Gervihnattarmynd

Nú kemur pistill í flokknum bullað um gervihnattamyndir (49. þáttur) - en hann telst frekar hóflegur að þessu sinni. Tilefnið er innrauð mynd sem fengin er af vef Veðurstofunnar og var numin á miðnætti föstudagskvöldið 10. janúar.

w-blogg110114a 

Ísland og Grænland eru efst á myndinni. Yfir Íslandi er hægfara skýjabakki, hlý suðaustanátt er í bakkanum - en kalt loft stingst inn undir. Kalda loftið er komið frá Kanada. Töluvert snjóar í hægum vindi á Suður- og Vesturlandi - trúlega eitthvað fyrir norðan líka. Úrkomusvæðið hreyfist til norðausturs - en allmikið af köldu lofti er fyrir sunnan og suðaustan land. Eðli þess sést best á skúra- og éljaklökkunum (bókstafurinn K).

Óvenjuvond akstursskilyrði voru í snjókomunni - sérstaklega óvenjuleg vegna þess hversu veðrið var í sjálfu sér gott. Þétt hundslappadrífa settist á allar vegstikur og huldi veglínur - það var nánast eins og afturblik um 40 ár að aka á óupplýstum vegum í nágrenni við höfuðborgina - og sjálfsagt víðar. Ritstjórinn man (eða misminnir) að vegstikuöld hafi hafist í Borgarfirði 1966 - sáust reyndar áður í stöku beygju (ásamt hinni hallandi zetu - sem var næstum því eina umferðarmerkið fyrir umferðarlagabreytinguna 1958 - þá sem færði okkur merkin, stefnuljósin og nýmóðins vinstribeygju (sem þá var reyndar hægribeygja í vinstrihandarakstri). Beygjubreytingin var mörgum snúin - hennar sá lengi stað í aksturslagi - ekki síst í höfuðborginni. Veglínur birtust hins vegar ekki fyrr en svonefnt fast slitlag (sem ekki er alltaf fast) kom á þjóðvegi. Á þessari stiku- og línuleysisöld var oft harla bágt í vondu skyggni hundslappadrífunnar - en nær enginn ók þá hraðar við þessar aðstæður en 30 km/klst - nema auðvitað Bjössi á mjólkurbílnum - og kannski Sjana síldarkokkur líka.

En aftur að myndinni. Suður í hafi er mjög myndarleg lægð og dýpkar hún hratt. Fyrir tíma evrópureiknimiðstöðvarinnar og ofurtölva hennar var erfitt að horfa á mynd sem þessa án þess að fá spáskjálfta - en núna róar reiknimiðstöðin okkur aðeins. Lægðin kemur til með að valda austanstormi síðdegis á sunnudag (segir stöðin) - en við bendum á spár Veðurstofunnar eða annarra til þess bærra aðila í því sambandi.

En lægðin er með það sem við köllum hlýtt færiband (rautt) - það stefnir að vísu beint í norður sem er dálítið erfitt - berist ekki hjálp úr vestri og norðvestri - en myndarlegt er það samt. Við sjáum líka það sem stundum er kallað kalt færiband (blámerkt) - en ritstjórinn hefur tilhneigingu til þess að nota orðið undanskot um þetta (hann er aleinn um það sem og margt annað). Hér virðast undanskotin vera tvö.

Bláu örvarnar benda til suðurs - og það er í raun og veru norðanátt undir skýjum vestan lægðarinnar - en aðalatriðið er að það sé norðanátt frá sjónarhóli lægðarinnar sjálfrar. Hún getur jafnvel vaxið þótt sunnanátt sé í undanskotinu (í skýjahæð) - en norðanátt verður það að vera eftir að við höfum dregið stefnu og hraða lægðarmiðjunnar frá öllum vindi umhverfis hana. Allt skýjakerfið hreyfist þá til norðurs - en vestasti hlutinn dregst meira og meira aftur úr. Við það sýnist snúningur komast á kerfið - sveipur verður til.

Vesturbrún háskýjakerfis hlýja færibandsins (hvít) er mjög skörp. Þar nærri má kannski sjá hina illræmdu þurru rifu sem einkennir lægðir í hröðum vexti.

Reiknimiðstöðin segir lægðina rétt slefa að dýpka um þá 24 hPa á sólarhring sem dugar í ameríska miðann (bomb) - en þetta er engin ofurlægð. Við skulum samt ekki fyrirframvanmeta hvassviðrið sem hún færir okkur á sunnudagskvöld.


Bloggfærslur 11. janúar 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 158
  • Sl. sólarhring: 291
  • Sl. viku: 1376
  • Frá upphafi: 2485841

Annað

  • Innlit í dag: 148
  • Innlit sl. viku: 1202
  • Gestir í dag: 143
  • IP-tölur í dag: 143

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband