Hlýr og úrkomusamur vetur

Nú er komið að sumardeginum fyrsta og rétt að líta á útkomu íslenska vetrarins 2016 til 2017. Veturinn sá hefst á fyrsta vetrardag, sem síðastliðið haust bar upp á 22. október og við teljum honum ljúka með deginum í dag, 19. apríl 2017. 

Veturinn var bæði hlýr og úrkomusamur. Línuritið hér að neðan ber saman hita vetra alllangt aftur í tímann. Vegna þess að íslenska tímatalið fylgir ekki mánuðum hins hefðbundna dagatals verðum við að þekkja hita hvers einasta dags til að geta reiknað. Það gerum við ekki á Akureyri nema aftur á árið 1936, en í Reykjavík lengra aftur - en þó ekki samfellt (unnið er að úrbótum, en það er ákaflega seinlegt). 

Hiti íslenska vetrarins í Reykjavík og á Akureyri

Gráa línan sýnir Reykjavíkurhitann, en sú rauða hitann á Akureyri. Ártölin standa við síðara ártal vetrarins (2017 á við veturinn 2016 til 2017). Við sjáum að í Reykjavík er vitað um fjóra hlýrri, hlýjastur var 2002 til 2003, síðan 1928 til 1929, 1963 til 1964 og 1945 til 1946. Ámóta hlýtt og nú var einnig 1941 til 1942. 

Á Akureyri ná reikningarnir aðeins aftur til vetrarins 1936 til 1937. Nýliðinn vetur er sá næsthlýjasti á því tímabili - 2002 til 2003 er sá eini sem var hlýrri. - En við vitum hér ekki nákvæma tölu fyrir 1928 til 1929 - sá næsthlýjasti í Reykjavík.

Úrkoma íslenska vetrarins í Reykjavík

Óvenjuúrkomusamt var í Reykjavík eins og sjá má á myndinni. Ámótamikið skilaði sér í mælana 1991 til 1992, en síðan þarf að fara aftur til 1925 til að finna jafnmikið eða meira. 

Ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og landsmönnum öðrum gleðilegs sumars með þökk fyrir vinsemd á liðnum misserum. 


Sjávarhitavik á N-Atlantshafi um þessar mundir

Það er svosem lítið nýtt af sjávarhitavikum á Norðuratlantshafi að frétta - flest við það sama. Neikvæð vik enn á sveimi suðvestur í hafi - kannski ívið minnkandi - en jákvæð fyrir norðan. 

Ritstjóri hungurdiska ritaði nokkuð ítarlega um ástæðu neikvæðu vikanna í pistlum í maí 2016 og ætlar ekki að endurtaka það nú - þó fáir hafi lesið og enn færri muna - en minnir samt á að neikvæð vik af þessu tagi á þessu svæði hafa í fortíðinni átt sér mismunandi orsakir - eins og öll önnur vik.  

w-blogg200417c

Hitavik eru ekki eingildur mælikvarði á veðurfarsbreytingar, hvað þá umhverfisbreytingar almennt. Við getum ekki ráðið umfangi umhverfis- eða veðurfarsbreytinga með því að liggja á hitastillinum einum - þar að auki er sá hitastillir kvarðalaus (eða að kvarðinn er í besta falli ógreinilegur - þó við vitum með nokkurri vissu að upp þýðir upp og niður niður). Jú, það sakar kannski ekki að reyna - og væri ábyggilega til bóta á ýmsum sviðum - sé það gert falslaust vel að merkja (en á slíku virðist lítill eða enginn kostur). 


Bloggfærslur 19. apríl 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a
  • w-blogg110424b
  • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 214
  • Sl. sólarhring: 252
  • Sl. viku: 1993
  • Frá upphafi: 2347727

Annað

  • Innlit í dag: 187
  • Innlit sl. viku: 1719
  • Gestir í dag: 181
  • IP-tölur í dag: 175

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband