Endurtekningar

Veðrið er sífellt að leika sama stefið aftur og aftur þennan mánuð - og reyndar er það ekki svo ólíkt stefinu sem gekk í janúar í fyrra. Hlýtt - en þó ekki svo hlýtt og köldu bregður lítt fyrir. Allar lægðir enda einhvern veginn í sömu gröf vestur af Bretlandseyjum eftir að hafa étið yfir sig af sælgæti og feitmeti. Kuldinn að norðan lætur ekki sjá sig.

w-blogg310114a 

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa kl. 18 á morgun, föstudag. Lægðin er um 937 hPa í miðju - ætli reiknimiðstöðin ýki ekki lítillega? Fárviðri er sunnan og vestan lægðarmiðjunnar - en mun vægari austanstrengur að ná til Íslands. Kunnuglegt - ekki satt? Sé að marka spár á lægðin að fara í hring og grynnast mikið en á síðan að þokast til norðurs - og þar með verður vindátt norðaustlægari meðan staðan jafnar sig.

En harla lítið er af köldu lofti fyrir norðan land - þannig að það verður áfram furðuhlýtt miðað við vindátt og árstíma. Jú, það eru fáeinar þrýstilínur á milli Grænlands, Íslands, Svalbarða og Noregs - en ekki margar - og þetta svæði er einkennilega hreint af jafnhitalínum. Við skulum til gamans stækka hluta kortsins þannig að þetta sjáist betur.

w-blogg310114b

Hin hlýja -5 stiga lína er rétt norðaustan við land - góð hláka er á láglendi sunnan við hana nema þar sem kalt loft getur legið í logni og björtu veðri. Síðan sér ekki til nokkurrar jafnhitalínu allt til Svalbarða. Þó er -10 stiga línan undan Norðlandsfylki í Noregi þar sem kalt loft úr austri virðist sleppa yfir hálendishrygginn á landamærunum við Svíþjóð.

Á þessum árstíma búumst við við að sjá fleiri jafnhitalínur, -10 og -15 ættu báðar að vera þarna og mjög oft -20 líka - jafnvel -25 nyrst á kortinu. En nú er ekkert.

Það verða þrengingar á milli -5 og -10 línanna sem valda næsta norðankasti á Grænlandssundi, sú síðarnefnda verður fljót inn á svæðið. En lengri tíma tekur að ná í -15 sem nær reyndar núna suður á Kaspíahaf (undirbýr olympíuleikana) og langt suður á Japanseyjar.

Ekki tókst Stórhöfða að verða algjörlega frostlaus í janúarmánuði að þessu sinni því lágmarkshitinn kl. 18 var -0,2 stig. Frostið stóð þá aðeins í nokkrar mínútur. Nú, um kl. 23, er hiti aftur fallinn niður fyrir frostmark. Frostlausa syrpan varð samtals 33 dagar, jafnlöng og lengsta miðvetrarfrostleysan sem áður er um vitað á sama stað (um þetta var fjallað í pistli sem varð að hverfa vegna lesendadeilna um páfadóm í loftslagsvísindum). En met hæsta lágmarks nokkurs janúarmánaðar á Stórhöfða stendur enn.

Vattarnes er enn, þegar þetta er skrifað, með hreint borð í mánuðinum og Hvalnes reyndar líka. Þar er lágmark ekki skráð á sama hátt og á Stórhöfða og í Vattarnesi þannig að við getum ekki alveg borið stöðvarnar saman þar sem lægsta talan á Hvalnesi er aðeins 0,1 stigi frá frostmarkinu. Seley stendur enn í 0,0 stigum.


Bloggfærslur 31. janúar 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 158
  • Sl. sólarhring: 291
  • Sl. viku: 1376
  • Frá upphafi: 2485841

Annað

  • Innlit í dag: 148
  • Innlit sl. viku: 1202
  • Gestir í dag: 143
  • IP-tölur í dag: 143

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband