Umskiptin miklu í febrúar 1962

Fyrir nokkru var hér á hungurdiskum fjallað um tíðarumskiptin miklu sem urðu um jólin 1962. Í febrúar sama ár urðu líka eftirminnileg umskipti. Ritstjóri hungurdiska man þetta vel - en ástæða þess að hann nefnir þetta nú er einkum sú að evrópskir eru einmitt að minnast á það sama. Þeir búast við kuldakasti á næstunni - og nefna þá einmitt þessi sömu febrúarumskipti fyrir 56 árum. - Ritstjórinn hefur enga sérstaka skoðun á því hvort þessar spár muni rætast - en það gæti svosem orðið. 

Þó veðurlag nýliðinna mánaða nú minni vissulega að mörgu leyti á veðurlag frá því í nóvember 1961 þar til í fyrri hluta febrúar 1962 er það auðvitað alls ekki eins - en á það þó t.d. sameiginlegt að hafa verið nuðsamt - rétt eins og nú, samgöngutruflanir tíðar vegna snjókomu og skafrennings - og það komu líka snarpar rigningargusur - en tjón varð þó ekki stórfellt nema á sjó. Það er reyndar athyglisvert hvað sjósókn eða öllu heldur vangæftir eru lítið í fréttum nú til dags - en tíðin hlýtur samt að hafa verið óhagstæð til sjávarins nú. Athygli fjölmiðla (og almennings?) er samt núna á einhverju öðru róli - eitthvað hefur breyst í þessum efnum. 

Segja má að stöðugur ófriður hafi verið í veðri á fyrstu vikum ársins 1962 - austanáttatíð í upphafi, en síðan meira úr vestri - og sá er munur þá og nú að 1962 var heimskautaröstin heldur nær okkur en nú. Mjög slæm veður gerði í Evrópu - sérstaklega um miðjan mánuð. Verst var samt sjávarflóðið mikla í Hamborg aðfaranótt 17. febrúar þegar rúmlega 300 manns drukknuðu og meir en 60 þúsund manns misstu heimili sín. 

Við skulum líta á 500 hPa hæðar- og þykktarkort úr þessari syrpu miðri.

w-blogg170218a

Það gildir síðdegis þann 9. febrúar. Kuldapollurinn Stóri-Boli er í svipaðri stöðu og þessa dagana og sendi hverja gusuna á fætur annarri í átt til landsins og austur um Atlantshaf. Við skulum velja nokkrar blaðafréttir úr til að fá tíðina á tilfinninguna (þær má allar sjá á timarit.is): 

Við byrjum í Vísi 24. janúar:

Það var allt á kafi í snjó í morgun. Mikil fannkoma í var hér í bænum í nótt og setti niður svo mikinn snjó að hann var upp í miðja kálfa á gangstéttum snemma í morgun. Þó sagði Veðurstofan, sem nú spáir rigningu í nótt, að snjókoman hefði ekki mælzt nema 9 millimetra eftir nóttina.

Og sama blað daginn eftir:

Hellisheiði er ófær. Þar var vonzkuveður seinnihluta dags í gær og í alla nótt, hvassviðri með skafbyl. Nokkrir þeirra, sem voru á leið yfir fjallið í gærkvöldi, bæði á austur og vesturleið tepptust í Skíðaskálanum og urðu að leita þar gistingar í nótt, þ.á. m. var ein fjölskylda en hitt voru yfirleitt bifreiðastjórar. Óli Ólason, veitingamaður í Skíðaskálanum tjáði Vísi í morgun að veðurhæð hafi verið mikil þar efra í gærkvöldi og nótt og mikill bylur. Kvaðst hann ekki hafa þorað annað en vaka í nótt og hafa öll ljós kveikt ef einhver vegfarandi yrði á ferð. En ekki kvaðst hann vita að neinn hafi orðið að liggja úti eða hlekkzt á í nótt. Í morgun var vegurinn ófær bæði austur og vestur frá Skíðaskálanum og vélar frá Vegagerðinni ókomnar í Hveradali svo ekki var vitað hvenær gestir Skíðaskálans kæmust leiðar sinnar. í morgun fór veður batnandi þar efra, hætt að skafa, en nokkur snjókoma. Mikill snjór er kominn á Hellisheiði og nærliggjandi fjöll og skíðafæri ákjósanlegt. Skíðalyftan í Hveradölum sem verið hefur í ólagi undanfarið, er komin í gang að nýju. Mjólkurbílar og áætlunarbílar að austan, sem ætluðu yfir Hellisheiði í morgun, urðu frá að hverfa og fóru Krísuvíkurleið. Hún er nú fær bifreiðum að því er Vegamálaskrifstofan tjáði Vísi í morgun.

Morgunblaðið 30. janúar:

Í fyrrinótt var mikil rigning víðsvegar um land og urðu nokkrar skemmdir á vegum af þeim sökum að því er vegamálastjóri tjáði blaðinu í gær. Skriður féllu á nýja veginn á Búlandshöfðanum á Snæfellsnesi Og var unnið að því að hreinsa hann í gær. Hjá Varmahlíð undir Eyjafjöllum flæddi yfir veginn og var þar aðeins fært stórum bílum, og var veginum lokað síðdegis í gær. Þá fór Hverfisfljótið í Fljótshverfi austan við brúna, eins og jafnan verður í ísruðningum, og var þar ófært bílum. Á ýmsum öðrum stöðum rann úr vegum, en ekki svo að umferð tepptist.

Snjór hefur minnkað nokkuð í Öxnadalnum, en þar hefur verið ófært bifreiðum að undanförnu, og var í gær verið að athuga hvort nú væri ekki tiltækilegt að ryðja veginn. Annars er fært frá Reykjavik norður i Skagafjörð. Afarmikill snjór hefur verið á Austurlandi og vegir þar mikið lokaðir.

Síðdegis í gær varð mikil hálka á götunum í Reykjavík og Hafnarfirði og urðu talsverðar umferðatruflanir á götunum og á Hafnarfjarðarveginum. Einkum áttu bilstjórar um tíma í erfiðleikum með að komast á bílum upp Öskjuhlíðarbrekkuna. Lögreglan sendi aðvörun gegnum útvarpið til bifreiðastjóra, sem munu hafa farið varlega, því um 10 leytið í gærkvöldi hafði lögreglunni í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi ekki verið tilkynnt um árekstra af völdum hálkunnar.

Vísir síðdegis sama dag:

Aðfaranætur sunnudags og laugardags ur0u nokkrar skemmdir á vegum á Suðurlandi og Vesturlandi. Hvergi var þó um alvarlegar skemmdir að ræða, og aðeins á einum eða tveimur stöðum lokuðust vegir, þó aðeins skamman tíma. Það voru rigningar og leysingar, er þeim fylgdu, er ollu þessum skemmdum. Á Suðurlandsvegi, við Lögberg og á Sandskeiði, urðu skemmdir, og bílstjórar er um veginn fóru, sögðu, að á köflum hefði verið líkast því sem stöðuvötn hefðu verið sitt hvorum megin við veginn. Þá urðu nokkrar skemmdir á Krýsuvíkurvegi, aðall. á leið að Kleifarvatni, bæði að Stöpum við Hlíðarvatn. Í Hvalfirði urðu einnig nokkrar skemmdir, er rann á veginn. Sömu sögu er að segja af Snæfellsnesi, og nokkrum öðrum stöðum. Hvergi var þó um alvarlegar skemmdir að ræða, og mun viðgerð nú um það bil lokið á flestum stöðum.

Og aðeins tveimur dögum síðar, 1. febrúar kemur fram að verðir hafi verið settir við Hellisheiðarveg til að hindra að menn legðu á heiðina:

Færð þyngdist nokkuð á Suðvesturlandi síðdegis í gær og nótt og sumir vegir voru lokaðir í morgun, sem færir voru í gær, eins og t. d. Holtavörðuheiðarvegur. Hafði mikið snjóað sunnarlega á Holtavörðuheiði og fyrir innan Fornahvamm, svo heiðin var talin ófær í morgun. Reynt verður samt að opna hana aftur fyrir áætlunarbílinn norður á morgun og aðra bíla, sem komast þurfa leiðar sinnar, svo fremi sem veður leyfir. Hellisheiðarvegur er algerlega lokaður. Settir voru verðir sinn hvorum megin við heiðina í gær til að varna bílum að fara yfir hana. Þó munu fáeinir stórir bílar hafa lagt á heiðina síðdegis í gær, en sátu fastir. Krýsuvíkurvegur er fær og um hann er öll umferð til Suðurlandsins sem stendur. Þá er Hvalfjarðarleið einnig fær og hafði ekki snjóað ýkja mikið á hana í gær eða nótt. Að norðan var Vísi símað í morgun að fært væri um mestalla Eyjafjarðarsýslu eins og sakir stæðu. Þar er nú þíðviðri og gott veður og snjór hefur sjatnað. Aðal snjóakisturnar þar, Öxnadalur og Hörgárdalur verða ruddar fram á móts við fremstu bæi vegna mjólkurflutninga. En snjór er hins vegar talinn svo mikill á Öxnadalsheiði að ekki verður ráðizt í að ryðja hana að svo komnu máli. Áætlunarbíll frá Húsavík kom til Akureyrar í fyrradag eftir 12 klst. ferð og aðstoðaði ýta hann þar sem færð var þyngst. Bíllinn sneri aftur norður um í fyrrakvöld og var þá aðeins 5 stundir á leiðinni. Er gert ráð fyrir að áætlunarferðum milli Húsavíkur og Akureyrar verði haldið áfram óbreyttum aðstæðum.

Vísir segir þann 13. febrúar:

Vestmannaeyjum í gær: Hér hefir snjóað svo mikið undanfarna daga, að ekki hefir sést annað eins í manna minnum. Síðast í nótt kingdi hér niður snjó, og er hann nú orðinn um 20 cm. djúpur. Ófært hefir orðið bílum um göturnar, og hefir það ekki komið fyrir árum saman, að þurft hafi hér að moka göturnar svo að faratæki kæmust leiðar sinnar.

Og þann 20. vitnar Vísir í Jónas Jakobsson veðurfræðing:

Vetrarveðráttan að undanförnu er einhver hin ólátamesta og umhleypingasamasta sem komið hefur yfir Ísland í fjölmörg ár, sagði Jónas Jakobsson veðurfræðingur við Vísi í morgun. Og þessi óvenjulega veðrátta nær ekki aðeins til Íslands heldur og um norðanvert Atlantshafið í heild og landanna beggja megin við það. Á austurströnd Norður-Ameríku hefur t.d. verið óvenjulega kalt í vetur, en austanmegin Atlantshafsins hafa ekki ríkt miklir kuldar, en þeim mun meiri hrakviðri og stormar. Er þar skemmst að minnast óveðursins í Vestur-Evrópu í lok síðustu viku. Óveður þessi eiga í stórum dráttum rót sína að rekja til þess háþrýstisvæðið í námunda við Azóreyjar, hefur verið óvenju víðáttumikið í vetur og legið norðar en venja er til. Það orsakar svo aftur það að meginvindröst vestanvindabeltisins liggur norðar en ella og allt norður að Íslandi. Þetta er ástæðan fyrir hinum tíðu lægðum og óveðrum sem hér hafa geysað undanfarið. Aðspurður um það hvort við ættum lengi enn von á þvílíkum veðurham og umhleypingum kvaðst Jónas veðurfræðingur ekki vita neitt um það.

Tíminn birtir þann 23. frétt frá Sauðárkróki sem dagsett er þann 19. febrúar:

Á aðfaranótt sunnudagsins [18.] gerði hér sunnanveður með regni og ofsa, og urðu af miklir vatnavextir hér í bænum, en skemmdir ekki teljandi. Skriða féll á skúr við yzta húsið í bænum, en olli minna tjóni en ætla mætti. Í félagsheimilinu Bifröst stóð yfir samkoma, en um það leyti, sem samkomugestir voru að fara heim, tók að flæða inn um aðaldyr hússins. Var gestum ófært út þá leiðina, og urðu þeir að bjarga sér út bakdyramegin. Hlóðu varnargarð Flóðið komst þó ekki nema inn í forstofuna og herbergi í kjallara, en aldrei inn í aðalsalinn. Varð að hlaða varnargarð úr sandpokum fyrir dyrnar, til þess að verja samkomuhúsið fyrir skemmdum. Þá féll skriða á yzta húsið í bænum, Helgafell, sem stendur uppi við Nafir. Skriðan féll á skúr við húsið og braut hann eitthvað, og vatn komst inn í húsið og skemmdir urðu ekki stórvægilegar. Þessi vatnsflaumur varð svona mikill vegna þess, að allan daginn var logn og kafa snjókoma, en um kvöldið snerist og gerði sunnan veður með regni, og ofsa.

Og Morgunblaðið segir þann 21. frá hrakningum barna í Mosfellssveit (20.febr):

Hér var í morgun ofsaveður með rigningu. Mikil hálka myndaðist á vegum. Börn, sem voru á leið í skólann að Brúarlandi fuku á girðingar og slösuðust. Tveir drengir 8 og 9 ára urðu fyrir því slysi að fjúka á girðingu við veginn. Annar hlaut skurð á enni en hinn sár á kinn og kjálki hans mun hafa brákast. Báðir drengirnir voru fluttir í skyndi til héraðslæknisins Guðjóns Lárussonar, og taldi hann rétt að annar færi til nánari skoðunar í Reykjavík og aðgerðar þar. Þá henti það að bílar fuku út af vegum í hálkunni, en ekki urðu slys á mönnum. — Jeppi var á leið upp að Dverghamri en fauk þar til í brekkunni og lenti út af hárri vegarbrún en bílstjóranum tókst að halda honum á hjólunum. Skemmdir urðu þó nokkrar á í bílnum. 

Að auki má telja eftirfarandi:

Þann 3. olli ofsaveður tjóni í Neskaupstað rúður brotnuðu í húsum og járnplötur tók af þaki. Nótabátur í vetrarnausti fauk og skemmdi trillur. Veðrið stóð aðeins stutta stund. Eldingar ollu símasambandsleysi við Austurland, fjárskaðar urðu á Norðausturlandi og báta sleit upp í Sandgerðishöfn.

Þann 7. Strandaði bátur frá Reykjavík austur af Grindavík, mannbjörg varð. Daginn eftir sátu 12 bílar fastir yfir nótt á Hellisheiði.

Þann 10. fórst togari frá Siglufirði undan Öndverðanesi, tveir skipverjar drukknuðu, en aðrir björguðust mjög naumlega. Annað skip sökk nokkru síðar á svipuðum slóðum, en mannbjörg varð.

Þann 15. gerði óvenjumikla snjókomu á Keflavíkurflugvelli, sagt að 30 cm hafi fallið á tveimur klukkustundum síðdegis, úrkoma mældist þó aðeins 4,3mm kl.18. Millilandaflug stöðvaðist um tíma. 

Þann 16. fuku útihús í Neskaupstað, brakið skaddaði íbúðarhús.

Þann 17. strandaði vélbátur frá Vestmannaeyjum á Mýrdalssandi, mannbjörg varð eftir hrakninga. Stuðlaberg frá Seyðisfirði sökk suður af landinu þann dag eða þann næsta,11 manna áhöfn fórst.

Þann 20. opnaðist vegurinn yfir Öxnadalsheiði eftir að hafa verið lokaður í fjórar vikur. 

Eins og fram kom hér að ofan vissi Jónas Jakobsson veðurfræðingur ekkert um það þann 20. hvenær ótíðinni lyki - enda engar tölvuspár. Þær hefðu þá verið farnar að gefa breytinguna miklu sem varð aðeins fáum dögum síðar til kynna - gjörbreytingu sem við sjáum á síðara korti dagsins.

w-blogg170218b

Þann 26. var breytingin orðin. Ein mesta hæð allra tíma á hægri siglingu vestur yfir landið. Þrýstingur fór yfir 1050 hPa, en það gerist sárasjaldan að hann mælist svo mikill hér á landi. Þessi hæð og afkomendur hennar voru samfellt við landið og þó aðallega yfir Grænlandi í meir en mánuð með þurrki - og oftast kulda. Mars varð einhver sá þurrasti í sögunni. 

Hér má líka benda á kuldann við Bretland - einn af fingrum Síberíu-Blesa hefur stungist vestur um alla Evrópu - ekki algengt en ber þó við endrum og sinnum. Stóri-Boli hefur hins vegar hörfað úr sæti sínu - út af þessu korti. 

En við umskiptin lagðist ritstjórinn (og margir, margir fleiri) í eftirminnilega inflúensu sem sögð var af B-stofni. Kannski hún hafi dottið niður úr heiðhvolfinu þegar bylgjurnar brotnuðu? 


Bloggfærslur 17. febrúar 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 404
  • Frá upphafi: 2343317

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 365
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband