Norðaustanstrengurinn gefur sig ekki - í Grænlandssundi

Norðaustanáttin er að sjálfsögðu á heimaslóðum í Grænlandssundi. Algengasta vindátt þar stóran hluta ársins. Aðalstrengurinn hefur hins vegar hörfað í bili út á Hala eða lengra. Norðaustan- og austanbelgingurinn á sér líka uppáhaldsbólstað við suður- og suðausturströnd Íslands og þar var hvassast í dag (föstudag). Æðey í Ísafjarðardjúpi þrjóskast líka við - þar komst 10-mínútna vindur í dag í 18,7 m/s en sá vindhraði nægir til að valda vandkvæðum í ónefndum sveitum.

Fleiri uppáhaldsbæli norðaustanáttarinnar á landinu mætti nefna - en látum það vera að sinni því enginn staður á Íslandi kemst nálægt Grænlandssundinu á vinsældalista norðaustanstormsins.

Hér að neðan er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um vind í 100 metra hæð yfir líkanlandslaginu kl. 18 á laugardag.

w-blogg180114a

Hér má sjá storminn í Grænlandssundi (bleiksvalur á lit) og þannig á hann að vera alla helgina - langt fram í næstu viku - og kannski bara til vors. En við þökkum fyrir meðan hann heldur sér til hlés gagnvart okkur.

Við rétt sjáum í annan býsna sterkan streng - gægist inn á kortið við Hjaltland - við hægri jaðar þess. Hann mun blása illa um olíuborpalla í Norðursjó næstu daga. Strengurinn verður til þegar hlýjar bylgjur vestan af Atlantshafi lenda á köldu austrænu lofti sunnan við fyrirstöðuna góðu (góð fyrir okkur það er að segja) - sem enn heldur.

Ekki er gott að setja sig í spor meginlandsbúa - en ætli fjölmargir íbúar Noregs og Svíþjóðar séu ekki ánægðir með snjóinn úr austri - þótt illt sé á olíumiðum. Danir kvarta hins vegar um frostrigningu - og hafa þeir alla samúð okkar klakabúa í þeim efnum - enda megum við aldrei gleyma glerhálkunni - hvað sem hita líður. Bretar eru að renna í sundur í bleytu og furðukalt verður í Frakklandi - þótt sunnanátt sé. Og Stóri-Boli byltir sér yfir heimskautaauðnum Kanada og horfir enn girndaraugum á Bandaríkin.


Bloggfærslur 18. janúar 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 165
  • Sl. sólarhring: 296
  • Sl. viku: 1383
  • Frá upphafi: 2485848

Annað

  • Innlit í dag: 154
  • Innlit sl. viku: 1208
  • Gestir í dag: 148
  • IP-tölur í dag: 148

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband