Alhvítir dagar á Akureyri óvenjufáir 2017

Þegar upp var staðið reyndust alhvítir dagar óvenjufáir á Akureyri árið 2017, aðeins 50 talsins. Þeir hafa aldrei verið svo fáir síðan snjóhuluathuganir hófust þar 1924, fjöldinn aðeins tæpur helmingur af meðallagi og innan við þriðjungur þess sem mest gerist.

w-blogg030117

Hér má sjá fjölda alhvítra daga á ári á Akureyri. Árið 1933 voru þeir 54 (fjórum fleiri en nú) og 56 árið 1964. Flestir voru þeir 1999, 161. Árin 1949 og 1950 vantar allmarga daga í snjóhuluathuganir - og hefur ritstjóri hungurdiska ekki treyst sér til að bæta úr þeirri vöntun. Ljóst er þó að alhvítir dagar þessi ár voru fleiri en 2017. 

Við reiknum með því að útkoman 2017 sé eins og hver önnur tilviljun - að öðru leyti en því að hin almenna regla er sú að því hlýrra sem er í veðri því minni er snjóhulan - og árið 2017 var vissulega óvenjuhlýtt á Akureyri, í 4. til 6. sæti á hitalistanum (af 137). Hlýjasta árið á listanum er enn 1933 - sem áður er getið. 

Sömuleiðis sjáum við að kuldaskeiðið frá 1965 og áfram sker sig nokkuð úr hvað almenn snjóþyngsli varðar. En samt er það svo að einstök ár njóta nokkurs frelsis - ár sem er bæði hlýtt og snjóþungt gæti gefið sig fram - rétt eins og kalt ár og til þess að gera snjólétt getur líka sýnt sig (þó líkur á slíku séu meiri syðra heldur en fyrir norðan). 

Svo verður að taka fram að snjóhula í byggðum landsins 2017 hefur enn ekki verið reiknuð og borin saman við fyrri tíð - og að snjóþyngsli eru mæld á fleiri vegu en með því einu að telja alhvítu dagana. 


Dálítil fyrirstaða sér um vikuveðrið

Hún virðist ekki veigamikil fyrirstaðan sem evrópureiknimiðstöðin segir okkur að muni sitja nærri okkur þessa vikuna - en hún fer samt ekki nema sparkað sé rækilega í hana.

w-blogg020117ia

Kortið sýnir spá um meðalhæð 500 hPa-flatarins vikuna 1. til 7. janúar 2018. Hæðarhryggur á að verða í námunda við landið og heldur hann lægðum frá - svona að miklu leyti. Hafa skal þó í huga að hér er um meðalkort heillar viku að ræða. Litirnir sýna hæðarvik að þessu sinni. Sé spáin rétt verða litlar grundvallarbreytingar á veðri - kannski eitthvað hlýrra þó við sjávarsíðuna en verið hefur. Háloftahæðir eru oftast hlýjar - þó undir þeim geti verið harla kalt. 

En svo eiga víst stórir hlutir að gerast vestur við Ameríkustrendur eftir miðja viku - kannski þar sé komið stígvélið sem sér um sparkið - ekki vitum við það enn. Bandarískir bloggarar og tístarar eru lausir á límingum þess vegna.

 


Bloggfærslur 2. janúar 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 33
  • Sl. sólarhring: 232
  • Sl. viku: 1349
  • Frá upphafi: 2349818

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 1226
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband