Er kalt? Eða er kannski hlýtt?

Það vekur nokkra furðu meðal eldri veðurnörda að talað sé um núlíðandi júnímánuð sem kaldan hér í Reykjavík. Ritstjóri hungurdiska er meðal þeirra - finnst mánuðurinn hafa verið nokkuð hlýr. Hvað skyldi valda misræmi sem þessu? 

Almennt er engin bindandi skilgreining á því hvað er kalt og hvað er hlýtt. Það hlýtur þó að einhverju leyti að ráðast af því við hvað er miðað. Ekki er fráleitt að taka mið af því sem „venjulegt“ er á þeim tíma árs sem fjallað er um. 

Oft er þar litið til svonefndra þriðjungamarka. Búinn er til listi yfir viðmiðunaratburði, í þessu tilviki mánaðarmeðalhita. Listanum er raðað eftir hita og skipt jafnt á þriðjunga. Lendi mánaðarmeðalhiti í efsta þriðjungi er sá mánuður talinn hlýr - lendi hann í neðsta þriðjungi er hann talinn kaldur, en afgangurinn (líka þriðjihluti fjöldans) er talinn í meðallagi. 

Eins og viðbúið er skiptir hér máli hvaða tímabil er miðað við. Í ljós kemur að í tilviki júníhita í Reykjavík skiptir það afgerandi máli. 

Lítum á mynd.

Þriðjungamörk júníhita í Reykjavík

Lóðrétti ásinn sýnir mánaðarmeðalhita, en sá lárétti lengd viðmiðunartímabils - árafjöldi afturábak frá 2016. Árin 9, 2008 til 2016, eru notuð sem fyrsta tímabil. Þá telst hiti undir 9,9 stigum lágur (í þriðjungaskilningi), en yfir 10,9 stigum hár. 

Myndin sýnir vel að júnímánuðir síðustu 15 ára hafa verið mjög afbrigðilegir sé litið til lengri tíma. Hér á árum áður taldist júní hýr ef hiti náði 10 stigum og ekki kaldur nema meðalhiti væri undir 9 stigum. 

Nú vitum við ekki hvernig fer með júní í ár. Þegar þetta er skrifað lifa rúmir 8 dagar af mánuðinum. Meðalhiti fyrstu þriggja viknanna er 10,0 stig í Reykjavík. Segjum sem svo að sá hiti haldist til mánaðamóta. Þá kæmi upp sú staða (þykka línan á myndinni) að mánuðurinn teldist kaldur ef við veljum síðustu 15 ár sem viðmiðunartímabil, í meðallagi ef við veljum 9 eða 12 ár, eða allt að 40 árum (nema 15), en sé miðað við lengri tíma en 40 ár (eins og við gamalnördin gerum) telst hann hlýr. 

Núlíðandi júnímánuður er að tiltölu hlýjastur suðvestanlands, annars staðar er hann kaldari, nægilega kaldur til þess að hann á varla möguleika á að teljast hlýr jafnvel þótt gripið sé til langrar reynslu - aftur á móti á hann enn möguleika á að teljast í meðallagi (að þriðjungatali) sé langt viðmiðunartímabil notað. Á Akureyri stendur mánuðurinn nú í 52. sæti af 82 á lista, rétt ofan neðri þriðjungamarka - og þar með í meðalástandi. Neðri þriðjungamörk júnímánaðar alls eru hins vegar 8,6 stig þar á bæ, 0,3 stigum ofan við meðalhita fyrstu þriggja viknanna. 

En af þessu má e.t.v. draga þann lærdóm að veðurfarsbreytingar séu farnar að hafa áhrif á væntingar heilla kynslóða - og þær virðist jafnvel meiri innanhugar en utan - og stundum finnst manni þær jafnvel mestar hjá þeim sem reyna að gera lítið úr utanhugarbreytingunum - en það er kannski útúrsnúningur. 


Bloggfærslur 22. júní 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 407
  • Sl. sólarhring: 426
  • Sl. viku: 1723
  • Frá upphafi: 2350192

Annað

  • Innlit í dag: 367
  • Innlit sl. viku: 1570
  • Gestir í dag: 357
  • IP-tölur í dag: 345

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband