Snjókoman í Moskvu

Við lítum til austurs - til tilbreytingar og horfum á 500 hPa hæðar-og þykktarkort bandarísku veðurstofunnar í dag, sunnudag 4. febrúar.

w-blogg040218ya

Ísland og hlýindi dagsins eru ofarlega til vinstri á kortinu, þykktin meiri en 5460 metrar, sumargildi. Kuldastraumur liggur hins vegar til suðurs um Finnland og þaðan til suðvesturs allt til Pýrenneaskaga og Marokkó. Hlýtt loft gengur hins vegar til norðausturs um Kákasus og þaðan áfram til sunnanverðra Úralfjalla. 

Allmikil, en hægfara lægð er yfir vesturhéruðum Rússlands - þar er suðvestanátt í háloftum, en austan og norðaustanátt neðar. Uppskrift að hríðarbyl - það er auðvitað tilviljun að einna mesti ákafinn skuli lenda á Moskvu - ekki langt þar fyrir austan var mun hlýrra loft á ferð.

Lægðin á síðan að snúa upp á sig og ganga vestur til Finnlands. Mesti ákafinn verður væntanlega úr úrkomunni. 

Hlýja loftið …okkar“ fer hins vegar hratt til norðausturs og siðar austurs meðfram norðurströnd Rússlands og veldur þar hlýindum líka næstu daga. 

Víða við Miðjarðarhaf verður hins vegar órólegt veðurlag áfram og sérlega miklir kuldar í Marokkó. 

Umhleypingatíðin heldur áfram hér á landi - allstórar lægðir fara hjá á 2 til 4 daga fresti svo langt sem augað eygir - en vonandi heldur þó áfram að fara tiltölulega vel með - svona í aðalatriðum. 


Éljagarður - erfiður texti

Nú skal litið á óvenjuleg veðurkort - og lagt út af veðurstöðunni um þessar mundir. Hið fyrra sýnir það sem kallað hefur verið stöðugleikastuðull og mælir gróflega hversu stöðugt loftið í veðrahvolfinu er - hversu greiðar lóðréttar hreyfingar þess geta orðið gefist tilefni til þeirra. Ekki auðveldur texti - varla bjóðandi á almannafæri - en ritstjórinn sýnir hér enga miskunn. 

w-blogg040218xa

Við sjáum sjávarmálsþrýsting sem heildregnar línur - rétt eins og á venjulegu veðurkorti. Lægð er á vestanverðu Grænlandshafi og veldur allhvassri suðvestanátt um land allt. Litakvarðinn segir til um mismun á mættishita veðrahvarfanna og jafngildismættishita í 850 hPa hæð. Því minni sem munurinn er því óstöðugra er loftið á milli flatanna. 

Mættishiti segir hver hiti lofts yrði væri það dregið niður úr þeirri hæð sem það er í niður í 1000 hPa þrýsting. Sé raki í loftinu væri hugsanlega hægt að þétta hann og losa þar með dulvarma - sem gæti þá hækkað mættishitann. 

Á grænu svæðunum er mættishiti veðrahvarfanna hár og stöðugleiki mikill, á rauðu og brúnu svæðunum er annað tveggja mættishiti veðrahvarfanna er lágur - eða hitt að mjög rakt sé í 850 hPa (og jafngildismættishiti þar því hár). 

Við skulum líta á jafngildismættishitann á sérstöku korti til að sjá þetta betur.

w-blogg040218xd

Litirnir sýna jafngildismættishitann á sama tíma og á fyrra korti (kl.18 á sunnudag). Austan við land er hámarkið 313K (=40°C). Á sama tíma er mættishiti við veðrahvörf um 328K (=53°C), mismunurinn, 15, er talan sem við sjáum á þessum slóðum á fyrra kortinu. Rakt og hlýtt loft hefur gengið yfir landið í dag - landsdægurhámarkshitamet féll. 

Sjá má að kalt loft og þurrara sækir nú að úr suðvestri - kuldaskil eru yfir landinu. Mörk bláu litanna snerta vestustu nes landsins á kortinu - þar er jafngildismættishitinn kominn niður í 288K (15°C). 

Á suðvestanverðu Grænlandshafi má sjá blett þar sem blái liturinn er aðeins ljósari en umhverfis, þar má lesa töluna 281,9K. Við höfum upplýsingar um að þar sé mættishiti veðrahvarfanna um 284K - ekki munar nema 2 á þessum tölum. - Á fyrra kortinu eru þar líka dökkbrúnir flekkir og sé kortið stækkað geta sumir e.t.v. komið auga á töluna 2. 

Óstöðugleikinn austan við land og sá sem er á Grænlandshafi er því af tvennum toga - fyrir austan land er loft svo hlýtt og rakt í neðri lögum að það ógnar stöðugleika, en vestan við eru veðrahvörfin svo köld að aðeins þarf örlítinn raka í neðri lögum til að ógna stöðugleikanum þar. 

Á milli er síðan svæði þar sem loft er mun stöðugra. Þetta þýðir að él fara vart að ná sér upp að ráði fyrr en óstöðuga loftið nær til landsins (þrátt fyrir að hin eiginlegu kuldaskil séu farin yfir) - þegar vesturbrún græna svæðisins kemur inn á landið.

Það á að gerast í fyrramálið eins og stöðugleikastuðulskortið hér að neðan sýnir. 

w-blogg040218xb

Þetta kort gildir kl.9 á mánudagsmorgni. Mjög óstöðugt loft er komið inn á landið vestanvert. Hér má líka benda á hæðina miklu suðvestur í hafi - 1048 hPa í hæðarmiðju. 

Síðasta kortið sýnir svonefnt ókyrrðarábendi (hverfiþungabreyting á massa- og tímaeiningu), við skulum ekki hafa áhyggjur af því hvað það er nákvæmlega. Það nær venjulega sínum hæstu gildum þegar flotbylgjur brotna við fjöll (og í brotum við veðrahvörf) - og stöku sinnum má einnig sjá mjög há gildi í skilum og éljagörðum. 

w-blogg040218xc

Ritstjóranum finnst óvenjulegt að sjá svona há gildi úti á sjó eins og í éljagarðinum sem verður að nálgast landið um hádegi á morgun, mánudag. Annar garður - minni - verður þá búinn að ganga hjá sé að marka spár. Það verður svo að koma í ljóst hvort líkanið hefur hér rétt fyrir sér. 


Bloggfærslur 4. febrúar 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 401
  • Sl. viku: 1581
  • Frá upphafi: 2350208

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1454
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband