Af árinu 1915

Mikil umskipti urðu með árinu 1915 frá því tíðarfari sem ríkt hafði. Árin 1913 og 1914 höfðu verið sérlega umhleypinga- og illviðrasöm og veðrið almennt látið ófriðlega. Mikið bar þá á vestanáttum. Nú skipti um, vindur snerist til ríkjandi norðlægra átta og loftþrýstingur hækkaði. Sumarið varð þó sérlega dauft sums staðar norðan- og norðaustanlands enda hafís þar við land og í Grímsey varð október hlýjasti mánuður ársins (ásamt ágúst). 

Þó tíð teldist hagstæð lengst af var hiti ofan meðallags á landsvísu í aðeins þremur mánuðum, janúar, október og nóvember. Október var langhlýjastur að tiltölu, einn allra hlýjasti októbermánuður allra tíma og var ekki skákað fyrr en rétt rúmum 100 árum síðar, 2016. Fremur hlýtt var um landið suðvestanvert í júní og ágúst, en þá var kalt nyrðra.

Mars varð mjög kaldur og sömuleiðis var kalt í desember, febrúar og maí. Júlí var sérlega kaldur um landið norðan- og austanvert. En það fór vel með veður og illviðri voru fátíð, t.d. nær enginn dagur ársins inn á illviðraskrá ritstjóra hungurdiska, sem mun þó vera fremur skorti á veðurathugunum að kenna heldur en að engin illviðri hafi gert - við sjáum nokkur dæmi í blaðafréttum hér að neðan.  

Hæsti hiti ársins mældist á Stóranúpi 3. ágúst 21,7 stig, en mest frost á Grímsstöðum á Fjöllum, -25,0 stig 23. febrúar. Það er óvenjulegt, en -0,1 stigs frost mældist í Grímsey þann 11. júlí - hafís var þá við eyjuna og frostnætur komu einnig víðar í sama mánuði. Frost mældist -1,0 stig á Akureyri aðfaranótt 1. júlí og er það lægsti hiti sem þar hefur nokkru sinni mælst í júlímánuði. Enn standa nokkur dægurlágmörk frá árinu 1915 þar í bæ, 11., 12., 13., 14, og 16. júlí. Hafís kom þá alveg inn á Pollinn. 

Enginn hlýr dagur skilaði sér í net ritstjóra hungurdiska í Reykjavík og Stykkishólmi. Hins vegar nokkrir kaldir, 9 í Reykjavík, en 7 í Stykkishólmi. Í Reykjavík 22. febrúar, 16., 20. og 21. mars, 31. maí, 11., 12. og 24. júlí auk 9. desember. 

Fjöldi sólríkra daga kom á Vífilsstöðum - mun fleiri en árin á undan, 19 þeirra ná inn á gátlista ritstjórans, 6 í maí, 3 í júní, 7 í júlí og 3 í ágúst. Tímabilið frá 17. júlí til og með 5. ágúst var sérlega sólríkt.

Óvenjuþurrt var um landið sunnan- og vestanvert og reyndar líka um mikinn hluta Norðurlands. Má vera að ár sem þetta reyndist erfitt bæði vatnsbúskap og kornrækt nú á tímum. 

Lögrétta gefur almennt yfirlit um árið þann 19. janúar 1916:

Árið 1915 hefur verið besta ár hér á landi bæði til lands og sjávar, mesta veltiár, sem yfir Ísland hefur komið, segja margir. Veturinn var góður frá nýári. Vorið kalt, og sérstaklega þurrviðrasamt á Suðurlandi. Eftir miðjan mars gerði hafís vart við sig við Vesturland [átt er við Vestfirði], en þó ekki til mikilla muna þá, En í maí kom hann að Norðurlandi og var þar mikill ís á reki fram og aftur allt fram í miðjan júlí og truflaði mjög skipsferðir. En úr því varð íslaust. Grasspretta varð tæplega í meðallagi yfirleitt, og ollu því þurrviðri sunnanlands, en hafísinn norðanlands. Sumartíðin var góð og hagstæð og varð nýting heyja í besta lagi, svo að þau urðu eftir sumarið bæði mikil og góð sunnanlands og í meðallagi norðanlands. Garðávextir yfirleitt meiri en í meðallagi.

Haustið var gott og besta tíð fram til ársloka. Skaftafellssýslur eru þó undantekning frá þessu, því þar var rigningasamt síðari hluta sumars og allt haustið, og á Austfjörðum var rosatíð fyrir árslokin. Eftirtektarverðar eru athuganir þær, sem Mýramenn segjast hafa gert á háttsemi kríunnar þetta sumar og hið næsta á undan. Vorið 1914 var fádæma hart, og segja þeir að kríur hafi þá alls ekki orpið. En vorið 1915 urpu þær ekki fyrr en seint í júní og voru að því alt fram í ágúst. Þær eru vanar að fara um höfuðdag, en í haust fóru þær ekki fyrr en um veturnætur. Sama er að segja um fleiri fugla. Lóur fóru að minnsta kosti mánuði síðar en venja er til. Viku af vetri sást stór lóuhópur á Mosfellsheiði.

Janúar: Hagstæð tíð og hægviðrasöm. Fremur hlýtt.

Ísingarvandamál norðaustanlands plöguðu mjög símsamband snemma í janúar. Morgunblaðið segir frá þann 9.:

Landsíminn hefir nú verið í ólagi í þrjá daga. Kvað hann vera slitinn milli Akureyrar og Seyðisfjarðar og svo mikið, að önnur eins bilun hefir ekki orðið síðan síminn varð lagður, árið 1906. Verkamenn sem vinna að því að koma símanum í lag, tjáðu símamönnum hér á stöðinni, að þræðirnir hefðu verið jafndigrir og staurarnir, vegna ísingar.

Vélbátur úr Vestmannaeyjum fórst í ofsaveðri þar nærri þann 12. [eða 14.] (Morgunblaðið 15.)

Mikið brim gerði í Reykjavík aðfaranótt þess 19. Vísir segir frá þann 19.:

Hafrót var óvanalega mikið í nótt og morgun. Grjóti skolaði langt upp í Pósthússtræti. Sjór gekk yfir hafnargarðinn vestra og bryggjur löskuðust víða.

Og Morgunblaðið þann 20.:

Brim var hér með mesta móti í fyrrinótt og í gær. Sjórinn gekk langt yfir Grandagarðinn. í miðbænum gekk sjór dálítið upp í Hafnarstræti. Einn vélbátur sem stóð í fjörunni fyrir neðan verslun Gunnars Gunnarssonar, féll á hliðina og brotnaði eitthvað. Bryggjur H.P. Duus og Geir Zoega brotnuðu dálítið. Í Hafnarfirði ráku og tveir bátar á land í gær í briminu og brotnuðu í spón. 

Morgunblaðið birtir 4. febrúar bréf úr Landsveit dagsett 24. janúar:

Tíð síðan um nýjár mjög góð, veður spök, hagar nógir og lítið gefið útifénaði; stendur svo enn. Í dag blíðviðris hláka og nær alauð jörð eftir.

Febrúar: Hægviðrasöm og hagstæð tíð lengst af. Nokkuð snjóasamt um tíma suðvestanlands og á Norðausturlandi var hríðarhraglandi mestallan mánuðinn. Fremur kalt. Ólafur Jónsson segir frá snjóflóði á Norðureyri við Súgandafjörð kl.6 að morgni 4. febrúar. Flóðið tók hlöðu, hjall, tvo báta og vatnsból staðarins. (Skriðuföll og snjóflóð 2.útg. III., s200). 

Fyrir miðjan mánuð varð ung stúlka úti í Skagafirði á leið úr skóla. 

Nokkuð var um jarðskjálfta á Reykjanesskaganum um og uppúr miðjum mánuði og varð allmikill hristingur í Reykjavík. Aftur voru jarðskjálftar á svipuðum slóðum um 20. mars.

Austri segir af tíð þann 13. febrúar:

Veðrátta hefir verið mjög umhleypingasöm nú undanfarið. Sífelldir rosastormar, rigning og krapaveður, svo afar illt hefir verið yfirferðar.

Lögrétta segir af góðri tíð þann 17.:

Tíðin hefur verið mjög góð hér sunnanlands að undanförnu, stöðug hlýindi, og líkt er tíðarfarið um allt land. Veturinn hefur yfir höfuð verið mjög mildur, það sem af er.

Skautasvell var á Tjörninni í Reykjavík. Morgunblaðið birtir af því frétt þann 22. - og síðan fréttir af frostum. Þetta var frostharðasti kafli ársins:

[22.] Skautasvell var afbragðsgott á Tjörninni í gær, en fáir sem notuðu það vegna storms.

[25.] Vatnsæðar sprungu í nokkrum húsum í frostinu um daginn. Var verið að gera við þær í gær.

Mars: Mjög hægviðrasöm og hagstæð tíð, nokkur hríðarhraglandi norðaustanlands, en annars mjög þurrt víðast hvar. Fremur kalt.

Þann 7. mars segir Morgunblaðið frá rekís á Breiðafirði og tafði hann siglingar til Stykkishólma. En veður voru hæg. Þann 10. segir blaðið:

Ísafirði i gær: Veðurblíða mikil er hér nú. Snjóa hefir tekið alstaðar hér i nánd. Stykkishólmi i gær: Afli er hér ágætur og sjóveður á hverjum degi. Afskapa-hláka kom hér i fyrrinótt. Alauð jörð alstaðar á undirlendi. Reykjavík: Vorveður hið besta var hér í gær. Allur snjór horfinn og tún komu græn undan snjónum.

Um miðjan mánuð fréttist fyrst af hafís. Ítarlegustu fréttirnar er að finna í Vestra þann 21.:

Hafíshroða allmikinn rak hér inn i Djúpið fyrrihluta vikunnar. Fyllti fjörðinn hér á mánudag og þriðjudag [16. og 17.]. Álftafjörð hafði og fyllt af ís svo að ekki varð komist á bát þaðan í fyrradag, og inni í Djúpinu að vestanverðu var svo mikill ís að ekki varð komist á bát inn á Ögurvik, en sjóleiðin inn Djúpið nokkurnveginn auð. Ísinn var svo mikill, að úr Bolungarvík hafði ekki sést út yfir hann úr svonefndri Breiðhyllu ofan við kaupstaðinn i heiðskíru veðri. Á Patreksfjörð, Arnarfjörð og Dýrafjörð hafði og rekið inn hafís eftir helgina en rak strax út aftur. Norðanlands hefir víst hvergi orðið ísvart.

Og þann 29. eru fréttir í Vestra af framhaldinu: 

Hafísinn. Hann liggur hér á firðinum ennþá, og er orðinn samfrosinn, svo ekki verður komist lengra en inn að verksmiðjunni Ísland að vestanverðu og inn fyrir Básana að austanverðu. Íshrafl nokkurt er að hrekjast um Djúpið, en þó eigi svo að það tálmi umferð. Utan við Djúpið er og ísrek all mikið annað veifið, og á Aðalvík var mikill hafís um síðastliðna helgi en rak þó frá aftur. Vélkútter frá Akureyri slapp með naumindum fyrir Straumnes á laugardaginn. „Ceres“ hafði gert ráð fyrir að leggja af stað frá Norðurfirði í gær (28. þ. m.) með birtu, en er ókomin ennþá, sjálfsagt vegna íss.

Tíðin. Ágætisveður undanfarna viku, sólfar og logn á hverjum degi, en all frosthart suma dagana.

Í ódagsettum hlákum segir Norðri að vatn hafi hlaupið í fjárhús á Gilsbakka í Axarfirði og drepið þar 26 gemlinga og 10 geitur. Húsið hafi verið gamalt og aldrei fyrr hlaupið vatn í það. 

Þann 29. mars fórst fiskiskip í hafís við svonefndan Geirhólm á Ströndum, Geirhólmur er annað nafn á Geirólfsnúp (Vestri segir frá þessu 4. apríl). 

Apríl: Tíð talin hagstæð. Úrkomur og umhleypingar viðloðandi á Suður- og Vesturlandi. Hiti í meðallagi.

Páskadag bar upp á 4. apríl. Þjóðviljinn segir í pistli úr Reykjavík sem birtist 16. apríl:

Ekki varð mikið úr páskahretinu að þessu sinni hér syðra, — rétt að það minnti ögn á sig. Jörðin æ alhvít að morgni — fyrir og fram yfir páskana —, þó að sólin bræddi snjóinn einatt jafnharðan að deginum. Vorið annars yfirleitt eigi sem afleitast, hvað af er.

Morgunblaðið segir 9. apríl í frétt frá Akureyri að þar hafi verið ágæt tíð að undanförnum, en nú hafi brugðið til norðuráttar með fjúki og hríð. Frá Stokkseyri segir Morgunblaðið þann 12. að þar sé besta tíð til lands og sjávar, hins vegar sé þar feikna mikið brim í dag [11. apríl], „hið mesta, sem menn muna eftir“. 

Þann 25. apríl varð miðbæjarbruninn mikli í Reykjavík þegar 12 hús brunnu. 

Þann 25. segir Morgunblaðið frá vetrartíðinni á Austfjörðum:

Tíðarfar hefir, síðan snjóinn mikla keyrði niður á jólaföstu, verið talsvert stirt og  umhleypingasamt; oft komið talsvert langir hagleysis-kaflar vegna áfrera, en nú í nokkra daga að undanförnu hefir ágætis blíðviðri verið svo svell hefir þorrið til mikilla muna, en á fjöllum er snjókyngi mikið.

Og þann 26. er frétt í Norðra um tíðina þar um slóðir:

Veðrátta undanfarandi hefir verið afaróstillt, vestan og norðvestan rosaveður og stormasamt en lítið snjóað í byggð enda þítt annað veifið svo nýjan snjó hefir þegar tekið og nokkuð af þeim gamla. Nú um sumarmál er því ekki snjó mikið í byggð, en ís er þó enn á vötnum. Beit fyrir sauðfé lítil í Eyjafirði vegna storma og kulda.

Þann 28. apríl segir Vestri frá vatnsflóði og vexti í Hólsá í Bolungarvík, „að hún flóði langt yfir bakkana og yfir í lækinn ofan við Malirnar, við það flóði vatnið víða í kjallara og inn á gólf í húsum, svo vandræði hlutust af“. 

Maí: Hagstæð tíð, einkum syðra. Mjög þurrt. Hiti í meðallagi.

Þann 10. segir Morgunblaðið frá því að tré séu sem óðast að lifna í görðum bæjarmanna. 

Vestri segir hins vegar að sunnudaginn 9. hafi á Ísafirði gert ökklasnjó niður að sjó og hafi hann ekki fulltekið upp þann 12. 

Hafísinn kom fyrir alvöru að Norðurlandi í maí - en fram að þeim tíma höfðu hvalveiðiskip leitað íssins og kvartað undan ísleysi (ósköp er erfitt að gera öllum til geðs). Ingólfur getur um þann 16. að skipum gangi illa að komast fyrir Horn og sömuleiðis var íshrafl á utanverðum Eyjafirði en segir svo frá ísnum þann þann 19. maí:

Hafísinn er nú sagður allmikill við Norðurland. Óslitin hafþök frá „Svalbarði við Hafsbotna" til Langaness, að því er Morgunblaðinu er símað úr Seyðisfirði, en mun ekki landfastur nema við Horn. Frá Húsavík er símað, að þar sé enginn ís úti fyrir til hindrunar skipagöngum.

Í Morgunblaðinu var hins vegar talað um Jan Mayen en ekki Svalbarða.

Vestri segir frá því þann 22. að Steingrímsfjörður sé sagður fullur af ís og Bitrufjörður að fyllast. Góðviðri og stillur hafi verið undanfarna viku, en fremur kalt hafi verið í veðri. 

Morgunblaðið birtir skondna frétt frá Seyðisfirði þann 18. maí:

Seyðisfirði 17. maí. Hreindýr var skotið hér á höfninni í gær í misgripum. Héldu menn það ísbjörn vera og hervæddust. Var sótt að því á alla vegu og lauk viðureigninni svo, að það var drepið.

Enn héldu jarðskjálftar áfram og 29. maí töldum menn jafnvel að eldur hefði tekið sig upp í Hekluhraunum. Morgunblaðið segir frá þann 29.:

Í fyrradag, um tvöleytið, fannst allsnarpur jarðskjálftakippur hér í Reykjavík. Um líkt leyti fundust snarpir jarðskjálftakippir um alt Suðurlandsundirlendið. Ólafur Ísleifsson læknir í Þjórsártúni var á ferð i fyrrinótt og sá þá mökk allmikinn leggja upp úr Hekluhrauni á sömu stöðvum og þar sem eldgosin voru 1913. En af því að hálfdimmt var af nótt gat hann eigi svo gjörla greint það. Sennilegast er þó, eftir öllum líkum að dæma, að eldur sé aftur uppi á þessum slóðum.

Í lok mánaðarins gerði leiðindahríð fyrir norðan og austan og voru það nokkur viðbrigði eftir nokkra hlýja daga eystra. Morgunblaðið segir frá þann 31.:

Þær voru ósumarlegar fréttirnar, sem hingað bárust frá Norðurlandi í gær. Afgreiðslumaður Björgvinjarfélagsins hér, hr. Nic. Bjarnason, var kallaður i símann frá Siglufirði kl.10 í gærmorgun. Var honum þá tjáð að Pollux og Flóra væru bæði að reyna að brjótast gegnum ísinn og komast inn til Siglufjarðar, en að sú tilraun mundi að líkindum misheppnast. Allt væri fullt af hafís þar nyrðra. Mikill is fyrir utan Eyjafjörð, Skagafjörður fullur og blindhríð hefði staðið þar síðan um morguninn snemma. Nokkru seinna barst afgreiðslumanninum símskeyti frá Siglufirði og hljóðaði það svo: Siglufirði kl. 11.55 fh. Flora og Pollux urðu að snúa við aftur. Flora liggur nú við Hrísey en Pollux hélt til Akureyrar. Frá Húsavík er símað hingað, að ómögulegt sé fyrir sig að komast austur með landinu því mikill hafís sé þar alstaðar. Blindhríð er hér enn. 

Júní: Hagstæð tíð og lengst af mjög þurr, einkum fyrir norðan. Hiti í meðallagi. Ísinn var til skiptist að reka út og inn á fjörðum norðanlands og olli nokkrum töfum á siglingum. 

Vísir segir þann 3. að „mistur var hér í gær svo mikið í lofti, að svo var að sjá sem í kolabotn allt umhverfis. Leiðinlegt veður“. 

Ingólfur segir frá því þann 28. júní að grasmaðkur hafi stórum skemmt gróður austur á Síðu og tún séu þar gjörskemmd á sumum bæjum, t.d. á Prestbakka. 

Júlí: Hagstæð tíð en köld syðra, en óvenju kalt nyrðra. Óvenjumiklir þurrkar suðvestan- og vestanlands. 

w-blogg030418-is_1915-07

Hér er hluti úr ískorti dönsku veðurstofunnar fyrir júlí 1915. 

Þann 11. gerði mikið norðanrok. Suðurland segir fréttir af því þann 12.:

Veðrið í dag: Ofsarok er hér á Eyrarbakka síðan í gær og kuldi mikill í nótt. Snjóaði á Reykjanesfjallgarðinn niður undir byggð í nótt í ofanverðu Ölfusi. Lá snjór niður eftir öllu fram að hádegi. Ekkert hefir sést til Austurfjalla, það sem af er daginn. Stormurinn lemur niður kartöflugrös og annan gróður i görðum.

Ingólfur segir frá sama veðri þann 13. og sömuleiðis frá skemmdum sem ísrekið olli á Eyjafirði:

Hey fuku víða á túnum hér í bæ í rokinu á sunnudaginn [þ.11.]. Telja menn að það hafi verið eitthvert mesta norðanrok, sem hér hefir komið á sumardegi um margra ára skeið. Frost var hér í bænum í fyrrinótt. Jarðeplagras í öllum görðum sölnað. Sauðarkróki í gær: Hafís og kuldar. Mikill ís er sagður vera hér fyrir utan og er hann á reki að landi. Norðanrok hér í gær og kuldi óvenju mikill um þetta leyti árs. Stokkseyri i gær: Afspyrnurok var hér á undirlendinu í gær. Heyfok varð dálitið hjá þeim, sem þegar höfðu slegið. Snjór sést hér i dag alveg niður í byggð.

Akureyri i gær: Fjörðurinn fullur af is. Pollurinn er nú fullur at ís og allur Fjörðurinn fyrir innan Hrísey. Fyrir utan eyna kvað enginn ís vera, en fremur eru fréttir óljósar þaðan. Það var sagt í síma í morgun frá Dalvík, að þar fyrir utan væri enginn is, en aftur á móti sagði maður utan úr Firði í gær, að þar væri mikill is. — Mörg skip liggja hér á höfninni, sem flest hafa leitað hafnar vegna hafíss. Margar bryggjur hér hafa stórskemmst eða eyðilagst af hafísnum. Nýja bryggjan, sem Tulinius hafði látið gera á Tanganum, er gjöreyðilögð. Bryggjur Falks, norska útgerðarmannsins, eru stórskemmdar. Allar bryggjur Gránufélagsins, sem útgerðarfélögin úr Reykjavik höfðu tekið á leigu, hafa orðið fyrir miklum skemmdum. Þá hefir bryggjan út af Þórshamri, fyrir utan Krossanes, og orðið fyrir miklum skemmdum og bryggjan i Krossanesi er gjöreyðilögð. Tjónið nemur þúsundum króna, sem er því tilfinnanlegra nú, er síldarútvegur átti að fara að byrja.

Siglufirði í gær: Litill ís er hér nú — aðeins nokkrir jakar i stangli. Norðanátt með úrkomu hér í gær. Snjóaði alveg niður í byggð og öll fjöll hvít. Húsavik i gær: Skjálfandi er nú fullur af ís. Krapasnjór í nótt sem leið. Útlit hið versta. 

Í þessu kasti rak mótorbát upp í Gerðum og brotnaði hann í spón (Morgunblaðið 14.).

Morgunblaðið segir frá frostnóttum þann 20.:

Hörð tíð hefir verið austanfjalls undanfarandi. Kartöflugras er víða rótsölnað, því frost hafa verið margar nætur í röð, og því horfur á að alger uppskerubrestur verði.

Og þann 23. er í blaðinu kvartað undan vatnsskorti á Suðurnesjum, allir brunnar og lindir séu þurr vegna þurrka. 

En þurrkur var góður fyrir heyskap segir í frétt í Morgunblaðinu þann 25. júlí:

Eyrarbakka i gær. Tíðin er hér afbragðsgóð og svo miklir þurrkar, að annars eins eru ekki dæmi um tuttugu og fimm ár. Hvert heyhár, sem losað er, er þegar hirt.

Þann 27. er enn vikið að þurrkunum í Morgunblaðinu:

Þurrkar. Mikið kvarta bændur hér í nærsveitunum yfir of miklum þurrkum. Víða orðið nær vatnslaust og mestu vandræði að ná í vatn handa skepnum. Kýr mjólka illa — mest af vatnsskorti og sláttur gengur illa vegna þess hve illt er að ná af. En alt sem slegið er, þornar á skömmum tíma, svo eitthvað bætir það úr.

Ágúst: Þurr tíð víðast hvar nema helst suðaustanlands og í útsveitum norðaustan- og austanlands. Fremur kalt norðaustanlands, hlýtt suðvestanlands.

Norðri segir frá þann 7. ágúst:

Nú í fulla viku hefir verið stilling, þoka um nætur og lengst af um daga. Hafgola síðari hluta dags. Loftið alltaf kalt, og hefir því gras lítið sprottið.

Góðar fréttir af Snæfellnesi (Morgunblaðið 11. ágúst): „Stykkishólmi í gær: Hér er alltaf einmuna tíð. Heyskapur gengur ágætlega, því jafnharðan þornar af ljánum“. Daginn eftir er bætt við frá sama stað: „Mikið kvartað undan vatnsleysis hér. Brunnar víða alþurrir og fólk verður að sækja vatn í fötum langar leiðir“. 

Eftir þann 20. ágúst hljóp í nokkra rosa og hvassviðri. Morgunblaðið segir frá, fyrst þann 25. og síðan þann 27.:

[25.] Sauðárkróki í gær: Afskapa stormur hefir verið hér síðustu 3 dagana. Mikið hefir fokið af heyi hjá bændum. Máttu þeir illa við því, þar sem heyskapur hefir verið með minna móti í sumar, grasspretta slæm. Vestmannaeyjum í gær: Suðaustanrok hér síðustu daga og mikill sjór.

[27.] Akureyri í gær: Suðvestanstormar hafa verið hér undanfarna daga og versta veður. Hefir skipum ekki gefið á sjó og því ekkert aflast af síld þessa dagana.

Austri segir frá tíðinni þar um slóðir þann 28. ágúst:

Tíðarfar hefir verið heldur stirt þessa viku. Fyrri hlutann rosatormar af suðri, með ákaflega miklu mistri, nú utanrok og hrakviðri, og snjóar i fjöll.

September: Góð tíð og hlý lengst af.

Morgunblaðið segir þann 14. frá bláberjasprettu:

Aldrei í manna minnum hefir verið jafnmikið um bláber hér á Suðurlandi, sem nú. Fólk, sem farið hefir i berjamó upp i Mosfellssveit hefir tínt marga potta á nokkrum klukkustundum. Að líkindum gerir það hinn mikli þurrkur og blíðviðrið, sem verið hefir í sumar.

Haustið byrjaði vel. Fréttir birtu eftirfarandi pistla þann 3. og 4. október:

[3.] Hrútafirði 26. sept. Héðan er nú alt það besta að frétta, ágætis áran á alla lund. Tíðin hefir verið með afbrigðum góð í sumar; að vísu nokkuð kalt framan af og grassprettan því í lakara lagi. — En þessir dæmalausu þurrkar i alt sumar hafa komið öllu í ákjósanlegt horf. Heyskapur víðast hvar í góðu meðallagi, og heyin fyrirtaks góð, — eitthvað annað en í fyrra.

[4.] Siglufirði í gærkveldi. Hér er nú hin ágætasta tíð sem menn hafa þekkt á þessum árstíma. Logn og sólskin alla daga. Ganga kýr úti enn, sem er með öllu óvanalegt hér. Síldveiðamenn eru nú allir farnir og hafa þeir haft afarmikinn hagnað af veiðinni. Reytingsfiskur er hér en heldur smátt.  

Sauðarárkróki í gærkveldi. Tíðin er hér svo góð nú, að menn muna ekki aðra eins um þetta leyti. 

Október: Mjög hagstæð og hæg tíð, en nokkuð votviðrasöm. Mjög hlýtt.

Þann 7. október segir í Fréttum - að í Stykkishólmi eru menn fegnir regninu, en síður í Vík í Mýrdal:

Stykkishólmi í gærkveldi: Rigning hefir verið hér allmikil þrjá síðustu daga og hefir það komið sér mjög vel vegna neysluvatns. Því að brunnar þornuðu í sumar við sífelda þurrka og horfði til stórvandræða af vatnsleysi. Vík í Mýrdal í gær: Ótíð hefir verið hér mjög lengi. Rigningar svo miklar, að bændur hafa ekki getað þurrkað hey sín og stórviðri og brim svo ekki hefir gefið á sjó vikum saman. Mótorskipið „Óskar“ sem hér gengur milli og Vestmannaeyja, hefir ekki getað komið hingað langa tíð vegna brimsins.

Ísafold segir þann 16.:

Veðrátta hefir verið svo hlý alt haustið hér sunnanlands, að elstu menn muna eigi slíkt. En úrfellissamt í meira lagi. Fyrsta snjó á Esjunni gat að líta í gærmorgun. Þá voru og Mýrafjöllin alhvít.

Þann 17. eru Fréttir með fréttir af Markarfljóti:

Nú er Markárfljót [svo] farið úr Þverá og fellur í sinn rétta farveg meðfram vesturhlíð Eyjafjalla.Hefir það legið í Þverá síðan 1895 og gert mikil jarðspjöll i Fljótshlíðinni, einkum innanverðri og tekið hefir hún tvö mannslíf á þeim tíma. Það er gömul sögn að Fljótið liggi 20 ár í hvorum stað og svo hefir það reynst nú, enda á þessi sögn við ofur eðlileg rök að styðjast, því það er einmitt sá tími sem vatnið þarf til þess að bera aur og leðju undir sig þar til svo hátt verður að það skiptir um farveg.

Þann 21. og 25. birti Fréttir pistla frá Eyrarbakka:

[21.] Eyrarbakka í gær. Ofsarok er hér nú og má búast við skemmdum. Á hverri stundu getur kaupskipið Nauta slitnað upp og farið í spón á skerjagarðinum. Önnur landfestin er þegar slitnuð. Í gærkvöldi var öllum mönnum bjargað úr skipinu.

[25.] Nauta, kaupfarið hér, Var nær strandað eins og áður var sagt, og hafði önnur landfestin slitnað en þá lygndi snögglega svo að það bjargaðist. Er það nú lagt af stað til Hafnar. Veðurblíða óvenjumikil er nú hér og sjórinn spegilsléttur. Óskar, flutningabáturinn, kom hingað í dag og fór aftur. 

Og Morgunblaðið segir um tíðina þann 27. október:

Um þetta leyti í fyrra var kominn ís á Tjörnina. Nú er hér hver dagurinn öðrum hlýrri — alveg eins og á vori væri. Eru ekki margir dagar síðan að nýútsprunginn fífill fannst hér uppi á túnum. Lauf er enn eigi fallið af trjám í görðum hér og mörg tré hafa enn græna laufkrónu.

Nóvember: Hagstæð tíð. Fremur hlýtt.

Fyrsta vikan var mjög hlý og með október einskonar sumarauki fyrir norðan eins. Sagt var frá því að útlendar blómplöntur í görðum hefðu þá seint um síðir verið að blómgast (enda sumarið aumt) [Fréttir 15. nóvember].

Morgunblaðið segir frá þann 1. nóvember:

Fyrsta næturfrostið. Það varð í fyrrinótt hér í bænum, 31. október, og hefir ekki í manna minnum komið jafnseint á árinu. Vanalega eru margar frostnætur í septembermánuði. Vér áttum tal um þetta við einn áttræðan borgara, sem dvalið hefir mestan hluta æfi sinnar hér í bænum. Hann kvaðst ekki muna eins ágæta tíð, sem þetta árið. Og hann bætti því við: Þetta er veltiár fyrir oss Íslendinga. Ég hefi aldrei vitað jafnmikla peninga manna á meðal sem nú. Bara það haldist.

Allmikið norðanveður gerði þann 6. til 8. Þann 6. gerði allmikið brim í Reykjavík. Morgunblaðið segir frá því þann 7.:

Brim töluvert var hér í gær með háflóðinu. Skall sjórinn upp að uppfyllingunni fyrir neðan Hafnarstræti og skolaðist allmikið af mold á burt. Urðu verkamennirnir að flytja járnbrautarteinana, sem voru á barminum, lengra á land. Brotsjóar skullu yfir grandagarðinn i sífellu, en skemmdir urðu engar.

Brim olli tjóni vestur í Bolungarvík. Fréttir segja frá þann 9. - en draga svo heldur úr daginn eftir:

[9.] Bolungarvík í gær. Brimbrjóturinn hér skemmdist allmikið í ofveðrinu í dag. Eyðilagði brimið algerlega 10 stikur af brimbrjótnum, eða fullan helming þess sem byggt var af honum í sumar.

[10.] Brimbrjóturinn í Bolungarvík hefir ekki skemmst eins mikið og menn ætluðu í fyrstu, og nú hefur lygnt svo, að hann er úr frekari hættu. Efri hleðsla hans hrundi inn af og getur það orðið góð undirstaða undir breikkun hans, sem að vísu var nauðsynleg, þar sem hann var hafður of mjór í fyrstu.

Þann 11. nóvember gat Morgunblaðið þess að Tjörnina í Reykjavík hafi lagt aðfaranótt þess 10. Skömmu síðar varð ísinn mannheldur og þann 14. getur blaðið þess að alhvítt hafi orðið í fyrsta sinn á haustinu í Reykjavík „í fyrrinótt“. 

En svo kom aftur frétt af gróðri í Morgunblaðinu þann 20.: 

Útsprungnir fíflar og sóleyjar sjást nú víða í görðum og á túnum hér í bænum. Mun það vera sjaldgæft mjög um þenna tíma ársins. Tún og blettir eru hvanngrænir alls staðar hér í grennd.

Undir lok mánaðarins gerði aftur nokkurt illviðri. Þá fórust 17 menn af þremur bátum, tveimur úr Bolungarvík, en einum úr Aðalvík. Skemmdir urðu á Siglufirði þann 29. í norðaustanveðri - Fréttir segja frá þann 30.:

Siglufirði i gær: Norðaustan rok var hér í nótt sem leið, og braut það eina af bestu bryggjunum hér, átti hana Bretevig síldarkaupmaður. Voru það tvær bryggjur út, en pallur milli þeirra að framan. Allt fór þetta í smátt og liggur spýtnaruslið i fjörunni. Ekki urðu aðrar skemmdir verulegar af roki þessu. Súldarveður er í dag og frostlaust.

Þann 10. desember birti Morgunblaðið bréf úr Laugardal, dagsett 1. desember:

Tíðin ágæt, svo að elstu menn muna varla slíkt. Eru menn nú fyrst að taka lömb i hús og kenna þeim átið. Enginn snjór kominn enn, að eins á hæstu fjöllum hefir gránað lítilsháttar. Þykir okkur það óvanalegt hér uppi við fjöllin, því fremur hefir „dalurinn“ okkar fengið orð fyrir það að vera snjóakista. Fyrir nokkru síðan gerði hér rigningu mikla. Hljóp þá vöxtur í allar sprænur, svo þær flæddu yfir engjar og mýrar. Þegar vatnið fjaraði, fundust silungar dauðir og lifandi uppi um mýrar og meðfram vegum. Frá einum bæ fundust 60 og frá öðrum minna. Þykir þetta allmerkilegt, og hefir ekki komið fyrir í elstu manna minnum.

Desember: Hagstæð tíð á Suður- og Vesturlandi, en heldur síðri norðaustanlands. Fremur kalt. Nokkuð snjóaði fyrir miðjan mánuð. 

Vísir segir frá þann 15.:

Akureyri í gær: Undanfarinn hálfan mánuð hafa verið hér nær stöðugar hríðar og er því mikill snjór á jörðu. Frost er hér enn, en mildara.

Enn var vitnað í elstu menn í frétt Morgunblaðsins 21. desember af ofviðri í Landeyjum:

Miðey í Landeyjum i gær: Afspyrnurok var hér í nótt. Elstu menn muna ekki eftir öðru eins. 2 símastaurar brotnuðu, annar þeirra í 4 hluta — og því er ekkert samband við Holt undir Fjöllum eða Vik i Mýrdal. Búist er við að meiri skemmdir hafi orðið, þótt ekki séu enn komnar fregnir af því.

Og jólin urðu rauð í Reykjavík ef marka má frétt Morgunblaðsins 27. desember:

Rauð jól. Þess munu fá dæmi að jól hafi komið hingað svo rauð sem nú. Ekkert snjókorn neinsstaðar og haustbragur yfir öllu. En munnmælin segja að þá eigi að verða hvítir páskar. Væri það óheppilegt, því að nú eru sumarpáskar.

Hér lýkur frásögn af veðri og tíð 1915 - að vanda má finna tölur í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lítið ber á vori

Sem stendur ber lítið á vorinu - að öðru leyti en því að mikið er farið að muna um hækkandi sól í baráttu við klaka og annan slíkan ósóma. 

w-blogg030418a

Við sjáum á norðurhvelskortinu að landið er langt inni í bláu litunum. Litirnir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Kuldapollar norðurhvels eru þó nokkuð farnir að láta á sjá og eru farnir að skiptast upp í marga smærri. Fjólublái liturinn er líka orðinn mun minna áberandi en til þessa - ætti þó að lifa eitthvað frameftir apríl á blettum. 

Eins og sjá má er mjög mikil og hlý hæð við strendur Austur-Síberíu - kuldinn kemst ekki þangað meðan hún er þar og þar sem hann verður víst að vera einhvers staðar eru þá meiri líkur á að hann plagi okkur. 

Staðan virðist eiga að verða svipuð hjá okkur í fáeina daga - en um næstu helgi gæti hlýnað eitthvað - sé að marka spár og evrópureiknimiðstöðin er eitthvað að tala um hugsanlegar sunnanáttir í næstu viku - hvað svo er að marka það. 

En þetta eru svosem ekki nein illindi. 


Bloggfærslur 3. apríl 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 43
  • Sl. sólarhring: 238
  • Sl. viku: 1359
  • Frá upphafi: 2349828

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 1236
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband