Fer vonandi vel með

Kortið hér að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa fletinum síðdegis á mánudag (4.desember). 

w-blogg021217a

Lægð er á austurleið fyrir norðan land og veður er kólnandi. Sé kortið skoðað nánar má sjá að þrýstingur er furðuhár, þrýstingur í lægðarmiðju er ofan við 1000 hPa. Gæti rétt svo sem verið um mitt sumar. Hæðirnar tvær,sú vestan Bretónaskaga og hin, yfir Labrador, eru ekki svo sterkar heldur - aðeins öflugri þó en venjulegt er að sumri. Hvergi virðist vera stormur, nema e.t.v. í fallvindi við Austur-Grænland.

En hitatölurnar (í 850 hPa) eru að vísu mun lægri en væri að sumarlagi og sýna okkur ótvírætt að kortið sýnir vetrarstöðu - en ekki hásumar. 

Þó vel virðist ætla að fara er staðan í grunninn mjög eitruð - mjög hlýtt loft (rauð ör) streymir úr langt úr suðri til móts við kulda úr norðri og vestri (blá ör) - uppskrift að skyndidýpkun. - En séu reikningar réttir mun stefnumótið mistakast, herjir norðan- og sunnanlofts fara á mis og orrusta blásin af. - Nema hvað gríðarlegri úrkomu er spáð í Vestur-Noregi þegar hlýja loftið skellur þar á á þriðjudag.

Hér á landi á kuldi hins vegar að ná undirtökum aftur - ekki til langframa þó.

Landsdægurhitamet var slegið í gær (1. desember) þegar hiti fór í 16,6 stig í Kvískerjum í Öræfum, það gamla var 15,5 stig, sett á Seyðisfirði 1998. Ritstjóra hungurdiska telst til að þetta sé 17. landsdægurhámarksmetið sem sett er á árinu (á þó eftir að staðfesta þá tölu). Þetta er langt umfram væntingar. Aðeins eitt landsdægurlágmarksmet hefur verið sett - mun minna en vænta mætti í stöðugu veðurfari. 

Það eru líka tíðindi að nóvember er kaldastur mánaða það sem af er ári víðast hvar á landinu (ekki alls staðar þó). Spurning hvort desember nær að slá hann út. Nóvember hefur stöku sinnum orðið kaldasti mánuður ársins, við höfum farið í gegnum það áður hér á hungurdiskum - ritstjóra minnir að verði nóvember kaldastur mánaða í ár verði það í tíunda sinn sem það gerist á landsvísu síðustu 200 árin - við gætum rifjað það upp síðar. Kuldinn nú var missnarpur - snarpastur að tiltölu á Suðurlandi. Sýnist sem þetta sé kaldasti mánuður yfirleitt í Árnesi frá desember 2011 að telja, ámóta kalt var þó þar í desember 2014. 


Nóvemberkuldi

Við lítum til gamans á þykktarvikakort nýliðins nóvembermánaðar - frá evrópureiknimiðstöðinni, með aðstoð Bolla kortagerðarmeistara. 

w-blogg011217xa

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins í nóvember, strikalínur meðalþykkt og litir þykktarvikin. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og vikin hversu mikið hann víkur frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Bláir litir sýna neikvæð vik, en gulir og brúnir jákvæð. Því minni sem þykktin er því kaldara er í veðri. 

Svona fer stundum - við lendum í neikvæðu viki miðju - því mesta á stóru svæði. Talan sem lesa má yfir landinu er -68 metrar. Það þýðir að neðri hluti veðrahvolfs hefur verið um það bil -3,4 stigum kaldari en að meðaltali. - Hlýja vikið sýnir svæði þar sem þykktin var +80 metrum yfir meðallagi, þar var meðalhiti í neðanverðu veðrahvolfi um +4 stigum ofan meðallags nóvembermánaðar. Yfirborð jarðar, sjór og land hefur líka áhrif, þannig að í reynd voru vikin misstór hér á landi, minnst á útnesjum og eyjum við austur- og norðurströndina, en mest inn til landsins.

Ástæða kuldans er einföld, ríkjandi vestnorðvestanátt í háloftum og norðanátt í neðstu lögum. 

Nóvember 2017 var almennt sá kaldasti hér á landi frá 1996. Þá hittist enn verr á heldur en nú eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

w-blogg011217xb

Þetta er samskonar kort - viðmiðunartímabil hið sama. Vikin voru enn stærri en nú, það allramesta hitti að vísu ekki á landið mitt (hefði getað gert það), -108 metrar, eða -5,4 stig undir meðallagi. Þetta er í góðu samræmi við hitamun þessara mánaða. Landsmeðalhiti í byggð í nóvember 2017 endaði í -0,5 stigum, var aftur á móti -3,6 stig árið 1996, munar 3,1 stigi. 

Jafnhæðarlínurnar sýna okkur vindáttina, sömuleiðis af vestnorðvestri eins og í hinum nýliðna nóvembermánuði. 


Bloggfærslur 2. desember 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 66
  • Sl. sólarhring: 256
  • Sl. viku: 1382
  • Frá upphafi: 2349851

Annað

  • Innlit í dag: 56
  • Innlit sl. viku: 1259
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 55

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband