Meira af desembervikum

Við lítum til gamans á tvær vikamyndir úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar - að venju með aðstoð Bolla Pálmasonar. 

w-blogg040118a

Sú fyrri sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins og meðalþykkt í desember - og auk þess þykktarvikin í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Við sjáum að það hefur verið dálítið kaldara en að meðallagi við Ísland og norðaustan við það. Þó ekki svo mjög kalt og vikin talsvert minni en við sáum á samsvarandi korti fyrir nóvembermánuð sem við litum á í pistli 2. desember síðastliðinn. Þá var hæðarhryggurinn flati ívið vestar en á þessu korti og áttin hér á landi því norðlægari. 

En hlýindi eru meira áberandi á þessu korti heldur en kuldi. Svipað má segja um kort sem sýnir sjávarhitavikin í desember.

w-blogg040118b

Ekki mikið um kulda hér (litirnir sýna hitavik), hiti yfir meðallagi á mestöllu Atlantshafi norðanverðu. 

Þrátt fyrir að háloftavestanáttin hafi verið ívið stríðari en í meðalári voru vindar fremur hægir í desember og segja verður að vel hafi farið með veður. 

Um og uppúr helgi kemur högg á kerfið úr vestri - reiknimiðstöðvar gefa til kynna tvenns konar framhald eftir það. Annars vegar að það hlýni verulega hér á landi og háþrýstisvæði byggist upp fyrir austan land, en hins vegar að hryggurinn sem varið hefur okkur undanfarna daga brotni niður og lægðir haldi svo áfram að ganga til austurs fyrir sunnan land eins og oftast hefur verið undanfarna tvo mánuði. 


Áramótaveður í Reykjavík

Nokkuð hefur verið rætt og spurt um áramótaveðrið í Reykjavík. Ekki var þar athugað um miðnætti fyrr en árið 1940 - (hiti þó mældur nokkur ár áður). Af einhverjum ástæðum féll áramótaathugun niður 1945.

Í meðfylgjandi textaskjali er listi yfir veður við áramót í Reykjavík. Frá og með 1987 fer „reykur“ að koma fyrir æ oftar. Var þó einnig í athugun frá áramótum 1952/53 (þó skyggni væri ekki slæmt). Þá segir athugunarmaður í athugasemd:

„Ég mátti til með að gefa reyk, þar sem svo mikill eldur var allstaðar í bænum!“ - Þá var stafalogn og talsvert frost, rétt eins og nú.

Einnig var „reykur“ á áramótum 1964/65 - þó ekki hafi verið logn.

Í fáein skipti hefur verið meira frost en var nú, mest 1975/76, -12,1 stig. Mestur hiti var 1989/90, +7,4 stig á áramótum.

Á listanum má sjá að veðrið hefur langoftast verið skikkanlegt, hvassast 1984/85. - Hafa verður í huga að jörð hefur verið mjög misjöfn - og þó veður kunni að hafa verið gott gæti hafa verið mikil hálka og vandræði af hennar völdum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 3. janúar 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 27
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 2343338

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 383
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband