Af meðalhita vetrarins á landinu

Nú er veðurstofuveturinn nánast liðinn, einn dagur eftir þegar þetta er skrifað. Við getum því litið á meðalhita hans í byggðum landsins og borið saman við fyrri vetur.

w-blogg310320

Meðalhiti vetrarins nú er -0,3 stig, -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og -0,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020. Fimm vetur á öldinni voru lítillega kaldari en þessi. Við sjáum á myndinni að á kalda tímabilinu 1965 til 2000 hefði veturinn verið meðal hinna hlýrri - enda +0,9 stigum ofan meðallags vetra á þeim tíma - og hitinn nú er meira að segja +0,2 stigum ofan meðallags vetra hlýja tímabilsins 1931 til 1960. Vetrarhitinn nú sker sig ekki úr öðrum vetrum hlýindaskeiðsins okkar - raunverulega kaldur vetur liggur þó sjálfsagt í leyni í framtíðinni. 

Þó veturinn hafi óneitanlega verið erfiður hvað tíðarfar varðar er í raun ekki hægt að kvarta undan hitafari hans - nema því að almennt má kveina undan vetrarhita á Íslandi. Marsmánuður virðist (naumlega) ætla að verða kaldastur vetrarmánaðanna fjögurra, en það þarf annan aukastaf í nákvæmni til að greina marshitann frá febrúarhitanum - og einn dagur lifir enn þegar þetta er skrifað. 

Við lítum á hita í Reykjavík og á Akureyri þegar mánuðurinn er alveg liðinn og þá munum við vonandi líka geta litið á fleiri atriði - svosem vinda- og þrýstifar. 

Nú virðist töluvert kuldakast vera í kortunum eftir miðja viku. Hversu alvarlegt eða þrálátt það verður vitum við ekki. - En veðurstofuvorið hefst formlega 1.apríl.    


Meira af háþrýstingi

Loftþrýstingur hefur verið óvenjuhár á landinu í dag (laugardag 28.mars). Hæsta tala sem ritstjórinn vill viðurkenna mældist á Hjarðarlandi í Biskupstungum kl.11 í morgun, 1050,5 hPa. Þetta er hæsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu frá 16.apríl 1991, en þá mældist hann 1050,8 hPa á Egilsstöðum. Þetta er líka næsthæsti þrýstingur sem mælst hefur í marsmánuði hér á landi, þann 6. árið 1883 fór þrýstingur í 1051,7 hPa í Vestmannaeyjakaupstað.

Miðja háþrýstisvæðisins er þó ekki yfir landinu, heldur fyrir sunnan það og þar hækkar þrýstingur enn. Spár nefna jafnvel 1054 eða 1055 hPa á morgun um 6-700 km fyrir sunnan land. Líklegt er að þrýstimet marsmánaðar falli á Bretlandseyjum. 

Þess skal getið að hæsta þrýstitala sem sést hefur á landinu í dag er 1054,2 hPa, mældist við Setur í morgun kl.7, líklega sú hæsta sem sést hefur hér á landi síðan 1841. Ritstjóri hungurdiska er afskaplega tregur til að viðurkenna þrýstimet sem sett eru á hálendinu. Aðferðin sem notuð er til að reikna þrýsting til sjávarmáls er ónákvæm, sérstaklega í stilltu veðri og miklu frosti. Því miður bera sumar erlendar tölur þess merki að ekki sé tekið tillit til þessarar reikniskekkju - en við nennum ekki að þrasa um það. 


Villtar veðurspár

Veðrið er nokkuð villt þessa dagana - og spár jafnvel enn villtari. Gríðarlegt háþrýstisvæði er að ná sér á strik fyrir sunnan land og líklegt að þrýstingur hér á landi verði sá hæsti í mars síðan 1962. Þrýstingur í miðju hæðarinnar stefnir yfir 1050 hPa sem er óvenjulegt á þessum slóðum á flestum tímum árs (eins og rifjað var upp í síðasta pistli).

w-blogg280320a

Kortið sýnir stöðuna á norðurhveli eins og evrópureiknimiðstöðin gerir ráð fyrir að hún verði síðdegis á sunnudag, 29.mars. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykkt er sýnd með litum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Á þessum árstíma telst græni liturinn hlýr og mun þeirra hlýinda gæta sums staðar á landinu, einkum þó eystra. Mikill varmi fer þó í að bræða snjó og því ekki á vísan að róa með tveggjastafatölur á þeim slóðum. 

Ýmsum marsháloftametum frá Keflavíkurflugvelli er ógnað, en ekki þó útséð um hvort af slíku verður - við fylgjumst með.

Önnur háloftahæð - en minni - er norðvestur af Alaska. Hún virðist eiga að stugga við kuldapollinum mikla, Stóra-Bola sem er býsnaöflugur en liggur á sínum heimaslóðum. Flestar spár gera ráð fyrir því að hann taki á rás til austurs eða suðausturs og rekist á Grænland. Hvað þá gerist er mun meiri óvissu undirorpið og hafa skemmtideildir reiknimiðstöðvanna verið með miklar flugeldasýningar undanfarna daga. 

Það er vart við hæfi að fara að velta sér mikið upp úr þeim - vegna hinnar miklu óvissu. En kannski er í lagi að sýna spákort úr hádegisrunu reiknimiðstöðvarinnar, sjávarmálskort (og 850 hPa hita) sem gildir um hádegi fimmtudag 2.apríl. En taka verður fram að þessi staða sem sýnd er er með töluverðum ólíkindum og kemur varla fram í þessari mynd (en maður veit samt aldrei).

w-blogg280320b

Hér er sýnd 954 hPa lægðarmiðja fyrir austan land með ískaldri hríðarstroku yfir Íslandi - 1066 hPa hæð er vestan Grænlands. Þó svona háar tölur séu heldur algengari yfir Norður-Kanada heldur en hér á landi má samt fullyrða að þetta er samt nærri því út úr korti - eins og sagt er. Ritstjórann minnir (en bara minnir) að norðurameríkuháþrýstimetið sé um 1070 hPa.

Þetta eru ekki auðveldir tímar. 


Óvenjulegur háþrýstingur?

Loftþrýstingur hefur lengst af verið sérdeilis lágur hér við land í vetur. Nú bregður hins vegar svo við að hann á að rjúka upp - um stund að minnsta kosti. Hversu hátt hann fer hér á landi er reyndar ekki útséð um enn, þær spár sem hvað lengst ganga setja hann rétt upp fyrir 1048 hPa um helgina - en kannski verður hæsta talan ekki alveg svo há. 

Þannig hefur hist á að þrýstingur hér á landi hefur ekki oft farið yfir 1040 hPa í mars á síðari árum, 1048 hPa hefur ekki verið náð í mars síðan árið 1962 - aftur á móti tvisvar í apríl (1986 og 1991). Hæsti þrýstingur hér á landi það sem af er öldinni mældist í febrúar 2006 en þá fór hann í 1050,0 hPa á nokkrum veðurstöðvum austanlands. 

En lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á hádegi á sunnudag (29.mars). 

w-blogg250320a

Það er nokkuð öfgakennt - þrýstingur í hæðarmiðju 1055 hPa fyrir sunnan land. Satt best að segja ólíklegt að hann fari svo hátt. Það er töluverður munur á tíðni 1050 hPa og 1055 hPa á þessum slóðum. Gloppótt minni ritstjórans segir honum þó að hann hafi einhvern tíma séð svipaða tölu áður - og með smáhjálp á netinu fann hann þetta tilvik, 28.janúar árið 2003.

w-blogg250320b

Þrýstingur í hæðarmiðju langt suður í hafi 1057 hPa (segir líkanið). Þessi mikla hæð stóð stutt við. Þrýstingur hefur aðeins einu sinni farið yfir 1055 hPa á Íslandi svo vitað sé. Mælingin er mjög forn, frá 1841 og alls konar óvissa tengist henni. Þeir sem vilja fræðast frekar geta lesið um íslensk háþrýstimet í pistli á vef Veðurstofunnar.

Þó oftast fylgi allgott veður háum þrýstingi eru öfgar í þeim efnum ekki alltaf til fagnaðar. Á þessum tíma árs boðar hann stundum leiðindahret og kulda (ekki þó nærri því alltaf). 

Í viðhenginu er listi yfir hæsta þrýsting hvers mánaðar á landinu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrstu 20 dagar marsmánaðar

Tuttugu marsdagar. Rétt að taka fram í upphafi að vegna tölvubilunar á Veðurstofunni vantar enn slatta af athugunum í gagnagrunn Veðurstofunnar - þar á meðal nokkrar athuganir í Reykjavík. Tölur eru því ónákvæmari en vant er í uppgjöri hungurdiska.

Meðalhiti fyrstu 20 daga mánaðarins í Reykjavík er -0,6 stig, -1,4 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -1,9 neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í 18. hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2004, meðalhiti þá +5,2 stig, en kaldastir voru þeir 2011, meðalhiti -1,4 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 90. sæti (af 146). Hlýjastir voru sömu dagar árið 1964, meðalhiti þá +6,4 stig, kaldastir voru þessir dagar 1891, meðalhiti -5,8 stig.

Meðalhiti á Akureyri er nú -2,4 stig, -1,9 stigi neðan meðallags áranna 1991 til 2020, en -2,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Svalt hefur verið um land allt, á spásvæðum raðast hitinn í 2. til 4.lægsta sæti á öldinni.

Miðað við síðustu tíu ár er vikið minnst á Ingólfshöfða og í Surtsey, -1,2 stig, en mest -3,4 stig á Brú á Jökuldal og í Þykkvabæ.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 38,7 mm og er það nokkuð minna en í meðallagi. Á Akureyri hefur hún hins vegar mælst 50,9 mm sem er um 50 prósent umfram meðallag.

Sólskinsstundir haf mælst 79,5 og er það í ríflegu meðallagi.

Loftþrýstingur hefur verið lágur, en er þó langt frá meti.


Fyrri hluti marsmánaðar

Fyrri hluti marsmánaðar var kaldur miðað við það sem verið hefur á þessari öld. Meðalhiti í Reykjavík er -0,9 stig, -1,5 stigi neðan við meðaltal 1991 til 2020, en -2,2 neðan meðallags síðustu tíu ára - og hitinn þar með í 19.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Kaldastir voru sömu dagar árið 2002, meðalhiti -1,1 stig, en (lang) hlýjastir voru þeir 2004, meðalhiti +6,0 stig. Á langa listanum er meðalhiti nú í 93.sæti (af 145). Hlýjast var 1964, meðalhiti +6,6 stig, en kaldast 1891, meðalhiti -7,7 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 15 daga marsmánaðar -3,2 stig, -2,7 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -3,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og í 68. sæti á lista sem nær til 85 ára.

Þetta er kaldasta marsbyrjun á öldinni við Faxaflóa og á Miðhálendinu og sú næstkaldasta eða þriðjakaldasta á öðrum spásvæðum. Miðað við síðustu tíu ár er neikvæða vikið minnst í Surtsey og á Stórhöfða, -1,4 stig, en mest á Brú á Jökuldal, -4,0 stig. 

Nokkur marslágmarkshitamet hafa fallið - athyglisverðast kannski fall meta á nokkrum stöðvum á Suðurlandi, t.d. í Þykkvabæ (athugað frá 1996), í Skálholti (athugað frá 1998), við Gullfoss, í Árnesi og á Kálfhóli. Sömuleiðis féll staðarmet við Setur (1997). Frostið þar mældist -28,3 stig sem er lægsti hiti ársins á landinu til þessa (en óstaðfest).

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 7,9 mm það sem af er mánuði og er það innan við fimmtungur meðalúrkomu - hefur 8 sinnum mælst minni (121 ár). Úrkoma á Akureyri hefur mælst 47,5 mm, nærri því tvöföld meðalúrkoma.

Sólskinsstundir hafa mælst 61,0 í Reykjavík, það er í ríflegu meðallagi. Loftþrýstingur er enn lágur, en er þó fjarri meti. Enn er gert ráð fyrir órólegri tíð.


Býsna mikill snjór

Eins og fram hefur komið í fréttum er nú snjóþungt nokkuð víða um land. Snjó er þó mjög misskipt eins og gengur. Mestur er hann að tiltölu í Fljótum, almennt við Eyjafjörð og svæðinu þar næst austan við. Nokkuð mikill snjór er líka austanlands og verður að teljast óvenjumikill á sunnanverðum Austfjörðum (eftir því sem frést hefur til) sem og á mestöllu Suðausturlandi. Sömuleiðis er allmikill snjór sums staðar á Suðurlandi, einkum inn til sveita. Lítill snjór er hins vegar við Faxaflóa og á Snæfellsnesi - og ekki mjög mikill á vestanverðu Norðurlandi.

Á fáeinum stöðvum fyrir norðan er þetta mesti snjór frá 1995 að telja, t.d. í Fljótum og í Fnjóskadal innanverðum - á sumum stöðvum var snjór ámóta árið 2000.   


Fyrstu tíu dagar marsmánaðar 2020

Meðalhiti fyrstu 10 daga marsmánaðar er -0,5 stig í Reykjavík, -0,9 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020, en -1,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og í 16.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2004, meðalhiti þá +6,3 stig, en kaldastir voru þeir 2009 og 2002, meðalhiti -2,1 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 80.sæti (af 146). Dagarnir tíu voru hlýjastir 2004, en kaldastir 1919, meðalhiti þá var -9,9 stig.

Á Akureyri er meðalhiti daganna tíu nú -2,9 stig, -2,0 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -2,2 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Vestfjörðum, hiti þar í 14.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast á Austurlandi að Glettingi, hiti þar í 18.sæti (þriðjakaldasta).
Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, minnst er neikvæða vikið á Skrauthólum á Kjalarnesi (-0,4 stig), en mest -3,2 stig á Brú á Jökuldal.

Úrkoma hefur verið lítil í Reykjavík, aðeins 4 mm, en hefur þó alloft verið enn minni sömu daga. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 18 mm og er það í meðallagi.

Sólskinsstundir hafa mælst 38,4 í Reykjavík, um 5 stundum umfram meðallag.

Loftþrýstingur er enn tiltölulega lágur, en hefur þó oft verið lægri fyrstu tíu daga marsmánaðar.


Af árinu 1864

Tíðarfar ársins 1864 þótti að miklum mun betra en það sem ríkti næstu ár á undan - en mannskaðaár var það mikið á sjó og allmargir urðu úti. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,9 stig, en giskað er á 4,7 stig í Reykjavík og 2,7 á Akureyri. Í Stykkishólmi var árið það hlýjasta frá 1856 og meðalhiti ársins varð ekki jafnhár þar aftur fyrr en 1875. Kalt var í mars og júní og september telst líka kaldur á okkar mælikvarða. Hins vegar var hlýtt í apríl, júlí og nóvember og hiti í meðallagi í janúar, febrúar, maí, ágúst, september og desember.

arid_1864t 

Myndin sýnir meðalhita hvers dags í Stykkishólmi 1864. Enginn dagur telst mjög hlýr og aðeins einn var kaldur, 13.mars. Ársúrkoma mældist 541 mm, talsvert minna en í meðalári. 

arid_1864p 

Myndin sýnir þrýstifar ársins, byggð á morgunmælingum í Stykkishólmi. Loftþrýstingur var hár í maí, ágúst og svo sérstaklega í október og hefur meðalþrýstingur aðeins tvisvar orðið hærri í þeim mánuði (1880 og 1993). Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 30.janúar, 953,7 hPa, en hæstur á sama stað á hlaupársdaginn, 29.febrúar, 1039,3 hPa. 

Þann 11. janúar 1865 lýsir Þjóðólfur tíðarfari ársins 1864 í stuttu máli:

Síðan á næstliðnum útmánuðum [1864] og fram á jól hefir mátt heita einstakasta árgæska yfir gjörvallt land. Fénaður gekk vel undan í vor yfir höfuð að tala og sauðburði heppnaðist vel, þó að það væri í einstöku sveitum, að nokkur fénaður félli, t.d. á einstöku bæjum um Fljótshverfi, Síðu, Skaftártungu og um efri hluta Rangárvalla, og fénaður gengi þar magur undan; en vorið var einkar góðveðrasamt, fremur þurrt og snemmgróið, og lifði því allur fénaður vel af, er lifað gat, og við góðar hafnir. Sumarið var að vísu fremur kalt að veðurlagi, en þó hið hagstæðasta til heyafla yfir land allt. Grasvöxtur var víðast í meðallagi, á túnum, velli eður vallendi víða í betra lagi, en mýrar og votlendi var víðast næsta snöggt; svona var yfir höfuð að tala, en mikill grasbrestur sagður um alla Strandasýslu og það austur fyrir Hrútafjörð. Hagnýting varð hin besta allstaðar, og öll hey í bestu verkun; í Múlasýslum lagðist í rigningar um höfuðdag er héldust fram yfir 20. sept. og átti þá almenningur þar um héruð úti úthey sín 3 og 4 vikna, en úr þessu rættist svo, að öll þau hey náðust heim undir mánaðalokin, eftir því sem síðustu fregnir herma. Rófur og jarðepli í görðum heppnuðust nú í góðu meðallagi, eftir nálega 6 ára óáran.

Haust þetta [1864] og skammdegið fram yfir jólin mun mega telja eitt hið einstakasta að veðurblíðu og árgæsku, að því er elstu menn muna og sögur fara af; það mun hafa verið óvíðast hér sunnanlands, að farið væri að kenna lömbum átið fyrr en um hátíðina og væri ekki tiltökumál, ef komið hefði nokkurn tíma það íhlaup, að nauðsyn og forsjálni hefði verið til að heyja lömb fyrr, eða veðráttan hefði verið sú, að þau hefði smám saman megrast á útbeitinni, en það hefir ekki verið; lömb eru víðast eigi síður en annar útifénaður í bestu haustholdum, og brúkunarhross og kvíær fitnuðu allt til jóla, því jörð var allt til þess tíma eigi aðeins þelalaus að öllu, svo að jafnan hefir útifénaður getað náð rótarkjarna grasanna og dregið upp ófölnaðan kólfinn úr mýrum, heldur hefir jörðin verið einkar holl til beitar, af því aldrei varð hún hæst eða rykug sakir langvinnra þyrringa, heldur gekk alltaf öðru hverju úði og rigning, og samt hrakningalaust. Það má þykja annálavert, að sléttur hlaðvarpar og aðrir vel ræktaðir blettir í túnum heldust fagurgrænir fram yfir miðjan [desember] og var það víða hér syðra, bæði við sjó og til sveita að sóley og skarifífill lá við blómgun og útsprungu um byrjun [desember]. Þá þykir það og fáheyrt árgæskumerki, að fáeinar ær um Flóa og Ölfus hafa átt lömb aflíðandi réttum eður fyrir og um 21—24 vikur af sumri.

Þann 18.apríl 1865 birti Þjóðólfur yfirlit um manntjón á sjó og í vötnum á árinu 1864. Þar segir í upphafi [en við látum vera að birta yfirlitið hér]:

Af því árið 1864 mun reynast eitthvert hið einstakasta skiptapaár og mannskaðaár, hefir þótt fróðlegt, einkum til frambúðar, að Þjóðólfur færði fáort yfirlit yfir þessi hin miklu manntjón svona á þessu eina ári.

Janúar: Þótti góður framan af, en síðan tóku við nokkuð snarpir umhleypingar.

Þjóðólfur ræðir tíð og búnaðarhætti þann 9.janúar [1864]:

Þeir munu vissulega færri, er hafi í annan tíma átt að fagna gleðilegri nýársdegi heldren hinum síðastliðnum 1. janúar 1864; getur verið, að margur hafi þá átt um sárt að binda, eins og svo oft ber að, nú fyrir þessum og nú fyrir hinum, en það er ekki umtalsefnið hér, heldur hitt, sem allan almenning og almenningsvelferð varðar svo afarmiklu, og það var þetta, að einhver hin besta og hagstæðasta hláka gekk í garð á gamlársdag, svo að nýársdaginn sjálfan í messulok var víða orðið alautt og hið mikla snjókyngi, er komið var nálega eins um byggðir eins og óbyggðir, var nú tekið upp og sjatnað meir en til hálfs, og bestu hagar komnir upp 2. og 3. þ. mán. um allar byggðir hér syðra. Góð miðsvetrarhláka, — en þetta var einhver hin mildasta og besta er hugsast getur, — hún er allajafna ein hin besta guðs gjöf hér á landi, og er það nú, þegar óvanaleg harðindi með fannfergi og hagleysum hafa lengi gengið á undan. En víst er um það, að þessi vetur fram til nýárs hefir verið einhver hinn þyngsti sem menn muna, því veturinn lagði að um miðjan september fyrra ár, og hefir síðan aldrei linnt illviðrum og fannkomum og umhleypingum, þótt einstakir hlédagar hafi komið á milli; en víða tók algjört fyrir haga með jólaföstu og hefir mestallur útigangsfénaður verið á gjöf síðan víða hvar, og mundi full þörf að svo hefði allstaðar verið, með þeim illviðrum sem gengu stöðugt frá veturnóttum fram yfir jól, þóað sumir hafi haldið fast við þessa illu landsvenju sem jafnan hefir verst gefist, að draga sem lengst að taka sauðfénað á hús og hey, heldur beitt honum út í illviðrin á hungurshaga, þó að það sé margreynt, að fyrir þessa meðferð strengist fénaðurinn svo upp og megrast, að hann þarf margfalt meira og betra fóður og um margfalt lengri tíma þegar framá kemur, og hann er svo dreginn orðinn að varla helst við á alauðri jörð og í góðu veðri, nema hann fái meðfram kjarnbesta fóður, en það er þá víða þrotið eða alls eigi til. Þetta eru hin vanalegu og algengu afglöp í fjárhirðingu vorri, ásamt með ónógum, þröngum og óhollum peningshúsum til innistöðu og gjafar, einkanlega hér sunnanlands. Margra alda sorgleg reynsla, og alt það tjón er þessi fásinna hefir í för með sér, hvenær sem heldur harðan vetur ber að; fjárfellir meiri og minni, unglambadauði og málnytubrestur á sumrin, hafa eigi getað opnað augu vor né gjört oss hyggnari og forsjálli hvorki til skynsamlegrar ásetningar og vandaðri fjárhúsabygginga, né í því að skera af sér fyrr en í ótíma er komið, þegar óvanalegar vetrarhörkur dynja yfir, eins og nú hafa gengið um nálega 12 vikna tíma. — Því var það einn hinn gleðilegasti nýársdagur sem menn geta lifað, þessi sem nú leið, er hann færði hagstæðasta bata með nægum högum er menn vonuðu að
mundu því fremur haldast sem lengur hafði stirt gengið og hlákan og batinn fór betur að frá upphafi. En það hefir lengi reynst næsta aðgæsluvert að ráða veður af lofti, og skammdegishlákurnar hafa einatt reynst svipular og stopular, og þó að hláka þessi byrjaði vel, þá er batinn sem af henni stendur þegar orðinn næsta endaslepptur og tvísýnn, þar sem 5. og 6. þ. mánaðar brá til umhleypinga fyrst með bleytu og slyddu, þá með frosti og fannkomu og svo aftur til blota. Er því næsta tvísýnt enn, hvort veðurbreyting þessi kemur sveitabændum vorum að verulegum notum, eða hvort hún verður þeim ekki fremur til falls. Hefði engi bati komið, þá var fjöldi búenda, er hafði fastráðið að skera af sér talsvert og einstöku menn voru þegar farnir til þess, en nú er miklu hættara við að menn láti þar staðar nema, voni betri bata, og beiti fénaðinum út á þær snapir sem þegar eru komnar upp, og gæti þess svo ekki sem skyldi, að umhleypingsillviðrin hrekja og megra fénað eigi síður en miklu rýrari hagar með hreinviðri og góðu ástöðuveðri.

Þjóðólfur segir þann 25.janúar:

Veðurbatinn með áraskiptunum tók upp mestallan snjó hér sunnanlands, því hláka þessi hélst til 17. þ.mán. með miklum skakveðrum og stórrigningum oftast og var mikill hrakningur á útifénaði. Vér höfum eigi fregnir lengra að norðan en úr Skagafirði, og náði batinn þangað. Fram til árslokanna voru hörkurnar og snjókyngið hið sama þar eins og hér, en þó betri hagar víðast, aftur voru hagleysurnar í Skaptafellssýslu hinar sömu eins og hér vestra. Síðan 18. þ.m. hefir hlaðið niður miklum snjó hér syðra, svo að nú er mesta ófærð komin, og sumstaðar kreppt að högum.

Norðanfari segir í janúarblaðinu af tíð og aflabrögðum nyrðra:

Síðan á nýári hefir hér nyrðra fyrir það mesta mátt heita góð tíð og víða næg jörð fyrir útigangspening, Nokkrir skáru af fóðrunum fyrir jólin og nýárið. ... Fiskiafli hefir hvergi verið teljandi hér norðanlands síðan fyrir jól nema í Héðinsfirði, hvar 100 fiska hlutur er orðinn. Vegna ógæftanna hafa engir getað róið til hákarls fyrr en seint í þessum mánuði [janúar] og aflaðist þá lítið, mest 6—12 kútar lifrar í hlut; sjóveðrið varð skammvinnt og lítið um hákarlinn — Engin merki hafa sést til þess, að hafísinn mundi enn nærri landi. Hér og hvar hefir enn orðið vart við trjáreka venju framar.

Í febrúarblaðinu (ódagsett að vanda) birti Norðanfari tvö bréf, dagsett í janúar:

Úr bréfi úr Húnavatnssýslu [20.janúar]: „Fátt get ég skrifað þér fréttnæmt að þessu sinni, frá því um miðjan [desember] til þess þann 27. kom hér fádæma snjór einkum út við sjó og til miðsveita, og ætla ég að menn muni trautt þvílíka snjókomu á jafn stuttum tíma um það leyti. Mátti svo kalla að bjargarbann væri orðið um Ásana og Þingið og Skagafjörð utanverðan, en fram til dala var fannkyngjan nokkuð minni, og horfði þetta til almennra vandræða með heybjörg, hvers vegna sumir voru farnir að lóga af peningi sínum, en þó voru þeir fáir. En um árslokin kom góður bati, sem viðhelst með hægri þíðu og nokkru frosti á víxl, þar til í fyrradag og er nú á flestum stöðum kominn upp nokkurn veginn jörð; en mjög voru hross orðin hrakin af undanförnum hríðargangi, einkum um jólin. Mjög hefir verið stormasamt síðan um nýárið, en mest var þó stórviðrið 9. þ.m. og veit ég þó ekki til að það hafi orðið að skaða“.

Úr bréfi að austan [24.janúar]: „Eftir að haustrigningunum miklu hættu, var hér hæglát tíð og snjóar litlir á uppsveitum, jarðir oftast nógar; en í norðurfjörðum og á Úthéraði kom mikill snjór og varð jarðlaust. Með byrjun ársins gekk í miklar þíður, oft með stórrigningum; varð nærri öríst hér á uppsveitum, en lítil kom upp jörð yst í Héraði og sumstaðar alls engin. Nú kom bleytusnjóbræðsla yfir allar sveitir, og er jarðlítið. Í Skaftafellsýslu höfðu verið óvanaleg snjókyngi fyrir nýár, en minnkuðu, eftir sem austar dró Suðurmúlasýslu.

Febrúar. Umhleypingasamt og talsverður snjór með köflum um landið sunnan- og vestanvert, en hagstæðari tíð var um landið norðaustanvert. 

Þjóðólfur segir fyrst frá jarðskjálfta í pistli þann 22.febrúar, en síðan eru fréttir af veðri og tíð:

[Þann] 16. þ.m., er lítið var komið á 6. stund fyrir miðaftan, brast á hér í Reykjavík og víðar um nesin allmikill jarðskjálfti, og fundu þeir hann einnig glöggt, er voru úti á víðavangi á gangi, og sáu t.d. dómkirkjuturninn bifast til og frá; þeir sem voru á sjó hér innfjarða, tóku og eftir óvanalegu öldurisi. Inntré hristust hér í timburhúsunum og nötraði í þeim, sumstaðar hrukku flöskur og annað ofan af hillum innanhúss. Hræring þessi stóð yfir sem svaraði 2 mínútum; loftþyngdarmælirinn (»barometrið«) breyttist alls ekki, hvorki á undan né eftir.

Ekki eru það aðeins sjóróðramenn norðan úr Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu, vestan úr Dölum og víðsvegar að úr vestari sveitunum austanfjalls, er koma nú daglega hingað og færa bréf og fregnir úr þeim héruðum, heldur komu hér fyrir helgina, sem leið, 2 sendimenn lengra að, annar úr Suðurmúlasýslu, en hinn vestan af Barðaströnd, og þartil kom sunnanpósturinn í gær austan frá Kirkjubæ á Síðu; því hafa oss borist fregnir og bréf víðsvegar að úr landinu vikuna, sem leið, bæði um vetrarfarið og önnur almælt tíðindi. Í Múlasýslunum og Austur-Skaftafellssýslu var vetrarfarið nálega allt hið sama sem hér syðra, allt fram til nýárs, miklir snjóar með hörkum og hagleysum, en öllu minni blotar og umhleypingar en hér; oftari nokkrar jarðir um aðalsveitirnar í Múlasýslum og fjallabæi í Austur-Skaftafellssýslu, en hagleysur þar um allar láglendissveitir og út um firðina í Múlasýslum; þar um sveitir varð miklu minna úr nýárshlákunni, enda gætti hennar minna en hér, sakir snjókyngisins, er á eftir fylgdi. Um Vestfirði voru og sömu hörkur og snjókyngi fram til nýárs, en jarðir miklu betur gjörðar, svo að óvíða tók þar fyrir haga, en síðan nýár hefir bæði þar vestra og eins allstaðar norðanlands verið hin besta tíð, og kalla Húnvetningar og Skagfirðingar það árgæsku, er síðan hefir gengið. Hér syðra skiptir gagnstæðu máli, bæði um Borgarfjörð, austanfjalls og nærsveitirnar hér syðra; hér hafa gengið stöðugir umhleypingar, blotar og fannkoma á mis, og þó að snjór hafi heldur þverrað en aukist, og veðurlagið verið allt mýkra og minni skakveður og frost, einkum eftir hið einstaka ofsaveður af vestri-útsuðri að kveldi 30. [janúar], þá hafa jarðir hér verið næsta illa gerðar víða hvar og alveg haglaust sumstaðar, en meinlegir hrakningar á útifénaði. Að öðru leyti er alstaðar vel látið yfir fjárhöldum og góðum þrifum í fénaði, og eins yfir sóttarfarsleysi og góðri heilbrigði á mönnum.

Í ofsaveðrinu um kveldið 30. [janúar] köstuðust 2 menn fram af Vogastapa, og fundust báðir örendir og limlestir daginn eftir; ... annar var Egill Ásmundsson, ættaður héðan úr Reykjavík, ungur maður og vellátinn og hefir um nokkur ár undanfarin verið utanbúðarmaður við Knudtsons verslun hér, en var nú fisktökumaður hans við Tangabúðina þar í Vogum; var hann þetta kvöld á heimleið þangað utan frá Njarðvík, og hafði fengið þar til fylgdar sín manninn, er með honum fórst. — 8. [janúar] fórst skip með 6 mönnum frá Hergilsey á Breiðafirði, í Rauðsdalslendingu við Barðaströnd; sást til þeirra en varð eigi bjargað, svo allir mennirnir týndust.

Austanpósturinn færði þá fregn hingað í gær, að skipstrands hefði orðið vart á útgrynningunum út frá Skóga- eða Sólheimasandi, nálægt sýslu- og fjórðungamótum, ...

Norðanfari birti í febrúarblaðinu bréf úr Skagafirði - og ræðir síðan lítillega um tíð nyrðra:

Úr bréfi úr Skagafjarðarsýslu [9.febrúar]: „Eftir að ég skrifaði yður seinast, var tíðin mjög höstug og illviðrasöm fram til ársloka, en með nýárinu skipti um með hláku og hagstæðasta bata, svo síðan hefir ekki komið öðru hærra að heita má; því þó einstaka íhlaup hafi komið, hefir ekkert orðið úr því, en nú er allstaðar komin upp nóg jörð, og er sumstaðar varla hýst, gengur fullorðið fé víða gjaflaust og dregin gjöf við lömb, einkum þar sem til fjöru nær eða kvistland er, svo sem á Skaga og víðar.

Þótt veðuráttan hafi hér á Akureyri og um nærsveitirnar verið hvassviðrasöm og stundum töstug, hefir þó í öllum hinum jarðsælari sveitum verið nægileg jörð fyrir útigangspening, einkum hross og sauðfé, svo fremur eru nú horfur á því, að flestir muni komast af með heybirgðir sínar.

Mars. Heldur kalt og umhleypingasamt. 

Þann 11.mars birtir Þjóðólfur enn fregnir af árferði og skipskaða:

Hinn næstliðna 3 vikna tíma hefir hér syðra mátt heita sama veðrátta eins og í janúar og febrúar framanverðum, frost og hæg snjókoma öðru hvoru nema hvað stillur með heiðríkju og nokkru sólbráði um daga gengu hér 1.— 5. þ.mán. Yngstu fregnir að norðan og vestan segja þar góða haga viðast og góða tíð, en hér syðra eru mjög víða hagleysur eða þá hungurssnapir, t.d. um flestar sveitir Árnessýslu, því Flóinn er þá mestallur svellum og ísalögum þakinn, af því Ölfusá hefir hlaupið þar suður yfir öll flatlendin; einnig heitir haglaust víðast um Kjós og á mörgum fremstu bæjunum í Borgarfjarðardölum.

Skiptapi. Laugardaginn 5. [mars] kl. 4. e. miðd. lagði héðan úr Reykjavík á hlöðnu skipi með 11 manns innanborðs, merkis- og sómamaðurinn Einar Þorvarðarson Oddssonar prests á Reynivöllum Þorvarðarsonar á Grund, fyrr á Nýjabæ á Akranesi; veður var þá spakt hér syðra allan þann dag, fram yfir sólarlag en loftsútlit mjög tvírætt og ískyggilegt, einkum eftir lítið lognél, er hér kom aflíðandi nóni og um það leyti er þeir lögðu frá. En kl. 6 3/4 til 7 rauk hann hér á upp úr logni með ofsaveður á norðan-útnorðan, eður hánorðan, og mun eflaust, að veðrið hafi fyrr brostið á upp í Hvalfirði og út fjörðinn, en líklegast þykir að skipið hafi einmitt um það leyti verið komið upp fyrir fjarðamót, eða lítið eitt norður á Hvalfjörð — en allt þangað urðu þeir að róa — og hafi þá verið nýbúnir að vinda upp segl, er þetta ofsaveður laust á, en skipið ekki getað staðist það, og hafi svo farist þarna með öllum mönnum. Skipið sjálft, og nokkuð af farvið þess og farmi, með glöggum einkennum, fannst rekið um Vatnsleysufjörurnar syðra, daginn eftir, 6. þ.mán., svo að tvímælalaust þykir, því miður, að hér hafi týnst þeir 11 manns allir, er innanborðs voru, en það voru auk Einars sjálfs, 2 uppkomin börn hans, Jón og Þóra efnilegustu ungmenni, vinnukona frá Görðum, er um tíma hafði verið til lækninga hér syðra, vinnumaður frá Bakkakoti í Bæjarsveit, frá Kaðalstöðum og Lundum í Stafholtstungum, frá Stafholtsey og frá Kalastaðakoti á Hvalfjarðarströnd; hinn 10. var Páll Jóhannsson prests Tómassonar frá Hesti, en eigi vitum vér gjörla hvaðan 11. maðurinn var. ... — Af skipstrandinu fyrir Sólheimasandi, því er getið var í síðasta blaði hefir það eina fregnast síðan, að það sé mikið skip með heilum skrokk og timburfarmi í; hinar sömu munnlegu fregnir segja að 3 lík hafi fundist í skipinu.

Norðanfari segir í maíblaðinu frá mönnum sem urðu úti:

5. mars varð maður úti á Vatnsskarði í Skagafirði, hafði hann áður misst höndina af kali. Einnig varð úti í þessari sömu hríð unglingsmaður frá Spena í Miðfirði. 

Þann 12. september segir Þjóðólfur af slysförum í mars:

Laugardag fyrir páska, 26. mars, varð úti í landsynningsbyl, er skall á um kl.10 f.m., drengur 13 vetra að aldri, frá Augastöðum í Hálsasveit, og átti hann að standa yfir fénu eða hirða það, áður en bylurinn datt á; hann fannst, viku síðar, skammt eitt frá bænum Stóraási í sömu sveit; þar fóru til dauðs um 20 fjár. Á páskadaginn, 27.mars, þegar á leið, og nóttina eftir var mikill bylur hér syðra og eystra, en daginn eftir, á annan páskadag, var besta veður og sólbráð, svo allt rann í sundur framan í móti; þenna dag (28.mars), fór ungur maður Einar Tómasson að nafni, fóstursonur síra Kjartans Jónssonar í Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum ... , mesti efnismaður á 20.ári, þaðan að heiman að gæta sauða fóstra síns, eins og hann var vanur, þar um Miðheiðina sem kölluð er (milli Ytri- og Eystri-Skóga); hann var jafnan vanur að vera i burtu á þeim göngum sínum til sauðanna nálega 2 klukkustundum; en er nú var komið fram yfir þann tíma og Einar kom ekki, var hans fyrst leitað til Eystri-Skóga, og hafði hann ekki þar komið; brá þá við Jón Hjörleifsson, hreppstjóri þar á bæ og fór með hinum bestu mönnum þar af bæjunum að leita Einars, og héldu þeir leitinni fram á nótt um heiðina, en hættu við þar sem þeir fundu snjóflóð mikið í Dalsgili sem kallað er; þar tóku þeir mikinn snjómokstur daginn eftir (3. í páskum) og fannst þú Einar þar undir snjóflóðinu, örendur.

Þjóðólfur segir af skelfilegum skipsköðum í alllöngu máli þann 2.apríl:

Rétt fyrir jólaföstuna í vetur fórst skip með 6 mönnum úr Bolungarvík í Ísafjarðarsýslu. Það lagði af stað í hákarlalegu í ískyggilegu veðri, og er það ætlan manna, að það hafi snúið aftur, er það var komið nokkuð áleiðis, en borist uppundir Stigahlíð og farist þar í brimi. — Síðari hluta febrúarmánaðar lagði skip af stað úr Ísafjarðarkaupstað og ætlaði heim, út í Bolungarvík; formaðurinn á skipi þessu hét Bjarni Össurarson ættaður úr Hnífsdal. Þegar þeir voru komnir út á Hnífsdalsvík, sem svo er kölluð, við mynnið á Skutulsfirði, sigldist skipið í kaf og fórust 5 menn, en 1 varð bjargað, því þetta var skammt frá landsteinum. Sagt er að skipverjar hafi eigi allir verið algáðir, og sá sem af komst sagði, að tjón þetta mundi af því hlotist hafa, að dragreipismaður gætti eigi starfa síns. — 23. [mars] lagði Guðmundur bóndi Sigurðsson á Smærnavöllum í Garði af stað úr Keflavík heim í leið við 5. mann á bát, með saltfarm; veður var þann dag „fremur hvasst við útnorður“ þar syðra, eftir því sem oss er skrifað, og er talið víst, að báturinn hafi farist undir seglum, með öllum mönnum, og sokkið þá þegar, því annar bátur, er var skammt frá og leitaðist strax við að bjarga, sá engar eftirstöðvar þar sem þeir fórust; en næsta dag eftir fannst báturinn á hvolfi, fastur við netatrossu undir Hólmsbergi, og Guðmundur fastur við bátinn, en hinir 4 voru ófundnir er síðast spurðist; ... Sama dag barst báti á suður í Vogum, skammt frá landi; var Kaprasíus Kaprasíusson formaður og 2 hásetar; var formanni bjargað og öðrum hásetanum, en hinn fórst, Einar Skarphéðinsson unglingsmaður úr Vesturhópi. — 26. [mars] (laugardag fyrir páska) var spakt veður um morguninn, og reri þá almenningur hér um öll nesin og syðra, en næsta ótryggilegt og ljótt loftsútlit, enda rauk hann á með útsynnings byl og ofsaveður, þá er kom fram yfir miðjan dag, þó að flestallir næðu landi einhversstaðar. Þennan dag fórst bátur af Vatnsleysuströnd með 4 manns; var Þorsteinn bóndi á Auðnum formaður, roskinn maður, og sonur hans einn hásetinn, en annar sonur hans drukknaði í fyrra; hinir 2 hásetarnir voru að sögn ungir menn utansveitar. — Svipað veðurlag var hér þriðja í páskum, 29. [mars], spakt veður fram yfir miðjan dag með ótryggilegasta útliti; enda rauk hann hér á landnorðan, þegar fram á kom; þá fórst skip í Keflavík með 7 manns og týndust allir mennirnir; formaðurinn var Magnús bóndi Hallbjörnsson frá Ökrum á Mýrum, dugnaðar- og merkismaður að mörgu, bróðir Stefáns í Skutulsey; skipið fannst fast í netatrossu, er hafði að geyma mergð þorska dauða og lifandi, og er í almæli, að helst muni ofhleðsla hafa grandað þeim; 5 hásetarnir voru útlendir að sögn og haldið, að þeir hafi flestir eða allir verið úr Mýrasýslu, en einn var Guðmundur Bjarnason, á besta aldri, húsmaður þar í Keflavík, ættaður austan af Síðu og mágur Gufunesbræðra. Sama dag fórst bátur með 2 mönnum frá Jóni hreppstjóra Erlendssyni á Auðnum; þeir voru báðir þar utansveitar, og kunnum vér eigi frekari deili á þeim að sinni. — Það er nú og sannspurt, að sama dag hafi farist merkis- og dugnaðarmaðurinn Stefán bóndi Sveinsson á Galmannstjörn í Höfnum, við 16. mann; munu flestir þeir hásetar hafa verið utanhéraðsmenn og flest mannval, en eigi getum vér skýrt gjör frá þeim að sinni. — Þannig hafa drukknað hér innan Faxaflóa í marsmánuði þessa árs, samtals 46 manns.

Apríl. Nokkuð óhagstæð tíð fram eftir mánuði, en mun betri í lokin. 

Enn segir Þjóðólfur af skipsköðum þann 18.apríl:

Nóttina milli 4. og 5. [apríl] sleit upp á Vatnsleysuvík hákarlajagt Sigurðar bónda Jónssonar á Vatnsleysu, sú er hann nefndi Paradís, og mölvaðist í spón. — Nóttina milli 13, og 14. [apríl] rak hér upp í Hlíðarhúsaklettana skonortskipið Spíka frá Hamborg, sem fyrr er getið, í ofsaaustanveðri, skipverjar hjuggu niður bæði möstrin, og fyrir það hélst skipskrokkurinn sjálfur lítt laskaður að öðru en reiðinn skemmdist mjög og talsvert af seglum; mestöllum farminum var búið að skipa hér upp, en samt var nokkuð eftir innanborðs, er átti að ganga til Linnets kaupmanns í Hafnarfirði. Í dag kom hér enn skip til verslunar Knudtzons. 

Norðanfari segir í ódagsettu aprílblaði frá tíð og mannsköðum:

Síðan með byrjun marsmánaðar og allt fram yfir miðjan þennan mánuð var hér nálega allstaðar norðanlands, einstaklega hvassviðra- og byljasamt og víða hvar fádæma mikil snjókoma, einkum fyrir, um og eftir páskana [27.mars], sumstaðar tók af alla jörð; margir voru því komnir á nástrá, sumir farnir að reka af sér og einstakir að skera. Það horfði því til hinna mestu vandræða með skepnuhöldin, hefði ekki hinn hagstæði bati komið eftir miðjan þenna mánuð [apríl] og haldist við á hverjum degi allt til þessa. Hafís hafði sést úr Grímsey fyrir páskana, en horfið strax aftur; um þær mundir varð frostið hér mest 14°R [-17,5°C]. Ógæftirnar voru stakar meðan óveðrakaflinn stóð yfir, svo varla varð á sjó komið og ekkert róið til hákarls.

[Þann] 5. mars fórst skip úr Sléttuhlíð í Skagafirði í landnorðankafaldsbyl, sem róið hafði til hákarls, með 8 mönnum þar af 5 giftir. Skipið fannst á hvolfi við akkeri framundan Sævarlandsvík á Skaga og einn maðurinn. 31. [mars] hvolfdi hákarlajagt sem lá við akkeri á Siglufirði, í ofsalandnorðanstórhríð; voru þá í henni 2 menn, og leið eigi langt áður en öðrum varð bjargað, en hinum ekki fyrri en eftir 12 klukkustundir, þá mjög þrekuðum því allan þann tíma hafði hann að mestu verið á kafi í sjó niður í „Luggaren”. Í þessu sama veðri kubbaðist mastur sundur litlu fyrir ofan þilfar í öðru skipi, og fleiri sem meira og minna lestust. Að kvöldi hins 10. [apríl], voru mörg hákarlaskip á sjó sem lagt höfðu út, brast þá í enn í grimmustu stórhríð, náðu þá sum skipin Siglufirði, sum Haganesvík í Fljótum og eitt á Höfðamöl við austanverðan Skagafjörð, hvar það bar 6 faðma á land eftir að fyrst hafði tekið niðri, hafði kjölurinn laskast töluvert en skipverjar komust af. Tvö skip hrakti með akkerum að landi, sem lágu á Haganesvík, brotnaði annað í spón, en undan hinu tók botninn. Sum skipanna, sem komist höfðu fram á mið og lagst og voru þar þá bylurinn skall á, misstu akkeri og meira eða minna af festunum. Nokkrum dögum seinna fréttist að skipið Haffrúin frá Vík í Héðinsfirði hefði farist undir Hraunsmúla á Skaga, því ýmislegt af skipinu hafði rekist þar að landi og skipverjar allir 11 talsins; en hér um 60 faðma undan landi, sást á masturstoppa skipsins og efri hluta þess; réðu menn af því, að skipverjar mundu þar hafa varpað akkerum, en vegna grynninga og boða tekið undan skipinu allan neðri hlutann, 8 af þessum mönnum voru giftir, sem ásamt ekkjum þeirra áttu 16 börn. Um þessar mundir hafði og rekið ýmislegt af þilskipi og prammbrotum fyrir Sigluneslandi og inn á Víkursandi í Héðinsfirði, halda menn það sé af þiljubát frá Flatey í Þingeyjarsýslu, því til hans er enn ekki spurt, á honum Höfðu verið 8 eða 9 menn, nokkrir þeirra úr Flatey.

Þann 19.apríl birti Þjóðólfur bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett þ.11.:

Veturinn hefir svo að segja frá upphafi og allt til þess eftir páska þótt yfirtaksharður og óveðrasamur, nema svo sem 3 vikna tíma eftir nýárið, þá hér var hláka, eins og annarstaðar mun hafa verið. Allur fénaður er hér vanur að ganga úti, hverju sem viðrar, en í vetur hafa allmargir neyðst til að taka kindur og jafnvel hesta á gjöf lengri eður skemmri tíma, og er þó heyaflinn hér næsta lítill, því menn mega þakka fyrir að geta nokkurn veginn fóðrað þær fáu kýr sem hér eru. Eins og veturinn hefir verið framúrskarandi harður hér, svo hefir og þar með fylgt sérlegt gæftaleysi til sjáfarafla, svo varla má heita, að komið væri á sjó og allrasíst til nokkurs töluverðs gagns, frá veturnóttum til miðþorra, en síðan hafa menn róið, þó stundum hafi verið miður álitlegt sjóveður, en jafnan sárlítið fiskað allt til marsmánaðarloka.

Þann 27.apríl ritar Þjóðólfur af tíð og sköðum - endalaust manntjón:

Hið þunga vetrarfar sem sunnlendingar hafa mátt búa við gjörvallan þennan vetur, hélst framnyfir sumarmálin, en með sumardeginum 1. [21.apríl] batnaði hér, með þurrveðri, hita (5—10°R um daga) og hlýjum vindum, og hefir stórmikið tekið upp þennan vikutíma. Víða til sveitanna voru bændur komnir í nám með heybjörg og útifénaður dreginn mjög hjá mörgum, en þó ætla menn að óvíða verði fellir, ef eigi kemur nýr hnekkir eður þungt kast.

Skiptapar og manntjón: Á föstudaginn langa (25. [mars]), á áliðnum degi, lagði þiljubáturinn Skrauti út frá Búðum með 7 manns; Jón Bergsson, sem hér var syðra í fyrra og hitteðfyrra, var fyrir skipinu og átti að fara hingað til Reykjavíkur, til þess að sækja kornvöru, er var von á með póstskipinu til Búðaverslunarinnar; veður var þá spakt um daginn eins nóttina eftir og framan af laugardegi 26., er almenningur reri hér syðra, en varð stinningskaldi af austri-landnorðri, er upp á daginn kom, svo að þeir hér innfrá fengu barning í land, en sú átt var þeim mótdræg hingað á Skrauta, og þartil engi seglfesta eður barlest tekin í bátinn, eftir því sem sagt er, er að heiman var farið; en þegar úthallaði degi rauk hann hér með ofsaveður og byl á vestan-útsunnan. Er talið víst, að báturinn hafi þá farist með öllum mönnum, því hvergi er hann enn fram kominn hér syðra og eigi heldur hafði hann náð aftur höfn þar vestra, því um miðjan þennan mánuð [apríl] var sendur maður frá Búðum hér suður á Akranes, til þess að hafa sannar spurnir af hvort báturinn væri hér kominn. [Ávirðingum um ballestleysi Skrauta var svarað kröftuglega í bréfi sem Þjóðólfur birti þann 13.júní] ... Miðvikudaginn 13. [apríl] fórst bátur með 2 mönnum frá Klapparholti á Vatnsleysuströnd, á heimleið úr Keflavík með salt og lifrarílát; báturinn var úr Engey; var formaðurinn Illugi Jónsson frá Ölvaldstöðum í Borgarfirði, greindur maður og vinsæll og á besta aldri, en hásetinn var að sögn vestan úr Dölum. — [Síðan fylgir mjög löng upptalning á nöfnum manna sem farist höfðu að undanförnu í ýmsum sjóslysum - við sleppum henni hér].

Maí. Tíðarfar talið hagstætt víðast hvar. 

Norðanfari segir í maíblaðinu:

Allan þennan mánuð [maí] hafa nær því á hverjum degi verið kyrrur en sjaldan hvassviður síst sunnan, en oftar síðan áleið mánuðinn minna og meira frost á nóttunni; snjór er því enn töluverður til fjalla og afrétta og á útkjálkum; gróðurinn núna að sínu leyti minni en í fyrstu áhorfðist. Skepnuhöld eru sögð víðast hvar með besta móti, og fáir misst til muna af unglömbum sínum. Gæftirnar hafa oftast verið góðar, hákarlsaflinn frá 1—7 1/2 tunnu lýsis í hlut. Hafís er sagður alla jafna fyrir, og heldur að grynna á sér svo sum hákarlaskipin hafa ekki haft frið til þess að liggja fyrir honum. ... Þar sem eggver eru eða fuglbjarg, er varpfuglinn sagður nú með flesta móti. 

Snemma i aprílmánuði lagði héðan af Eyjafirði út í hákarlalegu ásamt fleirum skipum, skipstjóri Gunnlaugur Gunnlaugsson frá Skipalóni við 10. mann á þilskipinu Sókrates, eigu Dannibrogsmans Th. Daníelsens, og hefir eigi enn spurst til þessa skips; menn telja því víst, að það muni hafa farist í mannsskaðaveðrinu 10.—11. apríl, þegar Haffrúna frá Vík í Héðinsfirði og skipshöfn hennar rak uppá Skagann og prammbrotin og fleira fyrir Sigluneslandi og inn á Víkursandi, sem eins og áður er getið, meinast af þiljubátnum Valdemar frá Flatey í Skjálfanda. Það er hald manna, að Sókrates muni hafa farist hérna megin Hornstranda, því oss hefir verið ritað, að í Trékyllisvík hafi rekið koffort með einhverju af matvælum og fleiru; einnig 2 árar brennimerktar Th. D. en hvar árarnar rak hefir eigi verið tilgreint. 

Þjóðólfur segir af manntjóni þann 24.maí:

Það má enn telja sannspurt að skip úr Eyrarsveit með 7 manns, er ætlaði þaðan út í Rif eða þær veiðistöður hafi farist á svonefndri Rifsleið nálægt 7. [apríl] og týnst allir mennirnir. [Síðar í fréttapistlinum er löng frásögn um mannskaða í brimi í Reynisfjöru í Mýrdal þann 9.apríl. Þar fórust 10 menn, en þrír björguðust nauðuglega eftir mikið volk og frækilegar björgunaraðgerðir fleiri báta].

Júní. Kalt með köflum framan af, en síðan hagstætt. 

Þjóðólfur segir þann 21.desember frá tjóni í þrumuveðri í júní:

Þrumuveður. — Í bréfi 1. september ritaði síra Hinrik Hinriksson á Skorrastað oss: „Mikið slys varð hér 30. júní næstliðinn, er þrumuveður braut hjá mér nýbyggða timburkirkju. Ég hefi sótt um peningastyrk eða lán til stjórnarinnar til að koma henni upp aftur.

Júlí. Hagstæð tíð víðast hvar. 

Í júlíblaðinu birti Norðanfari bréf úr Suðurmúlasýslu, dagsett 10.júlí:

Þegar allt stóð hér í voða á miðjum einmánuði, sendi Drottinn hagstæðan bata, svo féð sem fékk bestu gjöfina á útmánuðum gekk nærri allstaðar vel fram. Vorið var kalt en hryðjulaust; sauðgróður kom snemma, en vildi deyja upp af næturfrosti. Sauðburður varð hinn besti, og fyrir Jónsmessu kom æskileg sumartíð. Samt er grasvöxtur lítill, einkum á túnum og kvíða menn miklum töðuskorti.

Þann 29.júlí segir Þjóðólfur enn frá miklum mannskaða í brimi í Mýrdal, í þetta sinn við Péturseyjarmel þann 14.júlí. Skip var að koma frá Vestmannaeyjum með 27 manns innanborðs. Fjórtán þeirra fórust, en 13 varð bjargað. 

Ágúst. Hagstæð tíð víðast hvar, en spilltist nokkuð í lokin. 

Norðanfari segir í ágústblaðinu:

Allt til hins 26. [ágúst] var hér öndvegistíð og er einhver hin hagfelldasta fyrir heyskapinn, en núna seinustu daga mánaðarins norðanátt með óþerrum og stundum töluverðri rigning. 

September. Lengi framan af var heldur rysjótt tíð, einkum fyrir norðan, en undir lokin batnaði mjög. 

Tíðarfar í september í lýsingu Norðanfara:

Meira hluta mánaðar þessa, einkum síðan leið á hann hafa hér verið miklir óþerrar og stundum stórrigningar, með krapa og snjókomu á fjöllum, sérílagi nóttina og daginn hins 15., er snjóaði víðast ofan undir bæi og sumstaðar varð alhvítt ofaní sjó og ár. Flestir hafa þó náð inn mesta af heyjum sínum með bærilegri verkun, því einn og tveir þurrkdagar hafa verið á millum; samt eiga sumir töluvert úti af heyjum sínum. Fyrir vestan, í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum, er tíðarfarið sagt þurrara, en í Þingeyjarsýslu og fyrir austan líkt og hérna.  

Þjóðólfur segir af skiptöpum þann 24.september:

Eftir munnlegri fregn með vestanpóstinum Jóni Magnússyni, er kom hingað 22.þ.m., fóru 2 skip frá Rifi undan Jökli um öndverðan þennan mánuð norður yfir Breiðafjörð upp í Hvammsfjörð til þess að sækja kaupafólk og unglinga, sem farið höfðu þangað um sveitirnar í kaupavinnu; formennirnir á skipum þessum er sagt að héti Sigurðar báðir. Bæði skipin lögðu af stað úr Hvammsfirði, laugardag 10. þ.mán., en þann dag varð hvassveður mikið þar vestra þegar uppá daginn kom; komst annað skipið samt af með heilu og höldnu, en er hitt skipið var komið útundir Skoreyjar, barst því á svo stórkostlega, að af 11 manns, er voru innanborðs, druknuðu þar 9, en 2 var bjargað. ... — Annar skipskaði þykir nú einnig sannspurður hér syðra í þessari viku, það var skip sunnan úr Garði með 5(?) manns, er kom hingað inn í Skerjafjörð til mókaupa, lá marga daga veðurteppt og lagði um síðir af stað 19. þ.mán.; skipið kvað vera rekið upp þar syðra.

Október. Hlý og hagstæð tíð hálfan mánuðinn, en þá brá snögglega til verra. Kastið stóð þó ekki lengi og tíð skánaði aftur. 

Norðanfari segir af tíð í október:

[1.tölublað] Síðan á Mikalismessu [29.september] og þá fáu daga, sem liðnir eru af mánuði þessum, hefir verið lítil úrkoma en sunnanátt og æskileg tíð, svo flestir munu nú vera búnir að ná heyjum sínum, er þeir áttu úti, en líklegast það sem fyrst var hirt með misjafnri verkun. Í illviðrunum á dögunum hafði komið út á sveitum ókleyf fönn á fjöllum, og sumstaðar í byggð, svo að kúm varð að gefa inni.

[2.blað] Veðráttan er enn (14.október) hin æskilegasta, og allir nú búnir að ná heyjum sínum og margir eldivið. Austanpósturinn Níels Sigurðsson, kom hingað að austan 5. þ.m. þaðan er að frétta sömu ótíðina og hér var að kalla yfir allan september, svo mjög erfitt hafði gengið með heyskapinn.

[3.blað] Að kveldi hins 15. þ.m. spilltist veðrið og allt í einu kominn krapahríð í byggð en snjókoma á fjöllum, með landnorðan hvassviðrum og frosti allt til hins 22. þ.m. að birti upp og kom bjart og milt veður. Víða hefir hér nyrðra og norður undan mikill snjór komið, svo sumstaðar er orðið hagskart, enda af áfreða undir; þar á mót, er aðeins sagt komið lítið föl í Skagafirði.

Nóvember. Tíð var nokkuð umhleypingasöm, en almennt þó talin hagstæð. 

Norðanfari segir af tíð í nóvember:

Veðuráttan, hefir oftast verið góð það af er mánuði þessum, svo víða er öríst. Í hríðunum, sem voru á dögunum höfum vér heyrt, að fé hafi fennt í Bárðardal, Fnjóskadal Hörgárdal og víðar, og á Hóli á Upsaströnd nokkrar kindur þar á eða við túnið. 20 fjár hafði um þær mundir hrakið til dauðs í Reykjaá í Austurfljótum, en 30 fennt og hrakið til dauðs í Hrollaugsdalsá í Sléttuhlíð.

Desember. Tíð þótti hagstæð lengst af. Kólnaði um jólin. 

Norðanfari segir af tíð í desember:

Norðanpóstur Sigurður Bjarnason, kom aftur að sunnan hingað á Akureyri 30. [nóvember], en Níels póstur Sigurðsson að austan 5. þ.m. Á Suður og Vesturlandi hefir líku viðrað og hér nyrðra, nema að áfellið sem kom hér 17.—21. október, varð einkum syðra, miklu minna en hér.

Þjóðólfur segir þann 21.desember frá eldmistri:

Eldmóðu eða öskumóðu á jörð þótti víða verða vart um mánaðamótin september-október, helst á hvítu sauðfé þar sem það var á beit, er það varð krýmótt í framan og aftur á háls. Eftir því sem haft er í almæli, þá varð þessa vart um efri sveitirnar í Rangárvalla-, Árnes- og Kjósarsýslu, um syðri sveitirnar í Borgarfirði, á fjallabæjum, og einnig vestur í Staðarsveit, eftir því sem síra Sveinn Níelsson skrifaði oss, 12. okt. þ.á. Suma uggði, að eldsupptök þau er mundi valda öskumóðu þessari væri nú miklu nær oss heldren í hitteðfyrra, og lék grunur á Heklu eður Kötlu, en getur þær reyndust ástæðulausar. Austan af Síðu er oss skrifað 16. f.m. á þá leið: „það leit út fyrir í haust, að uppi væri eldurinn á fjallabaki hér, því óvenjulegur blámi var hér yfir allt meir en í viku og sást viða á sauðfé. Samt veit ég ekki, að það hafi gjört neinn skaða“. — Hvergi annarstaðar, þar sem vart hefir orðið móðu þessarar, hefir þess vart orðið að fénaði hafi orðið meint við það.

Íslendingur dregur þann 30.mars 1865 saman kafla úr tveimur bréfum úr Skaftafellssýslu þar sem veðurlag á árinu 1864 kemur við sögu:

Þegar við komum heim úr lestunum, allir drekkhlaðnir af Reykjavíkurkramvörunni í sumar af kvefinu, og fluttum það heim í sveit, lögðust allflestir og lágu nálægt viku almennt, svo að ekki varð af alvöru tekið til sláttar hér fyrr en í 14.viku sumars, enda var jörð, helst vallendi, ekki nærri sprottið, og yfir höfuð varð grasvöxtur í minna lagi; hér um sveitir kölluð menn ekki meðalgrasvöxt; aftur á móti var tíðin æskileg allt sumarið út, svo enginn hér við fjall þurfti að hirða votan bagga, enda eru öll hey mjög vel fengin hjá almenningi, og verður heyskapur að því leyti í góðu meðallagi. Haustveðráttan var einnig afbragðsgóð, þíðveðrasöm, en þó ekki stórkostlegar rigningar, og kom aldrei að kalla slæmt veður frá Mikaelsmessu [29.september] til 15. nóvember, að undanteknum 18.—21.okt.; þá daga gjörði hér kólgukast mikið með talsverðri snjókomu í Meðallandi og Skaftártungu og Veri, en blíðkaði aftur 21. október með sólskini og þíðveðrisblíðu. En frá 15. nóvember til jóla urðu og rigningar nokkuð meiri, og tíðin umhleypingasöm, en snjóalaus og oft talsverð úrferð með vindi og stundum skruggum, helst 17. nóvember. Á annan dag jóla brá til snjókomu og hefir það haldist síðan ...

Tíðarfarið frá veturnóttum til jóla var hið allraæskilegasta, sem ég til man. Frá jólum til nýárs fór að brydda á stirðari tíð. Þaðan frá til þrettánda dró til bjargleysu yfir alla Skaftafellssýslu, svo í þeim báðum er albjargarlaust, nema á stöku bæjum í Fljótshverfi, tveim bæjum í Öræfum, og á fáum bæjum í Norður-Skaftártungu eru notaðir vesalir grandar, sem þó munu vart brúkandi nema til að draga fénað upp í hor og hungur von bráðara, eftir því sem ég hefi heyrt. Austurpóstur segir, að því fyrr hafi hörkurnar byrjað, sem austur dró lengur, og var það ljós vottur, að maður varð úti á 4. í jólum í Suður-Múlasýslu, og annan
kól þar til stórskemmda í byggðinni, og þá voru engar hörkur hér komnar.

Í júlíblaði Norðanfara var fjallað í löngu máli um loftslagsmál og hafís:

Um hafísinn við Norðurland á fyrsta fjórðungi 19. aldar og fleira. 
Á hinum síðari árum hafa komið fram í ritum og ræðum Íslendinga ýmsar sundurleitar skoðanir um það, að hve miklu leyti landbúnaðinum, eða jarðyrkjunni, kynni að geta farið fram hér á landi. Hafa sumir gjört sér um þetta miklar vonir, einkum þeir, sem eru eða verið hafa erlendis, og séð hversu mikið jörðin getur gefið af sér, þar sem hún er kostgæflega ræktuð, og loftslagið jafnframt er nógu milt. Aftur hafa aðrir verið mjög vonardaufir í þessu tilliti, og eru í þeim flokki flestir alþýðumenn, sem kunnugastir eru örðugleikunum á því að rækta hér jörðina til hlítar. Það hefir gengið í þessu máli, eins og svo mörgum öðrum meðal vor, að hvor þessara flokka hefir verið fljótur til að bregða hinum um heimsku og þekkingarskort, svo tíðum hefir slegið í orðahnippingar með mönnum úfaf þessu efni, í stað þess að menn legðist alvarlega á eitt, til að rannsaka hvað réttast væri, eins og þetta mikla þjóðarmálefni vort á þó sannarlega skilið; enda hafa báðir flokkarnir sýnt í mörgu, að þeir hafa byggt skoðanir sínar, að meira eða minna leyti á getgátum, í staðinn fyrir rannsókn og reynslu. Nú þegar menn eru fyrir alvöru farnir að hugsa til að koma upp bændaskólum og fyrirmyndarbúum, og yfirvöld vor að hvetja til að stofna almenn búnaðarlög, er orsök til að gefa þessu máli meiri gaum, en gjört hefir verið að undanförnu.

Eins og öllum er kunnugt, er jarðarræktin bundin við það, hvernig jarðvegurinn er og loftslagið; en á þessu tvennu er sá munur, að menn geta bætt jarðveginn með ýmsum ráðum, þar sem menn aftur á móti ekki geta haft nein áhrif á loftslagið, heldur verða að taka það eins og það gefst. Hér er nú ekki svo mikill ágreiningur milli manna um jarðveginn, því allir kannast við að hann sé víða góður, og geti tekið á móti ræktun, ef loftslagið leyfði, en það er einmitt um það, sem menn greinir mest á. Það hefir oft verið fært til að korn vaxi í Noregi jafn norðarlega og norðar en Ísland, sem sönnun fyrir þyí, að það geti sprottið hér; en þetta lýsir því, að menn vita ekki að loftslagið er oft mjög misjafnt á sömu breidd, eða jafn norðarlega eður sunnarlega á hnettinum. Hefði loftshitinn ætíð verið hér um bil jafn á sömu breidd, þá hefði hann t.a.m. verið jafn í Björgvin í Noregi og Julianehaab á Grænlandi, og þá hefði aftur átt að vera hérum bil jafn auðvelt að rækta jörðina á báðum þessum stöðum. En nú er það kunnugt, að hitinn er að meðaltali allt árið í Björgvin rúmlega 6 1/2 stig á hitamæli Reaumurs, en ekki einu sinni 1/2 stig í Julianehaab. Að sínu leyti hefði eins eftir þeirri reglu Nýfundnaland átt að vera veðursælla en England, með því það liggur sunnar og nær miðjarðarlínu, og þó er fjarstætt að svo sé, því England er svo veðursælt að þar má hafa allskonar jarðarrækt, en á Nýfundnalandi banna harðindi og kuldi hana að miklu leyti. Menn hafa í flestum löndum um mörg samfleytt ár, athugað nákvæmlega hita og kulda, og annað sem lýtur að loftslagi og veðuráttufari; en hér á landi hefir þessu lítið verið sinnt, svo menn eru harla ófróðir í því efni. Bókmenntafélagið hefir þó fengið veðurbækur frá fáeinum mönnum á landinu en þær hafa hvorki verið haldnar nógu stöðugt, né á nógu mörgum eða hentugum stöðum, svo eigi verður fullkomlega af þeim séð veðuráttufar landsins og hinna einstöku héraða þess. Flestar af þeim voru líka haldnar á því árabili, þegar árferðið hér á landi var eitthvert hið besta; en á síðustu árum, síðan árferðið versnaði hefir minna verið sinnt um veðurbækurnar. Ættu menn að geta fengið ljósa þekkingu á þessu máli, þyrfti að halda veðurbækurnar í sem flestum stöðum á landinu, bæði á útkjálkum þess og uppsveitum: hefði verið best, að annaðhvort einhver einstakur vísindamaður, eða bókmenntafélagið hefði gefið út hið fyrsta form til slíkra veðurbóka, og reglur um það hvernig þær skyldi semja, svo þær gæti orðið eins lagaðar hjá öllum, því form það sem félagið gaf út fyrir mörgum árum er nú orðið mönnum ókunnugt. Ef vel væri þyrfti því einhver að geta fengist í hverju prestakalli eða hrepp á landinu, til að athuga loftslagið og skrifa upp veðurbók, og þessu yrði að halda fram um mörg ár, en síðan þyrftu allar bækurnar að safnast saman, svo greinilegt yfirlit yrði samið og menn gætu komist að raun um hvar og hvernig hitalínurnar liggja yfir landið. En það eru kallaðar hitalínur (isothermer) þegar línur eru ákvarðaðar og lagðar yfir löndin, milli allra þeirra staða, sem hafa jafnan meðalhita. Eru línur þessar almennt ýmislega bognar og hlykkjóttar, eftir því sem ýmsar orsakir gjöra hitann meiri eða minni á sömu breidd. Þannig er t.a.m. um hitalínuna, þar sem meðalárshitinn er 4 stig eftir Reaumur, að hún liggur norður og austur eftir hafinu milli Íslands og Færeyja og kemur á land í Noregi nálægt 63. mælistigi norður breiddar, gengur svo skáhallt suður og austur yfir þvert landið, og kemst í Svíaríki suður fyrir 60. mælistig. Það gengur hún síðan yfir Eystrasalt til Eistlands, og svo suður og austur eftir Rússlandi uns hún austur við Úralfjöllin er komin töluvert suður fyrir 50. mælistig. Fylgi maður henni aftur á móti vestur eftir, þá verður það ljóst, að hún liggur yfir norðurskaga Nýfundnalands, skammt norðan við 50 mælistig, og svo hér um bil beint í vestur sunnanvert yfir Labrador, og norðan við Kanada. Í miðju meginlandi Norður-Ameríku liggur hún á löngum vegi nálægt 49. mælistigi, en þegar kemur vestur í fjallgarðana, sem liggja eftir endilöngum Vesturheimi vestanvert, beygist hitalínan hastarlega norður á við, svo að vestur við hafið kyrra er hún komin norður á 60. mælistig norður breiddar. Af þessu má sjá að Noregur hefir mestan hita af öllum jafn norðlægum löndum, og að Svíaríki og vesturströnd Ameríku ganga honum næst; en þessa yfirburði á Noregur án efa mest að þakka hinum heita hafstraumi, sem liggur þar að landi sunnan og vestan frá Mexíkóflóa, og sem kenndur er við upptök sín og kallaður flóastraumur (gólfstraumur). Þessi sami hafstraumur bætir einnig vissulega töluvert loftslagið á Íslandi, því auk þess sem hann gjörir hafið hlýrra austan við landið, þá liggur einnig kvísl úr honum vestur fyrir það, eftir því sem þeim segist frá *[Þeir segja: The gulf stream which sets round Cape Reykjanes, and appears to keep up a continuous flow around Faxe Bay in the northward, passing out by Snæfellsnes, also appears to considerably affect the climatic condition of the west coast.], er gjörðir voru út til að rannsaka, hvort það væri vinnandi vegur, að leggja rafsegulþráð yfir Ísland, milli Norðurálfunnar og Vesturheims. Aftur er önnur orsök, sem að sínu leyti spillir eins og kælir loftið hjá oss, en það er hafísinn, þessi mikli vágestur Íslands, sem svo oft heimsækir það, einkum norðurstrendur þess, og spillir öllum atvinnuvegum landsmanna svo stórkostlega, bæði á landi og sjó.

Fyrir eigi alllöngu lagði Jón Hjaltalín landlæknir í Reykjavík fáeinar spurningar fyrir landsmenn, um það, hvernig ísinn hagar venjulega ferðum sínum hér við land, og hafa svör þriggja manna upp á spurningar þessar verið prentaðar í blaðinu „Íslendingi”. Það hefði verið æskilegt, að sem flestir hefði orðið til að skýra þessum vísindamanni frá því, er þeir hafa haft tækifæri til að athuga í þessu tilliti, og að hann hefði síðan sameinað í ritgjörð bæði það og annað, er hann hefir safnað um loftslag og veðuráttufar Íslands. Ein af spurningum herra Hjaltalíns var um það hvað oft hafísinn hefði rekið að landinu á þessari öld, og veit ég ekki til að neinn hafi svarað þessu til hlítar. Þess vegna hefi ég reynt að safna saman um það efni ýmsum skýrslum, sem finnast, í prentuðum ritum og í dagbókum séra Ólafs Þorleifssonar er lengi var prestur að Kvíabekk í Ólafsfirði og síðan að Höfða í Höfðahverfi; hefir hann í þessu skyni góðfúslega léð mér dagbækur sínar, er byrja með árinu 1813, og ná allt fram á þenna dag. Skal ég nú með fáum orðum skýra frá því, er ég finn getið um hafísinn við Norðurland á fyrsta fjórðungi þessarar aldar, og gæti ég síðar við tækifæri getið áranna, sem síðan eru liðin ef svo vildi verkast.

1801 er þess ekki getið að hafís hafi rekið að Norðurlandi, en mikil harðindi gengu þó yfir og varð fjárfellir mikill.

1802 kom ísinn eftir miðjan vetur, og lá við lengi sumars, svo kaupför komust ekki á hafnir fyrri en undir haust.

1803 er ekki getið um hafís.

1804 kom ísinn seint um veturinn og hélst við fram eftir slætti; var grasvöxtur lítill um sumarið og nýting á heyjum hin versta.

1805 kom engin ís.

1806 rak hafís að Norðurlandi en hafði skamma viðdvöl.

1807 var mikið ísaár og hafþök fyrir norðan, austan og vestan, svo segir séra Þórarinn í Múla í Tíðavísum sínum það ár: Ísaþök um uppsabeð / olla stærstu föllum, / auða vök gat engin séð / af þeim hæstu fjöllum. Kom þá mikill og stórkostlegur borgarís, svo segir Þórarinn prestur: Risu víðis himinhátt / hálir jakaturnar. / Þessi miklu hafþök fór eigi að leysa frá landinu fyrri en 16 vikur voru af sumri, var þá grasvöxtur í minnsta lagi, en heyin ónýttust og urðu sum úti um haustið.

1808 kom íshroði fyrst á þorra, en rak frá aftur; kom svo annað sinn á einmánuði og var á hrakningi úti fyrir landinu fram eftir vorinu.

1809 kom hér ís, en hafði skamma dvöl.

1810 mun engin ís hafa komið.

1811 Kom hafís á þorra, en rak frá á einmánuði.

1812 kom ísinn á útmánuðum og rak ekki frá fyrri en eftir fardaga.

1813 kom engin hafís.

1814 ekki heldur.

1815 kom íshroði í miðjum marsmánuði og fór eftir mánuð.

1816 kom hafís í öndverðum marsmánuði og gjörðust hafþök af honum. Um Jónsmessu var hann að mestu farinn, en þó var þá enn ísfleki á Eyjafirði milli Laufásgrunns
og Hjalteyrar, sem hindraði kaupskipin frá að komast inn á Akureyrarhöfn.

1817 var mikið ísaár; þá rak hafísinn að Norðurlandi í miðjum janúarmánuði, og héldust hafþök fram eftir öllu vori, svo kaupskip komust ekki til Akureyrar fyrri en undir miðjan júlímánuð, og var þá enn töluverður ís á hrakningi. Líka voru þá hafþök fyrir austan og vestan, svo yfir Ísafjarðardjúp var farið með hesta fram eftir vori; en að austan rak íshroða út fyrir Eyjafjöll og Vestmannaeyjar.

1818 var íslaust um veturinn, þó hafði sést til hafíshroða úr Grímsey ; en um sumarið 23. ágústmánaðar rak mikinn ís inn á Húnaflóa og Skagafjörð, sem bægði kaupskipum frá höfnum á Skagaströnd og Hofsós uns hann rak frá 9. dag septembermánaðar (Klp. 1, bls. 155),

1819 kom hafís fyrir norðan, vestan og austan; lítur svo út sem hann hafi legið lengst við Vestfjörðu; en að Norðurlandi kom hann undir miðjan aprílmánuð og hafði eigi langa viðdvöl; var sleginn á honum útselur, frá Siglunesi í Eyjafjarðarsýslu töluvert, og Þingeyjarsýslu 6—700. Við austfjörðu lá ísinn heldur ekki lengi, en þar voru rotaðar á honum fullar tvær þúsundir af sel.

1820 kom engin hafís, en Klausturpósturinn fyrir það ár getur þess á bls 101—102, að sannað sé af ótal siglingamönnum, að ísinn hafi minnkað stórkostlega 3 næstu árin á undan í norðurhöfum en aftur hafi ómælanlegar ísbreiður sést suður í Atlandshafi, allt suður á 40. mælistig n.br.

1821 rak hafís að Norðurlandi og Vestfjörðum í marsmánuði, og var þá í nokkrum stöðum sleginn selur á honum einkum í Grímsey; lá hann við Norðurland fram í ágústmánuð og hvarf aldrei um sumarið frá Hornströndum. 17. dag aprílmánaðar um vorið festist hvalaveiðaskip frá Glückstad í ísnum á 68 mælist. n.br. og 2 mælist. v.l. (frá Ferro?), og brotnaði á það gat, sem Klausturpósturinn segir að skipverjar hafi reynt að byrgja með fullum grautarpokum en það á líklega að vera grjónapokum, (Grütze heitir á þjóðversku ekki einungis grautur heldur líka grjón), og með því þetta vildi eigi duga, fóru skipverjar 45 að tölu, á 6 bátum frá skipinu 14. dag s.m. og náðu landi kveld hins 20. að Þönglaskála á Skaga. Um mitt sumar fannst skip þetta úti fyrir Seyðisfirði á Austfjörðum, og var róið þar inn á fjörðinn. Þetta sama ár lágu yfir 30 hollensk fiskiskip föst í ísnum mestan hluta sumarsins, en losnuðu þó heil um síðir.

1822 rak hafís inn á Húnaflóa skömmu eftir nýár, í öndverðum febrúarmánuði var hann kominn fyrir öllu Norðurlandi, og lá við fram í aprílmánuð, en fór þá að rekast burtu. Þó var íshroði á flækingi fram undir miðjan maímánuð. 28. marsmánaðar um vorið brotnaði enskt skip í ísnum langt fyrir austan land, voru á því 11 manns, og náðu 6 af þeim landi 30. apríl á Glettinganesi, sunnanvert við Borgarfjörð á Austfjörðum, eftir ósegjanlega hrakninga, en 5 létust á þessum tíma þá braut og ísinn annað enskt skip 28. dag aprílmánaðar, 20 mílur út af Vopnafirði, og náðu skipverjar þar landi 2 maí.

1823 getur Klausturpósturinn þess að ís hafi komið á Vestfjörðum í júnímánuði, en Norðanlands er hans ekki getið.

1824 kom enginn hafís.

1825 varð aðeins vart við lítinn íshroða Norðanlands í aprílmánuði.

Af þessu má sjá, að á fyrsta fjórðungi þessarar aldar hefir til jafnaðar hér um bil þriðja hvert ár verið íslaust, og að af ísaárunum hafa aftur verið viðlíka mörg „mikil í sama ár” eins og hin, þegar ísinn hefir eigi verið mjög mikill eða legið lengi við. Áður enn ég skilst við þetta mál, vil ég skora á alla, sem einhverjar skýrslur geta gefið um loftslagið hér á landi, og annað, sem hefir áhrif á það, t.a.m. hafstrauma og hafísa, að þeir skýri frá þessu í blöðunum svo almenningi geti orðið það kunnugt, því þetta er engu miður merkilegt þjóðarmálefni, en margt annað, sem blöðin gjöra að umtalsefni. Í töflu þeirri sem prentuð er aftan við almanakið um „loftslag á nokkrum stöðum” er getið um meðalhitann á tveim stöðum á Íslandi Reykjavík og Akureyri, en eigi veit ég á hvað margra ára athugunum það er byggt, og að því er Akureyri viðvíkur sýnist það ekki geta verið nákvæmt. Það er annars fleira í töflu þessari sem ekki er áreiðanlegt, þar stendur t.a.m. að meðalhitinn allt árið í Abo á Finnlandi sé nærri 4 stiga frost, en í raun og veru er þar að meðaltali 3-4 stiga hiti, eins og auðvitað er, þar sem Abo liggur ekki fjærri beinni leið frá Stokkhólmi til Pétursborgar; en að þetta sé þó eigi prentvilla, sem af hirðuleysi hafi verið látin standa óleiðrétt ár eftir ár, má sjá af því, að Abo er settur næst Upernavík á Grænlandi, en stöðunum er raðað niður eftir því hvað meðalhitinn er þar mikill allt árið. Þetta er annars ekki hin fyrsta villa, sem staðið hefir í almanakinu, og menn hafa þess dæmi að ólærður íslenskur bóndamaður hefir verið færari um að reikna rétt út tunglsgönguna, heldur en prófessorsnefna sú, sem háskólinn hefir haft til þess. [Síðan koma fleiri umkvörtunarefni um almanakið og útgáfu þess - við sleppum því hér en nefnum þó að Kaupmannahafnarháskóli sá um útgáfuna þessi ár].

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1864. Að vanda eru fáeinar tölur í viðhenginu - hitameðaltöl og fleira.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skemmtideild evrópureiknimiðstöðarinnar með nýtt atriði

Vikulangar spár (og þaðan af lengri) eru oftast vitlausar og það fer í taugarnar á mörgum að þær skuli yfirleitt vera til umræðu á netinu. Jú, óheppilegt er að flíka slíku - en stundum má samt nota þær til að skemmta sér. Hér á hungurdiskum tölum við um sýningar skemmtideildarinnar í þessu samhengi. Allar reiknimiðstöðvar eiga sínar skemmtideildir. 

Atriði dagsins er tengt kuldapolli í norðurhöfum - kannski sameiginlegum dansi þeirra félaga Stóra-Bola og Síberíu-Blesa. 

w-blogg070320b

Hér er klippa úr norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á miðnætti næstkomandi föstudagskvöld, 13.mars - eftir 7 daga. Ísland er neðst á myndinni, en norðurskaut rétt ofan við myndarmiðju. Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins. Lægðin sem örin bendir á er fádæmaöflug - (en ekki til enn nema í iðrum tölvunnar). Miðjuhæðin er 4550 metrar - alveg við met (alla vega síðustu 40 árin rúm). 

Rétt að taka fram að bandaríska veðurstofan er öllu hógværari - er þó með sömu lægð en lægst fer 500 hPa-flöturinn í 4610 metra. Það er sérlega lágt líka - en ekki alveg jafn krassandi. 

Við sjáum vel á myndinni að meginkuldinn (fjólubláu litirnir) hringa sig ekki utan um háloftalægðina - heldur liggja til hliðar við hana. Það þýðir að þetta er ekki stöðugt ástand - þarna er líka óvenjuöflug lægð við sjávarmál - sjálfsagt nærri lágþrýstimeti marsmánaðar yfir Norðuríshafi. 

Þó kalt veður verði ríkjandi næstu daga hér á landi (sé að marka spár) er samt vonandi að þessi ruðningur í norðurhöfum (hver sem hann verður) láti okkur alveg í friði - við megum varla við slíkum ofsóknum til viðbótar á erfiðum vetri. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2020
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 80
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband