Bleytutíð framundan (syðra)?

Það sem af er mánuði hefur úrkoma verið undir meðallagi síðustu tíu ára víðast hvar á landinu. Snæfellsnes virðist þó skilja sig nokkuð úr en þar rigndi mikið um helgina. Samanburður við lengra tímabil sýnir blandaðri mynd - því septembermánuðir kuldaskeiðsins voru talsvert þurrari heldur en algengast hefur verið á síðari árum. 

Sé eitthvað að marka spár virðist nú eiga að blotna rækilega um landið sunnanvert og margfaldri meðalúrkomu er spáð næstu tíu daga. Vonandi kemur hún þó frekar í mörgum skömmtum heldur en í einu lagi. 

w-blogg190917a

Kortið er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Heildregnu línurnar sýna meðalsjávarmálsþrýsting næstu tíu daga. Mikið lágþrýstisvæði fyrir suðvestan land, en hæð yfir Skandinavíu. Því er spáð að hér á landi verði sunnanátt ríkjandi með mikilli úrkomu. Litirnir sýna hlutfall úrkomunnar af meðallagi áranna 1981-2010. Hlutfallið er langhæst sunnanlands - allt upp í 13-föld meðalúrkoma, en meir en fimmföld á allstóru svæði. Norðanlands er hins vegar búist við því að úrkoma verði undir meðallagi. 

Spár gera ráð fyrir því að margar myndarlegar lægðir heimsæki landið og nágrenni þess, allmikil hlýindi fylgi þeim flestum - en svalara loft ættað úr vestri skjóti sér inn á milli. 


Augað óttalega

Fellibyljir hrjá enn eyjar Karíbahafs. Ná nýjasti heitir María og lítur illa út. Nýjasta yfirlit fellibyljamiðstöðvarinnar í Miami hefst á þessum orðum: „Maria is developing the dreaded pinhole eye.“ - Augað óttalega - ginnungagap. 

Rétt að líta á mynd sem kanadíska veðurstofan sýnir okkur þannig að lesendum sé ljóst hvernig auga af þessu tagi lítur út - og geta þá þekkt slíkt síðar. 

w-blogg180917a

María er neðarlega á myndinni. Augað - örsmátt hringlaga gat í skýjahulunni umhverfis bylinn sést greinilega - órækt merki þess að voði sé á ferð. Fellibyljamiðstöðin var einmitt að lýsa yfir 5. aflstigi. Eina huggun er sú að versta veðrið nær ekki yfir stórt svæði. Augað er aðeins um 20 km í þvermál og fárviðrishringurinn nær ekki nema 30 til 40 km út fyrir það. Flestar eyjar Karíbahafs eru litlar - miðað við hafflæmið umhverfis og líkur á að einstakur staður verði fyrir fárviðri eru því ekki miklar - en það er örugglega óþægilegt að sitja í brautinni og bíða. 

Þegar ritstjóri hungurdiska settist niður til að skrifa pistilinn var miðjuþrýstingur Maríu talinn 950 hPa - er nú 929 hPa. 

Fellibylurinn José er enn á lífi - heitir meira að segja fellibylur ennþá í viðvörunum og fellibyljamiðstöðin er ekki enn búin að afskrifa hann. En hann hefur fyrir löngu glatað auganu illa. Gæti svosem komið sér upp nýju - en það yrði þá annars eðlis en það sem María skartar nú - og orðið til í samvinnu sjávar og heiðhvolfs - hættulegt samband það. 


Bloggfærslur 19. september 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 83
  • Sl. sólarhring: 123
  • Sl. viku: 1832
  • Frá upphafi: 2348710

Annað

  • Innlit í dag: 74
  • Innlit sl. viku: 1604
  • Gestir í dag: 70
  • IP-tölur í dag: 70

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband