Smábylgjur á skilum

Við lítum til gamans á spákort þar sem óvenjumargar smábylgjur sjást á skilum fyrir austan land.

w-blogg281018ia

Litirnir sýna frostmarkshæð, athugið að hún er gefin í fetum og ekki er miðað við sjávarmál heldur hæð yfirborðs í líkaninu. Það fylgir landslagi allvel á grófum kvarða. Dekksti blágræni liturinn sýnir frost er alveg niður að jörð. Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar með 2 hPa bili. 

Lægð er á Grænlandshafi - leifar lægðarinnar sem olli illviðri síðastliðna nótt (aðfaranótt sunnudags). Ferð kuldaskila lægðarinnar austur fyrir land tafðist nokkuð í dag (sunnudag), því undir kvöld kom lægðarbylgja úr suðri og fór yfir landið austanvert - og dró skilin tímabundið aftur til vesturs. 

Kortið hér að ofan gildir á mánudagskvöld kl.21. Þá verða skilin alveg fyrir austan land, en eins og sjá má hafa á þeim myndast fjölmargar litlar lægðarbylgjur - við getum talið 6 eða 7. Í þeim er frostmarkshæðin lítillega meiri heldur en umhverfis - og hittir vel á litakvarða kortsins. 

Þróunin virðist síðan eiga að verða sú að ein af bylgjunum - sennilega einhver þeirra sem er nærri Írlandi á kortinu, á að ná sér betur á strik en hinar og dýpka lítillega - og taka norðvestlægari stefnu og jafnvel fara yfir Ísland suðvestanvert síðdegis á þriðjudag. Þá er snjókoma möguleg í vesturjaðri bylgjunnar. Kannski að íbúar á Suðvesturlandi fái þá að sjá fyrsta snjó haustsins - sumir hverjir að minnsta kosti.

Ekki þó víst að slíkt endist lengi því fleiri bylgjur hafa áhuga á að fara svipaða leið. - Nú og svo kemur kannski Afríkulægðin sem minnst var á á hungurdiskum í gær og truflar leikinn á miðvikudag/fimmtudag. Verður þó varla veigamikil. 

Þó ekki sé beinlínis spáð illviðrum er samt talvert um að vera í smáatriðum veðursins þessa dagana. Síðbúinn fellibylur er langt suðvestur í hafi - suðaustur af Bermúda. Heitir Oscar - ekki öflugar en reiknimiðstöðvar hafa ekki gert upp við sig hvort hann nær af afli inn í vestanstreng Atlantshafs. Færi svo er föstudagurinn einna líklegastur. 


Athyglisverð lægð fer norður um Evrópu

Því er spáð að næstu daga fari athyglisverð lægð norður um Evrópu allt frá norðurströnd Afríku um vestanverða Alpa, út á Norðursjó og síðan hjá hér á landi á fimmtudag - án þess þó að koma mjög sögu hjá okkur.

Austan lægðarinnar streymir óvenjuhlýtt loft til norðurs - komið frá Afríku. Það hleður sig raka yfir Miðjarðarhafi, keyrir á Alpana og skilar þar gríðarlegri úrkomu (sé að marka spár). Öll Ítalía er hulin rauðgulum og rauðum aðvörunarborðum litum meðan á þessu stendur.

w-blogg281018a

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum síðdegis á mánudag. Þá verður sjávarmálslægðarmiðjan um það bil að ganga á land við vestanverða Alpa. Við sjáum að þykktin á að fara upp fyrir 5640 metra langt norður í Þýskaland og Tékkland. Spáð er mikilli rigningu, krapa og snjó í austanverðum Noregi á þriðjudag - og síðan hlýindum. 

Vestan við kerfið er hins vegar óvenjukalt allt suður til Afríku. Alparnir munu aflaga kerfið mikið, og spurning hvað það gerir þegar það kemur út yfir Norðursjó á þriðjudag/miðvikudag. Evrópureiknimiðstöðin er tiltölulega hógvær - og hún hefur oftast rétt fyrir sér, en bandaríska veðurstofan er afdráttarlausari í stormspá sinni.

En þetta er frekar óvenjuleg lægðarbraut hvað sem öðru líður. 


Bloggfærslur 28. október 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 139
  • Sl. sólarhring: 318
  • Sl. viku: 1455
  • Frá upphafi: 2349924

Annað

  • Innlit í dag: 118
  • Innlit sl. viku: 1321
  • Gestir í dag: 117
  • IP-tölur í dag: 113

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband