En það kemur hægt og hægt

Segir um vorið í ljóði Jóns Magnússonar úr Fossakoti í Andakíl og sungið er við lag Sigvalda S. Kaldalóns. Í heiðhvolfinu er vorkoman að jafnaði snögg - á sér stað þegar vindátt snýst varanlega úr vestri í austur. Hefur reyndar verið með flatneskjulegra móti í þessum mánuði.

Umskiptin niðri í veðrahvolfi eru líka skyndileg - en þó þannig að þau sjást mun betur í meðaltölum heldur en í veðri frá degi til dags - erfitt oft að negla skiptin niður á ákveðna dagsetningu hverju sinni. Þannig er það einnig nú. Það dregur eindregið úr afli heimskautarastarinnar, og kuldapollarnir stóru dragast saman og fara loks úr sínum hefðbundnu sætum og taka að reika um norðurhöf - stefnulítið. Í þeim lifir vetrarkuldi furðulengi og sýnir sig þar sem leiðin liggur um hverju sinni. - Stöku sinnum meira að segja hér á landi.

w-blogg230418a

Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina þriðjudaginn 24. apríl. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hér er sumarið nokkuð langt frá Íslandi, ritstjóri hungurdiska miðar oft við mörkin milli grænu og gulbrúnu litanna sem einkenni sumarsins. Guli liturinn skýst stundum norður til okkar á vetrum - og verður smám saman ágengari eftir því sem hið venjubundna sumar nálgast. 

Þegar komið er fram á hörpu viljum við helst ekki vera í bláa litnum - getum sætt okkur við þann græna - svona til bráðabirgða. Ljósasti græni liturinn er reyndar algengur hér allt sumarið og ekki stórkostleg ástæða til að kvarta undan honum nema þá rétt í júlímánuði. 

En það er líka langt í verulega kulda. Kuldapollarnir stóru hafa mjög látið á sjá - en eru þó hér enn á sínum eðlilegu aðalstöðvum, eyjunum norður af Kanada og norðurströnd Síberíu. Töluverð fyrirferð er í kaldri útrás yfir Bergingshafi og Aljúteyjum og tekur hún í bili dálítinn „þrýsting“ af kuldasóknum í átt til okkar. 

En eins og oft hefur verið á minnst hér á hungurdiskum áður er tímabilið frá sumardeginum fyrsta og fram undir 20. maí eiginlega sérstök árstíð á Íslandi, fellur vel að mánuðinum hörpu. Þá eru norðannæðingar hvað tíðastir og sólfar mest. Sést í meðaltölum en alls ekki á hverju ári. Allt þó í góðu lagi sé vindur ekki mikill - og friður fyrir kjörnum kuldapollanna. Þar eru leiðindin.  

Spurning hvernig harpa fer með okkur að þessu sinni. 


Bloggfærslur 23. apríl 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 21
  • Sl. sólarhring: 221
  • Sl. viku: 1337
  • Frá upphafi: 2349806

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 1218
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband