Vestanloftið hörfar (væntanlega) á ný

Að undanförnu hefur vestanloft nokkrum sinnum sótt í átt til landsins en þurft að láta undan síga. Veðurnörd hafa með nokkurri ánægju fylgst með þessum (hæglátu) átökum. Nú er þetta að gerast rétt einu sinni. Kuldaskil koma úr vestri - ná kannski inn á landið um stund en hörfa svo aftur til vesturs. 

Spár gera í augnablikinu (að kvöldi 11. apríl) ráð fyrir því að skilin nái sinni austustu stöðu í fyrramálið (fimmtudag) - en harmonie-spárnar tvær fara mislangt með þau.

Lítum fyrst á dönsku harmonie-iga spána. Kortið gildir kl.11 á fimmtudag - skilin þá í sinni austustu stöðu að mati líkansins.

w-blogg110418a

Austan skilanna er ákveðin sunnan- og suðaustanátt, en mjög hæg norðvestlæg átt vestan þeirra. Líkanið segir skilin ná inn á vesturhluta Reykjavíkur áður en þau fara að hörfa aftur til vesturs. Auk munar í vindátt og vindhraða munar líka nokkru í hita lofts austan og vestan skila. 

Harmonie-líkan Veðurstofunnar er nærri því sammála - en ekki alveg.

w-blogg110418b

Hér eru skilin líka í sinni austustu stöðu - en ná aðeins að Strandarheiði áður en þau hörfa aftur til vesturs - og hér er klukkan 10. 

Í reynd er þetta sáralítill munur - en skemmtilegur samt. Vestanloftið mun gera enn eina tilraunina á laugardaginn - hvernig skyldi fara þá?


Af árinu 1749

Nú förum við svo langt aftur að lítið er um tíðarfarsupplýsingar að hafa nema úr annálum. Þeir ná allnokkrir til þessa árs og gefa hugmynd um hvernig veðri var háttað. En árið er merkilegt í sögu veðurathugana á Íslandi fyrir þá sök að þá hófust í fyrsta sinn daglegar mælingar á hita og loftþrýstingi. Þær gerði sérlegur útsendari vísindafélagsins danska, Niels Horrebow allþekktur maður á sinni tíð. 

Jón Eyþórsson fjallar um þennan merkilega áfanga í tímaritinu Veðrinu (1. árgangi 1956, s.27). Þar má lesa um ýmsa vankanta á mælingunum - nokkra óvissu um kvörðun hitamælis, athugunartímar eru óljósir auk þess sem hitamælir hékk lengst af inni í óupphituðu húsi - en ekki utandyra. 

Horrobow fer fögrum orðum um veðurfar á Íslandi og víst er að mælingar hans hröktu ýmsar eldri bábiljur um það. Hann mældi nánast samfellt frá 1. ágúst 1749 fram í júlí 1751. Síðasta mæling 30. júlí. Jón Eyþórsson segir (og vitnar líka í Horrebow):

Með hitamælingum sinum verður hann fyrstur manna til að sýna og sanna, að veðrátta á íslandi er hvergi nærri svo köld eða landið svo óbyggilegt sem orð fór af. Veturinn er umhleypingasamur, ýmist frost eða þíða — alveg eins og i Kaupmannahöfn. Sumarið sé, sem vænta mátti, nokkru kaldara en i Danmörku, en mismunur þó minni en margur mundi ætla. Helsti munur á veðurlaginu sé sá, að kuldar haldist lengur fram á vorið á Íslandi. Bæði árin hafi gengið á með frostum fram í miðjan apríl, og 15. maí 1751 hafi jafnvel myndast hálfs þumlungs þykkur klaki á pollum yfir nóttina. Hitabreytingar eru ekki eins stórstígar á Íslandi og í Danmörku. En það ætti að vera kostur, því að „hóf er best l hverjum hlut." Höf. segir, að veðráttan á Íslandi hafi átt vel við sig, enda svipi henni miklu meira til veðráttu á Norðurlöndum en á Grænlandi, þvert á móti því, sem flestir mundu halda.

Síðan reiknar Jón mánaðameðaltöl, ber saman við meðalhita í Reykjavík 1901 til 1930- og segir að lokum:

Þessi samanburður sýnir, að öll mánaðameðaltölin geta vel staðist, en vitanlega eru þau ekki örugg, þar sem athuganatíminn er á reiki og ekkert vitað með vissu um nákvæmni hitamælis. Sennilega ætti að lækka öll meðaltölin um 0,5-0,8 stig.

arid_1749-horrebow

Myndin sýnir hita- og loftþrýsting á Bessastöðum síðari hluta árs 1749. Haustið gengur nokkuð eðlilega fyrir sig. Höfum í huga að hitamælirinn er meira varinn en sagt er fyrir um nú á dögum. Saga Reaumur-hitakvarða og mæla er afskaplega skrautleg svo ekki sé meira sagt - og hvorki komst fastur skikkur á kvarða né mælana sjálfa fyrr en um 1770. Ýmsar aðrar gerðir mæla voru örugglega áreiðanlegri á þessum tíma t.d. Fahrenheitmælarnir. 

Þann 3. september segir Horrebow frá miklu hvassviðri skall á um kvöldið og stóð alla nóttina. Aðfaranótt 9. september frysti - segir hann í athugasemd. Við sjáum á línuritinu að einnig hefur verið kalt að deginum. Í kringum fyrsta vetrardag kólnaði talsvert og snjókomu fyrst getið 30. október. Kaldast varð svo um miðjan desember. 

Á Þorláksmessu getur hann almyrkva á tungli - á sama tíma stóð norðurljósasýning yfir. Oft er norðurljósa reyndar getið. Jólaveðrið var gott - blés nokkuð á jóladag, en síðan komu nokkrir léttskýjaðir, hægir og mildir dagar. 

En við skulum athuga hvernig annálar lýsa tíðarfari ársins 1749. 

Sauðlauksdalsannáll er knappur:

Árferði á Íslandi í meðallagi. 

Vetur frá jólum byrjaðist góður. Gjörði skorpu frá geisladegi til góu. Batnaði þá og varð gott. Sá vetur var allur, bæði fyrir og eftir jól, með iðulegum vindum á austan og landsunnan, en sjaldan af öðrum áttum. [Ölfusvatnsannáll]

Frost og kuldar frá nýja árinu og allt til þorraloka. Ekki varð róið vestan Jökul allan þorra út fyrir ísalögum og norðanstormum. Jarðbönn beggja megin Jökulsins það í frekara lagi verið hafði í 40 ár. ... Hlánaði með góunni og tók víðast upp jörð nálægt. ... Hafís rak inn á þorranum fyrir norðan land; honum fylgdi í mesta máta viðarreki, því að kuldar með frostum og hörkum voru allan þorrann út, en með góu (s599) batnaði nokkuð og hlánaði, en best með einmánuði, og bærileg veðurátta var fram til krossmessu. [Grímsstaðaannáll]

Þorri var einn hinn harðasti norðan lands, með hríðum, snjóum og jarðbönnum. Kom ís. Gekk hrossafellir víða, fjár- og nautaskurður. [Höskuldsstaðaannáll]

Byrjaðist árið, so sem hið fyrra endaði, með stórum óveðrum og snjóföllum, so varla mundu menn slíkt. Féll þá fjöldi hrossa í hungri og hor, líka (s20) lógað fjölda sauðfjár af heyjum. Létti ei þessum harðindum fyrr en í miðgóu. Þá þiðnaði fyrst. [Íslands árbók]

... ok gjörði síðan hinn mesta harðinda vetur, svo at hestar féllu af hungri ok megurð víða um land, ok sauðfénadi var lógat 20 eða 30 á bæ; var það þó mest fyrir sunnan ok austan; þó getur eigi Doktor Hannes biskup þess vetrar sérílagi, en Þorsteinn prófastur Ketilsson víkur á, at þau ár hafi allhart verið austur ok norður; létti nokkuð ok hlánaði í fyrstu viku gói. Víða urðu menn þá úti í hríðum, og skip fórust. [Espólín] 

Þetta ár byrjaði eins og hitt endaði með óveðrum, snjó og harðindum svo menn mundu varla slíkt. Þorri var einn hinn harðasti norðanlands með hríðum, snjóum og jarðbönnum. Kom ís. Stærri harðindi syðra og eystra. Með góu hlánaði og batnaði veðrátta. [Djáknaannálar]

Jón (eldri) Jónsson á Möðrufelli segir (heldur ritstjórinn, en er illa læs á texta hans) að frá góukomu hafi gengið stöðug blíðviðri. 

Um afgang ársins segja annálarnir:

Vorið var kalt, vott og vindasamt til imbrisviku, batnaði þá með trinitatissunnudegi [1. júní] og varð mikið gott, bæði til lands og sjávar, svo sumarið var eitt af þeim bestu. Haustið vott og vindasamt með rosaveðráttu. ... Vetur til jóla var einn hin besti. [Ölfusvatnsannáll]

Vorið í betra lagi. (s488) ... Sumarið var, líka haustið, óstöðugt að veðuráttu. Fjúksamt undir og um jól. (s489) [Höskuldsstaðaannáll]

Vorið viðraði alls staðar vel. (s21) Þetta sumar var graslítið og ill nýting heyjanna sakir votviðra. (s22) [Íslands árbók]

Þá var vorveðrátta allgóð á landi hér, ok fiskafli vestra ok syðra, varð þó bæði grasbrestur ok nýttist illa síðan. [Espólín] 

Vorið í besta lagi um allt land; sumar óstöðug, féll því báglega heyskapur bæði vegna grasbrests og votviðra. Haust óstöðugt og fjúkasamt undir og um jól. [Djáknaannálar] 

Á Jóni á Möðrufelli er helst að skilja að vorhret hafi ekki hnekkt gróðri nema tvisvar, en frá miðju sumri til Mikaelsmessu (28. september) hafi tíð verið votsöm og höstug, málnytjar daufar. Eftir það öndvegi fram undir jól. Óþrif hafi verið í skepnum og mjólkurbrestur af þrárigndu heyi og léttgæfu sem kveikti maðka í fénaði. Hey hafi hrakist á Suðurlandi. - En takið lestur ritstjórans ekki of bókstaflega. 

Að venju er allnokkuð um slys, einkum á sjó og fáeinir urðu úti. 

Grímsstaðaannáll segir allítarlega frá óhöppum þar í grennd:

Þann 14. Februarii brotnaði skip í Beruvík af þeirri orsök: Þar reru tvennir um morguninn og gerði stórviðri norðan með hinu mesta kafaldi; komust aðrir upp undir Stórueyri, hleyptu þar upp til skipbrots, komust allir með lífi á land. ... Aðrir lentu heima, þar langt austan lendinguna; var hjálpað af mönnum, bæði þeim og skipinu, lítt eður ekki brotnu. ... Þennan sama dag voru 2 menn sendir með fé frá ... Ingjaldshóli, var nær 20 annars hundraðs, fengu stórviðri með kafaldi, hröktust svo bæði féð og mennirnir. Þriðji maðurinn bættist við frá Beruvík, misstu frá sér allt féð, ... ; fundust daginn eftir 30 sauðir lifandi, en yfir 100 hraktist út í sjó ...

Í þessari sömu viku tók sjórinn allt féð á Grímsstöðum í Breiðuvík [annálshöfundur bjó þá þar]. Tveir menn fóru að vitja þess, þá kafaldið var komið, komust í bólið og lá(gu) þar fram (s598) á nóttina, en fundu engan sauðinn; komu heim á sömu nótt nærri dauðir, en féð fór allt, sem fyrr segir, út í sjó, nema fáeinir sauðir. 17. Februarii, nær í sömu viku, varð skiptapi í Dritvík, þar í lendingunni, í norðan stórbrimi. ... Þar dóu 7 menn, en 2 komust af. Fimm skip önnur voru þar ei að komin; þorðu engir af þeim að lenda, því þá var komið fellibrim, og voru sumir þeirra á legunni, þegar fyrr á minnst skip forgekk, andæfðu svo um nóttina framundan Djúpalónssandi, en reru þó fyrst austur undir eyjar; var þar stórviðri austan fyrir. Lentu svo í Dritvík um morguninn, og tókst öllum vel. Hlánaði með góunni og tók víðast upp jörð nálægt. ... Tveir menn urðu úti í Breiðafjarðardölum og kólu til dauðs og aðrir tveir urðu úti heim í hreppum; annar fór frá Miklaholtskirkju, ... hinn varð úti á Laxárbakka með fé sínu ...

Espólín segir frá nokkrum óhöppum:

Þrjár konur urðu úti í Fellum í Ássókn, er þær fóru heim frá kirkju, en fjórðu aldraða kól til skaða; maður varð úti á Ströndum norður, annar í Borgarfirði, einn í Breiðdal, tveir drukknuðu eystra, og einn hrapaði.

Djáknaannálar segja einfaldlega að margir menn hafi orðið úti í hríðviðrum hér og hvar um landið. 

Djáknaannálar segja einnig frá jarðskjálftum og geta einnig um orm í Kleifarvatni:

Skeði jarðskjálfti, sem einkum varð að skaða í Ölvesi, jafnvel þó vart yrði við hann í Borgarfirði, svo Skrifla, sem er hver í Reykholtsdal, minnkaði og kældist. Bærinn Hjalli ásamt kirkjunni sökk 2ja álna djúpt í jörðina. (s 73).

Sáu karlar og konur, sem voru að heyverki við Kleifarvatn, mikinn orm, sem skreið upp úr vatninu á eitt rif, sem lá fram í vatnið, og var það hér um 2 stundir til þess hann fór fram í það aftur. Enginn þorði nærri honum að koma. Þessi ormur sást oft, stór sem meðal hvalur, 30 til 40 ál(na) langur. (s 73).

Vonandi eru einhverjir eftir lesturinn einhverju nær um veðurlag ársins 1749 - annálar ekki alveg sammála í smáatriðum enda sjónarhorn og ritunartími misjafn. 

Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir tölvusetningu flestra annálanna og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir tölvusetningu árbóka Espólíns (ritstjóri hnikaði stafsetningu til nútímaháttar). 


Um fyrstu tíu daga aprílmánaðar

Nú er þriðjungur aprílmánaðar liðinn. Meðalhiti fyrstu tíu dagana er 1,9 stig í Reykjavík, +0,2 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1961-1990, en -1,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er því í 13.hlýjasta sæti á öldinni (af 18), en í 73. sæti í 144-ára listanum. Það eru sömu dagar 1926 sem eru efstir á þeim lista, meðalhiti +6,6 stig, en kaldastir voru þeir 1886, meðalhiti -4,5 stig.

Á Akureyri er meðalhiti mánaðarins það sem af er -1,0 stig, -1,4 stigum neðan meðallags 1961-1990, en -3,0 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Nokkuð kalt, en þó er vitað um 17 kaldari aprílupphöf á Akureyri síðustu 83 árin. Kaldast 1961. Þá var meðalhiti sömu daga -6,1 stig.

Úrkoma hefur aðeins mælst 4,9 mm það sem af er mánuði í Reykjavík, um fimmtungur meðalúrkomu, en 16 mm á Akureyri og er það umfram meðallag.

Hiti er alls staðar undir meðallagi síðustu tíu ára á landinu, minnst er vikið á Hornbjargsvita -0,6 stig, en mest á Brúarjökli og við Kárahnjúka, -5,4 stig.

Tvö ný dægurlandslágmarksmet hafa verið sett í mánuðinum. Þann 5. mældist frostið á Brúarjökli -20,7 stig, hafði mest mælst -18,9 stig áður þennan dag, og þann 6. mældist frostið -22,8 stig, hafði mest mælst -22,3 stig áður þennan dag, í Grímsey 1968 (stendur sú tala enn sem byggðarlágmark dagsins).


Bloggfærslur 11. apríl 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 34
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 432
  • Frá upphafi: 2343345

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 388
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband