Fyrstu 20 dagar desembermánaðar

Hlýtt hefur verið á landinu fyrstu 20 daga desembermánaðar. Meðalhiti í Reykjavík er +2,8 stig, 2,5 stig ofan meðallags áranna 1961-1990 og +2,4 stig ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn er nú í fimmtahlýjasta sæti sömu daga á öldinni. Hlýjastir voru þeir 2016 - meðalhiti 5,6 stig,en kaldastir 2011, meðalhiti -2,8 stig. Á langa listanum er hiti mánaðarins til þessa í 15.hlýjasta sæti (af 143). Á þeim lista er 2016 líka í efsta sæti, en 1886 er í því neðsta, þá var meðalhiti -5,6 stig.

Frost hefur mælst 9 daga mánaðarins til þessa í Reykjavík (sá 21.talinn með). Árið 2016 var fjöldi frostdaga á sama tíma aðeins tveir, og árið 2002 mældist ekkert frost í Reykjavík fyrstu þrjár vikur desembermánaðar. Nokkrum sinnum hefur frost verið á hverjum degi þessar fyrstu þrjár vikur desember, siðast 2014. 

Á Akureyri er meðalhiti daganna 20 0,0 stig, +1,2 ofan meðallags 1961-1990, en 1,1 ofan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum landsins, mest á Mörk á Landi þar sem vikið er +3,5 stig, en langminnst er vikið á Sauðárkróksflugvelli, +0,1 stig.

Úrkoma hefur mælst 53,6 mm í Reykjavík og er það í meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 51,7 mm, ríflegt meðallag.

Sólskinsstundir hafa aðeins mælst 5,1 í Reykjavík í mánuðinum, og er það rétt neðan meðallags.


Hlý jól (og köld)

Þegar þetta er skrifað (seint á fimmtudagskvöldi 20.desember) eru reiknimiðstöðvar helst á því að jólin verði með hlýrra móti hér á landi þetta árið. Þó ólíklegt verði að telja að um methlýindi sé að ræða virðist þó sem fremur hlýtt verði alla dagana, aðfangadag og jóladagana báða. Við spyrjum þá hvenær þessir þrír dagar (saman) hafa orðið hlýjastir á landinu. Um það höfum við nokkuð góðar upplýsingar um 70 ár aftur í tímann - og reyndar mun lengra fyrir Reykjavík og Stykkishólm. Að reikna út meðalhita fyrir einstaka daga langt aftur í tímann er þó ekki mjög áreiðanleg iðja. Þó við ráðum vel við mánaðarmeðalhita er vafasamara að reikna út dægurmeðaltöl á grundvelli 1 til 3 athugana. Við gerum það samt - en lítum fremur á það sem leik heldur en alvöru.

Leitum nú að hlýjustu og köldustu jólunum (miðum við alla dagana, 24., 25. og 26.desember). Notum fyrst sjálfvirku stöðvarnar (og aðeins í byggð). Við náum í rúm 20 ár, frá 1996 til 2017 (2 aukastafur er marklaus - en notum hann samt við röðun). 

 Sjálfvirkar stöðvar  
 röðár mhiti
 12006 4,62
 22002 4,38
 32005 4,17
 41997 3,76
 52008 3,22
 62010 1,98
     
 172004 -2,44
 182017 -2,50
 192001 -2,88
 202012 -3,00
 212000 -3,55
 222015 -4,71

Hlýjast var um jólin 2006 - meðalhiti 4,6 stig, einnig var mjög hlýtt um jólin 2002 og 2005. Kaldast var um jólin 2015, meðalhiti -4,2 stig. Við sjáum að nokkuð kalt var í fyrra, 2017. 

Mannaða athugunarkerfið er farið að gisna mikið - en við lítum á tölur þess líka - nema nú getum við farið allt aftur til 1949. 

 Mannaðar stöðvar  
 röðár  
 12006 4,49
 22005 4,43
 31958 4,26
 42002 3,79
 51956 3,74
 61997 3,60
     
 641980 -5,96
 651988 -6,41
 661968 -6,90
 671985 -7,03
 681965 -7,80
 691995 -9,86

Hér eru jólin 2006 líka efst á blaði og 2005 og 2002 einnig mjög ofarlega. Kannski var ekki svo óskaplega kalt um jólin 2015 þegar allt kemur til alls - því að minnsta kosti sjáum við þau ekki meðal sex köldustu. Langkaldast var 1995, meðalhiti -9,9 stig og býsna kalt 1965 líka, -7,8 stig. 

En við leitum enn lengra aftur með hjálp mælinga í Stykkishólmi og Reykjavík. Listaniðurstöður eru í viðhenginu - en upplýsum hér að hlýjustu jólin í Stykkishólmi (af 171) voru 1926, en næsthlýjast var 1851 - og svo 2006. Í Reykjavík (142 ár) voru jólin hlýjust 1933 (í 4.sæti í Stykkishólmi), en næsthlýjust 1897. Þess má geta að jólin 1851 voru líka mjög hlý í Reykjavík (þó við höldum þeim utan listans). 

Langkaldast var um jólin í Stykkishólmi og í Reykjavík 1880 - vonandi sjáum við ekkert slíkt í framtíðinni (en aldrei að vita samt). Næstkaldast var á báðum stöðum um jólin 1877. Við eigum eftir að kynnast þessum árum báðum í árayfirliti hungurdiska - vonandi kemur að þeim um síðir. 

Að lokum lítum við á mynd (nokkuð ljóta og erfiða - alla vega ekki til fyrirmyndar). Hún sýnir jólahita í Reykjavík (gráir krossar) og í Stykkishólmi (brún þrepalína) - auk 10-ára keðjumeðaltala jólahita á þessum stöðum. 

w-blogg211218

Örvar benda á flest árin sem nefnd hafa verið. Við tökum eftir því að 10-ára keðjurnar fylgjast allvel að - það er að meðaltali oftast ívið hlýrra um jólin í Reykjavík heldur en í Stykkishólmi - en ekki þó alltaf. Það er síðla hausts (í nóvember) sem munur á hita stöðvanna tveggja er minnstur - mestur er hann á vorin. 

Reynt er að reikna leitni fyrir Stykkishólm - hún er (fastir liðir eins og venjulega) +0,7 stig á öld - en taka má eftir því að hlýnunar þeirrar sem hefur verið svo áberandi á þessari öld gætir nær ekkert - jú það var hlýtt í nokkur ár upp úr aldamótunum - en síðan 2010 hafa jólin ekkert verið neitt sérlega hlý í langtímasamhengi - (en kannski ekki sérlega köld heldur) það var t.d. oftast hlýrra um jól á árunum milli 1890 og 1900. - Allt er þetta þó tilviljunum háð. 

En munið listann í viðhenginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smásteypa (á hálum ís)

Best er að byrja pistilinn á því að segja sem er: Það sem stendur hér að neðan telst vera della hin mesta - en látum hana flakka samt. 

Rímbeygla er gömul samsuða fornra handrita um tímatal og fleira (held að Björn á Skarðsá komi við sögu hennar) - sem var svo prentað ásamt latneskri þýðingu og athugasemdum fyrir margt löngu - útgáfan sem ritstjóri hungurdiska horfir á er frá 1801. Þar er mikill og um margt mjög feitur fróðleikur en líka „veðurspá“ - þar sem sagt er fyrir um veður ársins eftir því hvaða vikudag jóladag ber upp á. Frumtexti sá sem „spáin“ byggir á er örugglega erlendur - en látum það vera. Jóladagur er í ár á þriðjudegi. Svo segir í rímbeyglu [s572 í prentuðu útgáfunni]:

Ef jóladag ber á týrsdag (þriðjudag), þá er vetur mikill og vor regnsamt, og sumar vott, hafandi konum við voða sjálfan, konungafall og Jálla.

Ritstjórinn hefur ekki græna glóru um hvað er átt við með „Jálla“ - en google finnur orðið á ýmsum tungum - látum þýðingarnar liggja á milli hluta (það er hægt að skemmta sér við þær). Veðurhluti textans lýsir reyndar veðrinu á árinu sem er að líða (2018) ekki svo illa - kannski átt sé við jóladagsárið - en ekki það sem á eftir kemur? 

Á næsta ári ber jóladag upp á miðvikudag - hvað segir rímbeygla um hann?

Ef jóladag ber á óðinsdag (miðvikudag), þá er vetur harður og sterkur, vor illt, sumar illt; vín litið eða hunang og menn vesler, því að þá er óáran â hvervetna.

Ekki efnilegt - hvort sem átt er við 2019 eða 2020. 

Í enskum heimildum má finna ámóta jóladagsvikudagaspeki - svo bragðlíka satt best að segja að varla er tilviljun - reyndar ber spánum þar ekki alveg saman við þær „íslensku“. Lítum á þriðjudaginn:

If Christmas day on Tuesday be,
That year shall many women die,
And that winter grow great marvels;
Ships shall be in great perils;
That year shall kings and lords be slain,
And many other people near them.
A dry summer that year shall be,
As all that are born therein may see;
They shall be strong and covetous.
If thou steal aught, thou losest thy life,
For thou shalt die through sword or knife;
But if thou fall sick, ´t is certain,
Thou shall turn to life again.

Við sjáum hér að konum er líka ógnað í enska textanum [margar konur deyja] - og sömuleiðis falla konungar [kings and lords be slain]. Kannski er sagt að vetur sé mikill - rétt eins og í íslensku útgáfunni [winter grow great marvels]. Hins vegar er spáð þurrkasumri en ekki votu [a dry summer]. Þurrkasumur á Bretlandi og votviðri á Íslandi fara svosem oft saman. Kannski Björn á Skarðsá hafi vitað það? 

Miðvikudagsvísan enska spáir hörðum vetri - en góðu sumri (svo ekki ber saman við þá íslensku). 

Nú er spurningin hvar frumtextinn liggur - er hann kannski franskur? Hvergi er minnst á vín og hungang í enska textanum. Nánari könnun á þessu efni er vísað til til þess bærra fræðinga. 

Tilvísun á enskar spávísur. Á síðunni er líka vitnað í annað kvæði um sama efni - þar er aðeins fjallað um sunnudaginn - og þar er víns getið. 


Bloggfærslur 21. desember 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 20
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1511
  • Frá upphafi: 2348756

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 1317
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband