Stóri-Boli setur upp ísaldarhattinn

Það skal tekið fram í upphafi að „ísaldarhatturinn“ er orðaleppur úr safni ritstjóra hungurdiska en hvorki eitthvað fræðilega viðurkennt né eitthvað sérlega válegt. Orðið hefur hann sum sé notað áður í pistli. Það var fyrir fimm árum þegar svipað gerðist og nú - og gerist reyndar í fleiri árum en ekki. Nú er fyrirsögnin notuð sem lögð var til hliðar þá - lesendur hungurdiska orðnir vanari ritstjórafroðunni. 

w-blogg290118a

Kortið sýnir spá bandarísku veðurstofunnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á miðvikudag 31. janúar og nær aðeins yfir norðurslóðir, Ísland er neðst fyrir miðju, norðurskautið nærri miðju myndar. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykkt er sýnd með litum. Því minni sem hún er því kaldara er loftið, dökkfjólublátt kaldast. 

Ritstjóri hungurdiska kennir þykkt sem er minni en 4740 metrar við ísöldina og er hún heldur algengari yfir Síberíu heldur en Kanada. Kuldapollurinn Síberíu-Blesi er oft heldur kaldari en sá sem við köllum Stóra-Bola og heldur að jafnaði til yfir Norður-Kanada. Síberíu-Blesi hefur stærra meginland til umráða. 

Á dekksta fjólubláa svæðinu eru þykktin einmitt minni en 4740 metrar. Við megum taka eftir því að tveir dekkstu litirnir eru nokkurn veginn sammiðja háloftahringrásinni - kuldinn fyllir upp í hana og hennar gætir því lítt við jörð. Fyrir tíma háloftaathugana sáust kuldar af þessu tagi því illa - eða það þurfti alla vega sérstaka athygli til að sjá þá. 

Svo lengi sem allt helst í skorðum, kuldinn hreyfist ekki mikið, gerist ekki margt - nema að gríðarkalt er og verður þarna vestan við Baffineyju. En kuldapollar fá sjaldan að vera alveg í friði - það er sífellt verið að sparka í þá. Við vitum enn lítið um hvort eða hvernig nagað verður í Stóra-Bola að þessu sinni. - Kannski hann angri okkur ekkert - en rétt er að fylgjast með. 

Athyglisverður er líka hæðarhryggurinn mikli sem stingur sér inn á kortið vestan Alaska (efst). Hann hefur undanfarna daga valdið töluverðum truflunum á stóru svæði og gríðarlegum hlýindum í háloftum yfir austasta hluta Síberíu - hvort þau hlýindi hafa eitthvað getað skilað sér niður í mannheima höfum við ekki frétt. En ekki mun létt að feykja síberíska dalakuldanum burt með jafn auðveldum hætti og gerist hér norðanlands í sunnanþeynum.  


Áratugurinn 1911 til 1920 - 5

Nú bregðum við upp tveimur hitatöflum - án þess að nefna hitatölur beint. Þær byggja á lista yfir mánaðameðalhita í byggðum landsins í nærri 200 ár. Meðalhita hvers mánaðar hefur verið raðað eftir hita, hlýjastur hvers mánaðar fær töluna 1, en sá kaldasti 196. Við látum okkur í léttu rúmi liggja þótt hitatölur landsins frá því fyrir 1880 séu talsvert óvissar - hér er um skemmtiatriði að ræða. 

w-blogg280118za

Fyrri taflan sýnir áratuginn 1911 til 1920 (og einu ári betur). Árin lesum við úr dálkunum, en mánuði úr línum. Þannig má sjá að hitinn í janúar 1911 er í 94. sæti janúarlistans - og svo framvegis. Dökkrauðu reitirnir sýna mánuði sem ná inn á topp-10. Þeir eru tveir á þessum árum, október 1915 í öðru sæti hlýrra októbermánaða, og október 1920 í því fimmta.

Dökkbláu reitirnir merkja þá mánuði sem ná inn á topp-10 fyrir kulda sakir (187. sæti og neðar). Þeir eru sjö, þar af tveir í 196. sæti, janúar og september 1918. Aðrir sérlegir kuldamánuðir eru ágúst 1912, maí 1914, apríl og október 1917 og mars 1919. 

Daufbláir eru þeir mánuðir sem lenda í lægsta þriðjungi þess sem eftir er (þegar búið er að taka 10 hlýjustu og köldustu burt) - og eru hér kallaðir kaldir, daufbleikir eru þeir sem á sama hátt lenda í efsta þriðjungi afgangsins og eru hér kallaðir hlýir. Kaldir mánuðir teljast hér 50 - auk þeirra 7 köldustu, 25 eru hlýir og 48 í meðallagi. Sjá má að kaldir mánuðir fara oft tveir eða fleiri saman - sama má segja um þá hlýju. 

Til samanburðar lítum við líka á síðustu 11 ár, 2007 til 2017.

w-blogg280118zb

Heldur rauðari svipur - enda eru afburðahlýir mánuðir 21 á 11 árum, þó aðeins einn í fyrsta sæti (október 2016). Enginn er afburðakaldur, lægstir eru júní 2011 í 173. sæti júnímánaða, desember 2011 í 165. sæti desembermánaða og júlí 2015 í 169. sæti júlímánaða. Á tímabilinu 1911 til 1921 voru 13 mánuðir neðar en í 173 sæti. 

Alls falla 11 mánuðir í kalda flokkinn á árunum 2007 til 2017 en 38 eru í meðallagi. Vegna þess að köldu mánuðirnir eru svo fáir eru þeir oftast einfarar. Undantekning er þó tímabilið maí til júlí 2015 - þá komu þrír kaldir mánuðir í röð. Það vekur athygli að enginn janúar, febrúar eða mars hefur talist kaldur á þessu tímabili, og ekki heldur ágúst. 


Bloggfærslur 29. janúar 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 40
  • Sl. sólarhring: 115
  • Sl. viku: 1531
  • Frá upphafi: 2348776

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 1335
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband