Hæð yfir Grænlandi

Fyrir um tveimur vikum spáði evrópureiknimiðstöðin því að öflug hæð myndi setjast að yfir Grænlandi og ráða veðri í komandi viku (20. til 26. nóvember). Þessi almenna spá stendur enn og verður að hrósa reiknimiðstöðinni fyrir góðan árangur. - Auðvitað vantaði ýmis smáatriði og þau eiga líka enn eftir að breytast eftir því sem á vikuna líður. 

En kortið sýnir meðalsjávarmálsþrýsting næstu 10 daga eins og honum er nú spáð.

w-blogg191117a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, en vikin sýnd í lit. Jákvæð eru rauðbrún, en þau neikvæðu bláleit. Eindregin norðanátt ríkjandi (að meðaltali vel að merkja). Þrýstingi hér á landi er líka spáð langt yfir meðallagi, +20 hPa vestast á landinu - og er það út af fyrir sig jákvætt. Háþrýstinorðanátt er oftast veðravægari en lágþrýstiáttin. En höfum í huga að hér er um tíudagameðaltal að ræða og ólíklegt að veðrið verði eins allan tímann. 


Langvinn norðanátt?

Reyndir veðurfræðingar vita að það er eins gott að eiga nóg af spurningarmerkjum á lager - og sömuleiðis birgðir af viðtengingarhætti og úrdráttarorðum. Við notum því orðalagið að líklega sé nokkuð þrálát norðanátt framundan - séu reikningar marktækir. 

Lítum á nokkur veðurkort.

w-blogg171117a

Hér má sjá sjávarmálsþrýstispá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis á sunnudag (19. nóvember). Öflug hæð er yfir Grænlandi (um 1040 hPa) og lægðir suður í hafi. Norðaustanátt er á landinu - ekki alveg orðin hrein þó, (því þrýstingur er hér enn örlítið hærri á Austfjörðum norðanverðum heldur en á Reykjanesi) - en er að verða það.

Nú tekur við þyngri texti - nóg komið fyrir flesta. 

En hæðin yfir Grænlandi er ekki öll þar sem hún sýnist - yfir henni er háloftalægð sem við sjáum á næsta korti.

w-blogg171117b

Hér eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar, en litir sýna þykktina. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Af legu jafnhæðarlínanna má ráða að vindur í 5 km hæð blæs úr vestnorðvestri - býsna stríður. Þrýstingur við sjávarmál fæst með því að draga þykktina frá 500 hPa hæðinni - og lesendur mega trúa því að útkoman er sjávarmálskortið að ofan. Háloftalægðin við Grænland er sumsé full af köldu lofti - svo mikið er af því að vestanáttin yfir landinu verður að austanátt við jörð. 

Við sjáum líka að það er ekkert sérlega kalt í 5 km hæð yfir landinu. Þykktin er rétt neðan við mörk grænu og bláu litanna. En það er mjög kalt í lægðarmiðjunni - sem hreyfist til suðausturs og nálgast landið. Kalt loft er þyngra en hlýtt og þess vegna getur það stungið sér undir það hlýja - sé það í framsókn kemur það fyrr til landsins í neðstu lögum heldur en þeim efri. 

Þetta sést reyndar vel á næstu mynd - sem þeir mega horfa á sem þora - aðrir ættu bara að sleppa henni. 

w-blogg171117c

Sjá má þversnið yfir landið þvert, frá suðri (vinstra megin) til norðurs (hægra megin), eins og merkt er á litla Íslandskortið í efra hægra horni. Gráa klessan neðarlega á myndinni er hálendi landsins. Það stingur sér upp í um 900 hPa hæð. Lóðrétti kvarðinn sýnir þrýstinginn og nær frá 1000 hPa upp í 250 hPa (í um 10 km hæð). Heimskautaröstin ólmast langt yfir landinu og blæs vindur hennar úr vestnorðvestri - svipað og við sáum á 500 hPa-kortinu að ofan. 

Vindörvar sýna vindstyrk og vindátt (athuga þó að stefnan er eins og á hefðbundnum láréttum veðurkortum - „klukkan 9“ er vestanátt. Litirnir sýna vindhraðann. 

Heildregnu línurnar sýna mættishita - en það er sá hiti sem mældist væri loftið dregið niður að 1000 hPa. Við gætum líka kallað hann „þrýstileiðréttan“ hita - og sumir tala um „varmastig“. Mættishiti vex alltaf (eða nærri því alltaf) upp á við og kvarðinn sem notaður er Kelvinstig. Með því að nota Kelvinkvarðann er minni hætta á ruglingi við þann hita sem kemur fram þegar hiti loftsins er mældur.

Það sem á að taka eftir hér er að þessar línur hallast mjög mikið - þær eru mun neðar vinstra megin á myndinni heldur en hægra megin. Veljum við t.d. 286K línuna má sjá að hún er í um 840 hPa hæð lengst til vinstri á myndinni, en uppi í 540 hPa lengst til hægri - munar hátt í 3 km. Það er mun kaldara hægra megin á myndinni heldur en vinstra megin. Við tökum eftir því að jafnmættishitalínurnar eru þéttar á svæði um myndina þvera. Þetta er skilaflötur - hlýtt ofan við - en kalt neðan við. Vel má vera að því fylgi blikubakki - eða þverklósigar (þvera loft) nokkurn veginn samsíða vindstefnu. Veðurspámenn fyrri tíðar horfðu stíft á þverklósigann. Lítum til lofts á sunnudag og fylgjumst með - . 

Þetta skilasvæði á að vera yfir landinu bæði sunnudag og mánudag - kalda loftið sækir þó aðeins á. Síðan á það að hörfa nokkuð snögglega - þá kólnar líka nokkuð snöggt - (séu spár réttar). Þykktin á að falla um 130 metra frá miðnætti til hádegis á þriðjudag, loftið að kólna um 6 til 7 stig. - Þá loksins hefur kalda loftið náð öllum tökum. 

Hvað það svo gerir eftir það er mjög óljóst enn. 


Hringlar enn

Eins og fram hefur komið hér á hungurdiskum er talsvert hringl á veðurspám þessa dagana og reynir á þanþol veðurlíkana. Smáatriði skipta máli. 

Við lítum á spár evróprureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna eftir helgina - tvær spárunur fyrir sömu tíma og mismunandi niðurstöður þeirra. Fyrir valinu verða óvenjuleg kort - svona mest til þess að ekki þurfi að ræða hinar venjulegu veðurspár - látum Veðurstofuna um þær. 

w-blogg161117a

Jafnhæðarlínur 400 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því hvassari er vindur í um 7 km hæð. Lituðu fletirnir sýna svonefnt iðumætti (eða mættisiðu) í fletinum. Höfum ekki áhyggjur af því hvað það er - en látum þess getið að tíðinda er oftast að vænta þar sem hámörk þess „slá sér niður“. Kortið gildir um hádegi þriðjudaginn 21. nóvember.

En við sjáum alla vega nokkuð snarpa háloftalægð við Scoresbysund. Af lögun lægðardragsins að ráða er það og lægðin eru á hraðri hreyfingu til suðausturs.

Þetta er úr hádegisrunu reiknimiðstöðvarinnar (fimmtudag 16. nóvember kl.12). Lítum líka á spá úr miðnæturrununni og gildir hún á sama tíma.

w-blogg161117b

Við sjáum sömu háloftalægð - á nærri því sama stað - og í fljótu bragði er ekki mikill munur á spánum. En þegar nánar er að gáð er lægðin hér meira hringlaga - og er á leiðinni til suðsuðausturs - mun líklegri til að grafa um sig við Ísland. 

Enda er framhaldið ólíkt - aðeins 18 stundum síðar (kl. 6 að morgni miðvikudags 22. nóvember). 

Fyrst er hádegisrunan:

w-blogg161117c

Lægðardragið er hér komið suður fyrir land - lægðin sjálf mun austar og slær sér ekki niður við Ísland. 

Miðnæturrunan sýndi aðra niðurstöðu - og mun verri fyrir okkur.

w-blogg161117d

Það er ekki gott að segja hvernig á þessu stendur - og trúlega ekki mikið vit í að velta sér upp úr því. Í pistli gærdagsins var fjallað um það hvernig hæðarhryggurinn sem á þessum kortum er við Suður- og Vestur-Grænland á að stinga í kuldapollinn Stóra-Bola. Hann verður búinn að því á þriðjudag. Svo virðist sem að í miðnæturrununni hafi tekist að ná lítillega stærra stykki úr síðu Stóra-Bola inn í lægðardragið sem við erum að fjalla um heldur en í hádegisrununni - virðist muna um hvern bita úr þeirri feitu síðu. 

En svo virðist sem engin hlýindi sé að hafa á næstunni. Aðeins er spurning um það hversu stríð og þrálát norðaustanáttin verður. En norðvestanlægðardrög eru alltaf varasöm á einn veg eða annan - og leggst þetta ekki vel í ritstjórann (en hann er orðinn bæði slitinn og rausgjarn). 


Háloftahæðarhryggur?

Framtíðarspár eru harla óráðnar (eins og oft er). Við veltum okkur lítillega upp úr málinu.

w-blogg151117xa

Hér má sjá norðurhvelskort. Norðurskaut rétt ofan miðju, Ísland ekki langt neðan við. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því stríðari er vindurinn. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Ísland er hér norðan heimskautarastarinnar (hana má glöggt greina af þéttum jafnhæðarlínum) þar sem kalt loft ríkir. Kaldast er í fjólubláu blettunum tveimur, þar sitja tveir meginkuldapollar norðurhvels, ritstjóri hungurdiska hefur oftast kallað þann vestari Stóra-Bola en hinn Síberíu-Blesa. Þessi talsmáti er þægilegri heldur en að tala um pólsveipi (polar vortex) - og er raunar skyldur þeirri útbreiddu tísku að gefa fellibyljum eða illviðrum öðrum nöfn. 

Við þurfum allan veturinn sífellt að gefa Stóra-Bola gaum. Langoftast lætur hann okkur þó í friði en stundum getur hann af sér kuldaköst eða fárviðrislægðir sem hingað renna. 

Þeir sem nenna að rýna í kortið munu sjá að háloftalægðirnar sem þar sjást eru þriggja gerða. Langflestar eru þannig að jafnþykktar- og jafnhæðarlínur eru í stórum dráttum sammiðja og að kaldast er í miðju lægðanna.

Lægðin sem á kortinu er fyrir austan land er öðru vísi - hún er hlýjust í miðju - grænn blettur hlýrri en umhverfið er við miðju lægðarinnar. Djúpar, ört dýpkandi, lægðir ná um stund þessu tilverustigi sem á erlendum málum heitir „seclusion“, kalt loft hringar sig í kringum - og lokar hlýjan blett af. Gott íslenskt orð yfir fyrirbrigðið hefur enn ekki sýnt sig - en mun þegar það finnst segja okkur frá einhverju sem hefur lokast af. 

Þriðju lægðargerðina má t.d. sjá vestan við Nýfundnaland - þar ganga jafnþykktarlínur í gegnum lægðarmiðjuna. Þetta ástand er ekki stöðugt - lægðin dettur til annarrar hvorrar handar - fær hlýjan eða kaldan kjarna eftir atvikum.

Fyrir sunnan land er mjög breiður hæðarhryggur - við getum fylgt 5460 metra jafnhæðarlínunni (þeirri breiðu) frá lægðinni við Nýfundnaland austur um haf. Langt er frá þeirri bylgju til þeirrar næstu austan við. Svona breiðum hryggjum líður ekki vel - langar annað hvort til að fletjast út eða mynda krappari kryppu. Til að flækja málið er smálægð falin inni í honum - og svo virðist sem mjög óljóst sé hvort kryppan kemur austan eða vestan við þessa lægð - eða hvort hryggnum tekst að skyrpa henni út úr sér. 

Einmitt þegar þetta er skrifað gerir háupplausnarspá evrópreiknimiðstöðvarinnar ráð fyrir því að kryppan rísi vestarlega í kerfinu. Gerist það ryðst hlýtt loft til norðurs vestan Grænlands og sparkar í Stóra-Bola þar sem hann liggur í makindum sínum. Hrekkur hann þá við og gerir eitthvað. Reiknimiðstöðin segir stóran hluta hans hörfa til norðurs - en annar hluti muni fara yfir Norður-Grænland og síðan suður til okkar eftir helgi. 

Taka verður fram að spár eru ekki sammála um þróunina - bandaríska veðurstofan gerir t.d. ráð fyrir því nú síðdegis að hryggurinn verði austar - og þar með hrekkur Stóri-Boli frekar til suðurs en norðurs og við sleppum að miklu leyti við útrás heimskautaloftsins.


Eftirminnilegur snjógangur

Það er ekki algengt að mjög mikið snjói í Reykjavík í nóvember. Gerðist þó í hitteðfyrra (2015) að snjódýpt komst í 32 cm og hafði þá ekki mælst jafnmikil í nóvember síðan 1978. Sá mánuður er einn af þremur mestu snjóanóvembermánuðum sem vitað er um í Reykjavík. Hinir tveir eru 1930 og 1944. Snjór varð að vísu aldrei mjög mikill í nóvember 1944, heldur fremur þrálátur það sem var, en snjókastið 1930 var merkilegra og væri ástæða til að rifja það upp. Við látum það þó bíða betri tíma (gefist þeir). 

Hér munum við hins vegar líta á snjóganginn í nóvember 1978. Aðeins 5 alauðir dagar voru í mánuðinum í Reykjavík en alhvítu dagarnir urðu 18. Síðasti alauði dagurinn var sá 11. Aðalsnjókomuna gerði dagana 20. til 24. Snjódýptin að morgni þess 24. var komin í 38 cm og hefur aldrei mælst jafnmikil í þessum haustmánuði.

Staða veðurkerfa var mjög dæmigerð fyrir mikla snjókomu - nema hvað hitinn minnti frekar á vetur en haust.

Slide1

Kortið sýnir mat japönsku veðurstofunnar á sjávarmálsþrýstingi, hita í 850 hPa-fletinum og úrkomu að kvöldi þriðjudagsins 21. nóvember. Lægðin við Noreg hafði komið á miklum hraða úr suðvestri - gekk fyrir suðaustan land, en eldri lægðarmiðja var á Grænlandshafi. Eins og mjög oft gerist í þessari stöðu myndaðist einskonar úrkomulindi á milli lægðanna þar sem norðaustanáttin í kjölfar þeirrar hraðfara gekk á móti ákveðinni suðvestanátt vestari lægðarinnar. 

Þetta er afskaplega dæmigerð snjókomustaða um landið suðvestanvert, eftir þessa snjókomu var snjódýptin í Reykjavík komin í 24 cm - sem er ekki algengt í nóvember. Þegar lægðin á Grænlandshafi fór að grynnast skiptist snúningur hennar á marga smásveipi. Það er alvanalegt, en það sem er óvenjulegra er að þessir smásveipir lentu hver á fætur öðrum á landinu. 

Næstu daga mátti telja sjö þeirra fara yfir landið eða alveg við strendur þess. 

Slide2

Þetta riss er úr gamalli ritgerð ritstjóra hungurdiska um „heimskautalægðir“ (úff-hvað það orð er vont) - en ætti að verða sæmilega skýrt sé það stækkað. Rissið sýnir brautir sjö sveipa við landið dagana 23. til 26. nóvember. Þrír þeirra voru mjög snarpir á landi (III, IV og VI) og ollu samgöngutruflunum á landi og í lofti. Vindur fór allvíða í 20 m/s eða meira og snjó dengdi niður - mældist þó ekki vel. 

Slide4

Myndin er úr safni móttökustöðvarinnar í Dundee á Skotlandi (takk) og sýnir stöðuna kl.14 síðdegis þann 23. Sveipur sá sem kallaður er númer II er við Suðausturland, númer III á Faxaflóa og sennilega er það númer IV sem er nokkuð langt vestur af landinu. Við vitum það þó ekki fyrir víst - hann gæti hafa orðið til annars staðar. 

Slide5

Veðurkortið er líka úr endurnýtingardeildinni og sýnir veðrið á landinu þ.23. kl.18. Um það bil svona litu veðurkort út til forna. Veðurupplýsingar þétt ritaðar kringum stöðvarnar eftir ákveðnu kerfi (sem enn er notað). Jafnþrýstilínur eru hér gráar, ýmist heildregnar eða sem punktalínur. Þrýstibreytingar (síðustu 3 klst) sýndar með lituðum strikalínum (blátt er ris), samfelld úrkoma sem græn slikja og élin sem grænir þríhyrningar. 

Lægð III er að ganga yfir landið með töluverðum þrýstibreytingum. Sjá má risið á næstu mynd.

Slide6

Rauðu línurnar eru jafntímaferlar, dregnir á klukkustundarfresti. Af þeim má ráða hvenær þrýstingur var lægstur á hverjum stað. Sú sem er lengst til vinstri (vestust) er kl.13, sú austasta kl. 2 nóttina eftir. Gráu línurnar sýna hversu mikið loftvogin reis eftir að lægðarmiðjan fór hjá. Af útliti þeirra má ráða að lægðin grynntist ört þegar hún kom inn á land. Græna svæðið sýnir hver risið var mest, meira en 7 hPa alls. Við sjáum vel hversu smátt þetta kerfi er - aðeins um 150 km að breidd, minnir að því leyti á stærð smárra hitabeltisstorma. Margir sjá ýmis líkindi með lægðum þessarar gerðar og þeirra suðrænu og hefur mikið verið um það ritað og deilt (deilurnar jafnvel jaðrað við dónaskap á köflum) - en líklega er mesti hiti löngu úr mönnum. 

Ritstjóri hungurdiska var staddur í Borgarnesi þegar þessi lægð gekk hjá - eftirminnilegt síðdegi. Það er óvenjulegt þar um slóðir að jafnmikið snjói í hásunnanátt eins og gerði á undan lægðinni. Mikill snjómokstur þar á bæ. 

Minna snjóaði í Borgarnesi með lægð númer IV, en mjög mikið á Suðurnesjum, svo millilandaflug stöðvaðist þar og vélar þurftu að hörfa til Akureyrar. 

Slide7

Hér má sjá lægð IV milli Vestmanneyja og lands að morgni þess 24, en lægð III að eyðast yfir Norðausturlandi. Vindur fór í 28 m/s á Stórhöfða fyrr um morguninn. 

Endurgreiningar sjá lægðirnar illa - 

Slide9

Kannski mætti galdra þær fram í líkani með betri upplausn. Þetta kort gildir kl.6 að morgni þess 24., þegar lægðin krappa var við Vestmannaeyjar. Greiningarnar sýna háloftastöðuna þó vel.

Slide8

Kortið gildir síðdegis þann 23. Hér hefur háloftalægðin alveg rétt úr sér og vestsuðvestanátt sendir smálægðirnar hverja á fætur annarri í austlæga stefnu í námunda við landið. 

Lægð VI náði líka töluverðum styrk - en minna snjóaði.

Slide10

Snjó reif hins vegar - og vegna þess að vindáttir höfðu verið svo breytilegar varð til hinn skemmtilegasti rifsnjór. Talsvert skóf þennan morgun í Borgarnesi og ritstjórinn var farinn að hafa áhyggjur af því að tefjast á leið sinni til Reykjavíkur og síðar Keflavíkur þar sem hann átti bókað far í flugvél til Noregs. Þar beið hans embættispróf (já, það hét það) í veðurfræði. 

Hinn ungi veðurfræðingur hélt að þetta væri líklega algengt veðurlag - en skjátlaðist auðvitað. Oft hefur hann séð snjókomu - og ótalmargar smálægðir og úrkomulinda - en aldrei síðan svona margar og hreinar og hraðfara á jafnfáum dögum. Það lá við að snjókoma yrði skemmtilegt fyrirbrigði. 


Enn af árstíðunum fjórum

Við leitum enn að mótum árstíðanna. Í fyrri pistli notuðum við úrkomutegundir til þess - og hlut þeirra í heildarúrkomumagni hvers dags. Þá er það hitinn (rétt einu sinni) og við byrjum á því að ákveða að vetrardagar gætu að meðaltali verið um 120 á ári hverju. Á tímabilinu 1961 til 2016 voru þeir samkvæmt því um 6720 (56 ár). 

Á þessu tímabili teljum við okkur vita landsmeðalhita hvers dags - og auk þess landsmeðalhámark og lágmark. Við teljum nú 6720 köldustu dagana á tímabilinu og finnum hver landsmeðalhiti þurfi að vera til þess að dagur komist í flokkinn. Gerum síðan það sama fyrir landsmeðalhámark og lágmark. Til að dagur sé vetrardagur krefjumst við þess að hann nái inn í 6720 daga hópinn í öllum flokkunum þremur (við hefðum getað notað aðra skilgreiningu). 

Við gerum svo það sama fyrir sumarið, nema að miðað er við 6720 hlýjustu dagana í flokkunum þremur. Allir dagar áranna 1961 til 2017 hafa þar með skipast í einn þriggja flokka, teljast vetrardagar, sumardagar - eða þá hvorugt. Nú má telja saman hvernig hver almanaksdagur stendur sig, hvert er vetrardagahlutfall hans? 

w-blogg131117-arstidirnar4

Myndin sýnir það. Árstíminn er á lárétta ásnum, 18 mánuðir alls, til þess að við náum árstíðum í heilu lagi. Lóðrétti ásinn sýnir hlutfallstölu, frá 0 til 100 prósent daga. 

Rauði ferillinn sýnir sumardagana. Við sjáum að þeir einoka sumarið - eins og vera ber (er það ekki). Blái ferillinn sýnir vetrardagana - ekki eins hreint - vor- og haustdagar eru allmargir að vetrarlagi. 

Við setjum nú meðalárstíðamörk niður þar sem ferlarnir skerast. Vorið kemur 3. apríl, sumarið 1. júní, haustið 8. september og veturinn 15. nóvember. Veturinn er 139 dagar, vorið 59, sumarið 99 og haustið 68 dagar. 

Ýmislegt má mala um smáatriði myndarinnar, við tökum t.d. eftir því að vorið á talsverðan hlut fram eftir júní (fækkar sumardögum), kaldir dagar stinga sér inn fram yfir sólstöður. Sömuleiðis fer haustdögum ört fjölgandi eftir 20. ágúst (fækka líka sumardögum). 

Haust og vetur takast á svo vart verður séð hvort hefur betur í röskan mánuð, það er fyrst um 15. desember að bláa línan fer afgerandi yfir þá grænu.

Lesendur mega ekki taka næstu tvær myndir of hátíðlega - tímabilið er óheppilega valið til einhverra leitnileikfimiæfinga - þær eru samt gerðar. 

w-blogg121117y-a

Hér má sjá „fjölda vetrardaga“ áranna 1961 til 2016. Flestir voru þeir 1979, en fæstir 2014. Leitnireikningar sýna að þeim hefur fækkað um 28 á ári á tímabilinu. Það er alveg áreiðanlega rétt að vetrardagar hafa verið færri á þessari öld en á áratugunum næstu þar á undan - það sýna fleiri tegundir reikninga líka, en ekki er hægt að nota mynd sem þessa til að spá fyrir um framtíðina (þó margir virðist telja að svo sé). - Kannski fælist einhver merking í breytingu ef við færum endurtekið að sjá ár með 20 vetrardögum eða færri. 

Næsta mynd sýnir sumardagana á sama hátt. Taka má eftir því að breytileiki frá ári til árs er miklu minni að sumri en vetri.

w-blogg121117y-b

Það er það sama - sumardögum hefur fjölgað um 25 á síðustu 56 árum séu leitnireikningar teknir bókstaflega - en við gerum það ekki hér. 

Eitthvað samband er á milli fjölda vetrar- og sumardagafjölda sama árs.

w-blogg121117y-c

Eða svo virðist vera. Strangt tekið ættum við að nema leitnina á brott áður en við setjum upp mynd af þessu tagi. Gallinn er bara sá að til þess að við nennum að nema leitnina brott verðum við eiginlega að trúa því að hún sé ekki merkingarlaus - hver er trú vor? 

Þeir sem vilja kalda vetur en hlý sumur vilja fá einhverja punkta efst til hægri á myndinni, þeir sem vilja sama haustveðrið árið um kring vilja sitja neðst til vinstri - ef einvern tíma kæmi ár með 180 sumardögum - og 180 vetardögum myndi það merkjast í horninu efst til hægri. Þá væru aðeins 5 dagar til skiptanna fyrir vor og haust. - En líkleast er best að hætta þessari vitleysu. 


Enn frá skemmtideildinni

Skemmtideild evróprureiknimiðstöðvarinnar sendir frá sér góð atriði þessa dagana - verst að vita ekki hvort þau eru öll ófullburða svipir úr sýndarheimum eða einhvers konar fyrirboðar um það sem raunverulega verður.

Myndin hér að neðan sýnir spána sem barst í morgun (sunnudag 12. nóvember). Hún gildir (eða átti að gilda) á þriðjudagskvöld eftir rúma viku, þann 21. nóvember. 

w-blogg121117xa

Eins og sjá má er alvöru kuldakast uppi á borðinu, þykktin yfir Norðausturlandi (heildregnar línur sýna hana) fallin niður í 5020 metra og frostið í 850 hPa -16 til -18 stig. Jú, við eigum til eitthvað lítillega lægri tölur í nóvember - en ekki mikið af þeim. 

Svo líða 12 tímar og boðið er upp á nýja spá fyrir sömu kvöldstund þriðjudaginn 21. nóvember.

w-blogg121117xb

Þykktinni spáð í hæstu hæðir, nærri 5500 metra og hita í 850 hPa upp í meir en 6 stig - þar sem áður hafði verið spáð -16. Þykktin mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs og segir nú að hann verði 23 stigum hærri en spáð var 12 tímum áður. 

Hvað skyldi vera á seyði? Reikningarnir hafa nú um nokkurt skeið fundið fyrir því að háloftavindar sem verið hafa til þess að gera breiddarbundnir (sem kallað er) í nágrenni við okkur muni hrökkva yfir í það að verða lengdarbundnir. Hringrásin er kölluð breiddarbundin („zonal“ á erlendum málum) þegar ríkjandi háloftavindar og bylgjur sem þeim fylgja ganga greiðlega frá vestri til austurs (fylgir breiddarbaugum). Hringrásin er aftur á móti kölluð lengdarbundin („meridional“) þegar sunnan- og norðanvindar verða ríkjandi í háloftum (fylgir lengdarbaugum). 

Hitaöfgar fylgja gjarnan lengdarbundinni hringrás - hlýtt loft úr suðurhöfum kemst þá óvenjulangt norður, en heimskautaloft óvenjulangt til suðurs. 

Ef við horfum betur á myndirnar sjáum við að öfgarnar sem þær sýna eru ekki mjög umfangsmiklar frá vestri til austurs. Kalda sóknin á efri myndinni er fremur mjó - sama má segja um þá hlýju á neðri myndinni - við sjáum í kaldara loft báðum megin við hana. 

Reiknimiðstöðin er í reynd að fást við sama hæðarhrygg í báðum spárunum, í kalda tilvikinu skýst hann til norðurs við vesturströnd Grænlands, en í því hlýja gerir hann það sunnan og suðaustan Íslands. 

En þetta var veltilfundið hjá skemmtideildinni að sýna okkur á svo skýran hátt hversu litlu má muna - og að minna enn og aftur á að okkur beri að taka mjög varlega á langtímaspám. Svo bíðum við auðvitað spennt eftir næstu runu - hvað í ósköpunum gerir hún? 


Hvenær lýkur hausti?

Gamla íslenska tímatalið skiptir árinu í sumar- og vetrarmisseri. Oft hefur verið um það fjallað hér á hungurdiskum, m.a. þá staðreynd að sumar þessarar skiptingar fellur býsna vel að þeim tíma ársins sem hiti er yfir ársmeðaltali, og veturinn þá að þeim tíma sem hiti er undir því. En árstíðirnar hljóta samt að vera fleiri en tvær, rými hlýtur að vera fyrir bæði vor og haust. 

Svo eru ártíðirnar auðvitað enn fleiri - meira að segja í veðrinu. Hinar þjóðfélagslegu árstíðir eru enn aðrar - og við látum þær auðvitað algjörlega eiga sig. 

Langar ritgerðir hafa áður birst á þessum vettvangi um vor, sumar og haustkomu, en líklega minna um það hvenær hausti lýkur og vetur byrjar. Ýmislegt má um þau skil segja og má túlka það sem hér fer á eftir sem innlegg í umræðuna - en varla þó mjög hagnýtt. 

w-blogg111117b

Mynd dagsins sýnist í fljótu bragði flókin. Í veðurskýrslum er sólarhringsúrkoma flokkuð í þrjár gerðir, regn, slyddu og snjó. Sólarhringsúrkoman er talin sem snjór hafi hvorki slyddu né rigningar verið getið á viðkomandi veðurstöð á mælitímanum, hún er talin regn hafi ekkert verið á slyddu eða snjó minnst. Teljist hún hvorki snjór né regn eingöngu er hún flokkuð sem slydda. 

Þetta er nokkuð grimm flokkun - og hagstæð slyddunni, sem fær allan pottinn þó megnið af sólarhringsúrkomunni hafi í raun verið annað hvort snjór eða regn, bara ef ekki er um alveg „hreint“ regn eða snjó að ræða. 

En með þessa flokkun að vopni má leggja saman alla úrkomu hvers almanaksdags og reikna hversu stórt hlutfall hennar fellur á einstakar úrkomutegundir.

Á myndinni hefur þetta verið gert, fyrir landið allt, öll árin 1971 til 2010. Lárétti ásinn sýnir árstímann - hér eru fyrstu 6 mánuðir ársins endurteknir hægra megin á myndinni til þess að vetur og sumar sjáist í heild sinni. Lóðrétti ásinn sýnir úrkomuhlutinn (0 til 1, eða 0 til 100 prósent). 

Græni ferillinn sýnir hlut rigningar. Hann er um 40 prósent á vetrum, en nærri 100 prósent á sumrin. Snjórinn er enginn yfir hásumarið, en fer yfir 20 prósent hlut að vetri. 

Vor og haust eru tíminn þegar hlutfallið breytist hvað örast. Nokkrar dagsetningar hafa verið settar inn. Það er í maílok (við segjum hér 29. maí) sem rigningin nær 90 prósent hlut og heldur honum til miðs september. Ætli flestir geti ekki sæst á að sá tími marki sumarið nokkurn veginn. 

Á vorin er það um miðjan apríl sem regnhluturinn fer upp fyrir 50 prósent, en niður fyrir það hlutfall um 20. nóvember. Með þessu móti verður vorið ekki nema einn og hálfur mánuður, en haustið rúmir tveir. Við skulum lengja vorið aðeins - miða við 40 prósent (0,4) regnhlut og byrjar það þá 25. mars - en haustlok frestast til 21. desember. Er haustið þá orðið of langt, rúmir þrír mánuðir? Og vetur ekki nema rétt rúmir þrír?

Lítum á hlutfall snævar. Það fer yfir 20 prósent um miðjan desember, en undir þau aftur snemma í apríl. 

Takið eftir því að á öllum ferlunum eru ákveðnar brattavendingar í kringum þær dagsetningar sem nefndar hafa verið, þeir eru frekar flatir að vetri og sumri, brattir að hausti og vori. 

Það er þægilegt að festa ártíðaskipti við mánaðamót, láta veturinn byrja 1. desember (en hvorki þann 20. nóvember, né 14. desember) og enda þann 1. apríl - og sumarið hefjast 1. júní. Það er helst haustbyrjun sem er erfið að negla, hún er eiginlega um miðjan september (sjá fyrri langlokuritgerðir þar um).

Veðurstofan telur september til sumars, fyrst og fremst vegna þess að með því er það jafnlangt vetri - rétt eins og í íslenska tímatalinu gamla - og vor og haust verða þá líka jafnlöng, tveir mánuðir hvor árstíð um sig. Hér á landi er nefnilega ekki nokkur leið að telja marsmánuð til vorsins eins og gert er á suðlægari breiddarstigum.  


Endurtekið efni (aðeins þynnra þó)

Síðdegis á sunnudaginn var (5. nóvember) gerði mikið landsynningsveður. Nú stefnir í endurtekningu á sunnudaginn - en ekki alveg jafnsnarpa samt - „númeri minna“ en veðrið um síðustu helgi, sé að marka spár. Við látum Veðurstofuna um það mál - en lítum samt á norðurhvelskort sem gildir síðdegis á sunnudag.

w-blogg111117a

Að vanda eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar, því þéttari sem þær eru því hvassari er vindurinn. Litirnir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

Hér má sjá hlýjan geira nálgast landið - það mun hvessa af suðaustri og rigna - dæmigerður landsynningur. Hlýindin standa þó stutt og við tekur kaldara loft úr vestri, kannski fáum við útsynning, en hann hefur verið harlasjaldséður að undanförnu. 

Kuldinn á norðurslóðum er smám saman að breiða úr sér - eins og vera ber. Augað eitt sér varla hvað úr þessu verður en flestir reikningar eru sammála um að mynstrið sem við sjáum sé losaralegt og breytingar muni verða. Það er hins vegar nokkuð einkennilegt að lítið samkomulag er um aðdraganda breytinganna. 


Vetrarlegra

Nú líður á haustið og veðurlag fær á sig meiri vetrarsvip. Hvenær haustið endar og vetur tekur við er kannski smekksatriði - því ekki er létt að finna einhverja sérstaka dagsetningu sem alltaf á við. Það er reyndar ekki hægt. Veðurstofan valdi á sínum tíma að láta haustið ná til mánaðanna október og nóvember - september er talinn til sumarsins þar á bæ. Ritstjóri hungurdiska sættir sig ágætlega við að láta veturinn ekki hefjast fyrr en 1. desember. Um það leyti verða líka breytingar á þrýstifari hér á norðurslóðum og hringrásin í heiðhvolfinu tekur á sig vetrarmynd. 

Október var óvenjuhlýr í ár og ekki er enn útséð með nóvember - þó hann geti ekki talist hlýr það sem af er - og sé eitthvað að marka spár er hlýinda ekki að vænta. Að vísu kemur hlýtt lægðakerfi að landinu á sunnudagskvöld - en á ekki að standa lengi við. 

w-blogg101117a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum síðdegis á laugardag, 11. nóvember. Lægð við Noreg og hæð yfir Grænlandi, sígild norðanátt. Við Labrador er myndarleg lægð sem hreyfist hratt til norðausturs og fer hér hjá á mánudag (sé að marka spár). 

Norðvestanátt er oft slæm um landið austanvert en nær sér mjög illa upp um landið vestanvert, vindur hefur þar tilhneigingu til að stökkva yfir norðvestanáttina sé hann að snúast á áttinni, til hvorrar handar sem er. Sé vindur hægur hreinsar landið frá sér, en éljabakkar eru útifyrir - þeir koma svo inn á land stökkvi vindur úr hánorðri yfir hávestur. Við sjáum græna bletti á kortinu bæði undan Norður- og Vesturlandi. Á þeim slóðum er flókið samstreymi norðanáttar, vestanáttar og landáttar. 

Mikill munur á sjávar- og lofthita kyndir svo undir. 

w-blogg101117b

Í veðurfræðitextum er alloft minnst á það sem kallað er „heimskautalægðir“, á ensku „polar low“. Þetta er vandræðanafn að mati ritstjóra hungurdiska, en hann hefur ekkert sem er eindregið betra (það birtist vonandi úr djúpinu einhvern daginn). Lægðir af þessu tagi eru algengar í kringum Ísland, en eru þó ekki eins ágengar og hættulegar hér við land og við Noreg. 

Á kortinu má sjá sjávarmálsþrýsting (sá sami og á fyrra korti), þykktina (rauðar strikalínur) og liti sem sýna mismun sjávarhita og hita í 500 hPa-fletinum (veltimælitölu). Norsk þumalfingurregla segir að líkur á myndun „heimskautalægða“ magnist mjög nái munurinn 45 stigum eða meira.

Af þykktarmynstrinu má ráða að kalt loft (einkennist af lítilli þykkt) streymir suður með Norðaustur-Grænlandi til Íslands (og áfram). Þykkt er minni en 5160 metrar yfir nær öllu Íslandi - og 5100 metra jafnþykktarlínan er ekki langt norðurundan. Sjór er hins vegar mjög hlýr í kringum landið. Loftið kalda verður því mjög óstöðugt og mælitalan fer upp í 49 við Vestfirði, einmitt þar sem úrkomuákefðin var hvað mest á efra kortinu. Þó það sjáist ekki vel á kortunum býr líkanið til litla „heimskautalægð“ rétt undan landi. 

Í dag, fimmtudag 9. nóvember, er loft við Vesturland líka mjög óstöðugt og éljagarður undan landi. Hann hefur rétt náð inn á byggðir við sunnanverðan Faxaflóa. Lægð hefur þó ekki náð að myndast - og heldur er þetta efnislítið. 

w-blogg101117c

Garðurinn sést vel á ratsjármynd rétt eftir miðnætti. Á spákorti harmonie-líkansins má sjá vindstefnu og styrk um svipað leyti.

w-blogg101117d

Vel sést að garðurinn situr á mörkum norðvestanstrekkings útifyrir og mun hægari landáttar. Uppstreymi verður þar sem áttirnar mætast - hlýr sjórinn liðkar fyrir. Þó vindur vestan garðsins sé ekki ýkjamikill (10 til 14 m/s) er hann samt nægilega mikill til að valda stórhættu fyrir litla báta eins og þá sem forfeður okkar notuðu við sjósókn á árum áður. Hefur þurft gott auga til að að átta sig á stöðu sem þessari og víst er að „ómerkilegir“ garðar sem þessir hafa marga drepið.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2017
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 45
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 443
  • Frá upphafi: 2343356

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 397
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband