Meira af hitametinu á Egilsstöðum

Við lítum nú aðeins á nýja septemberhitametið sem sett var á Egilsstöðum á föstudag (þann 1.). Eins og áður er komið fram sló það út eldra met sem sett var á Dalatanga þann 12. árið 1949.

Þann dag fór hiti mjög víða yfir 20 stig um landið norðaustan- og austanvert, en hámarksskotið á Dalatanga virðist ekki hafa staðið mjög lengi því hiti á athugunartímum var lengst af á bilinu 13 til 15 stig, en þó 19,0 stig kl.18. Ekki er þó sérstök ástæða til að efast svo mjög um réttmæti hámarksins því hiti var meiri en 20 stig á Seyðisfirði allan daginn, frá morgni til kvölds og var hæst lesinn 24,0 stig kl.14 (15 að okkar tíma). Enginn hámarksmælir var á staðnum þannig að við vitum ekki hvort hitinn þar fór hærra. Við flettingar í 20.aldarendurgreiningunni bandarísku kemur í ljós að þessi dagur 12.september 1949 á næsthæsta septemberþykkt safnsins, 5600 m - nokkuð sem gerir metið líka trúverðugt. 

En að mælingunni á Egilsstöðum.

w-blogg050917aa

Blái ferillinn sýnir hæsta mínútuhita hvera 10-mínútna sólarhringsins - þar á meðal þann hæsta, 26,4 stig sem mældist skömmu fyrir kl.16. Hiti hafði farið niður í 2,9 stig (lægsta lágmark) kl.5 um morguninn þannig að sveiflan var mjög stór. Hitinn var ofan við 20 stig frá því um kl. 12:30 til klukkan 17:40. Efir kl. 19 var hann kominn niður í um 15 til 16 stig og hélst á því bili fram yfir miðnætti. 

Rauði ferillinn á myndinni sýnir daggarmarkið. Við sjáum að það féll nokkuð um miðjan daginn sem bendir til þess að þurrara loft (og hlýrra) að ofan hafi blandast niður í það sem neðar var. Sólarylur hefur sjálfsagt hjálpað til að ná þeirri blöndun. Rakastig (grænn ferill - kvarði til hægri) fór þá niður í 25 prósent - svipað og þegar kalt og þurrt marsloft að utan er hitað upp innanhúss. 

w-blogg050917b

Blái ferillinn á síðari myndinni er sá sami og á fyrri mynd, en rauður ferill sýnir nú hita uppi á Gagnheiði, í 950 metra hæð yfir sjávarmáli. Um morguninn var þar hlýrra en niðri á Egilsstöðum og dægursveiflan miklu minni. Hámarkshitinn fór þó í 15,7 stig, rúmri hálfri klukkustund síðar en hitinn varð hæstur á Egilsstöðum.

Græni ferillinn sýnir mismun hita stöðvanna. Athugið að kvarðinn sem markar hann er lengst til hægri á myndinni og er hliðraður miðað við þann til vinstri sem sýnir hita stöðvanna. Hitamunurinn var mestur rétt um 12 stig - sem er ívið meira en búast mætti við af hæðarmun þeirra eingöngu. Minna má á að hiti á fjallstindum er gjarnan eins lágur og hann getur orðið miðað við umhverfi í sömu hæð - alla vega ef vind hreyfir. Hiti í 950 metra hæð beint yfir Egilsstöðum gæti hafa verið tæplega 17 stig þegar best lét.

Þó meir en 15 stiga hiti sé sjaldséður á Gagnheiði í september var hér ekki um met að ræða þar því 17,6 stig mældust 13. september árið 2009. Þá var hámarkið á Egilsstöðum ekki „nema“ 19,6 stig - hefði kannski átt að vera 28 (við bestu blöndunaraðstæður eins og nú)? En það varð ekki. Hins vegar fór hiti í meir en 20 stig á allmörgum stöðvum þennan dag. 


Bloggfærslur 5. september 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 95
  • Sl. sólarhring: 112
  • Sl. viku: 1844
  • Frá upphafi: 2348722

Annað

  • Innlit í dag: 85
  • Innlit sl. viku: 1615
  • Gestir í dag: 79
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband