Enn um (vont) veður um jólin (nema hvað)

Lægðin djúpa við Skotland á þegar þetta er skrifað (seint á þorláksmessukvöldi) enn möguleika á að verða sú dýpsta það sem af er öldinni. Spá evrópureiknimiðstöðvarinnar gerir ráð fyrir að þrýstingur verði um 924 hPa frá því kl. 9 til kl. 12 að morgni aðfangadags. Ef svo fer verður hún sjónarmun dýpri en dýpsta lægð síðastliðins vetrar. Aðrar spár eru ekki alveg jafn róttækar.

Lægðin kemst þó ekki nærri því sem almennt er talið lágþrýstimet Norður-Atlantshafs, 914 hPa sem sett var í janúar 1993 (eins og eldri veðurnörd muna auðvitað). Ekki er alveg samkomulag um þessa tölu - kannski fór lægðin sú niður í 911 hPa. Litlu grynnri lægð var á ferð í desember 1986, en svo virðist sem lægðir dýpri en 925 hPa hafi ekki verið margar á 20. öldinni allri.

Lægð dagsins fer rétt norður af Skotlandi en varla svo nærri að þess að lágþrýstimet Bretlandseyja verði slegið - en það er 925,6 hPa og er orðið afgamalt, frá 24. janúar 1884. Um lægsta þrýsting á Íslandi má lesa í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar.

En margt gerist í fjölmiðlum m.a. breyttist dýpsta lægð aldarinnar (það sem af er) í verstu lægð aldarinnar. Þetta er auðvitað fráleitt. Vindur í kringum lægð dagsins er ekkert sérlega mikill miðað við það sem mjög oft gerist við miklu grynnri lægðir. Þessi lægð er hins vegar óvenju stór.

En lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á hádegi á aðfangadag.

w-blogg241213ab

Lægðarmiðjan er á hreyfingu til norðnorðausturs ekki fjarri Færeyjum (sem þó sleppa sennilega við mikinn vind). Aðalvindstrengurinn norðvestan við lægðina er hér rétt að ná til Íslands. Vesturstrengurinn, við Vestfirði, hefur jafnast og dreifst yfir stærra svæði en var í dag (þorláksmessu). Norðanáttin nær til landsins alls.

Það má líka taka eftir veðurkerfi langt norður í hafi sem merkt er X á kortinu. Þetta er eins konar lægðardrag sem hreyfist til suðvesturs. Það keyrir sig reyndar nærri því í klessu á Grænlandi en sé að marka spána mun það samt valda því að um stund dregur aðeins úr norðaustanáttinni meðan það fer hjá - en síðan nær strengurinn sér upp aftur. En varlegt er samt að taka mark á svona smáatriðum.

Á miðnætti (á þorláksmessukvöld) var Íslandskortið dálítið óvenjulegt. Lítum á það.

w-blogg241213aa

Kortið er fengið af vef Veðurstofunnar. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er (þrýsti-) vindurinn. Versta veður er á Vestfjörðum, suður um Snæfellsnes og austur með norðurströndinni til Eyjafjarðar. Hægt og bjart veður er í innsveitum norðaustanlands. Á kortinu er -12 stiga frost á Egilsstöðum (fór reyndar í -13,7 stig) en tveggja stiga hiti er í rigningu á Akureyri. Varla þarf að taka fram að veðurlag sem þetta ber að taka alvarlega - hugsanlegt er að vindur nái ekki að hreinsa kalda loftið burt áður en úrkoma byrjar - og þá liggur frostrigningin í leyni.

Ritstjórinn varð sjálfur var við frostrigningu og glerhálku henni samfara í Reykjavík í dag - sums staðar í bænum rigndi á frostkalda jörð en annars staðar snjóaði í krapa.


Bloggfærslur 24. desember 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 252
  • Sl. sólarhring: 353
  • Sl. viku: 1470
  • Frá upphafi: 2485935

Annað

  • Innlit í dag: 229
  • Innlit sl. viku: 1283
  • Gestir í dag: 218
  • IP-tölur í dag: 218

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband