Vindáttir - nærri jörð - og í háloftunum

Rétt að taka fram í upphafi að þessi pistill er í erfiða flokknum - kannski best fyrir flesta að sleppa honum, en þeir sem á annað borð átta sig á málinu ættu að vera einhvers vísari að loknum lestrinum. 

Við byrjum á því að líta á spákort sem gildir á morgun, þriðjudaginn 23. janúar.

w-blogg220118vindsnidi-a

Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru heildregnar. Lægð er fyrir sunnan land, en hæð norðurundan. Austanátt er ríkjandi á svæðinu, þrýstivindur rétt norðan við austur. Vegna núnings við jörð blæs vindur í raun dálítið skásett á jafnþrýstilínurnar, oft í kringum 30 gráður frá hærri þrýstingi til þess lægri.

Litirnir sýna hæð 500 hPa-flatarins - því dekkri sem blái liturinn er því lægra stendur flöturinn. Háloftalægð er sunnan við land, en hæðarhryggur fyrir norðan það. Vindátt í 500 hPa er af austsuðaustri. Vindur er því ekki alveg af sömu stefnu „uppi“ og „niðri“ - en ekki munar miklu,

Ef við tölum um vindstefnurnar í gráðum er þrýstivindstefnan um 80 gráður, en um 100 gráður uppi í 500 hPa. Hér er stefnubreytingin þannig að hún gefur til kynna vægt hlýtt aðstreymi. 

Hér á eftir könnum við hvernig málum er háttað efra við mismunandi þrýstivindstefnu neðra. Við horfum á meðalstefnur á öllu því svæði sem myndin sýnir, en það er ekki fjarri því að vera 1000 til 1200 km á hvorn veg. Eins og við er að búast jafnast stefnur nokkuð út á svo stórum kvarða - en við höfum engar áhyggjur af því. 

Þrýstivindátt við sjávarmál - vindátt í háloftum

Fyrst horfum við á myndina án þess að skýringartextar séu að marki inni á henni. Lárétti ásinn sýnir þrýstivindáttina - þó þannig að við sleppum núllinu í gráðutölunni, 180 gráður (sunnanátt) er þannig rituð sem 18, vestanáttin, 270 gráður sem 27 og svo framvegis. Lóðrétti ásinn sýnir vindátt í 500 hPa-fletinum á sama hátt. Litirnir sýna hvernig vindáttirnar para sig - kvarðinn til vinstri sýnir að rauðir litir tákna mikla tíðni, þau áttapör eru algengust. Mjóa punktalínan sem liggur skáhalt upp frá vinstri til hægri markar þau pör þar sem vindátt er sú sama neðra og efra - og greinilegt er að þannig er málum yfirleitt varið að ekki víkur mjög mikið frá.

En lítum nú á sömu mynd með nokkrum skýringartexta.

w-blogg220118vindsnidi-b

Tíðnihámörkin tvö eru annars vegar í vestsuðvestanáttinni, sem er algengasta áttin í háloftunum - og svo í austanáttinni - stjarnan sýnir hvar vindáttir á spákortinu að ofan lenda - nokkuð algeng staða greinilega. Rétt er þó að veita því athygli að hér segir ekkert af vindhraða - hann getur í þessum tilvikum verið ýmist hvass eða hægur. 

Stór auð svæði eru á myndinni - sýna pörun sem ekki á sér stað - eða er svo sjaldséð að hún markast ekki sem sérstakur litur. Værum við með minna svæði undir myndu einhver pör trúlega sýna sig laumulega. Hér má t.d. sjá að sé vestanátt við jörð er aldrei austanátt í 500 hPa-fletinum. Aftur á móti er töluvert algengt að sjá austlægar - og sérstaklega norðaustlægar áttir við jörð á sama tíma og vestlægar eru í háloftum. Það kýs ritstjóri hungurdiska að nefna öfugsniða. Rauð stjarna er sett í það mitt. 

Aðstreymi lofts er kalt í pörum sem liggja neðan við skálínuna - en hlýtt næst henni ofan við. Þegar lengra dregur í þá átt þurfum við að rýna betur í myndina til að átta okkur með fullri vissu hvar aðstreymið er kalt og hvar hlýtt - þar ættum við að setja aðra skálinu til að greina betur á milli. 

Það er hitamunur á milli meginlands Norður-Ameríku annars vegar og svo hlýsjávar í austanverðu Norður-Atlantshafi sem býr til suðvestanáttina í háloftunum - Grænland sér um að fínstilla hana við vestsuðvestur (það er stefnan frá Íslandi til Hvarfs) - og að sjá til þess að vindur blási sjaldan úr norðvestri við sjávarmál - en oft leita þungir og kaldir loftstraumar úr Íshafi suður með Grænlandi austanverðu og stinga sér undir vestanáttina úr norðri og norðaustri - og búa þar með til öfugsniðann algenga. 

Austanáttarhámarkið er að vissu leyti líka í boði Grænlands - kalda loftið sem leitar til landsins úr vestri verður að fara sunnan við Grænland - kuldanum fylgir lágur 500 hPa-flötur sem streymir til austurs fyrir sunnan land - og honum fylgir þá austanátt í háloftum og við jörð. Oftast er þó henni varið eins og í dag - hún er talsvert sterkari í lægri lögum heldur en ofar (mætir mótstöðu kuldalekans við Norðaustur-Grænland). Jafnþrýstilínurnar á spákortinu sem við horfðum á hér að ofan eru þéttar, en jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins fáar (litirnir fáir). 

Mynd þessi sýnir því á einfaldan hátt mikilvæga meginþætti í veðurfari á Íslandi - þó ekki sé hún léttmelt. En þeir sem áhuga hafa ættu samt að gefa henni gaum. 


Skemmtileg hitasveifla

Stundum sjást í mælingum hitasveiflur sem má klóra sér í kollinum yfir. Ein þeirra gekk yfir Sauðárkróksflugvöll nú í kvöld (21. janúar).

w-blogg220118b

Ritið byrjar kl. 9 í morgun (þann 21.), en endar kl. 01:30 (þann 22.). Mikið frost var í allan dag, mældist -19,6 stig um hádegið og síðan á milli -16 og -18 stig lengst af. En milli kl.22 og 23 dró til tíðinda og upp úr kl. 22 þaut hitinn á skammri stund upp - og toppaði í -1,2 stigum - en féll síðan snögglega aftur niður í -12. Hitasveifla innan klukkustundarinnar varð 11,9 stig. 

Þannig hagar til að yfir landinu liggja víða grunnir kuldapollar og sjást þeir margir hverjir vel á kortinu hér að neðan.

w-blogg220118a

Það sýnir mun á hita í 2 m hæð og 100 metra hæð í iga-harmonielíkaninu kl. 22 í kvöld. Við Sauðárkróki var þessi munur -10,4 stig. Líklega hefur loft loft að ofan fengið tækifæri til að slá niður - hitahvörfin sullast til í firðinum - efra borð þeirra getur lyfst og sigið á víxl - rétt eins og vatn í baðkari. Frostið í kvöld var ekki nema -2 til -3 stig á Nautabúi - væntanlega ofan hitahvarfanna. 

Við sjáum fleiri svona snarpa bletti austar á Norðurlandi þar sem munurinn er jafnvel enn meiri en í Skagafirði. Stórar skyndilegar hitasveiflur sáust líka á fleiri stöðvum í dag, Þingvöllum (10,2 stig innan klukkustundar), í Svartárkoti (8,2 stig), við Mývatn (8,1 stig), á Grímsstöðum á Fjöllum (10,8 stig), í Möðrudal (10,0 stig) og í Básum (8,4 stig). Á Þingvöllum og í Básum fór hitinn þó ekki niður aftur á sama hátt og á hinum stöðvunum (enda er loft þar orðið betur blandað - að sjá - á kortinu hér að ofan).

Rétt er að taka fram að líkanið sér ekki alla polla - og býr sjálfsagt til einhverja líka sem ekki eru raunverulegir. 


Bloggfærslur 22. janúar 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 37
  • Sl. sólarhring: 235
  • Sl. viku: 1353
  • Frá upphafi: 2349822

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 1230
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband