Á norðurhveli í upphafi sumars

Sumarið, eins og Veðurstofan skilgreinir það hófst í gær, 1. júní. Það á sér auðvitað ýmsar hliðar og ekki er hægt að gera til þess einhverjar sérstakar kröfur, stundum er það gott - en stundum harla hraklegt og þá lítið að gera nema bíða þess næsta. 

En óvenjuleg hlýindi ríktu hér á landi í maímánuði. Meðalhiti á landsvísu var 7,4 stig og hefur aðeins tvisvar reiknast lítillega hærri í maí, 1935 (7,6 stig) og 1939 (7,5 stig). Tvisvar hefur verið jafnhlýtt í maí og nú, 1946 og 1928. 

En júnímánuður er frjáls af fortíðinni og byrjar svosem ekkert sérlega illa, hiti fyrstu tvo dagana er lítillega undir meðallagi sömu daga síðustu tíu ár (-0,7 stig). Aftur á móti er ekki spáð neinum sérstökum hlýindum alveg á næstunni. 

w-blogg030617a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykkt um mestallt norðurhvel jarðar síðdegis á sunnudaginn kemur (hvítasunnudag) - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin sýnd með litum (kvarðinn skýrist sé myndin stækkuð). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Meðalþykkt fyrstu 10 daga júnímánaðar er í kringum 5400 metrar hér á landi, nærri mörkum ljósasta og næstljósasta græna litarins. - Sé að marka spána verður þykktin heldur minni en það á sunnudaginn - hiti því líklega heldur undir meðallagi áfram. 

Guli liturinn færir okkur hins vegar afgerandi hlýrra veður - næst þegar hann kemst til landsins. Eins og venjulega greinir reiknimiðstöðvar á um það hvenær það verður. 

Á kortinu er mikil háloftalægð fyrir sunnan land - hún er hægfara eins og slíkar eru oftast. Nokkuð langt er í alvarlegan kulda - hann er þó til ennþá, það er nokkuð snarpur kuldapollur nærri norðurskautinu.  

Rauð strikalína markar hrygg sem aðskilur norðurhringrásina frá þeirri sem ræður veðri hjá okkur. Nú er vandi að bera fram óskir - jú, það er auðvitað æskilegt að við sleppum við útrás norðurskautskuldans - hryggurinn hjálpar til við að halda henni í skefjum - en á móti kemur að þessi sami hryggur beinir þá til okkar kuldapolli sem nú er við Norður-Noreg - og rauða örin bendir á. 

Evrópureiknimiðstöðin sendir hann í frekar ólíkindalegt ferðalag - fyrst vestur og suðvestur til okkar (segir hann fara hér hjá á miðvikudag með leiðindakulda) og síðan vestur yfir Grænland og áfram. Bandaríska veðurstofan er á öðru máli - snýr honum tilbaka áður en hingað er komið. 

En þetta eru engir stórviðburðir - smáatriði á leið vors til sumars. 


Bloggfærslur 3. júní 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 27
  • Sl. sólarhring: 138
  • Sl. viku: 1776
  • Frá upphafi: 2348654

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 1555
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband