Kólnandi

Þegar þetta er skrifað (laugardaginn 3. mars) erum við enn inni á áhrifasvæði hæðarinnar miklu sem kom úr austri í vikunni. Hún er nú komin vestur fyrir land. Hún var mjög öflug. Loftþrýstingur fór hér á landi í yfir 1040 hPa - það er í sjálfu sér ekki svo ýkja sjaldgæf tala - en samt ekki eitthvað sem sést á hverju einasta ári. Ritstjórinn rifjar það upp fljótlega. 

w-blog030318a

Hér sjáum við stöðuna í 500 hPa-fletinum á hádegi í dag. Hæðin er nú við Suður-Grænland og mjög öflugir vindar blása sólarsinnis í kringum hana - eins og vindörvarnar sýna. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en litir sýna hita (kvarðinn skýrist sé kortið stækkað). Þó kólnað hafi niðri í mannheimum er ekki enn orðið mjög kalt í 5 km hæð. Dökkgræni liturinn sýnir hita á bilinu -28 til -30 stiga frost. 

Nú sem stendur er sum sé tiltölulega kaldara í neðstu lögum, en hlýrra uppi. Slíkt ástand bælir uppstreymi þannig að éljamyndun yfir hlýjum sjónum í kringum landið nær sér illa á strik meðan ástandið er svona. - En það verður það ekki lengi því hæðin er enn á vesturleið - og þar að auki að veikjast og verða áhrif hennar aðeins óbein hér á landi eftir helgina. 

Háloftakortið mun gjörbreytast fram á mánudag. Þá verður líka búið að hreinsa hlýindin burt úr háloftunum og kalt heimskautaloft úr norðri hefur tekið yfir allt veðrahvolfið. Breytingin er miklu meiri uppi heldur en niðri - hæðin yfir Grænlandi (sú hin neðri) lætur sem ekkert sé - þó hún hafi í raun alveg skipt um bakland og eðli.

w-blog030318b

Já, þetta er sama svæði, Ísland í miðju rétt eins og á hinu kortinu, en það hefur kólnað um meir en 10 stig í 500 hPa-fletinum. Neðri lög voru búin að taka út hluta af kólnuninni þannig að hún verður ekki eins mikil þar - kannski í kringum 5 stig. 

Aftur á móti þýðir þetta að veðrahvolfið verður orðið opið fyrir uppstreymi yfir hlýjum sjó og þar með eykst éljamyndun, og munu éljagarðar fara á kreik í kringum landið. Þeirra gætir væntanlega mest norðanlands - í hafáttinni, en vegna þess hve háloftavindar verða orðnir hægir er líka möguleiki á að bakkar komi við sögu í öðrum landshlutum. - En erfitt er um slíkt að spá á þessu stigi máls. 

Við skulum líka líta á mánudagsstöðuna á stærri kvarða.

w-blog030318c

Hæðin hefur gefið mjög eftir og er þarna yfir Labrador - og almennt má segja að vindar í háloftunum séu hægir - ekki hraðfara breytingar að sjá. Ætli við verðum ekki í tiltölulega meinlitlu og köldu vetrarveðri á næstunni - en vetrarveðri samt. Eina merki vorsins er hækkandi sól - og þar sem hún fær að njóta sín fer að muna um ylinn sunnan undir vegg og á auðri jörð. Það hefur alla vega verið sáð fyrir vori. 


Enn af febrúarstöðunni

Við lítum nú á meðalháloftakort febrúarmánaðar - úr greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg030318a

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins - gríðarsterk sunnan- og suðsuðvestanátt var ríkjandi við Ísland og færði okkur hvert illviðrið á fætur öðru. Daufar strikalínur marka þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Hornið á milli línugerðanna tveggja segir okkur frá því hvort hlýtt eða kalt aðstreymi var ríkjandi. Norðan Íslands var vindur að bera hlýtt loft til norðurs (hærri þykkt í átt að lægri), en suðvesturundan bar hann kalt loft til norðausturs (lægri þykkt í átt að hærri). 

Litirnir sýna svo þykktarvikin - og þar með hversu staða hitans í neðri hluta veðrahvolfs var miðað við meðaltal mánaðarins. 

Gríðarkalt var vestan Grænlands - kuldapollurinn Stóri-Boli enda sterkari en venjulega - þó hann hafi setið um það bil á „réttum“ stað. Við höfum ekki enn séð hitatölur frá Vestur-Grænlandi en þær hljóta að vera lágar - langt undir meðallagi febrúarmánaðar. Sömuleiðis var kalt í Evrópu - sérstaklega í Eystrasaltslöndum (lengra sjáum við ekki á þessu korti). Fyrir norðan land voru hins vegar óvenjuleg hlýindi - bæði á Norðaustur-Grænlandi og á Svalbarða. 

Hér á landi var hiti ekki fjarri meðallagi - hlýrra þó norðaustanlands heldur en á Suðurlandi. Mikil úrkoma fylgir svona eindreginni sunnanátt - sem þó var af norðlægum uppruna ef segja má - það sjáum við af lægðasveig jafnhæðarlínanna. 

Það verður að teljast tilviljanakennt hvar miðja Stóra-Bola heldur sig á hverjum tíma - en Grænland og lega meginlanda og úthafs hefur þó áhrif á stöðu og hreyfingar hans. Miðjan er þannig mun tíðar vestan Grænlands en austan - og ef hún fer austur fyrir á hún þar erfiðara líf, en það kemur þó fyrir eins og við reyndar urðum vitni að í vetur. 

En mars byrjar með allt annarri stöðu, mjög jákvæðum þykktarvikum vestan Grænlands en neikvæðum austan þess. Miðja Stóra-Bola er hins vegar ekki nærri okkur og að auki mun aflminni en var í febrúar. Skot frá honum gætu þó farið að berast til okkar um eða eftir miðja næstu viku - þá með snjókomu að því er spár eru að gefa í skyn. En rétt er að taka þær spár ekki of hátíðlega enn sem komið er.

Við þökkum Bolla að vanda fyrir kortið. 


Bloggfærslur 3. mars 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 315
  • Sl. sólarhring: 338
  • Sl. viku: 1889
  • Frá upphafi: 2350516

Annað

  • Innlit í dag: 237
  • Innlit sl. viku: 1686
  • Gestir í dag: 223
  • IP-tölur í dag: 223

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband