Ójafnvægi

Við fylgjum enn lægðaganginum og lítum í dag á stöðuna á norðurhveli. Á venjulegum degi er kaldasta loftið yfirleitt ekki fjarri þeim stað þar sem veðrahvörfin eru lægst. Það er ekki þannig á kortinu hér að neðan. Það gildir um hádegi laugardaginn 14. desember.

w-blogg131213a 

Kortið batnar við stækkun. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa flatarins - þær eru mjög góðir fulltrúar fyrir hæð veðrahvarfanna. Litafletir sýna þykktina en hún segir til um hita í neðri hluta veðrahvolfs. Við sjáum að við norðurskautið má allt heita með felldu, þar liggur mjög lág þykkt undir lágum veðrahvörfum. En lægðin sem er með miðju við Suður-Grænland er langt frá köldustu svæðunum yfir Kanada (fjólubláir blettir).

Allt kalda loftið virðist streyma til austurs út á Atlantshafið - fyrir sunnan meginlægðina. Þar er tekist á um hæð veðrahvarfanna - hafið hitar loftið og belgir veðrahvolfið út - en ískalt loft berst sífellt úr vestri og dregur þau niður. Í suðurjaðri kalda loftsins er gríðarlegur vindstrengur. Þar myndast smábylgjur og sé rýnt í kortið má sjá að jafnhæðar- og jafnþykktarlínur falla ekki saman.

Á kortið hafa verið settar inn þrjár örvar sem sýna misgengi af þessu tagi. Bylgja í þykktarmynstrinu gengur inn til móts við lægri hæð þrýstiflatarins. Þar undir eru lægðir við sjávarmál. Áður en tölvuspár komu til sögunnar sáust þessar bylgjur oft vel - en mjög erfitt var að spá fyrir um þróun þeirra. Það er á mörkunum að það takist með fullkomnustu reiknilíkönum okkar daga.

Evrópureiknimiðstöðin sendir bylgjurnar tvær á Atlantshafi til norðausturs fyrir suðaustan land - sem fárviðrislægðir - sú fyrri fer hjá á laugardagskvöld - en sú síðari sólarhring síðar. Rétt er að fylgjast vel með þessum lægðum. Þriðja bylgjan er á kortinu vestur við Mississippi og rennur til austurs. Hún á eftir að mæta kalda loftinu, Atlandshafinu og hlýju lofti að sunnan á leið sinni til okkar. Lægð hennar er ekki orðin til þegar þetta er skrifað - skyldi reiknimiðstöðin hitta á rétt svar? Hún stingur nú upp á þriðjudagskvöldi sem komutíma lægðarinnar til Íslands.


Bloggfærslur 14. desember 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 254
  • Sl. sólarhring: 354
  • Sl. viku: 1472
  • Frá upphafi: 2485937

Annað

  • Innlit í dag: 231
  • Innlit sl. viku: 1285
  • Gestir í dag: 220
  • IP-tölur í dag: 220

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband