Vindhraði og umferðarþungi

Hvernig hefur vindhraði áhrif á umferðarþunga á vegum landsins? Þetta er alveg lögleg spurning en nákvæm eða rétt svör e.t.v. torfundin. Hér veltum við vöngum - en subbulega þó. Kannski væri ástæða til að rannsaka málið ítarlegar og þá á strangfræðilegri máta? 

Við lítum á tvö línurit. Það fyrra sýnir umferð og vindhraða á Kjalarnesi. Stöð vegagerðarinnar nærri Móum skráir bæði vindhraða og umferðarþunga á 10-mínútna fresti. Sennilega er ýmiskonar ósamræmi í gögnunum. Væri komist fyrir það yrðu tölur væntanlega eitthvað aðrar en hér er sýnt. Við skulum því ekki fara að vitna í þetta út og suður sem einhvern heilagan sannleika. Ritstjóri hungurdiska gengur eins og venjulega um á skítugum skónum.

w-blogg180918a

Vindhraði er hér á lárétta ás línuritsins, hvert vindhraðabil 1 m/s að umfangi, en umferðarþungi er á þeim lóðrétta. Þunginn er mældur í fjölda ökutækja sem framhjá fer á hverjum tíu mínútum. Tveir ferlar eru á myndinni. Sá blái sýnir umferðarþungann á vindhraðabilum 10-mínútna meðalvindhraða, en sá rauði miðar við mestu vindhviðu undangenginna 10-mínútna.

Við tökum strax eftir því að umferðarþunginn minnkar eftir því sem vindhraðinn er meiri. Meðalþunginn er um 48 ökutæki á 10-mínútum, en er kominn niður í um 30 ökutæki við 20 m/s og niður fyrir 10 við fárviðri (>32,7 m/s). 

Næsta sem við tökum eftir er að umferð er minni í logni og mjög hægum vindi heldur en við heldur meiri vind. Ástæðan er ekki sú að ökumenn séu að forðast lognið heldur kemur dægursveifla vindhraða hér væntanlega fram. Stafalogn (eða því sem næst) er talsvert algengara að næturlagi heldur en að deginum, einmitt þegar umferð er hvað minnst. Ef vel ætti að vera þyrftum við að leiðrétta einhvern veginn fyrir þessu. Aftur á móti er ekki vitað til þess að hvassviðri fylgi sólargangi að marki - sá hluti línuritsins er því líklega ómengaður af þessu atriði. En trúlega mengar árstíðasveifla hvassviðra og umferðar niðurstöðurnar eitthvað hvassviðramegin, og mætti athuga betur. 

Við gætum nú gert ámóta línurit fyrir allar þær veðurstöðvar sem mæla bæði vind og umferðarþunga og farið út í alls konar vangaveltur. Við gætum haft á því áhuga að bera stöðvar saman. Síðari mynd pistilsins sýnir tilraun í þá átt. Vegna þess að umferð við stöðvarnar er mjög misjöfn þurfum við að norma gögnin á einhvern hátt. Sú aðferð sem hér er notuð er umdeilanleg og trúlega ekki sú besta - en er aftur á móti sáraeinföld. Við athugum legu ferla stöðvanna væri umferðarþungi þar jafnmikill í heildina og á Kjalarnesi. Það er líka sérlega skemmtilegt að fá að nota orðskrípi eins og „kjalarnesnormaður“ á prenti (kannski í fyrsta og síðasta sinn sem það orð er notað). 

w-blogg180918b

Við skerum af við 25 m/s og lítum aðeins á meðalvindhraða - ekki hviður. Meiri vindhraði er sárasjaldgæfur (víðast hvar) og við höfum ekki sérstakan áhuga á því þó einn eða tveir bílar hafi farið um t.d. Steingrímsfjarðarheiði við meiri vindhraða en það - (og trufli mjög útlit myndarinnar). 

En hér eru sex stöðvar, Kjalarnes, Hafnarfjall (það er að segja Hafnarmelar), Steingrímsfjarðarheiði, Öxnadalsheiði, Holtavörðuheiði og Reykjanesbraut. Á öllum þessum stöðum minnkar umferð með vaxandi vindhraða. Ekki munar miklu á útliti ferlanna og varla rétt að draga miklar ályktanir af þeim mun sem þó er. 

Ef til vill er þó vit í þeim mun sem er á hægri enda ferlanna. Í miklum vindhraða er umferð að tiltölu mun minni á Steingrímsfjarðarheiði heldur en á Kjalarnesi, hún er líka trúlega marktækt minni á Öxnadalsheiði heldur en á flestum hinna. Síðan kemur Hafnarfjall. 

En vindhraði (og væntanlega skafrenningur og annar ósómi sem honum fylgir) hefur greinileg áhrif á umferðarþunga. Bjuggumst við við öðru? 


Af árinu 1905

Árið 1905 var til þess að gera hagstætt lengst af. Óhagstæð tíð fyrstu 2 mánuðina og síðsumars fyrir norðan, en annars góð. Hiti í meðallagi. Úrkoma í meðallagi.

Fáein slæm illviðri gerði en illviðrakaflar virðast ekki hafa staðið lengi við. Meðalhiti í Reykjavík reiknast 4,5 stig, sama og 1894 og hlýrra ár kom ekki aftur fyrr en 1915. Aftur á móti var óttalegt rót á hitamælingum í Reykjavík þetta ár og hefur meðalhiti einstakra sólarhringa ekki verið áætlaður fyrir allt árið. Að tiltölu var hvergi hlýrra á landinu þetta ár en í Reykjavík. Á landinu í heild var lítillega hlýrra bæði 1901 og 1908. 

Á landsvísu teljast þrír mánuðir ársins hlýir, mars, júní og desember, en fjórir kaldir, febrúar, apríl, ágúst og október. 

Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal þann 30.júní, 22,0 stig og næsthæstur á Teigarhorni þann 10.júní, 21,0 stig. Merkilega hitabylgju gerði í Reykjavík þann 19.maí og komst hiti þá í 20,7 stig. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur í maí í Reykjavík, en þann 14. árið 1960 fór hiti í 20,6 stig. Það er samt ákveðin tregða í að viðurkenna metið - vegna þeirrar óreiðu sem var á hitamælingum þetta ár. En rétt samt að taka fram að veðurstaðan er trúverðug - mjög hlý austanátt í háloftum sem Reykjavík getur vel hafa notið öðrum stöðvum fremur - rétt eins og í maí 1960. 

Mest frost á árinu mældist í Möðrudal þann 11.febrúar, -30,0 stig. Þann 10. fór frostið í -21,8 stig á Akureyri, og í -21,4 daginn eftir. Þessar tölur standa enn sem dægurlágmörk á Akureyri. 

ar_1905t

Hæsti og lægsti hiti hvers dags í Reykjavík 1905. Smávegis vantar af athugunum auk þess sem hámarks- og lágmarksmælingar féllu nær alveg niður síðari hluta ársins (þeir sem glöggir eru geta ráðið það af útliti myndarinnar). Hitafar var órólegt í janúar og febrúar, slæmt kuldakast gerði snemma í apríl (telst þó ekki páskahret því páskar voru sérlega seint þetta ár). 

Úrkoma var yfir meðallagi í Reykjavík, en þurrviðrasamt var í apríl, og ágúst var líka frekar þurr. Sama á við um Stykkishólm. Þann 30.nóvember mældist sólarhringsúrkoma í Reykjavík 45,8 mm sem telst óvenjulegt. 

ar_1905p

Hæsti loftþrýstingur ársins mældist á Akureyri þann 11.febrúar, 1039,9 hPa, en lægstur á Teigarhorni þann 7.desember, 942,8 hPa. Myndin sýnir morgunþrýsting í Reykjavík árið 1905. Sjá má að fyrstu mánuðir ársins eru afar órólegir, en í október og fyrri hluta nóvember var þrýstingur lengst af hár og veður róleg. Þrýstingur var einnig með hærra móti í apríl - en lágur um stund framan af september. 

Hér að neðan er farið yfir helstu tíðindi ársins með aðstoð fréttablaða og veðurathugana. Annars voru blöðin heldur þegjandaleg þetta ár hvað almenna tíð varðar - sennilega vegna þess að hún var viðunandi lengst af. Stafsetningu hefur víðast hvar verið vikið til nútímahorfs. Athugið að staðarheiti kunna að vera rangfærð. Ekki eru öll óhöpp talin - sjóslys voru mörg að vanda og ekki alltaf ljóst hvort þau tengdust veðri. 

Einar Helgason lýsir veðri ársins og tíðarfari í Búnaðarriti:

Vetur frá nýári góður, frostvægur og snjólitill hér sunnanlands. Í uppsveitum Borgarfjarðar var óstöðugt og hagskarpt í janúar og febrúar, betra í mars, þá norðankælur, hreinviðri og væg frost. Á fjallajörðum var fé gefið í minnsta lagi. Á Snæfellsnesi snjóasamt en frostlítið lengstum. Góð fjörubeit. Í Dalasýslu mjög góður vetur. Á Vestfjörðum í harðara lagi; snjóþungt fyrstu tvo mánuði ársins. Á Ströndum óstillt, en frost heldur lítil. Í miðjum febrúar gerði þíður með ákafri rigningu, tók þá mestan snjó upp í byggð og eftir það gerði aldrei mikinn snjó. Á Norðurlandi jarðir nægar, hret skömm og væg. Gekk mestur hluti hrossa í Skagafirði af allan veturinn, án þess að koma á gjöf og voru í góðu standi um vorið. Í norðurhéruðum Eyjafjarðarsýslu og í Fljótum byrjaði veturinn með afarmikilli ótíð. Ofsastormur með geysi fannkomu aðfaranótt 8. janúar, urðu þá skemmdir á bátum og húsum. Þá og daginn eftir gekk þetta sama veður yfir alt Austurland, er þess getið úr Vopnafirði og Breiðdal að nærri hafi legið skemmdum. Á Austfjörðum var veturinn umhleypingasamur þangað til í mars. Þegar kom fram í apríl versnaði tíðin aftur og hélst það fram um þann 20. Þar fyrir sunnan var ágæt vetrartíð eftir að komið var fram um miðjan janúar. Í Mýrdal var unnið að jarðabótum á góunni. Í Vestmannaeyjum var mjög stormasamt í janúarmánuði og úrkoma feiknamikil, en annars var veturinn góður.

Vorið þurrviðrasamt að heita mátti um land allt og fremur kalt. Greri jörð viðast í seinna lagi. Látið er best af veðuráttunni í Mýrdalnum. Vorið ágætt þar. Almennt farið að beita kúm 4 vikur af sumri. Sumarið votviðrasamt í júlímánuði hér við Faxaflóa, en úr því nægir þurrkar, en óvenjulega hlýindalítið alltaf. Um mánaðamótin júlí og ágúst snjóaði i Esjunni og tók ekki upp fyrr en eftir meir en viku þótt heiðskírt veður væri. Heyskapur í góðu meðallagi í þessum sveitum. Mikil og vel verkuð hey á Snæfellsnesi. Í Dalasýslu og á Vestfjörðum var sumarið kalt en þurrviðrasamt; grasspretta í löku meðallagi. Í Barðastrandarsýslu einkar hagstæð tíð, en kaldara eftir því sem norðar dró. Í Strandasýslu var byrjað á slætti 10. júlí, kom þá óþurrkakafli, sem hélst þann mánuð út. Töður náðust þar því ekki fyrr en fyrst í ágúst. Norðanátt hélst þar mestan hluta sumarsins. Um allt Norðurland og Austurland, suður að Breiðdalsheiði, var sumarið kalt og hryðjusamt. Sláttur byrjaði í síðara lagi. Töður hröktust víða og skemmdust. Útheysskapur var þó fullkomlega í meðallagi í Húnavatnssýslu, tæplega það í Skagafjarðarsýslu og eins á Austfjörðum. Stórrigningu gerði á Austfjörðum 6. ágúst og olli hún víða heysköðum og miklum aurskriðum. Skemmdust þá tún og engjar, vegir og önnur mannvirki. Á öllu Suðurlandi, austur að Breiðdalsheiði var heyskapartíðin ágæt, óvenjulega þurrviðrasöm; heyföng í góðu meðallagi og með allra besta móti.

Haustið og veturinn til nýárs var gott hér sunnanlands. Votviðrakafli fyrir og um veturnætur. Vinnuþítt hér fram til síðustu daga af október; gerði þá frostkafla til miðs nóvember; þiðnaði þá jörð aftur svo að vinna mátti allar jarðabætur til 25. s.m. Í desemberbyrjun gerði mikla snjóa, eftir því sem hér er venja til og eftir það skiptist á frost með snjókomu og þíða með rigningu. Eftir jólin gerði bestu tíð. Á Snæfellsnesi og í Dalasýslu var storma- og rigningasamt fram að veturnóttum, skipti þá um til bestu tíðar fram að jólaföstu, en þá komu útsynningar miklir og héldust til jóla. Milli jóla og nýárs hlánaði svo að snjólaust varð. Sama veðurlag mátti heita að væri á Vestfjörðum. 8.-9. október óminnileg rigning á Barðaströnd, féllu þá víða skriður, ekki þó til mikilla skemmda. Á Norðurlandi gott veðuráttufar þennan árshluta, óvenjulega snjólétt. Í Hrútafirði var ekki búið að gefa rosknu fé um nýár meir en sem svaraði i 3 daga og sumstaðar í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum ekki búið að kenna lömbum át um nýjár.

Ofsahvassviðri gerði í Fljótum 11.-12. desember, fauk þá Holtskirkja og brotnaði í spón; nýleg kirkja, falleg og vel vönduð. Á Austfjörðum, suður að Breiðdalsheiði, mátti heita góð tíð þangað til seint í nóvember. Fór þá að hlaða niður snjó og héldust þá rosaveður fram um jól. Í Skaftafellssýslum og suðurhluta Suður-Múlasýslu ágætistíð um haustið og fram um áramót. Á öllu því svæði, austan Mýrdalssands, gekk sauðfé allt og hross úti fram yfir nýár. Í Mýrdalnum tóku flestir lömb á gjöf um 20. nóvember. Kúm var þar beitt með lengsta. móti, til veturnótta. Í Breiðdal er svo talið að aldrei hafi jafn hagstæð tíð komið síðan 1860.

Hafís kom ekki svo teljandi væri að landinu. Aðeins dálítill jakastrjálingur að Ströndum í byrjun júlímánaðar, en þiðnaði strax upp og hafði engin áhrif á veðráttuna.

Janúar. Óhagstæð tíð og illviðrasöm. Talsverður snjór vestanlands. Mikið hríðaráhlaup nyrðra snemma í mánuðinum. Fremur kalt. Nokkurra jarðskjálfta varð vart í Reykjavík þann 28. að sögn Ingólfs (29.).

Árið byrjaði vel, gott veður var fyrstu dagana. Ísafold segir frá þann 3.:

Veðrátta einkar blíð frá því fyrir jól; þau alrauð og sjaldan föl sést á jörðu síðan.

En upp frá þessu hljóp í illviðratíð, tvö veðranna voru verst. Drögum saman fréttir af þeim. Lægð kom að landinu þann 7., dýpkaði mjög og fór austur um. Henni fylgdi mikið norðanveður sem skall á á Vestfjörðum þann 7., en daginn eftir á Austurlandi. Síðara stóra veðrið var af suðri og virðist hafa orðið mest austanlands þann 14. 

Lítum fyrst á frásögn Vestra sem hann birti þann 14. undir fyrirsögninni „Mannskaðaveðrið 7.janúar“, við styttum frásögnina nokkuð:

Laugardagsmorguninn 7. janúar, eða öllu fremur nóttina, voru formenn hér við Djúp snemma á fótum eins og vant er; veður var all-gott en sumum þótti útlit ekki fallegt. Flestir fóru þó að beita og reru síðan. Héðan úr bænum [Ísafirði] reru 4 bátar, 3 mótorbátar og einn bátur til. Úr Hnífsdal 2 bátar, mótorinn „Ingólfur“ og annar bátur til, og úr Bolungarvík reru flestir en einhverjir sneru aftur eða reru stutt. Sjóveðrið var í fyrstu bærilegt, talsverður sjór en hægur, en þegar fór að líða fram á daginn, fór veður að versna og hvessa á norðan og óx þannig til kvölds með roki og brimi. Flestir höfðu róið út á haf, því fisk er ekki annarstaðar að fá. Bolvíkingar sem eiga styst að sækja, fóru flestir fyrst í land, en Ísfirðingar og Hnífsdælingar urðu síðbúnari. Er ekki að orðlengja það, að 3 at bátunum á Ísafirði komust heim um kvöldið, tveir þeirra mjög seint og við illan leik, en einn vantaði. Mótorinn í Hnífsdal komst heim með góðri lukku og hinn báturinn þaðan lenti í Ósvör. Í Bolungarvík komust öll skip í land nema eitt vantaði, sum fengu auðvitað áföll í lendingunni en enginn mannskaði varð en nokkuð tjón á skipum. Í Bolungarvík var bjargað um kvöldið bát frá Látrum í Aðalvík með allri skipshöfn. Bátinn fyllti fyrir framan lendinguna, en bar að landi ásamt skipverjum og náðust þeir þegar allir óskemmdir nema einn. Hann hafði náð í ár og mastur og var að velkjast á því í brimgarðinum fram undir hálftíma, þar til hann náðist með lífi en hafði þó meiðst talsvert. Bolvíkingar héldu vörð um kvöldið og nóttina en urðu einskis frekar vísari, enda gekk sjór svo langt á land að hvergi var fært nálægt flæðarmáli og þar ofan á moldviðri og myrkur. Morguninn eftir fundust þrjú skipsflök þar inn á sandinum og þurfti ekki getum að því að leiða að mennirnir af þeim voru farnir.

Fyrsta skipíð var mótorinn sem vantaði af Ísafirði. Á honum voru 6 menn. Formaðurinn hét Þórarinn Guðbjartarson, giftur maður en barnlaus 31 árs að aldri. ... Skip þetta vita menn það eitt um að það lagði mjög seint af stað í land; hefir það óefað farist á Víkinni, en hvort það hefir ætlað að ná þar lendingu eða ætlað inn á Ísatjörð og orðið þarna of nærri landi, vita menn ekki.

Annað skipið var það sem vantaði úr Bolungarvík, og hafði það verið þar til útróðra og var úr Hnífsdal. Á því voru líka 6 menn. Formaðurinn var Magnús Eggertsson úr Hnífsdal, giftur maður 41 árs, lætur eftir konu og 4 börn. ... Skip þetta kom upp undir Ósvör um kvöldið og var að seila þar fyrir framan þegar annað skip fór fram hjá og lenti. Veðrið var alltaf að versna og eins sjórinn, og hefir líklega brotið yfir það meðan þeir voru að seila.

Þriðja skipið var lítill bátur úr Bolungarvík, sem kom innan af Ísafirði. Á því voru 3 menn. ... Bátur þessi mætti Árna Gíslasyni formanni, undir Óshlíðinni. Veifaði Árni þeim og benti þeim að snúa aftur, því ófært væri að lenda í Víkinni á svo smáum bát, hafði fyrst verið svo að sjá sem þeir ætluðu að taka bendinguna til greina, því þeir stönsuðu og sneru jafnvel bátnum við, en svo hættu þeir við það og héldu áfram út eftir og sást ekki til þeirra eftir það.

Veður þetta hefir því verið eitt með stórkostlegustu mannskaðaveðrum hér við Djúp, en enn er ekki frétt til lengra að. Aðalvíkingar sem björguðust í Víkina vissu til að fleiri bátar voru á sjó úr Aðalvík, en engar fréttir hafa borist þaðan,enn. Þrennir höfðu verið á sjó úr Súgandafirði og fréttist hingað í dag að þeir hefðu allir komist heim heilu og höldnu.

Þann 28. segir Vestri enn frá tjóni í veðrinu þann 7.:

Fimmtíu fjár hrakti í sjóinn á Dynjanda í Dýrafirði í laugardagsveðrinu 7. þ.m. Var það nærfellt aðal-fjáreign bændanna þar, Jóh. Guðmundssonar og Jóns Jónsonar. Þrjú skip brotnuðu á vetrarlæginu í Flatey á Breiðafirði í laugardagsveðrinu; eitt þeirra sleit upp, rakst á klett, brotnaði og sökk að aftan; en tvö rákust saman og brotnuðu mikið, skipin höfðu verið af Patreksfirði.

Austri segir þann 9.:

Veðráttan hefir verið mjög mild síðan fyrir jól. En nú síðustu dagana hefir verið nokkurt frost og snjókoma töluverð. Í gær ofsastormhríð.

Þann 14. segir blaðið nánar frá:

Óveðrið á sunnudaginn var (8. þ.m ) er hið stórkostlegasta og snöggasta sem hér hefir komið lengi. Sunnudagsmorguninn var logn, en dimmt úti fyrir, en klukkan liðlega 11 f.m skall veðrið á með blindbyl og ofsastormi sem allt ætlaði um koll að keyra. Allan daginn frá því, varð varla komist húsa á milli. Gluggarúður brotnuðu í nokkrum húsum hér á Öldunni; frá einu húsinu tók skúr og fleygði stormurinn honum upp á tún, — Ennfremur hraut veðrið bryggju Þórarins kaupmanns Guðmundssonar. Aðrar skemmdir urðu ekki. Frost var allmikið fyrri hluta þessarar viku, hríð og skafrenningur við og við, svo jarðlaust varð.

Í nótt (14.) var ofsahláka með feikna stormi af suðvestri, einhverjum þeim allraharðasta er lengi hefir komið. Urðu töluverðir skaðar hér í bænum: Sóttvarnarhúsið fauk, ennfremur tók þak af hlöðu og fuku úr henni fleiri hestar af töðu. Járnþak sleit af sumum húsum og rúður brotnuðu víða. Fleiri skaðar hafa eflaust orðið af veðrinu þó enn sé eigi til spurt.

Engan skaða hafði veðrið gjört á Héraði svo spurt sé; brast það á svo snemma á sunnudagsmorguninn að fé hafði ekki verið látið út, en erfið varð víst fjárhúshirðing þann dag, urðu fjármenn víða að gista á beitarhúsunum og sumstaðar höfðu þeir sig eigi heim úr fjárhúsinu á túninu. Snjór ákaflega mikill á Úthéraði, en minni þegar kemur inn fyrir Eiða, og eigi þar með öllu jarðlaust.

Þann 20. birti Austri frekari fréttir:

Stormurinn mikli aðfaranótt hins 14. þ.m. olli sköðum eigi all-litlum hér í firðinum eins og minnst er á í síðasta blaði. Sóttvarnarhúsið, sem var virt til brunabóta á 2500 kr., var raunar engin furða þó yrði að láta undan þessum feikna stormi, því það var miklu veigaminna og byggt á allt annan hátt, en hús venjulega eru: allt krækt saman, og engar stoðir eða bitar í því. En í haust var gengið vel frá því; tveir járnstrengir strengdir yfir það. En það kom fyrir ekki. Stormurinn braut það gjörsamlega í smáagnir. Fjórar heyhlöður fuku ofan að tóftum: Ein hér í Firði, eins og getið er í síðasta blaði, og fuku úr hanni 15 hestar af töðu, önnur í Fjarðarseli og c. 10 hestar af heyi, þriðja heyhlaðan fór á Dvergasteini og c. 20 hestar af heyi og fjórða hlaðan fauk á Sörlastöðum og 15-20 hestar af heyi. Á Sörlastöðum fuku og tveir bátar og þök af skúrum. Járnplötur fuku til muna af tveimur húsum, lyfjabúðinni og barnaskólahúsinu. Heyrðist glamrið í plötunum alla nóttina er þær voru að fjúka. Þeyttust plöturnar langar leiðir með feikna hraða og krafti. T.d. fauk járnplata af lyfjabúðinni og út á þakið á geymsluhúsi Imslands kaupmanns, c. 150 faðma vegalengd og svo mikill var hraðinn, að platan fór inn úr þakinu á sex borða svæði. Aðrir skaðar urðu víst eigi sem teljandi sé, nema rúður, er brotnuðu í mjög mörgum húsum. Stormur þessi er án efa hinn allra mesti er komið hefir hér um mörg ár. — Er það því mikil heppni að skaðar urðu eigi meiri.

Norðurland birtir þann 28. stutta frétt úr Skagafirði:

Úr Skagafirði er ritað að 13. janúar hafi þar verið stórviðri með afskapa úrfelli. Þá fauk brú, sem var á Svartá, hjá Reykjum. Hún brotnaði í smátt og bar áin viðinn langar leiðir.

Þann 27.janúar birti Austri svo frekari fréttir af tjóni í veðrinu þann 8.:

Í sunnudagsstórhríðinni 8. þ.m. hafa 4 menn orðið úti er vér höfum tilspurt. Tveir menn á Suðurfjörðum: Bjarni Eiríksson frá Bakkagerði í Reyðarfirði og Finnur Vigfússon frá Eskifirði, báðir aldraðir menn. Höfðu þeir verið á leið í fjárhús. Varð Bjarni úti á túninu, örskammt frá bænum, en Finnur villtist suður yfir Eskifjarðará, og fannst þar síðan örendur. Hinir tveir mennirnir er urðu úti voru frá Hauksstöðum á Jökuldal: Pétur Jónsson, ungur maður og Sigmar Hallgrímsson, unglingspiltur á 13. ári sonur Hallgríms snikkara Björnssonar frá Ekkjufelli: Höfðu þeir verið sendir með hest og sleða út að Héraðssöndum til að sækja matvörur. Voru þeir komnir á leið inneftir. Höfðu gist á bæ yst í Tungum á laugardagsnóttína, en náðu eigi bæjum kvöldið eftir. Á sunnudagsmorguninn, er veðrið var skollið á, heyrðust hróp þeirra frá Hallfreðarstöðum og Litla-Bakka, var kallað á móti, og þeim sagt að koma. En þeir hafa þá verið orðnir villtir og eigi getað áttað sig á því, hvaðan hljóðið kom. Daginn eftir fundust þeir helfreðnir nokkuð fyrir innan Hallfreðarstaði.

Skaðar hafa orðið víða í sunnudagsofviðrinu 8. janúar. Á Vopnafirði og Bakkafirði fuku og brotnuðu bátar og skúrar, og á Vopnafirði braut brimið bryggju og geymsluhús, er Grímur kaupmaður Laxdal átti og tók út úr húsinu mjög mikið af salti. Brim var allvíðast svo mikið að menn muna eigi slíkt, þó mun það einna mest hafa verið í Ólafsfirði nyrðra. Gekk það tuttugu faðma á land upp og átján fet yfir sjávarmál; braut brimið þar marga báta og geymsluskúra.

Norðurland birti þann 14.janúar ítarlegustu fréttirnar af briminu í Ólafsfirði:

Ólafsfirði 11.janúar: Aðfaranótt sunnudagsins 8. þ.m. gerði hér ofsaveður norðaustan með hörkufrosti og óefað meira brimi en elstu núlifandi menn hér muna eftir. Skömmu fyrir fullbirtingu fór sjór að ganga langt upp og kom fyrsta ólagið um kl.8. Mölvaði það sex-róinn fiskibát og færði úr stað fjóra báta sem voru á hvolfi utanundir verslunarhúsinu og sprengdi upp dyr á pakkhúsi P. Bergssonar. Fóru menn þá að taka báta sína, en urðu að hafa sig alla við með köflum að lenda ekki í ólögunum. Um kl. 9-10 varð ólgan svo mikil að gekk suður fyrir verslunarhúsin öll og fyllti svo að næstum rann inn í húsin, en þau standa um 20 faðma frá sjó og um 18 fet yfir sjávarmál. Var þá ljótt að sjá út eftir Horninu. Tunnum, pakkfötum, fiskkössum, trjáviði, bátum og ýmsu fleiru ægði saman uppi við fiskitökuhúsin og mölvaði sum þeirra upp. Gekk þá sjór inn í þrjú býli við austanvert Hornið, svo að sængurföt urðu vot og fólkið varð að flýja burt, en matvæli og eldiviður skemmdist mikið. Þurrfisksskúr P. Bergssonar tók ólgan og flutti annan enda hans næstum 11 álnir, en hinn um 7 álnir upp fyrir grunninn og setti hann þar niður réttan og hallalausan. Skúrinn er 24 x 6 álnir og höfðu nokkrir Hornbúar hann leigðan til sjónleika. Stóð borð með lampa á á leiksviðinu og var allt óskaddað, þegar að var gætt.

Yst húsa mölvaði sjórinn geymsluskúr nýbyggðan um 15 álnir á lengd. Voru þar, geymd matvæli, þar á meðal 20 skipspund af saltfiski, fatnaður, alls konar veiðarfæri o.fl. barst þetta upp fyrir kambinn og lá þar vítt og dreift. Urðu þar miklar skemmdir einkum á kornmat og þess háttar, en mestu af saltfiskinum og öðru varð náð. Alls brotnuðu hér í Horninu og vestan við fjörðinn (í Árfjöru) 12 bátar meira og minna, en 5 eyðilögðust. Þótt eigi sé hægt að segja menn hér hafi liðið stórskaða við sjógang þennan, má þó svo heita að hagur sumra hafi stórum hnignað, í samanburði við eignir hafa sumir misst mikið. Guðmundur þurrabúðarmaður Ólafsson hefir orðið fyrir mestum skaða. J.B.

Á Framnesi hjá Kristjáni Þórðarsyni skipstjóra hafði tekið út bát og á Nolli töluvert af síldartunnum. Því miður er hætt við að fleiri hafi orðið fyrir tjóni af briminu, þó ekki séu fréttir um það komnar.

Frekari fréttir bárust úr Vopnafirði og birtust í Austra þann 11.febrúar:

Tíðarfarið framúrskarandi óstillt síðan um nýár, sjaldan sama veður 2 daga í röð; jarðir oftast nægar víðast hvar, en hafa illa notast vegna umhleypinganna, svo bændur eru þegar búnir að gefa mikið hey, en heyforði þeirra var líka með mesta og besta móti hér, svo þeir kvíða eigi fyrir fóðurskorti í þetta sinn. Þann 8. janúar var hér voðalegur norð-austan hríðarbylur, svo ægilegur sem verða má, og brimrót jafnframt hið stórkostlegasta sem hugsast getur, elstu menn hér hafa aðeins heyrt getið um að einu sinni áður hafi jafnmikið eða svipað brim komið hér. Hér urðu líka talsverðar skemmdir og tap á bátum, bryggjum, fiskiskúrum og fiskiverkunarplássum. Mestum skaða varð Grímur kaupmaður Laxdal fyrir, c. 700 kr. Á Bakkafirði urðu nokkrir skaðar: Halldór í Höfn missti skúr og bræðsluáhöld og fl. skaði hans talinn yfir 1000 kr. 

Í Þjóðviljanum þann 2.febrúar er þess getið að aðfaranótt þess 8.janúar hafi þilskipið Racilíu rekið á land á Ísafirði og brotnað að mun. Ingólfur segir þann 12.mars frá því að í þessu veðri hafi brim gengið 30-40 faðma á land upp í Flatey á Skjálfanda og brotið þar garða, spillt engjum og valdið fleiri skemmdum. Þar er einnig sagt frá snjóflóði sem í mánuðinum hljóp fram úr lækjargili nærri kaupstaðarhúsum í Fáskrúðsfirði, lent þar á húsi sem sjómenn búi í á sumrum, tekið þak af hlöðu og brotið fiskhjalla - dagsetningar er ekki getið. 

Briminu í Flatey er lýst í pistli í Norðurlandi þann 4.febrúar:

Eins og nafn eyjarinnar bendir til, liggur hún eigi hátt yfir sjávarflöt og þeim mun hægra veitir Ægisdætrum að nálgast byggðir manna, þegar þær verða skapæstar. Aðfaranóttina 8. janúar þ.á. gerði hér ofsaveður, fyrst á austan, en gekk meira til norðurs um dögun. Þessu stórviðri fylgdi voða dimm hríð og svo mikill sjávargangur að fádæmum sætti. Í víkinni, suðvestan á eyjunni gekk sjór 30-40 faðma á land upp. í Útgörðum gekk brimið 22 faðma á land upp, braut tvíhlaðinn grjótgarð og kastaði grjótinu víðsvegar, fyllti fjárhús og gekk fast upp að íbúðarhúsinu. Svo var brimkrafturinn mikill, að sumstaðar reif hann grjótgarðinn niður til grunna. Nokkuð fyrir vestan Útgarða er lágt bjarg, um 30 fet á hæð. Þar gekk brimið upp fyrir og á einum stað 10 faðma upp fyrir bakkabrún, braut upp frosna jörð og færði til björg, er voru mörg þúsund pund, skemmdi nokkuð engjar og ýmsar fleiri skráveifur gerði þetta trölleflda náttúruafl.

Ingólfur segir frá mannskaða þann 21.:

Maður varð úti sunnudaginn 8. þ.m. austur í Ölfusi. Hann hét Páll Pálsson, átti heima á Kotströnd. Hafði hann misst hesta sína tvo niður um ís á Ölfusá og fannst sjálfur örendur á ísnum daginn eftir. Harðneskjuveður með kafaldi var um daginn og nóttina.

Vestri segir frá veðri þann 14.janúar:

Tíðarfar hefir verið afar-stirt síðan á laugardaginn var [7.janúar]. Frostbyljir og garður þar til í gærmorgun [13.] og gerði sunnanveður og hláku. Húsgrind fauk. Hús, sem Jón Þ. Ólafsson snikkari er að byggja hér í bænum og var að mestu reist, en óklætt að utan, fauk um koll í gærmorgun og brotnaði talsvert.

Austri segir þann 6.febrúar frá vestanillviðri á Borgarfirði eystra þann 27.janúar:

Ofsaveður kom i Borgarfirði [eystra] 27. [janúar]. Olli veðrið þar miklum skaða. Fauk þar þakið af íbúðar- og verslunarhúsi Þorsteins kaupmanns Jónssonar og tók á sjó út.

Þjóðviljinn segir frá því þann 16.febrúar að í sama veðri, 27.janúar hafi mannlaust fiskiskip sem lá á Patreksfjarðarhöfn rekið í land og brotnaði þannig að ekki verði við gert. Í sama blaði segir frá því að maður hafi orðið úti á Miðnesi um mánaðamótin. Vestri getur þess þann 11. febrúar að maður frá Hólmavík hafi um mánaðamótin orðið úti á leiðinni sem nú er kölluð Þröskuldar.  

Aðfaranótt þess 16. strandaði skoskur togari á Breiðamerkursandi, mannbjörg varð. Ingólfur segir frá þessu þann 12.febrúar. Að sögn Vestra þann 18.febrúar strandaði svo annar togari fram undan Þjórsá þann 26.janúar. Mannbjörg varð. 

Þann 28. segir Þjóðviljinn: 

Bessastöðum 28. janúar 1905. Tíðarfar afar-óstöðugt, síðan um þorrabyrjun, 20. þ.m., ýmist hellirigningar, eða útsunnan éljagangur.

Norðurland segir þann 21. frá getgátum um eldgos:

Eldur er sagður uppi í Dyngjufjöllum. Fregnin ógreinileg, höfð eftir manni úr Bárðardal. Hann á að hafa sést bæði úr Bárðardal og úr Mývatnssveit.

Febrúar. Kalt og víða talsverður snjór.

Ingólfur segir frá jarðskjálftum í janúarlok í frétt þann 5.febrúar:

Jarðskjálftakippirnir um síðustu helgi héldu áfram til nóns á sunnudaginn [29.janúar]. Þeirra varð einnig vart hér nærlendis og voru nokkru harðari í Hafnarfirði en hér, en mest bar á þeim suður með sjó. Hrundu veggir á bæ einum í Vatnsleysunum, en aðrar skemmdir urðu ekki teljandi. - Fram við Reykjanesvita koma jarðskjálftar mjög oft, en þar urðu kippir þessir ekki meiri en þar er títt, þótt ekki gæti jarðskjálfta annarsstaðar. Þar komu kippirnir úr suðurátt. Botnvörpuskip var úti fyrir Reykjanesi á sunnudaginn og varð vart við mikla ókyrrð á sjónum allt i einu. Hæfulaust er það, sem flogið hafði fyrir, að eldur hafi sést þar úti fyrir, að því er vitavörðurinn af Reykjanesi sagði, sem var á ferð hér í vikunni.

Þjóðviljinn segir frá tíð í stuttum pistlum:

Bessastöðum 2.febrúar. Tíðin vetrarleg, sem við er að búast; norðan eða austnorðan næðingar, frost nokkur, og snjófjúk öðru hvoru. Bessastöðum 9.febrúar: Tíðin einatt fremur óstöðug, öðru hvoru kafaldshríðar, svo að talsverður snjór er á láglendi. Bessastöðum 16. febrúar: Frosthörkur voru allmiklar hér syðra 10. til 12. þ,m., allt að 10-12 stigum á R, en 13. til 14. gerði hagstæða hláku og stórfellda rigningu og sunnanrok í gær, svo að jörðin sem áður var alsvelluð er nú orðin marauð. Bessastöðum 24.febrúar: Tíðin afar óstöðug og stormasöm, frost og snjóar annan daginn, en hellirigning hinn. 

Vestri segir frá frosthörkum þann 11.:

Frostharka hefir verið mjög mikil nú um tíma. og er þegar farið að brydda á vatnsskorti í vatnsbólunum. Sýnist þegar vera orðin full þörf át því, að gerðar væru ráðstafanir til þess að auka vatnið í safnþrónni svo ekki yrði vatnsskortur á hverjum vetri.

Austri segir þann 18.: „Veðráttan hefir verið hin hagstæðasta næstliðna viku, sunnanvindar og sólskin. Í dag hríð“.

Að kvöldi þess 21. strandaði eimskipið Scandia við Garðskaga. Mannbjörg varð. Ingólfur segir frá þessu þann 28. 

Mars. Hagstæð tíð, jafnvel talin einmunatíð suðvestanlands. Fremur hlýtt.

Þjóðviljinn - sem um þessar mundir gerði út frá Bessastöðum á Álftanesi greinir reglulega frá veðri um þessar mundir:

[7.] Það, sem af er þ.m. hafa haldist einkar hagstæð þíðviðri hér syðra, svo að hagar eru hvívetna nægir.

[13.] Hrein og björt veðrátta síðasta vikutímann, fögur fjallasýn, væg frost, sól — og marauð jörð. Betri góu-veðráttu gátu menn tæplega vænst, að því er til landsins kemur. Til hafsins hefir á hinn bóginn verið all-stormasamt öðru hvoru.

[22.] Tíðin óstöðug, og stormasöm, en að öðru leyti einkar hagkvæm, að því er landið snertir. Til sjávarins á hinn bóginn lítið hægt að hafast að, svo að þilskipin hafa enn sára lítið aflað.

[27.] Það, sem af er einmánuði [hófst 21.mars] hefir tíðin verið rosa- og storma-söm. 22.-23. þ.m. var aftaka sunnanrok, með hafróti, enda féll barómetrið, fyrri daginn niður fyrir storm, og færi betur, að ekkert fiskiskipanna hefði þá orðið fyrir áfalli.

Þjóðólfur birti þann 17.mars pistil úr Meðallandi (líklega ritaðan í febrúar). Þar segir m.a.:

Hausttíð var hér stirð, snjókrassi framan af vetrinum fram að jólaföstu, og mikil snjókoma um tíma. Svo var aftur gæðatíð frá því með jólaföstu fram á nýár, en síðan hafa verið allmiklir umhleypingar, stormar og rigningar, en snjókomur eigi miklar, og yfirleitt má teljast mild veðurátta hér, sem af vetrinum er, þó hafa stöku sinnum komið frost hér nokkuð mikil, en stutt; t.d. 9. [febrúar] rak Kúðafljót saman, svo póstur fór útyfir á ís. Sömuleiðis komu frostíhlaup viðlíka snemma í vetur. 

Þjóðviljinn birti þann 8.apríl bréf úr Rangárvallasýslu, ritað 20.mars (stytt hér):

Veturinn má kallast stórharðindalaus, mjög litlir snjóar, og óðar tekið upp aftur, þó snjór hafi komið; ...  Komi ekki vorharðindi, verða töluverðar heyfyrningar hjá mörgum. ... Tilfinnanlegasta meinið hér er hinn voðalegi vatnaágangur úr Markarfljóti, sem þegar hefir gjört, og heldur áfram að gjöra, stórtjón, þar sem 11 býli eru kornin í eyði, og margt af þeim bestu jarðir; með sama áframhaldi á vatninu verða vist bráðum 20 jarðir í eyði, flestar i Vesturlandeyjum; en 5 hreppa sýslunnar skaðar vatn þetta meira og minna, og er það sannarlega raunalegt, að sjá blómlegustu jarðir algjörlega eyðileggjast á 5 til 6 árum, svo að ekki sést neitt eftir, nema niðurgrotnaðar húsatóftir, en allt annað hulið sandi og vatni.

Vestri segir þann 25.mars frá skiptapa þar vestra:

Miðvikudaginn 22. þ.m. fórst enn bátur héðan frá Djúpi. Um morguninn reru nokkrir bátar úr Bolungarvík og Hnífsdal, en flestir sneru aftur. Þeir sem áfram héldu komust allir
að landi heilu og höldnu, nema einn bátur er hafði uppsátur í Ósvör í Bolungarvík. Hafði Halldór Benediktsson úr Bolungarvík, sem hleypti i Skálavík rekið sig á bátinn mannlausan á reki undir Stigahlíðinni, er hann sigldi vestur. Skipverjar voru sex. Formaðurinn var Benedikt Vagn Sveinsson, lætur eftir sig konu og 6 börn í ómegð.

Apríl. Mjög þurrt á Suður- og Vesturlandi. Úrkomur austanlands framan af, en síðan einnig þurrviðrasamt þar. Fremur kalt.

Austri segir frá þann 29.:

Sá sorgaratburður skeði 5. þ.m. að 2 menn urðu fyrir snjóflóði á Þórdalsheiði neðan í svokölluðu Hallsteinsdalsvarpi, og fórust báðir til dauðs. Mennirnir lögðu frá Areyjum kl. 12 um daginn, og ætluðu sér Þórdalsheiði en þegar þeir hafa komið upp, hafa þeir lagt til dalsins. Héraðsmaður kom ofanyfir daginn eftir, þ.6., og sá þá hund sem þeim hafði fylgt, í flóðinu, Svo fóru menn að leita þeirra á föstudaginn þ.7. og fundu þá báða undir flóðinu, þar sem hundurinn lá. Um þetta slys má segja, að það mun vera með þeim sorglegustu sem fyrir hafa komið, þar flóðið var ekki dýpra en 1 3/6 alin [um 1 m] þar sem þeir fundust.

Norðurland segir þann 8.apríl:

Fram að síðustu dögum hefir hér í langan tíma verið einmuna góð tíð, sólskin og blíða dag eftir dag, eins og á besta vordegi; snjó tók upp nærfellt allan í byggð og víða var holklaki í  vegum. Jörð var svo þíð að einn bæjarbúi hér lét herfa sléttuð flög 27. og 28. mars og er Norðlingum nýtt um að byrja jarðabótavinnu á þeim tíma árs.

Þjóðviljinn segir þann 8.:

Í. þ.m. gerði norðan-hvassviðri, og kuldakast, með allt að 10 stiga frosti R, og færi betur, að þar við stæði, að því er snertir vorharðindin, sem tíðum eru versta meinið hér á landi.

Og þann 22. birti blaðið bréf frá Ísafirði dagsett 11.apríl:

Í gær og í dag hefir verið hér blindhríð, svo að varla sést milli húsa; en fremur er þó frostlítið.  Yfir höfuð hefir ótíð, og illviðri, hamlað mjög öllum störfum manna hér vestra, síðan á nýári, bæði á sjó og landi, og hefir því verið fremur lítið um sjóferðir í vetur, en líkindi til, að fiskur fengist, ef gæftir væru, því að 5., 6. og 7. þ.m. var mikið góður afli hjá mörgum í Bolungarvík; en mjög stendur fiskurinn djúpt, og því engin tiltök, að ná í afla, nema á rígmenntum skipum.

Þann 15., 22 og 29. segir Þjóðviljinn frá tíð:

[15.] Síðan veðráttan snerist til norðanáttar, 4. þ.m., hafa haldist stöðugir norðan-kalsar, og hvassviðri all-oftast.

[22.] Síðan kuldakastinu linnti, fyrir helgina síðustu, hefir tíðin verið einkar hagstæð, oftast hæg og mild veður, og stöku smá-regnskúrir, svo að naumast verður þess langt að bíða, að jörðin fari að litkast, ef lík veðrátta helst.

[29.] Þrátt fyrir nokkurn norðankalsa um páskana [23.apríl] - meira varð eigi af páskahreti hér syðra - virtist sumarið þó ætla að byrja fremur vel; en 28.-29. þ.m. fór ögn að hreyta snjó, svo að jörð varð hvít í morgun, enda stöðug norðan-átt úti fyrir.

Austri segir þann 19. að tíðarfar hafi nú loks gengið til batnaðar og sé nú blítt og bjart á hverjum degi. 

Ísafold birti þann 19. bréf úr Vestmannaeyjum dagsett 14.apríl - og ræðir síðan um vetrarlok [sumardaginn fyrsta bar nú upp á skírdag, 20.apríl]

Janúar og febrúar voru nær sífeld hvassviðri sitt á hverri áttinni með stuttum kuldaköstum og feikna-úrkomu í janúar af regni og snjó. Mars var mjög hlýr að tiltölu og nær óslitnir austanvindar oft mjög hvassir allan mánuðinn. Vertíðin hefir verið óvenjulega gæftastirð sakir stormanna, einkum austanstormanna i mars, og svonefnd sjóveður oft mjög vond og háskaleg. Fiskur gekk hér mikill eftir 10. mars, og mundi hér hafa orðið mjög góður afli með góðum gæftum. Fyrstu vikuna af þ. mán. voru góðar gæftir, en fiskur þá mestur horfinn.

Vetrarlok. Hann hefir verið mjög vægur hér um Suðurland að minnsta kosti, þessi vetur sem nú ríður úr hlaði. Snjólítið mjög og frostvægt eða frostleysur. En ærið stormasamt á útmánuðunum, og því lítið um gæftir. Frost aldrei komist hér upp í 10 stig síðan á nýári. Fáa daga -8 til -9 fyrri part febrúar. Annars sjaldnast meira en 3-4: stig, en mjög oft nokkurra stiga hiti, jafnvel 5-6 stundum. Vestanlands hefir verið nokkuð snjóasamt síðari partinn. Og nokkuð harðari vetur en hér norðanlands og austan. En vægur þó fremur.

Maí. Hagstæð tíð. Hiti í meðallagi.

Lítið var af fréttum af veðri í blöðum í maí - Þjóðviljinn birti þó vikuleg yfirlit, en getur að engu hitabylgjunnar í Reykjavík þann 19. þegar hiti komst þar í 20,7 stig. Fréttablaðið Reykjavík birti að vísu um þetta leyti reglulega hitamælingar veðurstöðvarinnar á föstum athugunartímum og má í þeim lista sjá hæst 18,2 stig kl.14 (15) þann 19.

rvk_t_1905-05-19

Línuritið sýnir hita hverrar klukkustundar í Reykjavík dagana 17. til 20.maí. Dagsetningar á lárétta ásnum eru settar við hádegi viðkomandi dags. Þann 17. er venjulegur maíhiti, en þann 18. varð sæmilega hlýtt, hiti komst í 13,0 stig. Þann 19. rauk hiti upp síðdegis og fór hæst í 20,7 stig kl.16 - kl.17 miðað við núgildandi miðtíma. Ekki er sérstök ástæða til að efast um þessa mælingu - þó engin önnur veðurstöð hafi mælt neitt viðlíka þennan sama dag. Enda lítið af hámarkshitamælum í landinu á þessum tíma og hvorki Vestmannaeyjakaupstaður né Stykkishólmur almennt líklegar til hámarksstórræða. 

Þjóðviljinn lýsir tíð í stuttum pistlum:

[6.] Tíðin einatt fremur köld, og engin veruleg vorhlýindi, enda snjóar öðru hvoru á suðurfjöllin, og hreytir jafnvel stöku sinnum snjó í byggð, þó að eigi festi á jörðu. — 4. þ.m. sneri þó til sunnanáttar og rigninga, svo að tíðin fer nú vonandi að batna.

[12.] Tíðin einatt fremur hagstæð, en þó eigi veruleg hlýindi. 

[20.] Veðrátta köld og rysjótt, enginn vorgróður enn, sem teljandi sé.

[27.] Um síðustu helgi [20. til 21.] brá til hlýinda, og var um nokkra daga gróðrarveður hið besta, en nú er aftur kominn kalsi með næturfrostum.

Þjóðviljinn birti þann 27. bréf ritað á Ísafirði 17.maí:

Tíðin afarillviðrasöm, snjóar öðru hvoru, og frost á nóttum, svo að heita mátti, að allt væri hjúpað fönnum. 13. þ.m. sneri til suðvestan storma, og stórfelldra rigninga, svo að síðan hefir snjóinn leyst óðum.

Og þann 8.júní birti bréfið annað bréf að vestan, dagsett 31.maí:

Tíðin einatt fremur köld; 23.—25. þ.m. gerði hér norðan kuldahret, svo að jörð varð alhvít, og hafa síðan haldist kuldar, og snjó hreytt öðru hvoru, og urðu svo mikil brögð að því 29.—30, þ.m.. að dyngdi niður töluverðum snjó svo að hvergi sá í dökkan blett. — Stafa kuldar þessir óefað af því, að hafísinn, „landsins forni fjandi", er hér að eins fáar mílur undan landi, og við búið, að hann verði þá og þegar landfastur, ef líkri veðráttu fer fram. — Margir bændur hafa orðið að eyða nokkru af korni handa skepnum sinum, enda illt, er slík ótíð er um sauðburðinn.

Júní. Hagstæð tíð. Mjög þurrt lengst af eystra. Hlýtt.

Þjóðólfur segir þann 2.júní:

Frést hefur hingað, að hafís allmikill væri fyrir Horni og úti fyrir Vestfjörðum, en þó hvergi landfastur. Veðurátta hér hefur einnig verið köld að undanförnu og frost á nóttum.

Norðurland segir þann 3.:

Veðrátta hefir verið afarköld að undanförnu, frost flestar nætur. Gróður, sem kominn var, hefir nær því dáið út.

Vestri segir frá hafís þann 17.:

Guðmundur kaupmaður Sigurðsson í Aðalvík kom hingað í gær. Sagði hann að hafís lægi upp undir Straumnes og Kögur og á norðanverðri Aðalvík, og allt sem ein hella að sjá til hafs, eftir sögn þeirra er af fjalli höfðu litið yfir ísinn í góðu skyggni. Í dag segja róðrarbátar héðan, að ís sé kominn hér inn í Út-Djúpið inn undir Bolungarvík og sögðu fullt af síld fram undir ísnum. Engin fregn hefir enn komið um það, hvort „Skálholt“ hefir getað smogið norður um eða hefir teppst á Aðalvík.

Þjóðviljinn lýsir enn veðri:

[15.] Veðrátta hin óblíðasta sem að undanförnu. Kuldastormur og rigningar á degi hverjum. Grassprettuhorfur hinar hörmulegustu, ef eigi rætist von bráðara úr.

[21.] Loks er nú komið sumar og sól, og hefir gróið til muna síðustu daga.

[30.] Tíðin all-hagstæð hér syðra, síðari hluta þ.m., enda tími til kominn eftir alla kulda-næðingana, og grassprettan því óðum að lagast.

Júlí. Stopulir þurrkar lengst af syðra. Hagstæð tíð nyrðra framan af, en síðan úrkomusamt þar. Fremur hlýtt syðra, en í meðallagi nyrðra.

Ekki var mikið rætt um veður í blöðum í júlí. Austri segir þó þann 8. - þetta með 27 stiga hitann á sjálfsagt við mæli í sól (þó skuggi sé nefndur) - síðari frétt nefndi lægri tölur og selsíuskvarða:

Tíðarfar hefir verið með hlýjasta móti í allt vor, á Jökuldal hafði verið 27 stiga hiti á Reaumur í skugganum. Síðustu daga hefir rignt dálítið. Sláttur fer nú að byrja. Eru votlend tún og engjar víðast ágætlega sprottin, en harðvelli miður sökum hinna langvinnu þurrka.

Þjóðviljinn (með aðsetur á Bessastöðum) heldur áfram að birta stutta pistla:

[8.] Tíðin fremur köld hér syðra og grassprettan því enn í lakara lagi.

[14.] Síðustu dagana hefir loks verið hlýindatíð hér syðra, en fremur þurrklítið.

[20.] Tíðin hefir að undanförnu verið óvanalega köld, sem án efa stafar af því, að hafísinn er úti fyrir.

[28.] Sumarið óþurrka- og rigningasamt hér syðra, og óvenjulega kalt. — Síðustu dagana norðankalsar, og nokkur þurrk-flæsa.

Þjóðviljinn birtir þann 28. bréf úr Dýrafirði dagsett þann 21.:

Það sem af er júlímánuði hefir veðráttan verið kaldleg, líkust haustveðráttu, stundum þoku-fýla. með vætu, og óþurrkar, síðan sláttur byrjaði. grasspretta er enn ekki í meðallagi, og veldur því kuldinn í veðrinu. — Sjómenn, er nýlega komu inn á Dýrafjörð, segja hafís við Horn, og mikinn ís á Strandaflóa, svo að hvalveiðamenn á Tálknafirði hafa eigi getað flutt vestur fyrir land 17 hvali, sem þeir eiga geymda á Siglufirði.

Þjóðólfur birti þann 22.september bréf dagsett 23.júlí í Mjóafirði:

Veðurátta er hér góð. Hitar og þurrkar hingað til síðan fyrir uppstigningardag, en brá nú um helgina til votviðra. Grasvöxtur sæmilegur, einkum á deiglendi. Byrjað að slá fyrir 3 vikum síðan. Fiskiveiðar hafa gengið mjög illa hér fyrir Austurlandi hingað til, og beita lítil. En nú fer vonandi að batna úr beituskorti, því síld er farin að veiðast í reknet hér úti fyrir fjörðunum.

Þjóðólfur birtir þann 25.ágúst bréf úr Þingeyjarsýslu ritað 30.júlí:

Tíðin hefur verið mjög góð, þó heldur þurrkasöm fram í þennan mánuð, svo grasspretta er talsvert lakari hér en hún var í fyrra, einkum á þurrvelli; munu töður manna því yfirleitt verða minni en i fyrra. Um afla get ég lítið sagt, þar sem ég bý svo framarlega í sýslunni, en talsvert fengu Húsvíkingar og Tjörnesingar af hrognkelsum í vor, og síðan hef ég frétt, að fiskvart hafi orðið, þegar hægt hefur verið að róa fyrir stormi, ýmist sunnan eða norðan. Áttirnar hafa skipst á líkt og ræðumenn á fundum hér, og orðið nokkuð hátalaðar á stundum.

Ágúst. Góðir þurrkar á Suður- og Vesturlandi og hiti í meðallagi. Fremur kalt og úrkomusamt nyrðra.

Austri segir af rigningu í pistli þann 12.ágúst:

Ofsaveður og rigning var hér 5. og 6. þ.m. Vatnagangur varð mjög mikill og hlupu þá skriður á stöku stað hér út í firðinum og gjörðu nokkurn skaða á túnblettum, Stærsta skriðan hljóp á bræðsluhús Imslands kaupmanns og eyðilagði þau að mestu. Er skaðinn álitinn 2000 kr.

Ísafold segir frá heyskap og tíð í pistli þann 23.:

Veðrátta kalsasöm enn mjög. Ætlar ekki að lagast. En þurrkar allgóðir hér sunnanlands. Fyrir norðan afleitir langt fram yfir túnaslátt. þó náðust töður loks inn þar, í 2. viku þ.m., hraktar og skemmdar orðnar mjög víða. Grasvöxtur fram undir meðalár víðast, er til hefir spurst. Engjar þó snöggvar heldur sunnanlands, vegna kuldanna.

Þjóðviljapistlar halda áfram:

[5.] Tíðin afar-köld síðustu dagana, sífelldir norðan-kalsar en þurrkar góðir, og var þeirra síst vanþörf.

[12.] Tíðin einatt mjög kaldhryssingsleg, sífelldir norðan-kaldar, en þurrkur nær daglega, síðan um mánaðamótin.

[19.] Tíðarfar öllu mildara en áður, síðustu vikuna, og má að líkindum vænta þess, að seinni partur sumarsins verði nú góður, eftir kuldana, sem gengið hafa.

[26.] Tíðin hagstæð síðustu vikuna, all-oftast þurrkar og hreinviðri, en tíðin fremur köld.

September. Úrkomusamt nyrðra og einnig á Suður- og Vesturlandi um miðjan mánuð. Hiti í meðallagi.

Ísafold birtir þann 28. september bréf úr Mýrdal dagsett þann 4.:

Þetta sumar hefir verið eitt af þeim allra bestu, er menn muna, svo að útlit er fyrir, að hagur manna hér fari að standa i blóma, ef slík árgæska helst framvegis. Fénaðarhöld voru með besta móti i vor og enginn heyjaskortur. Sauðfénaður skilaði því ullinni vel, svo að aldrei fyrr mun jafnmikil ull hafa verið lögð inn i Víkurverslanir, eins og í vor; enda hefir heldur ekki í langa tíð verið gefið jafnvel fyrir hana.

Þjóðviljinn birtir þann 25.september bréf af Hornströndum dagsett þann 8.:

Sumarið sem nú er að líða, hefir verið eitt af bágustu sumrum, sífelldar norðan-þokur, og þar af leiðandi óþurrkar, og kuldar, einkum síðan í byrjun 16. viku sumars. — Flestir náðu þó töðum sínum lítt hröktum, en lakar hefir farið um útheyið, og hjálpaði þó nokkuð, að nú um mánaðamótin komu 3 þurrkdagar. — Síðan 4. þ.m. hefir verið ofsa-norðanveður, og snjór fallið allmikill til fjalla.

Í sama blaði er líka bréf frá Ísafirði, dagsett þann 15.:

Sumarið óvanalega kalt, og stormasamt, og því miður hafa þær vonir manna að haustið yrði skárra, enn ekki viljað rætast. 4. þ.m. gerði ákaft norðanveður, er stóð í nær viku, með all-miklum kuldum, og fönn til fjalla. — Veður þetta seinkaði mjög ferðum „Lauru", er eigi treystist fyrir Hornbjarg, og lá því 3—4 daga á Aðalvik, uns veðrinu tók að slota, — Á stöku bæjum misstu bændur nokkur hey í veðrinu, og var það mönnum því bagalegra þar sem heyfengurinn er víðast í minna lagi, Sakir illrar sprettu. Nýting heyja hefir á hinn bóginn gengið nokkurn veginn, þrátt fyrir töluverða óþurrka.

Þann 16. varð eitt hörmulegasta slys ársins á sjó. Þá fórust 11 manns, þar af 5 systkin á litlum bát við Akranes. Ísafold segir svo frá þann 20. (stytt hér):

Hvernig þetta slys hefir að borið, er mönnum óljóst; veður var hvasst á landsunnan, leiði, fór hvessandi, varð ofsaveður um það leyti sem hér var komið, enginn séð til ferða þeirra, fáir litu út til sjóar, því nú var komið vont veður. Skipið hefir komið að landi á Suðurflös (miðflösinni) og brotnað þar þegar í spón. Eftir að menn hér urðu varir við ófarirnar, hlupu þeir með lífsháska út á skerið, fundu þegar mikinn farangur rekinn og 2 manna lík, sem þeir þá gáfu sig mest við að koma á land, því aðfall var og varð ekki komist aftur út á flösina, en farangurinn hefir þó rekið mestan upp, því vindur hefir staðið á land.

Hér í bænum er svo frá sagt af kunnugum, að systkinin 5 hafi ætlað að vera ein saman á bátnum, og þótt vera nóg, með farangrinum, koffortum o.fl. skrani. En smámsaman bættust við farþegar eða farbeiðendur ekki færri en 6 að lokum.

Austri segir af tíð þann 19.september:

Tíðarfarið er mjög óstöðugt. Að kvöldi hins 14. gjörði ofsarok af sunnanátt, sleit þá upp og hrakti fjölda báta. Tveir mótorbátar hér í firðinum löskuðust talsvert.

Þjóðviljinn segir þann 25.:

Fimm skip hafa rekið á land á Siglufirði í norðan-veðrinu í öndverðum september, en manntjón þó eigi orðið, að getið sé.

Ísafold segir af heyskap og heyskapartíð í pistli þann 28.:

Sigurður ráðunautur Sigurðsson, nú nýlega heimkominn, að miklir þurrkar hafi gengið frá því í miðjum júní og fram í miðjan júlí allstaðar norðanlands og austan, með hita um daga töluverðum, en kulda á nóttum. þá var einn dag, snemma í júlímánuði, 22—24 stiga hiti (C.) í forsælu á Jökuldal. Grasvöxtur varð lítill heldur vegna þurrkanna, og harðvellistún brunnu nokkuð. En útjörð sæmilega sprottin. En um miðjan júlímánuð brá til óþurrka um þetta svæði mestallt, norðanlands og austan, og stóðu þeir sláttinn út að miklu leyti, þótt flæsur kæmu fáa daga snemma í september. Svona var um allt Norðurland, austur að Vopnafirði. Þar hröktust töður mjög og nýttust illa að lokum. Austanlands voru óþurrkakaflar styttri. Þar náðist helmingur af töðum óhrakinn og vel það. Við Breiðdalsheiði skipti um, og var hin hagstæðasta tíð alt sumarið þaðan frá og suður á Rangárvöllu hér um bil.

Og þann 7.október birti Þjóðviljinn bréf frá Ísafirði, dagsett 26.september:

Hér má heita sífelld ótíð, suðvestan stormar, og bleytuslög, síðan norðanveðrinu, er hófst í öndverðum september linnti, og hefir septembermánuður því orðið almenningi mjög arðlítill þar sem sjaldan hefir orðið snert á fiskþurrki, og aflatregt til sjávarins, þá sjaldan er á sjó hefir gefið. Aðeins 2—3 síðustu dagana hefir tíðin verið hæglát og mild. — Fyrir landbændur hefir ótíðin í september einnig verið mjög bagaleg.

Október. Hagstæð tíð, en fremur köld.

Þann 17. er enn bréf frá Ísafirði í Þjóðviljanum, dagsett 5.október:

Hér er nú jörð öll snævi þakin og frosthýingur á Pollinum. enda grenjandi norðangarður undanfarna daga, sem nú er þó slotað.

Vestri kveður sumarið þann 21.október - af einhverjum ástæðum er skárra hljóð í honum en í bréfum til Þjóðviljans að vestan:

Sumarið kvaddi mjög þýðlega í gær, en hefir þó oft þótt kalt í viðmóti. Samt sem áður hefir það verið fremur hagstætt og gott sumar, einkum til lands. Heyafli hefir víðast verið heldur góður eftir fólksástæðum, en það sem mestu hefir skipt er það, að landafurðir hafa verið i óvanalega háu verði, og má því ætla, að landbúnaðurinn standi í betri blóma en áður. Til sjávarins hefir sumarið verið misjafnara, en þó allgott, einkum fyrir það, að verðlag á fiski hefir verið afar-hátt, og hefir því fiskiútvegur yfirleitt borgað sig vel. Sunnlensku skipin hafa aflað með minna móti, en viða hér á Vestfjörðum hafa þilskip aflað vel. Veturinn hei1sar engu óþýðlegar en sumarið kvaddi, en hvað hann ber í skauti sinu, verður tíminn að sanna.

Vestri segir þann 26.október:

Um fyrri helgi var stillt veður og gott, en nú þykir aftur á móti vera farið að hausta að. Í gær var hellirigning um morguninn og kafalds-krapi mestan hluta dagsins. En í dag er kominn norðan garður með 7 stiga frosti og fannkomu.

Þjóðviljinn segir frá októberveðrinu í nokkrum pistlum:

[7.] Veðrátta köld og óstöðugt, ýmist norðan stormur eða rigning.

[17.] Veðrátta hefir verið all-góð fyrirfarandi daga, frost og hreinviðri oftast.

[23.] Tíðarfar hefir verið fyrirtaks gott síðustu viku; þurrviðri og stillur, með örlitlu næturfrosti oftast.

[30.] Tíðarfar fremur óstöðugt síðustu vikuna, ofsastormur, og hellirigning, 23.—24., en 25. þ.m. norðanveður, og snjór til fjalla.

Bréf úr Berufirði, dagsett 25.október birtist í Ingólfi 5.nóvember:

Grasvöxtur var góður í sumar og nýting ágæt, því að þurrkar voru ómunarlega góðir hér á Austfjörðum í sumar.

Austri birtir 29.nóvember bréf úr Austur-Skaftafellssýslu dagsett 26.október:

Nú er sumarið á enda, og hefir það verið eitthvert hið bjartasta og hagstæðasta sumar, sem menn muna hér um slóðir. Reyndar var nokkuð kalt framan af, en gras spratt þó víða vel, og heyskapur var yfirleitt góður, sumstaðar í besta lagi. Í júlímánuði var nokkuð vætusamt um tíma, en ekki til baga. Haustveðráttan hefir verið góð, og óvanalegar stillingar og blíður um veturnæturnar.

Nóvember. Hagstæð tíð lengst af. Snjókomur nyrðra síðustu vikuna. Fremur kalt nyrðra, en annars fremur hlýtt.

Ísafold segir þann 4.:

Miklar stillur hafa verið hér svo vikum skiptir, oft heiðríkja dag eftir dag, með dálitlu frosti og auðri jörð nema til fjalla. Haustið allt óvenju hægviðrasamt.

Austri segir frá tíð þann 11. og 20.:

[11.] Veðráttan hefir verið fremur óstillt, snjór féll nokkur í fyrri viku, en nú síðustu dagana hefir verið rigning og snjólaust orðið að heita má upp undir fjallatinda. [20.] Öndvegistíð má nú heita að sé hér eystra. Blíðviðri á degi hverjum og því marauð jörð. 9 stiga hiti í dag.

Vestri þann 25.:

Tíðarfar hefir verið mjög milt nú undanfarið, og snjólaust yfir allt, þar til nú tvo síðustu dagana að snjóað hefir lítilsháttar og kólnað svo að mest hefur verið um 7 gr. frost að nóttunni.

Ingólfur segir þann 26.:

Landskjálfta hefir nýskeð orðið vart í Rangárvallasýslu í nánd við Heklu og er sagt, að fólk hafi flúið á burt frá Næfurholti, sem er næsti bær við Heklu. Fréttin er eftir manni að austan.

Þjóðviljinn segir frá nóvemberveðri í stuttum pistlum:

[8.] Tíðarfarið mjög ákjósanlegt síðasta vikutímann, sífelld stillviðri, og oftast nokkuð frost.

[15.] Tíðarfarið votviðra- og rosasamt, en þó yfirleitt hið hagstæðasta, að því er landið snertir.

[22.] Tíðarfar fremur votviðrasamt, en snjólaust jafnan, þó að eigi sé nema rúm vika til jólaföstu.

[27.] 24. þ.m. féll hér syðra nokkur snjór, svo að jörð var alhvít í fyrsta skipti á vetrinum, og hefir síðan verið norðanátt, og frost nokkur.

Vestri segir frá 2.desember:

Ofsarok var hér síðastliðinn miðvikudag [29.nóvember] og nóttina eftir. Ýmsir höfðu róið um morguninn, en sneru aftur og komust heilu og höldnu heim. Á húsum gerði veðrið víða talsverðan skaða, braut glugga, reif af þök o.fl.

Norðri birti þann 5.janúar 1906 bréf frá Sauðárkróki, dagsett 1.desember:

Sumarið þótti erfitt og einkum urðu margir illa undir með töður sínar, og fengu þær hraktar og sumstaðar talsvert skemmdar, en útheyskapurinn mun hafa gengið í meðallagi, eða fast að því. Haustið og það sem af er vetrar hefir bætt upp sumarið, því heysparnaður er það mikill, að til síðustu daga var víða ekki farið að hára fullorðnu fé; um hestana er ekki að tala, þeir fá hér tæpast hey, fyrr en svo mjög slær í harðbakkana, að dauðinn stendur fyrir dyrum horaðra hrossanna.

Desember. Nokkuð rysjótt tíð á Suður- og Vesturlandi framan af, en annars hagstæð tíð. Fremur hlýtt.

Þjóðólfur segir frá tíð þann 10.desember:

Veðrátta hefur verið óvenjulega rysjótt og stormasöm það sem af er þessum mánuði, og hefir það tafið mjög fyrir skipaferðum. „Kong Tryggve“ er átti að fara héðan til vesturlandsins á sunnudaginn var, lagði af stað í gær, en varð að snúa aftur, fór aftur af stað í dag og kemst líklega leiðar sinnar, enda þótt sjór sé enn mjög úfinn og ókyrr úti fyrir.

Þjóðviljinn segir af veðri í desember - fyrstu þrír pistlarnir nánast eins:

[6.] Tíðarfar fremur stirt síðasta vikutímann, útsynnings-kafaldshríðar og umhleypingar.

[14.] Tíðarfar afar óstöðugt, og stormasamt, síðasta vikutímann, ýmist rigningar, eða kafaldshríðar.

[21.] Tíðarfarið afar-óstöðugt og stormasamt, og stórfelldar rigningar.öðru hvoru, eða kafaldshríðir.

[30.] Tíðin einkar hagfelld, síðan fyrir jólin, hæglát veðrátta, og marauð jörð.

Mikið vestanveður gerði dagana 11. til 13. desember. Austri segir frá þann 20.:

Ofsaveður gjörði hér eystra 12. þ.m. Urðu skaðar af því bæði hér í firðinum og nærliggjandi fjörðum. Hér út með firðinum fuku bátar og þök af útihúsum, hey o.fl. Þá skekktist og á grunninum hið svonefnda Patersonshús á Hánefstaðaeyrum. Í Borgarfirði urðu töluverðir skaðar, þar fuku 3 bátar, bræðsluskúr sem Þorsteinn kaupmaður Jónsson átti, þök af húsum o.fl. Tveir menn meiddust þar líka í þessu ofviðri. Feykti veðrið þeim nokkra faðma, svo annar þeirra meiddist að mun.

Norðurland segir af tjóni í veðrinu nyrðra í pistli þann 30.desember:

Ofviðri mikið fór hér yfir héraðið 12. þ.m. af vestanátt. Hafa sumir líkt því við septemberveðrið mikla árið 1900. en þó mun það ekki hafa verið jafnmikið, síst allstaðar. Töluverðan skaða gerði veður þetta. En mest kveður þó að þeim skaðanum, að Holtskirkja í Fljótum fauk í veðri þessu. Kirkja þessi var byggð fyrir fáum árum og mun hafa verið vandaðasta og álitlegasta kirkjan þar vestur frá. Húsið var byggt undir umsjón herra kaupmanns. E.B.Guðmundssonar á Haganesvík. Hafði hann gert sér mjög annt um að sem vandlegast væri gengið frá kirkjubyggingunni, látið festa hana niður á öllum hornum með sterkum járnfestum og fylla milli útveggja með smágrjóti, jafnt efri brún á gluggum. Væntanlega hefir eitthvað bilað við forkirkjuna og turninn upp af henni og veðrið svo komist inn í kirkjuna sjálfa og lyft henni upp. Járnböndin á hornum kirkjunnar biluðu á þann hátt að kengir drógust út úr báðum stoðum á suðurhlið, en járnfestar slitnuðu á báðum hornum á norðurhlið. Aðalfestan að neðan við öll horn kirkjunnar hafði ekkert rótast. Önnur hlið kirkjunnar er að sögn mikið til heil og aflviðina má nota, orgelið hafði ekki verið mikið skemmt, altarisbríkin var ófundin. Húsið hafði kostað um 6000 kr. og er tjónið því mikið fyrir sóknina. Á sama bæ sleit opið fjárhús og svipti ofan af, en í Siglufirði fauk 20 hesta hey. Í þessu veðri fauk þinghús Arnarneshrepps. Hafði það nýlega verið flutt af Hjalteyri út í Arnarnesvík. Á Kjarna í Arnarneshreppi fauk þak af hlöðu, en á Hömrum í Hrafnagilshreppi fauk timburhús, sem ekki hafði verið fullsmíðað.

Ingólfur er með svipaðar fréttir af veðrinu þann 21.janúar 1906, en nefnir fleiri staði:

Ofsaveður vestrænt var á Norðurlandi 12. desember. Koma sjaldan slík. Þá fauk nýleg kirkja á Holti í Fljótum; kostaði um 6000 kr. Þar svipti og þaki af fjárhúsi, og í Siglufirði fauk 20 hesta hey. — Þá fauk og þinghús Arnarneshrepps í Eyjafirði, er nýlega hafði verið niður sett i Arnarnesvík. Á Kjarna í Arnarneshreppi fauk þak af hlöðu og á Hömrum í Hrafnagilshreppi timburhús, sem var í smíðum. Í Húsavik fuku þrír bátar og við Kópaskersvog tók út nær 2000 pund af kolum og steinolíufat, sem Þórður læknir Pálsson átti.

Reykjavík segir þann 13.:

Ofsarok var hér aðfaranótt mánudags [11.desember] og morguninn eftir. Mesta mannhætta var að vera á gangi sumstaðar í austurbænum, því að járnplöturnar úr þakinu á Félagsbakaríinu, sem brann, flugu í loftinu eins og skæðadrifa, og mátti stór mildi heita að enginn bar af örkuml né bana. En hér í bæ er engin lögreglustjórn eða eftirlit með neinu.

Vestri segir frá hafís þann 16.:

Botnvörpungar, sem komu inn í gær, sögðu hafís mikinn úti fyrir. Þeir komu héðan af Ísafirði morguninn áður og sáu þá ísinn er þeir komu út af Aðalvík, var hann á hraðri ferð inn, og ófært út úr honum. Þeir ætluðu að fara að fást þar við veiðar, en ísinn bar svo fljótt að þeim, að þeir urðu að hætta við og skilja eitthvað eftir af veiðarfærum er þeir höfðu lagt. Sneru þeir þá við og ætluðu að komast út úr ísnum sunnanvert, með Stigahlíð, en þar var ísinn líka kominn svo þétt að landi, að ófært virtist, enda var þá farið að dimma.

Í sama blaði er frétt af skipstrandi:

„Grunnavíkin“ nýr mótorbátur, sem síra Kjartan Kjartansson í Grunnavík lét smíða í sumar, rak í land í Nesi í Grunnavík síðastliðinn laugardag [16.desember] og brotnaði í spón, en vélin náðist að mestu eða öllu óskemmd. Báturinn var þiljubátur allstór og dýr, og óvátryggður að öllu leyti.

Þjóðólfur birti þann 25.janúar 1906 bréf úr Eyrarsveit á Snæfellsnesi dagsett 5.desember:

Sumarið síðastliðna var mjög hagstætt, hvað tíðina snertir, sérstaklega eftir að heyvinna byrjaði; grasvöxtur í góðu meðallagi, og hefur því víðast hvar heyjast fremur vel; tíðin í haust frá því nokkru fyrir veturnætur hefur verið óminnilega góð. Aflabrögð fremur góð, enda oft gefið að róa. Í Eyrarsveit t.d. eru hæstu hlutir orðnir 9—10 hundruð, og er þó nokkuð til vertíðarloka.

Norðri birti þann 12.janúar 1906 bréf af Fljótsdalshéraði dagsett 18.desember:

Tíðarfar hefir verið gott; þótt það hafi verið fremur óstöðugt, þá hefir fallið vel í högum og ekki verið stórfeldar hríðar. Útigangspeningi hefir því liðið vel. Sauðfé ekki gefið nema lítið eitt á Út-Héraði, og lömb gauga enn á nokkrum stöðum sjálfala. — Hestar víða nýteknir á gjöf á Út-Héraði, en efra hvergi; enda er jörð auð efra en ytra með töluverðu skefli. Heyforði frá sumrinu allgóður nema töður verkuðust víða illa, og er ekki látið vel af nyt kúa. Fjárhöld eru góð. 

Vestri segir þann 30. að einmunaveður hafi verið um jólin, stillur og góðviðri.

Austri segir frá veðri í pistli á gamlársdag:

Afbragðsveður hefir verið hér um öll jólin, bjart og kyrrt, með litlu frosti. Færðin eins og á fjalagólfi, jafnt innsveitis sem á fjallvegum uppi. Má nú heita auð jörð upp undir fjallatinda hér í fjörðum. Gamla árið kveður í dag með blæjalogni og þíðviðri.

Lýkur hér að sinni frásögn hungurdiska af árinu 1905. Að vanda má finna ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hiti ársins - til þessa

Nokkrir hafa varpað fram þeirri spurningu hvort árið 2018 (til þessa) teljist kalt eða hlýtt. Það er reyndar hvergi hægt að tala um kulda sé miðað við langtímameðaltöl, en hér á eftir skulum við láta okkur nægja að líta aftur til aldamóta og sjá hvernig staðan er miðað við tímann síðan.

Taflan sýnir stöðu meðalhita á þremur stöðvum á landinu, Reykjavík, Akureyri og á Dalatanga. Þar má sjá hvert er hlýjasta árið og hita þess (til miðs september), það kaldasta, auk stöðunnar í ár, 2018.

röðármeðalh stöð
120037,26 Reykjavík
1520185,67 Reykjavík
1820155,17 Reykjavík
     
120036,61 Akureyri
720185,59 Akureyri
1820024,37 Akureyri
     
120035,78 Dalatangi
420185,48 Dalatangi
1820014,20 Dalatangi

Meðalhiti í Reykjavík stendur nú í 5,7 stigum og er í fjórðaneðsta sæti á öldinni, +0,5 stigum ofan hitans á sama tíma árið 2015, en langt að baki hitans á sama tíma árið 2003. Hitinn nú er samt ofan langtímameðaltals og er í kringum 40. sæti síðustu 100 árin. Kaldast á þeim tíma var 1979 meðalhiti fram til miðs september aðeins 3,2 stig. 

Á Akureyri er hiti ársins það sem af er í 7. sæti á öldinni - í miðjum hóp sum sé og austur á Dalatanga í fjórðahlýjasta sæti - ekki langt neðan toppsætis þar. 

Þetta þýðir að árið hefur verið heldur svalt suðvestanlands miðað við það sem algengast hefur verið á þessari öld, nærri meðallagi aldarinnar á Norðurlandi, en meðal þeirra hlýjustu austanlands.  

En árinu er ekki lokið þrír og hálfur mánuður eftir enn - rúmur fjórðungur. 


September hálfnaður

Þá er september hálfnaður og rétt að líta á legu hans. Meðalhiti í Reykjavík er 8,6 stig, +0,6 stigum ofan meðallagsins 1961-1990, en -1,2 neðan meðallags síðustu tíu ára og í 15. hlýjasta sæti á öldinni (af 18). Á 142-ára listanum er hann í 62.sæti. Á þeim lista eru sömu dagar ársins 2010 efstir, meðalhiti 12,2 stig (1939 síðan ómarktækt lægri). Kaldastir voru þessir dagar árið 1992, meðalhiti 5,6 stig.

Á Akureyri stendur meðalhiti mánaðarins það af er í 9,0 stigum. +2,0 ofan meðallags 1961-1990, en -0,7 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára um land allt, minnst þó á Brúaröræfum, aðeins -0,1 stigi neðan meðallagsins, og -0,2 stigum neðan þess í Sandbúðum. Kaldast að tiltölu hefur verið við Siglufjarðarveg, -1,8 stig neðan meðallags síðustu tíu ára og -1,7 stig neðan þess í Skaftafelli.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 21,7 mm, - nokkuð undir meðalagi, en 12,1 á Akureyri, líka neðan meðallags.

Sólskinsstundir í Reykjavík eru nú orðnar 75,9, nokkuð ofan meðallags.


Tvær gamlar þumalfingursreglur

Nýlega rakst ritstjóri hungurdiska á tvær gamlar spáreglur sem kenna má við þumalfingur, Kannski reyndi hann einhvern tíma að nota þær - kannski ekki. Líklega ekki - bæði kemur staða þar sem þær eiga greinilega við ekki oft upp og auk þess eiga mælingar þær sem notaðar eru ekki alltaf við - enda upprunnar í Ameríku. En við skulum samt til gamans rifja þær upp.

1. Til að finna hæð (það er að segja botnhæð) bólstraskýja á góðviðrisdegi þegar uppstreymi er það mikið að ský myndast:

Finnið mismun á hita og daggarmarki og margfaldið með 125. Útkoman segir til um hæð bólstrabotnanna í metrum. 

Daginn sem þessi pistill er skrifaður (fimmtudagur 13. september) var hiti á hádegi í Reykjavík 9,6 stig, daggarmark 3,8 stig, mismunur 5,8 stig. Ágiskuð skýjahæð því 5,8x125 = 725 m - segjum 700 m. Klukkan 16 hafði munur á þurrum hita og daggarmarki minnkað (10,2 - 5,6 = 4,6) og reglan lækkað ágiskaða skýjahæð niður í 575 m - segjum 600 m. Ekki fráleit ágiskun sé horft á fjallahringinn. 

2. Til að áætla mestu skýjahulu dagsins (engin lágský á lofti að morgni takk fyrir) - til að geta giskað þarf að fylgjast náið með því hvenær fyrstu hnoðrarnir myndast.

Um leið og það gerist er litið á rakastigið. Deilt er í það með 6 og draga síðan 5 frá. Þá er komin ágiskun á hámarksskýjahulu dagsins (síðdegis eða að kvöldi) í áttunduhlutum. 

Ef við ímyndum okkur að veður hafði verið ágiskunarhæft í morgun kl.9 hefðum við tekið rakastigið - 83 prósent, deilt í það með 6 - fáum út 14 - drögum 5 frá - og útkoman er 8 = alskýjað. En klukkan 9 voru bólstrar þegar á lofti. - Klukkan 6 voru hins vegar engin lágský á lofti, rakastig þá var 90 prósent - og reglan segir þá að alskýjað verði síðdegis við slík skilyrði - ekki sem verst. - En það er kannski heppni. 

Nú notar enginn svona reglur - tölvuspár ráða öllu (og er það trúlega vel). 


Fyrstu tíu dagar septembermánaðar

Það fer eftir því við hvað er miðað. Sé horft til áranna 1961-90 eru fyrstu tíu dagar septembermánaðar hlýir, meðalhiti í Reykjavík er 9,2 stig, +1,1 ofan meðallags. Sé horft til síðustu tíu ára eru þeir frekar svalir, hitinn -1,0 stig neðan meðallags. Á langtímavísu voru septembermánuðir áranna 1961-90 mjög kaldir, en fyrrihluti septembermánaða síðustu tíu ára aftur á móti hlýr. Hiti daganna tíu er í 14.sæti (af 18) á öldinni, en í 62.sæti á 142-ára listanum. Hlýjastir voru dagarnir tíu 2010, meðalhiti þá 13,8 stig, en kaldastir voru þeir 1977, meðalhiti 5,7 stig.

Meðalhiti á Akureyri fyrstu tíu dagana segist vera 10,1 stig, þremur stigum ofan 1961-90, en -0,2 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Á landinu hafa dagarnir tíu verið hlýjastir að tiltölu á Brúaröræfum, hiti +0,3 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast að tiltölu hefur verið í Skaftafelli, -1,6 stig neðan meðallags sömu ára.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 15,6 mm, í tæpu meðallagi, en 7,6 á Akureyri, innan við helmingur meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 47,1 í Reykjavík - ekki fjarri meðallagi.

röðármán spásvæði
1020189 Faxaflói
320189 Breiðafjörður
420189 Vestfirðir
720189 Strandir og Norðurland vestra
520189 Norðurland eystra
520189 Austurland að Glettingi
720189 Austfirðir
1120189 Suðausturland
1120189 Suðurland
920189 Miðhálendið

Taflan sýnir hvernig hiti daganna tíu raðast meðal almanaksbræðra á öldinni. Kaldast að tiltölu er á Suður- og Suðausturlandi - þar er hitinn í 11. sæti af 18, en hlýjast að tiltölu er á stöðvum við Breiðafjörð, þar eru dagarnir tíu þeir þriðjuhlýjustu á öldinni. 


Gjóað augum á vetrarspá

Við lítum til gamans á vetrarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar. Fyrir verður kort sem sýnir hæðarvik 500 hPa-flatarins í desember til febrúar. Dreifing vikanna segir eitthvað um meðalstyrk og stefnu háloftavinda í þessum mánuðum.

w-blogg100918ia

Við sjáum hér hluta norðurhvels jarðar. Litafletirnir sýna vikin - gulir og brúnir litir eru svæði þar sem búist er við jákvæðum hæðarvikum, en á þeim bláu eru vikin neikvæð. Þó vikin séu í raun ekki stór verða þau samt að teljast nokkuð eindregin. Spáð er öllu flatari hringrás heldur en að meðaltali - vestanáttin við Ísland og fyrir sunnan það öllu slakari en algengast er. Háþrýstisvæði algengari norðurundan en vant er - og lægðabrautir fremur suðlægar - inn yfir Suður-Evrópu fremur en yfir Ísland og Noregshaf. Norðaustanáttir að tiltölu algengari en suðlægu og vestlægu áttirnar. 

En jafnvel þó spáin rætist er rétt að hafa í huga að hún tekur til þriggja mánaða og sá tími felur ótalmargt. Aðrar upplýsingar frá reiknimiðstöðinni gefa t.d. til kynna að þetta mynstur nærri Íslandi verði hvað eindregnast í janúar. 

Hringrás á okkar slóðum hefur verið býsna sveiflukennd síðasta áratuginn. Við teljum 2009/2010, 2012/2013, 2013/2014 og 2015/2016 til austanáttarvetra (miðað við desember til febrúar), en 2011/2012, 2014/2015 og 2017/2018 til vestanáttarvetra, 2009/2010, 2010/2011 og 2017/2018 hölluðust heldur til norðurs, en 2016/2017 til suðurs. Verður komandi vetur austan- OG norðanáttavetur eins og 2009/2010? Hringrásin var gríðarafbrigðileg þann vetur og á ritstjóri hungurdiska fremur erfitt með að ímynda sér að slíkt endurtaki sig nú. Enda hafa vikin á kortinu hér að ofan ekki roð í það. 

Árstíðaspár af þessu tagi eru algjör tilraunastarfsemi og lítt martækar, en merkilegt verður að telja rætist þessi - sérstaklega vegna þess að hér er veðjað á allt annað veðurlag en ríkt hefur undanfarna mánuði. 


Fellibyljatími

Nú er fellibyljatíminn í hámarki á Atlantshafi. Fellibyljamiðstöðin í Miami hefur nú þrjá hitabeltisstorma/fellibylji í meðferð og þarf að auki að fylgjast með minniháttar hroðasvæðum þar sem eitthvað gæti stokkið af stað. Við skulum líta á innrauða mynd frá því í kvöld (sunnudag) sem sýnir þau kerfi sem nú eru virk.

w-blogg100918a

Fellibylurinn Florence mun næstu daga nálgast austurströnd Bandaríkjanna og mun óhjákvæmilega verða mikið í fréttum. Enn er fullsnemmt að segja hversu mikið verður úr og hvar. Ísak er vaxandi kerfi - við að ná styrk fellibyls. Að meðaltali liggur fellibyljafjandsamlegt háloftavindabelti til austnorðausturs og norðausturs frá Antilleyjahorninu. Þegar Florence fór í gegnum það tættist kerfið að nokkru í sundur og missti verulega styrk um stund - en er nú að ná sér á strik aftur eftir að vera komið í gegn um vindinn. Ísak mun líka lenda í erfiðleikum - deyr jafnvel alveg lendi hann inni í því - hann er minni um sig heldur en Florence var. Kannski fer hann sunnan við þetta svæði - vestur um Antilleyjar hinar minni og inn á Karíbahaf. Þar eru líka erfiðleikar, en ljóst er þó að mjög verður fylgst með þróun hans. Þetta er ekki ósvipuð leið og hinn illvígi Harvey fór í fyrra - strögglandi mestallan tímann nafnlaus milli lífs og dauða allt inn á Mexíkóflóa þar sem hann loksins náði sér á strik svo um munaði. 

Svo er það fellibylurinn Helene sem á myndinni er suður af Grænhöfðaheyjum - nokkuð stórt kerfi. Spár um hreyfingar þess eru nokkuð út og suður, en þó aðallega þannig að braut þess liggi austar en hinna tveggja og lendi um síðir vestan Asóreyja og rekist þar á heimskautaröstina - en hún er mjög fjandsamleg fellibyljum - en getur notað þá sem orkuríkt viðbit á brauðið. Helene þarf þó líka að fara í gegn um háloftavindabeltið fjandsamlega.

Síðan fylgist fellibyljamiðstöðin með hroðasvæði undan ströndum Mið-Ameríku. Ekki er á þessari stundu reiknað með því að það breytist í fellibyl - en allur er samt varinn góður - að sögn miðstöðvarinnar. 

Þó fellibyljir sem slíkir komist aldrei til Íslands gera leifar þeirra það stundum - og alloft fáum við rakasendingar tengdar hitabeltiskerfum eða hroða alla leið til okkar - stundum verulega rigningu. Sömuleiðis á hið mikla rakauppstreymi hvarfbaugskerfanna það til að breyta bylgjumynstri heimskautarastarinnar. Það er þess vegna alltaf rétt að gefa þessum kerfum auga - jafnvel héðan af norðurslóðum. 


Af árinu 1899

Árið 1899 telst fremur kalt og umhleypingasamt. Mikil snjóþyngsli virðast hafa verið sums staðar norðanlands og austan, og syðra var mikið rigningasumar. Samt lagði árið í heild sig ekki mjög illa og ekki virðist hafa verið mikið um illviðri sem náðu til landsins alls. Meðalhiti í Reykjavík var 3,5 stig, miklu lægri en við höfum átt að venjast á þessari öld, en ekki ósvipað og 1981 og 1983. Ársmeðalhiti á Akureyri reiknast 2,1 stig. Hitatöflur fleiri stöðva má finna í viðhenginu.

Aprílmánuður var mjög kaldur á landsvísu, sá kaldasti frá 1882, janúar, mars, september, október og nóvember voru einnig kaldir. Júní og ágúst teljast hins vegar hlýir, sá síðarnefndi sá hlýjasti frá 1880 og jafnhlýr ágúst kom ekki aftur fyrr en 1931 - en hlýindunum fylgdi mikil bleyta syðra - og voru júní og júlí einnig í blautasta lagi suðvestanlands. 

Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal 7.águst, 24,8 stig. Trúlega er þessi tala ívið of há, en næsthæsti hitinn mældist á Akureyri þann 12.júní 23,6 stig. Frost mældist mest í Möðrudal 22.janúar, -30,2 stig. 

arid_1899t

Myndin sýnir hæsta hita og lágmarkshita hvers daga í Reykjavík á árinu 1899. Eins og sjá má er sumarið nokkuð klippt og skorið. Frost var nánast á hverri nóttu út apríl og snögglega kólnaði upp úr miðjum september - enda varð alhvít jörð að morgni þess 22. Mikill kuldi var um stund fyrri hluta nóvember - en mildara eftir það. 

Ritstjóri hungurdiska leitaði að sérlega köldum dögum í Reykjavík og fann fimm - talsvert færri en algengast var á níunda áratugi 19.aldar. Þetta eru 19. og 21.janúar, 29.mars, 29.september og 5.nóvember. Þann 29.september mældist frostið í Reykjavík -4,8 stig það mesta sem vitað er um í þeim mánuði. Engir óvenjuhlýir dagar fundust. 

Úrkoma mældist 1058 mm á árinu í Reykjavík og 832 mm í Stykkishólmi. Á síðarnefnda staðnum varð ársúrkoman ekki aftur svo mikil fyrr en 22 árum síðar, 1921. Þann 11.ágúst mældist óvenjumikil úrkoma í Reykjavík, 46,5 mm. 

Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 11.desember, 946,4 hPa en sá hæsti 1044,8 hPa á Akureyri 17.mars. Norðanáttir voru óvenjuþrálátar í apríl, en suðlægar áttir mestallt sumarið. 

Hér að neðan verður farið yfir tíðarfar og veður ársins með aðstoð blaðafregna og veðurathugana. Ekki eru allar slysfarir tíundaðar - einhverjar sem ekki eru nefndar kunna að vera tengdar veðri. Mikið var um strönd erlendra skipa, óljóst hvort veður olli - hafa verður í huga að náttmyrkur voru mikil, vitar fáir og ljóslítið í landi.  

Bjarni Jónsson (frá Vogi) renndi yfir tíðarfarið í Skírni 1899:

Eftir nýárið var fannkoma mikil og hagleysur og fór þá þegar að bera á heyskorti. Skáru menn af heyjum í febrúar á einstaka stað. Því næst gerði stillur um tíma og vægt frost, en seint í febrúar hlánaði og kom upp jörð nokkuð svo. En brátt gerði aftur snjóa og hagleysur. Þó lagðist veturinn eigi jafnþungt á allstaðar. En i sumum sveitum tóku menn að kvíða heyskorti þegar i miðgóu. Þó fór nú heldur versnandi, því að um nokkurn tíma voru nú næðingar og kuldar og víða jarðbann. Hélst svo fram til sumarmála. Voru menn nú mjög svo að þrotum komnir með hey víðast hvar í norðvesturhéruðum landsins. Hafði þá verið innistaða í fullar 22 vikur. Einna harðast urðu Hrútfirðingar og Strandamenn úti. Ráku þeir fénað á beit suður í Borgarfjörð.

Litlu eftir sumarmál kom algerður bati og héldu menn fénaði sínum. Vorið var gott meðalvor og greri jörð vel. Grasvöxtur var því góður, en er fram að slætti dró, gerði vætur miklar og hélst svo lengi sumars. Varð nýting heyja því ekki góð, og brunnu töður manna á nokkrum bæjum á Suðurlandi og Vesturlandi. En veturinn næsti var mjög mildur fram til nýársins.

Janúar. Vond tíð og snjóþung framan af, en síðan skárri. Fremur kalt.

Ísafold segir frá snjóþyngslum í pistli þann 7.janúar:

Snjóasamt í meira lagi um þessar mundir. Illt að komast um jörðina og innistöður miklar. Austanpóstur, er lagði á stað 3.þ. mánaðar að morgni, eins og til stóð, sneri aftur við Elliðaárnar fyrir ófærð með hestana og fékk sér sleða og annan útbúnað til þess að komast þann veg yfir fjallið. Hinir póstarnir lögðu á stað daginn eftir og hefir ekki frést, hvernig þeim hefir reitt af. - Talað er, að bændur séu teknir til að skera af heyjum austanfjalls, og er það auðvitað betra nú en síðar.

Á Seyðisfirði var líka kvartað - Austri segir þann 10. og 23.:

[10.] Tíðarfarið er alltaf fremur óstillt og engar þíður til nokkurra bóta ennþá sem komið er og gengur því mikið upp af heyi fyrir búendum.

[23.] Veðráttan er nú á degi hverjum fremur hörð, frost töluverð og jarðbann yfir allt, svo langt sem til hefur spurst.

Líkt hljóð var í Þjóðviljanum unga á Ísafirði 16.janúar:

Síðan nýja árið hófst hafa gengið sífelldir stormar, og aftakaveður, útsynningsrosar fyrstu dagana, en síðan grenjandi norðan garður nú í fulla viku óslitið, enda þykjast elstu menn eigi muna jafn langvinna stormatíð, eins og verið hefir, síðan í síðastliðnum októbermánuði.

En sama blað segir þann 25. og 31. frá skárri tíð:

[25.] Alla næstliðna viku héldust hér vestra stillviðri og frost nokkur, suma dagana allt að 10 stig á R.

[31.] Þíðviðri og hlákur hafa haldist hér vestra, síðan síðasta nr. blaðsins kom út.

Þann 16.febrúar segir Fjallkonan frá skiptapa á Skagafirði, bátur úr Fljótum fórst þar í erfiðu veðri og með honum 8 menn. 

Febrúar. Víða nokkuð snjóþungt, en annars ekki óhagstæð tíð. Umhleypingar. Hiti í meðallagi.

Jónas Jónassen segir þann 4. (Ísafold]: „Undanfarna viku sólskin dag hvern“.

Austri lýsir tíð í þremur stuttum pistlum:

[10.] Tíðarfarið er nú allhart á degi hverjum og jarðlaust hér i firðinum.

[18.] Tíðarfarið hefir verið mjög umhleypingasamt nú undanfarandi, oftast stormur með krapaslettingi en hefir nú breyst til batnaðar.

[28.] Tíðarfarið er nú hið blíðasta á hverjum degi, sólskin og því nær vorveður, og því góð jörð komin upp allstaðar.

Þann 10.apríl segir Þjóðviljinn ungi frá slysförum um miðjan febrúar:

[Þrettánda] febrúar síðastliðinn varð úti vinnustúlka frá Héðinshöfða, er var á heimleið úr Húsavíkurkaupstað. — Hennar var leita farið 14.febrúar, og urðu þá tveir leitarmanna fyrir snjóflóði í gljúfragili einu við Köldukvísl, og beið annar þeirra, Bjarni bóndi Jónsson i Tröllakoti, bana af, en hinn meiddist að mun.

Bréf úr Öræfum, dagsett 13., birtist í Austra þann 28.:

Tíðarfar hefir verið óstöðugt og veturinn gjaffeldur. Góð hláka kom 25.janúar, svo að jörð varð alauð, en í dag er blotabylur, með ofsastormi og ef að frystir í þennan snjó, verður alveg haglaust.

Að vestan fréttist af norðanhrinum - og jarðskjálfta. Þjóðviljinn ungi segir frá.:

[6.] Veður var gott og stillt síðustu viku, uns norðanhrinu gerði aðfaranóttina 4.þ.m. Jarðskjálftakipp urðu ýmsir hér í kaupstaðnum varir við kl. 9-1/2 f.h. 31. f.m. — Jarðskjálfta þessa varð og vart á Langadalsströndinni, og víðar. [„Fjallkonan“ getur 2. og 8.mars um jarðskjálfta í Skagafirði og á Skaga 29.janúar og nokkra daga þar á eftir].

[16.] Tíðarfar. 8.—9. þ m. gerði hér norðanhrinu með talsverðu frosti; síðan haldist besta tíð, nema suðaustan ofsaveður og rigning í dag.

Tíðarfar hefur á Suðurlandi verið fremur stirt; snjókoma afar-mikil, og því illt að komast um jörðina. Bændur austanfjalls, að sögn, teknir að skera af heyjum. Það er auðvitað allrar virðingar vert, að fækka heldur fyrr en seinna peningi sínum, til að forða því er eftir lifir við hungri og hordauða; en frámuna ráðleysis heyásetning er það, að vera í sýn um voða staddur fyrir skepnur sínar þegar í desembermánuði, þótt vetur leggist nokkuð þungt að.

[25.] Síðan síðasta blað vort kom út, hefur verið fremur umhleypingasöm tíð. 20. og 21. þ.m. hélst suðvestan rokviðri og hláka, svo snjólaust varð að mestu hér í bænum. 22.sneri svo meira til norðanáttar með fannkomu nokkurri, og 23. hleypti á norðan dimmviðri.Í dag gott veður.

Þjóðólfur birti 10.mars bréf úr Árnessýslu, dagsett 21.febrúar:

Tíðin er nú ágæt og allstaðar komnir bestu hagar. Með þorrakomu var heyhræðsla orðin almenn og einstöku maður minn að skera lítið eitt af heyjum, en nú er vonandi, að hey verði yfirfljótanleg og fénaður vel fram genginn.

Dagskrá birtir þann 4.mars bréf úr Árnessýslu dagsett þann 28.febrúar:

Framan af vetrinum voru óvanalega miklir stormar og úrferð sitt á hvort, stundum ösku útsynningsbyljir; en annað veifið úrfellis-rigning og þessi hroða-veðrátta gekk allt fram yfir jól og var því allur fénaður kominn á gjöf hér i Árnessýslu víðast hvar um miðja jólaföstu. Um nýárið kyngdi niður snjó töluverðum, svo færð var hin versta um tíma, en með þorrabyrjun gerði þíðu góða, svo hagar komu nægir fyrir fénað manna, og er snjór því núna hér um bil allstaðar upptekinn, því tíðin er svo inndæl, sem orðið getur, einlæg hægð og blíða, aldrei neinn krassi, frost eða stórkostleg úrferð; af neinni átt. 

Fréttir voru einnig góðar úr Strandasýslu (sunnanveðri). Ísafold birti þann 11.mars bréf þaðan dagsett 28.febrúar:

Tíðarfar hefir verið mjög gott á þorranum; staðvíðri og bjartviðri oftast, en stundum mikil frost, allt að 15 stig á R. Hagar alltaf nógir og munu því heybirgðir vera nægar hjá öllum almenningi.

Þann 27.febrúar urðu töluverðir jarðskjálftar á Reykjanesi. Þjóðólfur lýsir þann 10.mars:

Jarðskjálftarnir 27. f.m. virðast hafa orðið einna snarpastir á Reykjanesskaganum. Í húsi vitavarðarins á Reykjanesi, Jóns Gunnlaugssonar, féll reykháfurinn og hrundi niður stigann, o.fl. upp á loftinu féll um koll, grjótgarður umhverfis túnið hrundi, og fleiri skemmdir urðu bæði á búshlutum og matvælum. Eigi skemmdist þó vitinn sjálfur til muna, nema tröppurnar við dyrnar sprungu frá, lampi brotnaði m. fl. Við Gunnuhver nálægt vitavarðarhúsinu kom sprunga í jörðina 200 faðma löng og rauk mikið úr. Fólkið þorði ekki að haldast við í húsinu og lá 2 sólarhringa í geymsluhúsi niður við sjó. — Bær einn í Kirkjuvogi í Höfnum, fremur hrörlegur, hrundi gersamlega, en fólk flúið úr honum áður. Jarðskjálfta þessara hefur orðið vart norður í Húnavatnssýslu og úr Miðdölum vestra er skrifað 27. f.m., að þar hafi komið allharðir kippir þann dag og daginn áður.

Þjóðviljinn ungi segir frá því þann 11. að jarðskjálftanna hafi orðið vart vestra og þann 25.mars getur hann þess að þeir hafi einnig fundist viða á Norðurlandi.

Þjóðólfur hrósar tíðinni í pistli 3.mars:

Veðurátta hefur verið ómunalega góð allan febrúarmánuð og síðari hluta janúarmánaðar, fyrst stillur og hægt frost, síðar þeyr með allmikilli úrkomu. Nú er veðuráttan aftur að spillast.

Mars. Óhagstæð og köld tíð með talsverðum snjóþyngslum, einkum fyrir norðan.

Þjóðólfur birti þann 7.apríl bréf úr Strandasýslu dagsett 6.mars:

Veturinn lagðist hér mjög misjafnt á. Víða til innfjarða með stórfenni og jarðleysum, en til útnesja mun því nær aldrei hafa tekið fyrir haga fyrri en nú fyrir þessi mánaðarmót. Hefur hann jafnað yfir allt með stórfenni; öðru hverju er að verða vart hér við töluverða jarðskjálftakippi þó mest bæri á þeim frá 26. til 28. febr. en þó hafa engir skaðar orðið hér að þeim það ég veit til.

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð þann 11.mars:

Sífelld norðanátt með fannkomu mikilli hefur haldist hér vestra síðastliðinn hálfan mánuð, en þó alltaf fremur frostvægt. Í gær frostlaust og milt veður.

Í Þjóðólfi 7.apríl er bréf úr Suður-Þingeyjarsýslu dagsett 12.mars:

Veturinn hefir allur verið veðurmildur til þessa; engin stórhríð hefir komið, sem heitið geti því nafni og örsjaldan teljandi frost. Þó gerði hart frost snemma í febrúar nokkra daga, undir 20 gráður í hásveitum og einn frostdag norðan seint í janúar — yfir 20.; þó hefur verið oft illt til jarðar, ekki sökum snjóþyngsla, því að snjór hefur lítill fallið hér í vetur, heldur vegna áfrera.

Þann 17.mars segir Þjóðólfur:

Veðurátta hefur verið afarstirð undanfarna daga: útsynningshríðar með hafróti allmiklu. Þilskipin, sem lögð voru út héðan fyrir næstliðna helgi, leituðu hafnar aftur og höfðu lítið eða alls ekkert aflað sakir illviðurs, og sum höfðu einnig bilast að mun. Nú er aftur komið frost, og hreinviðri og nálega öll fiskiskipin lögð út aftur.

Þjóviljinn ungi segir frá því að skiptapi hafi orðið frá Gerðum í Garði þann 28.mars. Fimm hafi farist. - Veðurs ekki getið. 

Þann 29.mars segir Austri að tíð hafi verið hörð síðustu dagana og all ísleg. 

Þjóðviljinn ungi segir sama dag frá því að að morgni þess 23.hafi skollið á ofsanorðanfrostgarður sem enn standi og bætir svo við: „Jarðbönnin hafa nú haldist hér vestra, síðan með góubyrjun, svo að skepnur fá hvergi snöp; kvarta þegar margir um heyleysi, einkum i útsveitunum hér við Djúpið, og eru sumir þegar farnir að afla korns handa fénaði sínum“.

Apríl. Óhagstæð tíð, en batnaði undir lok mánaðar. Talsverð snjóþyngsli. Mjög kalt.

Þjóðviljinn ungi segir frá því þann 25.maí að maður hafi farist í snjóflóði í Reykjafjarðarhlíð í Strandasýslu þann 1.apríl - flóðið bar hann á sjó út. 

Bréf úr Dýrafirði dagsett 5.apríl birtist í Þjóðviljanum unga 14.apríl:

Febrúarmánuð allan var oftast væg veðrátta, en jörðin þó viðast klædd sínum kalda vetrarstakki, þó að snöp væru fyrir skepnur á stöku stöðum. En frá marsbyrjun tók steininn úr, því að þrátt fyrir alla þá ótíð, sem gengið hafði, fannir og jarðleysur, frá því í nóvember, og allt til Pálsmessu, var marsmánuður langversti kaflinn á vetrinum, og æ því verri, sem lengra leið á: og um skírdag [30.mars] og langafrjádag var veðrið og fannkoman svo, að ekki varð skepnum gegnt, húsa, og víða varð engu vatnað. Á annan og þriðja dag páska var veður milt, og mjög frostlítið; en sú mikla fönn, sem á jörðunni er, sést ekki minnka, þó að eitthvað brái af, enda er loftið enn í dag þrungið af þoku og snævi.

Austri segir þann 8.: 

Tíðarfar er nú mjög snjóasamt á degi hverjum, og mesta ófærð komin í byggð og ennþá meiri á heiðum, svo nærri er ófært yfir að fara.

Þann 18.bætir Austri við:

Tíðarfarið er litlu betra en áður. Kyrrt veður síðustu daga og frost lítið. Snjóflóð hljóp fyrir skömmu á gufubræðsluhús Imslands kaupmanns á Fjarðarströnd og braut þau gjörsamlega niður. Þar eð allt er þar undir snjó ennþá, vita menn eigi hvort gufuketillinn er mikið skemmdur og geta þess vegna eigi metið skaðann.

Þann 10. segir Þjóðviljinn ungi:

Norðangarðinum, sem getið var i síðasta nr. blaðsins, slotaði í svip 30. f.m., en reif sig upp aftur daginn eftir, og hafa síðan haldist stöðug norðanveður og kafaldshríðir. Hafísinn telja menn nú að eins ókominn, og þykjast hafa séð hann 1—2 mílur hér út undan núpunum; nokkra hafísjaka rak og inn á Bolungarvík skömmu fyrir páskana, og er við búið, að fleiri komi á eftir, ef norðvestan veðrátta helst.

Þann 19. segir Þjóðviljinn ungi:

Stillviðri og frost allhörð öðru hvoru hafa haldist hér að undanförnu. ... Snjóþyngslin söm enn á jörðu, og heyvandræðin þar af leiðandi einatt að verða almennari hér við Djúp. — Fyrir sunnan heiðar, sérstaklega i Reykhóla- og Geiradalshreppum, eru og sögð mikil heyvandræði. — Horfir víða til stórra vandræða, ef ekki kemur bati úr sumarmálunum.

Mannskaði. 13. þ.m. fórst sexæringur úr Bolungarvík í fiskiróðri, og létust 3 menn. Veður var all-gott aðfaranóttina þess dags, og mátti heita. að almenningur reri þar úr Víkinni. Hélst og veður allgott, uns hvessa tók af norðvestri með full-birtunni. og sneri síðan til norðausturs, en varð þó eigi hvassara, en svo, að all-flestir drógu lóðir sínar.

Þjóðólfur birti 19.maí bréf af Fljótsdalshéraði dagsett 23.apríl: 

Aldrei sést neinn maður, því enginn hættir sér bæja milli fyrir ófærðinni, hvergi sést á dökkan díl, nema einstaka standklett, sem gnæfir upp úr gaddinum eins og draugur; allstaðar er jarðlaust svo að segja á öllu Héraði, nema ef vera skyldi eitthvert bragð inn í dölum. Og nú er komið sumar, hamingjan hjálpi öllum oss, maður þarf að líta i almanakið til þess að geta trúað því. Heyleysi er hér, því miður orðið mjög almennt, og þeir eru ekki fáir, sem eru alveg að þrotum komnir með hey, og útlitið er voðalegt, ef ekki gerir bráðan bata, sem þó ekki er mikið útlit fyrir enn. Heyleysið er svo almennt, að ekki getur verið um neina verulega hjálp að ræða, nema þá rétt fyrir einstaka mann. Þeir eru fljótt teljandi, sem eru aflögufærir. Veturinn hefir líka verið ákaflega gjafafrekur, því almenningur mun hafa átt óvenjulega mikil hey og þar eftir góð, eftir blessað góða sumarið í fyrra, en það þarf mikil hey til að geta þolað svo að segja sífeldar innistöður fyrir allar sínar skepnur frá jólaföstubyrjun og allt fram á þennan dag, eins og víða hefur átt sér stað, því óvíðast hefur verið hægt að nota jörðina neitt til muna, þó hún hafi verið til, sökum storma og illviðra. Nú er frost og bylur með degi hverjum; alltaf bætist við snjóinn og þarna ætlar maður lifandi að klárast úr kulda, því svo er orðið eldiviðarlaust manna á milli, að til mestu vandræða horfir.

Þjóðviljinn ungi segir enn frá hörkum þann 25.apríl:

Enn haldast sömu frosthörkurnar, og snjódyngjurnar einn samfastur skafl frá fjalli til fjöru, svo að hvergi sér auðan blett. Sumarið heilsaði oss 20. þ.m. með grimmdarfrosti (11 stigum á Reaumur), og síðan hafa frosthörkurnar haldist meiri og minni. — Þó hafa sjófrostin tekið út yfir, og æfi sjómanna vorra verið í kaldara lagi.

Hafísinn. Skipin, sem inn eru að koma, segja hafís hér með öllum norðvesturkjálkanum, og landfastan við Horn. — Bót er það samt í máli, að ísinn kvað vera mjög gisinn, mestmegnis hroðaís, svo að talið er víst, að strandbáturinn „Skálholt" muni hafa getað smogið norður fyrir.

Þreytuhljóð er í Ísafold þann 26.:

Sífeldar kuldanepjur á norðan undanfarnar vikur, hverja eftir aðra, með talsverðu frosti hér við sjóinn, hvað þá heldur til sveita, en snjókoma lítil. Enda hjarn yfir allt til fjalla og um uppsveitir. T.d. segir maður hér á ferð ofan úr Norðurárdal, að hvergi sjáist þar á dökkvan díl. Jörð mjög hæst og rykborin, þar sem hún er auð, og því gagnslítil til beitar. Hefir veturinn verið yfirleitt býsna-gjaffeldur, einkum síðan er á leið, og heyþrot fyrir dyrum ekki óvíða. Ekki sagðar þó enn neinar hafísfréttir. Nú í nótt hefir loks brugðið til hláku og dálítilla hlýinda.

Frekari ísfréttir eru í Þjóðviljanum unga þann 29.:

Þrjá fyrstu dagana af þessari viku var hér norðangarður, en síðan stillt veðrátta, og jafnan frost nokkur. Hafísinn, sem liggur hér úti fyrir, spillti veiðarfærum nokkurra formanna í Bolungarvík, er lóðir áttu í sjó í norðanveðrinu síðasta. — Fjórir formenn, sem yst áttu, misstu gjörsamlega veiðarfæri sín, er þeir höfðu orðið að hleypa frá í byrjun garðsins; og auk þess sópaði ísinn burtu nokkurum duflum. — 22. þ.m. í byrjun garðsins var ísinn kominn inn á djúpmið Bolvíkinga, inn á svo nefnda „Hnúa", og sá þá hvergi út yfir ísbreiðuna; en síðan kvað ísinn hafa lónað eitthvað frá.

Fjallkonan segir frá því 10.maí að allmikill hroði af hafís hafi verið við Hornstrandir um mánaðamótin og við hafi legið að „Skálholt“ hafi ekki komist í gegn. Í sama blaði er sagt frá því að flöskuskeyti frá pólfaranum Andrée hafi fundist á hafísjaka á Melrakkasléttu. Þann 1.júní er sagt að flaskan með skeytinu hafi fundist í Kollafirði á Ströndum. 

Maí. Hagstæð tíð. Hiti í meðallagi.

Ísafold segir frá tíð þann 3.maí:

Loks brá til bata á helginni sem leið, leysinga og sæmilegra hlýinda. Nær batinn vonandi yfir land allt. En vont að vita að svo stöddu, hvað mikið og fljótt hann vinnur á norðanlands og vestan, þar sem alt mun hafa verið undir hjarni mjög víða. Og annað hitt, hvort eigi hefir verið þegar búið áður að farga töluverðum fénaði sumstaðar, þar sem hann var í bláberum voða.

Austri segir líka frá bata í pistli þann 10.maí:

Tíðarfarið er nú hið inndælasta allt frá byrjun þ.m., og sól og sumar á degi hverjum, og ágæt jörð upp komin.

Þjóðólfur segir frá batanum í pistli þann 12.:

Það sem af er þessum mánuði hefur verið mesta blíðviðristíð og mjög hlýtt í veðri, eins og þá er best er um hásumar. 7. þ.m. var t.d. 15 stiga hiti (Celsius) í skugganum. Er snjór nú leystur mjög úr fjöllum hér syðra. Þessi veðurátta hefur náð um allt land, að því er frést hefur, enda var þess víða full þörf, að um skipti, því að annars hefði fénaður manna verið í voða staddur. 

Í sama tölublaði Þjóðólfs er bréf úr Árneshreppi - ódagsett, en ritað einhvern fyrstu dagana í maí:

Síðan um góukomu hefur hver snjódyngjan hlaðist á aðra, svo að öll sveitin má heita undir einum jökli, og segjast elstu menn ekki muna aðra eins fannkomu. Allstaðar má heita sama sem heylaust, svo að skepnur eru víða í voða; hefur þó nokkuð hjálpað, að vörur komu hér á Reykjarfjörð með „Thyru“ til J. Thorarensen kaupmanns, en mikið eru þær nú samt farnar að minnka, því að kaupmaður hefur lánað mestallt út handa mönnum og fénaði. Sumarið heilsaði okkur hér með 12 stiga frosti, og blindsnjóhríð á norðan. Fyrsti dagur í dag frostlaust, 3 stiga hiti um hádegi. — Tvisvar hafa 3 áttæringar róið til hákarls og munu hafa fengið 20-26 tunnur lifrar hvor. — Hafís hefur ekki verið hér fyrir landi að neinu ráði.

En það kólnaði aftur, Ísafold segir þann 13. að veðrátta sé að stirðna aftur. Hvasst sé á norðan með uppgangi og næturfrosti.

Austri segir þann 20.:

Tíðarfarið hefir oftar þessa viku verið mjög kalt og jafnvel snjóað töluvert, og er þetta mikið bagalegt fyrir sauðburðinn, sem nú er að byrja, og hætt við töluverðum lambadauða, ef þessu heldur áfram.

Ísafold segir frá tíð þann 27. og 31. Minnst er á Andrée sem nú er frægur fyrir óheillaferð á loftbelg í íshafinu.

[27.] Veðrátta fremur köld og hráslagaleg. Þó farinn að koma nokkur gróður. Sauðburður gengið allvel, vegna þurrviðra þá framan af. Norðanlands, þar sem útlit var næsta ískyggilegt mjög víða um sumarmálin, hefir ræst úr vonum framar, með því batinn var gagngjör, þegar hann kom loksins. Bændur hafs lógað þar nokkurum stórgripum á stöku stað, til þess að geta eitthvað líknað sauðskepnunum. Frekari skepnumissi von um að hjá verði komist þar yfirleitt.

[31.] Hlýindi lítil enn, nema þó helst í gær og dag. Gróður fer mjög hægt. Maðurinn, sem að norðan kom nú á helginni með skeytið frá Andrée, segir býsna-kalt þar, í Strandasýslu og Húnavatns vestanverðri, og lambadauða talsverðan; ær fæða illa, vegna megurðar, og ekkert strá til að hára þeim.

Júní. Hagstæð tíð, en nokkuð úrkomusöm á Suður- og Vesturlandi. Fremur hlýtt.

Austri segir þann 9.júní að tíðarfar hafi síðustu daga verið mjög milt og mikið hafi tekið upp af snjó og jörð grænkað. Þann 15. segir blaðið að hiti og sólskin sé á degi hverjum. Ísafold segir þann 14. að stórrigningar séu syðra, en hlýindi heldur lítil. Þó spretti sæmilega. 

Heldur óhagstæðari tíð var vestra. Þjóðviljinn ungi segir frá:

[7.] Norðanhrinu gerði hér 3. til 5. þ.m., og snjóaði þá ofan í mið fjöll, og hefur síðan haldist norðan kalsa-veðrátta.

[15.] [Þ.] 9.-10. þ.m. voru hér vestra ofsarosar og rigningar, og síðan tíðast vestanstormar. Aurskriða féll hér úr Eyrarhlíðinni aðfaranóttina 11. þ.m., braut túngarða, og spillti stórum lóðarblettum þeirra Guðbjartar Jónssonar beykis og Erlendar snikkara Kristjánssonar í svonefndum Sauðakrók hér i kaupstaðnum. Sýnist því óhjákvæmilegt, að bæjarfélagið hlaupi undir bagga, og reyni á einhvern hátt að tryggja eignir manna í Sauðakróknum gegn slíku ofanfalli.

[24.] Vestanrosarnir héldust til 19. þ.m., en þá sneri til þurrviðra og hægrar norðanáttar, sem haldist hefur síðan.

[30.] Tíðarfar jafnan milt. og gróðrarveðrátta ágæt að undanförnu, svo að útlit er fyrir, að grasár verði í betra lagi.

Þann 10.júní birtist fréttapistill um Golfstrauminn í Fjallkonunni:

Stríðið milli Bandaríkjanna og Spánar hefir stórum æst metnaðargirnd Ameríkumanna. Ameríka er orðin að hernaðarríki engu betra enn gömlu konungsríkin í Evrópu. Bandamenn eru að reyna að vinna Filippseyjar, sem fara þó ekki fram öðru enn því, sem þeim er heimilt, samkvæmt sjálfstæðisuppkvæði Bandaríkjanna frá, 1776. Enn Bandamenn láta sér ekki nægja með Kúbu og og Filippseyjar. Síðasta ráðabrugg þeirra er ekki minna enn það, að veita Golfstrauminum gegn um Floridaskaga og fá strauminn þannig til að renna meðfram austurströnd Ameríku. Afleiðingin af þessu fyrirtæki mundi verða sú, að veðrátta kólnaði stórkostlega í Norður-Evrópu, mest þó í Englandi, Noregi og á Íslandi. Það er sagt, að nægilegt fé sé fengið til fyrirtækisins, og að byrjað verði á því svo fljótt sem unnt er.  En það er bót í máli, að talið er víst, að ef Ameríkumenn byrja á þessu verki, taki Evrópumenn í taumana og boði þeim óðara stríð á hendur, en þó Ameríkumenn séu miklir fyrir sér, mega þeir ekki við stórveldunum í Evrópu, ef þau eru samtaka.

Júlí. Votviðri í flestum landshlutum, en þó góður þurrkur á Austfjörðum síðari hlutann. Fremur hlýtt.

Þann 15.júlí birti Ísafold bréf úr Strandasýslu (miðri) dagsett 7.júlí. Segir þar af vortíðinni þar um slóðir:

Það var víst um aðra sumarhelgina, er snjóbreiðan mikla tók til að þiðna, sem ég skrifaði siðast. Batinn var góður og hagstæður á aðra viku, en ekki var það fyrr en að hlákan hafði staðið í fulla viku, sem hnottar fóru að koma upp hér, svo að þegar kuldarnir fóru að koma aftur í miðjum maí, var hér sem kallað er aðeins rimasnöp. Féð varð að vaða á kviði yfir krap og skafla til þess að komast á milli hólmanna, sem upp úr stóðu, og þá var byrjaður sauðburður. Ekki minnsta gróðrarnál, og grænu stráin, sem komu undan gaddinum, dóu út jafnóðum. Þessu lík var tíðin fram um fardaga, norðan froststormar og vestan krapaillviður.

Ísafold segir frá óhagstæðri tíð þann 8.:

Veðrátt mjög óhagstæð, - sífeldir óþurrkar og óhlýindi. Mestu vandræði með þurrk á eldsneyti og fiski. Sláttur vart byrjaður víðast, svo að þar gætir eigi óþurrkanna að svo stöddu.

Svipaður tónn er enn í blaðinu þann 22.:

Stakasta ótíð enn. Sífeldir óþurrkar, því nær óminnilegir. Eldiviður óhirtur enn mjög víða, hvað þá annað.

Jónas segir:

[22.] Stöðug óþurrkatíð. Það sem af er þessum mánuði hefir rignt annaðhvort mestallan daginn eða part úr degi 12 daga.

[29.] Óvenjuleg óþurrkatíð; hinn 26. var hér sólskinsdagur, en síðan aftur óhemjurigning h.27.; hægur í dag 28., en rigning af suðri. 

Austri segir þann 31. frá góðri tíð eystra:

Tíðarfar hefir nú verið um tíma hið besta, hitar og þurrkar nálega á hverjum degi.

Ágúst. Votviðrasamt um mikinn hluta landsins, einkum þó síðari hlutann. Hlýtt.

Ísafold birti þann 30.ágúst bréf úr Húnavatnssýslu dagsett þann 14:

Tíð hefir verið hér yfirleitt heldur góð, grasvöxtur í betra lagi, nokkuð rakasamt. Þó hafa menn almennt náð töðum sínum óskemmdum allstaðar, það ég veit. Þrjá fyrstu dagana af ágúst var hér besti þurrkur og þá hirtu menn að orfum. Sunnudaginn og mánudaginn seinasta júlí rigndi hér óttalega og kom vöxtur í Miðfjarðará næstum eins og á vordag í leysingu.

Austri segir þann 9. að tíðarfar sé gott, en nokkrar þokur séu úti fyrir. Þann 21. segir enn af hagstæðri tíð eystra og að hitar séu oft miklir (því miður eigum við ekki hitamælingar frá Seyðisfirði frá þessum tíma). En þann 31. segir blaðið frá því að tíð sé orðin óstillt og votviðrasöm. 

Þann 5. segir Þjóðviljinn ungi:

Sífelldar rigningar og dimmviðri héldust hér til loka júlímánaðar, og skipti fyrst um tíð 1. þ.m.; hafa síðan haldist góðviðri og þurrkar, uns í dag er dimmviðris þoka.

Að morgni þess 11.ágúst mældi Björn Jensson veðurathugunarmaður 46,5 mm sólarhringsúrkomu í Reykjavík. Um það skrifar Ísafold þ.12.:

Mesta rigning sem hér munu vera dæmi til, var í fyrrinótt. Rigndi þar næstan sólarhring, fimmtudaginn og nóttina eftir, 46,5 mm eða hátt upp í 2 þumlunga. Hefir aldrei rignt neitt nálægt því öll þau 12 ár, er adjunkt Björn Jensson hefir haft hér veðurathuganir fyrir veðurfræðistofnunina í Kaupmannahöfn. Kvað þykja tíðindum sæta, ef annað eins rignir nokkurstaðar á jarðarhnettinum, þótt við beri stöku sinnum, að jafnvel meiri ósköp dynji úr loftinu í heitu löndunum.

Fyrir rúmum hálfum mánuði mældi adjunkt B.J. vatnsmegnið [svo] hér í læknum í bænum og taldist hann bera þá fram 7000 tunnur af vatni á klukkustund. Þá rigndi þó ekki nema til hálfs á við það, sem gerðist í fyrrinótt eða sólarhringinn þann, sem sé 24 mm.

Svo vill reyndar til að þrjár hærri sólarhringsúrkomutölur eru á skrá úr Reykjavík á mælitíma Björns. Skýringin er trúlega sú að þá hafi úrkoman annað hvort verið snjór að hluta - eða þá í raun heildarúrkoma tveggja eða fleiri daga. Öll tilvikin þrjú urðu að vetrarlagi og snjór þess vegna hugsanlegur og í öllum tilvikum var engin úrkoma skráð daginn áður. Snjór var oftast áður fyrr mældur í sérstakan mæli. Nokkuð mál er að skera úr um hvor skýringin á við - og lætur ritstjóri hungurdiska þá vinnu bíða betri tíma.

En Þorsteini Jónssyni athugunarmanni í Vestmannaeyjum þótti ekki sérlega mikið til þessarar úrkomu koma - segir þetta í bréfi í Ísafold þann 30.ágúst:

Í Ísafold 12. þ. mán. er getið um hina afarmiklu rigningu 10. og aðfaranótt 11., og er að maklegleikum talin með mesta úrfelli á einum sólarhring. Ég hef athugað hér úrkomu í 19 ár, og hefir hún á því tímabili 7 sinnum verið enn meiri en hún var þennan sólarhring í Reykjavik. Hér á eftir set eg ár og daga á téðu tímabili, þá er úrkoman hefir farið fram úr 35 mm á sólarhring. [Við sleppum þeirri töflu, en látum þess getið að hæsta tala hennar er frá 14.mars 1886, 62,6 mm (snjór) og sú næsthæsta 59,4 mm sem mældist 11.október 1888]. 

Að morgni þess 11. mældist úrkoma í Vestmanneyjum 40,0 mm og 52,3 mm á Eyrarbakka. Þann 20. mældist úrkoman á Eyrarbakka 65,2 mm. 

Þjóðólfur segir þann 25. frá rigningatíð:

Óþurrkatíð afarmikil hér á Suðurlandi: sífelldar stórrigningar og rosaveðurátta, sem á haustdegi; stytti dálítið upp í næstliðinni viku og gerði þurrk 3-4 daga, er kom víða að góðum notum, en hvergi nærri til hlítar, því að vatnið var orðið svo mikið á útengjum. Á Norður- og Austurlandi hefur veðurátta verið miklu hagstæðari, og eins á Vesturlandi mun betri en hér. Horfir til stórmikilla vandræða, ef ótíð þessi helst lengi úr þessu.

September. Óstöðug tíð framan af, en síðan stilltari og bjartari syðra. Kalt.

Blöðin eru ekki margorð um tíðina í september en Austri segir þó í pistlum:

[11.] Tíðarfarið alltaf mjög óstillt og votviðrasamt og liggur bæði fiskur og hey nú undir stórskemmdum.

[21.] Tíðarfar fremur kalt og óstöðugt, en rigningar nokkru minni, svo bændur munu þó nú víðast hafa náð heyi sínu í garð, en sumstaðar nokkuð skemmdu.

[30.] Tíðarfar mjög kalt og rosasamt og snjór fallinn nokkur alveg ofaní byggðir.

Þjóðviljinn ungi telur tíð þar vestra þrátt fyrir allt skárri en sunnanlands í pistli sem birtist þann 18.september:

Í þ.m. hefur tíð alloftast verið fremur kalsasöm, og sólskins- og þerrirdagar fáir. Grasspretta var hvívetna ágæt hér vestra í sumar, svo að almenningur mun sjaldan hafa búið betur að heyjum en nú. - Þrátt fyrir óþerrana munu og hey óvíða hafa orðið  fyrir skemmdum, enda kvað mun minna að óþerrunum hér vestra, þótt slæmir væru, en i sumum sveitum á Suðurlandi.

Jónas segir þann 23.: „Undanfarna viku oftast verið við vesturútnorður, við og við með regnskúrum, oft hvass og bjart sólskin. Í dag (22.) snjóhríð hér í morgun, svo jörð hvítnaði, og er það mjög óvanalegt hér um þetta leyti“. Úrkoma - sem talin var snjór mældist 8,4 mm að morgni 23. - Síðan kom vika án þess að úrkoma mældist. 

Ísafold birti þann 7.október bréf úr Skaftártungu, dagsett 23.september:

Þetta sumar hefir verið gott. Því hefir tekist að gera flestum til hæfis, sem er þó sjaldgæft hér, eins og víðar í veröldinni. Veðrátta hin besta. Vætusamt fremur fram að slætti; síðan hagstæðir og nægilegir þerrar. Grasspretta varð í besta lagi; þó sérstaklega á túnum og harðvellisjörð. Heyfengur almennt með mesta móti og allt hey grænt og gott. Jarðarávöxtur mun víðast vera í meira lagi. Garðarækt — einkum jarðepla — annars minna stunduð en mætti vera og æskilegt væri. Sagt, að hún geti ekki vel gefist, vegna vorharðinda. Virðist það þó við rýra reynslu styðjast og sannanir ónógar — þess fremur, sem sumum mönnum misheppnast sjaldan með sína garða. Jarðabætur eru i smáum stíl. Óviða þarf að slétta tún hér; þau eru svo að kalla allstaðar eggslétt frá náttúrunnar hendi. Lítið er gert að túngarðahleðslu; má þó sumstaðar sjá merki þess, frá eldri tíð, að forfeðrunum hefir þótt það til vinnandi. Því miður er útlit fyrir, að þau merki ætli að verða endurminningar einar.

Þjóðólfur birti þann 20.október bréf úr Rangárþingi, dagsett 24.september:

Héðan úr sýslunni er fátt að frétta; tíðarfar fremur stirt og heyskapur þar af leiðandi fremur slæmur hjá mörgum. Þeir einir hafa heyjað vel, sem haft hafa þurrlendar slægur, sumir jafnvel aldrei annað eins.

Október. Óstöðug tíð, einkum eftir miðjan mánuð. Fremur kalt.

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð þann 6.:

Eftir september miðjan tók tíðin að gjörast all-kuldaleg, og fjöllin að klæðast í vetrarskrúðann. - Í byggð fennti þó eigi að mun, fyrr en 22. september, er jörð gerði alhvíta. Frost hafa og vorið hér nokkur öðru hvoru, og norðan hvassviðri, en síðustu dagana sól og sumar.

Austri segir þann 9. frá óstilltri tíð og vindasamri, en ekki hafi verið kalt að jafnaði og snjór tekinn upp að mestu. Þann 19. segir blaðið frá mildari tíð og landáttum og snjór sé að mestu horfinn. En jafnframt þó að fyrsti hauststormurinn hafi gengið yfir aðfaranótt 18. og hafi verið snarpur á Vestdalseyri og úti í firðinum, en ekki sé vitað af tjóni. 

Þann 20.október birtir Þjóðólfur bréf úr Dalasýslu dagsett þann 11.október:

Tíðin er fremur köld og frostasöm, svo að erfitt er að stunda útivinnu, hvort heldur eru húsabyggingar eða jarðabætur, en samt hefir nú í hálfan mánuð mátt oftast heita gott veður.

Þjóðviljinn ungi segir þann 14. frá haustlegri veðráttu, stinnum norðangarði 9. til 12. en síðan snjóum og kaldri veðráttu, „uns hlánaði í dag“. Þann 25. segir blaðið enn frá óstöðugri tíð, ýmist frosti og snjó eða vestan rosum. 

Það var 13. til 14. október sem gríðarlegur mannskaði varð í Vestur-Noregi. Þá fórust 60 til 80 bátar og um 300 manns í miklu illviðri. (Ísafold 3.janúar 1900). 

Nóvember. Rysjótt og köld tíð með talsverðum snjó með köflum.

Austri segir þann 11. frá stirðri og snjóasamri tíð að undanförnu, en bætir við „í dag er frostlaust og rigning töluverð“. Þann 21. hefur brugðið til betra, „Tíðarfar hefir nú í meira en viku verið mjög blítt og snjó tekið mikið upp, bæði hér í Fjörðum og í Héraði, og víðast komin upp góð jörð“.

Ísafold segir frá því 11.nóvember að tíð hafi verið óstöðug og köld á Melrakkasléttu í haust og frosthríðar í miðjum október. Síðan segir af heyskap syðra:

Heyskapur varð með meira eða mesta móti hér sunnanlands í sumar, áður lauk, ... en nýting slæm og heyin því rýr og skemmd. En því austar sem dregur, því betri hefir nýtingin orðið, og góð í Skaftafellssýslum.

Stefnir segir frá foktjóni í frétt þann 8.desember. Danska veðurstofan stóð þennan vetur fyrir norðurljósaathugunum við Eyjafjörð:

Í ofsaveðrinu 15. og 16. [nóvember] fauk hús það, sem norðurljósamennirnir létu reisa yfir á Vaðlaheiði, og fundust flekarnir úr því til og frá um heiðina. Mælt er að þeir félagar hafi helst við orð, að halda til upp á Súlutindi einhvern tíma seinna í vetur.

Þjóðólfur hrósar tíð þann 24.:

Veðurátta er nú hin hagstæðasta, hæg úrkoma og hlýindi í veðri, jörð alauð og marþíð. ... Á Patreksfirði rak 2 fiskiskútur á land 16. þ.m. í ofviðri.

Heldur síðra hljóð er í pistlum Þjóðviljans unga á Ísafirði:

[10.] Frá byrjun þ.m. hefur viðrað mjög stirt, all-oftast norðangarðar, frost og snjóhret.

[18.] Um síðustu helgi breyttist veðráttan til suðvestanáttar, og 14. til 17. þ.m. var aftaka suðvestan rok, og þá ýmist hellirigning eða haglél og kafaldsbleyta.

[29.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hafa all-oftast verið frost nokkur og norðan hvassviðri og fannkomur öðru hvoru. Hafísinn mun nú vera örskammt hér útundan vesturkjálka landsins, því stöku jakar hafa komið inn i Djúpið.

Ísafold birtir ódagsett nóvemberbréf úr Árnessýslu þann 13.desember, þar er lýst heyskaparlokum þar um slóðir:

Sumarið, sem leið, var að sumu leyti eitt hið langerfiðasta, sem menn muna, einkum i neðra hluta sýslunnar. Á votengisjörðum var slátturinn mjög erfiður; í sumum sveitum
urðu stöku menn algjörlega að hætta slætti um lengri eða skemmri tíma; stafaði það af vatnsfyllingum, sem allt færðu i kaf. Á endanum rættist samt furðanlega úr heyskapnum að vöxtum til; um og eftir réttir kom þerrir og náðu þá allir heyjum sinum. En misjafnlega munu þau verkuð, ýmist mygluð, hálfbrunnin eða drepin og fúin; mun varlegra að setja á þau með gætni.

Þann 30. desember segir Þjóðviljinn ungi frá nokkrum skipströndum í nóvember:

Aðfaranótina 15. nóv. síðastliðinn strandaði suður í Grindavík gufuskipið „Rapíd", fermt salti og olíu til verslana Geirs Zoéga og Th. Thorsteinsen í Reykjavík. — Sömu nótt strandaði skonnertan „Málfríður" við Vatnsleysuströnd, fermd vörum til Duusverzlunar í Keflavík. Í ofsa norðanroki 7. nóvember síðastliðinn strandaði ennfremur gufuskipið „Tejo" á Siglufirði; rak skipið þar á grynningar, svo að steinar gengu upp um botninn, og hálf-fyllti skipið af sjó, en Ryder skipstjóri, og menn hans, björguðust á bátum að Haganesvík í Fljótum. — Gufuskipið „Tejo" var eign „Sameinaða gufuskipafélagsins", og var um 500  nettósmálestir að stærð. smíðað á byggingaverkstæði Burmeister og Wain's í Kaupmannahöfn 1891, og hafði kostað 320 þús. króna. — Skipið átti, sem kunnugt er, að flytja fisk til Liverpool, Spánar og Ítalíu, og munu alls hafa verið komin í það nál. 5 þúsund skipspund, svo að skaðinn er eigi all-lítill.

Desember. Nokkuð rysjótt syðra, en betra norðaustanlands framan af, en erfið tíð þar síðustu vikuna, en þá góð syðra. Hiti í meðallagi.

Austri segir þann 9. frá blíðri tíð á degi hverjum og þann 21. að tíðarfar hafi nú um langan tíma verið hið indælasta, stilling og blíða sé á hverjum degi. Síðan segir frá ofsaveðri sem gerði þann 12.:

Ofsaveður varð hér á Austfjörðum mánudaginn þ. 12. þ.m. er gjörði víða töluvert tjón. Þá fauk þak ofan af einu hólfinu í íshúsbákni Garðarsfélagsins, þá, fuku og þök af fiskiskúr og bátaskjóli á Dvergasteini, og járnþak af heyhlöðu í Stakkahlíð.- Og nokkrar skemmdir urðu líka Mjóafirði.

Jónas segir frá í Ísafold þann 16.:

Hefir verið við útsuður, oftast nær með snjókomu; h.11. var hér ofsaveður, af suðri-útsuðri með svörtum éljum, síðan hægur; í dag (15.) logndrífa og kyngdi niður snjó í morgun, komið regn um hádegið, hægur á austan.

Og þann 23.segir hann:

Hefir verið við útsuður, en við og við gengið til landsuðurs með mikilli rigningu og svo hlaupið aftur í útsuður með éljum, en þó hægur. Hér nú aðeins lítið föl; við það frostlaus jörð.

Þjóðviljinn ungi segir þann 6.desember: 

Tíðarfar hefur verið all-gott síðasta vikutíma, hæglætis veðrátta all-oftast og fannkoma nokkur öðru hvoru.

En þann 30.segir blaðið:

Síðan um miðjan þ.m. hafa gengið sífelldir suðvestan rosar og skipst á rigningar og kafaldshríðir. - Hafa veðrin oft verið aftakahörð, sérstaklega síðara hluta dags 21. þ.m., og nóttina næstu, enda fauk þá um koll hjallur einn hér i kaupstaðnum, og fjögramannafar brotnaði. — Á aðfangadaginn sneri þó til frosta og norðanáttar.

Austri segir sama dag:

Tíðarfarið hefir nú þessa síðustu daga verið mjög stirt, krapahríð á annan í jólum, en froststormur og snjókoma mikil síðan.

Ísafold segir þann 3.janúar 1900:

Norðanveður mikið var hér jólavikuna alla og rúmlega það, frá því á þorláksmessu og fram á nýársdag, bálviðri dag eftir dag, en frost lítið að jafnaði og snjókoma engin.

Þjóðviljinn ungi birti þann 6.febrúar 1900 bréf úr Inn-Djúpi. Þar segir frá hausttíðinni:

Í októbermánuði var ágæt veðrátta fyrir fénað, smáfelldir norðan vindar, frost væg, fannkoma lítil, og stórrigningar engar, svo að búpeningur tók almennt góðum haustbata, og lömb voru eigi komin á gjöf í mánaðarlokin, og bráðadauða varð eigi vart. Eftir nóvemberbyrjun gjörði stórfelldar fannkomur, svo að víðast komu hestar, jafnt sauðfénaði, á gjöf, enda varð skepnum þá eigi komið frá húsum, vegna fanndýpi; og í desember komu smáblotar, og var þá víðast hvar haglaust, svo að á nýári mátti heita, að komin væri tveggja mánaða innistöðugjöf í miklum hluta innsveitanna hér við Djúp, einkum að vestanverðu.

Þann 24.febrúar 1900 birti Ísafold bréf af Snæfellsnesi sem gerir upp árið þar um slóðir:

Árið sem leið byrjaði með hreinviðrum, og var hér snjólitið fram á þorra. Þá hófust fannkomur miklar, sem héldust fram yfir sumarmál. Flestir urðu heylausir hér um pláss, og margir skáru skepnur sinar af heyleysi, mest í Eyrarsveit; fáir voru, sem gátu hjálpað öðrum um hey, en kaupmenn í Stykkishólmi lánuðu bændum mikið korn til fóðurs fyrir skepnur. Í veiðistöðunum undir Snæfellsjökli varð ágætur fiskafli bæði um vetrar- og vorvertíðina, frá páskum til hvítasunnu, 700 til hlutar mest. Eftir sumarmálin varð bátstapi í Ólafsvik, sem áður hefir verið getið í Ísafold. Maímánuður byrjaði með fremur hagstæðum bata, en þó féllu viða skepnur af hor og öðrum vanköldum. Unglambadauði mikill. Af þessum framantöldu ástæðum er landbúnaður hér í mikilli afturför; menn eru hér sokknir i miklar skuldir í kaupstöðum, sem að miklu leyti koma af lágu verði á öllum afurðum landbúnaðarins, og líka af því, að vinnufólk fæst ekki, nema fyrir langt um hærra kaup en var fyrir nokkrum árum, og margt fólk vill fá kaupið í innskrift hjá kaupmönnum. Allt vorið og sumarið var  mjög votviðrasamt fram til rétta; hröktust því víða hey, en grasvöxtur í mesta lagi, einkum á túnum og eyjum. Á réttum byrjuðu þurrviðri oftast við austanátt, fram til 10. nóv.; þann dag og næsta dag féll hér mikill snjór. Um það leyti lá úti tvær nætur kvenmaður frá Leikskálum í Haukadal, Guðný að nafni, fannst með litlu lífi, en hresstist þó. Í desember var óstöðug veðrátta, oftast frostvægt, en norðangarður um hátíðarnar. Góður afli undir Snæfellsjökli.

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um tíðarfar og veður ársins 1899. Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hæsti hiti í september á Stórhöfða?

Veðurnörd landsins hafa sjálfsagt rekið augun í það að í gær (miðvikudaginn 5.september) mældist hámarkshiti á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 17,1 stig. Þau vita væntanlega að þetta er hæsti hiti sem þar hefur mælst í september. Hæsti hiti til þessa í september á sjálfvirku Stórhöfðastöðinni var 16,3 stig sem mældust 16.september 2015. Hæsti hiti sem mældist á mönnuðu stöðinni á Stórhöfða var 15,4 stig þann 30. árið 1958. Sjálfvirka stöðin í Vestmannaeyjabæ mældi 17,4 stiga hámarkshita 16.september 2015 og er það enn hæsti septemberhiti sem mælst hefur í eyjunum.

Við fyrstu sýn virtist talan sem kom í gær, 17,1 stig hljóti að vera röng - og sá möguleiki er vissulega fyrir hendi. En lítum nánar á málið.

w-blogg060918-storhofdi-tx-a

Myndin sýnir hámarkshita hverra 10-mínútna á Stórhöfða (grátt) og í Vestmannaeyjabæ þann 5.september 2018. „Hitaskotið“ sést vel. Flestar truflanir á athugunum koma fram sem eitt stakt gildi, en hér er hámarkshiti ofan við 16 stig í hálfa klukkustund, þrjú tíu mínútna tímabil hvert á eftir öðru. Mjög hlýtt var líka á stöðinni í Vestmannaeyjabæ, en dagshámarkið þó ekki nema 14,7 stig.

Þrátt fyrir að hlýindin standi nokkurn tíma koma þau og fara nokkuð snögglega. Það sést vel á næstu mynd.

w-blogg060918-storhofdi-tx-b

Hér má sjá mismun á hámarks- og lágmarkshita innan hverra tíu mínútna sólarhringsins. Hitinn hrökk upp um 2,5 stig kl.19:20, féll nokkuð um hálfri klukkustund síðar og síðan aftur kl.21:10. 

Við lítum þvínæst á vindhraða.

w-blogg060918-storhofdi-tx-e

Hér má sjá að um kl.19 lægir mikið og um 19:30 er nánast logn. Þetta þýðir að hafi verið glampandi sól er alveg hugsanlegt að loft í mælihólknum hafi af hennar völdum hitnað meira en loftið umhverfis. En hversu hættuleg er sól mjög lágt á lofti að kvöldlagi í september að þessu leyti? - getur hún hafa truflað mælinguna? - Nú vitum við ekki einu sinni hvort sólin skein eða ekki. En framleiðandi hólkanna bendir á þennan möguleika sjálfur (eins og áður hefur verið fjallað um á hungurdiskum). 

En er einhver ámóta órói á öðrum stöðvum í nágrenninu um svipað leyti. Við lítum á Vestmannaeyjabæ og Surtsey á næstu tveimur myndum.

w-blogg060918-storhofdi-tx-c

Í Vestmannaeyjabæ er líka nokkur hitaórói þetta kvöld og hans gætir líka í Surtsey - en ekki eins mikið. 

w-blogg060918-storhofdi-tx-d

Það má telja ljóst að hér er ekki um einhverja skynjaravillu að ræða, en hugsanlegt er að bjart sólskin í stafalogni hafi valdið því að hiti inni í hólknum utan um skynjarann hafi orðið hærri en ella - og fullvíst má telja að hitinn hefði ekki mælst svona hár á kvikasilfursmæli í hefðbundnu skýli. Hlýindi í efri loftlögum voru ekki sérlega mikil - mættishiti í 850 hPa gæti þó hafa verið ámóta og mettalan (17 stig). Við komum því enn og aftur að spurningunni miklu: „Hvað er hámarkshitamet?“. Ætti að viðurkenna þessa mælingu sem hæsta hita sem nokkru sinni hefur mælst á Stórhöfða - eða ekki? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2018
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 107
  • Sl. sólarhring: 108
  • Sl. viku: 1856
  • Frá upphafi: 2348734

Annað

  • Innlit í dag: 97
  • Innlit sl. viku: 1627
  • Gestir í dag: 88
  • IP-tölur í dag: 88

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband