Úrkoma í Reykjavík fyrstu tíu mánuði ársins

Árið 2018 hefur verið mjög úrkomusamt það sem af er suðvestanlands - með þeim úrkomuríkari sem við vitum um.

w-blogg031118aa

Lóðrétti ásinn sýnir úrkomumagn í mm, en sá lárétti árin frá 1885. Úrkomumælingar féllu niður í Reykjavík á árunum 1907 og fram á vor 1920, hluta þess tíma sem vantar var mælt á Vífilsstöðum. Við trúum því að mælingar fyrri tíma og nútímans séu nokkurn veginn sambærilegar þegar tekur til magns, en talning úrkomudaga er það hins vegar ekki fyllilega.

Hvað um það - úrkomumagn sem mælst hefur til þessa á árinu í Reykjavík er um 870 mm, um 70 mm umfram það sem venjulega fellur á heilu ári. Úrkoma hefur ekki mælst meiri í sömu mánuðum í Reykjavík síðan 1989 eða í nærri 30 ár. Árið 1989 voru 30 ár frá því að úrkoma hafði verið jafnmikil, það var 1959. Úrkoma mældist einnig meiri en nú 1925, 1921 og 1887. Úrkoma síðastnefnda ársins hefur reyndar ekki fengið fullgilt heilbrigðisvottorð - en við sleppum því hér að fetta fingur út í það. 

w-blogg031118ab

Við lítum líka á úrkomudagafjölda og teljum eingöngu þá daga þegar úrkoma hefur mælst 1 mm eða meiri. Slíkir dagar voru þann 31.október orðnir 158 á þessu ári og hafa aldrei verið fleiri á sama tíma. Reyndar voru þeir 157 árið 1989 og 156 árið 1976 - varla marktækur munur. Árið 2010 voru þeir hins vegar ekki nema 92 á sama tíma árs. Eins og áður sagði er tíminn fyrir 1907 ekki alveg sambærilegur - stundum var sá ósiður þá í gangi að mæla ekki alla daga - heldur telja tvo eða jafnvel fleiri daga saman ef svo bar undir. 

Ársúrkoma í Reykjavík mældist mest árið 1921, 1291 mm. Mjög mikið þarf að rigna í nóvember og desember til að það met verði slegið, hugsanlegt jú, en ekki sérlega líklegt. Árið 1921 á einnig met í fjölda daga þegar úrkoma er 1 mm eða meiri. 190. Til að sú tala náist í ár þarf úrkoma að mælast meiri en 1 mm 33 sinnum á 61 degi. Alls ekki óhugsandi. 

Keppni í magni annars vegar og dagafjölda hins vegar er ólík að því leyti að magnmet er hugsanlegt að slá á fremur fáum dögum - úrkoma getur verið ótrúlega mikil á fáum dögum, en dagur getur aldrei gefið meir en einn dag í talningu. Nú vantar um 320 mm upp á ársmet, rúma 5 mm á dag það sem eftir er árs - kæmu t.d. þrír dagar með 40 mm úrkomu saxast leifin strax niður í 200 mm sem er vel hugsanleg tala á 4 til 5 vikum. Aftur á móti - vanti t.d. enn 20 úrkomudaga upp á nýtt dagamet þann 12 desember - er útilokað að met verði slegið.  


Öfugsniði

Stundum er veðurlagi þannig háttað að hann blæs úr norðaustri á Suðurlandi meðan suðvestanátt er í háloftum. Þetta er kallað hornriði - mjög gott orð, en ritstjóra hungurdiska finnst einhvern veginn að hornriðinn sé ekki eitthvað sem nær til augnabliks í tíma heldur lýsi fremur veðurlagi heils dags eða jafnvel nokkurra daga, viku eða meira. Því notar hann frekar annað orð í pistli dagsins og talar um öfugsniða, sem er frekar hrá þýðing á erlendu hugtaki, „reverse shear“. Oft hefur verið fjallað um öfugsniða á hungurdiskum - og verður vonandi gert mun oftar. 

w-blogg031118a

Þetta er hitamynd tekin yfir landinu klukkan rúmlega 21 í kvöld, föstudaginn 2.nóvember. Við sjáum að léttskýjað er um landið vestanvert - þar er ákveðin norðaustanátt sem við sjáum af bjartviðrinu og fláka- og bólstraskýjaböndum sem um síðir myndast í þurrum aflandsvindinum vestan við land. 

Sunnar er mikil blikubreiða sem hringar sig í kringum leifar fellibylsins Oscars suður í hafi. Norðaustanáttin nær inn undir skýjabreiðuna - en er austlægari fyrir sunnan landið. Meginlægðin hefur að mestu náð að hringa sig - mynda sammiðja hringrás í gegnum allt veðrahvolfið - og sést sá hringur alveg neðst á myndinni. Í skýjabreiðunni - í 5 km hæð og ofar er hins vegar suðvestanátt - alveg öfug við þá átt sem ríkir við jörð. Vant auga sér þetta reyndar af lagi skýjajaðarsins - lægðasveigja við Suðvesturland breytist í hæðarsveigju yfir landinu. Við borð liggur að sérstök lægð sé að myndast - og á raunar að gera það fyrir austan land síðdegis á morgun - slitin frá meginlægðinni í suðri.

w-blogg031118b

Myndin sýnir spá um vind (og hita) í 500 hPa-fletinum kl.3 í nótt. Sjá má hringrás Oscars neðst - en nokkuð ákveðin suðvestanátt er yfir Íslandi og hátt í 15 stiga munur á hita þar sem hann er mestur og minnstur yfir landinu. 

Þetta er fremur erfið spástaða - þó reiknilíkön nútímans nái allgóðum tökum á henni. Ástæðan er sú að stundum snjóar (eða rignir) á Suðurlandi í þessu veðurlagi - þó áttin sé norðaustlæg. Allt er það á mörkunum að þessu sinni - líkönin veðja heldur gegn því - en samt kæmi ekki á óvart þó eitthvað falli þar úr lofti - því meiri líkur eftir því sem austar dregur, líklega snjór frekar en regn. Úrkoma gæti fallið - en ekki náð til jarðar. Slík útgerð er nokkuð dýr - uppgufun kostar varma - og hiti undir skýjabreiðu af þessu tagi getur því orðið furðulágur - jafnvel í nokkrum vindi. 

Þetta er alltaf athyglisvert veðurlag - en munið að hungurdiskar gera ekki veðurspár - aðeins er fjallað um þær. 


Bloggfærslur 3. nóvember 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 38
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 529
  • Frá upphafi: 2343291

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 481
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband