Páskahret - eða?

Sannleikurinn er sá að þeir sem reyna mikið geta oftast fundið eitthvað sem kalla má páskahret ársins - alla vega í spám. Hins vegar hefur ekkert páskahret sem nær nokkru máli gert hér á landi síðan á skírdag 1996. Nú er dymbilvika hafin og allt sem mögulega getur tengst kulda eða snjó í þeirri viku - og þeirri næstu verður tengt hugtökunum hreti og páskum. 

Jú, það má í dag finna spár sem gera ráð fyrir kulda. Sú sem er einna mest krassandi gildir á annan dag páska - eftir viku. Tillaga evrópureiknimiðstöðvarinnar er hér að neðan.

w-blogg260318a

Hiti í 850 hPa-fletinum er sýndur með litum, spáð er að hann verði neðan við -18 stig yfir landinu norðanverðu. Jafnþykktarlínur eru heildregnar - það er 5080 metra línan sem liggur um landið þvert. Alvöru vetur. 

En langtímaspár hafa ákveðna tilhneigingu til að ýkja kulda og meðalspáin sem gildir á sama tíma (50 spár) segir þykktina verða 5016 metra - kalt að vísu en ekki nærri því eins og spáin hér að ofan segir.

Bandaríska spáin nú í kvöld er reyndar enn kaldari - þykktin yfir miðju landi ekki nema 5040 metrar og þar að auki er hún að gefa til kynna mögulegt hríðarveður á Suðurlandi. 

Heldur er þetta nú vafasamt allt saman - en langtímaspár eru stöku sinnum réttar. Við bíðum og sjáum hvað setur.


Af árinu 1805

Þá er farið til ársins 1805 (löngugleymt ár - öllum hér á Fróni). Það var eitt af hægstæðari árum síns tíma - upplýsingar þar um þó öllu rýrari en við eigum nú að venjast. Með vissu er aðeins vitað um hitamælingar á einum stað á landinu, hjá Sveini Pálssyni náttúrufræðingi og héraðslækni á Kotmúla í Fljótshlíð. Mælingar Sveins eru þó ekki samfelldar því hann varð starfa sinna vegna að ferðast út og suður um stórt hérað. Vitað er um fleiri hitamæla á landinu, en nær ekkert hefur spurst til skráninga á mælingum þeirra. 

Við hefjum leikinn með því að líta á hitamælingar Sveins.

w-ar1805-Hiti-Kotmúla_1805

Hver mánuður er merktur þann 15. Lóðrétti ásinn sýnir hita. Mælt er um miðjan dag (rautt) og að kvöldlagi (grænt) allt árið, en líka að morgunlagi (blátt) frá og með mars til og með september.

Taka má eftir því að hlýtt var í janúar, aldrei mikið frost, en frost er heldur meira í febrúar, en ekki samfellt. Þá kemur aftur hlákukafli og fór hiti í 12,5 stig um miðjan dag þann 13. mars. Mikið frost gerði fyrstu dagana í maí, stóð þó ekki lengi og hlýir dagar fara að sjást. Nokkrir kaldir morgnar komu seint í ágúst og líka var kalt á daginn um tíma um og upp úr miðjum september. 

Sveinn var mikið á ferðalögum á haustin og vantar þá mikið í mælingarnar, en þegar þær byrjuðu aftur var orðið nokkuð kalt, og mesta frost ársins mældist síðan á aðfangadagskvöld, -15 stig. 

Loftvog Sveins var illa kvörðuð, sýnir breytingar frá degi til dags vel, en erfitt er að vita hver raunveruleg meðaltöl eða útgildi eru. Lægst stóð lofvog hans 1805 í 942,8 hPa þann 17. janúar og hæst þann 1047,1 hPa þann 14. nóvember. Honum finnst síðari talan óvenjulegri en sú fyrri og getur þess að þessi mikli þrýstingur hafi ekki staðið lengi. 

Hann getur um næturfrost bæði 29. og 30. maí (rétt fyrir hvítasunnu) - og síðan 12. júní líka. Aftur gerði næturfrost 27. ágúst og þá spilltist grænmeti í görðum. Dagsetningar þessar teljast varla mjög óvenjulegar í Kotmúla.

Jöklafýlu getur hann um þann 9. október - kannski að þá hafi gert hlaup í einhverja jökulá Mýrdals- eða Vatnajökuls. Það vekur athygli hversu oft gerði þrumuveður í Fljótshlíðinni á þessu ári - en reyndar eru þrumuveður algengari í þessum landshluta en víðast hvar annars staðar. 

Ítarlegustu aðgengilegu lýsingu á tíðarfari ársins er að finna í Brandstaðaannál (blaðsíðutöl í prentaðri útgáfu í svigum):

Sama góðviðri, nokkru óstöðugra, hélst í janúar; vatnsföll auð og hálfþíð jörð. Vermenn fóru Blöndu á þíðu og Svínavatn var ei óhætt að fara. Varð oft ójárnað riðið til kirkju yfir ár og langa leið. Með febrúar lagði vel með stilltum frostum. Var næg jörð til góu. Í byrjun hennar kom hríðarkafli. Lá fönn sú á um 3 vikur og það var allur gjafatíminn, hvar haggott var, þó þriðju viku góu sólbráð og lítil snjókoma; þá til sumarmála vorveðrátta, stundum rosasamt á vestan.

Með sumri skipti um til landnyrðings með frosti og kulda, þó snjólaust utan á [kóngs-] bænadaginn. 12. maí til 14. maí mikil rigning, gréri þá fljótt. Mjög þokusamt síðla í maí og mesta stórrigning á hvítasunnu 2. júní. Runnu víða á skriður til skemmda og ár upp á engjar. Þar eftir kuldi og hret í sömu viku og annað síðar. Frá 13. júní til sláttar mikið góð tíð og grasvöxtur á hvers kyns jörðu. Hann byrjaðist í 12. viku sumar. Fengust þurrkar og besta töðufall síðan 1797. Með 17. viku [kringum 10. ágúst] byrjaði óþurrkakafli og stórrignt. Varð ei þurrkað um 2 vikur. Þar eftir góð heyskapartíð. 11. sept. enn ein stórrigning og gott á eftir.

Um réttir, 19. sept. mikil norðanhríð. Tók fljótt upp aftur þann snjó. Haustið allt þíðusamt, en oft rigning, einkum á Mikaelsmessu [29. september]. Urðu allar smáár án snjóleysingar ófærar, lak og streymdi nálega í hverju húsi. Sunnudaginn fyrir jólaföstu [24. nóvember] gjörði annað vatnsflóð. Kom þá rigningin ofan í lognfönn, svo lækir og smáár urðu óreiðar, svo enginn mundi slíkan vöxt á hausttíma. Þangað (s49) að var sumarveður og ær víða mjólkaðar á hverjum degi. Fimmtudaginn eftir [28.] lagði að snjó og hörku. Á jólaföstu gjörðu blotar þrír jarðskarpt. Á aðfangadaginn var mikil frostgrimmd og. 21. des. stórhríð á norðan. Lítið var fé gefið fyrir nýár, þar vel var beitt. (s50)

Ber ekki illa saman við atburði í mælingum Sveins í Kotmúla. En lítum á fleiri heimildir. Geir Vídalín biskup segir nokkuð frá tíðinni í fjórum bréfum - (það síðasta sem hér er vitnað til er frá 1806). Geir bjó um þessar mundir á Lambastöðum á Álftanesi. 

Lambastöðum 19-3 1805 (Geir Vídalín biskup): Haustið (1804) var í því heila gott, þó nokkuð stormasamt, sem veturinn síðan svo góður, að enginn man hans líka. Sá í fyrra (1804), sem var besti vetur, má heita harður hjá þessum. Frostleysur, hægur vestanþeyr og sunnangolur hafa verið vort veðurlag. Einstaka sinnum hafa (s37) komið norðanveður, en mót venju frostlítil eða alls frostlaus, og til frekara merkis hér um gengu út sumstaðar geldar kýr í Rangárvalla- og Árnessýslu allt til jóla með gjöf í annað mál og allt til þessa hef eg séð hér græn blöð á baldursbrá og fíflablöðkum (eða hvað það nú heitir ... ) ... Akureyrarskip, ... strandaði fyrir Sléttu norður, varð mannbjörg, en hvað um góssið líður, veit eg ekki. ... Flóð kom hér í logni í þessum mánuði, sem gjörði skaða, einkum í Hafnarfirði hjá Sivertsen. Gekk það upp á pakkhús hans og skemmdi þar bæði salt og mjöl, þó ekki til riða. [viðbót Ad. pag 2: Veðurátt hefur um þessa daga verið stirð og rosasöm, þó oftast frostlítið]

Lambastöðum 4-9 1805 (Geir Vídalín biskup): ... þetta yfirstandandi ár hefur verið til lands eitt það æskilegasta, vorið einkar gott, því ein tvö smáíhlaup telur maður ekki. Sumarið eftir því, og grasvöxtur sá allra besti, einkum á valllendi, hafa sumir fengið helmingi, sumir þriðjungi meiri töðu en í fyrra, og er hún nær allsstaðar komin græn í garð. Síðan túnaslætti lauk hefur hér verið úrkomusamt, þó góðir þurrkar í millum. ... (s48) Sömu árgæsku er að frétta að norðan og austan, en þá á móti hefur hér verið stakt aflaleysi, svo tómthúsfólk er allareiðu á hjarni ... (s49)

Lambastöðum 22-9 1805 (Geir Vídalín biskup):: Síðan á leið hefur sumarið verið óþurrka- og rosasamt og heyskapur á útengi þess vegna lukkast miður en á horfðist. (s54)

Lambastöðum, byrjað 2. páskadag 1806 [7. apríl] (Geir Vídalín biskup):: Haustið var regna- og stormasamt, svo útigangspeningur níddist sérílagi. Þó sást hér varla snjóföl fyrr en með sólstöðum.

Um tíðina í Reyðarfirði/Eskifirði austur á landi segir frú Gytha Thorlacíus frá góðri tíð og góðri sprettu í kálgarði sínum: 

Resten af denne Vinter [1805], der ikke var streng, gik rolig hen. (s34) Sommeren 1805 var meget mild, og Haven ved Gyththaborg florerede ret til Gleede for dens omhyggelige Dyrkre. (s35) 

Eins og venjulega gengur ritstjóra hungurdiska illa að komast fram úr smáatriðum texta dagbókar Jóns Jónssonar á Möðrufelli, en sér þó að hann talar vel um febrúar, hann hafi verið góður og stilltur, en tíðast æði snjór - væntanlega sá sami og Björn á Brandstöðum segir hafa fallið í góubyrjun. Mars var yfrið hagstæður og þurrkasamur. Vel heyjaðist þetta sumar þar nyrðra. Jón segir september hafa verið yfir höfuð góðan og hlýjan fyrir utan stórt áfelli sem gerði þann 19. - útnorðan stórhríð með mikilli snjókomu, en frostlint hafi verið. Nefnir hann og miklar rigningar og hlýtt veður í septemberlok. Desember segir hann ærið veðráttuharðan mestallan, en jarðir þó nógar. Björn minntist einnig á hríðina 19. september. 

Björn á Brandstöðum minnist á skriðuföll um hvítasunnu. Það gerir líka séra Þórarinn Jónsson í Múla í tíðavísum sínum:

Vorleysinga ákefð öll,
Allnær hvítasunnu,
Skriðu og vatna skæð um föll
Skaða’ á byggðum unnu.

Annáll Gunnlaugs Jónssonar á Skuggabjörgum í Deildardal í Skagafirði hefur (að því er ritstjóri hungurdiska best veit) ekki verið prentaður enn. Ólafur Jónsson höfundur ritsins „Skriðuföll og snjóflóð“ hefur plægt í gegnum annál Gunnlaugs og má í ritinu lesa þessa tilvitnun þaðan:

Annan júní kom stórfelld rigning, hlupu þá fram skriður víða norðanlands, sem skemmdu bæði tún og engjar í Svarfaðardal, helst á Urðum og Hreiðarsstöðum og aftur í september á Búrfelli og Skeiði. Einna mest varð þó skriðufallið á Bjarnastöðum í Kolbeinsdal, þar hljóp yfir og í kringum allt túnið áðurnefndan 2. júní. Fólk skaðaði ekki. Um Mikaelsmessuleyti hljóp fram mesta skriðan, sem tók Nýjabæ í Hörgárdal gjörsamlega, og færði hann ofan í Hörgá með skepnum og fjórum manneskjum [bónda, húsfreyju og tvö börn þeirra] sofandi í rúmum sínum. Um sama leyti fórst fjöldi fjár á afréttum í skriðuföllu, og víða um land skemmdu þær stórkostlega. 

Ólafur vitnar einnig í annál Hallgríms djákna Jónssonar (sömuleiðis óprentaður). Þar segir um skriðuföll 1805:

Þar að auki stórskemmdust allar jarðir í Myrkár- og Bakkasóknum af skriðuhlaupum á engjar þeirra og bithaga, og allir nærliggjandi afréttardalir. Hörgá flaut sem fjörður brekkna á milli og bar leirdyngjur og hnausa á allt flatlendi, svo engjar skemmdust um tíma frá öllum bæjum í dalnum, en náðu sér þó aftur síðar. Sama var tilfellið í Svarvaðardal, hvar tíu jarðir fordjörfuðust, flestar stórkostlega utan og innan túns í Vallna- og Urðakirkjusóknum. Einkum Skeið. Frammi í Eyjafirði urðu og fimm jarðir fyrir sömu háskatilfellum. 

Er mikilvægt að annálar þessir og verði lesnir af fagmönnum og síðan prentaðir þannig að óreyndir jarðvísindamenn og aðrir byrjendur í handritalestri (eins og ritstjóri hungurdiska) þurfi ekki allir að lesa úr sér augu og vit við þá iðju. 

Að auki vitnar Ólafur Jónsson í frásögn af skriðuföllum í Nýjabæ í þjóðsagnasafninu Dulsjá (útgefið 1937) - en við látum lesendur um að finna þá sögn. 

Einnig er í fáeinum erindum fjallað um Nýjabæjarskriðuna í tíðavísum séra Þórarins í Múla og segir svo að auki:

Datt á víðar dali’ um kring
Dapurt efni nauða:
Afrjettanna umbilting
Olli fjenu dauða.

Skepna dregin allmörg ein,
Engum sætti griðum,
Marin, kramin, brotin bein,
Burt úr ám og skriðum.

Haustrigningar, mæla menn
Mörgum kæmi’ að grandi;
Skal og af þeim skeður enn
Skaði’ á Suðurlandi.

Jón Hjaltalín segir í tíðavísum sínum um haustið 1805:

Haustveðráttan hefur góð
heita mátt, en regna flóð
ofan þrátt þó lak á lóð,
líka brátt um vindur óð.

Þetta var í heildina hagstætt ár. Meðalhiti í Stykkishólmi hefur verið áætlaður 3,2 stig, 0,6 stigum ofan meðallags 30 ára um þær mundir. Mælingar Sveins eru notaðar við þá ágiskun - þó talsvert vanti inn í þær. Tölurnar má sjá í viðhenginu - og áætlun fyrir Reykjavíkurhita líka (en aðeins til gamans). Þar sést að janúar var mjög hlýr - og júlí allhlýr - aðallega frostin í desember sem draga árshitann nokkuð niður. 

Þorvaldur Thoroddsen segir engan hafís hafa gert vart við sig árið 1805 - og við trúum því þar til annað sannast. 

Lokið er nú umfjöllun um árið 1805 - þá var Napóleon upp á sitt besta. 

Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt á texta Brandstaðaannáls. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 26. mars 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1496
  • Frá upphafi: 2348741

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1302
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband