Færsluflokkur: Vísindi og fræði
15.1.2012 | 01:07
Af afbrigðilegum janúarmánuðum 1
Heldur hefur í dag dregið úr ósamkomulagi reiknimiðstöðva um tíðarfarið. Líkönin eru nú nær einhverskonar málamiðlun og hefur evrópureiknimiðstöðin meira gefið eftir heldur en gfs-spáin ameríska. En við látum þau mál bíða þar til athyglisverð veður í nágrenni okkar eru komin nær okkur í tíma. Þess í stað lítum við á fastan lið hungurdiska um afbrigðilega mánuði og er komið að janúar. Hverjir eru mestu norðan- og sunnanáttamánuðir sem við vitum um? Til að ákveða það notum við sömu fimm flokkunarhætti og notaðir hafa verið áður.
1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1873. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið.
Mestur norðanáttarjanúarmánaða er mjög þekktur - janúar 1918. Þá komu nokkrar afburðakaldar vikur og hefur veturinn allur verið kallaður frostaveturinn mikli. Þá mældist lægri hiti heldur en mælst hefur fyrr eða síðar á landinu, -38 stiga frost á Grímstöðum á Fjöllum og í Möðrudal.
Jafnir í öðru til fjórða sæti eru janúarmánuðir áranna 1936, 1945 og 1969. Þeir eru ekki jafnfrægir og janúar 1918 - en eru samt merkilegir fyrir afbrigðilegt veðurlag. Janúar 1936 er t.d. þurrasti janúar sem vitað er um á landinu að minnsta kosti frá 1881.
Janúar 1950 telst mesti sunnanáttarmánuðurinn að þessu tali. Þá var hlýtt en mjög stormasamt - tíð var samt ekki talin slæm til landsins en gæftir voru slæmar. Snjór var lítill. Langt er í mánuðinn í öðru sæti, 1876. Hann fær nær sömu einkunn: Illviðratíð, einkum á Suður- og Vesturlandi. Mjög hlýtt norðaustanlands. Janúar 1933 og 1942 koma síðan þar á eftir - líka þekktir fyrir illviðri og hlýindi.
2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949. Það er janúar 1969 sem nær fyrsta sætinu (1918, 1936 og 1945 eru ekki með í keppninni). Í sunnanáttarkeppninni er 1992 í efsta sæti en 1987 í öðru og 1950 í því þriðja.
3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, og norðaustanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Unnið er að lauslegri framlengingu (afturúrlengingu?) aftur til 1823. Hér fær 1936 heiðursætið, en 1969 kemur þar á eftir. (Einnig var minnst á 1826).
Sunnanáttatíðni er reiknuð með því að leggja saman tíðni áttanna suðausturs, suðurs og suðvesturs. Janúar 1933 lendir í efsta sætinu og 1987 er í öðru. Janúar 1987 fær sérlega góða dóma sem hagstæður mánuður.
4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Enn er 1936 mestur norðanáttarmánaða, þar á eftir koma 1930 og 1969. Sunnanáttin var mest í janúar 1987, 1950 og 1933 - allir áður nefndir.
5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Janúar 1918 nær aftur fyrsta sætinu, en er 1936 í öðru. Sunnanáttin var mest í 500 hPa-fletinum í janúar 2006 (ekki nefndur áður) en síðan 1933 og 1950.
Enn sem fyrr er ánægjulegt að sjá hversu vel þessum fimm greiningarháttum ber saman þótt ólíkir séu. Við heyrum síðar af austan- og vestanáttum, köldustu og hlýjustu mánuðunum, þeim úrkomusömustu og þurrustu, snjóléttustu og snjóþyngstu, hæstum og lægstum mánaðarmeðalloftþrýstingi, mesta og minnsta þrýsti- og hitaóróa fyrir utan föstu liðina um hlýjustu og köldustu dagana og daginn heiðasta - og fleira. Nördin geta sleikt útum en aðrir fengið létt kvíðakast.
14.1.2012 | 01:01
Ótíð áfram - eða breyting í vændum?
Spurningunni í fyrirsögninni verður ekki svarað hér - það vita fastir lesendur hungurdiska. Hins vegar skal upplýst hvert tilefni hennar er. Undanfarna 1 til 2 daga hefur verið mikið ósamræmi í meðaldrægum spám helstu reiknimiðstöðva.
Ameríska líkanið sem daglega gengur undir nafninu gfs (global forecast system) spáir áframhaldandi ótíð svo langt sem séð verður með langri röð vondra lægða og tilheyrandi illviðrum. Evrópureiknimiðstöðin (ecmwf) gefur hins vegar möguleika á breytingu yfir í öðruvísi veðurlag eftir nokkra daga. Það lítur alla vega mun skár út - með mun hægari vindum og þar með betra veðri. Reiknimiðstöðin hefur oftar rétt fyrir sér - en ekki alltaf. Stundum fer reyndar þannig að raunveruleikanum tekst einhvern veginn að vera þannig að báðar hafi rétt fyrir sér. Málamiðlanir eru oft mögulegar í erfiðum stöðum - rétt eins og í stjórnmálunum.
En lítum á atriði sem spárnar virðast sammála um - enda er það ekki nema tvo daga framundan. Til þess notum við hefðbundið norðurhvelskort reiknimiðstöðvarinnar - og fastir lesendur eru orðnir vanir.
En fyrir nýja lesendur er rétt að fara með skýringaþuluna. Kortið sýnir megnið af norðurhveli jarðar norðan við 30. breiddargráðu, norðurskaut nærri miðju. Höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en þynnri rauðar línur eru við 5820 metra og 5100 metra hæð. Almennt má segja að því lægri sem flöturinn er því kaldara er veðrahvolfið. Lægðirnar í fletinum eru kallaðar kuldapollar og hæðirnar eru hlýir hólar - sem gegna yfirleitt nafninu fyrirstöðuhæðir.
Frá því að við litum á þetta kort síðast hefur það merkilegast gerst að nú hafa fjórar fyrirstöðuhæðir skotist norður úr heimskautaröstinni (hana má sjá þar sem línurnar eru þéttar). Þetta eru talsverð tíðindi því hingað til í vetur hefur vegur rastarinnar verið nokkuð greiður frá vestri til austurs þótt skammvinnir hryggir hafi skotist norður við og við. Þessi hegðun rastarinnar hefur t.d. valdið hlýindum bæði í Bandaríkjunum (þau hafa verið alveg sunnan rastar) og í Evrópu (þar hefur hún borið hlýtt loft og illviðri úr vestri).
En nú hefur sum sé tekið við ástand sem er öðruvísi - ekki þó vitað enn hvernig það þróast. En báðar reiknimiðstöðvarnar eru nokkurn veginn sammála um aðalatriðin á þessum kortum - en síðan skilur leiðir.
Merkasti atburður næstu daga verður myndun hæðar sem ör merkt með tölustafnum 1 bendir á. Gríðarleg fyrirstaða sunnan Alaska á að taka sig upp og hreyfast í átt að Beringssundi. Þetta veldur titringi á öllu kalda svæðinu - m.a. með því að hlýtt loft hæðarinnar stuggar við því kalda og það verður að flytja sig til.
Ör sem merkt er 2 bendir á lægðardrag sem hæðin þrýstir suður. Á svæði um norðanverð Bandaríkin öll verður næstu daga mikið átakasvæði milli hörkufrosts í norðri og hlýinda i suðri - mjög spennandi staða fyrir veðurnörd þeirra slóða - og óróavaldur fyrir þá sem eiga eitthvað undir veðri.
Ör sem merkt er 3 bendir á mikinn kuldapoll yfir sunnanverðu Rússlandi. Ameríska spáin ætlar að halda honum á svipuðum slóðum - en reiknimiðstöðin hreyfir hann vestur um Þýskaland og jafnvel kemst Bretland inn á áhrifasvæði hans - en á því eru bæði frost, snjór og öll hugsanleg leiðindi sem því fylgja fyrir vana og óvana. Fari kuldapollur þessi á flakk njótum við góðs af því hann stöðvar lægðaganginn til okkar að mestu.
Ör sem merkt er 4 bendir á annars konar fyrirstöðu - brú þar sem skilur á milli Síberíukuldans annars vegar og Kanadakuldans hins vegar.
Á kortið má einnig sjá svæði afmarkað með grænum strikalínum. Þar er sá hluti heimskautarastarinnar sem mest varðar okkur þessa dagana. Lægðir myndast þar hver á fætur annarri og taka mið í átt til Íslands. Spárnar eru líka ósammála um þessar lægðir - evrópureiknimiðstöðin er mun hagstæðari okkur - verstu lægðir næstu daga fara allar suðaustan við land og gætir lítt hér á landi - en gfs er mun grimmari og sendir þær beint yfir okkur með tilheyrandi skaki sem heldur síðan áfram.
Hvor spásýnin er rétt? Við bíðum eftir því hvor miðstöðin gefur málstað sinn upp á bátinn. Það gæti gerst strax í fyrramálið (laugardagsmorgunn) - eða kannski verður þetta allt með öðrum hætti. Þessi pistill verður alla vega mjög fljótt illa úreltur - en vonandi vanmeta lesendur ekki uppeldisgildi hans. Þetta ákveðna spákort reiknimiðstöðvarinnar er aðgengilegt almennum notendum á vef hennar ásamt sams konar kortum með spám tíu daga fram í tímann. Aðgengilegt er e.t.v ekki rétta orðið því vefur miðstöðvarinnar er frekar fjandsamlegur fyrir ókunnuga.
13.1.2012 | 00:16
Hláka í kortunum - dugar lítt
Bestu spár telja nú að hláka sé framundan - hún er reyndar þegar byrjuð á hluta landsins þegar þetta er skrifað (seint að fimmtudagskvöldi 12. janúar). Hún virðist ætla að vera eindregin á morgun (föstudag) en óvissara er með endinguna. Þykktin verður tiltölulega há í fjóra daga en kalt loft á að sleikja vestanvert landið oftar en einu sinni á þessum tíma - en hungurdiskar spá engu frekar en venjulega. En klakinn er mikill og sólin máttvana. En lítum á fagra þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 á föstudag (13. janúar). Þykktin á laugardag til mánudags verður ekki svona há.
Það er alla vega tilbreyting að þessu útliti. Þykktin er sýnd í dekametrum (1 dam = 10 metrar) með svörtum heildregnum línum en litafletirnir sýna hita í 850 hPa. Það er 5440 metra jafnþykktarlínan sem hringar sig um landið norðaustanvert - og sjá má örlítinn sveig í 5460 metrum og inni í honum töluna 7 - táknar að 7 stiga hita sé spáð í 850 hPa á þeim slóðum. Smásveiga og stakar tölur tökum við hóflega alvarlega.
Þykkt á þessu bili getur við bestu skilyrði (vind af bröttum fjöllum) gefið um 15 stiga hámarkshita á landinu - oftast er hámarkshitinn þó lægri en þetta við þessa þykkt. Ítrasti möguleiki er 17 til 18 stig. Landshitamet janúarmánaðar hér á landi er 19,6 stig sem mældust á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga þann 15. árið 2000.
En hver er þá hæsta þykkt sem vitað er um í janúar? Ef við tökum mark á tuttugustualdarendurgreiningunni sem hungurdiskar vitna oft til hefur það gerst nokkrum sinnum að þykkt í janúar hefur farið upp fyrir 5500 metra í námunda við landið. Hæsta gildið nálægt landinu er 5530 metrar og er það frá 18. janúar 1992. Nokkrir mjög hlýir dagar komu um miðjan janúar það ár og á syrpan sú nokkur af landsdægurhámörkum janúarmánaðar og mörg stöðvamet í janúar voru sett þessa sömu daga, m.a. hefur aldrei mælst hærri hiti á Akureyri í janúar heldur en mældist þann 14. janúar 1992, 17,5 stig.
Endurgreiningin nefnir líka mjög mikla þykkt þann 14. janúar 1922. Þá var lítið um hámarksmælingar á landinu og engin spor markar dagurinn í metaskrám hungurdiska. Flest háþykktarskot á þessum tíma árs standa mjög stutt - oftast aðeins hluta úr degi þegar háloftahryggir sviptast hjá - rétt eins og nú á að gerast.
Eitt uppeldislegt atriði að lokum (fyrir nördin). Við sjáum að blár litur liggur yfir svæðum sunnan til á landinu. Skýringar eru fleiri en ein. Í fyrsta lagi getur þetta verið kalt loft sem sunnanáttin ekki hreinsar burt í neðstu lögum. Í öðru lagi er loft í uppstreymi sunnan fjalla, það kólnar mjög við að lyftast - en hlýnar aftur í niðurstreyminu nyrðra. Síðan verður einnig að hafa í huga að munur er á landslagi líkansins og raunverulegu landslagi. Uppstreymi líkansins fer eftir landslagi þess - en ekki því raunverulega. Þetta þýðir að ekki má taka allt of mikið mark á ýmis konar hlykkjum og sveigjum yfir landi í reiknuðum veðurspám.
12.1.2012 | 00:23
Af hríðarveðrum í Reykjavík
Fyrir nokkrum árum (2008) setti ritstjórinn saman fróðleikspistil um hríðarveður á vef Veðurstofunnar [Tíðni hríðarveðra á árunum 1949 til 2007]. Þar var slegið fram skilgreiningu á fyrirbrigðinu þannig að hægt var að leita að því í veðurathugunum.
Lesendur hungurdiska eru auðvitað hvattir til að lesa pistilinn og kynna sér skilgreininguna. Með henni kemur m.a. fram að hríðarathuganir eru um 50% fleiri á Akureyri heldur en í Reykjavík, en fjöldi einstakra hríðarveðra er nærri því sá sami á stöðunum tveimur. Hríðar á Akureyri standa hins vegar mun lengur heldur en í höfuðborginni. Hríðarveður sem stóðu í þrjá athugunartíma samfleytt (meira en 9 klukkustundir) voru aðeins tíu í Reykjavík en 97 á Akureyri - um tíu sinnum fleiri.
Í pistlinum er einnig bent á þá staðreynd að hríðarathugunum hefur fækkað í Reykjavík á síðustu árum - rétt eins og fólk flest hefur á tilfinningunni. Í pistlinum sem vitnað er til birtist mynd sem sýnir þessa þróun fram til ársins 2007. Spurningin er hvað hefur gerst síðan og kemur þá að atriði dagsins. Það er ný gerð af þeim hluta myndarinnar sem sýnir Reykjavíkurtölurnar.
Lárétti ás myndarinnar sýnir árin, en sá lóðrétti fjölda hríðarathugana á ári. Byrjað er 1949 en endað 2011. Gráu súlurnar eru einstök ár, en rauða línan er 7-ára keðjumeðaltal (sett við endaár hvers 7-ára tímabils, fyrsta gildi nær yfir 1949 til 1955).
Við sjáum býsna mikil áraskipti, árin 1977, 1987, 2007, 2009 og 2010 eru alveg hríðarathuganalaus. Miklar hríðar voru hins vegar 1949 (20 athuganir), 1968 (18 athuganir) og 1989 (17 athuganir). Einnig sést greinileg tímabilaskipting. Tíminn frá 1998 til okkar dags er sérlega léttvægt (helst að árið 2000 skeri sig úr með 9 athuganir). Á árinu 2011 voru hríðarathuganir fimm, sú síðasta á miðnætti að kvöldi 28. desember síðastliðinn - við munum það enn. Ein athugun er komin fram á árinu 2012, kl. 15 þann 10. janúar (illviðrið í gær).
Með hliðsjón af síðasta áratug má telja eðlilegt að hríðarveður í Reykjavík komi nokkuð á óvart - því þau hafa verið svo fá - miklu færri en á áratugunum þar á undan. Það er alltént raunverulegt. Myndin segir auðvitað ekkert um framtíðina.
11.1.2012 | 00:32
Af illviðrinu - nokkur eftiráatriði
Í dag var mikill vetrarútsynningur á landinu, stormur með mjög dimmum éljum. Mér þótti þetta skemmtilegt veðurlag þegar ég var yngri en finnst það ekki lengur. - En það er svosem ágætt að láta minna sig á að það sé til. Margt má ræða tengt veðrinu en hér lítum við á þrjú atriði.
Fyrst er það kort - það sýnir umfang veðursins einkar vel og er fengið frá evrópsku reiknimiðstöðinni. Á því sést vindátt og vindhraði eins og reiknaðist að myndi verða kl. 18 - miðað við greiningu veðurs kl. 12 á hádegi í 100 metra hæð í reiknilíkaninu.
Við þurfum að rýna í táknmál kortsins. Við sjáum útlínur Íslands á miðri mynd, hluti Grænlands er lengst til vinstri en Skotland í neðra horni til hægri. Örvar sýna vindstefnu en litirnir 10-mínútna vindhraða í 100 metra hæð, litakvarðinn er neðst á myndinni. Rauðbrúni liturinn sýnist mér byrja við 24 m/s. Ef grannt er skoðað má einnig sjá hvítar þunnar línur. Þær afmarka svæði þar sem reiknaðar vindhviður eru af ákveðnum styrk og sú ysta sýnir 25 m/s. Tölur í litlum kössum tákna hviður, kassarnir eru hvítir við jafnhraðalínurnar hvítu, en gulir þar sem giskað er á hámörk á afmörkuðum svæðum. Hæsta talan er 37 m/s í rauða svæðinu miðju milli Íslands og Grænlands.
Við sjáum vel hvernig strengurinn virðist eiga upptök sín á tiltölulega afmörkuðu svæði á austurströnd Grænlands nærri Ammasalik en breiðir úr sér í átt til Íslands. Vindhraði yfir landinu sjálfu er mun minni en yfir sjó. Trúlega er hann óraunverulega lágur en áhrif núnings yfir landi er eilíft vandamál í líkönum. Þar er ýmist of eða van. Tilurð vindstrengsins er allflókin og varla hægt að skýra hana í stuttu máli. Rétt er að þreyta ekki lesendur með einhverju fambi þar um, en fyrir alllöngu var pistill á hungurdiskum um áhrif Grænlands á veður hér á landi. Þar er örstutt minnst á þetta - undir fyrirsögninni Kalt loft kemur yfir Grænland. En dæmið í dag er fallegt.
Annað atriði sem vert er að minnast á nú er hegðan hita og raka hér vestanlands í dag (þriðjudag). Frost var fram eftir degi en um kl. 18 hlýnaði nokkuð snögglega um 3 stig eða svo, jafnframt féll daggarmarkið um nokkur stig (mismikið eftir stöðum), hér í Reykjavík um 3 til 4 stig. Þetta þýðir að munur á hita og daggarmarki jókst um 6 til 7 stig. Rakastigið féll því úr 80 til 90 prósentum niður í 50 til 60 prósent. Atburðarás af þessu tagi (þegar hlánar ofan í mikið særok) er mjög eitruð fyrir flutningskerfi raforku - eins og sýndi sig.
Það má deila um hverjar orsakir breytinga á hita og rakastigi voru. Ýmislegt kemur til greina. Hitahækkun og loftþurrkun orsakaðist hugsanlega af því að loftið ofan af Grænlandsjökli náði loks til Íslands - en hún gæti líka hafa stafað af því að draga fór úr vindi - Grænlandsloftið hafi því verið komið áður. Særok bætir raka í þurrt loft en það gerir skafrenningur líka auk þess sem uppgufun snævar í skafrenningi lækkar hita. Þegar dró úr særokinu naut þurra loftið frá Grænlandi sín betur og þegar hlýnaði og dró úr vindi hætti að skafa. Þar með voru tvær rakalindir úr sögunni - Grænlandsloftið þá orðið ómengað. Ekki er víst að þessar skýringar - önnur hvor eða báðar séu þær réttu, en athyglisvert var að sjá þetta gerast.
Þriðja atriðið er aðallega ætlað nördunum og óvíst hvort aðrir hafa áhuga. í viðhengi eru nokkrar töflur sem vanda fengnar úr skrám Veðurstofunnar. Þetta er einskonar uppgjör um veðrið sem nær þó ekki nema til kl. 17. Þá var því ekki alveg slotað. Yfirlitið byrjar hins vegar kl. 1 aðfaranótt mánudags. Varla þarf að taka fram að villur kunna að leynast í gögnunum.
Hér má sjá nokkrar töflur. Sú fyrsta sýnir hámarksvindhraða á veðurstöðvum hverri um sig - bæði hviðu og 10-mínútna meðalvindhraða og hvenær hámarkinu var náð. Það er meðalvindhraðinn sem ræður tímasetningunni - ekki er alveg víst að mesta hviðan hafi orðið á sama tíma. Einnig má sjá vindátt nærri vindhámarkinu. Sérstök tafla er fyrir Vegagerðarstöðvarnar.
Þar fyrir neðan er listi um mesta vindhraða hverrar klukkustundar og á hvaða veðurstöð vindurinn var mestur. Sértafla er einnig um Vegagerðarstöðvarnar. Sams konar töflupar er fyrir mestu hviður. Að lokum er tafla sem sýnir nokkur meðaltöl (fyrir mestu nördin): Fyrst er dagsetning og tími, þarnæst kemur meðalvindhraði allra stöðva (meðal), vigurþættir vindsins (austur og norður), þeir sýna meðalvindstefnu á hverri klukkustund á öllu landinu þáttaða á austan- og norðanþætti. Vestan- og sunnanáttir eru hér negatívar. Síðan er fjöldi stöðva sem notaður er við reikninginn (fjöldi), fx táknar mesta meðalvindhraða á einstakri stöð og fg mestu hviðu. Að lokum er tala sem sýnir fjölda stöðva með meðalvindhraða meiri en 17 m/s. Þessi síðasta tafla inniheldur einnig upplýsingar um fleiri hvassviðri frá áramótum.
Athugið að töfluhausar kunna að riðlast lítilsháttar eftir því í hvaða forriti skráin er opnuð.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.1.2012 | 00:29
Sullast yfir Grænland
Þegar kalt loft kemur að Grænlandi úr vestri (mjög, mjög algengt) rekst það á fjalllendið. Það fer síðan eftir stöðugleika (og fleiru) hvernig framhaldið verður. Sé loftið stöðugt stíflast framrás loftsins og það leitar að jafnaði suður með landi og fyrir Hvarf. Undir slíkum kringumstæðum fréttir austurströnd Grænlands (og Ísland) lítið af kuldanum fyrir vestan. Sé það óstöðugt gerist það sama - nema að óðstöðugleikinn nái hærra heldur en jökullinn (ekkert sérlega algengt). Það gerist ekki nema þegar loftið er afspyrnukalt upp í margra kílómetra hæð. En þá fréttist aldeilis af kalda loftinu.
Það fer þá yfir jökulinn sem ekkert sé og fellur niður austurströndina í ofsastormi sem Grænlendingar kalla Piterak. Ekkert getur bjargað málunum nema að loftið austan við sé enn kaldara en það sem að vestan kemur. Svona staða er á Grænlandi þegar þetta er skrifað og í nótt (aðfaranótt þriðjudags). Danska veðurstofan varar við hugsanlegum Piterak í Ammasalik og þar í grennd. Mestar líkur á ofsaveðri eru þó sunnar að þessu sinni. Við skulum líta á þetta á spákorti sem gildir kl. 6 á þriðjudagsmorgni 10. janúar.
Hér sjáum við spá evrópureiknimiðstöðvarinnar (fengin gegnum Veðurstofu Íslands). Jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar og sýna 500/1000 hPa-þykktina í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Litirnir sýna aftur á móti hita í 850 hPa-fletinum (á bilinu 1100 til 1400 metrar) eins og litakvarðinn neðst á myndinni greinir frá.
Inni í bláu, fjólubláu flekkjunum má sjá töluna -32 stig yfir jöklinum, en -22 undan Grænlandsströnd suður af Ammasalik. Nú er það svo að 850 hPa-flöturinn er ekki til yfir hálendi jökulsins - það stendur upp úr honum. Þykktin er strangt tekið ekki heldur til yfir jöklinum en hvort tveggja er samt merkt og einhver raunveruleiki er að baki. Það er 4920 metra jafnþykktarlínan sem gengur þar um sem -32 eru merktir.
Dálítil dæld mun vera í jökulskjöldinn um það bil þar sem kaldasta loftið er merkt á kortið. Þar á kalda loftið greiðastan aðgang og við sjáum beinlínis hvernig það fellur niður af jöklinum og til sjávar þar sem -22 talan er á kortinu og breiðir meira að segja úr sér til beggja átta, en flest út í átt til Íslands. Þar er 5040 metra jafnþykktarlínan við Vestfirði. Þegar kalda loftið streymir til Íslands hlýnar það yfir sjónum þannig að við fáum það engan veginn jafnkalt hingað. En nógu kalt samt.
Það verður fróðlegt að sjá hversu þétt og efnismikil él tekst að búa til á leiðinni frá Grænlandi til Íslands. Spár segja að vindur verði mjög hvass á þriðjudag vestur af landinu og e.t.v. líka inn á land. Þegar loftið fellur niður af Grænlandsjökli dregur það með sér veðrahvörfin og þá verður til mikill vindstrengur úr vestsuðvestri eða vestri sunnan við mesta niðurdráttinn. Sumar spár segja að 15 cm bætist ofan á snjóinn í Reykjavík í éljunum næstu 2 daga. Fari svo verður leiðindaskak í jöðrum bæjarins og á vegum á Vesturlandi - og auðvitað vitlaust veður á heiðum um mestallt land.
Enn er því ástæða fyrir vegfarendur og þá sem eitthvað eiga undir veðri að fylgjast vel með veðri og veðurspám. Þegar þetta er skrifað (rétt fyrir kl. 1 aðfaranótt þriðjudags) er ýmist ofsaveður eða fárviðri á fjöllum eystra og jafnvel í byggð. Snörp varð lægðin sú.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.1.2012 | 19:20
Síðbúin færsla um nær liðið veður
Hér kemur pistillinn sem til stóð að setja inn í gær - en tókst ekki. Hann er að nokkru úreltur og er því endurskrifaður og allmikið styttur.
Fyrst var litið á gervihnattamynd, hún var tekin í gær kl. 22 og sýnir lægðina sem nú (kl.19 á mánudagskvöldi) er rétt suðvestan við land. Í gær var hún hins vegar langt suðvestur í hafi.
Myndin sýnir dæmigerða vaxandi riðalægð. Að vísu sjást stundum öflugri kerfi en þetta en einkenni þess eru samt til staðar. Þar er fyrst að telja hlýja færibandið svonefnda. Þar er kjarni háloftarastar með vindi í stefnu rauðu örvarinnar. Hér vantar helst upp á að norðvesturbrún skýjagöndulsins sé skörp. Einnig má sjá að kerfið hefur haus - en engan sveip er enn að sjá í kerfinu (hann sést hins vegar í dag). Þó virðist vera að myndast þurr rifa á milli hauss og gönduls. Allt kerfið gengur síðan hratt í átt að éljasvæði fyrir suðvestan land.
Þetta hefði okkur á vaktinni fyrir 30 árum þótt heldur ískyggilegt - fyrir 50 árum voru varla nokkrar fréttir af skýjakerfi sem þessu. Nú er ástandið mun skárra - því nú taka tölvuspár mesta broddinn úr spennunni og þær segja að þessi lægð vaxi ekki úr öllu viti. Þegar þetta er skrifað (um kl. 19 á mánudag) dýpkar lægðin hins vegar mjög ört og vestan og sunnan við lægðarmiðjuna er mikið veður. Um það má nú lesa ágætan pistil Einars Sveinbjörnssonar og ættu áhugasamir að lesa hann.
Efnið hér að neðan er fyrst og fremst ætlað áhugasömum nemum hungurdiska - og aðrir geta sleppt því sér að skaðlausu.
Tilefni gefst til að líta á eina iðuspá - eitt furðukortanna sem tölvur nútímans sýna okkur. Vonandi getum við svo vanist þeim að eitthvað gagn verði af - en það tekur tíma og þolinmæði.
Spáin gildir í dag (mánudag) kl.18 og er frá því í gær eins og annað efni þessa pistils. Hér eru þrjú kort lögð ofan í hvert annað. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þar eru kunnuglegar tölur, við sjáum 4980 metra línuna skammt úti af Vestfjörðum. Vanir menn sjá að það er óvenju lág tala.
Síðan má sjá bláar og rauðar heildregnar línur (og eina græna). Þessar línur sýna hæðarbreytingu 500 hPa-flatarins síðustu 6 klst. Blátt þýðir fallandi flöt (lægð eða lægðardrag nálgast) en rautt að flöturinn sé hækkandi. Þessar tölur eru ekki sérlega háar en framrás lægðardragsins sem lægð dagsins býr í sést mjög vel. Við sjáum líka að lægðin yfir vestanverðu Grænlandshafi dýpkar líka og færist til austurs á kortinu.
Blágráir (hæðaiða) og bleikir (lægðaiða) fletir sýna síðan svonefnda iðu. Hún segir til um vindsniða í þrýstifletinum og beygju þess. Hnútar (óreglulegar eða kringlóttar klessur) fylgja lægðum en borðar bera vott um vindsniða. Röst þar sem vindur ryðst áfram á ofsahraða býr til bæði lægða- og hæðasnúning, ímyndum okkur að spaðahjól séu sett röstinni til hvorrar handar og þá má auðveldlega sjá iðuna fyrir sér, hæðabeygju hægra megin við hreyfistefnu vindsins en lægðarbeygju til vinstri handar. Lægð dagsins og iðu hennar (merkt 1 á kortinu) ber hratt framhjá hinum hnútnum (sem merktur er 2) og þeir ná ekki alveg saman.
Horfum á þessa mynd um stund.
9.1.2012 | 00:20
Ekkert gengur
Þar sem mikil tregða og útkast er nú hjá blog.is reyna hungurdiskar ekki frekar að birta texta fyrr en ástandið skánar. Bestu kveðjur.
8.1.2012 | 01:33
Af vindhámörkum ársins 2011
Við höfum litið á dægurhámörk og lágmörk hitans á árinu 2011 og nú er komið að svipaðri yfirferð um vindhraða. Aðaltaflan er í viðhenginu. Hún er þrískipt. Í fyrsta lagi er listi yfir hæsta 10-mínútna vindhraða hvers daga síðan fylgir sams konar tafla um vindhviður og að lokum er tafla yfir mesta 10-mínútna vindhraða og hviðu hverrar stöðvar á árinu ásamt tímasetningu 10-mínútna hámarksins. Taflan nær ekki til vegagerðarstöðvanna að þessu sinni. Gögnin eru úr safni Veðurstofunnar.
En hér er listi yfir þær stöðvar eiga hæsta 10-mínútna meðalvindhraða á árinu:
ár | mán | dagur | klst | átt | mest | mest hviða | nafn | |
2011 | 2 | 11 | 7 | 152 | 46,9 | 51,7 | Jökulheimar | |
2011 | 12 | 22 | 3 | 246 | 44,0 | 60,1 | Gagnheiði | |
2011 | 2 | 11 | 7 | 124 | 41,3 | 51,2 | Vatnsfell | |
2011 | 4 | 7 | 24 | 315 | 41,2 | 57,4 | Hallsteinsdalsvarp | |
2011 | 1 | 13 | 22 | 91 | 39,0 | 48,9 | Stórhöfði sjálfvirk stöð |
Sama veðrið á tölurnar í 1. og 3. sæti listans, 11 febrúar. Við sjáum að vindur var af suðsuðaustri í Jökulheimum, en suðaustri við Vatnsfell. Hallsteinsdalsvarp er í Austfjarðafjöllum á leið raflínunnar úr Fljótsdal til Reyðarfjarðar. Gott að hún þoldi þetta mikla veður. Gagnheiði er í 2. sæti í veðri rétt fyrir jól, á sama tíma og hiti fór í 13 stig á Dalatanga. Stórhöfði á síðan fimmta hæsta gildið.
Í einu tilviki til viðbótar fór vindur á Gagnheiði í 39,5 m/s. Það var í norðanveðrinu mikla 7. janúar.
Stórhöfði tekur langflest dægurhámörk 10-mínútna vinds, á mesta vindhraða dagsins 72 sinnum á árinu. Næstu stöðvar, Bjarnarey og Gagnheiði eru ekki hálfdrættingar með 31 og 30 daga hvor um sig. Af stöðvum í byggð á Bláfeldur flest dægurhámörkin, 11 talsins. Með því að líma töfluna inn í töflureikni geta nördin talið í smáatriðum. Þegar taflan er lesin þarf að hafa í huga að sumar stöðvarnar störfuðu ekki allt árið.
Á hinum enda stöðvatöflunnar er Hallormsstaður. Þar fór vindhraði mest í 18,5 m/s á árinu. Þar var stöðin í gangi allt árið þannig að við trúum þessum góða árangri.
Vindhviðulistinn er öðru vísí, fimm efstu stöðvarnar eru:
ár | mán | dagur | klst | átt | mest | mest hviða | a | nafn |
2011 | 12 | 22 | 3 | 246 | 44,0 | 60,1 | Gagnheiði | |
2011 | 4 | 7 | 24 | 315 | 41,2 | 57,4 | Hallsteinsdalsvarp | |
2011 | 12 | 24 | 21 | 261 | 34,7 | 56,9 | Seley | |
2011 | 4 | 10 | 18 | 192 | 38,3 | 56,2 | Skarðsheiði Miðfitjahóll | |
2011 | 2 | 11 | 9 | 109 | 35,9 | 54,8 | Veiðivatnahraun |
Gagnheiði á mestu hviðu ársins, 60,1 m/s. Síðan kemur Hallssteinsdalsvarp og þá Seley. Seleyjarhviðan kom í aðfangadagsveðrinu mikla. Miðfitjahóll á línuleiðinni yfir Skarðsheiði er í fjórða sæti og leggur fram veðrið eftirminnilega 10. apríl þegar ekki var hægt að hleypa farþegum úr flugvélum á Keflavíkurflugvelli. Veiðivatnahraun er í fimmta sæti - í sama veðri og Jökulheimamet 10-mínútna vindsins. Sama dag komst vindur á Skarðsheiðinni reyndar ofar (55,2 m/s) en það var ekki mesta hviða ársins á þeirri stöð og er því ekki á stöðvalistanum.
Miðfitjarhóll reynist vera sú stöð sem oftast á mestu vindhviðu dagsins, 63 sinnum, síðan kemur Bláfeldur með 35 daga og Stórhöfði með 30.
Til gamans má einnig reikna eins konar hviðustuðul, hlutfall mestu hviðu ársins og mesta vindhraða og raða eftir stöðvum. Siglufjörður lendir þar á toppnum, Neskaupstaður í öðru sæti og Bíldudalur í því þriðja. Munum þó að hér er ekki um eiginlega hviðustuðla að ræða - fyrir þá er röðin líklega önnur. Lægsta hlutfallið eiga Jökulheimar, þar var mesta hviða 51,7 m/s en mesti 10-mínútna meðalvindur 46,9 m/s (eins og kom fram að ofan).
Það var aðeins einu sinni á árinu sem mesti 10-mínútna meðalvindhraði var minni en 10 m/s. Það var 8. ágúst þegar vindhraði var mestur í Bjarnarey, 9,9 m/s. Vindhraði fór í 20 m/s eða meir einhvers staðar á landinu í um 240 daga ársins eða í kringum 8 mánuði af 12.
Lægsta hámarkshviða dagsins mældist 13,4 m/s á Vattarnesi þann 8. ágúst - sama dag og áður var nefndur, en 20. júlí á jafnlága hámarkshviðu á Stórhöfða. Hviða náði 25 m/s einhvers staðar á landinu í um það bil 270 daga eða 9 mánuði af 12.
En áhugasamir líta á viðhengið.
7.1.2012 | 00:57
Háreistar bylgjur
Umhleypingarnir halda áfram og lítið lát virðist á greiðum bylgjugangi heimskautarastarinnar austur um Atlantshaf. Bylgjurnar eru þó misstórar. Fyrirsögnin segir bylgjurnar hárreistar en það er e.t.v. ekki sem nákvæmast orðalag - en hentugt samt. Á kortum sjást þær sem hlykkir til norðurs og suðurs og öldufaldar snúa til norðurs (og þar með upp á kortunum samkvæmt venju) en öldudalir teygja sig suður á bóginn. Lítum á 300 hPa spá sem gildir fyrir síðdegi laugardagsins 7. janúar.
Á kortinu er öldufaldur yfir Íslandi og berst hann hratt til austurs og öldudalur fylgir á eftir. Skammvinn hláka fylgir hryggnum - hún er öflugust á sunnanáttarhlið hans - sem verður yfir landinu á aðfaranótt sunnudags. Jafnhæðarlínur 300 hPa flatarins eru svartar og heildregnar, vindátt og vindhraði eru táknuð með hefðbundnum vindörvum og lituðu svæðin sýna hvar vindurinn er mestur. Hér er mælieiningin hnútar - þeir eru enn notaðir í flugi.
Við sjáum næstu öldu yfir Lárentsflóa vestur af Nýfundnalandi. Hún á ekki að verða jafn háreist eins og sú á undan. Áður en nákvæmar tölvuspár komu til sögunnar var mjög erfitt að ráða í slíkt - e.t.v. gátu reynslumestu spáveðurfræðingar séð það fyrir - en ekki með neinni vissu.
Það er þó aldrei þannig að tölvuspánum fylgi algjör vissa en fyrir utan spána um mánudagshrygginn (hálfmisheppnaða) segja þær nú að kuldapollurinn mikli (Stóri-Boli) færi sig aðeins um set nær Vestur-Grænlandi næstu daga. Hann lemur hrygginn nýja þarmeð niður og lægðin sem fylgir í kjölfarið (á mánudagskvöld) á að fara á miklum hraða til austnorðausturs rétt fyrir sunnan land.
Við fylgjumst auðvitað spennt með því - lægðin gæti auðvitað farið aðeins norðar. En þriggja daga tölvuspár eru nú á tímum orðnar nokkuð hittnar á réttar lægðaleiðir.
En sunnudagshlákan er skammvinn og gerir lítið í klakamálunum - helst að hann minnki aðeins í halla þar sem bræðsluvatn getur runnið burt. Þar sem það getur það ekki bíður það bara næsta frosts og nýrra klakalífdaga.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.7.): 281
- Sl. sólarhring: 330
- Sl. viku: 1499
- Frá upphafi: 2485964
Annað
- Innlit í dag: 257
- Innlit sl. viku: 1311
- Gestir í dag: 241
- IP-tölur í dag: 241
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010