Evrópskur austankuldi - tvö dæmi frá stríðsárunum

Austankuldi hrjáir hluta Evrópu þessa dagana. En eins og oft hefur verið talað um hér á hungurdiskum áður er það langt í frá nýtt fyrirbrigði. Meginlöndin eru kaldari en höfin á vetrum og austanáttin því kaldari en vestanáttin í Evrópu lengst af vetrar. Þessu er öfugt farið að sumarlagi - þá er austanátt hlýrri á meginlandinu heldur en svalinn vestan af sjónum. Má segja að sumar sé gengið í garð í Evrópu þegar austanvindur verður hlýrri en sá úr vestri. 

Það er hins vegar mjög breytilegt frá ári til árs og jafnvel frá einum áratug til annars hversu algeng austanátt er að vetrarlagi á meginlandinu. Evrópa er í vestanvindabelti lofthjúpsins og vestanáttin þá hin „eðlilega“ ríkjandi vindátt og vestanvindabeltið raunar mun öflugra á vetrum heldur en að sumarlagi. En landa- og fjallgarðaskipan truflar bylgjuganginn - og bítur þar hvert í annars hala. 

Miklir kuldar í Ameríku - sem t.d. geta stafað af hlýindum á Kyrrahafi snúa vestanvindunum norður á bóginn yfir Atlantshafi og þeir eru því iðnari en venjulega við að flytja varma norður á heimskautaslóðir og Evrópa „gleymist“ - Síberíukuldi á því greiðari leið vestur um heldur en venjulega. - Reyndar er erfitt að fullyrða um það hvað veldur hverju í þessu flókna kerfi. 

En á árum síðari heimstyrjaldarinnar hittist þannig á að austankuldinn átti greiða leið til vesturs þrjá vetur í röð, 1940, 1941 og 1942. Í gömlum hungurdiskapistli, 18. janúar 2011, var gerður samanburður á hita hér á landi og á Álandseyjum á 5. áratugnum. Allir þessir vetur þrír verða að teljast hagstæðir hér á landi þó auðvitað væri alls ekki um samfellda blíðu að ræða - frekar en venjulega. 

En við skulum til gamans líta á tvö veðurkort frá þessum tíma, annað frá 18. janúar 1940, en hitt frá 25. janúar 1942. Kortin eru fengin úr þýskri kennslubók í veðurfræði, útgefinni 1948. Höfundur hennar, Richard Scherhag, varð síðar mjög þekktur fyrir brautryðjendarannsóknir á veðurfræði heiðhvolfsins, heimsþekkur á sínu sviði.

scherhag_1940-01-15

Fyrra kortið sýnir stöðuna 15. janúar 1940 og þar með einhverja öflugustu hæð sem nokkru sinni hefur sést yfir Grænlandi - svo virðist sem hæðin teygi sig um allt heimskautasvæðið. Bandaríska endurgreiningin nær hæðinni ekki alveg, alla vega er þrýstingur þar ekki 1064,8 hPa í Myggbukta á Norðaustur-Grænlandi, en sagt er að það sé hæsti þrýstingur sem mælst hefur í því landi (sagt án ábyrgðar). Í janúar 1940 flæddu veðurskeyti enn frjálst frá Íslandi og Grænlandi til Þýskalands - en Bretland er autt frá þeim séð - og eins var vetrarstríðið á fullu í Finnlandi - hvort það hefur algjörlega teppt veðurskeyti þennan daga veit ritstjóri hungurdiska ekki. 

En gríðarlega öflug skil eru á milli austankuldans og vestanloftsins við Eystrasalt, sýnist vera -17 stiga frost í Riga í Lettlandi, en +1 stigs hiti í Memel - sem nú er í Litháen. 

Síðara kortið sýnir minna svæði - en nær lengra suður.

evropa_1942-01-25_scherhag

Aldeilis kaldur dagur við Eystrasalt og langt suður um Evrópu og ekki bara kalt heldur er víða hvasst líka. Þjóðverjar virðast hafa fengið veðurskeyti víðast úr Evrópu - nema Bretlandi (og ekki heldur frá Íslandi) - enda réðu þeir flestu. Skipaskeytin gætu verið frá herskipum eða jafnvel kafbátum. Þarna er hitamunurinn hvað mestur í Hollandi, austanhvassviðri eða stormur, snjókoma og -10 stiga frost norðan skilanna, en vestanstinningskaldi eða allhvass vindur og +3 stiga hiti sunnan þeirra - skammt á milli. 

Scherhag er þarna í texta að vísa til mikils kuldapolls en miðja hans gekk þessa daga vestur eftir Eystrasalti með einhverri lægstu þykkt sem mælst hefur á þeim slóðum. [Rétt að taka fram að þykktartölur sem tilfærðar eru í bókinni eru of lágar miðað við þann kvarða sem við nú notum (og hefur verið notaður á alþjóðavísu frá 1949)].  


Bloggfærslur 18. mars 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 21
  • Sl. sólarhring: 221
  • Sl. viku: 1337
  • Frá upphafi: 2349806

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 1218
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband