Fellibylurinn Chris

Fellibylurinn Chris er ekki af veigameiri gerðinni, en er samt. Merkilegt nokk er leifum hans spáð alla leið hingað til lands á laugardagskvöld eða sunnudag. Leifarnar birtast hér sem nokkurn veginn hefðbundin lægð - ein í viðbót við þær mörgu sem komið hafa við hér að undanförnu, en er sem stendur spáð heldur suðaustan- eða austan við land. Ekki er ljóst á þessu stigi hvort það skiptir einhverju fyrir framhaldið - sennilega ekki. 

w-blogg110718a

Myndin er af vef kanadísku veðurstofunnar. Suðurhluti Grænlands er efst á myndinni. Chris er ekki fyrirferðarmikið kerfi, en vindhraði er samt af fárviðrisstyrk á svæði nærri miðju þess. Óvenjulegt er að hitabeltiskerfi af þessu tagi komist alla leið til Íslands í júlímánuði - einhver dæmi um það kunna þó að finnast sé vel leitað. 


Köld og hlý júlíbyrjun -

Köld og hlý júlíbyrjun - hvoru megin ert þú lesandi góður? 

Júlímánuður byrjar heldur kuldalega á landinu sunnan- og vestanverðu - en aftur á móti sérlega hlýlega á Austfjörðum. Meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins í Reykjavík er 9,1 stig, -1,2 stig neðan meðallags áranna 1961-1990, en -2,5 stig neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Þetta er kaldasta júlíbyrjun á öldinni í Reykjavík, og reyndar sú kaldasta síðan 1993. Á langa listanum er hiti þessara daga í 130. sæti af 144. Þeir voru hlýjastir 1991, þá var meðalhiti 14,0 stig, en kaldastir voru þeir 1874, 7,6 stig (raunar er sú tala nokkuð á reiki), en næstlægsta talan er nokkuð örugg, 7.8 stig, árið 1892. Árin 1979 og 1983 var meðalhiti þessara daga 8,2 stig í Reykjavík.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu dagana 11,5 stig, +1,5 stigi yfir meðallagi áranna 1961-1990, en +0,7 yfir meðallagi síðustu tíu ára - og í 17. til 18. sæti á 83-ára lista Akureyrar. Þar voru dagarnir tíu hlýjastir 1991 eins og í Reykjavík, meðalhiti 15,4 stig, en kaldastir voru þeir 1970, meðalhiti 6,8 stig.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Austfjörðum, jákvæða vikið er mest í Neskaupsstað þar sem hiti hefur verið +2,2 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast að tiltölu hefur verið á heiðastöðvum á Suðvesturlandi, vikið er -3,0 stig á Skarðsmýrarfjalli og á Botnsheiði. Í byggð er neikvæða vikið mest á Þingvöllum, -2,9 stig.

röð10.júlíspásvæði
18 Faxaflói
18 Breiðafjörður
14 Vestfirðir
8 Strandir og Norðurland vestra
6 Norðurland eystra
4 Austurland að Glettingi
1 Austfirðir
8 Suðausturland
18 Suðurland
16 Miðhálendið


Taflan sýnir röðun meðalhita einstakra spásvæða á öldinni. Á Suðurlandi, við Faxaflóa og við Breiðafjörð er þetta kaldasta júlíbyrjun aldarinnar (18.sæti af 18), en á Austfjörðum hins vegar sú hlýjasta (1. sæti af 18). Kalt hefur einnig verið á Miðhálendinu og Vestfjörðum, en á vestanverðu Norðurlandi og á Suðausturlandi er hitinn nærri miðju raðar.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 14,6 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri er úrkoma ofan meðallags.

Eins og að undanförnu eru sólskinsstundir harla fáar suðvestanlands, hafa aðeins mælst 14 það sem af er mánuði í Reykjavík og hafa þær aðeins 6 sinnum verið færri sömu daga mánaðarins, fæstar 5,2. Það var árið 1977.

Engar breytingar er að sjá allra næstu daga - en misræmi er í spám sem ná lengra fram í tímann - flestar gera þó ekki ráð fyrir grundvallarbreytingum á stöðunni.


Bloggfærslur 11. júlí 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a
  • w-blogg110424b
  • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 34
  • Sl. sólarhring: 110
  • Sl. viku: 1813
  • Frá upphafi: 2347547

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 1559
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband