Skemmtileg lægð

Á morgun (föstudag 5. janúar) á að myndast dálítil lægð vestan við land - þvert ofan í norðaustanstrekkinginn sem ríkjandi hefur verið undanfarna daga. Lægðir sem þessar eru ekkert óskaplega sjaldséðar en ritstjóra hungurdiska finnst þær alltaf skemmtilegar, ekki síst vegna þess uppáhalds sem þær voru í hjá honum á hans fyrstu sokkabandsárum veðurástarinnar.

Það var haustið 1961 sem veðuráhuginn braust fram af miklum þunga - enda margt skemmtilegt á seyði. Veðurkort þau sem Morgunblaðið birti ýttu mjög undir áhuga og greiningu. Börn og unglingar hafa oftast gaman af snjó og svo var einnig um ritstjórann á þeim árum (nokkuð sem hann hefur svo algjörlega vaxið upp úr - en kannski ellin bjóði honum aftur upp á þá skemmtan). 

Þann 6. desember 1961 kom að landinu lægð - flestar lægðir koma með rigningu og slagviðri í Borgarfirði, en ekki þessi. Hún var minni um sig - og einhvern veginn allt öðru vísi en hinar og töluvert snjóaði. 

Við skulum líta á (óskýrt) veðurkort sem Morgunblaðið birti daginn eftir, þann 7. desember. Mér sýnist það vera félagi Jónas Jakobsson sem dregur kortið, en hefur sleppt ártalinu 1960 fram úr pennanum - en árið er í raun réttri 1961.

w-blogg050118

Heldur óskýrt er þetta - vekur samt hlýjar minningar - en vel má sjá litla lægð skammt fyrir vestan land.

Við skulum líta betur á stöðuna með aðstöð japönsku veðurstofunnar.

w-blogg050118b

Hér sést lægðin vel - orðin til úr engu að því er virðist á Grænlandshafi vestur af Íslandi. Það er sunnanáttin suður í hafi sem gefur í lægðina og mætir köldu lofti að norðan. 

w-blogg050118c

Háloftakortið sýnir stöðuna enn betur - og hversu lítið kerfið var. Tota af hlýju lofti (rauð strikalína) teygir sig í átt til landsins, en kalt lægðardrag (gul strik) kemur á móti. Samspil þessara litlu kerfa búa til lægðina við yfirborð og úrkomuna. Lægðin fór síðan til suðausturs og var úr sögunni. 

Staðan er ekki eins í dag - en stærð kerfisins sem er nú að fara í gang er mjög svipuð, staðurinn nánast sá sami, og grunnaðstæður svipaðar. Dálítil tota af hlýju lofti mætir köldu háloftalægðardragi.

w-blogg050118d

Evrópureiknimiðstöðin sýnir okkur hugmynd um stöðuna síðdegis á morgun (föstudag). Við sjáum lægðina litlu á Grænlandshafi vel - einmitt þegar hún er hvað skemmtilegust og óráðnust. 

w-blogg050118e

Háloftakortið gildir á sama tíma. Rauðu strikin sýna hlýju totuna sem fyrr, og þau gulu kalt lægðardrag. Ekki stórbrotið mjög - en nægir til að mynda skemmtilega lægð (með hálfleiðinlegu veðri - þykir ritstjóranum nú - trampandi á þeim unga sem veit ekkert um veðurfræði en vill bara snjókomu og fjör). 

En snjóar eða rignir? Það er nú það. Það rignir varla nema við sjávarsíðuna - en hversu víða þá? Í desember 1961 náði hlýja loftið ekki upp í Borgarfjörð - það snjóaði þar - og reyndar í Reykjavík líka (sjá mynd á forsíðu Morgunblaðsins 7. desember), en suður á Reykjanesi fór hitinn upp í 4 stig í rigningunni. 

Árið 1961 hreinsaði norðanaustanáttin alveg upp eftir lægðina litlu - en nú sækir hins vegar að mikil lægð úr suðvestri strax á sunnudag með að því er virðist afgerandi hláku - í bili að minnsta kosti. 


Bloggfærslur 5. janúar 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 7
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 405
  • Frá upphafi: 2343318

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 366
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband