Fyrirstaðan virðist ætla að halda - en er óþarflega langt í burtu

Fyrirstaðan sem fjallað var um í pistli um miðja síðustu viku - þegar hún var að myndast - virðist ætla að halda. Hún er hins vegar óþarflega langt í burtu frá okkur. En samt - hún hindrar verulegar árásir kulda.

Við lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á miðvikudag (15. janúar).

w-blogg140114a 

Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindur í fletinum (tölur í dekametrum). Þykkt er sýnd í lit, en hún segir frá hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri þykkt - því hlýrra. Mörkin á milli grænna og blárra lita er við 5280 metra. Ísland er mestallt í grænu og það þýðir að hiti er 2 til 3 stig yfir meðallagi. Hitavikið er þó minna í neðstu lögum - kalt loft fleygar sig undir það hlýja. Skipt er um liti á 60 metra bili.

En við sjáum fyrirstöðuna - hún hefur miðju við Norður-Noreg. Sjá má kalda lænu liggja til vesturs fyrir sunnan hana. Vindur er af suðaustri í 500 hPa (í rúmlega 5 km hæð) yfir landinu og er ekki tiltakanlega sterkur. Þegar vindur er af norðaustri við jörð en snýst til suðausturs með vaxandi hæð er aðstreymi af hlýrra lofti að eiga sér stað. Það sést líka á því að suðaustanáttin liggur þvert á jafnþykktarlitina og dregur hlýrri liti í átt til landsins.

En norðaustanáttin úti af Vestfjörðum og norður með Norðaustur-Grænlandi er býsna sterk. Þar eru þykktarlitirnir þéttir. Þar má sjá lítinn kuldapoll - liturinn gefur til kynna að þykktin í honum sé rétt innan við 5100 metra - mun hlýrra heldur en við mætti búast miðað við árstíma. Þessi kuldapollsóværa hreyfist til norðausturs og fjarlægist okkur.

Allur raunverulegur kuldi er langt vestur í Kanada og við norðurskautið og ógnar okkur ekki í bili.

Fyrirstaðan virðist eiga að halda - en er óþarflega langt í burtu. Það þýðir að við verðum í viðvarandi lægðabeygju á jafnhæðarlínum - háloftalægðardrag verður að flækjast í kringum landið í að minnsta kosti nokkra daga til viðbótar. Það er þó vonandi að suðaustanáttin nái sér frekar á strik heldur en að norðaustanþræsingurinn haldi áfram.

Þótt til þess að gera hlýtt loft verði áfram yfir landinu má þó ekki gleyma því að um leið og lægir og léttir til fer hitinn inn til landsins í frjálst fall niður í -10 til -15 stiga frost - eða jafnvel meir. Það gerði hann á stöku stað á laugardaginn var. Hitinn dettur hraðast niður þar sem mjöll er á jörð.


Bloggfærslur 14. janúar 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 160
  • Sl. sólarhring: 292
  • Sl. viku: 1378
  • Frá upphafi: 2485843

Annað

  • Innlit í dag: 150
  • Innlit sl. viku: 1204
  • Gestir í dag: 145
  • IP-tölur í dag: 145

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband