Hiti alþjóðahaustsins

Á alþjóðaveðurvísu er haustið skilgreint sem þriggja mánaða tímabil, frá september til nóvember. Á Veðurstofunni er haustið hins vegar aðeins tveir mánuðir, október og nóvember. 

Við lítum nú á hita alþjóðahaustsins í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga. 

w-blogg011217a

Nýliðið haust var hlýtt sé miðað við tímabilið allt, en í meðallagi sé miðað við síðastliðin tíu ár. Þau hafa hins vegar verið óvenjuhlý, þrjú haust ofan 6 stiga (auk 2002 á þessari öld). En eins og sjá má voru haust líka óvenjuhlý um miða síðustu öld. Sérstaklega í kringum 1960 (tvö ofan 6 stiga) og svo stök haust frá 1937 til 1946 (þrjú ofan 6 stiga). Fyrir þann tíma var breytileiki mikill (aðeins þrjú ofan 6 stiga fyrir 1930).

Það er áberandi hversu haustin voru köld frá því 1963 og fram yfir 1985 - aðeins 1968 og 1976 sem voru jafnhlý eða lítillega hlýrri en haustið í ár. Fyrir 1920 kom aldrei svo langt jafnkalt tímabil (að minnsta kosti ekki eftir 1870), sérlega kalt var þó þrjú haust í röð eftir 1916, kaldast þeirra 1917. 

Eins og venjulega kemur fram talsverð leitni, um 0,9 stig á öld. En hún segir að sjálfsögðu ekkert um framtíðina. 


Kaldur nóvember - hlýtt ár

Nóvember 2017 var kaldur á landsvísu, sá kaldasti síðan 1996. Þá var mun kaldara en nú. Á línuritinu að neðan er reynt að rekja meðalhita nóvembermánaða á landinu nærri 200 ár aftur í tímann. Fyrstu 50 árin eru þó harla ónákvæm.

w-blogg291117

Lóðrétti ásinn sýnir landsmeðalhita en sá lárétti tímann. Sjá má að nóvember 2017 liggur nokkuð neðarlega í myndinni - sé miðað við hin síðari ár. Hins vegar er hrúga af kaldari nóvembermánuðum á fyrri tíð og meðalhitinn nú svipaður og var að jafnaði á árunum 1963 til 1986 og svo fyrir 1920. 

Nóvember 1996 skar sig mjög úr á sínum tíma fyrir kulda sakir - var þó til þess að gera veðragóður mánuður. Hinn kaldi nóvember 1973 var hins vegar leiðinlegri. Á öllu tímabilinu telst nóvember 1824 kaldastur. Upplýsingar um hann eru þó af skornum skammti. Aftur á móti var mælt víðar í nóvember 1841 og áreiðanlegt er að hann var sérlega kaldur. 

Það er eftirtektarvert að upphaf hlýindaskeiðs 20. aldar var ekkert sérlega eindregið í nóvember og hámark þess var síðar á ferðinni en í flestum öðrum mánuðum, rétt í kringum 1960. Hlýjastur var nóvember 1945 - og situr enn á toppnum þrátt fyrir að nóvember 2014 hafi gert að honum harða atlögu. 

Svo virðist sem nóvember hafi hlýnað um nærri því 2 stig síðustu 200 árin. Það er mikið - en sú leitni segir ekkert ein og sér um framhaldið og nákvæmlega ekki neitt um það hvernig nóvembermánuðir næstu ára muni standa sig. 

w-blogg29117b

Síðari myndin sýnir meðalhita fyrstu 11 mánuði ársins. Þegar mánuður lifir af árinu 2017 er það í einu af fimm hlýjustu sætunum. Lokastaðan fer að sjálfsögðu eftir því hvernig desember stendur sig. Til þess að ná fyrsta sætinu (5,15 stigum) þyrfti meðalhiti í desember að verða 4,9 stig á landsvísu - það gerist ekki. Verði desember jafnkaldur og nóvember - að tiltölu - myndi árið enda í 4,5 stigum, 0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. 


Kuldamet í heiðhvolfinu

Þessa dagana er óvenjukalt í heiðhvolfinu yfir Íslandi. Mælingar yfir Keflavíkurflugvelli og Egilsstöðum ná upp í 30 hPa (um 22 km hæð) og á báðum stöðvum mældist hitinn þar uppi lægri en -80 stig, lægst yfir Keflavík um hádegi í dag (28. nóvember), -82,2 stig og er hugsanlegt að hiti fari enn neðar í næstu athugunum. Þetta er lægsti hiti sem vitað er um í nóvember í þessari hæð. Aðgengileg gögn ná að vísu ekki nema aftur til 1973. Hugsanlega eru jafnlágar tölur finnanlegar í eldri mælingum. 

Met var einnig sett í 50 hPa (í um 20 km hæð). Þar mældust -78,8 stig, fyrra met er -78,3 stig (svo ekki munar miklu). Met voru ekki sett neðar, metið í 70 hPa (18 km) er -77,3 stig, og -75,1 stig í 100 hPa (í 15 km). Það er rétt aðeins hugsanlegt að met í þessum hæðum falli líka. 

Kuldinn tengist framrás mikilla hlýinda í veðrahvolfi. 

w-blogg281117xa

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis á morgun, miðvikudaginn 29. nóvember. Jafnhæðarlínur 30 hPa-flatarins eru heildregnar, vindur sýndur með hefðbundnum vindörvum, en hiti með lit. Á fjólubláa svæðinu er hann neðan við -82 stig. Eins og sjá má eru töluverðar bylgjur á ferð - niðurstreymi kemur fram sem bláar rendur inni í fjólubláa svæðinu, þar er hlýrra en umhverfis, en kaldast er þar sem loft streymir upp á við. Sjá má -86 og -87 sem stakar tölur - langt neðan gamla metsins. En það er óvíst að háloftaathugun yfir Keflavík hitti vel í bylgjur af þessu tagi. 

Kuldi sem þessi þykir glitskýjagæfur. Að sögn eru tvær tegundir glitskýja á sveimi í heiðhvolfinu, breiður og bylgjur. Breiðurnar sjást ekki mjög vel - hafa þó sést hér á landi - kannski mætti finna meira ef skimað er betur. Bylgjurnar sjást hins vegar oft vel og geta þegar best lætur verið meðal allraglæsilegustu skýja, litskrúðugar með afbrigðum. 

En til þess að glitský sjáist á annað borð mega lægri ský auðvitað ekki vera að flækjast fyrir. Skilyrði eru best fyrir sólarupprás og eftir sólarlag þegar sólin lýsir þessi ský upp - en ekki þau sem neðar eru. 

Á vef Veðurstofunnar má finna pistla um glitský - þar á meðal einn sem fjallar um árstíðasveiflu glitskýja yfir Íslandi - hún tengist auðvitað hitafari í heiðhvolfinu.


Hæðarhryggurinn lifir

Þegar heimskautaröstin fer á annað borð að skjóta upp miklum kryppum (hryggjum) vilja þær gjarnan verða viðvarandi á einhvern hátt. Brotna e.t.v. niður í nokkra daga, en skjótast svo upp aftur á svipuðum slóðum og áður.

Stundum ná hryggirnir það langt norður að þeir (með sínum hlýja kjarna) slitna alveg frá röstinni, mynda háloftahæðir sem reika dögum saman um norðurslóðir - þar sem venjulega eru heimkynni stóru kuldapollanna. Geislunarbúskapur er þeim þó ekki hagstæður (öfugt við kuldapollana) og smám saman kólna þeir og falla saman. 

Hryggurinn sem olli norðanáttinni í liðinni viku fór óvenjulangt norður - stuggaði þar við vestari kuldapollinum mikla - þeim sem ritstjóri hungurdiska hefur kosið að kalla Stóra-Bola. Ekki hefur Boli enn jafnað sig að fullu. 

Nýr hryggur er nú að ryðjast norður á bóginn - líklega aðeins austar en sá fyrri. Fari svo lendir Ísland vestan við mestu norðanáttina - og jafnvel um tíma í sunnanátt í vesturjaðri hryggjarins.

w-blogg271117a

Hér má sjá norðurhvelskort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis á miðvikudag. Jafnhæðarlinur eru heildregnar, en þykkt er sýnd með lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Jú, kuldapollurinn Stóri-Boli er á sínum stað, en ekki sérlega kaldur - óttalega laslegur miðað við venjulegt heilsufar - afkomandi hans sem sjá má við Svalbarða er öflugri. Öflugastur þó er bróðir þeirra í kuldanum, Síberíu-Blesi, ekki þó í raun sérlega öflugur miðað við það sem oft er. Á milli þeirra er hlý hæð - ekki langt frá norðurskauti, leifar síðasta hryggjar. 

Ísland er hér þakið grænum litum, sem teljast mildir á þessum tíma árs. Guli sumarliturinn virðist jafnvel vera að sækja til landsins úr suðvestri. - En nú er snjór um mestallt land og vindur hægur þannig að kalda loftið er ekki alveg búið að yfirgefa landið þegar hér er komið sögu. 

Undir vikulokin verður mjög sótt að hæðarhryggnum úr vestri og tilraun gerð til að berja hann niður. Hvort einhverjar verulegar sviptingar verða í veðri hér í þeim átökum skal ósagt látið að sinni. 

Svo gera spár helst ráð fyrir því að hæðarhryggurinn rísi upp í þriðja sinn - ætlar ekkert að gefa sig. Hæðarhryggir sem vilja sitja nærri Suður-Grænlandi eru alltaf óþægilegir fyrir okkur - stutt er á milli gæðaveðurs annars vegar - og einhvers vestan- eða norðanofsa hins vegar. Gæðaveðrið algengara þó - ýmist er það kalt eða hlýtt - skiptir kannski ekki öllu, en illviðrin mjög skæð komi þau á annað borð. 

Svo er enn verið að spá nóvemberkuldameti í heiðhvolfinu yfir landinu. Frost er þar nú í kringum -80 stig í 22 km hæð. Þetta er nægilegur kuldi til að halda glitskýjasýningu - þá rétt fyrir sólarupprás og eftir sólarlag - byrgi neðri ský ekki sýn. En kuldinn einn og sér dugar þó ekki heldur þurfa vindaðstæður einnig að vera hagstæðar - rétt samt að fylgjast með. 


Af óljósum annálum

Ekki er ritstjóri hungurdiska jarðfræðingur og ekki heldur sagnfræðingur. Lesendur ættu að hafa það í huga renni þeir í gegnum það sem hér fer að neðan.

Svo virðist að samkomulag sé um að tvö eldgos hafi orðið í Öræfajökli frá landnámi, hið fyrra 1362 og hið síðara 1727 og að það fyrra hafi verið (risa-)stórt, en hið síðara lítið. Vísindamenn hvers tíma, allt frá 18.öld og til okkar daga hafa fjallað um gos þessi. Það er hins vegar athyglisvert að í eldri umfjöllunum eru þessi gos ekki þau einu sem nefnd eru.

Rökin fyrir því að þau hafi ekki verið fleiri eru út af fyrir sig sannfærandi og sá sem þessi orð ritar getur ekki leyft sér að halda því fram að þeim sé á einhvern hátt ábótavant. Flestir vita t.d. að ártöl í eldri annálum (og jafnvel þeim yngri) eru mörg hver ekki nákvæm - atburður sem var í raun einn getur þannig í annálum dreifst á mörg ár og þannig orðið að fleirum. Sömuleiðis er atburðum á einum stað alloft ruglað saman við eitthvað sem gerist annars staðar.

En það er samt þannig líka að stórir atburðir geta étið upp aðra. Þannig er það t.d. í veðurfarssögunni - og ekki bara á fyrri öldum. Reykjavíkurfárviðrunum tveimur, 1981 og 1991 er þannig oft illa ruglað saman, Hefðu þessi veður orðið á 14. öld - með tjóni sem var svipað í hvoru veðri um sig og ámóta lýsingum annálaritara hefðu ýmsir söguhreingerningatæknar ábyggilega ákveðið að telja þetta vera sama veðrið, jafnvel með góðum rökum. Svipað á við um tíðarfarslýsingar. Sá sem þetta ritar hefur ótölulega oft þurft að leiðrétta samslátt frostaletursins mikla 1881 og kuldavorsins og sumarsins 1882 í sama ártalið, ýmist 1881 eða 1882. Eru heimildir um veðurfar þessara ára þó ágætar og engin hætta ætti að vera á ruglingi.

Það er því mikilvægt að annálar (þó vitlausir séu taldir) séu sífellt lesnir upp á nýtt, eftir því sem bætir í reynslusarp nútímans - en séu ekki afskrifaðir um aldur og æfi sem einhver della - þó margir hljóti hins vegar að vera það.

Upplýsingar um Öræfajökulsgosið 1727 eru áreiðanlegar (þó lítillega skeiki á dagsetningum í heimildum). Upplýsingar um stórgosið 1362 eru hins vegar af skornum skammti. Gjósku- og setrannsóknir auk forleifaathugana hafa bætt ýmsu við ritaðar heimildir og vitneskja um rúmmál gosefna er talin nokkuð áreiðanleg. Sömuleiðis hefur nokkuð verið grafið í óbeinar upplýsingar sem fram koma í fornbréfum. Eitthvað af því hefur sá sem þetta skrifar lesið og að honum þá læðst grunur um að ekki séu öll kurl komin til grafar varðandi atburðarás við jökulinn á 14., 15. og 16. öld.

annalar_1362

[Myndin er úr ritinu „Íslanzkir annálar“ sem Stofnun Árna Magnússonar gaf út 1847.

Lítum á annála frá 14. öld þar sem Öræfajökuls er getið - eða óvenjulegs vikurfalls (sem tengt hefur verið gosi hans 1362) - smámunasamir beðnir velvirðingar á stafsetningu:

1332 Gottskálksannáll: Sást eldur logandi í austur átt nær um allt Ísland er bera þótti í sömu átt og jafn nær alls staðar er menn hyggja verið hafa í Knappafellsjökli.

1341 Skálholtsannáll: Annar eldur var uppi í Hnapparvallarjökli, hinn þriðji í Herðibreið yfir Fljótsdals héraði og voru allir jafnsnemma uppi.

1350 Flateyjarannáll: ellds upp koma i Hnappafells joki (svo) og myrkur svo mikið at eigi sá vegu vm middegi ok al eyddis allt Litla hérað.

1362

Annálabrot frá Skálholti: Eldur uppi í 3 stöðum fyrir sunnan og hélst það frá fardögum til hausts með svo miklum býsnum að eyddi allt Litlahérað og mikið af Hornafirði og Lónshverfi svo að eyddi 5 þingmanna leiðir. Hér með hljóp Knappafellsjökull fram í sjó þar sem var 30 tugt djúp með grjótfalli, aur og saur að þar urðu síðan sléttir sandar. Tók og af 2 kirkjusóknir með öllu að Hofi og Rauðalæk. Sandurinn tók í miðjan legg á sléttu en rak saman í skafla svo að varla sá húsin. Öskufall bar norður um land svo að sporrækt var. Það fylgdi og þessu að vikrinn sást reka hrönnum fyrir Vestfjörðum að varla máttu skip ganga fyrir.

Gottskálksannáll: Eldsuppkoma í 6 stöðum á Íslandi. Í Austfjörðum sprakk í sundur Knappafellsjökull og hljóp ofan á Lómagnúpssand svo af tók vegu alla. Á sú í Austfjörðum er heitir Úlfarsá hljóp á stað þann er heitir Rauðalæk og braut niður allan staðinn svo að ekki hús stóð eftir nema kirkjan.

1366 Oddverjaannáll: Ellds upkoma í Litla héraði og eyddi allt héraðið: höfðu þar ádur werið 70 bæir: lifði eingin kvik kind eptir utan ein öldruð kona og kapall.

1367 Lögmannsannáll: Ellds upp koma í Litla héradi og eyddi allt héraði.

--- 

Mikils vikureks er einnig getið í tengslum við gos í Tölladyngjum (Bárðarbungu):

1354 Skálholtsannáll: Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýrdal af öskufallinu en vikrina rak allt vestur á Mýrum og sá eldinn af Snæfellsnesi.

1357 Gottskálksannáll: Eldsuppkoma í Trölladyngjum. Leiddi þar af ógnar miklar og dunur stórar. Öskufall svo mikið að nær alla bæi eyddi í Mýdalnum og víða þar nálægt gerði mikinn skaða. Vikrareki svo mikill austan til að út frá Stað á Snæfellsnesi rak vikrina og enn utar.

1360 Flateyjarbókarannáll: Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli, en vikrina rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snjófellsnesi.

Nú er spurningin hvort þetta eigi allt saman að færast á Öræfajökul og allt á sama árið 1362? Flestir þessir annálar eru ritaðir löngu eftir atburðina, „Annálsbrot frá Skálholti“ þó talin samtímaheimild - og neglir sjálfsagt niður rétt ártal.

Sá sem þetta ritar telur jafnlíklegt að vikurgosið mikla í Öræfajökli hafi átt nokkurn aðdraganda, kannski hafi minni jökulhlaup og órói ýmis konar verið viðloðandi um allt að 20 ára skeið áður en aðalatburðurinn (vikurgosið mikla) varð 1362. Sömuleiðis var þar eitthvað um að vera eftir gosið. Rauðalækur sem eyddist að nokkru 1362 var enn kirkjustaður 1387 og Jón Þorkelsson segir í samantekt um kirkjustaði í Austur-Skaftafellsýslu sem birtist í Blöndu II:

„Ekki vita menn, hvenær Rauðalæk og Rauðalækjarkirkju tók af með öllu, en óvíst er, að það hafi orðið fyrri en á ofanverðri 15. öld. Nálægt 1480 sýnist muni hafa komið mikið jökulhlaup yfir Öræfin — þó að þess finnist ekki beint getið, - og þá litur svo út, að Eyrarhorn hafi farið af, og er ekki ósennilegt, að Rauðalækur hafi lent i því flóði. Tveim árum seinna (1482) er Magnús biskup Eyjólfsson að efla Hofskirkju með eignum Eyrarhornskirkju, sem þá hlýtur að vera nýfarin af. Þá sýnist Sandfell ekki enn vera orðið staður“.

Menn hafa „ákveðið“ að hér hafi verið um Skeiðarárhlaup að ræða (sem vel getur verið).

Jón segir svo í kaflanum um Svínafell - en jörðin virðist hafa rýrnað mjög um 1340:

„Af þessu er og að taka þann lærdóm, að þá (1343) hafi kirkjan í Svínafelli verið fallin af. Hún hefir að vísu ekki átt minna en hálft heimaland, og hefir biskup þá lagt þann helming landsins til Hofskirkju, því að biskupsforræði var á að Svínafelli. Verða þessi snöggu umskipti um Svínafell að eins skiljanleg á þann hátt, að bæ og kirkju að Svínafelli hafi tekið af í jökulhlaupi nokkru fyrir 1343, bærinn síðan verið færður og byggður upp í öðrum stað, en kirkjuskuldin tekin af, sökum stórskerðingar á jörðinni, og ef til vill eyðingar mikils hluta sóknarinnar. Þetta kemur og vel heim við það, að Skálholtsannáll og Gottskálksannáll geta einmitt um hlaup úr Knappafellsjökli bæði 1332 og 1341“.

Var þetta hlaup líka úr Skeiðará? Er hún allsherjarblóraböggull á svæðinu ásamt Grímsvatnagosum? Erum við slegin einhverri blindu?

Næst fréttist af gosi í Öræfajökli 1598. Þorvaldur Thoroddsen (eldfjallasaga) segir að Ólafur Einarsson nefni í bréfi gos í Grímsvötnum og Öræfajökli sem valdið hafi jökulhlaupi og öskufalli. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem Grímsvötn eru nefnd í heimildum. Sigurður Þórarinsson afskrifar gos í Öræfajökli þetta ár.

Á 19. öld voru gos í Öræfajökli nefnd að minnsta kosti tvisvar, 1823 og 1861. Rangt mun hafa farið með staðsetninguna - en hvar nákvæmlega þessi eldsumbrot voru er ekki alveg ljóst. Hlaup sem kom í Skeiðará 1861 mun vera eitt hið stærsta og einkennilegasta sem vitað er um þar - en ekki er vitað hvar gosið var sem því olli. Spurning er hvort gosið hafi á einhverjum „afbrigðilegum“ stað í Vatnajökli - t.d. norður af Öræfajökli.

Látum fréttir af nítjándualdargosunum fylgja þessum pistli:

Úr bréfum Magnúsar Stephensen til Finns Magnússonar. Safn Fræðafélagsins iv. bindi, 1924

Viðeyjarklaustri 5-3 1823 (Magnús Stephensen): (s39)

„Þó berst sú flugufregn eftir kalli að austan, að Öræfajökull sé tekinn til við að brenna, en því ei trúandi ... “

26-6 1861 (Þjóðólfur)

„24.f. mán. fanst her syðra megn jökul- og brennisteinsfýla og stóð vindr hér af austri, en miklu megnari var þó fýlan austrum Síðu og Meðalland, og var þar tekið eptir því, að silfr allt tók kolsvartan lit, hversu vel sem það var vafið og geymt í traföskjum og kistum. Sáust þá, um Meðalland og Álptaver, reykjarmekkir upp úr Hnappafells- eða ÖræfaJökli, og þó eigi marga daga þareptir. Þenna dag hljóp Skeiðará, og hefir hún nú eigi hlaupið um næstliðin 10 ár, en er þó tíðast, að hún láti eigi nema 6 ár milli hlaupa og stundum eigi nema 5, ræðr því að líkindum að hlaup þetta hafi orðið afarmikið; enda sjást og nú meiri merki þess heldr en vant er, því víða vestr með sjó er rekinn birkiviðr hrönnum saman, og er það sjáifsagt eptir hlaupið og virðist hafa farið yfir Skaptafellsskóga neðanverða. þá eru og hrannr með sjó af hvítum vikr, en þess hafa aldrei sezt merki fyr eptir hlaup úr Skeibará, en aptr eru þykk lög af þeim vikr víða í Öræfasveit, eptir hin fyrri stórhlanp úr Hnappafellsjökli er þar hafa svo mjög bygðum eytt og graslendi; því ræðr að líkindum, að hlaup hafi nú einnig komið úr jöklinum sjálfum, en áreibanlegar fregnir skortir um allt þetta þar sem engar ferðir hafa getað orðið austan yfir Skeiðarársand til þessa, og tvísýnt, að hann verði fær fram eptir sumri“.

Mun ítarlegri lýsingar eru til á þessu risavaxna jökulhlaupi og fjallar Sigurður Þórarinsson um þær í bók sinni „Vötnin stríð“ - mæli með lestri hennar.

Það er mikilvægt að láta eldgosin 1362 og 1727 ekki blinda sig gagnvart hættum á jökulhlaupum úr Öræfajökli - þegar ís bráðnar verður til vatn - það vatn getur eftir atvikum lekið út undan jöklinum hægt og sígandi eða safnast þar saman í miklu magni. Mjög mikilvægt er að fylgjast með öllum yfirborðshallabreytingum í öskjunni. Sigketill er merki um bráðnun og vatn - breytingar á honum og umhverfi hans næstu daga og vikur geta sagt til um það hvort hann sé til kominn af því að vatn hafi runnið undan eða hvort sigið sé tilkomið vegna bráðnunar einnar - sömuleiðis hvort það hellist úr honum. Þegar ketill hefur myndast aukast líkur á því að vatn safnist saman í framhaldinu. Stöðvun leka getur líka verið alvarlegt merki um vatnssöfnun.  

Þó sérfræðingar telji yfirgnæfandi líkur á því að vatn það sem bráðnað hefur til þessa hafi þegar runnið fram eru þær líkur ekki 100 prósent. Einhverjar líkur eru á því að undir jöklinum séu milljónir rúmmetra af vatni sem bíða framrásar í „litlu“ jökulhlaupi - sem er þó nægilega stórt til þess að taka brýr á svipstundu - í skammdegismyrkri er slík staða sérlega hættuleg. Mjög litlar líkur eru á því að vatnsmagnið sem bíður séu tugir milljóna rúmmetra, en ekki samt núll. Hlaupi slíkt magn fram er um meiriháttar hamfarir að ræða. 

Þó áhyggjur af hugsanlegu eldgosi séu að sjálfsögðu eðlilegar er ekki gott að umræður um það geri lítið úr hinni „minni“ ógn, jökulhlaupum sem geta orðið án þess að eldos verði - eða jafnvel mörgum mánuðum eða árum áður en það varður.   


Lægð rennur hjá

Lægð dagsins virðist ætla að renna tíðindalítið hjá - olli nokkrum strekkingi þó um landið sunnanvert og lítilsháttar snjókoma fylgdi á stöku stað. Munaði reyndar litlu að hún yrði mum meiri. Lægð þessi var mjög öflug við Nýfundnaland og fór mikill hluti hennar til norðurs með Vestur-Grænlandi og til Baffinslands. Sá lægðarhluti sem fór inn á Grænlandshaf átti ekki mikla möguleika því nú fer fram endurnýjun á hæðarhryggnum mikla vestan við okkur og er það miklu meira kerfi en lægðin.

Það sem er skemmtilegt við þessa lægð er það hvernig hún leysist upp í nokkrar smærri. 

w-blogg261117a

Kortið gildir núna kl.18 (sunnudag 26. nóvember) og ef vel er að gáð má sjá fjölmargar smálægðir sem myndast hafa meðfram skilasvæði lægðarinnar. Smáatriði þessarar lægðamyndunar kunna að vera nokkuð flókin, en í aðalatriðum er hægt að fullyrða að hún er afleiðing af varðveislu hverfiþunga (sem í veðurfræðilegu samhengi nefnist iða) - þegar lægðin kom inn á Grænlandshaf var hún hringlaga - það réttist síðan úr þrýstisviðinu - sem væri í lagi ef hún lægðin grynntist ekki - en þar sem hún grynnist missir loftið „fótanna“ - iðan varðveitist hins vegar lengur og kemur fram í litlum hvirflum - rétt eins og þegar bifreið í stórri sveigju í kappakstri missir festu og fer að snúast í hringi um sjálfa sig. 

En eins og áður sagði eru smáatriðin í hverju tilviki fyrir sig býsnaflókin en meginástæðan einföld. 

Úrkomuákefð er töluverð á blettum í lægðakeðjunni. Í fyrradag var talið líklegt að eitthvað af þessari úrkomu næði til landsins - en svo hættu spár við þá reikninga.   


Sunnanátt á Kanaríeyjum

Sunnanátt er óþægileg á Kanaríeyjum (það er að segja fyrir veðurspámenn). Eyjarnar eru lengst af í staðvindabelti norðurhvels. Þar blæs vindur úr norðaustri. Skýjað og súldarsamt er áveðurs á eyjunum (norðaustanmegin) en bjart og þurrt suðvestanímóti. Austustu eyjarnar eru næst Afríku og þar er líka þurrast, en líkur á úrkomu vaxa eftir því sem vestar dregur.

Stöku sinnum bregður út af reglu. Einna verst verður þegar vetrarkuldapollar færast til suðvesturs til eyjanna frá Spáni. Uppskrift að úrhelli og illviðrum víðs vegar um eyjarnar. Sömuleiðis eru sandstormar frá Afríku illræmdir - en þá er vindáttin ekki ósvipuð því sem venjulegt er - vindur bara meiri.

Þarlendir veðurfræðingar minnast einnig á lægðir og lægðardrög sem koma úr vestri - þau eru óþægileg að því leyti að með þeim kemur stundum mikil sunnanátt - sem þá snýr við venjulegu veðurlagi. Þá getur rignt mikið sunnanmegin á eyjunum - einkum þeim vestari. 

Í dag er staðan einmitt þannig.

w-blogg241117xa

Hér er mynd sem tekin er nú síðdegis (og dreift frá Dundee í Skotlandi). Landskipunarnæmir munu kenna Gíbraltarsund í efra hægra horni myndarinnar. Kanaríeyjar eru teiknaðar lauslega á miðja mynd. Þar fyrir vestan er myndarlegt lægðarsvæði á hreyfingu til norðausturs, en mikill regnbakki á milli þess og eyjanna. 

Spænska veðurstofan gerir ráð fyrir því að mikið muni rigna á La Palma og El Hierro og rigning og sunnanátt muni jafnvel ná til Tenerife. Á vestari eyjunum er í gildi glóaldingul viðvörun um bæði vind og rigningu og þrumuveður á morgun, laugardag 25. nóvember. Á Tenerife er gul vindviðvörun látin nægja.

Regnþykknið mun að sögn hafa minni áhrif á austureyjunum. 


Um norðanhvassviðrið (eða þannig)

Nú geisar hríð um landið norðanvert - og víða er hvasst, verður jafnvel hvassara um tíma á morgun. Við veltum okkur aðeins upp úr því (ekki auðlæsilega að vísu).

w-blogg241117a

Hér er eitt af lóðréttum sniðum harmonie-líkansins. Það liggur um landið þvert, frá austri til vesturs, eins og sjá má á litla kortinu í efra hægra horni. 

Hálendi landsins sést sem grár flekkur neðarlega á myndinni - þar stingur Hofsjökull sér hæst upp í um 820 hPa hæð, en hæsti flötur sniðsins er 250 hPa, í um 10 km hæð. Vindörvar sýna vindhraða og vindátt (á hefðbundinn hátt), en vindhraðinn er að auki sýndur í lit - til áhersluauka. Mjög mikill vinstrengur er hægra megin á myndinni, yfir landinu austanverðu, en lengst til vinstri - nokkuð fyrir vestan land er vindur hægur. Í Austurlandsstrengnum er vindur meiri en 32 m/s og upp í 36 til 38 m/s þar sem mest er. 

Það vekur athygli að hægra megin á myndinni er vindurinn mestur neðarlega, á frá 750 hPa og niður fyrir 950 hPa. Þetta köllum við lágröst (þar til betra orð og fallegra finnst). Fyrir ofan hana er vindur minni - og á bletti mjög lítill. 

Vinstra megin er vindurinn hins vegar mestur ofarlega - þar má sjá í mjóa röst með vindhraða yfir 40 m/s í um 9 km hæð. Sá vindur liggur alveg ofan á mun hægari.

Heildregnu línurnar sýna mættishita. Mættishiti vex (nær) alltaf uppávið (hlýtt loft liggur ofan á því kaldara). Ritstjórinn hefur sett rautt strik inn á myndina til að sýna hvar loftið í 500 hPa-fletinum er kaldast í sniðinu. Línan sem merkt er 292 er hvergi hærri á myndinni en einmitt nærri línunni - en er neðar til beggja hliða. 

Þetta sést vel á síðari myndinni.

w-blogg241117b

Hér sést vel hvernig læna af köldu lofti liggur yfir Vesturlandi, en hlýrra loft er til beggja handa. Litirnir sýna hitann - kvarðinn skýrist sé kortið stækkað. Örvarnar benda báðar út frá kulda til hlýrra lofts.

Við sjáum (á vindörvunum) að vindur blæs úr norðri á öllu því svæði sem örvarnar ná yfir. Við sáum á sniðinu að 500 hPa-flöturinn er ofan við eystri vindröst þess (þá til hægri), en neðan við vestari röstina (þá til vinstri). Töluverður hitabratti er til beggja átta við kaldasta beltið. Á smábletti yfir Breiðafirði er frostið meira en -36 stig, en er aftur á móti um -28 stig þar sem hægri örin endar úti af Norðausturlandi, svipað eða aðeins meira hlýnar í hina áttina. 

Meðan hæðarsviðinu sjálfu hallar öllu til austurs (og norðausturs allt til lægðarmiðju) hallar hitasviðinu sitt á hvað. Halli þess suðvestur af landinu er samstefna hæðarsviðinu - þar sér hitasviðið til þess að vindur við jörð er minni en í háloftum, austan við kalda ásinn er halli sviðanna hins vegar gagnstæður - þar bætir hitasviðið í vind við jörð. 

Ekki var þetta alveg einfalt - en þrekmikil veðurnörd gefa því samt gaum. 


Enn meiri hæð

Undanfarna daga hefur óvenjuöflug hæð setið yfir Norðuríshafi. Þrýstingur i hæðarmiðju hefur verið yfir 1050 hPa. Ritstjóri hungurdiska man enn öflugri hæðir á þessum slóðum, en veit hins vegar ekki hversu algengar þær eru í nóvember og hversu oft sjávarmálsþrýstingur nær þeirri tölu í þeim mánuði. Hann hefur reyndar aldrei gert það hér á landi svo vitað sé.

Þó þrýstingur sé frekar hár hér á landi þessa dagana er ekkert óvenjulegt við hann enn sem komið er að minnsta kosti.

w-blogg221117b

Hér má sjá sjávarmálsþrýsting á norðurhveli eins og evrópureiknimiðstöðin sá hann í dag á hádegi (heildregnar línur). Litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Hlýr straumur liggur til norðurs með öllu Vestur-Grænlandi, en kaldur austan við. Ísland er á átakasvæði - enda blæs nú strítt úr norðaustri og norðri. 

Spár gera ráð fyrir því að hæðin gefi sig heldur, en lægðin við Bretland er á leið norður á bóginn þannig að ástandið hér helst efnislega svipað fram á föstudag eða jafnvel lengur.

Við kortaflettingar dagsins rakst ritstjórinn á óvenjulega spá - kannski er það skemmtideild reiknimiðstöðvarinnar sem stendur fyrir henni - en bandaríska veðurstofan er alla vega sammála.

w-blogg221117a

Hér má sjá stöðuna í 30 hPa-fletinum (í rúmlega 22 km hæð) á miðvikudag eftir viku (29. nóvember). Hún gefur ágætt tilefni til að rifja upp nóvemberkuldamet flatarins yfir Keflavík. Það var sett 25. nóvember 1996 þegar frostið mældist -80,0 stig. 

Þannig að hér er sum sé verið að spá nýju meti (-83 til -84 stig). Almennt er talað um að líkur á nýjum lágmarksmetum aukist í heiðhvolfinu með aukinni hnattrænni hlýnun í veðrahvolfi. Þrátt fyrir það er samt vafasamt að tengja þennan ákveðna atburð (sem ekki hefur komið fram vel að merkja) við slíkt. Þennan dag á mjög hlýtt loft að vera á leið hjá landinu við veðrahvörf - kuldinn þarna uppi tengist væntanlega þeirri lyftingu sem verður ofan við þann ruðning.

Bregðist spár um hlýja loftið - bregst spáin um kuldann í heiðhvolfinu væntanlega líka - en við höfum alla vega rifjað upp metið - og límminnugir geta reynt að muna það þar til næst. 


Nóvember kaldur það sem af er

Þegar 20 dagar eru liðnir af nóvember er meðalhiti hans 0,8 stig í Reykjavík, -0,7 neðan meðallags 1961 til 1990, en -2,7 neðan meðallags síðustu tíu ára. Dagarnir tuttugu hafa ekki verið kaldari það sem af er öldinni, en meðalhiti sömu daga 2010 var 0,9 stig. Á langa listanum eru dagarnir í 104. hlýindasæti af 142.

Fyrstu 20 dagar nóvembermánaðar voru hlýjastir í Reykjavík 1945, meðalhiti þeirra var 8,0 stig, kaldastir voru þeir aftur á móti 1880, meðalhitinn þá var -2,9 stig. Árið 1996 var hann -2,4 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 daga nóvembermánaðar -0,5 stig, -2,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Kaldara var á Akureyri bæði 2010 og 2012.

Úrkoman í Reykjavík hefur mælst 88,4 mm, það er í meira lagi, var þó meiri sömu daga í fyrra og miklu minni en það sem mest er vitað um (156,7 mm 1958).

Hiti er undir meðallagi um land allt, minnst í Seley, -1,0 stig sé miðað við síðustu tíu ár, en mest í Árnesi þar sem hann er -5,0 stigum undir meðalhita sama tímabils.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2017
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 36
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 527
  • Frá upphafi: 2343289

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 479
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband