Hver með sínu lagi - en ættarmót leynir sér ekki

Til gamans lítum við á gervihnattamynd sem tekin er fyrr í kvöld (þriðjudag 20. febrúar).

w-blogg200218a

Hún sýnir skýjakerfi mjög vaxandi lægðar suðvestur í hafi. Kerfið er nú rétt búið að slíta sig norður úr móðurlægðinni sem er reyndar fyrir sunnan þessa mynd. Það sem við sjáum er mikill hvítur skýjabakki - göndull nánast beint úr suðri. Þetta eru háreist ský sem leggjast upp undir veðrahvörfin - þetta fyrirbrigði er gjarnan kallað hlýtt færiband (hlf á myndinni) - flytur hlýtt og rakt loft úr suðri norður á bóginn en jafnframt upp - og svo í hæðarsveig til austurs (rauð ör). 

Vestan við hvítustu (hæstu) skýin er það sem kallað er haus lægðarinnar (kf - stendur fyrir kalt færiband). Kalda færibandið er flókið fyrirbrigði - sumir efast reyndar um tilvist þess - eða nafngiftina alla vega. En í því er málum þannig háttað að niðri við jörð er norðanátt, en áköf sunnanátt uppi, - en loftið í henni berst þó hægar til norðurs en kerfið sjálft. - Kerfinu „finnst“ þarna vera mikil norðanátt. 

Gulbrúna örin bendir á stað þar sem sjávarmálslægðarmiðjan gæti verið - ekki þó alveg gott að segja. Þar virðist líka vera að myndast það fyrirbrigði sem kallað er „þurra rifan“ - og fylgir lægðum í áköfum vexti. - Kalt loft vestan við lægðina dreifir úr sér til norðurs og suðurs og dregur þá niður veðrahvörfin - við niðurstreymi þeirra losnar úr læðingi mikill snúningur sem skrúfar þurra loftið enn neðar og að lokum inn í lægðarmiðjuna og eykur mjög á afl hennar. 

Lægðin afhjúpar þá eðli sitt og miðja hennar kemur greinilega fram á myndum. Við bestu skilyrði gerist þetta allt á fáeinum klukkustundum - í fyrramálið verður lægðin fullþroska. 

Í þessu tilviki vill til að hún missir líklega af kaldasta loftinu og verður því ekki alveg jafn skæð og hún hefði getað orðið. Það loft er við Suður-Grænland. Við þökkum bara fyrir það. Við fáum að vísu þetta loft yfir okkur síðar - aðra nótt og á fimmtudag - en hálfgert brotajárn ekki líklegt til stórræða. 

Á föstudag er síðan enn eitt illviðri væntanlegt - það er nú í bígerð yfir vötnunum miklu á landamærum Kanada og Bandaríkjanna - og á enn möguleika á að verða verra og langvinnara heldur en það sem við höfum verið að fjalla um hér.

Svo eru fregnir af miklum breytingum - heldur óljósar að vísu og rétt að segja sem minnst um þær á þessu stigi máls. 


Bloggfærslur 20. febrúar 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 103
  • Sl. sólarhring: 266
  • Sl. viku: 1677
  • Frá upphafi: 2350304

Annað

  • Innlit í dag: 64
  • Innlit sl. viku: 1513
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 62

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband