraða úr því, þangað til 5. október, og nú, þann 6., er hún nærri því að sjá fjöruð. Áður í hlaupunum var hún í lengsta lagi viku að vaxa, en nú var hún í 13 daga að því. Er þetta hlaup með stærstu hlaupum. Hefir aðalvatnið héðan að sjá ekki nema tvö útrennsli, en áður hafa þau víst oft verið fleiri. Svo mikið vatn hefir oft komið í hinum hlaupunum, á 4—6 dögum, að Skeiðarársandur hefir verið nærri því eyralaus út undir miðjan sand. Stærsta vatnsútfokið var nú út af miðsandinum, en hitt kom úr jöklinum, við Jökulfell, þar sem Skeiðará kemur vanalega út. Eystra vatnið var eins og fjörður til að sjá, og rann það fast við löndin hér og braut það dálítið af þeim sumstaðar, og bar leir ofan í þau. Fyrir utan löndin hefir vatnið dreift sér betur en ofar á sandinum, svo hvergi hefir sést á dökkan díl, rétt eins og sjórinn væri kominn upp undir löndin.

Að öllum líkindum stafa jökulhlaup þessi af eldsumbrotum í jöklinum, því nú, og rétt alltaf í hverju hlaupi, höfum við séð eld uppi í jöklinum, á sömu stöðum öskufall. Í gærkvöldi (þann 5.október) voru hér sífeldir eldblossar, og þéttar og stórar drunur eða skruggur, næstum eins og þegar Katla gaus. En sem betur fer fylgja ekki þessum eldi önnur eins ósköp og Kötlueldinum, því enn hefir hér ekki orðið vart við öskufall. Tjón af hlaupunum er alltaf talsverð, en þó mismunandi mikil. Rétt alltaf hefir í hverju hlaupi tekið eitthvað ofurlítið af graslendi og borið leir í engjar, og hefir svo eins verið nú. Og auk þess hefir vatnið tekið allan rekavið, á stóru svæði á fjörunum, og að líkindum stikur þær, sem reistar hafa verið til leiðbeiningar skipbrotsmönnum á fjörunni. Sæluhús var á miðjum Sandinum þar sem hann var hæstur, og á þeim stað, þar sem hlaupin hafa ekki farið yfir í manna minnum. Nú hefir hlaupið farið þar yfir, og eftir því sem maður getur best séð, hefir hlaupið tekið húsið og skilið eftir þykka jakahrönn þar sem það stóð og eyðilagt víðáttumikla mela og graslendi talsvert.þar á sandinum, svo nú verður Skeiðarársandur leiðinlegri og verri yfirferðar fyrst um sinn.

Í fyrravetur voru báðir sandarnir ófærir (Breiðamerkur- og Skeiðarársandur) um nokkuð langan tíma, með fé. Yfir árnar á þeim var síðast hægt að komast með því að reiða féð yfir þær. Yfir Skeiðará var t.d. reitt á fjórða hundrað fjár, og var það allt annað en gott, því mikill hluti af því fé voru fullorðnir sauðir. Við vildum talsvert mikið til vinna, ef hægt væri að slátra sölufé okkar hér, og ég hefi það traust til þeirra, sem ráða mestu um starfrækslu kaupfélaganna og Sláturfélags Suðurlands, að þeir hjálpi okkur til þess áður en langt líður. Gott yrði þá að búa hér, því ekki er erfitt orðið að flytja að sér síðan Lárus í Klaustri kom því á, að skipað yrði hér upp við sandinn.

Við grípum líka inn í frásögn Magnúsar Bjarnarsonar á Prestbakka af hlaupinu sem birtist í Tímanum þann 11.nóvember. Bréf hans er dagsett 14.október:

[R]eykjar- eða öskumökkur hefði sést stíga upp úr Vatnajökli norður af Skeiðarárskriðjöklinum miðvikudaginn 4.október, og bjóst við að hlaupið mundi þá mjög magnast, og reyndist það svo. Kom þá aðalhlaupið með ógurlegum vatnsgangi og jakaflugi fram yfir miðjan sandinn, yfir svokallaða Hörðuskriðu, en þar er sandurinn hæstur, og hefir þar ekki farið fyrr „hlaup" yfir í manna minnum. Var fyrir nokkrum árum byggt þar á póstleiðinni dálítið sæluhús úr timbri fyrir ferðamenn á vetrum, og tók hlaupið það sem annað. Er þar nú feiknastór jökulhrönn, sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Aðeins upp undir jöklinum standa jakarnir strjálari, svo komist verður þar í gegn, en ógreiður vegur er það, og tekur klukkutíma lestagang að fara yfir endann á hrönninni, en svo breiðist hún út til beggja hliða, er fram á sandinn kemur, og verður miklu breiðari.

Um kvöldið og nóttina þ. 4. og 5. október gengu sífeldar eldingar og glampar, er stöfuðu frá gosinu, og jafnvel þ. 6., en þá miklu minna; var gosið auðsjáanlega í rénun, en ekki sást til eldstöðvanna sakir dimmveðurs, er gerði með hafátt, og sem bjargaði Vestur-Skaftafellssýslu frá því að fá öskufall yfir sig á ný. Þann 9.október.var hlaupið þorrið, og var þá lagt á sandinn af 3 mönnum úr Öræfum með póstflutninginn frá Hólum. Komust þeir yfir sandinn, og kom svo Hannes póstur á Núpsstað með hann hingað þ. 10. þ.m. Er útlit á að sandurinn verði fær í vetur, ... Gos þetta og „hlaup" er óefað eitt með þeim mestu um langt skeið, en hefir þó engan skaða gert á graslendi eða engjum í Öræfum og Fljótshverfi, svo ég til viti, sem stafar af því að aðalhlaupið fór fram miðjan sandinn, og gekk því ekki á löndin beggja vegna sandsins. Að vísu kom „flug" í Núpsvötnin, er aðalhlaupið kom þ. 4. okt., en því fylgdi ekki jakaferð og var ekki hættulegt að bryti land. ...

Vísir segir frá þann 20.október:

Gosmökkurinn sást héðan úr bænum gær eftir hádegi, en bjarmi sást enginn, þegar dimma tók. Mökkinn bar yfir Lágafell. Sumarið kveður i dag með blíðuveðri. Svo hlý hefir tíðin verið að undanförnu að blóm eru nú sem óðast að springa út i görðum.

Morgunblaðið þann 1.nóvember:

Í fyrrinótt lagði Tjörnina og gerðist þá heldur kuldalegt þar fyrir álftirnar. Voru þær handsamaðar í gær og fluttar á Laugalækinn. Hafa þær verið þar innfrá undanfarna vetur og bjargast sæmilega af.

Og daginn eftir segir blaðið:

Í fyrradag lagði Ölfusforir, svo að bæði mönnum og hestum hélt. Tóku bændur sig þá til og fóru að binda hey það, er þeir höfðu borið saman í forunum í sumar, og drógu heim að búum sínum hlaðna sleða. Er það nokkru fyrr en vant er, að forirnar hefir lagt í þetta sinn.

Nóvember: Góð tíð. Úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi, en þurrara fyrir norðan og austan. Hiti í meðallagi.

Þann 8.nóvember segir Morgunblaðið frá hríð og snjó:

Hríðarveður var hér mestallan daginn í gær, og er nú kominn meiri snjór en vant er að vera um þetta leyti. Sest veturinn snemma að. [Snjódýpt varð mest 6 cm þann 8.]

Fram á Siglufirði segir frá tíð og skemmdum þann 25.nóvember:

Sunnan ofsaveður á mánudag [20.]. Síðan fremur óstillt og sjókoma nokkur. ... Bryggja sem H.f. Hrogn og Lýsi leigðu hér síðastliðið sumar á lóð h.f. Bræðings í Bakka datt niður nú í vikunni, í litlum sjávargangi, svo varla hefur hún verið sterkbyggð mjög.

Hér vildi til í ofsaveðrinu á mánudaginn var það ömurlega slys, að maður fór út af bryggju hér í bænum og drukknaði. Slys þetta hefði getað orðið miklu víðtækara en varð, og má það happ heita, að ekki skyldi svo fara. Hannes Jónasson, bæjarfulltrúi sem hefir á hendi umsjón með eignum Sören Goos hér í bænum, fór í heljarmyrkri um miðaftansbil þennan dag niður á bryggju Sören Goos til að gæta að legufærum báta og skipa er þarna voru bundin. í för með honum var ungur maður, Þórður, sonur Jóns Kristinssonar, er kenndur hefir verið við Ystabæ í Hrísey. Baðir voru mennirnir nákunnugir á bryggjunum og hafa því líklega ekki þóst þurfa ljósa við. Þeir hafa svo fikrað sig í myrkrinu fram með verksmiðjuhúsunum og út á bryggjuna (vestari). Austan í bryggjuna er vik, og hafa þeir ekki gætt þess og lentu báðir í sjóinn. Hannes Jónasson náði fljótlega tökum á bryggjustaur, en Þórður náði hvergi til og hvarf. Hannes hrópaði á hjálp, en í ofviðrinu var illt að átta sig á þessum hrópum og hvaðan þau komu. Ekki leið þó á löngu áður en menn komu á vettvang. Þá fór enn svo að tveir menn hrutu út af bryggjunni þeir náðust þó fljótlega og voru lítt eða ekki þjakaðir. Hannes Jónasson náðist einnig og var furðu hress, þegar tekið er tillit til þess, hve lengi hann hafði verið í sjónum.

Síðan var hafin leit eftir Þórði Jónssyni, og haldið áfram lengi nætur. Þá hraut enn einu maður út af bryggjunni en komst fljótt til lands á sundi. Leitin varð árangurslaus þrátt fyrir ósleitilega framgöngu og prýðilega ósérhlífni. Næsta morgun, er bjart var orðið, fannst líkið á sjávarbotni þar rétt hjá. Kom þá í ljós, hví maðurinn hefði horfið svo skjótt. Hann var skaddaður á höfði og má telja víst að hann hafi rotast þegar í stað og því getað enga björg sér veitt. ... En rödd þessa drukknaða manns hrópar og krefst þess, að einhverjar ráðstafanir séu gerðar til þess að reyna að afstýra því, að þessu lík slys haldi svona takmarkalaust áfram eins og verið hefir uppá síðkastið. Þetta verður lögregla og stjórn bæjarins að íhuga.

Morgunblaðið segir frá hálku þann 23.:

Glerhált var hér á götunum í gær, var mannhætta að fara um hina alræmdu Bakarabrekku. Sandi var farið að strá á göturnar seinni partinn í gær. En það hefði þurft að gera miklu fyrr. Dregst það oft svo lengi, að fjöldi manna gæti verið búinn að beinbrjóta sig áður.

Morgunblaðið birtir þann 13.desember bréf úr austanverðum Skagafirði dagsett 30.nóvember:

Tíðin hefir, verið mjög óstillt hér, og hefir því verið óvenjulítið um róðra og fiskafli því svo að segja enginn. Í dag reri þó vélbátur héðan og fékk ágætan afla, en þurfti langt að sækja. Þíðan er svo mikil nú, að menn hafa verið að rista ofan af, grafa skurði og láta byggja úr steinsteypu. Um jörðina er ómögulegt að ferðast, því allt er á kafi, mýrar marþíðar og íhlaup á öllum vegum.

„Íhlaup“ mun hér merkja hvarf eða holu í vegi, en annars yfirleitt hríðarkast eða hret.

Desember: Góð tíð og snjólétt. Úrkomusamt sunnanlands og vestan fram yfir 20. Hlýtt.

Fram segir frá í nokkrum pistlum:

[2.] Veðrátta óstillt sem áður, en þó hagfelld til lands. Einn daginn gjörði veðraguðinn sér það til sóma að láta vera 12 stiga hita C, og liggur nú við að jörð sé að grænka. Gæftir á sjó hafa farið eftir þessu; verið þó furðanlega nuddað Afli er góður.

[9.] Veðrátta eins og áður. Hlýindi og umhleypingasamt. Jörð alauð upp í fjallseggjar. 11 stiga hiti C í dag. Oftast hefur verið róið og fiskast heldur vel. Fiskurinn misjafn að stærð.

[16.] Veðrátta breyttist nú loks fyrri part vikunnar. Gekk þá á með norðvestan hríð og nokkru frosti en birti von bráðar upp og hefir nú seinustu daga verið bjart og stillt veður.

[23.] Sömu umhleypingar. Logn í dag, stólparok á morgun. Hæg frost og hlákur skipst á. Það má segja að veðrið er ekki fatalaust. Nú er eftir að vita hvernig það muni prúðbúa sig á jólunum.

[30.] Aðfaranótt 27. þ.m. brast hér á afspyrnu austanrok með krapahríð. Urðu hér víða skemmdir miklar á húsum, reif af þeim þakjárn og pappa m.m. Auk þess fauk og hrundi til rústa geymsluhús mikið tilheyrandi Wedin's síldarstöðinni. Skúr fauk einnig í Hvanneyrarkrók, er átti Goos síldarkaupm.; ennfremur urðu miklar skemmdir á skúr þeim hinum mikla sunnan við síldarverksmiðju hans hér. Þá tók upp allstórt svæði af síldarplattningu O. Tynes og brotnaði og eyðilagðist. Skúr Antons Jónssonar útgerðarmanns færðist einnig úr stað. Ekki vitum vér hve tjón þetta nemur miklu í heild sinni, en eflaust skiptir það mörgum þúsundum.

Morgunblaðið segir frá því þann 28. að ístaka hafi loks hafist á Tjörninni. Brýnasta þörf hafi verið á, því togarar hafi þurft að sækja ís til Vestfjarða - ísinn hafi hins vegar verið þunnur. 

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1922. Að vanda má finna ýmsar tölur í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 5. júlí 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 16
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 507
  • Frá upphafi: 2343269

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 459
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband