Einskonar umskipti?

Það sem af er mánuði hefur loftþrýstingur verið með lægra móti hér á landi (í 181.sæti af 197 - talið ofanfrá) - og líklegt að svipuð staða haldist áfram í tvo til þrjá daga. Reiknimiðstöðvar virðast hins vegar gera ráð fyrir því að þá taki þrýstingurinn á rás upp á við og að meðalþrýstingur næstu viku verði hár, jafnvel yfir 1020 hPa. 

w-blogg131118a

Myndin sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir vikuna 19. til 25.nóvember. Að sögn verður gríðarmikil hæð ríkjandi við norðanverðar Bretlandseyjar og beinir hún þá eindreginni sunnan- og suðvestanátt til landsins - með verulegum hlýindum suma dagana. Bandaríska veðurstofan er jafnvel enn meira afgerandi hvað þetta varðar - en kemur hæðinni miklu um síðir vestur til Grænlands (sem evrópureiknimiðstöðin er eitthvað hikandi með). 

Báðar miðstöðvarnar eru sammála um að kalt loft úr austri berist vestur um Evrópu - evrópureiknimiðstöðin sendir það reyndar alveg til Íslands (en slíkt gerist stöku sinnum) - en í spá bandarísku veðurstofunnar (í dag - þriðjudag) verður kalt loft að norðan hins vegar á undan austanloftinu hingað til lands. - En þetta er allt í óljósri framtíð - og kannski bara skemmtiatriði eins og langtímaspár eru oftast. 


Af árinu 1906

Árið 1906 var erfitt, sérstaklega vegna vorharðinda og hrikalegra slysa á sjó. Meðalhiti í Reykjavík var 3,9 stig, svipað og 1995 og 2,9 stig í Stykkishólmi, einnig svipað og 1995. Á Akureyri var meðalhitinn 2,0 stig - við þurfum að fara aftur til 1979 til að finna kaldara ár þar á bæ. 

Maímánuður var sérlega kaldur og febrúar, apríl, júlí, ágúst og desember einnig kaldir á landsvísu. Júní og september teljast aftur á móti hlýir - og má segja að þeir mánuðir hafi þó bjargað landbúnaði. Auk þess var síðari hluti ágústmánaðar víða hagstæður til heyskapar.

Hæsti hiti ársins mældist á Teigarhorni 16.júní, 21,2 stig, en lægstur mældist hitinn í Möðrudal á jóladag, 25.desember, -30,0 stig. Fjögur landsdægurlágmörk (byggð) standa enn frá 1906, áðurnefnt jóladagslágmark í Möðrudal, -3,3 stig sem mældust á Möðruvöllum þann 28.júní, -2,0 stig í Möðrudal 17.júlí og -5,0 stig í Holti í Önundarfirði 22.ágúst. Síðasta talan er reyndar talin nokkuð vafasöm - óstaðfestur grunur er um að lágmarksmælirinn hafi ekki verið í réttri hæð yfir jörð - lausn á því máli verður að bíða betri tíma. 

Ritstjóri hungurdiska veiðir 23 kalda daga í Stykkishólmi á árinu - sjá má lista yfir þá í viðhenginu. 

ar_1906t

Myndin sýnir daglegan hita í Reykjavík á árinu 1906. Sérstaklega er bent á vorkuldana og kuldakast sem gekk yfir um miðjan júlí.

Úrkoma var rífleg á árinu, september sérlega úrkomusamur. Á Teigarhorni mældist úrkoma 97,8 mm að morgni 24.júní - skriðuföll urðu þá á Austfjörðum. Heildarúrkoma mánaðarins þar var 116,1 mm - þannig að megnið af henni féll þennan eina dag. Þann 13.september komu 47,2 mm úr mælinum í Reykjavík, með því mesta sem þar er vitað um. Víða rigndi mikið þessa septembernótt, en gamall fellibylur kom sunnan úr höfum með miklum látum. 

ar_1906p

Myndin sýnir sjávarmálsþrýsting í Reykjavík að morgni dags árið 1906. Lítil festa var á þrýstingi fram undir miðjan mars - þá kom stuttur tími með rólegra veðri, en apríl var mjög órólegur og illviðri tíð. Þrýstingur var einnig óvenjulágur í júlí og fellibylurinn sem gekk yfir í september sést vel á línuritinu. Hann er merktur sem númer fjögur árið 1906 í skrám fellibyljamiðstöðvarinnar í Miami. Ritstjóri hungurdiska ritaði stutta grein um hann í tímaritið Veðrið 21.árgang, 2.hefti (það síðasta sem kom út). Meðalþrýstingur var með hæsta móti í maí. 

Á árinu mældist þrýstingur hæstur í Stykkishólmi þann 22.mars, 1045,8 hPa, og á sama stað 27.desember, 1044,6 hPa.

Lægsti þrýstingur sem mældist á árinu var 948,4 hPa, í Stykkishólmi þann 11.janúar. Það er vel hugsanlegt að þrýstingur hafi farið neðar aðfaranótt 13.september, en engar næturathuganir voru gerðar. Þrýstirit er þó til úr Reykjavík.

rvk_1906-09-13pi

Það hefur ekki verið borið nákvæmlega saman við mælingar. Þrýstingur hér á landi fer það oft niður fyrir þær tölur sem prentaðar eru á blaðinu að venja var í Reykjavík að stilla ritann þannig að það gerðist sjaldan. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki enn reiknað rétta færslu - en vel má vera að hér leynist langlægsti þrýstingur sem nokkru sinni hefur mælst í september á Íslandi - um 942 hPa. Við látum þó vera að lýsa yfir meti þar til málið hefur verið athugað nánar. 

Við látum nú fréttir blaða lýsa veðri ársins og þeim áföllum sem urðu. Stafsetning hefur víðast hvar verið færð til nútímahorfs en orðalag heldur sér. 

Skírnir (1906 - Björn Jónsson ritar): 

Tíðarfar. Vetrarþyngsli mikil norðanlands allt frá ársbyrjun og því næst vorharðindi áköf fram undir fardaga. Vægara í öðrum landsfjórðungum fyrstu vikurnar af árinu. Þorri snjóameiri en dæmi eru til 20-30 ár allstaðar, nema á Austurlandi; þar var vetur allgóður, miklar fannkomur aðeins um hríð á útmánuðum. Vorharðindin gengu um land allt, ýmist norðankólga eða hretviðri af öðrum áttum; hlýindadagar örfáir. Frost að vetrinum ekki áköf; syðra komust þau hæst í 12-13 stig (C.) á þorra, og 18 á góu. Frá fardagabyrjun og fram undir slátt var gæðatíð, skiptust á vætur og sólhlýindi. Júlímánuður mestur fremur kaldur og hryssingslegur; um hann miðjan bleytukafald um allt Norðurland 3 sólarhringa samfleytt. Austanlands snjóaði í hverjum mánuði upp frá því, og var stundum kafaldsbylur dægrum saman. Um hina landsfjórðungana var ágústmánuður blíður og hagstæður, og fyrri hluti septembermánaðar. Haustið rosasamt mjög. En þíður héldust fram um miðjan nóvember. Jólafastan snjóasöm heldur.

Búnaðarrit 1907 (Einar Helgason ritar)

Tíðarfarið á árinu var hið lakasta sem komið hefir síðan 1882, þótt afkoman yrði ekki eins slæm nú eins og þá. (s171)

(s158) Vetur frá nýári. Árið byrjaði vel um allt land; þíðviðri og blíða hélst fram undir miðjan janúar, eftir það var vetrartíðin fremur hörð, hagskarpt og gjaffellt, fram um jafndægur. Mátti það heita eðlilegt vetrarfar. Betur var þó yfir því látið í Ísafjarðarsýslu og í Þingeyjarsýslu, þar er veturinn talinn fremur góður, jarðir stöðugt og fjörubeit við sjávarsíðuna. Í Breiðdal í Suður-Múlasýslu er veturinn talinn einn sá besti sem komið hafi um mörg ár. Almennt var mars harðastur. Í Hornafirði voru hagleysur um 3 vikna tíma, í þeim mánuði, á bestu útbeitarjörðum, batnaði svo seinnipart mánaðarins.

Vorið. Einmánuður byrjaði með blíðu og þíðu, en um hann miðjan brá til mestu harðinda og illviðra um land allt, er hélst til fardaga. Í Borgarfjarðar- og Mýrasýslum voru oftast hagar niður um sveitir en hagleysi upp til dala. Víðast um Snæfellsnes var jörð snjólaus um sumarmál, en þá tóku vindar að blása af norðri með frosti og hreggi. Í Barðastrandarsýslu fraus á hverri nóttu frá sumarmálum til 27. maí; vestan til í sýslunni sást fyrst votta fyrir gróðri kringum bæi um fardaga. 12.apríl urðu hafísjakar þar landfastir. Um páska rak hafís inn á Ísafjarðardjúp og fyllti firði um Miðdjúpið og lá þar fram í maí. Snjókoma var þar ekki mikil um vorið en kuldi mikill og norðanstormur. Sauðfé á gjöf fram um 20. maí. Hafís rak að Horni í vorbyrjun og færðist síðan smámsaman inn með Ströndum og fyllti firði og víkur vestanvert við Húnaflóa, allt í Hrútafjörð. Var lambfé gefið þar meira og minna fram undir fardaga. 2.júní brá til verulegs bata; rak þá allan hafís frá á fám dögum; eftir það greri furðu fljótt. 26. apríl gerði ógnar stórhríð í Húnavatnssýslu, fyrst frostlausa en svo með grimmdarfrosti og héldust stórhríðar nálega alltaf fram til 15. maí. 5. og 6. maí hlóð svo miklum snjó niður, ofan á hjarnið, að alófært mátti heita að komast um jörðina. Í Svínadal og Ásum mun hagi ekki hafa komið til gagns fyrr en í júní. Um miðjan apríl sá hvergi á auðan blett i Viðvikursveit og útparti Blönduhlíðar og víðar í Skagafirði. Sögðu það gamlir menn, að aldrei myndu þeir eftir jafnmiklu fanndýpi og hélst það allt fram í miðjan maí. Var gengið á skíðum bæja á milli í sumum hinna snjóléttari sveita, allt fram undir lok maímánaðar. Í Eyjafirði var nær því öríst upp í fjallatinda seint í mars.

Sumardagskvöldið fyrsta gekk í stórhríð, er stóð í 3 daga, og 2. föstudag í sumri í aðra 3 daga, var þá komin meiri fönn en nokkurntíma fyrr og héldust hríðar og illviðri fram yfir hjúadag. Vegna kuldanna fóru ár eigi að litkast fyrr en 11.júní, þá kom heldur hlý tíð, þó með kuldaköstum til 3. júní. Í Þingeyjarsýslu er vorið sagt það versta er núlifandi menn muna; snjóaði mjög mikið snemma í maí og hélst sá snjór mánuðinn út og algjört jarðbann yfir allt, en við sjóinn fjörur góðar og lifði þá fé á þeim eingöngu. Í Vopnafirði endaði veturinn með þíðviðri og blíðu. Fyrripart apríl var Hofsá auð svo hún var farin á ferju. 28. apríl gerði nær ófært hríðarveður; setti þá niður mjög mikinn snjó. Norðaustanhríðar og kuldar héldust til 26. maí. 28. maí var fyrst hægt að byrja túnvinnu á Hofi. Með júní komu hlákur og blíður; orðið alautt. 8. dag mánaðarins. Síðustu daga í mánuðinum kólnaði aftur og snjóaði i fjöll. Á Fljótsdalshéraði og í Fjörðum slepptu sumir fé í apríl, drapst sumt af því í áfelli, sem kom snemma i maí. Í Breiðdal og nálægum sveitum var sunnan og vestan blíðviðri og hiti fyrri hluta apríl, en síðustu dagana af mánuðinum snjóaði töluvert. Með sumri breyttist tíðin, gekk til norðan- og norðaustan áttar, með kulda og frosti á hverri nóttu, hélst það út allan maí. Líkt þessu voraði í Hornafirði. Norðanátt og grimmdarfrost til 27.maí. Bati kom loks með júníbyrjun en jörð var orðin svo skrælnuð af þurrkunum að spretta gekk mjög seint.

Í Vestur-Skaftafellssýslu var vortíðin ákaflega rosasöm og stórviðrasöm, en þó tók út yfir 27. og 28. apríl, hrakti þá nokkuð fé, í sandbyl, i vötn og fórst. Veðurhæðin var svo mikil að austurendi Prestbakkakirkju færðist 6 þuml. af grundvelli, sem hún hafði staðið óhögguð á frá byggingu, 1859, er hún þó ein með stærstu sveitakirkjum og 12 álna breið. Sömu daga var svo mikið aftakarok í Árnessýslu að gamlir menn mundu ekki þvílíkt veður á þeim tíma árs. Hér sunnanlands var kuldatíðin svo mikil, að þeir sem heyin höfðu gáfu kúm fram i miðjan júní.

Sumarið. Seinni hluti júnímánaðar var góður hér sunnanlands og spratt þá vonum framar. Grasvöxtur tæplega í meðallagi og svo varð og með heyföngin, orsakaðist það ekki síst af stöðugum óþurrkum í september. Í Borgarfjarðar-, Mýra- og Snæfellsnessýslum og á öllu Vesturlandi var grasvöxtur talinn í meðallagi, einkum á túnum,- en lakari á útengjum. Nýting góð á öllu þessu svæði en heyskapur endasleppur vegna útsynningsóþurrka í september. Í uppsveitum Borgarfjarðar héldust lengst af norðankuldar um sumartímann, fram í september; þó voru blíðviðri rúman hálfan mánuð framan af ágúst. Sláttur byrjaði í Dalasýslu 12.-16. júlí. 16. og 17. ágúst var mikið næturfrost þar. Í Barðastrandarsýslu snjóaði, að minnsta kosti tvisvar, í byggð, 14. og 17. júlí. Hret öðru hvoru í Ísafjarðarsýslu fram undir júlímánaðarlok; i ágúst var þar besta heyskapartíð.

Í Strandasýslu, Húnavatns- og Skagafjarðar var júlímánuður kaldur og úrkomusamur. Þessar úrkomur héldust fram í ágúst í Strandasýslunni. Í Trékyllisvíkinni náðust töður eigi inn fyrr enn um höfuðdag, og urðu á sumum bæjum nálega ónýtar. Flaug sú fregn, að á einum bæ hefði taðan verið borin í sjóinn, og er það sorglegt framtaksleysi að fara svo að ráði sínu, en bera hana eigi saman í súrhey. Úthey nýttust þar heldur vel. Norðanátt með heljar bruna hófst 10. júlí í Húnavatnssýslu og hélst það nær út mánuðinn með stórúrfelli og hríðum. 16. júlí snjóaði svo í fjöll að stórfenni mátti heita og hvarf ekki fyrr en í ágúst. Nýting allgóð í ágúst og fram eftir september. Heyföng í rýrara lagi. Í Skagafirði alfennti í byggðum um stund í júlí. Þar sem bæir lágu hátt varð ekki slegið 2 eða 3 daga, en til fjalla lá snjórinn á aðra viku. Í ágústmánuði var tíðarfarið sérlega hagstætt, nýttust þá hey ágætlega. Í öndverðum september gerði ofsarok af suðaustri; urðu viða miklir heyskaðar í því veðri.

Í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum var sumarið nokkuð kalt og umhleypingasamt; höfuðátt norðaustan. 3. júlí kom 4° næturfrost í Eyjafirði og kippti það úr grasvexti svo hann varð tæplega í meðallagi. Heldur betur spratt í Þingeyjarsýslu og nýting varð góð í báðum sýslunum. Á Austfjörðum var sumarið kalt nema fyrri hluti júlímánaðar góður, 15.-17. júlí snjóaði niður í mið fjöll í Vopnafirði, var þá nær alófært veður á Haugsfjallgarði. Norðmenn og fylgdarmaður þeirra íslenskur, voru nær orðnir úti, náðu við illan leik ofan í Vopnafjörð aftur. Þurrkasamt eftir 10. september; síðustu daga mánaðarins fór að frjósa. Á austurfjörðunum hröktust töður og skemmdust hjá almenningi. Heyföng i minna lagi. Heyskaðar af stormum urðu allvíða í sláttarlokin. Í suðurhluta Suður-Múlasýslu og í Skaftafellssýslu var sumarið votviðrasamt. Í Breiðdal byrjuðu rigningar með sláttarbyrjun, fór þá jörð verulega að spretta svo gras varð sæmilegt en notaðist illa. Heyskapur í meðallagi en talsvert hrakinn. Í Austur-Skaftafellssýslu byrjaði sláttur ekki fyrr en 20. júlí. Töður hröktust alstaðar meira og minna. Um miðjan ágúst kom þerrir um vikutíma. Hin mesta óþurrkatíð hélst nær allan september og varð útheysnýting afleit. Í Vestur-Skaftafellssýslu brá til óþurrka um miðjan júlí er héldust samfleytt í mánuð. Þá komu 6 þurrkdagar. Eftir höfuðdag hraktist hey og víðast mjög. Heyföng almennt með lakara móti bæði að vöxtum og gæðum. Á Suðurlandsundirlendinu hröktust töður nokkuð. Í ágúst komu stöðugir þurrkar í 3 vikur. Með september brá til óþurrka er héldust mánuðinn út. Heyskapur með lakara móti.

Haustið og veturinn til nýárs. Á Suðulandi öllu mátti tíðarfarið heita slæmt á þessu tímabili. Haustið var enn þá votviðrasamara en venja er til. 17. nóvember kom áhlaupa landnorðan hríð, er orsakaði talsverða fjárskaða bæði í Árnessýslu og Kjósarsýslu og í Borgarfirði. Á stöku stað fennti hross til bana. Jörð var áður auð og fé því ekki komið að húsum almennt. Eftir það var oftast haglítið og óstöðug veðrátta til ársloka. Útsynningar með blotum og áfreðum á víxl. Kýr komu snemma á gjöf og lömb voru tekin með langfyrsta móti. Fénaður allur kominn á gjöf löngu fyrir jól. Á Vesturlandi var veðráttan svipuð og fyrir sunnan.

Á Snæfellsnesi skemmdust hey allvíða í haustrigningunum. Sama ofsaveðrið geisaði og bæði þar og í Dalasýslu 17.nóvember, þótt ekki gerði það tjón á fénaði svo neinu næmi. Unglingspiltur úr Laxárdal varð úti í því veðri. Í báðum þessum sýslum var haglaust um áramót. Svo var og i Barðastrandarsýslu, þar voru hross sumstaðar komin á gjöf, sem annars ganga úti mestallan veturinn. Í Ísafjarðarsýslu umhleypingasöm tíð, gerði þar jarðbönn af áfreðum á jólaföstu. Í Strandasýslu var haustið tiltölulega hlýrra en sumarið. Jörð mjög auð og hagar góðir til nóvemberloka. Um miðja jólaföstu sneri til norðurs og gerði skörp frost og hríðar. Byrjað að gefa fé með desember. Á Norðurlandi var tíðin óstillt mestan hluta þessa árstíma. Í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum voru hagar nægir þangað til seint í nóvember. Áfreðar á jólaföstu. Nálega haglaust um áramót og útigangspeningur hrakinn orðinn. Í Eyjafirði var haustið gott og milt og vetur til nýárs frostlítill en afar storma og umhleypingasamur, ýmist frost og hlákur; höfuðátt suðvestur. Fyrir jólin gekk í mikil frost. Líkt var tíðinni varið í Þingeyjarsýslu. Jarðir stöðugt góðar í sveitum. Á Austfjörðum var hausttíðin góð, sauðjörð næg í október og nóvember; spillti með desember. Hörð frost og nær jarðlaust um áramót. Í Hornafirði gerði norðanbyl 17. nóvember og fenntu þá kindur á stöku stað. Þar var búið að taka allmikið af skepnum á gjöf um nýár, meira vegna hrakviðra heldur en af því að haga skorti. Í Vestur-Skaftafellssýslu var veturinn til ársloka einn sá lakasti er menn muna.

Matjurtir þrifust með lakara móti þetta ár um allt land og sumstaðar misheppnaðist kartöfluuppskera nær því alveg.

Janúar: Umhleypingar vestanlands með talsverðum snjó er á leið, en lengst af betri tíð eystra. Fremur hlýtt.

Norðri segir af tíð þann 5.janúar:

Tíðarfar hefir verið hið ákjósanlegasta hér norðanlands nú um langan tíma að undanförnu, stöðugar þíður og blíður og auð jörð. Úr Mývatnssveit er skrifað nú um áramótin að þar sé einmuna stillt tíð, snjólaust og furðanlega lítið svelluð jörð.

Dagfari (á Eskifirði) segir þann 7.janúar:

Veðrátta hefur veríð hin hagstæðasta hér á Austfjörðum að undanförnu, Er marautt og hagar hinir bestu fyrir sauðfé hátt upp í hlíðar. Mun sjaldgæft vera að nýárið gangi hér í garð jafn milt sem nú. 

Þjóðviljinn (á Bessastöðum) lýsir janúartíð í nokkrum stuttum pistlum:

[10.] Tíðin mjög mild, og hagstæð síðan á nýári því að enda þótt snjóað hafi stöku daga, eða rignt hefir veðráttan yfirleitt verið mjög hæglát, og því mátt heita einstök tíð um þenna tíma árs.

[17.] Tíðin afaróstöðug síðasta vikutímann, ýmist rigningar eða snjókoma, og veðrátta rosasöm.

[24.] Tíðin fremur óstöðug, en frosthörkur óvanalega litlar í vetur, og þíðviðri og rosar, eða éljagangur, síðustu dagana.

[31.] Snjóar og umhleypingar, síðasta vikutímann, og veðráttan fremur stirð.

Vestri segir þann 5.febrúar að 2 hestar hafi farist í snjóflóði í Súgandafirði 16.janúar.

Lögrétta segir þann 31.:

Snjór er hér nú töluverður, alhvítt frá fjalli til fjöru.

Ísafold lýsir veðri þann 27.janúar:

Umhleypingur af ýmsum áttum, útsunnan, austan og norðan, hefir verið 2-3 dagana síðustu, með allmiklu kafaldsfjúki. Faxaflóagufubátnum (Reykjavík), sem átti að fara í gærmorgun snemma upp í Borgarfjörð, með póstflutning allan norður og vestur, legaðist hér í gær og komst hann ekki fyrr en í dag upp eftir.

Febrúar: Slæm tíð nyrðra lengst af. Þurrviðrasamt suðvestanlands, en talsverður snjór frá fyrra mánuði.

Dagfari segir af tíð eystra þann 9.febrúar:

Tíðarfar hefur verið einmuna gott lengi að undanförnu hér á Austfjörðum. Frost mjög væg þar til nú síðustu dagana. Snjókoma lítil, svo hagar hafa verið bæði fyrir sauðfé og hesta allt til þessa.

Ingólfur birtir ótíðindi þann 11.:

Póstur varð úti um mánaðamótin vestur á Snæfellsnesi. Hann hét Marís Guðmundsson og flutti póstflutning milli Borgarness og Stykkishólms, rúmlega tvítugur. Hann fór frá Gröf í Miklaholtshreppi að morgni þriðjudags 30. f.m. Var þá norðan hörkuhríð með snjóburði og gerði ófærð mikla. Fékk hann til fylgdar sér norður um Kerlingarskarð  Erlend bónda Erlendsson frá Hjarðarfelli. Þá félaga þraut sökum ófærðar og stórviðris og fundust þeir báðir örendir næsta föstudag, skammt frá Dældarkoti i Helgafellssveit. Í sama veðrinu varð maður úti milli bæja í Helgafellssveit. Hann hét Guðjón Þorgeirsson frá Saurum, gamall maður. Var ófundinn, er fréttir bárust. Sex hesta fennti til dauðs á Kjalarnesi í sama veðri.

Lögrétta birtir frétt af sama slysi, en nafn póstsins sagt annað - ein af ástæðum þess að ritstjóri hungurdiska er nokkuð tregur á mannanafnabirtingar og þurrkar þau oft út úr pistlum (og mun halda því áfram þó stöku lesandi hafi kvartað). 

Úr Stykkishólmi er skrifað 4. febrúar: „... sorglegt að Stykkishólmspósturinn og fylgdarmaður hans, bóndinn frá Hjarðarfelli, hafa orðið úti síðastliðinn þriðjudag [30.janúar] á leið hingað, undir fjallinu hérna megin. Það var hríðarbylur og mikil ófærð, svo að þeir hafa örmagnast og lagt sig fyrir. Þar fundust þeir báðir saman, ásamt pósttöskunni, af mönnum sem gengið höfðu til rjúpnaveiða, og fengu þeir strax mennina flutta heim til næsta bæjar, Gríshóls, en komu með töskuna hingað á föstudag. Læknirinn fór að vita hvort nokkur lífsvon væri, en það reyndist ekki. Það var voðaveður hér i tvo daga. Þriðji maðurinn hefur líka orðið úti í sveitinni, en er ófundinn; haldið að hann hafi lent í á“. Pósturinn sem úti varð hét Guðmundur Kristjánsson frá Hamarendum Borgarfirði, bóndi þar og átti mörg börn óuppkomin.

Þjóðólfur segir frá hagstæðri tíð þann 9.febrúar:

Tíðarfar hið hagstæðasta frá því á haustnóttum og til þessa tíma, nálega alltaf snjólaus jörð, enda víðast minni heyjum eytt en allmörg undanfarin ár á þessum tíma.

Norðri segir frá breytingu í tíð í pistli þann 9.febrúar:

Brugðið hefir til meiri frosta og harðneskju en verið hefir í vetur; þó er snjólítið og færi gott. Þykir nú sumum tíðarfar gjörast ísalegt og spá erfiðum útmánuðum.

Lögrétta segir þann 14.febrúar:

Haldið er að eldur hafi verið uppi í Vatnajökli einhversstaðar um miðjan síðastliðinn mánuð. Austanblöðin segja að eldbjarmi hafi sést frá jöklinum, og 13. f.m. fannst snöggur jarðskjálftakippur á Rangárvöllum.

Norðri segir frá frostum þann 16.febrúar:

Harðneskju norðvestangarður var fyrir síðustu helgi með miklu frosti. Þegar uppbirti á mánudaginn, sást hafíshroði vestur og fram af Ufsaströnd. Á miðvikudaginn brá til austanáttar og frostlítið síðan. 

Ísafold kvartar þann 17.febrúar:

Snjóameiri en dæmi eru til 20—30 ár hefir þessi þorri verið, sem kveður í dag. Frost ekki mikil, nema fáa daga um síðustu helgi; mælir komst þá niður í 11—12 stig. Snjónum kyngir niður dag eftir dag, ekki miklu í einu, en aldrei tekur af; að eins smá blotar 1—2 sinnum, en hláka engin.

Þjóðviljinn (Bessastöðum) segir frá tíð í febrúar:

[9.] Eftir snjó, og nokkur frost, gerði hagstæða hláku 4. þ.m. en stóð naumast degi lengur, og hefir síðan haldist kafaldsfjúk, og miklar frosthörkur.

[17.] Tíðarfarið snerist loks til hláku, og rosa, 14. þ.m., eftir óvanalegar frosthörkur, sem gengið höfðu, allt að 12 stiga frost R við sjóinn.

Vestri birti þann 10.mars bréf úr Steingrímsfirði, dagsett 20.febrúar:

Veðrátta hefir frá byrjun vetrarins og fram á þennan dag verið óvenjulega mild og góð, eftir því, sem menn eiga hér að venjast. Það má heita svo, sem frosta hafi naumast kennt fyrr en þennan yfirstandandi mánuð, en þá voru þau líka allhörð í nokkra daga, allt að 15-16°R. Snjóalög hafa einnig verið með minna móti, og færð því yfirleitt góð. Vegna þessarar góðu veðráttu hefir bændum orðið heydrjúgt, og munu allflestir þeirra standa sig vel með heyföng, og geta reist rönd við hörðu vori, ef því þyrfti að mæta. Svo var tíðarfarið hér gott í nóvember síðastliðnum, að í miðjum þeim mánuði var slegið og hirt hey á 40 hesta á Stað i Steingrímsfirði, og mun það nær því einsdæmi í þessu byggðarlagi.

Lögrétta birti þann 14.mars fáein bréf utan af landi, dagsett í febrúar. Minnst er á símastaura vegna símþráðar milli Seyðisfjarðar og Reykjavíkur:

Húsavik 17. febrúar: „Tíð umhleypingasöm og óstillt mjög. Gengur erfitt með staura-akstur; einir 6 ataurar eru komnir fram í Geitafell af því, sem Jón í Reykjahlíð átti að sjá um; svo ekki eru allir vonlausir um, að þeir komist eigi á rétta staði á þessu ári".

Úr Mývatnssveit er skrifað 17. febrúar: „Verstu veður oftast allan þorrann, með frosti og fannkomu. Frostið allt að 20 stig, mest 22 stig 12. febrúar. Eins og stendur, kemst enginn neitt fyrir ótíð og ófærð".

Úr Miðfirði er skrifað 28. febrúar: „Tíðin er fremur góð, yfir höfuð mjög vægt vetrarfar og hagi nægur hér um slóðir. Og heppnir eru stauraflutningamennirnir með það, að dráttarfæri er ágætt, enda held ég þeim gangi öllum vel hér nærlendis. Ég sá í vikunni sem leið til Jóhanns í Sveinatungu fram Hrútafjarðará og gekk allvel að sjá. Á Hrútafjarðarhálsinum hefur stauraflutningurinn gengið ágætlega, enda fylgist þar allt að, dugnaður þeirra félaga, valdir hestar og góð meðferð á þeim.

Úr Steingrímsfirði er skrifað 21.febrúar: „Tíðarfar hefur verið mjög gott í vetur og með því að heyafli var góður frá sumrinu, þá er útlit fyrir, að ekki skorti fóður, ef vorið verður ekki því harðara. Einhver hafíshroði hafði komið upp undir Trékyllisvik í norðanhreti, sem var hér 5.-10. þ.m.; hafði hann svo færst frá aftur og norður með í suðaustanvindi, sem þá gerði og haldist hefir öðruhvoru síðan.

Í sama blaði Lögréttu (14.mars) er sagt frá strandi tveggja togara í febrúar:

Botnvörpuskipið Southcoats frá Hull, skipst. Thomas Wilson, strandaði 13.febrúar á Fellsfjöru, austarlega á Breiðamerkursandi. Öll skipshöfnin, 13 manns, komst heil á húfi að Tvískerjum. Annað botnvörpuskip, Wiirtemburg frá Bremerhafen, strandaði á Svínafellsfjöru á Skeiðarársandi, vestanmegin við Ingólfshöfða. Skipverjar, 13 manns, komust allir til lands eftir mikla hrakninga, en hefðu, að því er þeir sjálfir segja, án efa orðið úti þar á sandinum, ef strandmannaskýli Thomsens konsúls hefði eigi orðið þeim til bjargar. 

Mars: Hríðarhraglandi nyrðra fram yfir miðjan mánuð, en annars talsvert skárri tíð. Lengst af þurrviðrasamt um mestallt sunnan- og vestanvert landið. Fremur kalt.

Norðri segir þann 2.mars:

Fregnir af Siglufirði herma að enginn hafís sé sjáanlegur hér úti fyrir. Höfðu einhverjir farið upp á Ólafsfjarðarmúla í björtu veðri til að horfa eftir honum, en einskis orðið varir. Tíðarfar er fremur stirt. Stórhríðar hafa verið oftar en einu sinni nú í vikunni með talsverðri snjókomu.

Ísafold lýsir tíð þann 3.mars:

Góð hláka byrjaði hér í gærkveld á eitt hið mesta snjókynngi, sem hér kemur nokkurn tíma, og hafði lengi safnast. Fyrri part vikunnar var talsvert frost, komst jafnvel upp í 13 stig á C. í fyrradag að morgni, — ýmist með hreinviðri eða fjúki, skafrenningi þegar ekki var ofankafald.

Vestri segir þann 10.mars frá strandi þar vestra:

Fiskiskipið „Charley", eign Leonh. Tang & Söns verzlunar hér í bænum, rak i land 8. þ.m. Skipið lá hér úti á firðinum altilbúið, að fara út til fiskiveiða, en aðfaranótt þess 8. hvessti á norðan með hríð og för þá skipið að drífa í land og um morguninn um birtingu var það komið upp í brimgarð. Þar hékk það lengi frameftir deginum, en um eftirmiðdaginn fór því að slá flötu og kom þá gat á það svo sjórinn féll inn. Skipshöfnin komst í land að heilu og höldnu. Skipið fór upp því nær í sama stað og „Racilia" fór upp í fyrra vetur. Skipið og vörur voru vátryggðar, skipið í ábyrgðarfélagi þilskipa við Faxaflóa, en vörurnar í útlendu ábyrgðarfélagi.

Austri segir þann 11.:

Veðráttan fremur óstöðug nú undanfarið. Hríð í gær og dag.

Ísafold birti þann 24.mars stuttan pistil úr Vestmannaeyjum um tíð þar:

Vestmannaeyjum 20.mars: Veðráttan var i báðum mánuðunum (jan og feb) ákaflega storma- og umhleypingasöm, snjókoma þó aldrei mjög mikil. Hörð frost voru frá 7. til 13. febrúar. Einnig hafa verið nær einlæg frost það sem af er þessum mánuði, mest aðfaranótt 13. -12°. Þessi vertíð hefir, það sem af er, verið einhver hin bágbornasta sakir gæftaleysis.

Dagfari (á Eskifirði) segir frá slysi þann 24.:

Slys vildi til á Svínaskála-Stekk við Reyðarfjörð að morgni 22. þ.m. Veður var hvasst og fóru nokkrir menn að reyna að festa niður bát svo hann fyki ekki. En veðrið tók bátinn á loft úr höndum þeirra, og slóst þá báturinn í höfuðið á einum manninum svo hann rotaðist. Maðurinn hét Jens Magnússon, og var vinnumaður á Svínaskála-Stekk.

Þjóðviljinn (Bessastöðum) lýsir marstíðinni:

[10.] Eftir óvanaleg snjóþyngsli, og frosthörkur allt á 12-18 stig á R, hlánaði í svip 2-3. þ.m, en síðan sífelldar snjókomur, með 1-2 klst blota suma dagana. Til sjávarins hafa verið mikil brim, og versta ótíð, svo að þilskipin, sem út eru farin, munu enn lítt, eða ekki, hafa getað sinnt fiskiveiðum.

[17.] Frosthörkur miklar fyrri part þessarar viku, allt að 13-14 stigum á R. Síðustu dagana væg frost. og jörð öll alhvít.

[24.] 19. þ.m. brá loks til hagstæðrar hláku. svo að jörð varð alauð, og hefir síðan haldist hagstæð veðrátta.

[31.] Tíðin mjög ákjósanleg þessa viku, skipst á skin og skúrir, og veðráttan oftast fremur hæg.

Lögrétta segir þann 4.apríl tíðindi frá Eyrarbakka, dagsett 29.mars:

Einstök veðurblíða með degi hverjum. Hagar eru víðast hvar orðnir góðir og fénaðarhöld munu í besta lagi í Árness- og Rangárvallasýslum.

Vestri segir frá ís þann 31.:

Hafíshroði kom hér inn í Djúpið 30. þ.m. svo langt að hann sást héðan úr bænum og lítur því út fyrir að hann sé ekki fjarri. En ekki mun það þó hafa verið nema dálítið hrafl.

Lögrétta segir frá þann 21.:

Fjórtánda þ.m. strandaði enskur botnvörpungur hjá Stokkseyri. Mönnum varð bjargað, en skipið sökk. Úr Skagafirði er skrifað: „Mikill snjór og jarðskarpt fyrir allar skepnur“.

Í Þjóðviljanum 10.apríl er bréf frá Ísafirði, dagsett 28.mars:

Síðan 16. þ.m. hefir tíðin verið mjög mild, öðru hvoru þíðviðri og leysingar, svo að jörð má nú heita auð og í Inn-Djúpinu er alauð jörð, út að Ögurhólmunum.

Apríl: Óhagstæð tíð og sérlega illviðarsöm, einkum suðvestanlands, en betri eystra. Fremur kalt. Gríðarlegir mannskaðar á sjó. 

Austri segir þann 7.apríl:

Veðráttan hefir verið hin hagstæðasta undanfarna viku, sól og sunnanvindur svo að snjór er að mestu horfinn.

Öll blöðin greina frá mannsköðunum í mánuðinum - við veljum hér úr. Fyrst er frásögn Lögréttu þann 11.apríl:

Mestan hluta næstliðinnar viku voru hér ákafir útsynningsstormar með regni. Á laugardagsnóttina [7.] herti veðrið og kólnaði þá svo, að jörð var alhvít um morguninn, en um daginn gekk á með dimmum hríðaréljum og glórði þó til sólar í milli. Stormurinn jókst þegar á leið daginn og varð úr hið mesta rifrildisveður, sem menn muna hér um þetta leyti árs; sjórinn hvítrauk og brimið óx óðum; aðra stundina varð bjart, svo að þá sást vítt útyfir sjóinn, en hina stundina byrgðu koldimm hríðarél alla útsjón.

Fiskiskipin voru flest úti, en hleyptu undan veðrinu og fóru að tínast inn smátt og smátt. Kl.12 um daginn kom inn skip, er menn sáu strax, að eitthvað mundi að ganga. Það sigldi inn utan við Engey, og beygði síðan inn til hafnarinnar milli Engeyjar og Viðeyjar. En út af Viðeyjaroddanum, sem að höfninni veit, eru grynningar og blindsker. Skipið réð sér ekki í storminum, lenti of nærri Viðeynni og uppá skerið. Ekki þekktu menn þá úr landi, hvert þetta skip var, en gátu þó strax til, að það mundi vera „Ingvar", eign Duus verslunar hér, en skipstjóri Tyrfingur Magnússon frá Engey, og reyndist það síðar rétt. Menn af öðru skipi, er inn kom um kvöldið, segja svo frá, að um morguninn kl.10 hafi „Ingvar" verið skammt frá þeim, út við Keflavikurbjarg, en hafi þá brotið gaffalinn og síðan haldið inn, undan veðrinu. En um strandið segja kunnugir menn, að þegar skipverjar hafi séð skerið framundan, þá hafi þeir varpað út akkerum og ætlað, að þau næðu haldi áður en þá bæri á skerið. Þetta mistókst, en akkerisfestarnar héldu skipinu föstu á skerinu; ella segja menn, að það hefði strax borist af því og rekið þá upp á Viðeyjarströnd. Eru þá líkindi til, að menn hefðu bjargast, þótt skipið hefði auðvitað brotnað í spón.

Nú, þegar skipið lá brotið á skerinu, sáu menn í kíkirum úr landi, að skipverjar klifruðu upp í reiða en brátt tók skipið mjög að brotna og liðast í sundur; riðuðu þá möstrin svo fyrir brimganginum, að stundum tóku þau dýfur í sjó, en hófust þess á milli hátt í loft. Var það hræðileg sjón. Skipverjar týndust þá niður úr reiðanum og héldu sér við borðstokkana. Gekk svo lengi, og reri skipið þarna á skerinu fullar þrjár klukkustundir. Það halda menn, að meiri partur skipverja hafi lifað allan þann tíma. En rétt á eftir, kl.3, kom áköf hvassviðrisroka og dimmt hríðarél, svo að ekki sást þá út frá landi, en þegar henni var lokið, var allt horfið af skerinu. bæði menn og skip.

Á opnum bátum var alls ekki fært í nánd við strandið. En menn bjuggust við, að gufuskipin, sem á höfninni lágu, gætu bjargað. Á tveimur bátum héldu menn út á höfnina frá landi til þess að leita hjálpar hjá gufuskipunum. En þau treystu sér ekki. Eitt, „Gambetta", hélt þó á stað, en í því gerði koldimmt él og sneri þá skipið aftur á miðri leið. Eina björgunarvonin hefði það þó verið, að gufuskip hefði haldið út í nánd við strandið og frá því hefði svo verið rennt bátum á streng út að skerinu. Ráðherrann hafði skorað á „Reykjavíkina" að fara og heitið að borga allan skaða, sem hljótast kynni af björgunartilrauninni, en skipstjóri neitaði. Úr vélarbát stórum, sem á höfninni lá, hafði vélin verið tekin sundur fyrir einum eða tveimur dögum til aðgerðar, en ella hefði að líkindum mátt nota hann til björgunar. Vel má vera, að allar bjargir hefðu reynst bannaðar í þetta sinn, um það eru sjómennirnir færastir að dæma. En mikið hefði það dregið úr þessum hryggilega viðburði ef aðburðirnir til þess að bjarga hefðu verið meiri en þeir voru.

Þetta er hörmulegasta tjónið, sem hér hefur orðið langa lengi, og hlýtur að verða minnisstætt öllum, sem á horfðu. 20 menn voru á skipinu og fórust allir. Og þetta var rétt við höfnina í Reykjavík.

Á fimmtudagsmorguninn var [5.apríl] féll maður útbyrðis af fiskiskipinu „Valtý" og drukknaði. Þetta gerðist við Akranesskaga. Fiskiskipið „Milly" kom hér inn á mánudagsmorguninn [9.] með fána í hálfri stöng; hafði í ofviðrinu misst útbyrðis 3 menn, náð 2 inn aftur, en 1 hafði drukknað, stýrimaður skipsins.

Strand. Í Hafnarfirði strandaði á laugardaginn [7.] fiskiskútan „Niels Vagn", en menn björguðust i land. Á mánudaginn höfðu menn náð skipinu á flot aftur lítt skemmdu. Þegar verið var að ná skipinu út, duttu tveir menn í sjóinn og var annar þeirra skipstjórinn, Halldór Friðriksson; báðir náðust, en Halldór hafði drukkið mikið af sjó. Hann er þó nær jafngóður nú. Vélarbátur stór, sem Björn Guðmundsson kaupmaður á, lá á laugardaginn suður í Vogavík og sökk þar, en næst að líkindum aftur.

Lögrétta segir þann 17. frá fleiri stórslysum sem urðu þennan laugardag:

Stórslys enn. Tvö fiskiskip farast, 48 menn drukkna. Á föstudaginn langa [13.apríl] kom gufubáturinn „Reykjavík" úr póstferð frá Borgarnesi og flutti þá fregn, að nálægt Ökrum á Mýrum hefði rekið ýmislegt, er sýndi, að fiskiskip hefði farist þar framundan í ofsaveðrinu á laugardaginn 7. þ.m. Meðal annars höfðu rekið þar 5 koffort heil með fatnaði í, poki með brauði, ýms brot af innviðum úr skipi o.m.fl., þar á meðal nafnspjald skipsins, og stóð á því »Emelie frá Reykjavík«. Þetta skip var eign Th. Thorsteinsons kaupmanns og skipstjóri á því Björn Gíslason frá Bakka hér í bænum, hálffertugur maður, kvæntur. Skipið hafði sést hér úti í flóanum stormdaginn og voru menn því orðnir hræddir um það. 24 menn voru á því.

„Sophie Wheatly“ hét hitt skipið, sem farist hefur, en skipstjóri Jafet Ólafsson, héðan úr bænum, 33 ára, kvæntur og átti 1 barn. Skipið var félagseign þeirra þriggja: skipstjórans, Th. Jensens kaupmanns og Guðlaugs Torfasonar snikkara. Þetta skip hafði einnig sést hér úti í flóanum stormdaginn. En engar fréttir flutti „Reykjavíkin" af því á föstudaginn. Fékk því Guðlaugur snikkari hana til að fara upp í Borgarnes aftur á laugardaginn og fór sjálfur með. Þegar þangað kom beið hans þar bréf frá Ásgeiri í Knarranesi, sem hafði átt að ná í póstinn daginn áður, en komið of seint. Skýrir hann svo frá, að rekið hafi hjá Knarrarnesi afturhlut af þilfari úr fiskiskipi, en á bjálka einum í flakinu sé messingsplata og á hana grafið „Sophie Wheatly". Þessi plata hafði verið á bita i káetu skipsins. Skipið var keypt í Lundúnum fyrir 3 árum, hafði áður verið spítalaskip og er sagt hafa verið einna best og vandaðast að útbúnaði af öllum fiskiskipunum hér. Guðlaugur skildi mann eftir í Borgarnesi til þess að grennslast eftir, hvort ekki ræki fleira úr skipinu.

Úrvalslið hafði verið á báðum þessum skipum og skipstjórarnir báðir orðlagðir sjómenn, einhverjir með þeim duglegustu á öllum fiskiskipaflotanum hér. Hefur án efa eitthvað laskast af siglingafærunum á báðum skipunum, en engra bjarga von ef skip á annað borð hrekjast nær norðurströnd flóans í öðru eins veðri og þessu. Framundan Mýrum er þétt skerjaþyrping langar leiðir út í flóann, allt að þrem mílum. Þessi skip bæði hafa því að líkindum farist langt frá landi. Fyrir nær 40 árum segja menn að komið hafi hér ákaft stormveður frá sömu átt og nú og um sama leyti árs; hafi þá fjöldi franskra fiskiskipa verið hér í flóanum og allt að 20 af þeim rekið upp í skerjaþyrpinguna framundan Mýrunum og þau farist þar öll.

Óumræðilega daprir hafa dagarnir verið mörgum um hátíðirnar núna, en sár sorg hefur og jafnframt snortið alla, hve fjarri sem þeir standa atvinnurekstri sjómanna vorra. Óbætanlegur er missirinn mörgum heimilum nær og fjær, en jafnframt er missirinn stórkostlega mikill fyrir héruðin. Þegar 70 vaskir drengir, úrvalslið vort, fer i sjóinn á einni viku, þá er það þjóðarsorg og þjóðarmissir. Þrjár skipshafnir hafa farist af Faxaflóaflotanum, og auk þess tekið út stýrimennina af 2 skipum. Á undanförnum 20 árum telst oss svo til, að eigi hafi gjörfarist nema 4 fiskiskip, sem gengið hafa héðan úr flóanum.

Í Garðsjó urðu í ofsaveðrinu 7.þ.m. stórskaðar á fiskinetjum; hefur fjöldi af þeim algerlega horfið og er það tjón metið alt að 30 þúsundum. Til og frá úti um flóa hafa netjahlutar sést á reki fullir af fiski. Í bréfinu frá Ásgeiri í Knarranesi, sem um er getið annarsstaðar hér í blaðinu, er sagt, að fiskinet hafi ásamt öðru rekið uppi á Mýrum. Skip sökk hér fyrir sunnan Reykjanesið i stórviðrinu 7. þ.m. Það var enskur botnvörpungur, en nafnið vita menn ekki. Fregnin er frá frönsku botnvörpuskipi, sem kom inn hingað á þriðjudagskvöld í síðastliðinni viku.

Bátur fórst í fiskiróðri úr Grindavík 14. þ.m. með 5 mönnum og drukknuðu þeir allir. Tveir voru úr Reykjavik.

Vestri segir frá þann 9.apríl:

Ofviðri mikið og óstöðug tíð hefir nú gengið hér undanfarið. Á laugardaginn 7. þ.m. var ofviðri mikið og sleit þá upp 4 skip er lágu hér á Pollinum. Fleiri skip lágu þar ekki, en í Sundunum og á firðinum lágu allmörg skip og varð þeim ekkert að skaða. Skipin sem fóru upp á Pollinum voru: Emma hákarlaskip L.Tangs verslunar, og þrjú skip A. Ásgeirssonar verzlunar: Calli, Sigríður og Grettir. Öll munu þau þó vera að mestu óbrotin, eða jafnvel alveg óskemmd flest öll. Sama dag sleit skipið „Familien“ frá Eyjafirði upp af Aðalvík og kom það hér inn í gær til ad fá sér legufæri, hafði verið á siglingu síðan. Þá hefir enn frést að „Garðar“ eign Á. Asgeirssonar verzlunar hafi slitið upp á Súgandafirði og brotnað í spón. Skipverjum varð öllum bjargað, en allt annað innan borðs fórst. „Mekla“ eign sömu verslunar lá þar einnig og varð að höggva siglutréð.

Hafíshroðinn, sem rak hér inn í Djúpið um daginn, rak norður í Jökulfirðina í vestanveðrinu á sunnudaginn [8.] og braut bryggju á hvalveiðastöð J.Oulands á Hesteyri. Mikinn hafís hafði verið að sjá út af Aðalvíkinni fyrir fyrri helgi, en nú nýlega hafa skip komið að norðan og urðu ekki íss vör, svo hann hefir sjálfsagt rekið frá aftur.

Og þann 14. segir Vestri:

Í laugardagsrokinu um daginn [7.] fauk hjallur, tveir timburskúrar og eitthvað af járnþaki á íbúðarhúsi í Hjarðardal í Önundarfirði. Tvö skip rak í land.

Hafís allmikill kom hér inn aðfaranótt skírdags [12.] svo fyllti allan fjörðinn út í Djúp svo langt sem augað eygði. Skipin sem lágu hér flýðu öll inn á Poll því. Sundin fyllti og dálítið jakarek hefir jafnvel flæmst inn á Poll. Í nótt og dag hefir ísinn aftur mikið lónað frá hér inn fjarða, en líklega fer hann ekki langt undan landi enn þá eftir sögn þeirra skipa sem komið hafa inn nú siðast er íslítið að norðanverðu, en þessi ís hefir komið að vestan og getur því vel hafa lagt talsverðan ís upp að fjörðunum hér að vestan verðu.

Skipin sem rak upp á Pollinum í rokinu hafa nú öll náðst fram óskemmd að heita má, nema strákjölur hafði farið undan tveimur þeirra.

Lögrétta segir þann 28.apríl:

Hafís við Vesturland segja skip, sem nú eru nýkomin þaðan. „Skálholt" hafði tafist eitthvað hans vegna, en þó komist norður um. Úr Grímsnesi kom hér maður um miðja vikuna, sagði þar enn hvítt af fönn og mjög jarðlítið, en heyleysi almennt.

Veðrið hefur verið gott undanfarna viku, þar til á fimmtudagskvöld [26.]; þá gekk i norðanrosa og hélst hann í allan gærdag. Tvö skip sleit upp hér á höfninni, danskt seglskip, „Yrsa" frá Troense, og franskt fiskiskip, „Henriette" frá Paimpol. „Yrsa" kom hingað með kol til verslunar Björns Guðmundssonar; það er fallegt skip, sagt að eins fjögra ára gamalt. Það rak hér upp í klettana utan í Arnarhól, en hugsanlegt að það náist út aftur og megi gera við það. Franska skipið rak upp á bryggju „Völundar" í Skuggahverfinu og braut framan af henni. Það rær nú á klöpp þar rétt austan við, og engin líkindi til að það náist út aftur. Bæði skipin rak upp nálægt kl. 12 í fyrrinótt. Menn voru í engri hættu.

Ingólfur segir þann 29.:

Á föstudagsnóttina [27.] fórst vélarbátur Gunnars kaupmanns Gunnarssonar og drukknuðu af honum tveir menn: merkisbóndinn Guðmundur Einarsson frá Nesi og Ólafur Ólafsson sem stýrði vél bátsins. Guðmundur hafði fengið bátinn hjá Gunnari kaupmanni á fimmtudaginn, til þess að sækja saltfisk suður í Leiru, sem hann keypti þar á uppboði. Hafði hann fjögra manna far aftan í vélarbátnum og vóru á 2 menn. Fengu þeir gott veður suður og hlóðu bátinn fiski. Er giskað á, að í honum hafi verið um 100 skippund. Leggja þeir því næst af stað til Reykjavíkur seint á fimmtudaginn og höfðu litla bátinn í eftirdragi. En er þeir höfðu komið inn á móts við Vatnsleysu, gerir mesta ofsaveður, svo að litli báturinn slitnaði þegar frá hinum og skildi með þeim í sömu svipan. Bar þann bát að landi við illan leik á Vatnsleysu og héldu báðir mennirnir lífi. Af hinum bátnum hefir rekið stýri, tvær tómar tunnur og fl. Tjónið á bát og fiski mun nema um 9 þúsund kr.

Bátur fórst við Öndverðanes á Snæfellsnesi 14. þ m. og týndust tveir menn. Tvö skip af Eyjafirði rak á land í Aðalvík um daginn: „Eecord" og „Samson". Brotnaði hið fyrrnefnda í spón, en sagt að hitt mundi verða gert sjófært aftur. Menn björguðust.

Enginn hafís var fyrir Vestfjörðum þegar „Laura" fór þar um. Hún kom að vestan á föstudaginn. Hefir það verið orðum aukið, að ís væri kominn suður á móts við Patreksfjörð, eins og sagt var nú í vikunni eftir seglskipi að vestan.

Ingólfur heldur áfram að segja frá skipsköðum í pistli þann 6.maí:

Í ofsaveðrinu laugardaginn 28. [apríl] strandaði stórt kaupfar við Stokkseyri. Var nýkomið til lands með fullfermi varnings. Festar skipsins slitnuðu og rak það á sker. Nokkru af vörunum var bjargað. Annað skip strandaði við Búðir fimmtudagskveldið 26. [apríl]. Það hét „Agnes" (rúmar 30 smálestir). Var nýfarið héðan frá Tomsens-magasíni hlaðið vörum vestur þangað. Varningur týndist allur en menn komust af. Hvorttveggja var óvátryggt, skip og farmur.

Og áfram heldur Ingólfur að segja frá sköðum í pistli þann 13.maí:

Fiskiskipið „Geysir" frá Eyjafirði strandaði við Vigur í Ísafjarðardjúpi 26. f.m. Rakst á hafísjaka í blindbyl rétt áður en skipið bar á land og hlupu nokkrir skipverja upp á jakann. Einn maður féll í sjóinn í þeim svifum og drukknaði:, Einar Sigurðsson Þingeyingur frá Sigluvík (fyrr á Grenjaðarstöðum og víðar) á fimmtugsaldri. Skipið náðist út nær heilt. „Veiðibjallan" frá Akureyri strandaði í sama veðri við Bakka á Skagaströnd. Skipstjórinn drukknaði: Óli Sigurðsson frá Grenivík í Höfðahverfi. Enn drukknaði skipstjóri af fiskiskútu frá Eskifirði í sama veðri: Jón Diðriksson, Árnesingur að ætt.

Skaðaveður var mikið um allt land 26.-28. f. m. Ofsaveður og blindbylur um allt Norðurland og Austurland. Snjókoma víða firnamikil. Fjárskaðar urðu eystra. Tryggvi Hallgrímsson á Borg í Eskifirði missti 115 fjár. Í Hamarsseli í Hamarsfirði fórst 100; í Hornarfjarðarfljót hrakti 60 fjár. Ófrétt um fjárskaða af Héraði og úr Þingeyjarsýslu, en búist við tjóni. Höfðu Mývetningar rekið margt fé á Austurfjöll og kynbótafé Reykdæla var komið upp á Þeystareyki. Þar var autt áður.

Austri segir í pistil 12.maí frá fjártjóni eystra í apríl:

Fjárskaðar hafa orðið hér á Suðurfjörðum nú í stórhríðinni fyrir mánaðamótin. Mestu tjóni hefir Tryggvi Hallgrímsson bóndi á Borgum í Eskifirði orðið fyrir. Hann missti allt sitt fé fullorðið, 120 að tölu. Kvað það flest hafa farið í sjóinn, í Norðfirði fórst og um 80 fjár. Í Berufirði hafði fennt um 200 fjár en það náðist flest lifandi úr fönninni aftur.

Dagfari segir 14.maí frá illviðri, bréf úr Hornafirði, dagsett 3.maí:

Síðustu dagana í apríl voru hér mikil norðanveður. Þó tók út yfir þ. 28. f.m. Þá var svo mikið afspyrnurok, að elstu menn hér muna tæplega annað eins. Fá heimili í Austur-Skaftafellssýslu munu hafa farið á mis við að verða fyrir einhverju tjóni í því veðri á húsum, bátum, fé o.s frv. Niðri í byggð var lítið snjóveður, en fé hrakti undan veðrinu í ófærur og sló niður til dauðs. Fyrir tilfinnanlegustum skaða urðu bændur í Bjarnanesþorpinu. Misstu um 100 fjár í svo kallaðri Skógey. Grjót og sandfok víða mikið. Nokkrar jarðir stórskemmdust við það, einkum á Mýrum. Rétt eftir að veðrinu slotaði (þ. 30.), strandaði frönsk fiskiskúta við Suðursveit; hafði brotnað svo í veðrinu, að hún varð ósjófær. Skipið hét Sirena fra Dunkerque. Skipshöfn, 19 menn, komst af, mjög litlu varð bjargað úr skipinu, því að aflandsveður var. Mennirnir voru fluttir austur á Höfn og biðu Hóla þar.

Þjóðviljinn segir frá skipssköðum og fleiru í pistli þann 9.maí:

Kaupfar strandaði á Stokkseyrarhöfn 28. apríl síðastliðinn. — Það var nýkomið með vörufarm til Ólafs kaupmanns Arnasonar á Stokkseyri, og lágu festar úr skipinu í sker, sem er þar við innsiglinguna, og slitnuðu þær í aftaka veðri, svo að skipið strandaði. — Menn björguðust þó allir. — 26. s.m. strandaði einnig, í grennd við Búðir á Snæfellsnesi, flutningaskútan „Agnes". er Thomsensverzlun í Reykjavik hafði sent til Búða með ýmis konar varning (matvöru, timbur og járn); Tveir menn, sem á skútunni voru, björguðust. Skipið, sem var um 30 smálestir að stærð, var óvátryggt, en vörurnar tryggðar.

Það sorglega slys varð í Bolungarvík í Norður-Ísafjarðarsýslu í síðastliðnum aprílmánuði, að barn, sem var að leika sér í fjörunni kringum hafísjaka, varð undir jakanum, er hann sprakk, og meiddist svo mikið, að það dó skömmu síðar.

Um 20.apríl strandaði á Hvammsfirði mótorkútter Tangsverzlunar, er „Hans" hét. — Gufuskipið „Varanger" átti að freista að ná „kútternum" á flot, og sjá, hvort við hann yrði gert; en ófrétt er enn, hvort sú tilraun hefir lánast.

Og í Þjóðviljanum þann 18.maí eru enn fréttir af sköðum í aprílveðrunum:

Jóhann bóndi Eyjólfsson i Sveinatungu í Norðurárdal missti fyrir skömmu 40 fjár í fönn. Bóndinn á Einarsnesi á Mýrum missti og 18 kindur í sjóinn, mest ær. ... 26. apríl síðastliðinn fauk stór og vönduð heyhlaða að Holti undir Eyjafjöllum, ásamt nokkru heyi, og líkar skemmdir urðu þar í grenndinni á nokkrum öðum bæjum. Sandfok hefir nýlega eytt jörðinni Sauðhúsnes í Álftaveri í Vestur-Skaftafellssýslu.

Lögrétta segir af sköðum í Árnessýslu í pistli 2.maí:

Úr Árnessýslu er sagt aðfaranótt síðastliðins laugardags [28.apríl] eitthvert hið mesta rok er menn muna þar, og hélst það fram eftir deginum. Þá um morguninn strandaði skip á skeri úti fyrir Stokkseyrarhöfn. Skip liggja þar við landfestar og slitnuðu hliðarfestarnar, svo að skipið rak út á skerið. Nokkru af vörum var bjargað úr því, en mjög voru matvörur skemmdar. Hlaða fauk á Litlusandvik í Flóa og brotnaði. Heyskortur almennur í mörgum sveitum, ef þessu fer fram. Margir þegar heylausir. Innistaða hefur nú verið stöðug 15—17 vikur.

Þjóðólfur gerir 4.maí upp mannskaðana í apríl: „Á einum og sama degi 7.[apríl] hafa farist í sjó hér á Faxaflóa 68 menn, en 77 alls í sama mánuðinum að meðtöldum skiptapanum í Grindavík“. Síðan rifjar blaðið upp mannskaðana miklu 9.mars 1685 þegar 132 menn fórust á sjó sama daginn, og 8.mars 1700 þegar 153 menn fórust á sjó. 

Þann 24.júní segir Ingólfur enn frá skipsköðum í apríllokaveðrinu - ekki meðtöldum í uppgjöri Þjóðólfs hér að ofan:

Tvær fiskiskútur týndar vestra. Sannfrétt er nú, að tvær fiskiskútur hafa farist fyrir Vestfjörðum í norðanrokinu mikla 26.—28. apríl í vor: „Anna Sophia" frá Ísafirði með 9 mönnum. Formaður Ingibjartur Kristjánsson frá Hvammi í Dýrafirði. Sjö af skipverjum voru úr Þingeyrarhreppi í Dýrafirði, einn úr Hnífsdal og einn úr Furufirði á Ströndum. Eigendur skipsins voru Filippus skipstjóri Arnason í Ísafjarðarkaupstað og Jón kaupm. Guðmundsson í Eyrardal. Skútan var óvátryggð með öllu. Það vita menn seinast til skips þessa, að það sást á sigling úti fyrir Dýrafirði þegar veðrið hófst 26. apríl, var þá allmikill íshroði á reki og dimmviðri mikið í garðinum. Þykir líklegast að skipið hafi siglt á jaka og sokkið. Hitt skipið hét „Kristján", frá Stykkishólmi; eign Sæmundar kaupm. Halldórssonar. Á því vóru 11 menn. Formaður hét Þorsteinn Lárusson. Þykjast menn víst vita að skipið hafi farist í Látraröst, því að það sást rétt norðan við röstina áður en veðrið skall á.

Ísafold segir þann 16.júní frá sköðum á Rangárvöllum í apríllokaveðrinu:

Margt fé nokkuð hafði [] farist í sandfoki á 2 bæjum á Rangárvöllum, Reyðarvatni og Keldum, í norðanaftökunum 27.—28. apríl; það fennti og kafnaði í sandinum, eins og í blindkafaldsbyl. Enda var sandrokið svo dimmt, að ekki sá handa sinna skil. Sandur var svo mikill i ull á sumu fé, að því lá við að sligast undir þeirri byrði. Sumstaðar hafði fé verið sleppt á afrétt um sumarmál, vegna heyleysis, viku á undan norðanhretinu mikla (26.—28. apríl), en í bestu holdum, og hefir ekki orðið annars vart en að það hafi komist vel af.

Norðri segir 15.júní frá sköðum á Síðu í veðrinu mikla:

Í ofsaveðrinu 27. og 28. apríl s.l. fuku mörg hús á Austur-Síðu, til dæmis 3 hlöður og sumarfjós á Fossi, 2 hlöður á Breiðabólsstað 1 hlaða og 3 fjós á Hörgslandi. Búist er við að fé hafi hrakið undan veðrinu og drepist.

Maí: Óhagstæð tíð og mjög köld. Fyrir norðan voru hríðar fram yfir miðjan mánuð, en var heldur skárra síðari hlutann.

Þjóðólfur birti þann 18.maí bréf úr Húnavatnssýslu dagsett þann 6.:

Hér hefur verið sífelld ótíð síðan 14.f.m. og brast þann dag í stórhríð fyrir hádegi af landnorðri og var hún sú versta á vetrinum, en næg var jörðin og góð eftir hana, og kom þó snjór mikill, en jörð var auð undir nálega og mjúkt á. Þann 15. birti upp og var góð tíð, eða þolanleg, þangað til aðfaranótt þ. 20., þá gekk í afspyrnuhríð, sem stóð í fulla tvo daga, og þó enn meira víða í sveitinni, að sagt var. Svo var þolandi veður og sólbráð öðru hvoru þangað til 26. f m. og komin næg jörð og góð, autt með köflum. En hinn 26. gerði óskaplega bleytukrapahríð, sem stóð allan daginn og bræddi þá yfir alla jörð, en um nóttina gekk veðrið í landnorður með hörku frosti og afspyrnuveðri og stórhríð, svo slíkt veður hefur aldrei komið hér síðan 8. jan. 1905. Um morguninn hægði, en var þó stórhríð þá í 2 daga og lítið betra þriðja daginn h.29., og svo var hríðarveður og brunafrost í 3 daga. En 3. maí og aðfaranótt hins 4. var útnorðanhægð frostlítil, en afskapleg fannkoma og dyngdi þá niður þeim ósköpum af snjó, að nú er ófært um jörðina, víða í hné og klof á jafnsléttu niður að gaddinum. Sér hvergi í dökkan díl nema á skriðum í fjöllum. Hér er því öldungis haglaust og hefur verið síðan 27. f.m. Útlitið öldungis voðalegt.

Einnig segir sama blað frá sköðum í Hornafirði og víðar í apríllokaveðrinu:

Skaðar af ofviðri urðu mjög miklir á Austurlandi og í Austur-Skaftafellssýslu dagana 26—28.f.m. Er skrifað úr Hornafirði 5. þ.m.: „Í þessu mikla veðri skemmdist og skekktist kirkjan á Kálfafellsstað. Víða rauf hús, skip braut á Mýrum, grjót fauk mikið á engi í Eskey. Í Skógey í Hornafjarðarfljótum fórstu 100 fjár, sem Bjarnanesshjáleigumenn áttu, þar af Moritz Steinsson í Bjarnanesi um 30. Einn bóndi í Suðursveit missti 19 gemlinga og víða vantar fé; hætt við felli, því að margir eru heylitlir, en jörðin hvít sem sina“. Í Álftafirði og Hamarsfirði urðu mjög miklir fjárskaðar. Á einum bæ (Hamarsseli í Hamarsdal) fórust 100 fjár, er hrakti og fennti; á öðrum bæ þar nálægt fórst þriðjungur fjár, er þar var, og víðar í Geithellnahreppi urðu miklir skaðar, en í Berufirði og Breiðdal minni. Tryggvi Hallgrímsson fyrv. póstur á Borg við Eskifjörð missti 115 fjár i sjóinn i þessu veðri, er var aftakamikið með blindkafaldshríð. Á Fljótsdalshéraði höfðu og orðið fjárskaðar, en nákvæmlega ekki um þá frétt.

Dagfari segir af tíð 14.maí:

Tíðin er hræðileg. Fjúk, kafald og kuldi á hverjum degi. Snjór ofan í sjó. Er miklu líkara, að það væri nú þrjár vikur af vetri en sumri. Hér í hreppi munu menn samt allvel staddir með hey.

Ísfréttir eru í Ingólfi þann 13.maí:

Hafís nyrðra. „Vesta“ kom í gærkveldi um miðaftan austan um land. Átti að koma vestan um land, en komst eigi lengra en milli Sauðárkróks og Skaga sakir hafíss. Komst ekki inn á Sauðárkrók aftur og hélt þá beint hingað. Fór frá Skaga á miðvikudagskveld [9.]. Nokkurt íshrafl var á Skjálfanda en þeim mun minna sem austar dró. Harðindi allmikil nyrðra. Hross farin að falla í Skagafirði og heylaust nær allstaðar þar um slóðir. Skálholt varð einnig að snúa aftur fyrir Hornströndum og ætlaði suður um land til Ísafjarðar. 

Norðri segir frá tíð og fjársköðum í maí:

[4.] Veðrátta hefir síðan fyrra fimmtudag verið mjög harðneskjuleg. Blindhríð á föstudaginn og laugardaginn og hríðarveður flesta daga síðan með töluverðu frosti, er því fönn mikil yfir allt.

[11.] Síðan á þriðjudag [8.] hefir verið stilltara og bjartara veður en áður, sólskin á daginn en frost um nætur, jörð komin fyrir sauðfé og hesta í hinum snjóléttari sveitum. Fjárskaðar tilfinnanlegir urðu á Hólsfjöllum í síðustu stórhríðunum. Eitthvað af fé fórst og á Reykjaheiði austur af Reykjadal. Mývetningar höfðu sleppt geldfé á austurfjöll; haldið er að fátt af því hafi farist.

[18.] Á mánudaginn [14.] og þriðjudaginn var norðaustan hríðarveður og setti þá niður töluverðan snjó; á miðvikudaginn birti upp með frosti, hefir síðan verið stilling og sólbráð á daginn en frost um nætur.

Fjárskaðar hafa orðið tilfinnanlegir á Bárðardalsafrétt í síðustu hríðum. Þangað var búið að reka geldfé frá Ysta-Felli, Sandhaugum, Litluvöllum og Mýri og er ætlað að samtals muni hafa farist nær 50 fjár. Talið er og víst að fjárskaðar hafi orðið á Reykjaheiði og Mývatnsheiðarafrétt.

[25.] Veðrátta er enn við það sama, norðannæðingar og kuldi. Jóhann Eyjólfsson bóndi í Sveinatungu og Gunnlögur Einarsson bóndi í Einarsnesi hafa misst um 40 fjár hvor í stórhríðarbyljunum síðast í [apríl]. Fé Gunnlögs hafði hrakið í sjó en Jóhanns fé hafði fennt. Allt hafði það verið í mjög góðum holdum.

Austri segir frá tíð í maí:

[12.] Veðrátta er mjög köld nú á degi hverjum, frost og hríðarhraglandi. Liggur snjór hér alveg niður að sjó, þó mun mikið minni snjór hér en nyrðra. Strandferðaskipið „Skálholt" (Larsea) kom hingað 9. þ.m. Hafði ekkí komist fyrir Horn vegna hafís. Komst á allar hafnir frá Akureyri vestur að Reykjarfirði en þar fyrir vestan var allt fullt af ís, svo skipið varð að snúa við. Rak ísinn þá óðum að landi svo eigi varð komist inn á Siglufjörð. En úr því mátti beita auður sjór hingað austur fyrir. Skipverjar sögðu útlit hið versta þar nyrðra, eigi fyrirsjáanlegt annað en almennur skepnufellir yrði, ef bati kæmi eigi bráðlega. Verst kvað útlitið vera i Skagafirði og Eyjafirði, þar sá hvergi á dökkan díl fyrir snjó
og voru bændur þar farnir að skera stórgripi af heyjum. Mælt að einn bóndi í Skagafirði t.d. hafi skotið 12 hesta.

[19.] Veðráttan hefir verið mjög köld en þó bjartviðri, mest 5 stiga hiti um hádaginn. Í dag er kominn sunnanvindur með 10 stiga hita. Snjóþyngsli all-mikil sagði Vopnafjarðarpóstur víðast á sinni leið bæði í Vopnafirði og í Héraði. Útlit fyrir almennan heyskort og skepnutap af eigi bregður til bráðs bata. Sunnanpóstur hafði sagt miklu betri veðráttu á Suðurlandi en hér eystra; snjólaust að kalla má strax þegar kemur suður fyrir Breiðdalsheiði.

Hafísinn. Páll Guttormsson, realstudent, kom hingað gangandi frá Mjóafirði ll. þ.m., hafði komið þangað að norðan með „Mjölni, sagði nú vera íslaust alla leið vestur fyrir Siglufjörð. Berg hvalaveiðamaður sagði að skotbátar sínir hefðu farið 30-40 mílur hér norðaustur af landinu og ekki hitt neinn ís. „Vesta" komst þó ekki fyrir Horn, en varð að fara hér austur fyrir og sunnan um land.

[26.] Harðindatíðin sama helst hér alltaf. Sunnanvindurinn sem kom fyrra laugardag [19.], beið strax ósigur fyrir norðanstorminum, sem nú er einvaldur hér, og þeytir kulda og snjó um allt.

Þjóðólfur segir þann 25.maí frá kuldatíð:

Kuldatíð helst enn, oftast frost á nóttum, og oft hvass á norðan, hlýindi aðeins um hádaginn mót sólu. Frést hefir að „Vesta“ hafi snúið aftur við Horn sakir hafíss og haldið suður og austur um til að komast þeim megin á norðurhafnirnar.

Lögrétta birti 12.júní bréf úr Suður-Þingeyjarsýslu miðri, dagsett 25.maí:

Sumarið í fyrra var eitt hið versta; linnti aldrei úrkomum allan heyskapartímann, og voru því öll hey stórskemmd, og töður víða ónýtar. En hey voru þó mjög mikil í haust fyrir fyrningar frá f.á. Veturinn síðasti fram að þorra afbragðsgóður, en úr því mjög harður með algerðum hagleysum í tvo mánuði. Svo kom allgóð tíð og tók því nær allan snjó, 21. mars til 9. apríl. En þá trylltist náttúran algerlega. Það hlóð niður þeim ósköpum af snjó, að enginn man slíkt, stundum í kyrru, en stundum aftur, 21. og 26.—28. apríl og 3. maí, með ofsaroki á norðan. Ég hef aldrei séð svartari hríð eða meiri snjókomu en 26.-28. apríl. Nú síðustu dagana hefur snjórinn sigið og hefur komið snöp í láglendum sveitum, en alveg jarðlaust i hinum hærri, og sífellt frost og kuldar. Fjöldi manna heylaus fyrir nokkru og flestir nú að þrotum komnir. Sumir ráku eftir venju fé á afréttir í apríl-byrjun, og er eflaust margt af því fé dautt.

Lögrétta segir þann 30.maí:

Tíðarfar austanfjalls ómuna þurrt og kalt, sama sem enginn gróður enn sem komið er. Gáfu margir fé í neðanverðri Árnessýslu þar til um miðjan maí og þeir sem heysterkastir voru til þess 20. Útlitið að því er grasvöxt snertir mjög bágborið. Meiri gróður undir Eyjafjöllum og í Vestur-Skaftafellssýslu. Fjárfellir enginn enn sem komið er og sauðburður hefur gengið fremur öllum vonum fram að þessu.

Dagfari segir þann 31.frá bata:

Tíðin hefir nú breyst til batnaðar hér eystra. Þann 30 þ.m. kom steypiregn og sunnanstormur, er að líkindum hefir rekið allan hafís frá landi, ef hann hefir ekki verið áður á brottu. Leysir mjög snjóa í fjöllum þessa dagana.

Júní: Nokkuð hagstæð tíð og fremur hlý.

Lögrétta birti þann 27.júní bréf úr Steingrímsfirði, dagsett 4.júní:

Hafísinn kom hér inn í fjörðinn 9. maí og fylltist meir og meir þar til 2. þ.m., þá lagði hann á stað út aftur, og í gær var rokveður vestan, svo að nú sést ekki eftir af ísnum nema stanglingur, sem stendur á grunnum öðru hvoru. Hér í firðinum hafa náðst 30—40 hnísur og höfrungar úr ísnum. Tíðin hefur verið köld að vísu síðan um miðjan maí, en einstaklega stillt. Hér í Steingrímsfirðinum reyndar hiti og breiskjuþerrir á hverjum degi, en frost flestar nætur. Gróður því sama sem enginn, en snjór horfinn fyrir löngu.

Norðri segir þann 8.júní:

Veðrátta hin hagfelldasta þessa viku, þurrviðri og hæg suðvestan átt, engin næturfrost. Tún hafa því grænkað og úthagi byrjað að gróa. Margir á Akureyri sett niður kartöflur í vikunni.

Ísafold segir af tíð þann 6.júní:

Um miðja vikuna sem leið skipti loks um [rétt um mánaðamótin], og hefir viðrað skaplega síðan, alt að 10 stiga hiti um daga og 3—4 á nóttum. Rigna gerði fyrra miðvikudag [30.maí] nokkuð, eftir 5 eða 6 vikna þurrviðri — að einni nóttu undanskilinni og fyrri hluta dags á eftir; það var á krossmessunni; en sú rigning var að vísu kafaldsbylur fyrir norðan. Ella hefir verið þurrviðri síðustu viku með sólfari að jafnaði, þangað til í gær; þá rigndi mikið allan daginn og eins í fyrri nótt. Dimmviðri í dag, úrkomulaust.

Þann 12. birti Lögrétta bréf úr ofanverðri Árnessýslu, dagsett 6.júní:

Elstu menn segjast aðeins muna harðari vor í skorpum — þó ekki síðan 1882 — en ekki eins löng samfeld harðindi og gróðurleysi. Mjög gróðurlítið er enn, aðeins litur á túnum og fallegustu útjörð, þ.e.a.s. hér efra; fannir þó oft verið meiri um þetta leyti. Góður bati nú síðustu vikuna. Sjálfsagt hafa vorharðindin kostað þessa litlu sveit 10—20,000 kr. Hinu gleyma menn, að jafnmikinn gróða má telja í góðum vorum.

Þann 9.segir Vestri:

Viðarskip barst fyrri hluta maímánaðar inn á Hrútafjörð. Það var mannlaust og siglulaust, og ekkert á því nema timbur, en fermt var það borðvið og plönkum upp að þilfari. Það var að sögn 30 álna langt og 10 álna breitt og manngengt undir þiljur. Hrútfirðingur er verið hefir í Ameríku, segir slík skip algeng þar við viðarflutning á ám og vötnum og venjulegast höfð aftan í öðru skipi. En það er ærin leið ef skipið hefir flækst þaðan. [Í Lögréttu þann 20.er sagt að skipið hafi síðan rekið út aftur með ísnum].

Norðri birti fregnir úr Skagafirði þann 22.júní, dagsettar þann 8.:

Framan af vetri mátti tíð heita fremur góð, þó var hér mjög umhleypingasöm veðrátta á jólaföstu. Útsunnan veður með mikilli úrkomu, og fór sú tíð illa með útigangshross. Jörð handa útigangshrossum var þó allan þann hluta nægileg. Um jólaleytið var kyrrt veður með frosti. Með byrjun janúar brá til þíðu og hélst góð tíð til 15. s.m., þá gerði norðan hríð, þó væg, en upp frá því fór tíðin mjög að spillast, og mátti heita að allan þorrann væri tíð mjög bág, oft hríðar og miklir umhleypingar. Lagði þá víða mikla fönn, en á sumum stöðum t.d. Blönduhlíð óvenjumikil svellalög. Tók þá mjög að harðna um jörð handa útigangshrossum, svo að mikill fjöldi þeirra var tekin á hús og hey, voru sumstaðar frá 50-60 hross á gjöf, sem ekki litu út úr húsum. Á góunni var tíðin stilltari, en jarðleysið hið sama. Þetta jarðleysi og ótíð hélst þangað til 14. mars, þá gerði bestu hláku og tók upp allan snjógadd af jörðu. 4. apríl fór aftur að spillast. Var þá nokkra daga ærið óstillt tíðarfar, t.d. vestan stórhríð þ. 7. s m., og aftur einhver sú mesta rigning á sunnan sem komið getur þann 8., á pálmasunnudag, 10.apríl gekk aftur til norðanáttar. Á skírdag, 12.apríl, hlóð niður ákaflega mikilli fönn, og upp frá því fór tíðin alvarlega að spillast aftur. Mátti þá heita, að væri alveg jarðlaust um allan Skagafjörð, þar til á sumardaginn fyrsta, að fönnina tók dálítið upp af sólbráð. Hugðu menn að nú væri hörðu tíðinni lokið, og voru nú margir farnir að verða á þrotum með hey, eftir svo óvenjulangan innistöðutíma á hrossum og fé. En „ekki var öll nótt úti enn“, hið harðasta var eftir. Með sumarkomunni gekk í hverja stórhríðina af annarri, svo ekki liðu nema fáir dagar á milli, snarpasta hríðin var 27.apríl, þá var fjöldi bænda orðinn uppi með hey, svo að hross stóðu sumstaðar gjafarlaus inni, en sumir höfðu enda rekið fé sitt burt fram á dali, þar sem  veðursæld var meiri. Margir voru á hinn bóginn svo vel staddir með hey, að þeir gátu hjálpað. Kornmatur var mikill í kauptúnum og var hann tekinn handa skepnunum meðan til vannst. Má telja víst, að mikill fellir hefði orðið, ef verslanir hefði ekki verið jafn vel birgar af kornvöru einkum Gránufélagsverslun á Sauðárkrók. Umskipti á tíðinni urðu fyrst 18. maí. þá mátti fyrst heita, að allvíðast kæmi upp jörð í Skagafirði, og síðan á uppstigningardag 24. maí, hefir tíðin mátt heita mjög hagstæð og nú er jörð gróin. Tjón af þessari óvenju hörðu tíð hefir auðvitað orðið mikið. 

Ísafold birti þann 20.júní bréf af Snæfellsnesi dagsett 12.júní:

Héðan er fátt að frétta nema yfirleitt mjög slæma veðráttu það sem liðið er af þessu ári, og slys á sjó og landi, og þar afleiðandi erfiðar kringumstæður hjá mörgum. Frá nýári fram í góulok mjög óstöðug veðrátta, skiptust sífellt á snjókomur, þó oftast með vægu frosti, og kalsa-rigning og bleytukafald á milli, sem endaði með frosti og áfreðum. Í góulok kom mjög hagfeldur bati í hálfan mánuð; varð alauð jörð í byggð og klakalaus víða undan snjónum, og fór þá í stöku stað að sjást gróður kringum bæi. Sumir bændur voru farnir að byrja á jarðabótum. En í miðjan einmánuð skipti snögglega um veðráttu; upp úr stórrigningu gerði einhverja mestu norðansnjókomu, svo heita mátti ófært bæja milli; þessi norðanátt hélst stöðugt þar til er liðin var hálf sjötta vika af sumri. Þennan tíma allan komu að eins einar tvær regnskúrir, en sífeld næturfrost og oft líka á daginn með kafalds-kófi, en hægur og bjartviðri á milli, og tók upp snjóinn á daginn. Nokkru eftir sumarmál gerði snögglegt norðan-áhlaup með byl; þá fórst Kristján í Látraröst. Hinn 14. maí var svo mikið kafald, að varla var fært bæja milli, og tók sumstaðar fyrir jörð, og komu ekki upp aftur snöp fyrr en eftir 5 daga, þar sem mestur var snjórinn í byggð. Síðan hefir ekki komið kafald til muna. Fyrstu 6 vikur sumarsins var ekki frostlaust að nóttu nema 9 nætur alls enda alveg gróðurlaust fram til fardaga, og útlit var að skepnur mundu alveg visna upp af gróðurleysinu. Ekki er þó gert orð á miklum vanhöldum á skepnum, þó að margir væri heylausir. ... Svo hefir það líka hjálpað, að skepnur hafa verið í góðum holdum á sumarmálum. Þó munu sumir hafa misst nokkuð af unglömbum, og einn bóndi, Jón Jóhannesson í Hraunfirði í Helgafellssveit, missti 40 fjár i sjóinn. Síðan i fardögum hefir verið sunnanátt, oft hvöss, og rigning mikil.

Dagfari á Eskifirði segir þann 16.:

Tíðin hefir verið hin besta allan þennan mánuð. Er nú mjög tekið að gróa. Samt er enn mikill snjór í fjöllum, þótt hann fari óðum minnkandi. Ís er fyrir Skagafirði og Húnaflóa.Varð Kong Inge að hverfa frá að fara inn á Sauðárkrók. Fjörðurinn allur ísi þakinn, sagði Schiötz skipstjóri. 

Austri hrósar tíð þann 16.júní:

Veðráttan hefir verið hin ákjósanlegasta undanfarna viku. Sannarleg sumarblíða á degi hverjum; mestur hiti 20°á R. í forsælu. Tún eru nú öll orðin iðgræn hér og fíflar og sóleyjar farin að teygja upp glókollana.

Ísafold segir þann 22.:

Veðrátta hin hagstæðasta þessa viku, stillingar með þokuslæðing um nætur en sólskini á daginn. Góðar horfur eru því á grassprettu.

Lögrétta segir þann 27.:

Veðrið er nú hið besta á degi hverjum. Fyrstu túnblettirnir hér við bæinn voru slegnir nú um síðustu helgi.

Ísafold segir af hafís og tíð í pistli þann 27.júní:

Hafísinn sigldi á stað út af Húnaflóa sjálfan hvítasunnudag, 3.júní, eftir 5 vikna dvöl þar inni á öllum fjörðum. Aðeins autt með eystra landinu lengst af. Höpp fylgdu ísnum lítil sem engin, nema að á Steingrímsfirði náðust 100 hnísur og höfrungar. Gangverð á hnísum er 5 kr. Höfrungar ekki hafandi til matar.

Veðrátta er allhagstæð orðin og hefir verið um tíma fyrir grasvöxt, enda er hann sagður vonum framar orðinn og líklegur víða. Þó mjög tæpur á mýrlendi; mýrar hafa skrælþornað í hinum óvenjumiklu og langvinnu þurrkum í vor. Náttfall hefir bætt úr á valllendi. Þar hefir því sprottið furðufljótt og vel.

Þjóðólfur segir af hafís 29.júní, fréttin er dagsett í Skagafirði 14.júní:

Hafís kom hér inn á fjörðinn í síðustu viku svo ekki varð stunduð fuglveiði við Drangey. ... Nú er allur hafís farinn ... 

Dagfari segir frá rigningu og skriðu í frétt þann 29.:

Hér kom afskaparigning um síðustu helgi [23.-24.júní]. Það var það, sem á tungu vorri er heppilega kallað steypiregn. Það var eins og hleypt væri frá öllum stíflugörðum og flóðgáttum himnanna og drottinn ætlaði að drekkja jörðinni og jarðarbörnum í voðaflóði. Smálækir urðu að stóreflisvatnsföllum og fleygðust áfram og fyssuðu skolmórauðir eða kaffibrúnir til sjávar. Heljarmikil skriða féll úr Hólmatindi með ferlegum hávaða og gný, brestum og dunum, og minnti á skruggur suður á Sjálandi. Kom bylgjukast á sæinn, er skriðan féll í hann, og bar það hér yfir til kaupstaðarins með þeim krafti, að bryggjur skemmdust eitthvað og bátar brotnuðu, svo að þeir urðu ónýtir. Bjuggust menn við þurrkum og hita eftir þetta mikla steypibað og þótti mönnum tíðin búmannleg. En sú von rættist ekki. Brá til kulda um miðja viku. Dró hrímfölva á fjöll og hnúka og himininn var rosalegur, eins og á haustdegi. Varð að kappkynda í ofnum, svo að menn þyldu við fyrir kulda. Skriðan, sú er getið er, féll á ritsímastaurinn einn. Er hann alveg horfinn í skriðuna, hvort sem hann er brotinn eða ekki. Stór steinn féll á annan, en sakaði ekki.

Í Austra þann 30. kemur fram að skriðan hafi fallið þann 24.

Norðri segir þann 29.júní:

Á mánudaginn [25.] brá til norðanáttar, sem síðan hefir haldist með þokuleiðingum og kulda, á þriðjudaginn rigndi töluvert. Útlit með grassprettu er í góðu meðallagi almennt.

Júlí: Fremur óhagstæð tíð. Vestanlands var þurrklítið, en eystra kom góður þurrkkafli. Kalt.

Þjóðviljinn lýsir tíð í júlí:

[7.] Veðrátta all-hagstæð að undanförnu bæði hér á Suðurlandi og annars staðar, er til hefir spurst.

[12.] Veðrátta hefir verið fremur köld og vætusöm síðustu vikuna. Grasspretta á túnum er nú orðin i meðallagi hér sunnanlands, en miður á útengi. Túnasláttur er í þann veginn að byrja, víðast hvar.

[18.] Veðrátta hefur verið frámunalega köld að undanförnu, og rosasöm. Nú síðustu dagana, hefur brugðið til norðanáttar og þurrka.

[27.] Veðrátta hefur vorið allgóð að undanförnu, þó í kaldara lagi. Víða er búið að hirða nokkuð af töðu.

Dagfari á Eskifirði lýsir tíð eystra í júlí:

[12.] Tíðin hefir verið leiðinleg og þreytandi: sífelldar þokur, vætur og kuldar á stundum.

[18.] Tíðin er alltaf hörð og stirð. Sunnudagskveldið þann 16. þ.m. gerði hér snjó ofan í miðjar hlíðar. Skepnuhöld eru víða ill hér eystra. Frést hefir, að bóndi einn í Skriðdal hafi misst 30 ær í óveðrinu mikla seint í síðasta mánuði. Kuldar komu miklir eftir veðrið, svo að gagnið varð lítið af vætunni.

[23.] Tíðin er alltaf heldur köld og leiðinleg.

Vestri er heldur ekki ánægður þann 21.júlí:

Tíðarfar hefir verið óvenjulega kalt og rosasamt alla þessa viku; hvíta kafald um hádaga svo grátt hefir orðið ofan að sjó og alhvítt niður fyrir miðjar hlíðar. — Er það óvanalega kuldalegt á þessum tíma. Skip sem að norðan hafa komið segja að mjög mikill ís liggi úti fyrir Ströndum, skammt frá landi en óglöggar fregnir um hve langt hann liggur austur með Norðurlandinu. Á sjó hefir ekki gefið um lengri tíma, og þeir sem síðast reru fiskuðu lítið eða ekkert, enda var ónæðissamt sjóveður.

Norðri ræðir kulda þann 20.júlí - líka í Noregi:

Kuldatíð hefir verið nú að undanförnu með úrfelli. Gránað hefir í rót ofan að sjó nú síðustu nætur. Grasvöxtur er þó í góðu meðallagi. Svo er að sjá af norskum blöðum er vér höfum séð að ódæma kuldar hafi verið í Noregi nú um hríð. T.d. var svo mikið frost aðfaranótt 1. þ.m. að stórgripir frusu í hel á Þelamörk.

Enn talar Norðri um kulda þann 27.júlí:

Tíðarfar hefir verið slæmt stöðugt nú að undanförnu, ákaflegir kuldar og úrfelli. Ganga margar sögur um það úr næstu héruðum en ekki vitum vér hvort þær eru sannar. Þannig er fullyrt að Keldhverfingar hafi verið á leið til Húsavíkur með ull sína snemma í þessum mánuði, en snúið aftur á Reykjaheiði vegna snjóþyngsla og ófærðar. Fé úr Reykjadal er sagt að hafi fennt á Þeistareykjaafrétt, og daginn þann sem margir Skagfirðingar  byrjuðu túnaslátt, er mælt að hafi komið þar svo mikið hríðarél að hvítt hafi verið að sjá yfir allt láglendi. Í gær brá til landáttar og þótt úrkoma haldist, enn er útlit fyrir gagngerða veðurbreytingu.

Ísafold ræðir tíð þann 28.júlí:

Veðrátta kalsamikil heldur, um þennan tíma árs, þótt hlýrra sé nú aftur en var um miðjan mánuðinn. Aðfaranótt sunnudaga 15. þ.m. hafði snjóað ofan í byggð fyrir norðan og næstu nætur eftir. Þá var 2 stiga hiti á Blönduós um hádegi. Þessu fylgdu óþurrkar þar nyrðra og var engin tugga komin í garð á síðustu helgi um Húnavatnssýslu að minnsta kosti. Grasspretta þolanleg á túnum; útjörð misjöfn, snögg á mýrlendi. Þetta kast hefir kippt háskalega úr öllum gróðri.

Þann 1.ágúst birti Ísafold bréf úr Dölum, dagsett 24.júlí:

Helstu fréttir héðan eru þær, að tíðin hefir verið afarköld nú um hríð. Það hefir verið sífelldur norðangarður síðan 7. þ.m., og iðulega snjóað á fjöllin niður undir bæi og oft kafaldsfjúk i byggðinni. Áður hafði gengið blíðviðri um 5 vikna tíma, því eiginlega kom vorið hér eigi fyrr en um júníbyrjun og á þeim tíma spruttu tún svo undurfljótt, að þau eru orðin í meðallagi. En útjörð er afarsnögg; engjar hljóta því að verða afleitar í sumar, því nú um túnasláttinn er vanalega besti tími þeirra að spretta, en við þenna voðakulda hefir öll jörð hætt að spretta, sem von er til, þegar sannarlegt vor er eigi nema rúman mánuð, og svo kemur allt i einu köld haustveðrátta.

Ágúst: Hagstæð, en fremur köld tíð. Þurrt lengst af um mestallt land.

Lögrétta segir þann 8. að veður hafi verið hið besta á þjóðhátíðardaginn 2.ágúst, sólskinshiti og logn mestan hluta dags.

Norðri segir af hirðingu þann 3.ágúst:

Tíðarfar hefir verið mjög gott vikuna sem leið. Munu flestir nú vera búnir að ná inn töðum sínum með góðri verkun.

Þjóðviljinn (Bessastöðum) lýsir tíð syðra í nokkrum pistlum í ágúst:

[6.] Veðrátta hefir verið óstöðug og þurrkalítil um hríð. Hefir lítið náðst inn af töðu, enn sem komið er og horfir til vandræða, ef eigi raknar bráðlega úr.

[13.] Tíðarfarið hefir síðustu vikuna verið óþurrka og votviðrasamt, svo að heyþurrkur gengur treglega, sem reyndar er naumast nýjung hér á Suðurlandi. Menn lifa nú enn í þeirri voninni. að allt slampist af þolanlega, eins og vant er.

[16.] Tíðarfarið einkar hagstætt. síðan um helgina síðustu, og þurrkdagar góðir, síðan 13. þ.m.

[25.] Tíðarfar hefir haldist mjög ákjósanlegt, sífelldir þurrkar undanfarna daga, svo að bændur hafa náð inn miklum heyjum, og útgerðarmenn fengið fisk sinn þurran.

Ingólfur segir þann 20.:

Norðan úr Þingeyjarsýslu er Ingólfi skrifað um síðustu mánaðamót: „Ekki þóttist náttúran hafa sýnt okkur nógu rækilega í tvo heimana í vor, því að i miðjum júlí tókst henni fyrst að ganga fram af sjálfri sér. - Þá mátti heita að væri stórhríð til fjalla og heiða i viku, en krapahríð i sveitum með 1—2°hita (R.) um hádaginn. Töður hafa hrakist og skemmst til muna, þó ekki fyllilega eins og í fyrra og nú eru menn í þann veginn að hirða tún sín". Í áfellinu um miðjan júlí fennti nokkrar sauðkindur á Reykjaheiði og víðar nyrðra. Á Fjarðarheiði og Smjörvatnsheiði eystra komu umbrotaskaflar.

Ingólfur segir þann 9.september:

Aðfaranótt 21.ágúst hvítnaði niður í sjó norður í Húsavík og frostnótt var þar 23. s.m. Töður náðust með góðri verkun í Þingeyjarsýslu, þótt þær rigndi nokkuð, því að kuldinn varði þær skemmdum.

Dagfari á Eskifirði segir:

[15.] Veðrátta hefur verið mjög köld hér að undanförnu. Þykkviðri og þokur hafa nú haldist í heilan mánuð svo vart hefur sólina séð.

[29.] Hér hefur verið mesta kuldatíð allt þar til nú síðustu dagana. Hefur oft snjóað hér á fjöll og stundum niður í miðjar hlíðar. Af Norðurlandi er að frétta líka veðráttu. Á fyrra mánudag [20.ágúst] hafði verið alhvítt af snjó í sjó niður á Siglufirði.

Vestri segir þann 25. að góðviðristíð hafi verið vestra allan þennan mánuð og hver dagurinn mátt heita öðrum betri og bjartari. 

Austri birti eftirfarandi bréf þann 27.:

Austur-Skaftafellssýslu 9.ágúst 1906. Mikill munur hefir verið á tíðarfarinu hér um slóðir nú og í fyrra. Þá var eitthvert hið hagstæðasta sumar er komið hefir í manna minnum, og eftir það hin ágætasta haustveðrátta, en skammt var liðið af nýja árinu, þegar veðrátta tök að spillast og fyrir þorra voru flestar skepnur komnar á gjöf sökum áfreða. Síðan voru lengstum hagleysur þorrann og góuna, enda óvanalega snæsamt, eftir því sem hér gerist og þegar stillti til um góulokin, var kominn svo mikill snjór að sólbráð vann seint á honum, og voru ekki komnir upp nægir hagar á láglendi, þegar brá til rigninga um byrjun aprílmánaðar. Voru þá svo umhleypingar um hálfan mánuð, að fádæmum sætti, og tók skjótt upp allan snjó, en ýmist dundu á ofsaveður, stórrigningar eða hagl-skúrir og fór það mjög illa með sauðfénað, er sleppt var til fjalla. Rétt fyrir páska gekk til algjörðrar norðanáttar með frostum og fjúki og helst sú kuldatíð stöðugt að heita má fram yfir uppstigningardag (24. maí), og yfir tók dagana 27.-28. apríl. Þá stóð það ofsarok á norðan með frostgrimmd og kófi,að slík veður munu hér aldrei hafa komið um það leyti árs síðan fellisvorið 1882. Hraktist þá fé, er til fjalla var komið og lenti sumt í fönnum, en sumu sló niður til dauðs. Þó munu fáir hafa orðið fyrir miklum fjármissi í sjálfu veðrinu, en lengi hefir fénaður búið að afleiðingum þess. Svo var veðurhæðin mikil að álftir og gæsir fundust á ýmsum stöðum dauðrotaðar eftir byl þennan. Miklar skemmdir urðu á sumum jörðum af grjót- og sandfoki og sumstaðar fuku járnþök af húsum. Sauðburður gekk misjafnlega og varð víða lambadauði mikill, en flestar ær munu hafa tórt af, þær er ekki urðu fyrir slysum. Margir færðu nú ekki frá, þeir er áður hafa gjört það, enda fer það að verða æ örðugra sökum fólksleysis. Eftir uppstigningardag fór tíðin smábatnandi, og var æskileg veðrátta mestallan júnímánuð og framan af júlímánuði svo grasvöxtur varð sumstaðar í meðallagi eða betri. Síðan sláttur byrjaði hafa gengið sífelldir óþurrkar, og horfir nú til mestu vandræða enda eru menn farnir að tala um að gjöra samtök til að panta sér fóðurbæti frá útlöndum hvað sem úr því verður. 

September: Nokkuð skakviðrasamt en fremur hlýtt.

Þjóðviljinn birti þann 6.október bréf, dagsett á Hornströndum þann 3.september:

Veðrátta var hér venju fremur köld síðastliðið vor, sífelldir frostnæðingar, með kafaldshríðum öðru hvoru, og hélst sú veðrátta til fardaga, enda hafísinn nær landfastur og mátti heita. að allar skepnur stæðu á gjöf, en þó urðu skepnuhöld almennt góð. Um fardaga brá til hlýviðra, svo að jörð leysti og fór að gróa, svo að um sólstöður var alls staðar kominn nógur skepnugróður, og hélst góð tíð til miðs júlímánaðar. 17.—19. júlí gerði snjóhret, svo að sumstaðar varð kálfasnjór á túnum, og stóðu kýr á gjöf í 3—4 daga, sem er dæmafátt um þann tíma árs. — Upp frá því mátti kalla, að aldrei kæmi regnlaus dagur fram yfir miðjan ágúst. svo að töður voru orðnar mjög hraktar. — Seinni hluta ágústmánaðar voru bestu þurrkdagar, og náðist þá inn allt hey, sem laust var. Frá septemberbyrjun hafa haldist votviðri.

Norðri birti þann 12.október bréf úr Öræfum dagsett 10.september:

Veðrátta var köld og þurrkasöm framan af sumri, júlí var fremur votviðrasamur, einkum seinni partinn, og fyrstu vikuna af ágúst, svo að sumstaðar var ekki hirtur fyrsti töðubagginn fyrr en 9. ágúst. Eftir það var  heyskapartíðin góð mánuðinn út, en síðan í byrjun sept. hefir verið votviðrasamt, svo ekki hefir verið hægt að að ná inn heyi. Grasvöxtur var í góðu meðallagi. Skepnuhöld voru góð í vor í Öræfum og lambadauði enginn; en í öðrum nálægum sveitum voru víða fremur slæm fjárhöld og talsverður lambadauði.

Þann 13. gerði ofsaveður víða um land með töluverðum sköðum. Austri segir þann 15.:

Hroðaveður af suðri, ofsastorm og rigningu, gjörði hér aðfaranótt þ. 13. þ.m. Fylgdi því þrumur og eldingar miklar og er það mjög sjaldgæft hér eystra. Heyskaðar nokkrir urðu af vatnagangi nú 13.þ.m. í Héraði. Mestir urðu þeir á Skriðuklaustri í Fljótsdal, þar flæddi Jökulsá yfir nesið og sópaði burtu yfir 50 hestum at heyi.

Ingólfur segir þann 16.:

Ofsaveður suðaustan var hér og víða um land á miðvikudagskveldið [12.] og nóttina. Þá fauk grind geðveikrahælisins á Kleppi nýreist og tapaðist mikið af trjánum út á sjó. 

Þjóðólfur segir af sköðum í pistli þann 21.:

Skaðar af ofviðrinu aðfaranóttina 13. þ.m. hafa orðið töluverðir, einkum í Árnessýslu. Þar strandaði gufubáturinn „Njáll“ eign Lefoliisverzlunar á Eyrarbakka, rak þar upp á land, langt upp fyrir fjöruborð, og verður eflaust ekki náð út aftur. Í sama veðri sleit upp vöruskip til Ólafs kaupm. Arnasonar á Stokkseyri, og keyrði á land upp fram undan Kaðalsstöðum, milli Stokkseyrar og Eyrarbakka. Mikið af vörunum skemmt. Þetta er þriðja vöruskipið til hr. Ó. Á., er strandað hefur i ár, og eru það sjaldgæf óhöpp. Mannbjörg varð af báðum þessum skipum. A Stokkseyri brotnaði fjöldi róðrarbáta. Allvíða fauk mikið af heyi i þessu ofsaveðri og járnþök af hlöðum, þar á meðal í Útverkum á Skeiðum; enn fremur járnþak af öllum bæjarhúsum í Skeiðháholti, og þak af baðstofu í Auðsholti í Ölfusi. Veðrið var eitthvert hið mesta í manna minnum þar austanfjalls.

Þann 3.október segir Lögrétta frá skipskaða á Faxaflóa í illviðrinu:

Farist hefur skip héðan úr Reykjavík í stórviðrunum um miðjan síðastliðinn mánuð, „Hjálmar", seglskip, er Thor kaupm. Jensen átti og notaði til flutninga hér um Flóann. Í þetta sinn var það leigt Duusverslun og var á heimleið sunnan úr Leiru. 5 menn voru á skipinu og hafa farist með því.

Lögrétta segir enn af tjóni í septemberveðrum þann 10.október:

Úr Húnavatnssýslu er skrifað: „ ... Stórfeldir heyskaðar urðu hér 13.september, einkum þó í Þingi og Vatnsdal. Þá rak og upp skútu á Skagaströnd, sem Hemmert átti, og brotnaði hún; hafði verið mannlaus þar fyrir framan ..."

Fjárskaðar urðu við Norðurá í Norðurárdal í rigningakastinu eftir 20. september. Áin flæddi yfir eyrar og nes og tók með sér fé, sem þar var. Milli 30 og 40 kindur hafa fundist reknar, en hve margt fé hefur farist þar alls er óvíst; sagt að bóndinn í Desey hafi misst flest sitt fé.

Þjóðviljinn segir af sköðum þann 10. og 13. í pistli þann 18.:

Ærið tjón hefur hlotist af aftakaveðrinu, aðfaranótt fimmtudagsins 13. þ.m., norðan og sunnanlands, þar sem til hefur spurst, og mun þó eigi allt frétt.Kolaskip til Gránufélagsins, „Emanúel", sleit upp á Sauðárkrók. Menn björguðust. ... Gufuskip rakst á skútuna „Morning Star", eign Aug. kaupmanns Flygenrings í Hafnarfirði, og laskaðist hún eitthvað. Ennfremur missti Einar í Óseyri uppskipunarbát, stóran og vandaðan.

Í sunnanrokinu 10. þ.m. fuku 100 hestar af heyi á Lækjamóti i Húnavatnssýslu. Var þann dag afspyrnurok á Norðurlandi, og hafa eflaust víðar orðið skemmdir, þótt eigi sé það frétt. Í Rangárvallasýslu hafa heyfok orðið áður í sumar á ýmsum bæjum. Mestu tjóni hafa þeir orðið fyrir Jónas bóndi Arnason á Reynifelli og Ófeigur Jónsson í Næfurholti. Missti hinn fyrrnefndi 70, en hinn síðarnefndi 100 hesta af töðu.

Vestri segir frá skemmdum vestra í pistli þann 15.:

Stormatíð hefir nú verið allmikil þessa síðustu viku og úrkomusamt. Hvassast var þó aðfaranótt þess 13. þ.m.; var þá afspyrnurok. Mótorkútterinn „Tilraun" frá Eyrarbakka rak þá í land hér yfir á hlíðinni, en náðist fram aftur sama daginn. Var hann lekalaus og lítt eða ekki skemmdur nema strákjölur og stýri. Nokkrar skemmdir urðu og á húsum í bænum, og einn mótorbátur fauk og brotnaði nokkuð.

Þann 8.október rekur Ingólfur enn skemmdir í veðrinu:

Miklir skaðar urðu víða um land af veðrinu 13. sept. Við Hrísey sukku þrír vélarbátar, og einn í Húsavik. Hann náðist aftur lítt skemmdur. Heyskaðar urðu víða í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu. 

Dagfari á Eskifirði segir þann 24.:

Að kveldi hins 12. þ.m. voru svo miklar þrumur og eldingar hér, að menn minnast eigi slíks síðan sumarið 1875, þegar öskufallið mikla var hér um Austurland.

Blaðið „Reykjavík“ greinir frá því þann 6. október að þrumuveðrið hafi einnig náð til Vopnafjarðar. 

Október: Nokkuð hagstæð tíð.

Nú var talsímasamband að komast á á milli landshluta - og ritsími til útlanda - og veðurfréttir fóru að berast milli landshluta - og sömuleiðis fréttir af símslitum vegna veðurs. Ísafold segir símafréttir af tíð þann 3. október og Ingólfur af símslitum þann 21.:

Ísafold [3.]: „Tíðarfar segja símafréttir í dag og í gær hið besta austanlands og norðan. Hefir verið öndvegistíð frá því í öndverðum september“. Ingólfur [21.]: „Símslit hafa enn orðið allmikil á landsímanum. Hefir ekki verið hægt að símtala við Akureyri þessa dagana nema mjög slitrótt. Sagt er að annar þráðurinn sé slitinn í Skagafirði“.

Norðri segir þann 12.:

Jarðskjálfta fundu menn hér í bænum um miðjan dag á laugardaginn var. Hann var talsvert harður og afar snöggur.

Áttavita mikinn hefir „Meterologisk Institut“ í Kaupmannahöfn látið seta á hús H. Schiöths bankagjaldkera. Hann hefir á hendi fyrir það veðurfræðislegar athuganir og símar þær nú til stofnunarinnar á hverjum degi.

Hendrik Schiöth athugaði lengi veður á Akureyri - loftþrýsting allt frá 1874, en mældi jafnframt hita og mat vind frá 1881. Hann gerði jafnframt veðurskeyti fram í apríl 1907, en þá var skeytastöðin á Akureyri flutt annað.

Lögrétta segir af strandi í pistli þann 31.október:

Strand varð 14. þ.m. í Ólafsvík, sleit upp fiskiskútu þar á höfninni og rak á land; hún hét Clarína, eign Einars kaupm. Markússonar. Mannskaði varð ekki, en skipið mjög brotið.

Ísafold segir af tíð þann 17.:

Það hefir verið ærið umhleypingasamt í haust hér sunnanlands. Dag og dag eða jafnvel 2 daga í röð stöku sinnum fagurt sumarveður, blíða jafnvel og hlýrra en um hásumarið, t.d. um fyrri helgi, en þess í milli mestu rosar. Kólna gerði ekki fyrr en um þessa helgi. Laugardag 13. var hann fyrst á landsunnan, en snerist í útsuður er á daginn leið, með slyddu. Sú átt hélst fram á sunnudagskveld og hvessti þá töluvert. En um miðja nótt var hann genginn upp í norður, með aftökum, er stóðu fram yfir miðjan dag í gær. Þá fór að slota lítið eitt. Nú er veðrið gengið niður. Fjúk var lítið sem ekkert með þessu veðri hér við sjóinn, en töluvert til sveita; og bylur til fjalla. Ritsímafrétt að norðan segir hafa verið stórhríð í Eyjafirði í fyrradag og hefir sjálfsagt gengið miklu víðar um norðurland. Talið mjög hætt við fjár sköðum þar.

Austri fjallar um tíðina í pistli þann 20.október:

Veðráttan hefir verið hin ákjósanlegasta nú yfir alla haustkauptíðina blíðviðri á degi hverjum, sem um hásumar væri. En nú um síðustu helgi breyttist veðráttan og gekk til norðurs með hríð og snjó, mest á mánudaginn. Mun óveður þetta hafa gengið yfir allt land. Héraðsmenn sem komu ofan yfir Fjarðarheiði i fyrradag með hesta sögðu allmikla ófærð á heiðinni, voru þeir 7 tíma yfir heiðina. Í gær og dag var gott veður svo snjór er að mestu tekinn upp. 

Þjóðviljinn segir af tíð í október:

[6.] Veðrátta hefir verið mjög óstöðug í nokkra daga, skúrir öðru hvoru, en þurrt í milli.

[13.] Tíðin hefir verið heldur köld undanfarna daga, útsynningur, en rigningarlítið.

[20.] Tíðarfar. Norðanfrost nokkra undanfarna daga, nú sem stendur útsunnan rigning.

[31.] Frá Ísafirði er Þjóðviljanum ritað 18. október: „Tíð var hér mjög hagstæð fyrri hluta þ.m., og féll enginn snjór á lálendi, fyrr en 11. þ.m., og síðan gerði norðan hríð með all-mikilli fannkomu 14.—17. þ.m. Fjárskaði allmikill varð i norðanhretinu um miðjan þ.m., þar sem síra Páll Stephensen á Melgraseyri missti yfir 50 fjár í sjóinn, er rak dautt í Vatnsfirði, og þar í grennd".

Vestri segir af sömu fjársköðum þann 22.:

Tíðarfar hefir verið hið versta framan af síðastl. viku. Stöðug norðanhríð, að því er heita má, síðan á laugardagskvöld 13. þ.m. Inn-Djúpsmenn telja það með verstu veðrum, er þar hafa komið og olli það víða allmiklum fjárskaða. Að sögn kvað farist hafa um 50 fjár í sjóinn á Melgraseyri; nokkrar kindur fundust dauðar á bersvæði og um 20 fórust í Langadalsá. Margt fé vantaði, er fregnir bárust síðast og óvíst er um afdrif þess.

Að kvöldi þ.18. varð gríðarlegur bruni á Akureyri, fimm stór hús auk bakhúsa, smárra pakkhúsa og skúra brunnu. Sagt var í frétt Norðra þann 19. að meir en 100 manns væru húsnæðislausir eftir brunann. Eldbjarminn sást austur að Mývatni - þar héldu menn að Gagnfræðaskólahúsið nýja (Menntaskólinn) væri að brenna, að sögn Norðra.

Þjóðólfur greinir frá því þann 16.nóvember að maður hafi orðið úti í októberhríðinni:

Maður varð úti 14. [október] millum Sölvabakka og Lækjardals í Refasveit, Jón Jóhannesson að nafni, kenndur við Kurf á Skagaströnd og þaðan kynjaður en hinn 14. f.m. gerði ógurlegt veður í Húnavatnssýslu af norðaustri með stórrigningu, en snerist í frost og hríð um nóttina.

Þjóðviljinn birti þann 21.nóvember bréf úr Árneshreppi á Ströndum, dagsett 24.október:

Þegar vika var af júlí brá til óþurrka, og um miðjan mánuðinn varð alhvítt í sjó, og lá snjór ofan í miðjar hlíðar út allan júlí. Hret þetta tók mikið af heyskapartímanum, því að marga daga var svo slæmt veður, að ekki varð staðið að slætti, né sinnt annarri heyvinnu. — Með byrjun ágústmanaðar hlýnaði, en þó héldust þokur, og fúlviðri, til 17. ág. Þá komu loks þurrkar. er stóðu vikutíma, og náðist þá inn allt hey, sem laust var, en mikið af því mjög hrakið, og töður líklega hálf-ónýtar. Grasspretta var í meðallagi sakir góðrar tíðar i júní. Með septemberkomu sneri til rosa, og stórviðra af ýmsum áttum, svo að hey, sem slegið var eftir 1.september, náðist ekki, fyrr en löngu eftir leitir, og misstist þó nokkuð í aftaka-roki 13. sept.

Lögrétta greinir þann 31.október frá veðurskeytasendingum:

Mönnum hefur lengi verið ljóst, að það mundi koma veðurfræðingum og veðurspám í Norðurálfu að miklu haldi, ef hægt yrði að koma veðurfréttum daglega héðan til annarra landa. Þess vegna hafa veðurfræðingar jafnan verið því mjög hlynntir að hingað til lands væri lagður ritsími; skömmu eftir 1880 var leitað til margra ríkja í Norðurálfu um styrk til Íslandssíma og var þetta þá ein aðalástæðan, að öllum væri fengur í veðurfréttum héðan. Sú málaleitun bar engan árangur, annan en þann, að Danmörk hét þá í fyrsta sinni að styrkja fyrirtækið ef það kæmist á fót. Nú er síminn kominn og nú hefur Veðurfræðistofnunin í Kaupmannahöfn ráðið Knud Zimsen verkmeistara til að senda daglega héðan símskeyti um veðrið, um loftþyngd, vindstöðu og veðurhæð, skýjafar og úrkomu og lofthita. Þessi skeytasending hefst þó ekki fyrr en einhverntíma í næsta mánuði. Líkur eru fyrir því, að veðurfræðistofnunin muni láta síma til sín veðurfréttir frá fleiri stöðum hér á landi. Þessi símskeyti eru svo haganlega orðuð, að hvert þeirra jafngildir 4 orðum og er borgunin þá 2 kr. 80 aurar fyrir hvert skeyti, eða rúmar 1000 kr.á ári.

Veðurskeytasendingar til útlanda hófust á Seyðisfirði seint í september, en síðan líka á Akureyri og Blönduósi. Farið var að senda frá Reykjavík seint í janúar 1907, frá Ísafirði 1909 og Vestmannaeyjum 1911. 

Nóvember: Hagstæð tíð lengst af. Hiti í meðallagi.

Þann 6.nóvember segir Lögrétta frá símabilunum:

Aðfaranótt miðvikudagsins í síðastliðinni viku [31.október] slitnaði landsíminn milli Hofs í Vonafirði og Grímsstaða, uppi á Dimmafjallgarði. Bóndinn á Grímsstöðum athugaði fyrst skemmdirnar og símaði hingað, að þráðurinn væri margslitinn á dálitlu svæði og einangrararnir brotnir á 10 staurum. Norðmaður, sem er á Grímsstöðum til eftirlits með símanum, var þá staddur á Hofi, og fór hann nú uppeftir til þess að sjá, hvað um væri að vera. Hann sá strax, að skemmdirnar voru eigi af mannavöldum, heldur hafði klaka hlaðið utan á þráðinn í ísingarveðri svo miklu, að hann þoldi ekki þau þyngsli. Sama er að segja um einangrarana, að klaki hafði hlaðist að þeim og þeir sprungið, er þráðurinn féll. Íshylkið utan um þráðinn kvað vera nærri eins gilt og símastaurarnir. Fljótlega var gert við þessa bilun, en þó eigi á þann hátt, að þræðirnir væru festir aftur á staurana, heldur liggja þeir fyrst um sinn á jörð í íshylkjum sínum, og eru á þann hátt vel geymdir um þennan tíma árs. Nú hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að fjölga staurum á Dimmafjallgarði, því símastjórinn telur það svæði viðsjálasta kaflann á allri símaleiðinni, og eru staurar, sem afgangs voru á Akureyri, sendir til Vopnafjarðar.

Ísafold lýsir nóvemberveðri í stuttum pistlum:

[3.] Mesta veðurblíða þessa dagana, einkum i gær og i dag, sumri líkara en vetri.

[14.] Sífeldar rigningar og frostleysur, með nógum stormum.

[17.] Eftir langvinnar þíður með alauðri jörð tók til að snjóa í gær lítils háttar af austri. En i dag norðanbylur, frostlítill þó.

[24.] Hlánaði í fyrradag og er þíða enn.

Norðri segir frá jarðskjálftum þann 9.:

Jarðskjálftakippi sjö varð vart við í nótt, tveir þeirra voru allharðir, annar kl.10 hinn kl.1.

Dagfari á Eskifirði segir þann 15.nóvember:

Veðrátta hefir verið góð að undanförnu, en þó hafa gæftir eigi verið sem bestar. Í dag er kafaldsveður. Jarðskjálfta varð vart á Akureyri aðfaranótt 9. þ.m. Einnig fannst jarðskjálfti nýlega í Vopnafirði.

Lögrétta segir þann 21.:

Vélarbáturinn Búi, flutningabátur Kjalnesinga, slitnaði upp hér á höfninni á laugardaginn [17.] og rak hann í land niður af búð Geirs kaupm. Zoéga. Eitthvað hafði hann skemmst, en ekki mjög mikið.

Þjóðviljinn segir 29.nóvember frá fjársköðum:

Fjárskaðar urðu nokkrir í Melasveit í Borgarfirði 17. nóv. i norðanhretinu, einkum frá bæjunum Melum og Fiskilæk. Fjárskaðar urðu á fáeinum heimilum í Mosfellssveit í ofsaveðrinu 17.-18. þ.m., nokkrar kindur, sem týndust í Köldukvísl, og í Varmá, en þó hvergi til mikilla muna, þó að fátækum sé það full tilfinnanlegt.

Um miðja fyrri viku hlánaði, og hafa síðan verið votviðri, og tíð fremur óstöðug.

Austri ræðir veður þann 24.nóvember:

Fyrri hluta vikunnar setti niður nokkurn snjó.en eftir miðja viku hlánaði aftur, svo snjór er að miklu leyti tekinn upp. Í dag er enn blíðviðri.

Austri segir þann 1.desember (á trúlega við veðrið um 17.nóvember):

Fjárskaðar töluverðir urðu í Borgarfirði, Kjós, Mosfellssveit, Árnessýslu og Rangárvallasýslu; hestar líka fenntir.

Dagfari birti þann 31.desember bréf úr Öræfum dagsett 27.nóvember:

Tíðin hefir verið mild og góð það sem af er vetri; mest frost 19. þ.m. kl.8.fm 8 stig á Celsius. Lömb voru fyrst tekin á gjöf um miðjan þennan mánuð, enda gerði nokkurn austanbyl 17. þ.m. á tveimur austustu bæjum sveitarinnar, á hinum bæjunum snjóaði lítið og ekkert sumstaðar. Á öðrum bænum, sem bylurinn náði til (Hnappavöllum), fennti kindur, og hafa fundist 30 kindur í fönn. Nú er orðið alautt, og hæg þíða.

Þann 19.desember birti Ísafold bréf úr Rangárvallasýslu miðri, dagsett 28.nóvember:

Tíðarfar hefir verið stirt hér og óstöðugt þetta haust, allt fram að byrjun þ.m. [nóvember]. Þá batnaði veðrátta og hélst það til 15., en versnaði þá aftur. Hinn 17. gerði hér aftaka-vonskubyl, sem hélst til 18. Fénaður var úti um allt og urðu víða fjárskaðar meiri og minni. Fé fennti, og er nú sumt fundið, ýmist dautt eða lifandi. Frá mörgum bæjum sem liggja nærri Þverá (Markarfljóti), hrakti fé í hana og fórst þar. Þó var nokkru bjargað lifandi eftir bylinn, er hafði staðið á bökkum hennar og hún flóð þó langt upp yfir þá. Hross lentu og allmörg í flóði úr henni fram undan Fljótshlíð utanverðri (móts við Lambey). Munu þau flest hafa náðst lifandi, þó við illan leik; stóðu orðið í miðjar síður. Þó urðu björgunarmenn varir við eitt hross dautt. Þeir töldu líklegt, að fleiri kynni þau að vera; því fleira vantar af hrossum, sem höfðu haldið sig þar. Heyskapur varð viða heldur rýr hér um slóðir, sakir þess, að grasspretta varð heldur með lakara móti, og þar við bættist, að sláttur varð mjög endasleppur sakir rosa og rigninga. Munu margir hafa gengið nærri sér með að farga kúm og jafnvel lömbum.

Desember: Nokkuð umhleypingasamt, en víðast snjólítið og tíð fremur hagstæð. Kalt.

Lögrétta segir frá óhappi á höfninni í frétt þann 5.desember:

Vélabát sleit upp hér á höfninni í skarpri stormhviðu nú á laugardagskvöldið [1.desember]. Það var „Gammur" Björns Gíslasonar, sem hann hefir haldið héðan út til fiskiveiða í haust. Bátinn rak upp að dráttarbrautinni og upp á hana, og brotnaði þar stykki úr kjölnum miðjum, en annað skemmdist hann ekki, og var tekinn þar upp til viðgerðar.

Þjóðviljinn lýsir desemberveðrinu:

[7.] Tíðarfar óstöðugt síðasta vikutímann, ýmist snjór og væg frost, eða hlákur, og rosaleg tíð.

[14.] Tíðarfar storma- og rigningasamt. nema snjóar, og væg frost, síðustu dagana.

[21.] Tíðarfar umhleypingasamt, útsynningskafaldshríðar og stormar.

[29.] Hvít jól og allmiklar frosthörkur hér syðra, 8—10 stig R við sjóinn.

Austri segir þann 8.desember:

Stórhríðarveður gjörði hér um síðastliðna helgi (1. til 2. desember]. Setti þá niður mjög mikinn snjó. En síðari hluta vikunnar blánaði svo að snjó tók töluvert upp. Skemmdir urðu nokkrar á talsímaþráðunum hér í bænum nú í stórhríðarveðrinu, Skemmdirnar urðu aðallega á þráðum þeim er lágu þvert fyrir veðrinu, hlóðst svo mikill snjór á þá, að þeir slitnuðu undan þunganum. Næsta dag var strax gjört við þræðina svo sambandið er nú aftur í besta lagi. Merkilegt má það heita, að i veðri þessu mun landsíminn hvergi hafa bilað á leiðinni til Reykjavíkur, var jafnvel talsímað daginn eftir ofveðrið alla leið til Reykjavíkur.

Vestri segir af slysi í frétt þann 22.:

Piltur varð úti á Sámsstöðum í Laxárdal í Dalasýslu, seint í f.m. Var að sækja hesta upp á háls og skall þá á moldviðrisbylur. Pilturinn var um 15 ára, hann hét Jón, sonur Kristjáns bónda á Breiðabólstað á Fellsströnd. Líkið var ófundið. [Þjóðviljinn segir þetta hafa verið þann 15.desember].

Austri segir frá illviðri þann 22.desember:

Í ofsa sunnanroki er gjörði hér á föstudagsnóttina slitnaði hér frá bæjarbryggjunni mótorbátur, sem Helgi kaupm. Björnsson í Borgarfirði átti og hefir ekkert spurst til hans síðan, en ýmsar vörur, sem í bátnum voru, fundust reknar út í Selstaðavík hér í firðinum og telja menn því líklegt að báturinn hafi sokkið þar skammt frá. Beint tjón af þessu mun vera 3-4000 kr.

Dagfari segir þann 31. að verstu veður hafi verið um jólin, hríðar og frost, mest 11. stig.

Ísafold segir af jólaveðri þann 29.:

Alhvít jól og eftir því köld. Hvassviðri af ýmsum áttum, oft með fjúki.

Vestri segir um jólaveðrið þar vestra í pistli þann 31.:

Jólaveðrið hefir verið kyrrt og stillt en frost allmikið. Hvít hafa þau verið og eiga menn því eftir gömlu trúnni von á rauðum páskum.

Þann 1.febrúar 1907 birti Norðri bréf af Fljótsdalshéraði, dagsett 2.janúar. Þar er lýst veðri ársins 1906 þar um slóðir:

Tíðarfar gjörist ákaflega um hleypingasamt og harðhnjóskulegt síðasta kaflann í fyrravetur. Ýmist þíða, norðvestan hroði með brunafrosti, eða fannfergju veður sinn daginn hvað og stundum allt sama daginn. En þó tók steininn úr er sumarið heilsaði upp á okkur. Sumarið heilsar. Fyrsta daginn var hríð, annan dag hríð og þriðja dag hríð o.s.frv. [Þann] 26. mokaði niður í logni síðdegis eins og mest mátti verða. 27.-28. var grenjandi stórhríð með svo mikilli fannkomu að slíkt er mjög sjaldgæft á Héraði. 29. var hríðarupprof. Var þá kominn hér svo mikill snjór, að varla hefir komið annar eins á jafn stuttum tíma nú um mörg undanfarin ár. Eftir 27. maí fór tíðin svo smá batnandi en þó var hún bæði vætusöm og oft ákaflega köld. T d. hvítnaði alveg ofan i Fljót nóttina milli 29. og 30. júní og mörgum sinnum hvítnaði ofan í miðjar hlíðar um mánaðamótin júní og júlí. Jafnvel nóttina milli 15. og 16. júlí mátti heita blindbylur á Fjarðarheiði. Fram að þessum tíma hefir mátt heita fremur gott, þó hefir tíðarfar verið heldur óstillt í vetur. Jarðir hafa verið dágóðar í öllum uppsveitum, og mun yfirleitt lítið vera búið að gefa fullorðnu fé. Þó hefir verið mjög jarðlítið og jafnvel jarðlaust á Út-Héraði síðan um jólaföstu komu. Einnig var heiðhaglítið í Fljótsdal nú um tíma fyrir svellalögum.

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1906. Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrsti þriðjungur nóvembermánaðar

Nú er þriðjungur nóvembermánaðar liðinn og meðalhiti hans í Reykjavík er 3,9 stig, 1,6 stigi ofan meðallags 1961-1990, en +0,4 ofan við meðallag sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn er í 11. hlýjasta sæti (af 18) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2004 (6,1 stig), en kaldastir 2010 (0,1 stig). Sé litið til lengri tíma er meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins í Reykjavík í 37.sæti af 143. Hlýjastir voru dagarnir árið 1945 - meðalhiti 8,2 stig, en kaldastir 1899, meðalhiti -4,0 stig. Nýliðinn sólarhringur var með hlýjasta móti í Reykjavík - meðalhiti hans var 9,6 stig, aðeins tvisvar er vitað til þess að sá 10. hafi verið hlýrri en nú, árið 1999 (10,2 stig) og 1945 (10,5 stig).

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins 1,7 stig, +1,0 stigi ofan meðallags 1961-1990, en í meðallagi síðustu tíu ára.

Að tiltölu hafa dagarnir tíu verið hlýjastir í Skaftafelli, vik miðað við síðustu tíu ár er þar +1,3. Kaldast að tiltölu hefur verið við Búrfell, hiti þar -2,1 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 11,1 mm, innan við helmingur meðallags, en 19,7 mm á Akureyri og er það í ríflegu meðallagi.

Sólskinsstundir hafa mælst 12,4 í Reykjavík það sem af er mánuði og er það í tæpu meðallagi.


Fremur hlýir dagar

Síðustu dagar hafa verið fremur hlýir á landinu miðað við árstíma en marka engin tíðindi - dagar sem þessir eru nokkuð algengir í nóvember. Slatti af dægurmetum hefur þó fallið á einstökum veðurstöðvum - ekki þó á neinum sem starfræktar hafa verið lengi nema hvað slík met hafa fallið á fáeinum hálendisstöðvum, t.d. í Jökulheimum og í Setri. - En komi hlýir dagar fellur alltaf eitthvað af stöðvadægurmetum.

Þó hlýindi verði e.t.v. ekki alveg samfelld áfram er þó ekki að sjá neina verulega kulda í kortunum. Hér að neðan má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og hæðarvik næstu viku, dagana 12. til 18.nóvember - og reiknimiðstöðin segir að líkur séu á svipuðu ástandi í vikunni þar á eftir líka.

w-blogg091018b

Eins og sjá má verður sunnanáttin í háloftunum mun öflugri heldur en venja er til, mjög jákvæð vik eru austan við land, en neikvæð suðvestur af Grænlandi. Nokkur lægðarsveigja er á jafnhæðarlínunum og bendir hún til þess að úrkoma verði töluverð. En þetta er meðalkort fyrir heila viku og eins og venjulega rétt að hafa í huga að væntanlega bregður út af þessari almennu stöðu einstaka daga - e.t.v. með kaldara veðri.

Til gamans lítum við líka á sams konar kort - en fyrir nóvembermánuð allan fyrir 50 árum. Sá mánuður var að tiltölu hlýjastur allra mánaða áranna 1966 til 1971 - ágæt áminning um að hlýir mánuðir geta skotist inn á köldum tímabilum sé staða háloftavinda nægilega afbrigðileg. Á sama hátt geta mjög kaldir mánuðir sýnt sig á hlýjum tímum.

w-blogg091018a

Hér má sjá stöðu sem ekki er ósvipuð þeirri sem spáð er í næstu viku - hér er þó um heilan mánuð að ræða og mjög óvíst að núlíðandi nóvember nái einhverju viðlíka í heild - líkur eru heldur gegn því (en aldrei að vita). 

Tíð í nóvember 1968 fær góða dóma í Veðráttunni tímariti Veðurstofunnar (en það er aðgengilegt á timarit.is). Hörmulegt sjóslys varð við suðurströndina, en ritstjóri hungurdiska hefur ekki flett upp á hvaða hátt veður kom þar við sögu. Rigningar ollu skriðuföllum austanlands:

Tíðarfarið var hlýtt og hagstætt lengst af. Tún voru mikið til græn, og blóm sprungu út í görðum. Fé gekk úti og var lítið eða ekkert gefið. Færð var yfirleitt góð.

Skaðar. Þ.10. fórst vélskipið Þráinn undan Mýrdalssandi og með því 9 manns. Í stórrigningunum þ. 12. og 13. urðu miklar skemmdir víða austanlands á svæðinu frá Borgarfirði eystra að Hornafirði. Vegir urðu víða ófærir sökum skriðuhlaupa, og brýr og ræsi skemmdust. Tvær skriður féllu á hús í Norðfirði, og varð fólk að flýja úr húsum þar. Vegaskemmdir urðu einnig á Héraði, og í Fljótsdal urðu nokkrir fjárskaðar, og skriður féllu á tún. Víða var símasambandslaust.

Við lítum líka á sjávarhitavika- og hafískort frá nóvember 1968 - úr fórum evrópureiknimiðstövðvarinnar. Ekki ljóst hversu áreiðanleg vikakortin eru.

w-blogg091018c

Þetta er ólíkt því sem nú er. Mesta athygli vekur auðvitað ísmagnið við Austur-Grænland - ísþekjan nær hér alveg til Jan Mayen. Nú er nánast enginn ís á öllu þessu svæði - nema rétt við strendur Norðaustur-Grænlands. Íss er ekki getið hér við land í nóvember 1968, en hann var ekki langt undan í desember. Á útmánuðum 1969 er talið að flatarmál austurgrænlandsíssins hafi náð milljón ferkílómetrum, það mesta eftir 1920. Fyrir 15 árum var meðaltalið komið niður í helming þess og á síðustu árum hefur ísmagnið verið enn minna.

Í nóvember 1968 voru mjög væg jákvæð sjávarhitavik sunnan við land, en kalt var langt suður í hafi og fyrir norðan. 

Vonandi að vel fari með nú.


Strókrit - strókspár

Lítum nú á dæmi um svonefnt strókrit. Evrópureiknimiðstöðin gerir tvisvar á sólarhring 51 spá um veður hálfan mánuð fram í tímann. Þar er fyrst að telja „háupplausnarspá“ sem kölluð er - það er flaggskip líkansins - reyndar látið nægja að birta niðurstöður hennar „nema“ tíu daga fram í tímann, en síðan 50 aðrar sem látnar eru renna um tölvuna í ívið minni upplausn, í 49 þeirra hefur lítilsháttar verið átt við byrjunarstöðuna - t.d. á svæðum þar sem óvissa er fyrir hendi um það hver hún er - en ein fær að renna í friði án nokkurra breytinga og er á ensku nefnd „control run“ - ekki gott að þýða það hugtak - „stýrispá“ finnst ritstjóra hungurdiska ekki alveg rétt - hann kysi frekar „viðmið“ eða eitthvað þannig. Kannski rétta orðið sé einhvers staðar að finna.

Strókrit (nefnast „plume“ á ensku) sýna hita, úrkomu eða hvaðeina úr öllum þessum fjölda spáa saman. Oft sést þá vel hvernig spár dreifast eftir því sem lengra líður á spátímabilið. Við lítum hér á eitt dæmi um slíka spá - ekki vegna þess að eitthvað sérlega merkilegt sé að sjá, heldur sem dæmi um eitthvað sem veðurfræðingar horfa gjarnan á - alla vega sumir.

w-blogg071118a

Hér má sjá spár reiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins yfir Reykjavík næstu tíu daga, frá 7. til 17. nóvember. Heildregna gula línan sýnir „viðmiðunarspána“, strikaða gula línan sýnir „háupplausnarspána“, en rauðleitar strikalínur hinar spárnar 49. Lóðrétti ásinn sýnir hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Bláum borðum er síðan bætt við - til þess að við sjáum betur hvernig spárnar dreifast. Flöturinn á að hækka lítillega fram á komandi nótt, lækka síðan - en hækka svo aftur um og upp úr helgi.

Fyrstu dagana er greinilegt að spárnar eru nokkuð sammála - þær liggja í einum hnapp - og virðast gera það fyrstu 6 dagana eða svo. Virðast segjum við, því að í raun er þónokkur munur á þeim spám sem sýna hæst og lægst hæðargildi - það er nefnilega hinn gríðarlegi munur sem verður á spánum í lok tímabilsins sem ræður kvarðanum. Væru spárnar meira sammála til enda - sýndust þær verða fyrr ósammála (svo einkennilega sem það kann að hljóma). Þetta ósamkomulag í lokin gerir það líka að okkur sýnist sem sveiflur séu mjög litlar í hæð 500 hPa-flatarins næstu vikuna. Af öðrum heimildum má ráða að austlægar áttir verði ráðandi í háloftum yfir landinu - og þegar þær ríkja eru sveiflur í hæð 500 hPa-flatarins yfirleitt heldur minni en í vestlægu áttunum. 

En óvissa í líkani er ekki endilega nákvæmlega það sama og óvissa í raunveruleikanum. Má vera að óvissan sé annað hvort meiri eða minni í öðrum líkönum en þessu - en hin endanlega „niðurstaða“ lofthjúpsins svo eitthvað allt annað. Samanburður hefur þó sýnt að hvað varðar aðra þætti en úrkomu sé réttast að taka mest mark á „háupplausnarspánni“ - þar til hún fer að víkja mjög frá meðaltali hinna - eftir það sé meðaltalið skást (að meðaltali) - þó vitlaust sé. 


Fjólublái liturinn

Það er nokkuð misjafnt frá ári til árs hvenær á haustin fjólublái þykktarliturinn birtist fyrst á norðurhvelskortum þeim sem hungurdiskar sýna oft. Sé svæði litað fjólublátt er þykktin þar minni en 4920 metrar - ekki fjarri minnstu þykkt sem nokkru sinni hefur mælst við Ísland. Af þykktinni ráðum við hita í neðri hluta veðrahvolfs - því minni sem hún er því kaldara er loftið. Hér við land er meðaltal hennar í nóvember 5280 metrar, 5240 metrar í janúar, en um 5460 metrar í júlí. Þykktin sveiflast þó mjög mikið frá degi til dags, rétt eins og loftþrýstingur og hæð háloftaflata. 

w-blogg051118a

Í grófum dráttum fylgir vera fjólubláa litarins nokkurn veginn íslenska vetrinum. Hann fer að sjást á kortunum í kringum fyrsta vetrardag - slitrótt í fyrstu en síðan nærri samfellt en hverfur svo aftur í kringum sumardaginn fyrsta - fyrst dag og dag en síðan alveg. 

Kortið hér að ofan sýnir stöðuna í dag, sunnudaginn 4.nóvember. Þá má sjá örlítinn fjólubláan blett í miðju kuldapollsins sem við höfum hér á hungurdiskum kallað Síberíu-Blesa - til aðgreiningar frá frænda hans yfir Kanada, sem við höfum kallað Stóra-Bola. Þeir félagar sameinast stöku sinnum yfir Norðuríshafi eða taka dans saman og skiptast á stöðu. 

Einmitt núna er Síberíu-Blesi mun gerðarlegri - enginn verulegur kuldi ógnar Íslandi - og Stóri-Boli virðist ætla fyrst í einhverja suðursókn áður en hann slær sér í átt að okkur. Mikil hlýindi eru yfir Evrópu sérstaklega frá Finnlandi suður á Balkanskaga. Köld lægð er við Ítalíu (ekki köld að vísu á norrænan mælikvarða) en hún er nokkuð snörp og hefur valdið þar sérlega erfiðu veðri undanfarna daga - eins og kuldapolla er háttur. 

Snarpar, stuttar bylgjur berast til austurs um Norður-Ameríku og út á Atlantshaf. Ein þeirra var í dag nærri Nýfundnalandi og á að fóðra mjög öfluga lægð fyrir sunnan land næstu daga. Lægðin sú á að krækja í eitthvað af hlýju lofti úr suðaustri og bera hingað til lands. Spár eru þó ekki einróma um hversu hlýtt verður eða hversu lengi þau meintu hlýindi munu standa. 


Úrkoma í Reykjavík fyrstu tíu mánuði ársins

Árið 2018 hefur verið mjög úrkomusamt það sem af er suðvestanlands - með þeim úrkomuríkari sem við vitum um.

w-blogg031118aa

Lóðrétti ásinn sýnir úrkomumagn í mm, en sá lárétti árin frá 1885. Úrkomumælingar féllu niður í Reykjavík á árunum 1907 og fram á vor 1920, hluta þess tíma sem vantar var mælt á Vífilsstöðum. Við trúum því að mælingar fyrri tíma og nútímans séu nokkurn veginn sambærilegar þegar tekur til magns, en talning úrkomudaga er það hins vegar ekki fyllilega.

Hvað um það - úrkomumagn sem mælst hefur til þessa á árinu í Reykjavík er um 870 mm, um 70 mm umfram það sem venjulega fellur á heilu ári. Úrkoma hefur ekki mælst meiri í sömu mánuðum í Reykjavík síðan 1989 eða í nærri 30 ár. Árið 1989 voru 30 ár frá því að úrkoma hafði verið jafnmikil, það var 1959. Úrkoma mældist einnig meiri en nú 1925, 1921 og 1887. Úrkoma síðastnefnda ársins hefur reyndar ekki fengið fullgilt heilbrigðisvottorð - en við sleppum því hér að fetta fingur út í það. 

w-blogg031118ab

Við lítum líka á úrkomudagafjölda og teljum eingöngu þá daga þegar úrkoma hefur mælst 1 mm eða meiri. Slíkir dagar voru þann 31.október orðnir 158 á þessu ári og hafa aldrei verið fleiri á sama tíma. Reyndar voru þeir 157 árið 1989 og 156 árið 1976 - varla marktækur munur. Árið 2010 voru þeir hins vegar ekki nema 92 á sama tíma árs. Eins og áður sagði er tíminn fyrir 1907 ekki alveg sambærilegur - stundum var sá ósiður þá í gangi að mæla ekki alla daga - heldur telja tvo eða jafnvel fleiri daga saman ef svo bar undir. 

Ársúrkoma í Reykjavík mældist mest árið 1921, 1291 mm. Mjög mikið þarf að rigna í nóvember og desember til að það met verði slegið, hugsanlegt jú, en ekki sérlega líklegt. Árið 1921 á einnig met í fjölda daga þegar úrkoma er 1 mm eða meiri. 190. Til að sú tala náist í ár þarf úrkoma að mælast meiri en 1 mm 33 sinnum á 61 degi. Alls ekki óhugsandi. 

Keppni í magni annars vegar og dagafjölda hins vegar er ólík að því leyti að magnmet er hugsanlegt að slá á fremur fáum dögum - úrkoma getur verið ótrúlega mikil á fáum dögum, en dagur getur aldrei gefið meir en einn dag í talningu. Nú vantar um 320 mm upp á ársmet, rúma 5 mm á dag það sem eftir er árs - kæmu t.d. þrír dagar með 40 mm úrkomu saxast leifin strax niður í 200 mm sem er vel hugsanleg tala á 4 til 5 vikum. Aftur á móti - vanti t.d. enn 20 úrkomudaga upp á nýtt dagamet þann 12 desember - er útilokað að met verði slegið.  


Öfugsniði

Stundum er veðurlagi þannig háttað að hann blæs úr norðaustri á Suðurlandi meðan suðvestanátt er í háloftum. Þetta er kallað hornriði - mjög gott orð, en ritstjóra hungurdiska finnst einhvern veginn að hornriðinn sé ekki eitthvað sem nær til augnabliks í tíma heldur lýsi fremur veðurlagi heils dags eða jafnvel nokkurra daga, viku eða meira. Því notar hann frekar annað orð í pistli dagsins og talar um öfugsniða, sem er frekar hrá þýðing á erlendu hugtaki, „reverse shear“. Oft hefur verið fjallað um öfugsniða á hungurdiskum - og verður vonandi gert mun oftar. 

w-blogg031118a

Þetta er hitamynd tekin yfir landinu klukkan rúmlega 21 í kvöld, föstudaginn 2.nóvember. Við sjáum að léttskýjað er um landið vestanvert - þar er ákveðin norðaustanátt sem við sjáum af bjartviðrinu og fláka- og bólstraskýjaböndum sem um síðir myndast í þurrum aflandsvindinum vestan við land. 

Sunnar er mikil blikubreiða sem hringar sig í kringum leifar fellibylsins Oscars suður í hafi. Norðaustanáttin nær inn undir skýjabreiðuna - en er austlægari fyrir sunnan landið. Meginlægðin hefur að mestu náð að hringa sig - mynda sammiðja hringrás í gegnum allt veðrahvolfið - og sést sá hringur alveg neðst á myndinni. Í skýjabreiðunni - í 5 km hæð og ofar er hins vegar suðvestanátt - alveg öfug við þá átt sem ríkir við jörð. Vant auga sér þetta reyndar af lagi skýjajaðarsins - lægðasveigja við Suðvesturland breytist í hæðarsveigju yfir landinu. Við borð liggur að sérstök lægð sé að myndast - og á raunar að gera það fyrir austan land síðdegis á morgun - slitin frá meginlægðinni í suðri.

w-blogg031118b

Myndin sýnir spá um vind (og hita) í 500 hPa-fletinum kl.3 í nótt. Sjá má hringrás Oscars neðst - en nokkuð ákveðin suðvestanátt er yfir Íslandi og hátt í 15 stiga munur á hita þar sem hann er mestur og minnstur yfir landinu. 

Þetta er fremur erfið spástaða - þó reiknilíkön nútímans nái allgóðum tökum á henni. Ástæðan er sú að stundum snjóar (eða rignir) á Suðurlandi í þessu veðurlagi - þó áttin sé norðaustlæg. Allt er það á mörkunum að þessu sinni - líkönin veðja heldur gegn því - en samt kæmi ekki á óvart þó eitthvað falli þar úr lofti - því meiri líkur eftir því sem austar dregur, líklega snjór frekar en regn. Úrkoma gæti fallið - en ekki náð til jarðar. Slík útgerð er nokkuð dýr - uppgufun kostar varma - og hiti undir skýjabreiðu af þessu tagi getur því orðið furðulágur - jafnvel í nokkrum vindi. 

Þetta er alltaf athyglisvert veðurlag - en munið að hungurdiskar gera ekki veðurspár - aðeins er fjallað um þær. 


Hæðarvik í október

Hæðarvikakort októbermánaðar er stílhreint að þessu sinni. Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins, en litafletir hæðarvik miðað við árin 1981 til 2010.

w-blogg011118a

Mikil (og köld) háloftalægð liggur við Grænland norðvestanvert og teygir anga sína til Íslands og suður um Labrador. Heimskautaröstin lá að mestu sunnan við land, en enn sunnar er langt og mjótt svæði þar sem 500 hPa flöturinn hefur legið talsvert hærra en að meðallagi. Miðað við útlit þessa korts verður að segja að við höfum bara sloppið vel - veðurlag í október var þrátt fyrir allt ekki svo slæmt þó hiti væri neðan meðallags síðustu tíu ára um land allt. 

Ritstjórinn athugar alltaf sér til skemmtunar í hvaða háloftaveðurlagsflokki mánuðir lenda. Þessi rétt mer það að komast inn í þann sem segir frá sterkri vestanátt, sterkri sunnanátt og lágum 500 hPa-fleti. Það er langt síðan októbermánuður hefur lent í sama flokki - síðast gerðist það 1969 og þar áður 1957. Bandaríska endurgreiningin segir að það hafi líka gerst 1904 - e.t.v. í lagi með þá ágiskun. Textahnotskurn ritstjóra hungurdiska segir um október 1969: „Óhagstæð tíð víðast hvar. Hiti var nærri meðallagi“. - Reyndar var hiti á landsvísu mjög svipaður og nú (3,7 stig þá, 3,4 nú) - en við höfum bara vanist hærri hita en lengst af hefur verið ríkjandi. Um október 1957 segir: „Umhleypingasamt, en þó hagstætt fyrri hlutann. Hiti nærri meðalagi“. Meðalhiti á landsvísu í október 1957 var líka mjög svipaður og nú eða 3,5 stig. Um október 1904 segir textahnotskurnin: „Umhleypingasamt og mikil úrkoma syðra. Fremur kalt“. - Jú, það var kaldara en nú, meðalhiti í byggð reiknast 1,9 stig. Ólíkt veðurlag fylgdi næstu mánuðum á eftir þessum þremur októbermánuðum - ekkert vitað um framtíðina frekar en venjulega. 

Kortið er úr smiðju Bolla Pálmasonar og kann ritstjóri hungurdiska honum bestu þakkir fyrir. 


Af árinu 1900

Árferði árið 1900 þótti nokkuð gott á sínum tíma, en það þætti kalt á okkar tímum. Meðalhiti í Reykjavík var 4,1 stig, 3,4 stig í Stykkishólmi og 2,8 á Akureyri. Sé miðað við tíma frá upphafi mælinga teljast janúar, júní og ágúst hlýir, en febrúar, mars og október kaldir - júní hlýjastur að tiltölu. Mánaðameðalhita einstakra veðurstöðva má sjá í viðhenginu. 

Hæsti hiti ársins mældist á Stóra-Núpi 14.júní, 23,3 stig. Hámarksmælir var ekki á staðnum og ekki ótrúlegt að hámarkið hafi verið hærra, lausafregnir í blöðum geta hærri hita í uppsveitum Suðurlands á sama tíma. Þess má líka geta að hiti komst í 19,0 stig austur á Kóreksstöðum 13.september. 

Mest frost á árinu mældist í Möðrudal 13.nóvember og 20.desember -22,2 stig, ekki sérlega mikið. Frost komst í -12,5 stig á Gilsbakka 1.maí - þá sömu nótt fór frost í Reykjavík í -5,8 stig. 

ar_1900t

Ritstjóri hungurdiska veiðir 5 mjög kalda daga á árinu í Reykjavík, fjóra í röð, 15. til 18.mars og síðan 1.maí sem áður var á minnst. Dagarnir, 15.,16. og 17.mars teljast einnig mjög kaldir í Stykkishólmi - og einnig 30.apríl, 3.október og 11.nóvember. 

Þrír mjög hlýir dagar fundust í Reykjavík á árinu, 14., 17. og 27.júní. Í Stykkishólmi telst 27.ágúst mjög hlýr. 

Úrkoma var sérlega lítil í febrúar og mars - norðaustanlands voru þó engar mælingar. Óvenjuúrkomusamt var um landið vestan- og suðvestanvert í júlí, september og nóvember. 

ar_1900p

Þrýstingur var óvenjuhár í mars, í Reykjavík virðist hann vera sá þriðjihæsti í þeim mánuði frá upphafi mælinga. Hæsti þrýstingur ársins var þó ekki í námunda við nein met, mældist 1043,6 hPa í Stykkishólmi 6.febrúar. Þrýstiórói var mikill í janúar og september - en aftur á móti óvenjulítill í febrúar. Illviðrið mikla 20.september sker sig úr. 

ar_1900-09-20-p_rvk

Myndin sýnir þrýstirit úr Reykjavík dagana 19. til 21. september. Tölurnar sem blaðið sýnir eru mm kvikasilfurs, en sé ferillinn borinn saman við aflestur loftvogarinnar kemur í ljós að hann er stilltur „of hátt“. Til allar hamingju má segja, því annars hefði síritinn ekki náð neðstu stöðu þrýstingsins, kvarðinn nær niður í 957 hPe, en þrýstingurinn fór niður í 953 eins og sjá má, það var rétt fyrir kl.3 um nóttina - sé klukkan rétt. Þrýstifallið var gríðarlegt um kvöldið, um 20 hPa milli kl.21 og 24. Tjóns er getið í Reykjavík í sunnan- og suðaustanáttinni á undan lægðinni - en gæti samt hafa orðið víðar. Úrkomumælingar voru því miður gisnar - en skriðuföll sem urðu á Vestfjörðum benda til mikillar úrkomu. 

Mælingarnar í Stykkishólmi sýna lægstan þrýsting kl.8 um morguninn, 952,9 hPa, svipað og lægst var í Reykjavík um nóttina. Þetta er lægsti þrýstingur sem vitað er um að mælst hafi hér á landi í september. Næsta víst má telja að stöðvanet nútímans hefði skilað talsvert lægri tölum. Miðað við ritann frá Reykjavík er trúlegt að þrýstingur hafi verið farinn að rísa í Stykkishólmi kl.8, auk þess sem þar var svo hvasst að sjálf lægðarmiðjan hefur verið norðan við og talsvert dýpri. Munur á þrýstingi í Stykkishólmi og Reykjavík kl.8 var 11,8 hPa sem er óvenjulegt, en ekki þó nærri meti. 

Þrýstingur varð lægstur á Akureyri á hádegi að sögn veðurathugunarmanns, 953,6 hPa - þá var þar suðvestanfárviðri. Þar er hugsanlegt að fallvindar hafi dregið loftvogina (aukalega) niður eins og gerðist þar í fárviðrinu 5.mars 1969. Á Akureyri féll hiti meðan á veðrinu stóð og mælingin kl.14 (3,4 stig) var töluvert lægri en kl.8 (8,5 stig) og kl.21 (7,1 stig). Ýtir það undir grun um að kaldir fallvindar hafi komið við sögu í Eyjafirði - þó ekki sé það víst. Í bréfi úr Dýrafirði er sagt að loftvog hafi þar farið niður á 71 (illlæsilegt reyndar í skönnun á blaðinu). Þar mun átt við 71 cm = 710 mm = 946,6 hPa, ekki svo ótrúlegt, en mikil tilviljun væri það hafi þessi loftvog verið rétt stillt. 

Í blaðatextunum hér að neðan er greint frá tjóni í þessu mikla veðri en um það má einnig lesa í síðasta bindi ritverksins „Skaðaveður“ [1897-1900] sem Halldór Pálsson tók saman á sínum tíma og kom út 1968, og í grein sem ritstjóri hungurdiska ritaði í 2. tölublað 20. árgangs tímaritsins „Veðrið“ 1977 og finna má á netinu. 

Við látum nú fréttir blaða lýsa veðri ársins. Stafsetning hefur víðast hvar verið færð til nútímaorfs en orðalag heldur sér. 

Bjarni Jónsson (frá Vogi) segir frá árinu í Skírni undir fyrirsögninni „Hagir landsmanna“. 

Eftir nýárið var veturinn víðast hvar góður, þó var febrúar heldur harður í Austur-Skaftafellssýslu. Rétt eftir sumarmálin kom hret með snjóburði og nokkru frosti. En engir skaðar urðu þó, er teljandi sé, þvi að heybirgðir voru nægar. En er kom fram í síðari hluta maímánaðar og júnímánuð, þá var tíð góð og grasvöxtur mátti heita góður. Upp frá þessum tíma var tíð góð og hagstæð norðanlands til höfuðdags, en sunnanlands var heldur votviðrasamt. Eftir höfuðdag brá til óþurrka og hélst þangað til í septembermánuði. Þó varð heyskapur góður norðanlands, en lakari fyrir sunnan, einkum í Rangárvallasýslu og Skaftafells. Um veturnætur gerði kast nokkurt og síðan umhleypinga fram að jólaföstu. En úr því var öndvegistíð til ársloka.

Skipskaðar urðu margir og manntjón eigi lítið þetta ár. — Flutningaskip eitt, Ingólfur að nafni, átti að flytja vörur úr Hafnarfirði til Stokkseyrar. Fékk það hrakning mikinn í þrjár vikur. Skemmdist mjög reiði og áhöfn öll og varð að fleygja miklu af salti fyrir borð. Hinn 15. mars strandaði fiskiskipið Sleipnir í Njarðvík og brotnaði gat á það, en varð þó gert við það. Um sama leyti strandaði fiskiskip að vestan á Hraunsnesi. Seint í mars strandaði þýskt botnvörpuskip á Steinsmýrarfjörum í Meðallandi. Menn björguðust allir. Í miðjum apríl strandaði kaupskip í Þykkvabænum. Átti það að fara til Ólafs kaupmanns Árnasonar á Stokkseyri, en varð að hverfa þar frá sökum brims. Hásetar drukknuðu allir, en skipstjóri og stýrimaður komust lífs af en meiddust þó. Fiskiskúta frá Ísafirði, eign Ásgeirs Ásgeirssonar, strandaði i Keflavik undir Látrabjargi snemma i maí. Í sama veðrinu fórst Fálkinn, fiskiskip Geirs kaupmanns Zoéga. Voru á því 16 menn og drukknuðu allir. Síðast í maí kom gufuskipið Moss með timburfarm frá Mandal í Noregi. Brann það með öllum farmi á. höfninni í Reykjavík. Hinn 11. júní strandaði frönsk fiskiskúta á Miðnesi.

Tuttugasta september gerði skaðaveður víða um land. Í því veðri drukknuðu í Arnarfirði 18 menn, en 15 úr Selárdalnum. Þilbátur fórst úr Siglufirði á leið til Akureyrar með 5 mönnum. Þrjú skip sleit upp á Ísafirði og eitt í Patreksfirði og skemmdust. Kaupfar frá Ísafirði hreppti veðrið á Önundarfirði, en komst þó til Ísafjarðar með rifin segl og brotnar rár. Á Akureyri rak 15 þilskip á land og brotnuðu öll nokkuð og báta rak upp á Oddeyri og braut í spón. Þrjú fiskiskip úr Færeyjum rak upp á Seyðisfirði, en hið fjórða varð að höggva möstrin. Af einu skipinu týndust skipstjóri og stýrimaður. Fjárflutningaskip úr Eyjafirði hreppti veðrið á leiðinni og varð að loka öllum hlerum. Kafnaði þar yfir 2000 fjár. Gufubáturinn Oddur af Eyrarbakka rakst á, sker á Skerjafirði seint í október, en þó mátti gera við hann, svo að hann var talinn haffær.

Janúar: Hagstæð tíð. Nokkur snjór um tíma vestanlands. Úrkomusamt syðra. Fremur hlýtt.

Austri segir frá janúartíð í fáum línum:

[8.] Tíðarfarið hefir frá nýári verið fremur milt og nokkur þíða.
[18.] Tíðarfar alltaf milt og blotar góðir.
[27.] Tíðarfar er alltaf fremur milt, en nýlega gerði hér krapasletting, svo töluvert versnaði um jörð.
[31.] Tíðarfarið hið blíðasta á degi hverjum.

Þjóðólfur segir þann 26. frá Ísafirði í pistli sem dagsettur er þann 15.:

Með norðan-hríðarbyl og hörkufrosti gekk nýja árið í garð, eins og gamla árið kvaddi, en 5. þ.m. sneri til hæglátrar suðvestanveðráttu og leysinga, og hefur sú tíð haldist síðan, nema frost og stillur fáa daga.

Þjóðólfur þann 26.janúar:

Tíðarfar hefur verið allumhleypingasamt það sem af er árinu og snjókoma allmikil til sveita en frost að kalla engin.

Þjóðviljinn ungi segir frá Ísafirði þann 26.janúar:

Tíðarfar fremur óstöðugt, og snjókomur nokkrar öðru hvoru, en all-oftast frostalaus eða frostlin veðrátta.

Febrúar: Mjög hagstæð tíð, þó var snjóþungt norðaustanlands um tíma. Fremur kalt.

Jónas segir lýsir veðri í febrúar:

[3.] Hefir verið stillt og gott veður alla vikuna; síðustu dagana logn. 

[17.] Fyrri vikuna bjart og fagurt veður; við norðanátt með talsverðu frosti; oft logn. Alla síðari vikuna verið við norðanátt; bjart og fagurt veður daglega

[3.mars]: Var við norður fyrri vikuna; síðustu dagana gengið meir til austurs; rokhvass hér aðfararnótt h.22. Gekk meir til landsuðurs þ.25. með þíðu. Má heita að hafi verið logn með degi hverjum síðari vikuna. Loftvog venjulega hátt og hreyfist ekki enn.

Austri segir af tíð eystra þann 9. og 17.febrúar:

[9.] Tíðarfar er nú mjög hart, hríðar og frost töluverð á degi hverjum. 

[17.] Tíðarfarið hefir verið mjög stirt nú undanfarandi, hríðar og snjókoma nær því á hverjum degi, svo hér í Fjörðum og Héraði er fallinn víðast mikill snjór, svo víða er orðið mjög jarðlítið, og kemur sér nú vel hinn góði heyafli, er víðast var hér austan og norðan lands í sumar. 

Heldur hefur batnað eystra í lok mánaðarins. Austri birtir þann 1.mars - en dagsetur 28.febrúar: „Tíðarfarið er að batna, sólskin nú á hverjum degi“. 

Þjóðviljinn segir að vestan í febrúar:

[6.] Tíðarfar enn einatt mjög óstöðugt, ýmist norðan hret, eða suðvestan rosar, nema stillviðri um undan genginn vikutíma.

[16.] Tíðarfar enn mjög óstöðugt. 11.þ.m. hleypti á norðan-garði, með mikilli fannkomu, en þó fremur vægu frosti, og helst sá garður enn.

Ísafold birti 24.mars bréf frá Patreksfirði, dagsett 16.febrúar:

Tíðarfar gott að heita má það sem af er vetrinum, frosta- og snjóalítið allt fram að miðjum vetri, en umhleypingar og stormasamt. Með þorrakomu gjörði staðviðri með hægu frosti, sem hélst fullan hálfan mánuð. Nú rúma viku norðanátt með talsverðu frosti; en lítil fannkoma.

Mars: Hægviðrasöm og fremur hagstæð tíð lengst af að slepptu áhlaupi rétt fyrir miðjan mánuð. Fremur kalt.

Ísafold birti þann 4.apríl bréf úr Skagafirði og Norður-Þingeyjarsýslu, dagsett snemma í mars:

Skagafirði 6. mars. Tíðin góð frá byrjun þessa árs. Nú háa tíð einlægar stillur; snjólítið hér í byggðarlagi, snjómeira til dala og í útkjálkum
sýslunnar.

Norður-Þingeyjarsýslu (Núpasveit) 10.mars. Tíðin hefir verið mjög góð hér í sveitum fram að þessum tíma og nú meira en hálfan mánuð hefir verið bjartviðri bæði nótt og dag; aldrei komið föl á jörð.

Þjóðólfur segir af tíð þann 9.mars:

Veðurátta hefur verið hin besta hér á Suðurlandi yfirleitt síðan um nýár, og sama er að frétta að vestan og austan. Úr Suður-Þingeyjarsýslu (Aðaldal) er ritað 19. [febrúar], að þá hafi sífelldar norðanhríðar gengið næstliðinn hálfan mánuð, svo að ómögulegt hafi verið að beita fénaði sakir illviðurs. Í Eyjafjarðar- Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum er vel látið af tíðarfarinu.

Ísafold þann 10.mars:

Einhver blíðasti vetur er þetta, sem elstu menn muna eftir hvarvetna á landinu, sem til fréttist. Hægviðri og snjóleysur að staðaldri. Margra stiga hiti um þessar mundir dag eftir dag.

Austri segir þann 10.:

Veðrátta hefir nú verið hlý, sólskin og þíða á hverjum degi, og tekur nú snjó óðum upp, enda er hér af miklu að taka.

Þjóðviljinn segir þann 10.:

Tíðarfar gott um undanfarinn hálfs mánaðar tíma; oftast logn og frostleysur. — Í dag suðvestan hvassviðri.

Jónas lýsir veðri í mars:

[10.] Framan af vikunni logn og fegursta veður; gekk svo til suðausturs og í útsuður nokkuð hvass á suðvestan h.8. en lygndi fljótt. Kominn aftur í landsuður með regni í dag h.9.

[21.] Útsynningur alla undanfarna daga, hvass oftast með hafróti, þar til hann gekk til norðurs að kvöldi hins 14. bálhvass með miklum kulda og blindhríð, en loftvog mjög há. Í dag hægur á norðan, mjög kaldur.

[24.] Norðangarðurinn hætti aðfaranótt h. 19.; hefir síðan mátt heita veðurhægð og fagurt veður. Loftvog óvenjulega hátt og stöðug.

Ísafold birti 4.apríl bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett 15.mars:

Allan febrúar var mesta veðurblíða, oftast norðanátt með hreinviðri og hægu frosti, brimlausum eða brimlitlum sjó, yfir höfuð ómunatíð um þann tíma árs.

Þjóðviljinn ungi segir þann 30.apríl frá skipskaða þann 15.mars:

Skipströnd. 15. marsmánaðar strandaði á Hraunsnesi, milli Lónakots og Hvassahrauns, fiskiskúta frá Patreksfirði, eign verslunarfélags þess, er verslun rekur þar og á Breiðafirði. — Skipstjóri var Edílon Grímsson, og átti skipið að fara með vörur til Ólafavíkur, en hreppti á suðurleiðinni aftaka-norðanveður, svo að seglin rifnuðu, og við ekkert varð ráðið; ætlaði skipstjóri að komast inn til Reykjavíkur, en varð of nærri landi i hríðinni, og varð því að hleypa til grunns. — Skipverjar björguðust á kaðli í land, mjög þrekaðir orðnir af kulda og vosbúð. — Skipið brotnaði litlu síðar í spón. Sama dag rak „Sleipnir", eitt af fiskiskipum Tryggva bankastjóra Gunnarssonar, á land í Njarðvík, og laskaðist að mun, en þó ekki meira, en svo, að við það varð gert.

Þjóðólfur þann 16.:

Veðurátta er nú tekin að spillast; allmikið frost og fannkoma í gær; en síðan um nýár hefur mátt heita öndvegistíð hér á Suðurlandi.

Þann 19. segir Austri:

Á Vestdalseyri hljóp áin nú í stórhríðinni, eins og svo þrásinnis áður, í gegn um og yfir stíflugarðinn og flaut yfir Eyrina og inn í mörg hús, svo fólkið hefir orðið að flýja úr þeim. Er það furða að bæjarstjórn kaupstaðarins skeyti ekki um það ár eftir ár, að gjöra stíflugarðinn fyrir ána svo öruggan, að áin gjöri ekki Eyrarbúum þetta stórtjón vetur eftir vetur. Ýmsir Eyrarbúar stóðu við það í stórhríðinni í 2—3 daga að moka ána fram, virðist oss sjálfsagt að bæjarstjórnin borgi þessum mönnum ríflega fyrir erfiði þeirra.

Tíðarfarið hefir allan síðari hluta liðinnar viku verið hið grimmasta, stórhríð og hvassviðri með miklu frosti á degi hverjum. svo nú er aftur kominn mikill snjór og jarðlaust með öllu. Er hætt við að hafísinn hafi nálgast landið í þessum norðan garði.

Þann 27. segir Austri að tíðarfar hafi verið ágætt síðustu dagana.

Þjóðviljinn segir þann 30. frá tjóni sem varð í vestanveðri þann 11.mars og óvenjumiklum trjáreka:

Trjáreki óvanalega mikill hefur verið í vetur á öllum Hornströndum, og sama er að frétta af Austfjörðum. Bændur á Ströndum hafa ekki getað bjargað undan sjó nærri því öllum við, er borist hefur að landi, og muna elstu menn ekki annan eins reka. —

Í aftaka vestan roki 11. þ.m. urðu all-miklar skemmdir á húsum og bátum í Seyðisfirði hér við Djúpið. Kirkjan á Eyri færðist töluvert til á grunni sínum og skekktist öll og gliðnaði. Á Eyri fauk og geymsluhús úr timbri, er Guðmundur óðalsbóndi Bárðarson átti, tók veðrið það upp, og slengdi því niður af hól, er það stóð á, og braut það allt. Í húsinu voru geymdar ýmsar vörur og munir, náðist það flest, en meira og minna skemmt. Á Folafæti fuku tveir bátar, og brotnuðu i spón, feykti þeim upp fyrir brattan sjóarbakka og upp á háls fyrir ofan bæinn.

Apríl: Fremur kalt og nokkuð umhleypingasamt.

Þjóðólfur birti þann 11.apríl bréf úr Árnessýslu dagsett þann 4.:

Veðurátta er hin ákjósanlegasta, sífelldar blíður og stillur. Jörð alauð fyrir löngu, og hvarvetna besta útlit fyrir nægar heybirgðir, fénaðarhöld góð.

Ísafold birti þann 28.bréf úr Skagafirði, dagsett þann 6.apríl:

Tíðarfar fremur gott. Þótt talsvert hafi snjóað i kuldaskotum, er komið hafa, þá hefir verið gott á milli og jökull hér ekki mikill á jörð, eftir því sem vér eigum að venjast. Við lok f.m. komst frostið upp i 15°R, og er það langmest, er verið hefir á vetrinum. Nú þessa daga einnig andkalt mjög, þótt logn sé og sólskin; það er eins og kuldastraumarnir njóti sin betur en verið hefir, líklega bæði í lofti og lög, og er ég því hræddur um, að eitthvað lakara sé í aðsigi, þótt ís sé óvanalega langt undan, eftir því sem fréttir af skipaferðum segja.

Jónas segir þann 21.apríl:

Hefir að undanförnu verið austanlandnorðan og við norðan til djúpa, oftast bjart veður síðustu dagana útsynningur með éljum, svo jörð hefur við og við orðið alhvít. Vart var við landskjálfta kl. 3 3/4 að morgni h. 7., all-snöggur kippur og smáhræringar nokkuru síðar.

Ísafold segir þann 18.apríl:

Haldi viðlíka hagstæð tíð áfram hér það sem eftir er síðasta ársins á öldinni, eins og það sem af er, þá má segja að hún skilji mjög vel við oss að því leyti til. Því vægari vetur en sá, er nú kveður oss, í dag, muna ekki elstu menn; það er líklega blíðasti veturinn á allri öldinni. Svo segir Páll Melsteð, maður nær níræður og manna gagnfróðastur á það, er hún hefir látið fram við oss koma. Hefir hvorttveggja farið saman, snjóleysi og frostvægð.

Þjóðviljinn ungi segir þann 30.apríl:

Fram yfir miðjan þ.m. héldust norðanstormar öðru hvoru, en þó oftast fremur frostvæg veðrátta. — Þann 17. brá til vestanáttar, og hafa síðan haldist hlýviðri all-oftast, nema norðan hret síðan 28.þ.m., með 6—7 stiga frosti.

Maí: Fremur kalt og hretasamt framan af, en síðan betra.

Þjóðviljinn ungi birti þann 21.maí bréf úr Aðalvík, dagsett þann 1.:

Veðrátta hefur í vetur verið hin besta, er menn muna hér nyrðra; fannkomur ómunanlega litlar og frost sömuleiðis, svo að gott útlit er með heybirgðir bænda, ef vorið verður ekki því barðara. Seinustu dagana af apríl var hér frost og fjúk. — ís hefur ekki sést hér, síðan í vetur 18. nóv., er hafíshroða rak hér inn á Víkina, en rak strax út daginn eftir.

Austri lýsir maítíðinni í stuttum pistlum:

[4.] Seyðisfirði 3.maí: Tíðarfarið ákaflega illt, stórhríð að heita mátti í gær. 

[9.] Seyðisfirði 8.maí: Tíðarfarið mjög ískyggilegt, ýmist austan snjókrapableytur eða norðaustan kuldastormar.

[29.] Tíðarfar nú sumarlegt og gróðrarveður, sólskin og skúrir skiptast á.

Jónas segir þann 5.maí:

Fyrri vikuna var veðurhægð, sunnanátt, dimmur, gekk við og við til útsuðurs með mikilli rigningu (27.), svo til norðurs 28. 29. 30. með kulda. 1.maí landnorðan hvass með snjóbyl og kyngdi niður kálfasnjó aðfaranótt h.2, bráðhvass af norðaustri; Í dag norðanrok - ólátaveður hið mesta.

Þann 7.maí segir Þjóðviljinn ungi:

Tíðarfarið hefur verið í meira lagi vetrarlegt nú um hríð, óslitinn norðangarður, með frosti og fannkomu, í freka viku, og tók loks aftur að glaðna til í fyrradag.

Ísafold birtir þann 19.maí tvö bréf úr Skaftafellssýslu, dagsett fyrr í mánuðinum:

Austur-Skaftafellssýslu, 8.maí. Veðrátta hefir verið fremur köld síðan 29. f.m. Þá um kvöldið gjörði austanbyl, er við hélst um nóttina og 2 daga á eftir. 3. maí var mjög hvasst land-norðanveður, og fauk þá mikið af eldivið og áburði af túnum. Skepnuhöld eru yfirleitt góð, og heybirgðir góðar. Nokkuð hefir aflast af fiski og hákarli í Suðursveit, Mýrum, Nesjum og Lóni.

Meðallandi, 11.maí. Veturinn telst til að hafa verið með hinum betri. Snjókomur litlar, en hret og stormar tíðir. Frost hafa sjaldan verið mikil. Á jóladaginn, heldur en annan jóla, voru 15 stig á R. Í marsmánuði urðu frostin með meira móti, 15-17 stig dagana 16-18. mars og 14 stig 19. s.m.; eftir það dró úr frostunum. Síðan sumarið byrjaði hefir tíðin verið mjög stirð, þar til nú fyrir 2-3 dögum er komin stillt veðurátta, en hlýindalítil. Hinn 1. þ.m. var hér um slóðir blindbylur, með ofsa-austanstormi og snjógangi. Stöku kindur urða úti í byl þessum, er drápust. Þrátt fyrir það þótt jörð hafi oftar verið snjóalítil og auðbær, hefir þó jafnaðarlega verið gefið meira og minna á sléttlendinu. Til fjalla hefir það sjálfsagt verið minna, utan á einstöku nyrstu bæjum.

Þann 23.maí birti Þjóðólfur bréf úr Skagafirði og Vestur-Skaftafellssýslu frá því fyrr í mánuðinum, í síðarnefnda bréfinu er minnst á fyrri góðviðravetur:

Skagafirði, 9.maí. Allan næstliðinn vetur var hér einmunatíð. 29. f.m. gekk í norðangarð með frosti, en úrkomulaust hér í sveitinni. Hríð sagt hafa verið á útsveitum. Í dag er kominn sunnan-þíðvindur og blíða. Vorfuglarnir syngja svo unaðslega hérna á mýrunum, svo að nú vonum vér, að vorið sé komið og grundirnar grói.

Vestur- Skaftafellssýslu (Meðallandi) 12.maí. Veturinn hefur verið mikið snjóalítill, má segja snjókomulaus hér nálægt sjó, aftur hefur snjór komið til fjalla, helst fjærst byggð eða á nyrstu bæjum; hafa sumir orðið að gefa þar lengi. Hér hefur líka víðast hvar verið gefið meira og minna, valda því umhleypingar, sem hrakið hafa hold af fénaði. Um jólin var frostíhlaup 15 gr. R. Aftur í mars mikil frost, þ. 16. -15°, 17. -16°, 18. -17° og 19. -14°. Þrátt fyrir það, þótt vetur þessi megi teljast góður, man ég þó marga betri. Veturinn 1839-40 mikið góður og mildur, 1840-41 enn mildari og betri,. 1841- 42 ágætis-vetur, 1844-45 sérlega góður, 1846-47 hinn besti, sem ég man; þá var veturinn 1855-56 ágætisvetur. Alla þessa álít ég betri en þennan nýliðna vetur. Það eru fleiri vetrar, sem ég man góða, til dæmis 1879-80. Síðan sumarið kom, hefur tíðin verið köld og stirð. 1.maí myrkviðrisbylur, kafald og stormur. Nú tvo daga hefur verið stillt veður, en heldur hlýindalítið. Lítið hefur aflast hér í Meðallandi.

Bréf dagsett í Rangárvallasýslu 14.maí birtist í Ísafold þann 30.:

Tíðarfar var hér síðastliðinn vetur mjög gott, oftast auð jörð og lítil frost; núna um mánaðamótin (apríl-maí) gerði hér allsnarpt norðanveður, með snjó og frosti, og stóð yfir þrjá daga; en eigi gerði veður þetta neinn skaða hér; síðan hefir verið ágæt tíð. 

Ísafold segir frá þann 30.maí (lítillega stytt hér):

Veturinn 1900 í Skagafirði. Þeir, sem orðnir eru gamlir og hafa alið aldur sinn í Skagafirði, muna eflaust eftir mörgum góðum vetrum í hinu nafnkennda veðursældar- og „göngu“-plássi, en fáa hljóta þeir að muna, sem taka mikið fram hinum síðasta vetri, sem almennt er talinn hér mjög góður. ... Mest varð frostið á vetrinum -20°C. sunnudagsmorguninn 18.mars. Mest og blíðust hláka 11.janúar. Verst hríð 29.desember (- 9°). Jörð var næg allan veturinn, nema nokkurra daga í desember og janúar, og flest hross hefðu getað gengið af líknarlaust. Þau voru yfirleitt með lang-feitasta móti á sumarmálum.

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð í pistlum þann 21. og 28.maí:

[21.] Síðan norðanhretinu slotaði 5. þ.m. hefur haldist lygn og mild veðrátta, svo að sólinni hefur þegar mikið áunnist að bræða fönnina, sem dyngdi niður i hretinu.

[28.] Síðastliðna viku hefur haldist hér köld norðvestanátt, og öðru hvoru jafn vel hreytt snjó úr lofti; mild tíð þó 3-4 síðustu daga. Hafísinn er sá vondi þursi, er vorkuldunum veldur, því að hann hefur legið hér skammt undan landi. 21.-22. þ.m. rak íshroða inn á Önundarfjörð og Dýrafjörð, og Súgandafjörður sagður fullur af ís. Djúpið er aftur á móti íslaust enn, með því að vindur hefur blásið á móti honum úr Jökulfjörðum.

Þjóðólfur segir 1.júní:

Tjón af ofviðrinu um næstliðin mánaðamót hefur að því er frétt er utan af landi eigi orðið voðalegt neinsstaðar. Af fiskiskipunum héðan vantar þó eitt: „Falken" (eign G. Zoéga kaupmanns); það hefur ekkert spurst til þess síðan fyrir ofviðrið, og er því miður hætt við, að það hafi farist. Á því voru alls 16 manna.

Júní: Hagstæð tíð. Hlýtt syðra og á Norðausturlandi, kaldara vestanlands.

Austri lýsir tíð eystra í júnípistlum:

[9.] Tíðarfarið hið indælasta á hverjum degi, sólskin og hitar og gróðrarskúrir.

[19.] Tíðarfarið er nú hið inndælasta á degi hverjum, en þokur miklar úti fyrir og tafa þær tafið skipin að mun.

[29.] Tíðarfar fremur kalt og þokur miklar. Grasspretta allgóð, bæði hér í Fjörðum og upp í Héraði.

Þjóðviljinn ungi lýsir tíð í júní:

[6.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur haldist hér suðvestanveðrátta og fremur mild tíð all-oftast. — Stöku daga hafa þó verið kalsar og rigningar.

[14.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur verið fagurt og bjart veður, hlýindi allmikil 7.-8. þ.m., en síðan svalur norðankaldi, og þó lygnt aðra stundina.

[21.] Tíð hefur nú um hríð verið einkar mild og hagstæð til lands og sjóar, svo að grassprettu fer nú óðum fram í hlýindunum, þó að hægt færi framan af vorinu.

[30.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur haldist sama blíðviðristíðin, sem fyrr í þessum mánuði, en jörð þó tekið fremur litlum gróðri, vegna sífelldra þurrka. Í þessari
viku hefur þó verið þokumugga öðru hvoru.

Þjóðólfur segir þann 29.:

Veðurblíða óvenjulega mikil og hitar hafa verið mestallan júnímánuð, oftast 12-18°C í skugganum. Í uppsveitum Árnessýslu voru t.d. 21°R. (=26°C) í skugganum 13.þ.m., og er það mjög sjaldgæfur hiti um þetta leyti árs, og verður örsjaldan jafnheitt í júlímánuði, sem þó er að jafnaði heitasti mánuðurinn hér.

Júlí: Votviðrasamt á Suður- og Vesturlandi, en betri tíð norðaustanlands. Hiti í meðallagi. Kosið var til Alþingis í september árið 1900 [kjördagar misjafnir eftir sýslum] og blöð um sumarið nokkuð bólgin af málum þeim tengdum - lítið rúm fyrir tíðarfarsfréttir.  

Austri segir frá tíð í stuttum pistlum:

[7.] Tíðarfar fremur kalt og þokusamt hér í fjörðum svo grassprettu fer nú litið fram.

[16.] Tíðarfarið alltaf fremur kalt hér í Fjörðum, stöðug norðaustanátt og þokur og fer því grassprettu lítið áfram; sólskinsveður 3 síðustu dagana.

[24.] Tíðarfarið er enn mjög óstöðugt og oftast votviðrasamt, þó voru 2 góðir þurrkdagar síðast í fyrri viku.

[31.] Tíðarfarið aftur mjög og rosasamt.

Framan af fór betur með tíð vestur á Fjörðum - Þjóðviljinn ungi segir frá tíð þar.

[13.] Sífelldir þurrkar og blíðviðri hafa haldist hér vestra. uns 10. þ.m. gerði votviðri i tvo daga. Grasspretta mun almennt hafa orðið í lakara lagi hér vestanlands, einkum á harðvelli, vegna þurrkanna; en að líkindum taka nú tún og engi nokkurum bata enn, ef til votviðra sneri.

[20.] Síðan nm miðjan þ.m. hafa haldist votviðri all-oftast, en tíð verið fremur hlý, svo að tún og engi hafa víða tekið nokkrum bata.

[26.] Tíðarfar hefur síðasta vikutíma verið rigningasamt með köflum, en þó heiðskírt veður og þerrar dag og dag í bili.

Jónas segir þann 14.júlí: „Undanfarna tíð fegursta sumarveður með óvanalegum hlýindum og staðviðri“. 

Ágúst: Heldur votviðrasamt á Suður- og Vesturlandi. Fremur hlýtt.

Ísafold segir þann 4.ágúst: Bagalegir óþurrkar um túnasláttinn, en töður þó náðst yfirleitt þessa vikuna, og sumstaðar fyrr. Nú lagstur í rigningar aftur. 

Þjóðviljinn ungi segir frá breytilegri tíð í ágúst:

[13.] Tíðarfar. Hér hefur haldist siðfelld veðurblíða, og all-oftast hitar miklir, en rigningar sjaldan.

[22.] Tíðarfar hefur nú um hríð verið dimmt og votviðrasamt annað veifið, eins og við var að búast, eftir þurrviðrin, sem gengið hafa.

[31.] Eftir útkomu síðasta nr. blaðs þessa gerði all-hagstæðan þerrir-kafla í tæpan vikutíma, en með höfuðdeginum (29. þ.m.) brá þó aftur til rigninga og rosa.

Austri segir af góðri tíð eystra í pistlum þann 20. og 25.:

[20.] Tíðarfar hefir mátt heita gott undanfarið og hitar oftast allmiklir.

[25.] Tíðarfarið hið indælasta nú á degi hverjum.

September: Úrkomusamt um mikinn hluta landsins. Fremur hlýtt. Þann 20.gerði gríðarlegt illviðri sem olli miklu tjóni á sjó og landi. 

Framan af var þótti nokkuð hagstæð tíð eystra, en syðra gengu votviðri. Austri segir þann 17.:

Tíðarfarið er alltaf hið blíðasta og hagstæðasta, svo nýting á heyi hefir hér eystra orðið hin ágætasta og heyafli því í góðu lagi.

Ísafold birti þann 15. bréf úr Rangárvallasýslu, dagsett þann 5.:

Tíðarfar má kalla að hafi verið hér í sumar fremur stirt, Sífelldir óþurrkar og því mjög erfitt að fást við heyskap. Sem betur fer, hefir þó eigi frést, að skaði hefði orðið, að hvað menn hefðu hirt illa, eins og víða átti sér stað í fyrra. Því miður veit ég eigi til, að neinn hafi reynt að búa til sæthey, sem væri þó án efa mjög áríðandi fyrir menn að reyna, og ekki hvað síst, þegar svona erfitt er að þurrka hey ár eftir ár.

En Ísafold kvartar þann 12.: 

Tíðarfar mjög óhagstætt um þessar mundir, sífelld votviðri. Mikið úti af heyjum víðast hér um Suðurland.

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð þann 11. og 19.september:

[11.] Eftir norðan-snjóhretið 31. f.m., er slotaði fyrri hluta dags 1. þ.m., gerði allhagstæða tíð vikuna, sem leið.

[19.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur tíð verið mjög rigninga- og rosasöm, og snjór öðru hvoru fallið á fjöllum.

Við látum Ísafold hefja langa tölu um illviðrið mikla þann 20. og tjón í því. Hungurdiskar hafa áður minnst á lægðina sem veðrinu olli og hvers eðlis hún var - auk þess sem ritstjórinn ritaði um hana grein í tímaritið Veðrið fyrir um 40 árum. Ef til vill mun þetta veður enn koma við sögu í síðari pistli. En Ísafold segir þann 22.:

Dæmafár illviðrabálkur hefir nú gengið, líklega um land allt, frá því um höfuðdag. Fráleitt náðst nokkur tugga í garð og illstætt að vinnu úti við oft og tíðum. Ferðalög ill á sjó og landi, þar með ekki síst fjallgöngur. Einkum hafa þó illviðrin keyrt fram úr hófi þessa vikuna. Ofsarok dag eftir dag, á útsunnan, sem mjög er hætt við að valdið hafi slysum á sjó, frekari en til hefir spurst. Skemmdir á skipum, fiskiskútum, urðu hér í fyrra kvöld, er rokið stóð sem hæst. Eitt sökk meira að segja alveg hér á höfninni, svo að ekki sér nema á siglutoppana um fjöru. Það hét Solid, fúin botnvörpunga-ausa Magnúsar Blöndahl, þ.e. notuð aðeins til að sækja „tröllafisk“ hér út í flóann. Það rakst áður eitthvað á To Venner, og skemmdi það skip dálítið. Þá rákust tvö skip á í Hafnarfirði, Palmen og Himalaya. Palmen skemmdist dálítið, en Himalaya meira. Loks laskaðist eitt skip inni í Geldinganesi: Egill, eign Jóh. Jósefssonar smiðs.

Athugasemd H.Schöth athugunarmanns á Akureyri í september 1900:

Natten fra 19 til 20 stærkt Barometerfald. Orkan fra Sydvest den 20. Efter den engelske Orlogsmands Maaling havde den en Styrke af 133 gr. Orkanen gjorde megen Skade paa Söe og Land, ved at vælte Huse og kaste Skibene paa Land. Lavest Barometar kl. cirka 12 f.m. 713.

Í lauslegri þýðingu: Loftvog féll ört nóttina á milli 19. og 20. Fárviðri af suðvestri þann 20. Eftir mælingu breska herskipsins var afl þess 133 gr. Fárviðrið olli miklum skaða á sjó og landi með því að velta húsum kasta skipum á land. Lægsta loftvogarstaða um kl.12 á hádegi, 713 mm (950,6 hPa - óleiðrétt). 

Austri segir frá þann 22.

Aðfaranóttina þess 20. september féll loftvogin hér á Seyðisfirði ofan fyrir storm, enda kom þá þegar um morguninn hér eitt af þessum voðalegu ofveðrum, er hér eru því miður eigi sjaldgæf, er fór vaxandi er á daginn leið og hélst við með ofsabyljum, er eigi mátti heita stætt í, langt fram á aðfaranótt þ.21.september. Rétt á undan þessu voðalega ofviðri höfðu nokkrar færeyskar fiskiskútur leitað hér hafnar, og fóru þær allar 4, er lágu hér á höfn á rek undan veðrinu, er mun hafa staðið af suðvestri og hrakti skúturnar 3 upp að norðurlandinu.

Ein þeirra, að nafni „Fearless," skipstjóri Jóhann Mortensen frá Trangisvaag á Færeyjum, tók grunn fram af Vestdalseyri utanverðri og hrukku þá atkerisfestarnar þegar í sundur og réðu þá skipverjar ekkert við skipið, þó þeir reyndu til að lægja sjóinn með því að bera i hann bæði steinolíu og lýsi, en brimið gekk yfir skipið og alveg upp í siglutopp. Loks afréðu skipverjar að setja bát með trossu frá skipinu upp á líf og dauða í brimgarðinn og halda honum til lands. En hefðu eigi nokkrir hugaðir menn í landi vaðið út í brimgarðinn undir hendur og dregið bátinn í land með eigin lífshættu, þá hefði báturinn líklega eigi náð þar lendingu, og mennirnir allir 5 farist eða meiðst undir bátnum. Svo var kaðall sá, er kom með bátnum frá skipinu festur og strengdur, og á honum fór svo af handafli hinn röski skipstjóri með björgunarhring í gegn um brimið og hvarf hann nokkrum sinnum í því, en hélt sér karlmannlega og komst með heilu með björgunarhringinn og taug aðra úr skipinu í land; er í land kom var annar kaðall bundinn í björgunarhringinn, er síðan var festur með lykkju um kaðalinn er í land lá úr skipinu, svo að draga mátti hringinn eftir kaðlinum bæði af skipinu og úr landi og á þennan hátt voru allir mennirnir sem eftir voru, hver af öðrum, dregnir í land í gegn um brimið; en sumir þeirra voru svo þjakaðir, að þeir varla gátu gengið. Var skipverjum síðan hjúkrað sem best varð, og léð föt eftir þörfum á Vestdalseyri.

Annað færeyskt fiskiskip rak upp á Grýtáreyri innst í Dvergasteinslandi og er þar fjöruborð mjög stórgrýtt og brim ákaflega mikið. Það skip hét „ Reyndin frída", skipstjóri Daniel Jespersen. Þá skipið kenndi grunns og hjó ákaflega mikið í brimgarðinum, óttuðust skipverjar, að það mundi þá og þegar liðast í sundur og réðu það því af að fara allir 13 í skipsbátinn, en bundu sig þó flestir fyrst á kaðal en báturinn var ofhlaðinn og hvolfdi og sökk í brimgarðinum, en huguðum mönnum, er i landi voru tókst með lífsháska að ná, í kaðalinn og draga skipverja 11 í land en skipstjóra og einn hásetanna skolaði burtu í brimgarðinum, og hafa þeir líklega eigi getað fest sig við kaðalinn. Þeir eru báðir ófundnir enn. Þriðja færeyska skipið, að nafni „Vinurinn“, skipstjóri Jakób Nikulaisen, rak í land á Hánefstaðaeyri, en þar var mannbjörg og skip og farmur í ábyrgð.

Fjórða skipið „Energí," skipstjóri Luid, varð að höggva frá sér rá og reiða út undan Vestdalseyri, til þess eigi að reka í land og var það síðan daginn eftir dregið inná höfnina, og verður líklega síðar sett í það mastur og reiði úr öðru hvoru hinu strandaða skipi, „Fearless" eða „Reyndin frída" er bæði verða víst dæmd ósjófær.

Annað tjón varð eigi hér að ofviðri þessu nema að 4 bátar, er á landi stóðu, fuku og brotnuðu í spón, og hákarlabáturinn „Trausti", er lá rétt utan við Vestdalseyrina, fylltist af sjó og sökk.

Hin nýja kirkja, er verið var að reisa á Bakkagerði í Borgarfirði, fauk í ofviðrinu og þakið af Good-Templarhúsinu, er þar var líka verið að byggja.

Þjóðviljinn ungi segir frá þann 29.:

Í aftaka-norðvestanrokinu 20. september síðastliðinn fauk baðstofa á Tindi í Tungusveit í Strandasýslu. í sama veðri reif og bæ í Byrgisvík í sömu sýslu. Heyskemmdir er og að frétta sumstaðar að, bátabrot í Borgarnesi, og víðar, og fleiri smáskemmdir. Votviðrasama tíð er nú hvaðanæva að frétta í þ.m., og víða mjög mikið enn úti af heyjum hér vestanlands, einkum fyrir sunnan heiðar, enda hafa margir haldið til með heyskapinn í lengra lagi, enda þótt viða væri all-mikið hey komið inn, áður en til óþerranna brá.

Voðafréttir - 17 menn drukknaðir. Það má nú því miður telja sannfrétt, að 4-5 skiptapar hafi orðið úr Arnarfirði vestanverðum 20. þ.m. Drukknuðu þá 15 menn úr Selárdal, og 2 menn úr Fífustaðadal, og er mælt, að við mannskaða þenna hafi 9 orðið ekkjur. Um nöfn þeirra manna, er drukknuðu, hafa enn eigi borist greinilegar fréttir, og verður því að skýra nákvæmar frá þessum sorglegu slysförum síðar.

Skemmdir og slys. Í aftaka suðvestanroki, er skall hér á 20. þ.m., hafa orðið all-miklar skemmdir á sumum stöðum, og er þó enn óvíða til spurt. — Hér á höfninni (Pollinum) rak 3 skip upp í fjöruna, og skemmdust tvö þeirra að mun; var eitt þeirra jagtin „Anne Sophie", eign Filippusar skipherra Arnasonar á Ísafirði, sem missti undan sér kjölinn, og brotnaði nokkuð að öðru leyti, svo að hana hálf-fyllti af sjó. Í annan stað tókst og svo ílla til, er gufuskipið „Saga", sem lá við bryggjuna í Neðstakaupstaðnum, ætlaði að færa sig frá bryggjunni, að það festi skrúfuna í atkerisstreng skipsins „Solid", og rak svo bæði skipin upp í fjöruna. Var „Solid" ný komið hingað frá Súgandafirði, og átti ólosað nær 300 skpd. af þurrum saltfiski til verslunar A. Ásgeirssouar, en brotnaði nú í fjörunni, og fylltist að mestu af sjó. Á hinn bóginn náðist gufuskipið „Saga" aftur óskemmt fram. Mælt er, að hvorki „Solid", né farmur þess, hafi verið í sjóábyrgð, og er þetta því ærinn skaði fyrir eigendurna, nema skaðabætur fáist hjá eigendum eða útgerðarmönnum gufuskipsins „Saga", svo sem heyrst hefur, að forstjóri A. Asgeirssonar verzlunar hafi farið fram á.

Í þessu sama veðri fauk og hjallur í Neðri-Arnardal, og þök rauf sumstaðar af húsum, að meira eða minna leyti. — Bátur fauk í Botni í Mjóafirði, og annar á Bjarnastöðum i Ísafirði, og brotnuðu báðir i spón. Þá vildi og það slys til í veðri þessu, að Gestur bóndi Guðmundsson í Neðri-Arnardal, er var á sjó með syni sínum, Guðmundi, slasaðist
stórkostlega í lendingunni. Tókst þeim feðgum, þrátt fyrir veðrið, að ná lendingu á Súðavikurhlið, rétt hjá svo nefndum Höfnum; en rétt er þeir voru ný-lentir reið ólag að bátnum, og varð Gestur undir honum, lærbrotnaði, og meiddist að öðru leyti mjög mikið, en varð þó að liggja þarna, uns Guðm. sonur hans gat útvegað mannhjálp, til að koma honum í hús, og lá hann svo i verbúð um nóttina, mjög þungt haldinn; en daginn eftir, er veðrinu slotaði, var hann svo fluttur á spítalann hér á Ísafirði.

Aurskriður — skemmdir. Hinar afskaplegu rigningar, sem gengið hafa í þ.m., hafa valdið afar-miklum skemmdum hér á Eyrarhlíð, einkum á svæðinu frá kaupstaðnum og alla leið út á Langhól, víða skriða við skriðu að kalla. Vegurinn á þessu svæði hefur og víða eyðilagst.

Þjóðólfur segir þann 28.september:

Manntjón. Í ofviðrinu aðfaranóttina 21. þ.m. fórst flutningabátur Boilleau baróns á Hvítárvöllum á heimleið úr Borgarnesi; hafði báturinn slitnað aftan úr gufubátnum m/b „Hvítá", en því ekki verið veitt nógu fljótt eftirtekt, en ofviðri mikið á, svo að ekki heyrðist þótt kallað væri. Fórust þar 2 menn, er á bátnum voru. Báturinn var hlaðinn ýmsum vörum um 1000 kr virði.

Í Þjóðviljanum unga þann 11.nóvember kemur fram að fram að það var þann 20. að flutningabáturinn fórst. Þar kemur einnig fram að „Svifferjan“ yfir Héraðsvötn í Skagafirði hafi eyðilagst gjörsamlega og að uppskipunarbátur hafi brotnað á Sauðárkrók, heyskemmdir hafi orðið á stöku stað í Skagafirði „o.fl“.  

Kosningin i Strandasýslu fórst fyrir 20. þ.m. sakir óveðurs og óvíst, hvort hún fer fram fyrr en að vori. Enginn var þar í boði nema Guðjón Guðlaugsson, en hann komst ekki á kjörfundinn og enginn kjósandi kom þar að sögn. Var alófært veður þennan kjörfundardag þar nyrðra og urðu víða skaðar á heyjum og húsum. Sumstaðar í Skagafirði fuku bæjarhús. Á Reykjum á Reykjaströnd stóð ekkert eftir nema baðstofan.

Stefnir á Akureyri segir frá veðrinu þar nyrðra í fréttum þann 28.september:

Ofsaveður skall yfir Norður- og Austurland 20. þ.m. Loftvogin hafði fallið kvöldinu fyrir og hélt áfram að falla um nóttina og fram að miðjum degi. Með aftureldingunni á fimmtudaginn hvessti allmikið og óx veðrið, er fram á morgun kom. Þegar leið að hádegi gjörði slíkt ofsaveður á vestan með rigningu, að menn muna hér eigi annað eins, var veðrið víða svo mikið að frískum karlmönnum þótti naumast út fært, og konum alls eigi. Undir rökkur slotaði veðrinu og stillti til.

Afleiðingarnar. Á Akureyri urðu stórskaðar að þessu veðri. Á höfninni lágu l3 þilskip (fiski- og hákarlaskip) og voru þau öll mannlaus, nema skip þeirra Kristjánssona, sem menn fóru í um morguninn til að gefa út festar skipsins. Það eina skip hélst við á höfninni i storminum, þótt það hrekti allmikið, en hin öll ráku upp í sandinn sunnan á Oddeyrinni. En á upprekstrinum rákust þau mjög hvort á annað og brotnuðu við það meira og minna, helst ofansjávar. Siglutré brotnuðu í sumum og 4 eða 5 misstu bugspjót sín. Allt fyrir þetta mun mega gjöra við öll þessi skip og kostnaðurinn við aðgjörð sumra þeirra eigi mikill. Síðan hefir kappsamlega verið unnið að því að losa skipin af grynnslum og eru þau nú flest komin á flot og verða sett á land. Tvö sauðaskip Zöllners lágu hér á höfninni, en þau héldu sér við með gufuafli lengst af. Breska herskipið „Bellona“ lá hér og slitnaði upp og missti akkerið, en lenti þó ekki á Eyrinni en var á róli aftur og fram fyrir framan Eyrina meðan veðrið var sem mest, í 4 eða 5 daga voru Bretar svo að slæða og kafa eftir akkerinu og náðu því loks. Eitt geymsluhús fauk í bænum og margt af rúðum brotnaði, skúrar fuku fra dyrum, og sumum húsum lá við að skekkjast eða skekktust, líkhús nýja spítalans kvað hafa raskast af grunni eða skekkst að meira eða minna leyti. Uppskipunarbátum á höfninni hvolfdi sumum eða sökkti. Regnið og sjórokið blandaðist saman í einn rjúkandi vatnsmökk svo nálega engin aðgreining sást lofts og lagar, þar við bættist og allskonar skran, sem var eins og fjaðrafok í háa lofti, — tunnur, keröld, kútar, járndunkar, fullar steinolíuámur, sundruð fordyri, borðviður, bjóð, hattar, húfur og sjóbrækur - svo varla greindi á milli, og var ekki hættulaust fyrir menn eða málleysingja að vera áveðurs úti í því sorpkasti, enda eru sögð auðsæ vegsummerki byljarins hér út með firðinum austanverðum, eins og reyndar víðar, þar kváðu liggja fjallháir brimþvældir garðar af heyi og allskonar kynstrum ofan við fjöruborðið, sem fokið hefir á vestursíðunni og skolast yfir um.

Slys og mannskaðar. Hús fauk í Rauðuvík í Arnarneshreppi. Slasaðist af því kona og biðu bana tvö börn Jóns Jónssonar smiðs, sem þar bjó, en var ekki heima, er þessi atburður gerðist. Fleira fólk er sagt að hafi verið í þessu húsi, er allt meiddist meira eða minna, allir innanstokksmunir glötuðust allt að fötunum, sem fólkið stóð í. Sveinn bóndi í Arnarnesi varð fyrir stiga í veðrinu og meiddist mikið. Lítið þilskip, eign J.Björnssonar á Svalbarðseyri og Jóh. Davíðssonar í Hrísey, rak í land í Hrísey og brotnaði þar í spón, drukknaði þar Páli Jónsson kallaður Rangvellingur, sem var einn í skipinu. Annað lítið þilskip, „Kári“, kom af Siglufirði deginum fyrir veðrið hingað inn á fjörðinn og lá undan Svarfaðardal, sleit upp í veðrinu og dreif á grunn við Hríseyjarhala, týndust þar 4 eða 5 menn af Siglufirði. Tvær stúlkur er sagt að hafi handleggsbrotnað í Hjaltadal í Fnjóskadal. Heymissir og skemmdir á þökum torfhúsa urðu mikil víða í sveitum. Sumir misstu heil heyin í Glæsibæjarhreppi, og þar mun skaðinn líka hafa orðið einna mestur. Torfþökum fletti víða af heyjum, hlöðum, úthýsum og bæjum, svo mikla vinnu þarf til að endurbæta þetta. Eldiviðarhlaðar hrundu og fuku til skemmda á mörgum stöðum. Þá skemmdust víða og skekktist timburhús til sveita, svo sem kirkjan í Stærra-Árskógi og kirkjan á Möðruvöllum í Hörgárdal, leikhúsið þar og kirkjan í Kaupangi og er enn tæplega fegnar allar fregnir af stórviðri þessu.

Á ferð í ofviðrinu voru sumir á hesti, þegar hvassast var. Bóndi af Staðarbyggð skýrir svo frá: „Ég fór ofan á Akureyri snemma um morguninn og ætlaði heim fyrir miðjan dag, þegar ég var ferðbúinn var ofsaveðrið skollið yfir, beið ég því fram undir nón, þá virtist mér heldur slota og lagði af stað, en þá var veðrið svo, að hestinn hrakti með mig út af veginum hvað eftir annað, en af fótunum fór hann eigi, enda er hann með sterkustu hestum í minni sveit, ég fór með hálfum hug yfir Vaðlana, því vatnsrokið ætlaði að æra hestinn; þótt leiðin, sem ég fór, væri eigi lengri en tæp míla, var hesturinn því nær uppgefinn, þegar ég kom heim“. Annar ferðamaður segir svo frá: „Við vorum tveir á ferð ofan Öxnadal í mesta ofviðrinu, og áttum því undan veðrinu að halda, hrakti okkur hvað eftir annað út af veginum og lausu hestana hrakti stundum á reiðskjóta vora, og hestur samferðamanns míns missti nokkrum sinnum fótanna.

Ísafold segir frá ofviðrinu þann 29.:

Ekki er nærri fullfrétt enn um tjón það, er manndrápsveðrið mikla 20. þ.m. hefir valdið víða um land, og hafa ekki verið síður brögð að því norðanlands en sunnan, að því er frést hefir, einkum á Eyjafirði. Þar höfðu þilskip mörg á höfninni, fiskiskútur, rakist á og laskast stórum, jafnvel orðið að strandi sum; en opna báta rak upp á Oddeyri og fóru sumir í spón. Hús fuku þar einnig, geymsluhús, eða skemmdust til muna. Þá fuku og heyhlöður þar um héraðið, og eins í Skagafirði, og þak af peningshúsum; sömuleiðis hey í görðum og því fremur úti á víðavangi, þar sem til var. Skrifað er í bréfi af Akureyri 23. þ.m.: Öl1 seglskip á höfninni rak á land, 15 að tölu, og brotnuðu meira og minna; skaðinn skiptir mörgum þúsundum kr. Bellona (herskipið enska), Angelus og Constantin héngu við illan leik. Ö11 hús léku sem á þræði. Bellona misti akkeri og 45 faðma langa festi; hefir nú leitað að því í tvo daga, en ekki fundið. Síldarhús hér utar í firðinum, 12 álna breitt og 20 álna langt, færðist fram af grunninum um 1 alin; og 1000 síldartunnur fuku á sjó út. Á sama stað fauk lítið íbúðarhús, er i var kona með 2 börnum, er lemstruðust til bana, en konan komst lífs af við illan leik, handleggsbrotin. Skip, sem var á leið hingað af Siglufirði, fórst með öllum mönnum, 10 að tölu. Bátur, sem konsúll J. Havsteen átti, og 10 menn þurfti til að setja, fauk í loftinu um 30 faðma. Rúður brotnuðu. Mörg hús skekktust svo, að ekki varð lokað hurðum. Bændur misstu hey sín, sumir á annað hundrað hesta. Grjót og spýtnarusl, torf og því um líkt kom í háa-lofti, og stórmeiddi fólk, sem var að bjarga heyjum sínum og skipum. Blautur sandurinn þyrlaðist í háa-loft og fór í vitin á fólki. Þeir, sem úti vorn staddir, gátu ekki með nokkuru móti staðið, heldur urðu að fleygja sér flatir niður. Hús láku svo, að slíks eru engin dæmi. Reykháfar hrundu í húsum m.fl.

Bjarki á Seyðisfirði segir þann 29. frá ofviðrinu (hér er því sleppt að mestu sem fram er komið hér að ofan):

Ofsaveðrið í vikunni sem leið hefur náð yfir stórt svæði. „Ceres“ varð fyrir því suður við Orkneyjar, „Hólar“ úti fyrir Langanesi og sagði skipstjórinn, að hann hefði aldrei fengið annan eins storm hér við land. „Uller“, sem nýkominn er hér inn, fékk storminn hér úti fyrir Austurlandinu og hrakti undan því norður í Íshaf. „Mjölnir“ var þegar veðrið skall á undir Árskógsströnd - inni á Eyjafirði og lá þar þangað til því slotaði. En ekki hefur stormurinn verið vægari þar í Eyjafirðinum en hér eystra. Hákarlaskip frá Siglufirði, sem var að sækja kartöflur o.fl. inn á Akureyri, fórst á Eyjafirðinum með fjórum mönnum. Einnig er skrifað að bátur færist þar með þrem mönnum, en ekki tilgreint hvaðan hann væri. 

Úr Þingeyjarsýslu er skrifað, að þar urðu víða heyskaðar og á Stóruvöllum í Bárðardal fauk þak af steinhúsi.

Bjarki segir 22. október frekari fréttir af foki:

Í Svarfaðardalnum fuku tvær kirkjur, á Urðum og Upsum, og brotnuðu í spón, en hin þriðja, á Völlum, stórskemmdist. Þinghúsið á Saurbæ í Eyjafirði fauk og mölbrotnaði. Í Skagafirði fuku tveir bæir: Reykir á Reykjaströnd, svo baðstofan stóð ein eftir, og Hólakot. Einnig fauk brúin af Jökulsá í Vesturárdal og brotnaði öll. Á Árskógsströnd í Eyjafirði fauk hús og biðu þar tvö börn bana. 

Þann 6. október segir Bjarki af skipum sem lentu í veðrinu:

Fjárskipið „Bear" missir um 2000 fjár. Skosk blöð segja svo frá hrakför þessa skips sem fór með féð af Svalbarðseyri: „Gufuskipið Bear frá Glasgow, sem áður var góssflutningaskip, en nú flytur fé frá Íslandi til Liverpool, kom til Stornoway í gærkvöld (þ.25.sept.) og sagðist hafa orðið fyrir ofsaveðri skömmu eftir að það hélt af stað frá Íslandi. Stýrið brotnaði, skipið hrökklaðist milli holskeflanna og rak þrjá daga nærri stjórnlaust fyrir sjó og veðri. Öllu fénu á efsta þilfari og miklum hluta fjárins á öðru þilfari varð að kasta fyrir borð. Til bjargar skipi og mönnum varð að loka öllum uppgöngum á þilfarinu og urðu þær ekki opnaðar í 4 daga. Í vélarrúminu var 4 feta vatn, eldarnir slokknuðu undir kötlunum og undir þiljum var sömuleiðis 4 feta vatn. Tveir sjóir sem fóru yfir skipið voru sérstaklega risavaxnir; þeir gusuðust niður um járnristarnar og komu ofan á kyndarana þar sem þeir voru að kynda, rifu burt stóarhlerana og skoluðu kolunum og öskunni ofan i undirlest. Af 2600 fjár, sem skipið flutti frá Íslandi, er talið af yfir 2000 hafi farist, með því að fjöldi kafnaði dagana sem öll göt varð að byrgja, en meira hlut var þó varpað fyrir borð til þess að fólkið kæmist að því, sem gera þurfti á skipinu. Skipið laskaðist töluvert og tveir skipsbátar liðuðust sundur. Potter skipstjóri segist aldrei hafa hreppt svo ólman storm í þau 20 ár, sem hann hefur farið um vesturhluta Atlantshafs. Hugsanlegt er að þetta hafi verið halinn á fellibyl þeim, sem lagði Galveston í rústir. Líklegt er að skipið hefði farist hefðu ekki skipstjóri þess og stýrimaður verið jafn vanir og ágætir sjómenn. Af farmi síðara skipsins, yfir hálfa þriðju þúsund, dóu einar tvær kindur. Það sagði Steinþór steinhöggvari sem sjálfur var með skipinu.

Þann 3.nóvember gerði Ísafold upp drukknanir í Arnarfirði í illviðrinu 20.september:

Þeir voru 18 alls, sem drukknuðu þann dag, frá nokkurum heimilum í Arnarfjarðardölum, á 4 bátum. Þar af voru 5 vinnumenn síra Lárusar Benediktssonar í Selárdal og 5 landsetar hans. Það eru 6—7 býli í Selárdalnum önnur en sjálft prestssetrið, en fólkstala í dalnum alls 50—60 á undan slysinu, með 20 fullorðnum karlmönnum. Af þessum 20 lifðu einir 5 eftir, en 15 drukknuðu. ... Veðrið skall á þar í Arnarfirði ekki fyrr en kl.8 um morguninn, miklu seinna en annarstaðar, t.d. á Breiðafirði; um morguninn hafði verið  hægviðri, en þykkur og dimmur. 

Þjóðviljinn ungi birti þann 11.október bréf úr Dýrafirði, dagsett 27.september:

Síðan daginn fyrir kjörfundinn sæla á Ísafirði [kosið var þar 1.september], hefur mátt heita versta ótíð. og verður lengi uppi í sögu okkar Vestfirðinga hvorttveggja, kjörfundurinn og veðráttan, sem honum fylgdi. Það voru dagarnir 3.-8. september, sem veður var all-gott, og voru þá allir við heyskap, því tún urðu mjög seinunnin í sumar, vegna þurrkanna, og litið komið af útheyi hjá mörgum; en það, sem slegið var framan af september, hefur aldrei náðst inn, því með 9. brá til sífelldra votviðra, svo að menn hafa ekkert getað unnið að haustverkum, ekki dyttað að húskofa, eða neinu; en út yfir tók ofsaveðrið 20.september, eitt hið mesta veður, sem komið getur, af vestan-útnorðri. Um morguninn var ekki mjög hvasst, en loftið þrungið, og fullt af votviðri, sem verið hafði að undanförnu; um daginn var loftvogin komin ofan 71, og fyrir hádegi komið það afspyrnurok, að hvert hús lék á reiðiskjálfi. Sjórinn varð svo ógurlegur, að verra mun ekki eiga sér stað, og að því skapi var regnið; allt fauk, og brotnaði, sem laust var. — Flutningagufuskipið „Alpha" var nýlega affermt, og lá við Höfða-oddann að utanverðu; það hafði gufuvélina í fullum krafti, og rak þó undan ósköpunum, alla leið inn undir Ketilseyri, og var nærri komið upp í Höfða-oddann, þegar það rak inn fyrir. Bryggju tók þar, og rak inn á Lambadalshlið. Ferju flatbotnaða, mjög stóra, rak frá Höfðaoddanum á hvolfi inn í Lambadal, og voru þó að sögn um 1500 pd. af járni í henni, þegar hún fór, sem allt er i sjónum, og fleira fór þar til stórskemmda, svo að skaðinn skiptir víst þúsundum í allt og allt. — En síðan þetta mikla veður reið af, hefur veður oftast verið gott, þurrt, með frosti á nóttu, og snjóað á fjöll.

Þann 9. nóvember segir Þjóðviljinn ungi frekari fréttir af skriðuföllum í illviðrinu:

Í áhlaupsveðrinu 20. september síðastliðinn féll skriða á engjar og beitilönd jarðanna: Hestur, Efrihús og Neðrihús í Önundarfirði, og olli þar talsverðum skemmdum. 15 kindur urðu og fyrir skriðunni, og drápust 9 þeirra, sem voru eign bóndans á Hesti.

Ísafold segir þann 29.september:

Mikil ótíð helst enn hér sunnanlands, að undanteknum 2-3 dögum núna í vikunni með þerriflæsu, sem kom að töluverðum notum sumstaðar, en litlum í sumum sveitum, meðfram vegna kulda: frost á nóttu o.s.frv. Sama að frétta af Vestfjörðum og úr vestursýslunum norðanlands. En í austursýslunum nyrðra frá Eyjafirði og í Múlasýslum hefir verið öndvegistíð fram um miðjan þennan mánuð að minnsta kosti, að því er frést hefir, hlýir sunnanvindar fyrir norðan með allgóðum þerri. Heyskapur gengið þar mætavel.

Október: Nokkuð hagstæð tíð. Fremur kalt.

Þjóðviljinn ungi segir októbertíð: 

[11.] Frá byrjun þ.m. hefur haldist all-hvöss norðanátt, all-oftast með frosti og fjúki, nema stillt veðrátta nokkra daga um síðustu helgi, og síðan rosa-tíð.

[23.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur tíð verið óstöðug og stormasöm all-oftast.

[30.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur tíð verið óstöðug, nema stillt norðanátt og frost frá 26. þ.m.

Ísafold segir frá tíð í tveimur pistlum í október:

[13.] Eftir að hinum miklu stormum og rigningum létti nú um mánaðamótin, hófust kuldar og hreinviðri, er snúist hafa nú síðasta sólarhringinn upp í kafaldsfjúk með talsverðu frosti.

[27.] Veturinn byrjar í dag á fögru hreinviðri og heiðskíru, með dálitlu frosti. En stormar og hrakviðristíð síðustu vikurnar af sumrinu.

Austri segir frá tíð þann 29.október:

Tíðarfar má heita að hafa verið allgott síðustu viku og hvorki snjókoma eða frost til muna, svo að allstaðar hér eystra mun enn vera gott til jarðar.

Nóvember: Nokkuð umhleypingasamt, en hiti í meðallagi.

Þjóðólfur segir frá þann 9.:

Í ofsaveðrinu aðfaranóttina 2. þ.m. brotnuðu 4 uppskipunarbátar á Eyrarbakka og bryggja hjá P. Nielsen verslunarstjóra skemmdist. Gekk sjórinn í stórum öldum upp á Breiðumýri millum Eyrarbakka og Óseyrarness. Þó slapp vegurinn þar á mýrinni við skemmdir í þetta sinn. Ölfusá gekk langt upp á land í Ölfusi utanverðu, og hefur annað eins flóð ekki komið þar næstliðin 35 ár. Þó varð ekki mikið tjón að flóðinu.

Frekari fréttir eru af sama veðri í Þjóðólfi þann 30. nóvember:

Fjárskaðar allmiklir urðu sumstaðar hér sunnanlands í ofsaveðrinu 2. þ.m. Meðal annars missti Sæmundur bóndi í Stakkavík í Selvogi um 60 fullorðið fjár í sjóinn, flæddi þar á skeri. Hjá Grími bónda Eiríkssyni í Gröf í Grímsnesi fórust rúm 40 lömb, er hröktu þar í ós einn. Átti hann um helming þeirra sjálfur, en hinn helminginn Guðjón bóndi Finnsson á Reykjanesi þar í sveit. Í Kjós urðu og fjárskaðar (í Hækingsdal  og víðar).

Austri segir um nóvembertíð þar eystra:

[7.] Tíðarfar er nú hið ágætasta á degi hverjum, og auð jörð upp í mið fjöll. Ofviðri gjörði hér nokkurt 2. þ.m. og fauk þá töluvert af þakinu á íshúsi Garðarsfélagsins inn á Fjarðarselsmýrum.

[10.] Stórhríð og ofsaveður af norðaustri hefir gengið hér tvo síðustu dagana. Mest var veðrið í fyrrinótt tók þá út nokkra báta og mikið af bryggju Gránufélagsins brotnaði i brimi því og stórflóði er gjörði um nóttina. Með því þetta vor bleytuhríð í fyrstu, mun hér nú nær jarðlaust. 

[19.] Tíðarfar hefir nú í rúma viku verið hið blíðasta, svo að töluverð jörð er þegar komin upp. Í dag er hláka og ofsastormur. Fjárskaðar hafa orðið töluverðir í hríðinni um daginn, bæði í Héraði og Fjörðum. En vonandi er að eitthvað af fénu náist úr fönninni, ef þessi hláka helst lengi.

[24.] Tíðarfar hefir þessa dagana verið hér mjög óstillt, rosi og rigningar miklar á hverjum degi.

Austri segir frá í pistli þann 10.desember:

Með póstum heyrðist nú víða að um meiri og minni fjárskaða, sem orðið hafa víðsvegar um land í stórhríðinni fyrrihluta f.m., og játa það margír, að þeir fjárskaðar hefðu víða getað orðið miklu minni, ef menn hefðu nógu snemma gætt að hinu miklu falli loftþyngdarmælisins. Verður það eigi of oft brýnt fyrir mönnum, að reyna að eignast þann kostagrip á heimili sín og gæta áminningar hans í tíma við öll tækifæri.

Bjarki á Seyðisfirði segir þann 14.:

Í veðrinu fyrir helgina [veðrið 8. til 10. nóvember] urðu hér talsverðar skemmdir, bryggjur brotnuðu bæði hjá Thostrup og Imsland og á Vestdalseyri og nokkrir bátar skemmdust.

Og þann 20.:

Fjárskaðar hafa orðið nokkrir á Héraði í hríðarbylnum 9. þ.m. og þar eftir. Fé var óvíða heima við, því jörð var auð fyrir. Sumstaðar vantaði fjölda fjár en síðari fréttir segja að margt af því hafi fundist, komið fyrir á næstu bæjum, og er því óvíst enn, hversu mikill skaðinn er.

Bjarki birti þann 20. bréf úr Vopnafirði, dagsett þann 16.:

Hér er nær haglaust víðast í sveitinni. Ekki urðu hér fjárskaðar í veðrinu um síðastliðna helgi nema á Hámundarstöðum. Bændurnir þar misstu um 50 fjár og annar þeirra (Sveinbjörn) bát; það er góð viðbót við bæjarbrunann. Bátur fórst hér í veðrinu, frá Skerjavík, með tveim mönnum 9.þ.m. 

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð og tjóni í nóvember í nokkrum pistlum:

[9.] Fyrsta þ.m. gerði suðvestan slagveður og rigningar og hefur tíð síðan verið óstöðug og rosasöm og blindbylur í gær. 

{17.] Norðankafaldsbylnum er hófst 8.þ.m. slotaði 11 og hefur veðráttan síðan verið frostlin, en dyngt niður kynstrum af snjó. 

[29.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur tíð verið mjög óstöðug, sífelldir stormar að heita má, ýmist suðvestan stormar og rigningar, eða norðanveður.

Í Þjóðviljanum unga þann 29. segir frá tveimur sjóslysum, öðru við Gjögur í Standasýslu þann 8. október og drukknuðu tveir, og 1. nóvember varð skipskaði þremur að bana í Grindavík. Ekki er ljóst hvort veður kom við sögu í þessum óhöppum. En svo segir:

Í áhlaupsveðrinu 8. nóv. síðastliðinn urðu fjárskaðar á stöku stað fyrir sunnan heiðar. Á Múlahlíð í Gilsfirði fórust 3 hestar, og 1 í Saurbænum, en 3 vantaði frá Ásgarði i Hvammssveit. sem talið er, að fennt muni hafa. Hjá búnaðarskólastjóra Torfa Bjarnasyni í Ólafsdal fennti 30 fjár til dauða, og viðar mun fé hafa farist þar syðra, þó að enn sé ekki greinilega til spurt. Kvenmaður varð úti á Ólafsdalshlíð 8. nóvember, milli Ólafsdals og Stórholts í Saurbæ. 

Í blaðinu er einnig listi yfir þá sem fórust í Arnarfirði þann 20.september. Þar segir að lokum:

Af 20 fullorðnum karlmönnum, er í Selárdalnum voru, hafa því 15 farist við mannskaða þennan, en 10 hafa orðið ekkjur, og 17 börn föðurlaus.

Ísafold segir þann 24.nóvember:

Veðrátta mjög vanstillt, stormar miklir og rigningar. Líkt að heyra langt að með póstum. Norðanhríðin snarpa og skyndilega í öndverðum þessum mánuði hefir valdið fjársköðum víða, meiri og minni.

Desember: Hægviðrasamt lengst af. Talsverður snjór um stóran hluta landsins um miðjan mánuð. Hiti í meðallagi, en þó kalt inn til landsins fyrir norðan.

Ísafold birti þann 15. bréf úr Strandasýslu og Hrútafirði:

Strandasýslu miðri 5.desember. Þetta ár, sem nú er komið á síðasta mánuð, hefir, þegar á allt er litið, mátt heita hagsældarár fyrir þetta byggðarlag. Veturinn í fyrra vetur var einn af þeim mildustu og bestu. Vorið að vísu kalt framan af; en hey voru alstaðar nóg, og skepnuhöld urðu því almennt mjög góð. Í maímánuði snemma gerði eitt hið eftirminnilegasta hret, miklu eftirminnilegra og lærdómsríkara en öll fannfergjan og hagleysan árið áður, því að í þessu hreti var harðneskjan, kafaldið og veðurhæðin svo mikil í rúma viku, að ekki var nokkurt viðlit að láta nokkurra skepnu út fyrir húsdyr. Hefði því verið almennt heyleysi, eins og árið áður og oft endranær, þá hefði orðið voðalegasti skepnufellir og hretið ógleymanlegt. En af því að svo vel hittist á, að allir höfðu nóg hey, og gátu gefið skepnunum inni, eins og á þorra, þá man nú varla nokkur maður eftir þessu hreti. En lærdómsríkt er það eigi að siður, að slíkt hret skyldi koma í 7. viku sumars, því „það sem hefir skeð, getur skeð“. Heyskapur varð með betra móti og nýting hin besta á töðum og all-góð á útheyi, þó votviðrasamt væri seinni part sumarsins. Haustið var mjög stórviðra- og úrkomusamt, þó út yfir tæki 20. september. Var því mjög illt að vinna að haustverkum, og gæftir stopular, en fiskiafli allgóður, þá er gaf. Í sumar var mokfiski um tíma.

Hrútafirði 10. desember. Sumarið var fremur hægstætt hvað heyskap snertir. Grasvöxtur góður bæði á túnum og engjum. Óþurrkar voru framan af slættinum, en seint í júlímánuði hrá til þurrka og héldust þeir svo, að hey náðust góð og óhrakin til ágústmánaðarloka. - Eftir það voru stöðug votviðri, þar til dagana 23.-29. sept. Þá daga var oftast sólskin á daginn, en frost mikið á nóttum. Voru þá mikil hey úti, sem náðust þá daga, sumt allvel þurrt. Yfirleitt mun heyskapur vera heldur góður, að minnsta kosti að vöxtum. Haustið heldur slæmt fram í nóvembermánuð, ýmist snjógangur með frosti eða rigningar og stormar. Hinn 8. f.m. síðdegis rak mjög skyndilega á snarpan norðanbyl, er hélst daginn eftir. Sauðfé var farið að liggja inni og náðist alstaðar í hús hér i byggðarlaginu, en hér i sveit fennti nokkur hross (á einum bæ 4), og er slíkt mjög fátítt hér. Síðan hefir verið góð tíð, svo ekki er teljandi, að farið sé að gefa fé enn.

Þjóviljinn ungi segir þann 12.:

Eftir sífellda storma í samfleyttan hálfan mánuð, stillti loks til 1. þ.m., og hélst síðan stillt og frostlin veðrátta, uns 8. þ.m. gerði norðanhvassviðri, með fannkomu og fjúki.

Þjóðólfur segir þann 14.:

Veðurátta hefur verið hin blíðasta nú langa hríð, eða að kalla má í allt haust. Hvergi hér í nærsveitunum farið að gefa fullorðnu fé eða útigangshrossum og víða í uppsveitum Árnessýslu (t. d. Biskupstungum og Hreppum) ekki farið að taka lömb enn á gjöf.

Ísafold segir þann 15.:

Veðrátta er og hefir verið mjög mild þessa jólaföstu. Jafnvel blíða dag eftir dag. Sama segja nýkomnir póstar þar sem þeir vita til.

Austri segir þann 31.:

Að morgni hins 21. þ.m. reru sjómenn héðan úr Seyðisfirði í allgóðu sjóveðri, en er á daginn leið tók að hvessa af norðvestri og setti upp geysimikla öldu; náðu þó allir bátar hingað inn í fjörðinn um kvöldið, nema tveir er lengst munu hafa róið; var Árni Pálsson Axfjörð formaður fyrir öðrum þeim bát, en Finnur Einarsson fyrir hinum. Finnur Einarsson hafði um nóttina náð með illan leik inn til Mjóafjarðar og kom svo hingað að kvöldi þess 23.; en til Árna hefir ekkert spurst, og mun nú öll von úti um að hann hafi nokkurstaðar náð landi.

Bjarki getur þess þann 31. að skipið Egill hafi komið í fyrrinótt og fengið vont báðar leiðir. „Á norðurleið hrakti hann vesturfyrir Eyjafjörð og var kominn á land nálægt Haganesvík. Þá varð að kasta út 36 tunnum af kjöti til þess að koma skipinu út“. Síðan segir af veðri:

Veðrið hefur verið stirt undanfarandi viku; á jólanótt nær ófært krapaveður, á föstudaginn [28.] stórrigning og stormur og á laugardaginn krapahríð, en frá því í gærmorgun er alheiðskírt og dálítið frost.

Þjóðviljinn ungi segir um tíð vestra í pistlum:

[22.] Tíðarfar er einatt mjög óstöðugt og stormasamt, aðeins stöku dagur í bili, er á sjó verður farið.

[31.] [Tíð hefur] verið afar-stormasöm, sífelldir norðannæðingar. með allt að 10 stiga frosti (Reaumur), uns hláku gerði á aðfangadag, og á jóladaginn, en síðan hefur haldist frostlin og stillt veðrátta.

Ísafold segir þann 29. að jólin hafi verið hvít í Reykjavík, frostvægð mikil og veður spök. 

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um tíðarfar og veður ársins 1900. Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2018
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 52
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 543
  • Frá upphafi: 2343305

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 494
  • Gestir í dag: 41
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband