Af árinu 1824

Tíðarfar var óvenjulegt á árinu 1824. Það byrjaði að vísu nokkuð eðlilega, með hefðbundnum vetrarumhleypingum, en þegar leið á mars róaðist veður. Fyrstu þrír mánuðir ársins voru kaldir. Síðan tóku hlýindi við og apríl, maí, júní og júlí virðast hafa verið óvenjuhlýir. Heldur kólnaði í ágúst og síðan tóku við óvenjuþrálátir kuldar. Í nóvember og desember fádæma þrálátir. Flestum heimildarmönnum ber þó saman um að tíðarfar hafi verið mjög stillt lengst af og það var ekki fyrr en kom vel fram á vetur að hann fór að dengja niður snjó á Norðurlandi. Brandstaðaannáll segir orðrétt: „Var tíð einstakleg í því að ei kom þíða eða bloti um þrjá mánuði fyrir nýár“. 

ar_1824t

Jón Þorsteinsson landlæknir í Nesi við Seltjörn mældi hita og loftþrýsting á hverjum degi. Líklega hefur séra Pétur á Víðivöllum mælt hita flesta daga, en svo illa vill til að ekkert hefur varðveist af mælingum hans 1824. Ekki hefur frést af öðrum mælingum þetta ár. Mælingar Jóns eru nokkuð ónákvæmar (löguðust mikið síðar) en hafa samt verið notaðar til að giska á mánaða meðalhita í Reykjavík og í Stykkishólmi. Ef tölunum er trúað eins og þær koma fyrir er júní 1824 sá hlýjasti sem vitað er um - en við skulum samt ekki staðfesta það. 

Við gætum hins vegar viðurkennt október og nóvember þá köldustu frá upphafi og desember ef til vill sem þann næstkaldasta. Orð Brandstaðaannáls sem vitnað var í hér að ofan benda heldur til þess að rétt sé. 

Í fyrri hluta mars gerði harðan frostakafla - en síðan er nánast frostlaust til sumars og þaðan fram á haust - síðan stöðugt frost. Þetta er óvenjuleg hegðan veðurlags hér á landi. 

ar_1824p 

Meðalþrýstingur var methár í bæði júní og júlí og óvenjuhár í ágúst og október líka. Í byrjun febrúar kom sérlega djúp lægð að landinu og fór þrýstingur í Reykjavík niður í 924 hPa. Þetta var lengi viðurkennt lágþrýstimet við Norður-Atlantshaf. Við gerum ekki ráð fyrir nákvæmni í aukastaf - við vitum t.d. ekki nákvæmlega um hæð loftvogarinnar yfir sjávarmáli, né eiginleiðréttingu hennar. Jón las heldur ekki með fullri nákvæmni af voginni - fór að gera það síðar. En tækið var löngu síðar borið saman við loftvog sem Gaimard-leiðangurinn kom með hingað til lands og bar þeim saman. 

Ekki fréttist af ís við Norðurland, en þess er getið í blaðinu Íslending (áratugum síðar) 31.júlí 1862 að nokkur ís hafi verið við Austurland 1824 og hafi selur verið sleginn á honum við Loðmundarfjörð og Borgarfjörð eystra. 

Brandstaðaannáll:

Vestan og sunnanátt með köföld og blota, með jarðleysi til 16. janúar, að hláku gerði. Kom jörð upp í sveitum, en hross brutu þá ei lengur á heiðum. Eftir það landnyrðingar, köföld og frostmikið. Með febrúar hríðar af öllum áttum og stundum grimmar hörkur. Fyrstu góudaga gott veður og blotar á eftir, svo snöp kom upp. Ei bjó að henni lengi. 6 mars ofsamikil austanhríð. Í góulok brutust menn suður á gaddi, svo sá þá ei til jarðar á heiðum, en stundum var snöp í sveitum. Með apríl kom bati, hæg og stöðug hláka, svo vatnsgangur varð ei mikill, síðan gæðavor.

Á krossmessu búin vallarvinna og grasafjallsferðir ákomnar, er lukkuðust vel. Ekki gerði hret né kuldakast, svo margurt fé varð að góðum notum. 28.júlí lögðust lestir suður og gaf þeim vel. Sláttur byrjaði 15.júlí. Varð nú grasvöxtur góður, rekjur og þurrkar, er oft skiptist um; æskileg heyskapartíð, svo vel fylltust tómar tóftir. Líka hefði mátt vera við heyskap til veturnátta, því ei snjóaði í byggð, en frost og stillt veður lengst. Í október sama staðviðri og snjóleysa. Í nóvember stundum frostmikið. Með desember snjóasamt og fyrir jólin lagði á stórfenni. Var nú einstakleg tíð í því, að ei kom þiða eða bloti um 3 mánuði fyrir nýár. Með jólum kom fé á gjöf. Aflalítið syðra og ónýting vegna votviðra. Fáheyrt var að skip kom í Höfða um fardaga (því íslaust var orðið). (s90) 

Bjarni Thorarensen ritar í Gufunesi 3.mars:

... mér er nú nýlega að austan skrifað, að menn í Árnessýslu efra parti séu farnir að lóga peningi frá heyjum því sumarið var graslaust að kalla, en veturinn hinn ónotalegasti, svo máltækið ætlar að sannast að sjaldnast fyrnast græn hey í garði. (s160)

Klausturpósturinn 1824 (VII, 5, bls. 81

Hjá oss varð veturinn víðarst yfrið þungur; frostalítill að sönnu, en snjóa og ofveðrasamur; og svalg upp heybjörg manna, svo til stórfellis horfði, hefði ekki milt vor úr því bætt. Nokkrir fjárhirðarar urðu úti með fé nyrðra í áhlaupa byljum á jólaföstu eða skammjólu. Fáeinir drukknuðu í sjó eða vötnum. Fiskiafli í haust [1823] að mestu enginn í Faxa-bugt og sáraumur þar til vertíðarloka, en í Vestmannaeyjum og austan með besta fyrirtak og af besta fiski eins vestra.

Jón á Möðrufelli talar vel um vetrarlok og vor. Góð hláka var í síðustu viku febrúar og jörð kom upp. Fyrstu viku marsmánaðar telur hann þó harða, þá næstu allsæmilega. Síðan fylgdi mikið góð, stillt og þíðviðrasöm vika og eins var síðasta vika mars „mikið stillt“.

Apríl var góður framan af, en snjódyngju mikla gerði þó fyrir miðjan mánuð en tók fljótt upp. Síðan góður bati. Maí segir hann aðallega hlýindalausan og þurran lengi vel en undir lokin var gróður í betra lagi. 

Klausturpósturinn 1824 (VII, 10, bls. 164)

Sumarið, þegar útrunnið, reyndist hér á landi hlýtt, frjósamt og indælt, gaf og ríkulegan heyjafeng flestum, nema [af] votlendi gjörðu hann þá út hallaði, endasleppan af haust-rigningum. Almenn heilbrigði hefir því fylgt og mannheill, nema hvað hákarla-veiða skip frá Kvígindisdal í Sauðlauksdalssókn vestra fórst seint í áugústó þ.á. í hákarlalegum, af suðaustan stormi. Meinast formaðurinn, Árni Þóroddsson, hafa hikað við á tíma að skera af sér 14 fengna hákalla, til hvers annað skip vissi, er af komst. Í Faxafirði varð sumarfiskafli sárlítill. ... Þann sjötta maí 1824 bjargaði kaupmaður Safs, við innsiglingu hingað, átta mönnum norðlenskum af hákarlaskipi frá Keflavík, sem rekið var að stormi vestur í haf. Sá níundi fórst, er hann sleppti toginu, þegar upp ætlaði á danska skipið. Sexæringur, sem úr sama stað [] var þar úti í hákarlalegu, náði landi í Hjörtsey á Mýrum.

Magnús Stephensen ritar úr Viðey þann 28.júlí:

Árgæska söm viðhelst, grasvöxtur góður og nýting hans hingað til, heitt milt og spakt veður, síðan voraði fiskafli besti. ... Heilbrigði blómstrar í landinu, svo ekki verður átt- og níræðum kellingum nuddað burt af þessum hnetti ...

Barni Thorarensen ritar í Gufunesi þann 9.september:

Grasvöxtur hefir verið í lakara meðallagi á útjörð, betri á túnum. Þerrar stuttir á túnaslætti og því víða hitnað í heyjum, ef þau hafa ekki brunnið – en mjög votviðrasamt síðan hundadagar enduðust. Í Flóa og Ölvesi er sagt allt á floti svo þar lítur ei vel út ef veður- (s163) áttunni ei bregður. (s164)

Og enn ritar Bjarni þann 26.september:

Veirliget har nu i den senere Tid bestandig været fugtigt og det seer derfor saare ilde ud med Höibiergningen paa hele Sönderlandet – i det mindste har jeg for min Deel over 4 Koesfodere Höe ude som jeg mistvivler om at faae bierget. Derimod har Höeavlen paa Islands hele Nordkant lykkedes fortrinling vel. (s39)

Í lauslegri þýðingu: Veðrið hefur að undanförnu verið rakt og illa lítur því út með heyöflun á öllu Suðurlandi, hjá mér eru meir en 4 kýrfóður enn úti og ég efa að bjargist. Hins vegar hefur heyskapur gengið mjög vel norðanlands. 

Jón á Möðrufelli í Eyjafirði hrósar mestöllu sumri. Fyrstu dagar júní býsna stormasamir en sæmilega hlýir, síðan góð og hlý tíð. Júní segir hann ágætan, grasvaxtartíð í bestu lagi og farið að slá í lokin. Júlí var líka góður og hagstæður. Um vikuna fyrir þann 10. segir hann m.a. að tíð hafi verið allsæmileg, en síðari hlutinn þó svalur. Viku síðar er góð tíð og besti þurrkur í hey. Vikan fyrir 24. var góð og heyskaparholl og vikan þar á eftir mikið hlý og hagstæð heyskap, hér og þar er búið að hirða tún. Ágúst segir hann líkan júlí, mikið hagstæður heyskap svo víða sé orðið vel heyjað. 

Klausturpósturinn 1825 (VIII, 1, bls. 20)

Árgangur. Síðan ég í haust á bls. 164 f.á. Klausturpósts minntist á árferði hjá oss, hefir frá því seint í september til þrettánda jóla aldrei linnt mikilli kulda veðráttu, frostum og í mörgum sveitum miklum snjóa þunga og jarðbönnum, án þess nokkurn tíma fyrr hlánaði. Ógæftir og fiski fæð í Faxafirði orsökuðu almenna bjargar þröng víða með sjó og í ýmsum sveitum; þó varð á Suðurnesjum og í Garði syðra haust, og vetrar-afli til ársloka góður og í kringum Snæfellsjökul, hvar og 12 til 1300 marsvína voru í október rekin á land við Harðakamp. Tvítugan hvalkálf er mælt að borið hafi upp á Staðastaðarreka, en óviss flugufregn bætir við, að einhver stærsti reyðarfiskur, hér um 100 álna langur, sé upprekinn á Bjarneyjum, sannindi um þenna eru þó efasöm enn.

Einar Thorlacius ritar úr Saurbæ í Eyjafirði þann 5.febrúar 1825:

Sumarið var hið allra blíðasta þangað til einum mánuði fyrir vetur, úr því einlæg frost og lognkyrrur til þess um þrettánda [1825], þá tók upp allan þann snjó, sem féll á jólaföstunni.

Jón á Möðrufelli talar vel um veðráttuna í september og lengi hausts, nema hvað nokkuð frostasamt hafi verið og þráviðri nefnir hann hvað eftir annað. Nóvember telur hann í meðallagi, en hríðasamt var nokkuð í bland og jarðskarpt. Þann 18.desember segir hann að tíð sé ei óstillt, en þráviðrasöm í meira lagi. Jarðleysi segir hann orðið mikið í desember og að þann 6. hafi 3 menn orðið úti. Síðasta vika ársins var „mikið frostasöm“.

Annáll 19.aldar rekur fjölda banaslysa, bæði á sjó og landi, en dagsetninga og veðurs lítt eða ekki getið. Þó er sagt að 7.maí hafi skip frá Hraunum í Fljótum farist með 8 mönnum og á jóladag varð maður úti frá Múlakoti við Þorskafjörð. Eftir langa upptalningu drukknana og fleira er í lokin sagt: „Auk þess er talið að 11 yrðu úti, tveir hröpuðu til dauðs, einn féll í sjóðandi pott, einn dæi af bruna af sjóðandi mjólk, og einn merðist til dauða“. 

Að lokum lítum við á fáeinar tíðavísur um árið 1824 úr bálki Jóns Hjaltalín. Ritstjórinn verður að játa á sig þá fáfræði að hafa aldrei heyrt bragarháttinn nefndan áður (þó hrynjandin sé kunnugleg), mun vera „skáhent úrkast“. Jón er ekki jafnánægður með tíðina eins og flestir aðrir þeir sem vitna - veturinn [1823-1824] var trúlega umhleypingasamur og leiður hjá honum [og september úrkomusamur]. Þegar hér var komið sögu var Jón prestur á Breiðabólstað á Skógarströnd - en hafði komið nokkuð víða við á embættisferlinum. - Heimsósómatónninn í lokin á úrvalinu hér að neðan á enn við (þó ekki tengist hann veðri beint).

Jón Hjaltalín 1824

Vetur liðinn valla friðinn veitti láði
mörg var hríðin, hörku tíðin hölda þjáði.

Harðir snjóar huldu móa, hagar brustu
blotar tíðir, byggð og hlíðir, byljir lustu

Norðurlandið nauða standið næmast hitti
æfi manna illviðranna aflið stytti.

Menn þar úti urðu lúta, eyddust bjargir,
veit eg eigi vel að segja víst hvað margir
...
Aprílis fór meins á mis, en majus stundum rosum hreyfði
hjörð þó leifði haga á grundum

Greri jörðin, grænan svörðinn grösin klæddu
geislar fríðir fróns um hlíðir fannir bræddu.
...
Nýting góða nyrðra þjóðar notin bætti,
hérna vestra heyskap flestra haustið vætti

Féllu snjóar, frusu móar fyrir vetur,
norðan andi þrek umþandi þoska-setur

Frostin hörðu festu jörð í fjötrum kulda,
sund og firði samföst byrgði svella hulda.

Fjúkin sína fannlög víða fróni sendu,
með óróa mokstur snjóa mönnum kenndu.
...
Græðgin bölvuð, ær og ölvuð, aldrei fyllist,
ofdýrt selur, sýgur, stelur, sífellt villist.

Heimska er mesta hug að festa heims við gæði
vort er fjörið, völd og kjör á veikum þræði

Lífið eyðist lánið sneyðist, listin þrotnar,
heilsan kveður, hel aðveður, holdið rotnar.

Lýkur hér að sinni að segja frá tíð og veðri árið 1824. Ritstjóri hungurdiska þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta Brandstaðaannáls.


Bloggfærslur 4. október 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 428
  • Sl. sólarhring: 431
  • Sl. viku: 2207
  • Frá upphafi: 2347941

Annað

  • Innlit í dag: 381
  • Innlit sl. viku: 1913
  • Gestir í dag: 361
  • IP-tölur í dag: 351

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband