Margt að gerast

Nú er margt að gerast í veðrinu eins og oftast á þessum tíma árs. Öflug veðurkerfi ganga yfir okkur úr suðvestri og þeir sem eitthvað eiga undir fylgjast með veðri og veðurspám - já, ekki aðeins spám heldur veðrinu líka. 

w-blogg020218a

Norðurhvelskortið sem gildir síðdegis á laugardag sýnir stöðuna vel. Þá er illviðrið sem nú er að ganga yfir landið horfið úr sögunni - það má segja að það hafi brotnað í þrjá hluta - einn fór norður í íshaf (og sést varla) annar til suðausturs um Bretlandseyjar - er á þessu kortið á Biskæjaflóa og mun ásamt öðru kuldakerfi valda leiðindum á Spáni - og jafnvel suður í Afríku næstu daga. Þriðji hlutinn byggði svo upp hæðarhrygginn sem sjá má á kortinu milli Íslands og Noregs. 

En næsta lægð steðjar að okkur og veldur okkur ama á sunnudag og mánudag. Gróflega má segja að þetta sé í boði Stóra-Bola, kuldapollsins mikla yfir Norður-Kanada, en hann er nú með öflugra móti - þó á réttum stað sé. Þykktin er niðri undir 4700 metrum, og 500 hPa hæðin að komast niður í 4600 metra og er það með lægsta móti - sérstaklega í jafnstóru kerfi og hér um ræðir. 

Hæðin mikla ríkir enn yfir Austur-Síberíu en er heldur að gefa sig. Þar kom mikil „hitabylgja“ á stöku stað og fréttist af því að lágmarkshiti sólarhrings hafi verið ofan frostmarks - en slíkt mun óvenjulegt á þeim slóðum - og trúlega ekki til bóta fyrir jörð. 

Sunnanstrokan sem yfir okkur fer á sunnudag (rauð ör á kortinu) á að fara alveg norður í Íshaf - þar breytist hún í háloftahæð. Spár eru ekki alveg sammála um hvað gerist með þá hæð - hún gæti lent austan megin - þ.e. norðan Rússlands - en líka farið í að styrkja hæðina gömlu yfir Austur-Síberíu. Það kemur víst í ljós. 

Hlýjar hæðir sem slitna alveg norður úr heimskautaröstinni eru oft ótrúlega þaulsetnar á norðurslóðum - jafnvel þó þær séu ekki endilega sérlega öflugar geta þær haft mikil áhrif á hringrásina og samskipti kuldapollanna stóru. 

Þessi mikla sókn úr suðri inn á norðurslóðir mun trúlega raska eitthvað rásinni í heiðhvolfinu - en samband hennar við veður á jörðu niðri er harla óljóst - sumir segja það mikið - en aðrir gera lítið úr. Trúlega er sannleikurinn einhvers staðar þar á milli. 


Bloggfærslur 1. febrúar 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 116
  • Sl. sólarhring: 265
  • Sl. viku: 1690
  • Frá upphafi: 2350317

Annað

  • Innlit í dag: 74
  • Innlit sl. viku: 1523
  • Gestir í dag: 72
  • IP-tölur í dag: 71

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband