Tvísýnt útlit

Heiðarlegt illviðri dagsins í dag (fimmtudag 11. janúar) er nú gengið niður um landið vestanvert, en austurhluti landsins hefur enn ekki bitið úr nálinni - bálhvasst verður þar sums staðar langt fram á morgundaginn (föstudag) og svo gera spár ráð fyrir hellirigningu á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum á sama tíma. 

Á meðan mest rignir eystra verður veður allskaplegt um landið vestanvert í sunnanátt og slydduéljum - og viðeigandi hálkutilburðum sem hin freðna jörð ýtir mjög undir. Svo sækir hefðbundnari útsynningur að um tíma - hlutur snævar í úrkomunni vex og hvassara verður í éljunum. 

w-blogg110118a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum um hádegi á laugardag (13. janúar). Sýnir það alltvísýnt útlit. Við sjáum að gert er ráð fyrir talverðri úrkomu vestanlands í útsynningséljunum, - erfiðleikum á heiðavegum (og kannski víðar) en á sunnanverðu Grænlandshafi er að verða til lægð sem rétt er að fylgjast vel með.

Að henni standa mjög öflug kuldaframrás vestan Grænlands, þar sem frostið er meira en -35 stig í 850 hPa, og mjög hlýtt loft sem sækir til norðausturs austur af Nýfundnalandi - þar má finna loft sem er hlýrra en +10 stig í sama fleti. 

Svo vill til að sóknarherirnir virðast að einhverju leyti ætla að fara á mis, en þó ekki meira en svo að lægðin er þarna í foráttudýpkun og sé eitthvað að marka reiknimiðstöðina á hún að vera komin niður í 941 hPa sólarhring síðar og þá yfir Vestfjörðum eða rétt þar vestan við. 

Við njótum nú Grænlands mjög því kaldasta loftið rekst á það og ekki nema hluti kemst yfir jökulinn - en dálítið sleppur sunnan við. Hlýjasta loftið fer til austurs fyrir vel fyrir sunnan- og hittir ekki í háloftalægðina, til allrar hamingju. 

w-blogg110118b

Háloftakortið gildir á sama tíma (kl.12 á hádegi á laugardag). Jafnhæðarlínur eru heildregnar - gríðarhvasst er sunnan við kuldapollinn, uppi við veðrahvörf er vindhraði í rastarkjarna (skotvindi) heimskautarastarinnar meir en 100 m/s (360 km/klst). Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Kuldapollurinn Stóri-Boli er mættur á svæðið - fimbulkaldur að vanda og ryðst í átt að Grænlandi. Hlýja loftið er eins og sjá má aðallega á austurleið. Engu má þó muna að það kalda nái í það og keyri inn í kuldann. 

w-blogg110118d

Rúmum sólarhring síðar er hringrás Stóra-Bola að miklu leyti komin til Íslands, en aðalkuldinn skorinn undan honum og situr eftir vestan Grænlands - við sjáum þó bláan slóða liggja í átt til Íslands. Það sem er sérlega óvenjulegt við þetta kort er hversu lágur 500 hPa-flöturinn er á stóru svæði, ef vel er að gáð má sjá lítinn svartan punkt við L-ið - hann markar 4740 metra jafnhæðarlínuna - og 4800 metra línan nær utan um stórt svæði. Það er ekki algengt að við sjáum svona lágan flöt. 

Sé spáin rétt fer hæð 500 hPa-flatarins yfir Keflavík niður í 4780 metra - kannski hittir háloftaathugun í það - kannski ekki. Nær ekki alveg meti, en stappar nærri, aðeins er vitað um 2 lægri tilvik síðustu 65 ár. 

Kæmist hlýtt loft fyrir alvöru inn að svona lágum fleti fengjum við einfaldlega metdjúpa lægð, 910 hPa - til að nefna einhverja tölu - en við sleppum eitthvað betur í þetta sinn. 

En satt best að segja er útlitið mjög tvísýnt og rétt að fylgjast vel með veðri. Á árum áður, fyrir tíma sæmilegra öruggra tölvuspáa hefði staða þessi vakið mikinn ugg með ritstjóra hungurdiska - en niðurstöður reiknimiðstöðva ná nú að slá verulega á hann, en samt. Fyrir 8ö árum, fyrir tíma háloftaathugana - áður en menn vissu að Stóri-Boli væri til var hins vegar ekkert hægt að gera nema horfa á loftvog, hitamæli og himininn - og hlusta á náttúruhljóðin. 

Svo virðist sem hringrásin taki sér síðan nokkra daga í að jafna sig á þessum atgangi - og veðrið gæti jafnvel orðið sæmilegt hérlendis. Pollurinn heldur hins vegar áfram að ógna Vestur-Evrópu alla vikuna og eru þar blikur á lofti - kannski fá þeir krappar lægðir í hausinn - kannski ekki. Reiknimiðstöðvar hafa ekki getað ráðið það við sig. 

Að lokum má svo benda á óvenjulega framtíðarspá sem evrópureiknimiðstöðin sendi frá sér nú í kvöld um veðrið í þarnæstu viku. Hún er óvenjuleg að því leyti að hita er spáð ofan meðallags á öllu norðuratlandshafskortinu - 

w-blogg110118c

- ekki mjög stórum vikum að vísu, en samt á öllu svæðinu. Slík niðurstaða verður að teljast harla ólíkleg, en við bíðum og sjáum hvað setur.


Bloggfærslur 11. janúar 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 115
  • Sl. sólarhring: 207
  • Sl. viku: 2357
  • Frá upphafi: 2348584

Annað

  • Innlit í dag: 102
  • Innlit sl. viku: 2065
  • Gestir í dag: 92
  • IP-tölur í dag: 92

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband