Enn frá skemmtideildinni

Skemmtideild evróprureiknimiðstöðvarinnar sendir frá sér góð atriði þessa dagana - verst að vita ekki hvort þau eru öll ófullburða svipir úr sýndarheimum eða einhvers konar fyrirboðar um það sem raunverulega verður.

Myndin hér að neðan sýnir spána sem barst í morgun (sunnudag 12. nóvember). Hún gildir (eða átti að gilda) á þriðjudagskvöld eftir rúma viku, þann 21. nóvember. 

w-blogg121117xa

Eins og sjá má er alvöru kuldakast uppi á borðinu, þykktin yfir Norðausturlandi (heildregnar línur sýna hana) fallin niður í 5020 metra og frostið í 850 hPa -16 til -18 stig. Jú, við eigum til eitthvað lítillega lægri tölur í nóvember - en ekki mikið af þeim. 

Svo líða 12 tímar og boðið er upp á nýja spá fyrir sömu kvöldstund þriðjudaginn 21. nóvember.

w-blogg121117xb

Þykktinni spáð í hæstu hæðir, nærri 5500 metra og hita í 850 hPa upp í meir en 6 stig - þar sem áður hafði verið spáð -16. Þykktin mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs og segir nú að hann verði 23 stigum hærri en spáð var 12 tímum áður. 

Hvað skyldi vera á seyði? Reikningarnir hafa nú um nokkurt skeið fundið fyrir því að háloftavindar sem verið hafa til þess að gera breiddarbundnir (sem kallað er) í nágrenni við okkur muni hrökkva yfir í það að verða lengdarbundnir. Hringrásin er kölluð breiddarbundin („zonal“ á erlendum málum) þegar ríkjandi háloftavindar og bylgjur sem þeim fylgja ganga greiðlega frá vestri til austurs (fylgir breiddarbaugum). Hringrásin er aftur á móti kölluð lengdarbundin („meridional“) þegar sunnan- og norðanvindar verða ríkjandi í háloftum (fylgir lengdarbaugum). 

Hitaöfgar fylgja gjarnan lengdarbundinni hringrás - hlýtt loft úr suðurhöfum kemst þá óvenjulangt norður, en heimskautaloft óvenjulangt til suðurs. 

Ef við horfum betur á myndirnar sjáum við að öfgarnar sem þær sýna eru ekki mjög umfangsmiklar frá vestri til austurs. Kalda sóknin á efri myndinni er fremur mjó - sama má segja um þá hlýju á neðri myndinni - við sjáum í kaldara loft báðum megin við hana. 

Reiknimiðstöðin er í reynd að fást við sama hæðarhrygg í báðum spárunum, í kalda tilvikinu skýst hann til norðurs við vesturströnd Grænlands, en í því hlýja gerir hann það sunnan og suðaustan Íslands. 

En þetta var veltilfundið hjá skemmtideildinni að sýna okkur á svo skýran hátt hversu litlu má muna - og að minna enn og aftur á að okkur beri að taka mjög varlega á langtímaspám. Svo bíðum við auðvitað spennt eftir næstu runu - hvað í ósköpunum gerir hún? 


Hvenær lýkur hausti?

Gamla íslenska tímatalið skiptir árinu í sumar- og vetrarmisseri. Oft hefur verið um það fjallað hér á hungurdiskum, m.a. þá staðreynd að sumar þessarar skiptingar fellur býsna vel að þeim tíma ársins sem hiti er yfir ársmeðaltali, og veturinn þá að þeim tíma sem hiti er undir því. En árstíðirnar hljóta samt að vera fleiri en tvær, rými hlýtur að vera fyrir bæði vor og haust. 

Svo eru ártíðirnar auðvitað enn fleiri - meira að segja í veðrinu. Hinar þjóðfélagslegu árstíðir eru enn aðrar - og við látum þær auðvitað algjörlega eiga sig. 

Langar ritgerðir hafa áður birst á þessum vettvangi um vor, sumar og haustkomu, en líklega minna um það hvenær hausti lýkur og vetur byrjar. Ýmislegt má um þau skil segja og má túlka það sem hér fer á eftir sem innlegg í umræðuna - en varla þó mjög hagnýtt. 

w-blogg111117b

Mynd dagsins sýnist í fljótu bragði flókin. Í veðurskýrslum er sólarhringsúrkoma flokkuð í þrjár gerðir, regn, slyddu og snjó. Sólarhringsúrkoman er talin sem snjór hafi hvorki slyddu né rigningar verið getið á viðkomandi veðurstöð á mælitímanum, hún er talin regn hafi ekkert verið á slyddu eða snjó minnst. Teljist hún hvorki snjór né regn eingöngu er hún flokkuð sem slydda. 

Þetta er nokkuð grimm flokkun - og hagstæð slyddunni, sem fær allan pottinn þó megnið af sólarhringsúrkomunni hafi í raun verið annað hvort snjór eða regn, bara ef ekki er um alveg „hreint“ regn eða snjó að ræða. 

En með þessa flokkun að vopni má leggja saman alla úrkomu hvers almanaksdags og reikna hversu stórt hlutfall hennar fellur á einstakar úrkomutegundir.

Á myndinni hefur þetta verið gert, fyrir landið allt, öll árin 1971 til 2010. Lárétti ásinn sýnir árstímann - hér eru fyrstu 6 mánuðir ársins endurteknir hægra megin á myndinni til þess að vetur og sumar sjáist í heild sinni. Lóðrétti ásinn sýnir úrkomuhlutinn (0 til 1, eða 0 til 100 prósent). 

Græni ferillinn sýnir hlut rigningar. Hann er um 40 prósent á vetrum, en nærri 100 prósent á sumrin. Snjórinn er enginn yfir hásumarið, en fer yfir 20 prósent hlut að vetri. 

Vor og haust eru tíminn þegar hlutfallið breytist hvað örast. Nokkrar dagsetningar hafa verið settar inn. Það er í maílok (við segjum hér 29. maí) sem rigningin nær 90 prósent hlut og heldur honum til miðs september. Ætli flestir geti ekki sæst á að sá tími marki sumarið nokkurn veginn. 

Á vorin er það um miðjan apríl sem regnhluturinn fer upp fyrir 50 prósent, en niður fyrir það hlutfall um 20. nóvember. Með þessu móti verður vorið ekki nema einn og hálfur mánuður, en haustið rúmir tveir. Við skulum lengja vorið aðeins - miða við 40 prósent (0,4) regnhlut og byrjar það þá 25. mars - en haustlok frestast til 21. desember. Er haustið þá orðið of langt, rúmir þrír mánuðir? Og vetur ekki nema rétt rúmir þrír?

Lítum á hlutfall snævar. Það fer yfir 20 prósent um miðjan desember, en undir þau aftur snemma í apríl. 

Takið eftir því að á öllum ferlunum eru ákveðnar brattavendingar í kringum þær dagsetningar sem nefndar hafa verið, þeir eru frekar flatir að vetri og sumri, brattir að hausti og vori. 

Það er þægilegt að festa ártíðaskipti við mánaðamót, láta veturinn byrja 1. desember (en hvorki þann 20. nóvember, né 14. desember) og enda þann 1. apríl - og sumarið hefjast 1. júní. Það er helst haustbyrjun sem er erfið að negla, hún er eiginlega um miðjan september (sjá fyrri langlokuritgerðir þar um).

Veðurstofan telur september til sumars, fyrst og fremst vegna þess að með því er það jafnlangt vetri - rétt eins og í íslenska tímatalinu gamla - og vor og haust verða þá líka jafnlöng, tveir mánuðir hvor árstíð um sig. Hér á landi er nefnilega ekki nokkur leið að telja marsmánuð til vorsins eins og gert er á suðlægari breiddarstigum.  


Bloggfærslur 12. nóvember 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 45
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 443
  • Frá upphafi: 2343356

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 397
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband