Spillibloti

Það er kallað spillibloti þegar rignir ofan í snjó en frystir aftur áður en snjórinn nær allur að bráðna. Var það eitthvert óvinsælasta veðurlag á Íslandi á fyrri tíð - og er svo enn. Blotar geta að vísu fest mjöll þannig að síður skefur. Nú á tímum hefur það þann kost að ekki þarf að skafa sama snjóinn hvað eftir annað af vegum. En þar með eru kostirnir upptaldir - hálkan ræður ríkjum í öllu sínu veldi. Í desember þarf bloti að vara lengur þannig að gagn verði að heldur en þegar komið er fram í mars þegar sólin er farin að hjálpa verulega til. Í skammdeginu er enga hjálp að hafa.

Nú stefnir í spilliblota. Lægð kemur sunnan úr hafi og fer yfir landið eða rétt vestan við það á þriðjudagskvöld og aðfaranótt miðvikudags. Hlýtt loft fylgir lægðinni. Mættishiti í 850 hPa fer upp í um 16 stig yfir Norðurlandi (sé að marka spár) og þykkt í um 5360 metra. Hvort tveggja lofar hláku - en bráðnandi snjór og hraðferð hlýja loftsins koma í veg fyrir að eitthvað gagn sé að. Nægir aðeins í spilliblota og eftirfylgjandi klakamyndun. Verði okkur að góðu.

Sjálfsagt verður hríð sums staðar á undan og eftir lægðinni - en rétt er að sækja visku um það til Veðurstofunnar. Sérstaklega þurfa ferðalangar sem ætla sér yfir heiðar eða milli landshluta á slíku að halda - en líka við dreifbýlismenn höfuðborgarsvæðisins.

Við kíkjum á sjávarmálsþrýstispá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á miðnætti á þriðjudagskvöld.

w-blogg171213a 

Lægðin er hér 947 hPa í miðju sem er skammt vestur af landinu. Spurning hvað þrýstingurinn fer neðarlega á veðurstöðvum. Tala á bilinu 945 til 950 sést um það bil tvisvar á áratug í desember síðast í fyrra. En á tímabilinu frá 1874 til okkar daga hefur það gerst 13 sinnum að þrýstingur á veðurstöð hefur farið niður fyrir 945 hPa hér á landi í þeim mánuði. Hefði athuganatíðni og þéttni verið jafnmikil allan tímann og nú er myndi tilvikunum sennilega fjölga eitthvað. Undir 945 hPa í desember er því það sem búast má við einu sinni á áratug eða svo.

Undir 940 er beinlínis orðið mjög sjaldgæft - hefur aðeins gerst fjórum sinnum á umræddu tímabili. Metið er hins vegar talsvert neðar, 919,7 hPa.

Næstu lægð má líka sjá á kortinu. Hún verður langt suður í hafi annað kvöld og rétt að taka á sig mynd. Við giskum á 987 hPa í miðju þegar kortið gildir. Sólarhring síðar á hún að vera komin niður í 951 hPa, hefur dýpkað um 36 hPa á einum sólarhring. Reiknimiðstöðin vill reyndar gera enn betur því 12 tímum síðar á hún að vera komin niður í 941 hPa - þá plagandi okkur úr austri - búin að taka sveig til norðurs vestur af Skotlandi og Færeyjum.

Evrópureiknimiðstöðin hefur verið sérlega hlynnt ofurdjúpum lægðum í yfirstandandi (kanadíska) kuldakasti á Atlantshafi. Tvö skemmtileg dæmi má sjá í viðhenginu - bæði úr tölvuleik reiknimiðstöðvarinnar - og bæði fallin úr gildi - munið það.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 17. desember 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 253
  • Sl. sólarhring: 354
  • Sl. viku: 1471
  • Frá upphafi: 2485936

Annað

  • Innlit í dag: 230
  • Innlit sl. viku: 1284
  • Gestir í dag: 219
  • IP-tölur í dag: 219

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband