Kuldamet í heiðhvolfinu

Þessa dagana er óvenjukalt í heiðhvolfinu yfir Íslandi. Mælingar yfir Keflavíkurflugvelli og Egilsstöðum ná upp í 30 hPa (um 22 km hæð) og á báðum stöðvum mældist hitinn þar uppi lægri en -80 stig, lægst yfir Keflavík um hádegi í dag (28. nóvember), -82,2 stig og er hugsanlegt að hiti fari enn neðar í næstu athugunum. Þetta er lægsti hiti sem vitað er um í nóvember í þessari hæð. Aðgengileg gögn ná að vísu ekki nema aftur til 1973. Hugsanlega eru jafnlágar tölur finnanlegar í eldri mælingum. 

Met var einnig sett í 50 hPa (í um 20 km hæð). Þar mældust -78,8 stig, fyrra met er -78,3 stig (svo ekki munar miklu). Met voru ekki sett neðar, metið í 70 hPa (18 km) er -77,3 stig, og -75,1 stig í 100 hPa (í 15 km). Það er rétt aðeins hugsanlegt að met í þessum hæðum falli líka. 

Kuldinn tengist framrás mikilla hlýinda í veðrahvolfi. 

w-blogg281117xa

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis á morgun, miðvikudaginn 29. nóvember. Jafnhæðarlínur 30 hPa-flatarins eru heildregnar, vindur sýndur með hefðbundnum vindörvum, en hiti með lit. Á fjólubláa svæðinu er hann neðan við -82 stig. Eins og sjá má eru töluverðar bylgjur á ferð - niðurstreymi kemur fram sem bláar rendur inni í fjólubláa svæðinu, þar er hlýrra en umhverfis, en kaldast er þar sem loft streymir upp á við. Sjá má -86 og -87 sem stakar tölur - langt neðan gamla metsins. En það er óvíst að háloftaathugun yfir Keflavík hitti vel í bylgjur af þessu tagi. 

Kuldi sem þessi þykir glitskýjagæfur. Að sögn eru tvær tegundir glitskýja á sveimi í heiðhvolfinu, breiður og bylgjur. Breiðurnar sjást ekki mjög vel - hafa þó sést hér á landi - kannski mætti finna meira ef skimað er betur. Bylgjurnar sjást hins vegar oft vel og geta þegar best lætur verið meðal allraglæsilegustu skýja, litskrúðugar með afbrigðum. 

En til þess að glitský sjáist á annað borð mega lægri ský auðvitað ekki vera að flækjast fyrir. Skilyrði eru best fyrir sólarupprás og eftir sólarlag þegar sólin lýsir þessi ský upp - en ekki þau sem neðar eru. 

Á vef Veðurstofunnar má finna pistla um glitský - þar á meðal einn sem fjallar um árstíðasveiflu glitskýja yfir Íslandi - hún tengist auðvitað hitafari í heiðhvolfinu.


Bloggfærslur 28. nóvember 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 41
  • Sl. sólarhring: 74
  • Sl. viku: 439
  • Frá upphafi: 2343352

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 395
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband