Fyrri hluti aprílmánaðar

Nú er hálfur apríl liðinn. Hiti hefur vel rétt sig af eftir kalda daga í upphafi mánaðar. Meðalhiti í Reykjavík stendur nú í 3,7 stigum, +1,8 stig ofan meðallagsins 1961-1990 og +0,4 ofan við meðallag síðustu tíu ára. Þetta kemur meðalhita dagana 15 í 9. sæti af 18 á öldinni, en í það 34. á 144-ára listanum. Þar eru sömu dagar 1929 á toppnum, meðalhiti þá var +6,6 stig, en í neðsta sæti eru sömu dagar 1876, meðalhiti -4,1 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana 15 1,7 stig, +1,1 ofan við meðallag 1961 til 1990, en -0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára.

Sé litið á landið í heild hefur hitinn að tiltölu verið hæstur á Hornbjargsvita, +1,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára, en lægstur við Kárahnjúka þar sem hann hefur verið -2,1 stigi neðan 10-ára meðallagsins.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 14,9 mm, tæpur helmingur meðallags, en 16,8 mm á Akureyri - og er það í meðallagi.

Sólskinsstundir hafa mælst 62,2 í Reykjavík, það er nærri meðallagi.


Í dýpri kantinum

Sunnudagslægðin (15. apríl) langt fyrir sunnan land er í dýpra lagi miðað við árstíma. Evrópureiknimiðstöðin stingur upp á 943 hPa síðdegis. Ritstjóranum finnst þó einhvern veginn að ámóta lægð hafi sýnt sig á svipuðum slóðum á svipuðum tíma (eða seinna) fyrir ekki svo mörgum árum - en þorir ekki að fullyrða um það án staðfestingar annars en slitnandi minnis.

w-blogg150418a

Kalt loft, langt úr norðri, kemur í bakið á lægðinni og veldur dýpkun hennar. Þetta kalda loft fer síðan suðaustur og austur um Asóreyjar. Sjórinn hitar það reyndar baki brotnu á leiðinni, en vel má vera að það nái að snjóa á hæsta tindi Faialeyjar, Cabeço Gordo sem er rúmlega 1000 metra hátt keilueldfjall með myndarlegri öskju. - Auðvitað snjóar líka hinumegin hins mjóa Faialsunds, á eldkeiluna Pico. Þar er alltaf að snjóa (en bráðnar á milli - enginn jökull) - fjallið er 2350 metrar að hæð. 

En lægðin djúpa sendir úrkomubakka alla leið til Íslands. Reiknimiðstöðin segir hann koma á aðfaranótt þriðjudags - og lægðin síðan í humátt á eftir, kannski miðvikudag eða á sumardaginn fyrsta. Þá verður hún orðin að aumingja. 


Af árinu 1882

Nú verður fyrir hið alræmda ár 1882. Ekki það allrakaldasta sem við þekkjum, en samt eitt hið allraversta - og keppir trúlega í flokknum tíu verstu ár síðari alda. Þá var október hlýjasti mánuður ársins á Stað í Aðalvík, Kjörvogi, á Skagaströnd og í Grímsey. Fyrir utan slæma tíð gekk einnig mjög skæður mislingafaraldur sem banaði mörgum auk þess að valda frátöfum frá heyskap víða um land - mátti vart við. 

Október var eini mánuður ársins sem að tiltölu telst hlýr. Janúar var rétt neðan meðallags, en allir aðrir mánuðir kaldir eða mjög kaldir, ágúst kaldastur að tiltölu, kaldastur allra ágústmánaða á landsvísu - sé miðað við 1874 sem byrjunarár. Júnímánuður er einnig sá kaldasti sem vitað er um frá 1874 að telja. Í júlí var hiti rétt neðan meðallags suðvestanlands - og nægir það til að þoka landshitanum úr allraneðstu sætunum. Í Stykkishólmi er júlí 1882 sá kaldasti eftir 1874 - en lítillega kaldara var þar í þeim mánuði 1869 og 1862 (vonandi viðföng hungurdiska síðar meir). 

Net ritstjóra hungurdiska veiðir 24 óvenjukalda daga í Reykjavík, en aðeins einn hlýjan (20. maí). Þrír þessara köldu daga voru í febrúar, tveir í mars og fjórir í apríl - þá var frost allan sólarhringinn dögum saman í höfuðborginni seinast í mánuðinum (og meir en -10 stiga frost um miðjan dag víða fyrir norðan). Köldu dagarnir urðu þrír í maí og þrír í júní, einn í júlí, en sex í ágúst, einn í september og einn í desember. 

Í Stykkishólmi fundust 51 sérlega kaldur dagur, þar af 25 í mánuðunum júní, júlí og ágúst - allt of langt mál að telja þá alla upp, en listi er í viðhenginu. 

Hæsti hiti ársins mældist á Grímsstöðum á Fjöllum 26.júní, 20,9 stig, mest frost mældist á sama stað 7. mars, -31,1 stig.  

Við látum „Fréttir frá Íslandi“ gefa yfirlit um tíðina (9. árgangur s.17 og áfram). Ítarleg lesning sem oft hefur verið vitnað til. Reyndar er það svo að ef við berum þessa samantakt við upphaflegar fréttir kemur í ljós að lítt er dregið úr þeim og frekar hnykkt á - sértæk illindi verða að almennum - nokkuð umhugsunarvert. Lesið fyrstu málsgreinina með sérstakri athygli - hún er góð. 

Það er einkennilegast við þetta ár, að það er hið harðasta ár, sem komið hefir í þeirra manna minnum, er nú [1883] lifa, en þó voru vetrarkaflar þess vægir, og mörgum vetrum betri, en sumarið aftur mörgum vetrum líkast. Annað var það og einkennilegt, að svo má segja, að tvö eða þrjú árferð hafi verið, á eigi stærri eyju en Ísland er, í einu, og hafi þannig eins og skipt í tvö horn með veðurfarið.

Framan af árinu, í janúarmánuði, var skakviðrasamt mjög. Útsynningsrosar og óveður í flestum sveitum landsins, en frostalítið og snjóalítið, og var víða svo á Suðurlandi að jörð fraus aldrei fyrri en eftir páska. Verst var þá veðurátt í Snæfellsnessýslu, en best í Múlasýslum. Rétt eftir nýárið setti niður snjó allmikinn í Múlasýslum, en 13. dag janúarmánaðar gjörði hláku mikla og tók allt upp. Í hláku þessari bar að hendi slys eitt í Seyðisfirði. Þá urðu og víða skaðar á húsum og heyjum nyrðra, og má að eins til nefna, að á Hillum á Árskógsströnd tók af baðstofu niður að veggjum, og á nokkrum bæjum nyrðra fór veðrið eins með hey manna.

[Í lok mars] (30.) gjörði stillingu, og kom þá hið besta veður, eðlileg hlýindi og vorblíða, og hugðu þá allir að sumarið væri að ganga í garð. En á annan í páskum (10. apríl) tók að frysta, og gjöra norðanátt með hríðum og illviðrum, sem best eiga við á þorranum, og hélt því, þangað til út yfir fór að taka um 20. apríl og allt til hins 29. s.m. Þá var eitt hið eftirminnilegasta ofsaveður á norðan, einkum 24.—26., að slíks eru fá dæmi. Var þá eins og harðindin væru fyrst í fullri alvöru að ganga í garð; áður hafði verið eðlilegt vetrarveður, nema á Vesturlandi, einkum Snæfellsnessýslu; höfðu þau þegar tekið út yfir í marsmánuði, en aftur á móti var þá einmunatíð í Múlasýslum, því að þangað ná útsynningarnir trauðlega. Þenna 10 daga kafla má segja að hvergi væri út komandi nyrðra fyrir stórhríðum og kafaldsbyljum, en syðra var kafaldið minna, en veðurhæðin sú hin sama eða meiri til. Þá fyllti allt með hafís fyrir Norðurlandi og Austurlandi.

Syðra jós þá slíkri grjóthríð og sandroki, einkum yfir Rangárvallasýslu, að sumar jarðir ónýttust með öllu, og aðrar urðu fyrir stórskemmdum, einkum á Landi, Rangárvöllum og efra hluta Holtamannahrepps; drap hríð þessi fjölda fjár og hrossa; sama var og í Skaftafellssýslum. Vestra var þaðan af verst, því að þar voru hvíldarlausar hríðar allan tímann frá 10. apríl allt til 6. maí. Slotaði þá aftur nokkuð óveðrunum, þangað til 23. maí. Þá dundu aftur yfir frost og fannkoma, og hélst það vestra allt til 15.júní, en nyrðra varð það eigi eins langvinnt. Þar var um allt Norðurland svo dimm hríð 24.maí að kunnugir menn villtust á alfaravegi, og maður varð úti í Hrútafirði. Svo má heita, að þessi tími, frá 10. apríl til 15.júní væri einn óstöðvandi og ólinnandi stórhríðabálkur, sem aldrei linnti nema fáa daga í maí; þá kom hláka um stund, er tók upp snjóinn, en snérist upp í norðanhríð, svo að eigi varð út komandi. Syðra var vorið að sönnu eigi eins kafaldasamt, en þar voru sífelldir þurrir og kaldir norðannæðingar, er spilltu öllum gróðri.

Hafísinn lá frá Straumsnesi við Aðalvík allt austur með Norðurlandi, samfrosta upp í hverja á og hvern lækjarós, og suður með landinu að austan, og allt vestur undir Dyrhólaey. Þó var hann alltaf allur lausari fyrir Austurlandinu. Í hríðum þessum voru oft frost mikil (8—12°R), og svo mikil vestra, að fyrstu viku maímánaðar fraus skip inni á Stykkishólmshöfn, og varð hestís kring um skipið. Seinast í júní fór að breytast til batnaðar syðra, og voru þar hlýindi góð í júlí, hitar og sunnan vætur, og tók að líta vel út með grasvöxt, og þó að einstöku sinnum hlypi á norðan, varð ei neitt úr því. Norðanlands birti upp þokukafaldið vikutíma síðast í júní, en skall svo saman aftur með hríðahlaupum og frostum. Var þá svo kalt þar, að vetrarís var ei leystur af Ólafsfjarðarvatni í Eyjafjarðarsýslu 6. júlí. Seinustu dagana í júlí birti upp, en skall yfir aftur 4. ágúst, og sá þá eigi sól til höfuðdags; var þá meðalhiti frá 13.—22. ágúst nótt og dag óbreyttur 0°R.

Með höfuðdegi birti upp, og kom góður tími í viku; þá fór loksins hafísinn burtu frá Norðurlandi. En samt héldust hríðaköstin allt til rétta, og taldist mönnum svo til, að 10 sinnum hefði alsnjóað nyrðra frá Jónsmessu til rétta. Verst var það hríðarkastið, er gjörði 12. september og stóð í 3 daga með 7°R frosti. Þá voru ár riðnar á ís í Skagafirði og í Dalasýslu og víðar, og gengið á skíðum úr Fljótum inn í Hofsós sakir ófærðar; fennti þá fé á afréttum milli sveita, en ei á heiðum frammi, því að hríðarnar náðu aldrei lengra en fram á fjallabrúnir; 23. sept. kom síðasta hríðin, og fennti þá hross í Laxárdalsfjöllum, afrétti milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar. Úr réttum breyttist til batnaðar og var úr því hin hagstæðasta hausttíð. Þetta er nú sumarssaga Norðurlands, og að mestu líka Vesturlands. Eystra var sumarið öllu skárra, því að þar náði sunnanáttin að flæma hafísinn norður og niður í lok júnímánaðar, en allajafna var þar votviðrasamt. Syðra var aftur sífeld sunnanátt, en náði aldrei að vinna bug á hafísaköfunum nyrðra, svo að áttirnar mættust allt sumarið á fjöllunum. Sumarið var heldur hlýtt syðra en votviðrasamt mjög, svo úr hófi keyrðu rigningarnar. Var svo allt haustið og fram á vetur.

Haustið var gott um allt land, nema nálægt því í miðjum september kom afskaplegt stórviðri á Suðurlandi (sama veðrið og hríðin mikla nyrðra), og fuku pá hey manna mjög t.d. á Kjalarnesi og í Kjós og víðar, að sumir misstu nálega allt, er þeir höfðu losað. Veturinn var góður víðast um land, en víðast hvar heldur skakviðrasamur frá því í nóvembermánuði. Fannkoma var mikil í Þingeyjarsýslum í uppsveitum í nóvembermánuði, og lá sá snjór fram til nýárs, og náði lítið til jarðar. Sömuleiðis kom og mikill snjór í Eyjafirði og Skagafirði austantil, og varð jarðlaust af áfreðum, en skánaði aftur, og var svo heldur góð tíð til nýárs. Með jólaföstu komu hríðar og jarðbönn í Stranda- og norðurhluta Ísafjarðarsýslu, og var svo til nýárs. Logndrífu mikla setti og niður í nóvember í Múlasýslum og Skaftafellssýslum, og rigndi niður í á eftir, og varð af því jarðlaust til nýárs. Sunnanlands var aftur á móti slík einmunatíð, að fáir þykjast slíka vetrartíð muna.

Við lítum að vanda yfir atburði með aðstoð blaða og veðurathugana:

Janúar: Skakviðrasamt, en frost- og snjóalítið.

Jónas Jónassen lýsti veðri í Reykjavík í janúar í Þjóðólfi þann 6. febrúar:

Í þessum mánuði hefir veðurátta verið fremur hrakviðrasöm, því oftast hefir (einkum allur síðari hlutinn), annaðhvort verið sunnan-landsynningur með regni eða útsynningur með éljum, oft ofsaveður með miklu brimróti (í fyrra mátti heita að norðanrok væri allan mánuðinn).

Í Norðanfara birtist þann 7.febrúar bréf frá Jóni Bjarnasyni, dagsett 25. janúar, þar sem hann lýsti miklu krapaflóði á Seyðisfirði 13. sama mánaðar, við látum eftir okkur að lesa bréfið í heild:

Að kvöldi hinn 13. þ. mán. dundu voðaleg og mjög eyðileggjandi flóð af vatni og snjó yfir nokkurn hluta af Fjarðaröldu við botn Seyðisfjarðar. Mikinn snjó hafði lagt í hið háa og snarbratta fjall að norðanverðu bakvið kaupstaðinn skömmu eftir nýár; en svo kom allt í einu megn hláka, og þar af leiðandi varð mikið vatnssamsafn í fjallinu neðanverðu, sem áður en nokkur vissi sprengdi snjódyngjur geysimiklar frá sér og fossaði með óstöðvandi afli og ákaflegum flýti ofan eftir allt til sjávar og jafnvel langt út á fjörð.

Fyrir hinu fyrsta af þessum flóðum varð hús eitt, byggt fyrir nálega tveim árum, sem stóð fast uppi undir fjallinu. Það var eitt af hinum stærri og vönduðustu húsum á Seyðisfirði og var haft fyrir bakarí og veitingahús. Þegar flóðið skall á því, kipptist það um 3 álnir úr stað og svignaði, skekktist og laskaðist stórmikið um leið. Kjallari, sem undir því var, fylltist af vatni og krapa, og eins æddi flóðið inn í þau herbergi hússins, sem sneru til fjalla, og var fólkinu þaðan bjargað með talsverðum örðugleikum. En í kjallara hússins var líka einn maður, og honum var miklu örðugra að bjarga, með því að gólfið uppi yfir kjallaranum varð að brjóta áður en honum yrði náð, og þá stóð hann inniklemmdur og í ísvatni allt til höfuðs.

Áður en þessum manni var bjargað hafði annað flóð komið litlu utar og lent á íbúðarhúsi nokkru rétt við sjóinn. Hafði konan úr bakaríinu verið flutt í þetta hús eftir að henni var bjargað úr sínu eigin húsi, og var hún ásamt konunni í þessu húsi og 3 börnum hennar lögst þar til hvíldar, þegar voðinn dundi enn yfir. Og hér fór verr en í hinu fyrrnefnda húsi. Flóðið braust eins og fallbyssuskot gegnum húsið mitt, en í þeim hluta hússins var herbergið, þar sem konurnar og börnin hvíldu. Tók flóðið allan þennan part hússins og allt sem þar var inni með sér út á sjó. Einu barninu varð náð í flæðarmálinu lifandi; konurnar og hin börnin hreif flóðíð með sér langt út á fjörð. Menn brutust í náttmyrkrinu gegnum íshroðann á báti í dauðans ofboði út til þeirra og náðu konunum, þótt furðulegt sé, með lífi og ósködduðum, en hin tvö börn týndust.

Auk þessara tveggja flóða komu nokkur fleiri flóð yfir Fjarðaröldu, en þessi eru hér sérstaklega tilnefnd, af því að þau ollu svo voðalegu slysi og tjóni. Og auk hinna tveggja íbúðarhúsa eyðilögðust í byltingu þessari tveir fiskiskúrar með allmikilli eign í, nokkrir bátar og ýmislegt annað. — Eigandi bakarísins, sem fyrir flóðinu varð, og húsráðandi þar, er J. Chr. Thostrup, og það var kona hans, sem tvisvar varð fyrir voðanum. En í hinu húsinu, sem fórst, bjó eigandi þess Jónas Þ. Stephenssen verslunarmaður, og það var hans kona sem fylgdi börnum sinum útí dauðann, en frelsaðist svo dásamlega úr honum, eins og áður er sagt. Auk hinna tveggja barna sinna hafa hjón þessi við atburð þenna misst meira hluta eigna sinna, og er því mótlæti það, sem þau hafa orðið fyrir, eitthvert hið átakanlegasta.

Áætlun hefir verið gjörð yfir eignatjón það, sem flóð þessi hafa haft í för með sér. Alls er eignatjónið metið til 12.250 króna, þar af er talið, að J. Chr. Thostrup hafi misst fyrir 8.000 krónur, og Jónas Þ. Stephenssen fyrir 3.500 kr. Aðrir sem fyrir tjóni hafa orðið, eru: Jón Einarsson, 400 kr., Guðmundur Jónsson, 250 kr.,og Einar Pálsson, 100 kr. — Sú eyðilegging, sem hér er orðin, er svo einstakleg og tilfinnanleg, að það er vonanda, að eitthvað verði gjört af mönnum útí frá til þess að bæta úr henni. — Slík voðatíðindi og þessi hafa aldrei fyrr orðið í þessu byggðarlagi, enda munu þau hér lengi í minnum höfð.

Það fór þó svo að þessi flóð féllu í skuggann fyrir enn hörmulegra flóði á svipuðum stað rúmum þremur árum síðar. Í Skuld (21. mars) kom fram að lík annars barnsins hafi fundist rekið í Seyðisfirði, en hitt í Loðmundarfirði. 

Sama dag var ritað úr Múlasýslu (óstaðsett) og síðan birt í Fróða 24. febrúar:

Veðrátta hefir verið mjög úrfellasöm og þó hagstæð vegna frostvægðar. Nú í samfelldan hálfan mánuð hafa verið hlákur og blíðviðri, enda má öríst heita. Sauðfé hefir verið gefið lítið enn þá og hestum eins. Beit þykir heldur góð, en heyin létt, enda hröktust þau í sumar.

Febrúar: Umhleypingatíð, skást veður austanlands. Kalt.

Fróði segir eftir bréfi úr Þórsnesþingi 6. febrúar - en birti ekki fyrr en 29. mars:

Frá 7. desember til 11. janúar gengu tíðast austanaustnorðan, ágangs stórviðri með talsverðu frosti en síðan hafa gengið stórflóð eða fannkomur og mikil ofviðri af suðri og suðvestri, og er þessi kafli eins fágætur að óveðrum af suðri eins og harðindakaflinn i fyrra af norðri.

Hér er rétt að vara sig á orðalaginu. 

Jónas Jónassen segir um febrúarveðrið í Reykjavík í Þjóðólfi 20. mars:

Eins og undanfarinn mánuð hefir veður verið mjög óstöðugt þennan mánuð, og hefir útsynningur verið tíður.  ... Talsverður snjór hefir fallið með köflum.

Mars: Umhleypingatíð, ótíð vestanlands, skárst veður eystra. Kalt í veðri.

Fróði birtir þann 11. tíðarpistil frá Akureyri:

Veðrátta hefir síðan um nýár verið mjög óstöðug og umhleypingasöm yfir allt land, eftir því sem frést hefir. Norðanlands hefir lengst af verið lítill snjór og lítið frost eða þítt, og oft auð jörð í Eyjafirði og Skagafirði. Hart frost hefir þó verið allmarga daga á góunni.

Skuld segir þann 21. mars:

Úr Múlasýslum er sögð einmunatíð; frostleysur og snjólaust oftast í vetur, en stormasamt oft. Afli hafði gengið í janúar á Austfirði, Reyðarfjörð og víðar, bæði fullt af síld og hval sagt, en gæftir litlar. Kolar veiddust inni á Eskifirði eins og á sumardag.

Fróði birtir þann 11. apríl bréf að austan dagsett 16. mars:

Úr Múlasýslunum 16. mars. ... Tíðarfar hefir hér eystra síðan þrjár vikur af þorra verið mjög óstillt, en ekki höfum við haft af frostatíð að segja í vetur fyrri enn á góunni, þó hún megi ekki mikil kallast hjá ósköpunum sem yfir dundu í fyrra [1881]. Hér nálægt miðju Fljótsdalshéraði hefir frostið orðið mest 19°R. og nokkrum sinnum 15-17°R. en varla hefir svo mikill kuldi staðist sólarhring í einu. Oft hafa verið heiðríkjur og vestan eða norðvestan stormar, svo ónáðugt hefir verið fyrir sauðfé úti, enda er farið að ganga á heybyrgðir manna, því þær voru rýrar í haust, en vonanda er, að eigi verði svo hart hér eftir, að heyskortur verði til muna. Nú er hér í héraðinu talsverður snjór, sem smátt og smátt hefir bæst á, því veruleg hláka hefir aldrei komið á góunni, en 8. þ.m. kom suðaustan fjarskalegur rosti með krepju, og hlánaði þá dálitið sumstaðar, en sumstaðar spillti á jörð svo haglítið varð. Ekki stóð þetta frostleysi nema hálfan dag og svo hljóp í frost aftur.

Fréttir eru af Vatnsleysuströnd í Skuld þann 31. mars:

Hér ber fátt til tíðinda, nema það, sem almennt gengur yfir, nefnilega in sama umhleypingatíð og stormar, sem til þessa hafa algjörlega hindrað sjómenn frá að leita sér bjargar á sjónum. Inn 14. þ.m. lögðu margir þorskanet, en þó flestir á grunn; sökum illviðris varð ekki vitjað um netin þar til þann 25.

Og Fróði birtir 6. maí bréf dagsett í Húnavatnssýslu 4. apríl:

Tíðarfarið frá sólstöðum til jafndægra var hér stöðugur hringsnúningsbyljakafli úr öllum heimsins áttum, jafnan með hreggi og úrfelli, ýmist rigning, krapahríð, snjóhríð, eða hagli. Af þessu leiddi stöðuga hrakninga á sauðfé og hrossum, inni, sem úti. Fé, sem aldrei varð látið út, fylltist með lús og óþrif, því varla þornaði á því lagður svo mörgum dögum skipti, þar sem fjárhús, hlöður, hesthús, fjós og heykumbl láku sem grindahjallar, svo hey urðu víða fyrir stórskemmdum.

Jónas lýsir veðri marsmánaðar í Ísafold þann 19. apríl:

Veðurátta í þessum mánuði hefir verið einstaklega stirð; má kalla að stöðugur útsynningur hafi verið, því þótt stöku sinnum hafi brugðið fyrir á annarri átt, þá hefir hann skjótt aftur gengið til útsuðurs og það oft á svipstundu með roki. ...  Snjór hefir fallið mikill þennan mánuð, þar sem stundum varla má heita að stytt hafi upp milli útsynningsbyljanna. Talsverður kuldi var um tíma í sjónum; þannig lagði hann fram á miðja skipalegu hinn 20.-21.

Apríl: Blítt veður fyrstu 10 dagana, en síðan ríkti óvenjuleg veðurharka með kuldum, hríðum og sandbyljum.

ar_1882-hofmeyer-a

Hér má sjá veðurkort úr sameiginlegu kortasafni Þýsku sjóveðurstofunnar og þeirrar dönsku. Sýndar eru jafnþrýstilínur (eining er mm kvikasilfurs) og veðurathuganir landstöðva og skipa að morgni 9. apríl 1882, páskadag. Sé þrýstingur 760 mm eða meiri eru línur heildregnar, strikaðar sé hann lægri. 765 mm = 1020 hPa. Mikil hæð er rétt norðan við Skotland, en lægðardrag á Grænlandssundi. Þegar á daginn leið fór þetta lægðardrag til suðausturs yfir Ísland og þá snerist vindur úr suðvestri í norðaustur og kólnaði verulega. Mjög sígild staða að vori. Daginn eftir var komið hörkufrost eins og sjá má á næsta korti.

ar_1882-hofmeyer-b

Þennan dag hófust harðindin. Þá varð loftþrýstingur við sjávarmál hæstur á árinu, 1044,8 hPa á Akureyri. Hér hefur væntanlega verið töluvert öflug og hlý fyrirstöðuhæð fyrir vestan land. Næstu tvær vikur gróf smám saman undan hæðinni og meginþungi kuldans kom loks suður yfir landið eftir þann 23. apríl. Á þessum tíma voru engar veðurathuganir gerðar á öllu Austur-Grænlandi. 

Þjóðólfur segir frá tíðarfari liðins vetrar í pistli þann 30. apríl (hér lítillega styttur):

Veturinn hefir verið mjög umhleypingasamur og stirður hér syðra, þó að ekki hafi með jafnaði verið mikil frost. Höfuðáttin hefir jafnast verið austan-landsunnan eða þá útsunnan, og jafnan stormar og hrakviðri, og hlaupið síðan í norðanátt snöggvast með miklu frosti. Snjóþyngsli hafa verið allmikil hér um sveitir, bæði í austursveitum, Borgarfirði og þeim héruðum, er til hefir spurst; þó hafa þau eigi verið svo voðaleg sem það, hve illa hann hefir lagt það var víða að snjóaði í lygnu veðri og rigndi síðan niður í. og frysti síðan, og varð svo öll jörðin að gaddhellu, svo að engri skepnu varð auðið að fá neina björg.

Þessi vetur hefir því orðið mörgum harður, og ber margt til þess auk jarðbannanna, t.d. ónógar heybirgðir manna í haust, þar eð heyskapur varð nær því enginn á sumum stöðum, t.d. sumstaðar á Rangárvöllum; ... Í Borgarfirði er og fallið nokkuð af hrossum hingað og þangað, og sauðfé hefir verið skorið af heyjum á einstöku stöðum. Lengra að austan, t.d. úr Múlasýslum er sögð besta tíð í allan vetur, frostleysur og snjóleysur, en stormar miklir.

Fróði birtir 22. ágúst bréf úr Vopnafirði dagsett 27. apríl:

Veturinn fram til páska mátti ekki heita neitt harður eftir því sem hér gerist, svo út leit fyrir að gripir gengju vel undan í vor. Batinn í vikunni fyrir páskana gerði hér öríst, en á páskadagsmorguninn gekk veðrið til norðurs með frostum, sem haldist hafa síðan. Þó harðnaði frostið með sumarkomunni, svo síðan hefir það verið stöðugt 10—16°R. í gær og í dag kafaldshríð, svo hver skepna stendur við jötu.

Jónas segir frá veðráttufari í Reykjavík í apríl í Þjóðólfi 17. maí:

Þegar borin er saman veðurátta í umliðnum mánuði við veðuráttu í sama mánuði í fyrra, þá er ólíku saman að jafna, því þar sem aprílmánuði í fyrra var óvenjulega hlýr og veðurátta hagstæð bæði á sjó og landi hefir hið gagnstæða nú átt sér stað, því frá 10. þ.m. hefir vindur blásið frá norðri til djúpanna, þótt brugðið hafi fyrir annarri átt hér í bænum og allan síðari hluta mánaðarins hefir mátt heita aftaka norðanrok með miklum kulda og blindbyl til sveita (einkum 26. 27. 28.). 

Þess má geta að dagana sem illviðrið var sem verst hér á landi var Fritjof Nansen, heimskautakönnuðurinn frægi á selveiðiskútu nærri Jan Mayen í besta veðri, en töluverðum ís. Lesa má lýsingar hans í bókinni „Með selum og hvítabjörnum“. 

Maí: Mikil hríðarveður framan af og aftur eftir þ.20. Kuldatíð með gróðurleysi.

Þjóðólfur rekur ótíðarfréttir í pistli 27. maí:

Seinustu dagana af næstliðnum mánuði rak hér á slíkt norðanrok, að slíkt er eigi í manna minnum. Veðurhæð var svo mikil, að varla var stætt úti á víðavangi, og frost jafnan 6-10 R. Veður þetta stóð látlaust um 4 sólarhringa og svo frost um langan tíma á eftir með stormum á milli. Um 10.-12. þ.m. fór að snúast til suðausturáttar með stormum og rigningum og hlýju veðri á eftir, enn hinn 23. rauk á aftur með norðanstorm. Í sveitum uppi var blindhríð þessa verstu daga, og má nærri geta, hve það hefir gert þar mikið tjón á mögrum og bjarglausum skepnum, enda heyrist að fé hafi þá týnt hræðilega tölunni. t. d. að frést hefir að Hreppamenn hafi verið búnir i góðviðrunum á undan að sleppa um 1300 sauðum á afrétt, en er farið var til að gæta eftir veðrið, hafi um 100 fundist lifandi, enn hitt alt fennt, rotað, hrakið í ár eða frosið niður. Að norðan fréttist með seinasta pósti almennur heyskortur, enn talið alt bjargvænlegt, ef vel voraði, enn síðan hretið kom hefir ekkert frést þaðan.

Um ástandið í Rangárvallahreppi. Veturinn 1880-81 stórskemmdust margar jarðir í Rangárvallahreppi af veðrum og sandfoki, svo að sumar mátti telja óbyggilegar þó byggðar hafi verið þetta útlíðanda fardagaár. Sumarið 1881 var dæmafár grasbrestur á valllendi, en fáar jarðir þar í sveit höfðu mýrarslægjur og fyrir því voru heybirgðir þær, sem bændur með ærnum kostnaði höfðu sótt langt að og trauðlega fengið, mjög litlar á síðastliðnu hausti, en skepnur allar grannar bæði vegna vondrar hagbeitar, og, að því er hrossin snertir, vegna hinnar miklu sumarbrúkunar, sem langir heyaðdrættir höfðu í för með sér.

Vegna þessa og af því óvíðast voru til heyfyrningar voru flestir hreppsbændur illa undir harðan vetur búnir. Þótt veturinn 1881-82 væri ekki mjög frostharður, var hann venju framar umhleypingasamur, svo fljótt gekk á hinn litla heyforða manna, enn hagar hjá mörgum ónýtir eða því nær engir vegna undanfarinnar óárunar. Skepnuhöld voru því þegar á einmánuði orðin bágborin hjá einstöku mönnum og þeir þá þegar búnir að fella talsvert af sauðfé og hrossum. Samt sem áður mundu þó flestir bændur hafa bjargast án þess að fella stórkostlega skepnur sínar, hefði ekki rétt eftir sumarmálin komið það ofsa gaddveður af norðri, að elstu menn muna ekki slíkt um þann tíma árs; þessu harðviðri fylgdi fjarskalegur sand- og moldbylur, svo að fé, sem ekki náðist í hús, varð víða sandorpið, ef það ekki áður króknaði af kulda og hungri, því kalla mátti, að veðrið stæði jafnhart í 8 sólarhringa.

Veðurkast þetta virðist og hafa haft þau áhrif á það sauðfé, sem lifði hið harðasta þess af, að það hefir sýkst og hrunið niður, jafnvel þó gjöf hafi fengið, því að heyið varð ekki varið fyrir mold og sandi. Afleiðingin af þessu grimmdarkasti hefir orðið sú, að nú þegar má telja suma fjárríka hreppsbændur hér sauðlausa og alt útlit er til þess, að eins muni fara fyrir flestum og allir hafa eitthvað misst. Hross hafa og fallið hrönnum saman og kýr verið skornar sökum heyleysis. Ofan á alt þetta mikla tjón og skepnufelli bætast nú hinar fjarskalegu skemmdir á jörðum, sem veður þetta gjörði, því, að því oss er kunnugt, hafa allar jarðir í hreppnum fyrir ofan Þverá skemmst meira eða minna, nema einar 6 jarðir, sem lítið munu hafa skemmst, en 13 jarðir hafa eyðst svo stórkostlega, að þær að voru áliti eru óbyggilegar, og eru margar þeirra eign ábúendanna, eða annarra hreppsbúa.

Þegar nú hávaðinn af bændum í Rangárvallahreppi þannig hefir misst búpening sinn, óðul og ábýli, verða hinir fáu, sem skár hafa orðið úti, ekki færir um að bera allan sveitarþungann, nema þeir sjálfir vonum bráðar einnig verði sveitar- eða réttara sýslu- eða landsvandræði, því þótt einhverjir þeirra, sem nú þegar eru svo að kalla öreigar, hangi næsta ár við búhokur á sínum lélegu og ónýtu jarðnæðum sér og öðrum til niðurdreps, þá mun ekki geta orðið af þeim heimtað að bera sveitarbyrðar svo nokkru nemi og lenda þá hin auknu sveitarþyngsli á sárfáum mönnum, sem ekki geta risið undir þeim. [Undir þetta ritar „Hreppsnefndarmaður“]

Skuld birti 31.október úr skýrslu hreppsnefndar í Landmannahreppi um tjón í aprílveðrinu mikla:

Í því mikla norðanveðri, sem hér varð frekast þann 23. apríl næstliðinn og hélst til þess 6. þ.m., urðu flestar jarðir hér fyrir skemmdum og nokkrar eyðilögðust algjörlega, svo ekki munu fleiri en 8 jarðir yfir hreppinn, sem óskemmdar eiga að heita, en 13 jarðir álitnar óbyggilegar og 20 jarðir stórskemmdar. Það fylgdi einnig að fénaður manna féll þá svo, að sumir efnabændur hafa nú misst því nær allan sinn útifénað (sauðfé og hross) og 7 kúm hefir verið fargað af heyskorti. Í hreppnum verður 10 búendum færri en næstliðið ár en við 3 óbyggilegar jarðir neyðast búendur til að lafa næstkomandi ár.

Þann 31. ágúst birti Fróði bréf úr Skaftafellssýslu dagsett 23. maí:

Miklar hörmungar hafa dunið yfir þessa sýslu í vor. Í fyrrasumar heyjaðist eins og víðar mjög illa, því tún og þurrlendi var óslægt að kalla, svo heyföngin urðu varla helmingur við hið vanalega. Allir lóguðu gripum í haust sem mest að fært þótti, enda komust menn bærilega af út veturinn sjálfan, þó gefa þyrfti flestum gripum meira eða minna. Fullkomnar jarðbannir voru í hálfan mánuð rétt fyrir jólin, og annan hálfan mánuð eftir þrettándann, en nærri allan veturinn voru hríðveður og kraparigningar, sem eyðilögðu skepnur í högum. Menn hefðu þó ekki misst skepnur fjarskalega, ef veðráttan hefði ekki úr páskunum breyst í norðan storma og gadda.

Úr öllu hófi keyrði 26. apríl, þá gekk í kafaldsbyl, sem stóð 8 dægur, svo aldrei var hægt að koma skepnum út úr húsum, en eftir að rofaði upp, máttu heita stöðug norðan rok með 12-14° frosti til 6. þ.m. og hrundu þá hestar og sauðfé niður óttalega. Verst hefir farið í Nesja- og Kleifahrepp, og þó mikið fallið í öllum hreppum sýslunnar. Menn sem áttu um 200-300 kindur, eiga ef til vill enn sumir eftir um 40-50 kindur, eru margir alveg sauðlausir.

Fróði birtir 22.ágúst Vopnafjarðarfréttir dagsettar 27. maí:

Fimm síðustu daga aprílmánaðar var grimmasta kafaldshríð og birti eigi upp fyrri enn 2.þ.m.; var hér þá allt komið í kaf. 7. þ.m. varð fyrst hleypt út á litla hnjóta. 14.-22. var góður bati og tók upp mest allan snjó, en hafísinn rak frá í bráð. Þá gekk aftur í snjóhríð er hélst þangað til í fyrradag, og keyrði hér niður mikinn snjó. Útlitið er nú mjög voðalegt. ...  Hafísinn kom nú aftur fljótlega og fyllti allt inn í fjarðarbotn.

Júní: Mikil ótíð og kuldar nyrðra og jörð hvít um Jónsmessu, skárra syðra.

Fróði segir frá hafís 6. júní:

Hafísinn rak hér að Norðurlandi í áliðnum aprílmánuði, og fyllti þá hvern fjörð og hefir enn eigi rekið út aftur. Hann dreif þá einnig suður með öllu Austurlandi, allt suður að Breiðamerkursandi, en íslaust hefir verið fyrir Vesturlandi, og hann aldrei farið suður fyrir Ísafjarðardjúp. Áður en þessi íshella þakti hafið fyrir öllu Norðurlandi, voru kaupskip komin á Húsavík, á Eyjafjörð, á Sauðárkrók og á Blönduós, eitt á hvern stað, en síðan hefir engu skipi verið fært norðan um land, og öll kaupskipin, sem væntanleg voru á þessar stöðvar munu því vera að hrekjast fyrir sunnan eða vestan land; „Rósa", Gránufélagsskip til Oddeyrar, kom t.a.m. inn á Ísafjörð eigi alls fyrir löngu. Um gufuskip er eigi að tala meðan svona stendur.

Fróði birtir fréttir af Snæfellsnesi þann 20. júlí - bréfið er dagsett 20. júní:

Síðan að ég sendi „Fróða“ seinast fréttapistil hafa megn harðindi dunið yfir Snæfellsskagann, og dæmafár peningsfellir orðið þar. Svo má kalla sem allan marsmánuð yrði aldrei hlé á fannkomum og blotum á víxl, með ofviðrisáhlaupum, einkum þann 9. Innistöður voru því fyrir allan útigangspening, og voru margir orðnir heylausir í mánaðarlokin, og peningur líklega eigi í góðu standi hjá allmörgum. Fyrstu vikuna af aprílmánuði gerði hagstæða hláku, og hefði sú tíð haldist hefðu peningshöld orðið bærileg; en það varð öðru nær; frá þeim 9. apríl til 6. maí voru hvíldarlaust norðan austnorðan harðviðri með blindbyljum (27.- 29. apríl) og hörkufrostum (5-11 gr. R.) sem um hávetur væri; fór fénaður að falla og hross að drepast, eigi fremur af hor og harðrétti, en af lungnabólgu, hjartveiki og þvagteppu, Frá 7. til 22. maí gerði hagstæða veðuráttu, en þá var peningur mjög víða orðinn svo sjúkur og máttvana, að hann gat eigi tekið verulegri bröggun. Unglömb voru skorin eða hrundu niður; þó leit út fyrir nokkra viðrétting; en 23. maí hófst á ný norðan byljir og harðviðri eða kuldastormar allt til 15. þ.m. og hefir nú fyrst í 5 daga verið eðlileg júnímánaðarveðrátta. 

Þjóðólfur birtir enn ótíðarfréttir þann 24. júní:

Í síðasta blaði Þjóðólfs er þess getið, að hér hafi dunið á norðanstormur mikill þann 23. f.m. Stormur þessi stóð hér í tvo daga, en síðan lægri þann 25. en hélst þó við næstu daga á eftir. Frost var hér nokkurt og fjúkslitringur með köflum, en festi aldrei hér, enn upp til sveita kom snjór nokkur. Svo mun verið hafa víðast um land, því úr Skagafirði er oss ritað þann 28., að þá væri þar allstaðar alsnjóa niður í sjó. Úr Borgarfirði hefir frést, að þá hafi komið slíkur snjór og óveður, að sauði marga hafi fennt til bana i Hvítársíðu og Norðurárdal. Þar eru sumir orðnir nær sauðlausir og hrosslausir, og einstaka maður á enga skepnu eftir, t.d. bóndi einn þar efra, er átti 4 kýr lifandi, enn í þessu kasti drápust þær allar. Líkt þessu mun víðar vera, þó eigi hafi til spurst, svo vissa sé á fréttum. 

Júlí: Mikil ótíð og jafnvel hríðar nyrðra, skárra syðra og komu þar nokkrir góðir dagar.

Enn er Þjóðólfur með ótíðar- og ísfréttir þann 13. júlí:

Í 13. tölublaði Þjóðólfs gátum vér þess síðast, að póstskipið Valdemar hefði farið vestur fyrir land og ætlað að reyna að komast norður um. Það komst þá að Horni og lá nokkra daga við ísinn og sneri síðan aftur. Síðast í júní kom póstskipið frá Höfn, og Valdemar að vestan, og voru þau hér bæði samtímis. Síðan fór Valdemar vestur um aftur, og reyndi í öðru sinni að komast norður fyrir, enn það fór á sömu leið. Greip það þá til þeirra ráða, að það setti upp á Ísafirði vörur þær, er fara áttu til norðurlandsins; síðan kom það hingað hinn 9. og fór þegar samdægurs til Seyðisfjarðar.

Með hverri ferð, sem kemur að norðan, er eigi annað að frétta enn hafíshellu upp í hverja vík og hvern ós og sér eigi sjó heldur enn að hann sé engi til. Er þar kvartað um ótingun í fé, enda varð það víða magurt, enn eigi er talað um fjárfelli til muna á fullorðnu, enn unglömb hafa drepist svo, að sumstaðar er sagt að eigi muni verða mjaltað fé í sumar. Sultur er þar og mikill af þessum afleiðingum, sem von er, þar sem engin matbjörg er í kaupstöðum og kýr og ær geldar heima fyrir af fóðurleysi og harðviðrum í vor. Má það heita hin eina björg þar nyrðra, að hvalrekar hinir miklu, sem þar hafa verið, einkum i Miðfirði og á Vatnsnesi (um 40 hvalir), hafa fylgt ísnum, og sannast þar sem oftar, að „drottinn leggur líkn með þraut". Enn aftur hefir orðið örðugt með aðflutninga á honum lengra að, þar eð hestar manna hafa verið magrir og þróttlitlir undan vorinu.

Grasvöxtur hér syðra er talinn í góðu meðallagi á úthaga, því að nú um tíma hefir tíð verið hlý með hægum skúrum og vætum. Á túnum er grasvöxtur minni, enn þó almennt betri enn í fyrra um þetta leyti. Að norðan er að frétta hið aumasta grasleysi, og var undir lok júnímánaðar eigi kominn sauðgróður á úthaga, enn tún að eins orðin grænlitkuð; sumstaðar var eigi farið að vinna á þeim.

Tvö bréf birtust í Skuld þann 5. september:

Eyjafirði 14. júlí. Hér er alla tíð frá páskum allur sjór þakinn hafís, dæmafár kuldi í veðrinu og grasleysi á jörðinni.

Húsavík (Þingeyjarsýslu.) 19. júlí. Sama kalsa- og úrkomutíðin, sem verið hefir í allt vor, helst enn, sem von er, þar sem ísinn nú á ný er orðinn landfastur austur fyrir Flatey og skipaferðir bannaðar af ísalögum fyrir Langanes, þá seinast fréttist fyrir skemmstu. — Mesta bágindaútlit hér í sýslu fyrir sprettuleysi, og enginn hugsar nærri til að bera ljá í jörð enn þá.

Í lok júlí komu nokkrir allgóðir dagar inn til landsins á Norðurlandi, Fróði segir frá 31. júlí (dagsett 29.):

Veðurátta á Norðurlandi hefir verið köld og vætusöm i sumar allt til þess 26. þ.m. þá gekk í suðvestanátt og hefir síðan verið meiri hiti. Hafísinn hefir allt til þessa legið upp við land og inni á fjörðum og hamlað skipaferðum að mestu leyti.

Þann 1.ágúst segir Þjóðólfur frá batnandi tíð syðra:

Nú um tíma hafa verið hér sífeldir þurrkar og hitar og veðurátt hin besta, og lítur hér vel út með grasvöxt. Að austan - úr Árness- og Rangárvallasýslum er að frétta hina bestu tíð, sem hér, enn regnskúrir með köflum, og er sagt þaðan hið besta gras. Jarðirnar, sem spilltust mest af sandfokinu í Rangárvallasýslu eru óðum að batna aftur, og verður þess að líkindum eigi langt að bíða, að þær hafi náð sér til fulls aftur, ef engin ósköp koma fyrir. Úr Borgarfirði eru sagðir sífeldir næðingar af norðri og hræðilega graslaust, einkum þó í Hvítársiðu. Hafa tún brunnið þar til stórskemmda þessa hitadaga, þar sem annars var nokkuð komið upp úr þeim.

Ágúst: Ótíð með regni, sudda og hríðarbyljum nyrðra, skárra en samt votviðrasamt syðra. Mjög kalt.

Þjóðólfur birti 11. september bréf úr „Húnavatnsþingi“ dagsett 12. ágúst:

Héðan er heldur fátt gott að frétta, en nóg af hinu lakara. Tíðarfarið hefir verið hér í Norðurlandi hið versta alla leið síðan í vor um páskaleytið að að ísinn kom og fyllti hverja vík og hvern ós, hér nyrðra. Eftir sumarmálin gekk hér á sífelldum afspyrnu hríðum rúman vikutíma, og svo vóru aftur í vikunni fyrir hvítasunnuna þær voðahríðar, að eigi var ratfært bæja á millum, og gerði það veður mikinn skaða á skepnum, einkum lömbum, og hrundu þau þá niður hundruðum saman. Um og eftir þetta voru og sífeldar hríðar og óveður, og endalausar biksvartar þokur, svo að ekkert sást, og skepnum þeim, sem eftir vóru lifandi og á uppréttum fótum, varð eigi haldið fyrir myrkviðrum.

Allstaðar hér um sveitir varð samt komið nafni á fráfærur, þó sumstaðar væri fátt til að færa frá. Um Jónsmessu var eigi farinn að sjást litur á túnum hér nyrðra, enda er hér enn hræðilegt grasleysi. Víðast hvar var farið að slá í 15. viku sumars, en víða er það fremur viðburðir einir en að nokkuð sé að fá í aðra hönd. Helst er dálítið upp úr harðlendum túnum og harðvelli, en mýrlendi og deiglend tún mjög snögg. Sífelldir óþurrkar, þokur og ísbrækja banna mönnum að sjá sólina tímunum saman, og er það leiðinlegt mjög, auk þess sem töður manna og hin litlu hey hrekjast og ónýtast. Hafísinn hefir allt til þessa legið hér sem hella, og bannað öllum skipum aðgöngu, og hefði það orðið bágindavist fyrir menn, ef eigi hafði hvalurinn verið sendur hingað, og firrt margan mann hungri og hordauða. Nú er farið að losna um hann, og er vonandi, að þess verði eigi langt að bíða að hann fari svo, að skip geti farið að ganga og samgöngur aftur að lifna.

Og í Skuld birtist 5. september bréf úr Skagafirði dagsett 17.ágúst:

Nú þykir mér hörð tíð. Það liggur við, að kalla megi þetta ár sumarslaust enn sem komið er, því að síðan það byrjaði, hafa gengið sífeldir kuldar og norðaustanstormar eða þá rigningar og þokur. Hafíss varð fyrst vart hér á firði eftir norðaustanhríð 27.—30. apríl. Nóttin fyrir 13. maí var in fyrsta frostlausa nótt á sumrinu, kom þá sunnanátt og hláka og tók nokkuð út ísinn þangað til um nóttina fyrir 23. s. m. Þá gekk í stórhríð, er stóð í 3 sólarhringa, og kom hér þá niður meiri snjór, en nokkru sinni kom í vetur, og fyllti fjörðinn þá svo með ís, að hvergi var hægt að smeygja báti með fjörum. Komu þá aftur norðanstormar með hríðaráfellum á hverri viku og frostum á nóttum fram til 16. júní; þá komu blíðir dagar til 20. s.m. og sunnanátt, en svo hæg, að hún verkaði lítið á ísinn; en 21. var komin norðaustan-hríð, er hélst þann dag. Þá komu kyrrviðri, en sífeldar þokur og rigning annað slagið, allt af kalt og oftast meira og minna frost á nóttum til 4. júlí.

Kýr lét ég fyrst út 17. júní, og daginn áður voru þær almennt látnar út hér i sveit. Geldfé mitt lét ég rýja fyrst 26. júní og var um það leyti rúið hér. 4.júlí gekk aftur í norðaustanstormana og var hér vond hríð 6.-7. Héldust þá aftur stormarnir, frostin og þokurnar til 24.júlí. Ég færði frá 11.júlí, en ánna varð varla gætt fyrir þokum. Alla þessa kuldakafla var hitinn um hádag um 4-7° R. 25. júlí kom sunnan- og vestanátt og 10-17° hiti um hádaginn til 1. ágúst, og losaði talsvert um ísinn, þá var besta grastíð þann tíma, og skipti þá mikið um jörðina, því áður var varla nema sauðgróður og túnin hálfhvít.

Annan ágúst var kominn hríðarslitringur og hélst allan þann dag og var versta frost nóttina eftir, svo kom sama blíðan til 7. ág., þá komu aftur norðanstormarnir og þokurnar, og hafa haldist til þessa nema 9. og 10. ágúst. Þá var sunnangola og rak ísinn að mestu út af firðinum, svo að hann tálmar hér nú engu skipi framar. Oss þótti því næsta illt að vita póstskipið fara hér fram hjá 12. þ.m. og koma ekki inn, því að hvorki hér innfjarðar né til hafs, svo langt sem sést af fjöllum, gat því tálmað ís í þetta sinn. Skylda þess mun hafa verið að gá að því, um leið og það fór fram hjá, hvort eigi væri hægt að komast hér inn; en í stað þess, heyrðum vér aðeins eitt skot nóttina fyrir 12. þ.m. Þeir þurftu ekki að tilkynna það með skotum, að þeir brytu lög á oss; þeim var sæmra að gjöra það þegjandi.

Nú í viku hafa verið frost á hverri nóttu að heita má og síðan kl. 3 í fyrradag og þangað til í gœrmorgun mokaði hér niður snjó í logni, svo að eigi var unnið að heyskap frá kl.7 í fyrrakvöld til kl. 5 í gœrdag fyrir snjó, og var hann jafnfallinn í ökkla og mjóalegg.

Fróði segir þann 21. ágúst frá því að á Akureyri hafi hvítnað ofan í sjó þann 18. 

Í Fróða 31. ágúst er bréf úr Þingeyjarsýslu ritað 6. sama mánaðar:

Ég þarf ekki að segja fréttir af veðráttunni í vor, hún hefir verið hér engu síður enn annarsstaðar á landinu einhver hin bágasta, sem elstu menn muna eftir að vorlagi. Af öllu illu er hafísinn okkur hér á norðurströnd landsins hið versta og voðalegasta, þegar hann liggur við á vorin og sumrin, og enginn má lá það, þó við álítum hægra fyrir þá að bjarga sér, sem hafa lengstum auðan sjó. Allar kaupskipaferðir hér norðanlands komast nú á mestu ringulreið, og sjálfsagt má telja, að aðflutningar af nauðsynjavörum verði stórum minni enn vant er. Mörg kaupskip, sem hingað lögðu snemma í vor og áttu að fara 2-3 ferðir landa í milli á sumrinu, eru ókomin enn í dag, þó 16. vika sumars sé komin; þau liggja sum fyrir austan og sum fyrir vestan og enn er ekki að vita hvenær þau komast, því ísinn hefir aldrei á vorinu og það sem af er sumrinu verið þéttari heldur en nú. Útlitið er því hér ekki glæsilegt. Grasvöxtur er að vonum víðast sáralítill.

Ekki var heldur gott hljóð í reykvíkingnum Jónasi Jónassen í ágústpistli hans (Þjóðólfur 23. september):

Í þessum mánuði hefir veður mátt heita stirt og óhagstætt, þar sem framan af rétt daglega var meiri eða minni úrkoma og seinna norðanveður mikil með kulda.

September: Kalt og illviðrasamt, mikil hríðarveður miðað við árstíma. Heyskapur gekk mjög illa.

Hér má skjóta inn frétt um Golfstrauminn sem birtist í Fróða 9. september:

Menn hafa nú tekið eftir því, að hinn svo nefndi Golfstraumur í Atlantshafinu breytir einatt stefnu sinni eða farvegi. Hafstraumur þessi flytur heitt vatn sunnan og vestan úr Mexíkóflóa skáhallt norður og austur yfir hafið og hefir mjög mikil áhrif á loftslag og veðráttufar í vestanverðri norðurálfunni, einkum hinum nyrðri löndum. Í ár hefir straumurinn kastað sér mjög suður á bóginn, og þakka menn þessu hinn milda vetur og vor, sem nú hefir verið suður í löndum. Aftur megum vér Íslendingar sakna þess, að Golfstraumurinn hefir fjarlægst oss, og höfum vér fengið að kenna á afleiðingum þess í vor, þar sem bæði hafið og loftið hefir verið svo óvenjulega kalt. Bæði á Englandi og Frakklandi hafa nú verið settar nefndir vísindamanna til að rannsaka Golfstrauminn til hlítar, og allt sem að honum lýtur. Við vesturströnd Frakklands, einkum við Bretagne, veiðist venjulega mikið af eins konar síld, sardínusíld, og er veiði sú talin að gefa af sér 15 milljónir franka á ári; en í ár hefir veiði þessi brugðist gjörsamlega og er þessari breyting á Golfstraumnum kennt um það.

Þjóðólfur segir frá mánuðinum fram að því þann 23.:

Um næstliðin mánaðamót gjörði þurrviðri nokkra daga um norðurhluta landsins; náðu þá flestir töðum sínum, sem þær áttu úti og víðast nokkru af útheyjum; vestast í Húnavatnssýslu og í Strandasýslu og ef til vill víðar á útkjálkum, fengu menn þó eigi ráðrúm til að hirða töðurnar, áður en votviðri gjörði á ný. Um 10. f.m. gjörði norðanveður með kafaldi og frosti; gjörði þá hnésnjó við Ísafjarðardjúp og þaðan af meira sumstaðar norðanlands; frostið var svo að sagt var að kvíslar af Norðurá sunnanundir Holtavörðuheiði hafi verið riðnar á ís og sömuleiðis Laxá í Dölum fremst; mönnum sem þá voru á ferð í Húnavatnssýslu þótti nauðsynlegt að fá hey handa hestum sínum; snjóinn tók þó innan skamms upp aftur í byggðunum og síðan hefir veðurátt verið svo, að menn munu víðast hvar hafa getað hirt um hey þau er menn áttu úti.

Skuld birti framhaldsfréttir úr Skagafirði dagsettar 19. september í blaðinu 31.október. Þó það sé langt er þar margt athyglisvert - við styttum samt aðeins. Í ljós kemur að bréfritari virðist búa í Sléttuhlíð utan við Hofsós. 

Sumarið er vafalaust ið harðasta á þessari öld og ef til vil þótt lengra væri leitað. Samt hefir verið hart mjög sumarið 1807. Af því að ekki var úti harðindakaflinn, þegar ég ritaði síðast, ætla ég að bæta við lýsing á tíðinni síðar. Þann 21. ág. var snjóhraglandi nokkurn veginn í logni allan dag við og við og eins 22., en 23. var alhvítt og varð eigi slegið fyrr en eftir hádegi. 24.-27 . voru sífelldar þokur og rigningar og norðaustanstormar á víxl og samfara. Alla þessa daga 20.—27. var hitinn 3—4°R. um hádaginn. Þ. 28. var heiðríkt loft og bjartviðri, en austanstormur svo mikill, að vart varð þurrkað eða átt við hey. Hitinn ekki meiri en 6° um hádaginn. 29. þoka f.m., birti svo og gjörði þurrk (höfuðdagur). Margur hafði vonað að um mundi skipta með þessum degi, enda sýndist það ætla að verða, því að daginn eftir var kominn sunnanvindur og skafheiðríkt veður og var góður þurrkur allan daginn, inn fyrsti góði þurrkdagur á slættinum. En nóttina eftir gjörði talsverða rigningu, þó varð þurrkur þann dag eftir kl. 10 f.m. Nú voru hlýir dagar 1.—4. sept. og sunnanátt, en óstöðugt og mjög skúrótt og byljótt, svo nálega var ómögulegt að þurrka hey. 29. ág. til 4. ept. var hiti 8—13°R.

Taðan var hirt hér 2. sept. og varð dálítið meiri en í fyrra. 5. sept. var norðvestanhríð og gróf fannkoma, alhvítnaði ofan undir bæi, en festi lítið í byggð; 4°R. 6.-8. sept, var aðra stundina ofviðri sunnan og vestan aðra stundina logn eða stórrigning. 9. sept var logn um morguninn, ofviðri sunnan kl. 10 f.m. til kl. 1 e.m. Stórrigning sunnan kl. 1—4 e. m. og lygndi, þá logn dálitla stund, en eftir það austanstormur mikill og regnslitringur, 6°R. 10. sept. dreif mikið í logni allan dag; þó hvítnaði ekki fyrr en um kvöldið og frá því, allan 11. sept. og til 12. sept. kl. 10. f.m. var stórhríð norðaustan og keyrði niður ina mestu fönn, svo að allt varð hálfófært fyrir snjó. Inn 12. september gekk ég því á skíðum inn í Hofsós á uppboð, sem þar var haldið á skemmdum mat, og þann dag e.m. og næstu 3 var logn að mestu og bjartviðri. 16 sept. kom þoka e.m. og fjúk í logni um kvöldið. 17. var dimm norðvestanhríð fram yfir miðjan dag en birti þá upp. Í gær var bjartviðri og vestangola og hiti 6° og í dag er líkt veður nema hlýrra, 12°R., og vonum vér þá eftir bata með haustinu. 10.—17. var hiti 2°-6° R.

Af hríðunum öllum hefur orðið minna fram í sveitinni; þó gætti þess einkum þegar mikla hríðin kom 11. þ.m., því að þá gránaði að aðeins fram til sveitarinnar og tók upp í sólbráði samdægurs og hafa menn alltaf getað verið við heyskap þar til þessa, og haft góða tíð til heyskapar nú um stund síðan 11. sept, enda veitti þar eigi af því, því að þar voru eigi allir búnir að ná töðum sínum 12. sept. og litlu sem engu útheyi, því að sumarið hefur jafnvel verið þurrkaminna upp há, en hér út frá til þess tíma, en síðan hafa þeir getað verið við heyskap en við ekki, því að fönn er hér enn eins og um vetur. ...

Nú er að hlána, svo að jörðin er þó orðin flekkótt vel. Kýr hafa staðið hér á gjöf síðan 11.september og er það ærið snemmt. Nú standa göngur yfir og er furða hve lítið hefur fennt, en sorglegt að sjá hvern bónda taka hvert lamb sem hann heimtir af fjallinu óðara og skera það. — Hér hugsar enginn til að geta látið lifa, nema það flesta af kúnum og eitthvað af ám. Í Fljótum er dálítið betra.

Október: Þokkaleg tíð, en nokkuð votviðrasöm. Hlýtt, hlýjasti mánuður ársins í Grímsey og fáeinum stöðvum öðrum.

Þjóðólfur lýsir tíð eftir réttir í pistli 21. október:

Tíðarfarið hefir hér síðan um réttir verið mjög votviðrasamt, svo að það hefir mátt heita að aldrei hafi þurr dagur komið, og eftir því sem frést hefir, hefir það náð eigi aðeins yfir Suðurland heldur og yfir Vesturland og vesturhluta Norðurlands; það hefir því verið ómögulegt að ná heyjum þeim, sem úti voru um réttirnar; á einum bæ í Þinginu í Húnavatnssýslu vitum vér til að eigi var búið að hirða einn bagga af útheyi 10. þ.m. Aftur á móti hafa hlýindi verið i veðrinu og mun því hafa tekið upp snjó þann sem kom um 10. f.m. og sem var svo mikill, að menn voru sumstaðar Norðanlands, t.d. kringum Siglufjörð, farnir að ganga á skíðum bæja á milli og farnir að draga að sér nauðsynjar sínar á sleðum. Það er mjög víða bæði vestanlands og norðan, að hey sem komin voru undir þak hafa stórum skemmst af hita er komið hefir í þau, sumpart af því að þau hafa verið hirt illa þurr og sumpart að þau hafa eigi orðið varin fyrir að drepa í hinum miklu rigningum.

Enn eru tíðarfréttir í Þjóðólfi 6. nóvember - við sleppum því sem þegar er komið fram hér að ofan - því sem sagði um áfallið 11. september. Athyglisvert er að lesa um fækkun fjár með útflutningi - og víðar virðist hafa mátt fækka með því að selja kjöt til útlanda. Fjárhagslegt tjón stórbænda þeirra sem þurftu mjög að fækka fé (en gátu það framtíðarinnar vegna) hefur því verið mun minna en ella hefði orðið - einkennilegt að lítið hefur verið um þetta bjargráð rætt:

Minna varð allt af hretum þessum fram til heiða og jökla. Þ.17. [september] kom þannig hret, svo gerði þúfnafylli af snjó í Húnavatnssýslu austan til með allmiklu frosti (4°R), enn þegar fram á heiðarnar dró hafði varla gránað í rót. Hið síðasta af þessum stærri sumarhretum kom þ. 23. sept. og var þann dag allan nær óratandi hríð og kafald í sumum sveitum nyrðra. Í því hreti fenntu hross í afréttalöndum og fjöllum millum Skagafjarðar og Húnavatnssýslu. Víða munu þá og lömb og annað fé hafa týnt tölunni, enn þó minna enn ella hefði orðið, þar eð göngurnar voru þá öldungis nýafstaðnar. Eftir því sem næst verður komist hafa komið í Norðurlandi 10 eða 11 snjóhret milli Jónsmessu og gangna, og stóðu sum af þeim svo lengi, að menn gátu eigi sinnt neinum störfum 3—4 daga, og það jafnvel lengur í sumum sveitum.

Heyskapur varð þar almennt fjarska lítill, og það lítið sem náðist hraktist mestallt til stórskemmda. Þar verður því almennt stórkostleg fjárfækkun, og það svo, að efnabændur í hinum betri sveitum Húnavatnssýslu, sem átt hafa 2—300 fjár og jafnvel meira, setja eigi á vetur meira enn 50 kindur. Margir láta eigi annað lifa enn kúgildin eða því nær. Við fjárfækkun þessa hefir það mikið hjálpað, að Coghill hefir keypt fé í Húnavatnssýslu svo mörgum þúsundum skiptir, og gefið vel fyrir, eftir því sem fé reynist nú, (17,50 fyrir sauðinn, 15—16 kr. fyrir veturgamalt og tvævett). Fé reynist allstaðar mjög rýrt til skurðar, einkum á mör, enn betur á hold, sumstaðar allt að því í meðallagi. Nú um nokkra daga hefir verið norðankuldi með vægu frosti og snjóað í norðurfjöllin, og er allt útlit fyrir, að illa muni viðra norðurundan.

Fróði birtir heldur skárri fréttir frá Akureyri 17. október:

Akureyri, 14.október. Haustveðurátta hefir mátt heita fremur góð. Kuldar og úrkomur miklar hafa þó verið að öðru hvoru, en sunnanátt og hlýindi á milli, einkum hefir sunnanátt og góðviðri verið stöðug það sem af er þessum mánuði. Kartöpluvöxtur hefir algjörlega brugðist í sumar, og enginn hefir einu sinni reynt að taka upp, og eru þess ekki dæmi hér. Að meðaltali hafa Akureyrarmenn fengið um 500 tunnur af kartöplum nokkur undanfarin ár, og er því þessi uppskerubrestur tilfinnanlegur fyrir jafnlítið bæjarfélag og Akureyri er; því nær eins mikil fyrirhöfn hefir verið við garðana í sumar og vant er, þó ekkert hafi sprottið.

Jónas lýsir októberveðri í Reykjavík í Þjóðólfi 9.nóvember:

Í þessum mánuði hefir veður verið óvenjulega hlýtt og oftast blásið frá landsuðri; rigningar hafa verið fjarska miklar, um tíma mátti kalla að rigndi stöðugt dag og nótt.

Hluti af bréfi úr Skagafirði sem birtist í Skuld 30. nóvember:

[Þá] kom inn besti kafli, sem komið hefir á sumrinu, því að 6. okt.—21. okt. var sífelld sunnan- og landaustan átt og alltaf þurrviðri, og fremur stillt veður, og hiti 6—13°R um daga og frostlausar nætur. 

Norðanfari birti 21.desember bréf úr Fljótsdalshéraði dagsett 25.nóvember. Þar lítum við á eftirfarandi kafla:

Síðari hluta október og það sem af er þessum mánuði, hafa verið ákafar úrkomur, mjög oft rigning eða krapahríð í byggðum en snjókoma á fjöllum. Þó er nú snjófall yfir allt, en lítið frost. Þann 20. október var hér eystra svo mikil rigning, að fáir muna meiri. Hljóp þá skriða á Liverpool í Seyðisfirði, klauf hún sig um húsið, en gjörði þó ekki mikinn skaða.

Nóvember: Fannkoma víða norðanlands eftir miðjan mánuð, en tíð var talin góð syðra.

Fróði birti 13.janúar 1883 fréttir frá Ísafirði dagsettar 8.nóvember:

Tíðarfarið hér á Vestfjörðum má kalla að á seinastliðnu sumri hafi verið ágætt í samanburði við hjá ykkur Norðurbúum; því ísinn varð aldrei landfastur fyrir vestan Horn, en hákarlaskútum varð hann þó slæmur þröskuldur. Grasbrestur má heita að hafi orðið víðast hvar hér vestra, svo heybirgðir eru mjög litlar; skurðarfé fékkst því nóg í haust, þrátt fyrir þann sauðpenings missi, sem varð hér seinastliðið vor. Lömb dóu þá nærfellt öll víðast hvar hér um sveitir. Tvær sveitir hér í sýslu eru mjög bágstaddar, og ættu sannarlega ekki að verða útundan við útbýtingu þeirra gjafa, er okkar erlendu velgjörarar hafa gefið. Þessar sveitir eru Sléttuhreppur og Grunnavíkurhreppur. Það eru þó sérstaklega norðausturpartar þessara sveita sem bágstaddir eru, því þar — fyrir Ströndum — lá ísinn allt sumarið, og búendum því gjörsamlega allar bjargir bannaðar. Fugltekja hefir áður árlega verið talsverð, nú engin.

Jónas segir frá veðráttu í Reykjavík í nóvember í Þjóðólfspistli 22. desember:

Í þessum mánuði hefir verið fremur óstöðugt og fremur kalt. Snjór hefir fallið hér fremur litill; aðfaranótt hins 6. féll hér fyrsti snjór og gjörði alhvítt.

Fróði birti þann 19.desember frétt frá Akureyri dagsetta þann 15. sama mánaðar:

Af veðráttu er það að segja að frá 18.—26. f.m. féll hér mikill snjór, en þó enn meiri austur um Þingeyjarsýslu. Fyrst í þessum mánuði (desember) hlánaði svo snjórinn þéttist og varð að hjarni er frysti. Frost hefir þó ekki verið mikið eða langvarandi.

Desember: Góð tíð syðra, nokkuð snjóasamt um landið austanvert.

Suðri birti 3.febrúar 1883 bréf úr Vatnsdal dagsett 14. janúar þar sem kemur fram að harður kafli hafi komið um jólin. Í sama blaði eru einnig fréttir úr Eyjafirði: „Haustið mjög gott og tíð fram að jólaföstu; breyttist þá nokkuð tíð, snjóaði töluvert og gerði áfreða mikla, svo að jarðskarpt varð“. Úr Þingeyjarsýslu: „Um jólin spilltist tíðin, sem að undan förnu hafði verið mjög væg og stillt, að vísu aldrei hlákur en frostlítið (mest 10 stig á Reaumur) og stundum norðanrigningar svo að snjó leysti. En úr sólstöðum kom mikill snjór, svo að lítið notaðist jörð“. Einnig kemur fram í pistli að tíð hafi verið óhagstæð undir lok ársins í Múlasýslum, allur peningur tekinn á gjöf fyrir jólaföstu í Dýrafirði en tíð hafi verið hagstæð suðvestanlands.

ar_1882_akureyri

Línuritið sýnir hita á Akureyri kl.15 allt árið 1882. Sumarkuldinn er átakanlegur. Síðustu tíu árin (2008 til 2017) hefur meðalhiti kl.15 verið 13,5 stig í júlímánuði á Akureyri, var 8,2 stig í júlí 1882. Í ágúst var hann ekki nema 5,9 stig, en var 13,2 í ágúst síðustu tíu árin. Munar 7,3 stigum. Sólarhringsmeðalhitinn í ágúst var 4,1 stig á Akureyri. Mánaðameðaltöl annarra stöðva má sjá í viðhenginu. En stöku dagar sýndu sig á Akureyri þegar von virtist um eitthvað skárra. Hlýjast var 20.maí, eitthvað virtist vera að snúast til betri vegar - en þann 23. var aftur komið frost. Veðurathugunarmaður segir frá mikilli snjókomu 18. og 22.ágúst. 

ar_1882_hrisar

Ís var nær allt sumarið á Eyjafirði - og þar með var veðurstöðin á Akureyri í beinum tengslum við það loft sem yfir honum lá. Þetta sumar var einnig mælt á Hrísum, langt frammi í Eyjafjarðardal þar sem Davíð Ketilsson athugunarmaður bjó um þær mundir. Davíð mældi um allmargra ára skeið fyrir dönsku veðurstofuna, á Hrísum, síðan á Núpufelli og loks á Grund. Á síðastefnda staðnum starfaði hann við verslun sem þar var en hætti athugunum er hann gerðist verslunarmaður á Akureyri - og síðar sóknarnefndarformaður. 

Hrísar eru lengra frá hafísnum. Sleppa auðvitað ekki við kalda norðanáttardaga frekar en Akureyri, en á hægum dögum tókst sól stundum að blanda grunnstæðu hafísloftinu upp og sömuleiðis hefur væg sunnanátt átt auðveldara með að athafna fram í firðinum heldur en á Akureyri. Alla vega var meðalhiti kl.15 í júlí 1882 11,1 stig á Hrísum, nærri þrem stigum hærri heldur en á Akureyri, og munar um minna. Hiti fór þrisvar yfir 20 stig þarna inni í firðinum þetta sumar og eiginlegir sumardagar mun fleiri en almennt á Norðurlandi. Sama virðist hafa verið uppi á teningnum í efri byggðum Þingeyjarsýslu. Fáeinir hlýir dagar komu t.d. á Grímsstöðum á Fjöllum þetta sumar. 

Í ágúst var norðanáttin ákveðnari en í júlí og þá var meðalhiti kl.15 á Hrísum ekki nema 7,9 stig, sem er þó 2 stigum hærra en á Akureyri á sama tíma. Dægursveifla er stærri á Hrísum heldur en á Akureyri og þar voru nætur jafnvel kaldari en á Akureyri.

Við eigum ekki athuganir frá innsveitum Skagafjarðar, né úr dölum Húnavatnssýslu þetta sumar, en líkur eru á að þau svæði hafi einhverja góða daga fengið, þó líkur séu minni á slíku heldur en austar. Sérlega kalt var á Ströndum, á Skagaströnd og á Siglufirði, meðalhiti hlýjasta mánaðar sumarsins náði þar hvergi 5 stigum. En komst að vísu í 5,1 stig í Kjörvogi í október og varð það hlýjasti mánuður ársins. 

„Hitarnir“ syðra um sumarið sem blöð minnast á voru ekki miklir. Ekki fréttist af því að hiti færi yfir 20 stig á sunnlenskum veðurstöðvum. Að vísu var Séra Valdimar Briem í Hrepphólum á einhverju ferðalagi megnið af júlímánuði þannig að athuganir féllu þar niður á meðan. Kannski Valdimar hafi farið á fund í sálmabókarnefndinni - en hann þótti tregur til að sækja fundi þar þó afspyrnuduglegur væri hann við sálmaskáldskap og þýðingar. 

Eins og fram kom í fréttapistlunum voru apríl- og maíhretin mjög slæm austanfjalls. Peter Nielsen athugunarmaður á Eyrarbakka segir frá því þann 18. maí að hann hafi frétt að hafís hafi komist til Vestmannaeyja að austan. Á Eyrarbakka komu eins og annars staðar fáeinir hlýir dagar um 20. maí. Hiti á Bakkanum komst þá hæst í 19,5 stig þann 21. Áttin var þá stundina úr norðnorðaustri og Nielsen segir að svo hár hiti sé óvenjulegur í þeirri átt þar um slóðir - en vindur var hægur. Hann segir að mistur hafi verið mikið og kallar „vulkanluft“, eldmistur. 

Snjór féll á Eyrarbakka 9. júní, en festi ekki. Rétt hugsanlegt er að hámarkshiti hafi náð 20 stigum á Eyrarbakka 9. júlí, en mælir sýndi þá 19,5 stig kl.15. Nokkuð var um jarðskjálfta á Eyrarbakka, bæði í mars, júní, júlí og september. Allmargir þurrir dagar komu í júlí, en síðan rigndi nær daglega frá þeim 26. til og með 17. ágúst. Hiti á athugunartímum náði ekki 15 stigum á Eyrarbakka í ágúst. Hrím var á jörðu að morgni þess 3. í björtu og fögru veðri. 

Lýkur hér umfjöllun um hið harða ár 1882 - í bili að minnsta kosti.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vestanloftið hörfar (væntanlega) á ný

Að undanförnu hefur vestanloft nokkrum sinnum sótt í átt til landsins en þurft að láta undan síga. Veðurnörd hafa með nokkurri ánægju fylgst með þessum (hæglátu) átökum. Nú er þetta að gerast rétt einu sinni. Kuldaskil koma úr vestri - ná kannski inn á landið um stund en hörfa svo aftur til vesturs. 

Spár gera í augnablikinu (að kvöldi 11. apríl) ráð fyrir því að skilin nái sinni austustu stöðu í fyrramálið (fimmtudag) - en harmonie-spárnar tvær fara mislangt með þau.

Lítum fyrst á dönsku harmonie-iga spána. Kortið gildir kl.11 á fimmtudag - skilin þá í sinni austustu stöðu að mati líkansins.

w-blogg110418a

Austan skilanna er ákveðin sunnan- og suðaustanátt, en mjög hæg norðvestlæg átt vestan þeirra. Líkanið segir skilin ná inn á vesturhluta Reykjavíkur áður en þau fara að hörfa aftur til vesturs. Auk munar í vindátt og vindhraða munar líka nokkru í hita lofts austan og vestan skila. 

Harmonie-líkan Veðurstofunnar er nærri því sammála - en ekki alveg.

w-blogg110418b

Hér eru skilin líka í sinni austustu stöðu - en ná aðeins að Strandarheiði áður en þau hörfa aftur til vesturs - og hér er klukkan 10. 

Í reynd er þetta sáralítill munur - en skemmtilegur samt. Vestanloftið mun gera enn eina tilraunina á laugardaginn - hvernig skyldi fara þá?


Af árinu 1749

Nú förum við svo langt aftur að lítið er um tíðarfarsupplýsingar að hafa nema úr annálum. Þeir ná allnokkrir til þessa árs og gefa hugmynd um hvernig veðri var háttað. En árið er merkilegt í sögu veðurathugana á Íslandi fyrir þá sök að þá hófust í fyrsta sinn daglegar mælingar á hita og loftþrýstingi. Þær gerði sérlegur útsendari vísindafélagsins danska, Niels Horrebow allþekktur maður á sinni tíð. 

Jón Eyþórsson fjallar um þennan merkilega áfanga í tímaritinu Veðrinu (1. árgangi 1956, s.27). Þar má lesa um ýmsa vankanta á mælingunum - nokkra óvissu um kvörðun hitamælis, athugunartímar eru óljósir auk þess sem hitamælir hékk lengst af inni í óupphituðu húsi - en ekki utandyra. 

Horrobow fer fögrum orðum um veðurfar á Íslandi og víst er að mælingar hans hröktu ýmsar eldri bábiljur um það. Hann mældi nánast samfellt frá 1. ágúst 1749 fram í júlí 1751. Síðasta mæling 30. júlí. Jón Eyþórsson segir (og vitnar líka í Horrebow):

Með hitamælingum sinum verður hann fyrstur manna til að sýna og sanna, að veðrátta á íslandi er hvergi nærri svo köld eða landið svo óbyggilegt sem orð fór af. Veturinn er umhleypingasamur, ýmist frost eða þíða — alveg eins og i Kaupmannahöfn. Sumarið sé, sem vænta mátti, nokkru kaldara en i Danmörku, en mismunur þó minni en margur mundi ætla. Helsti munur á veðurlaginu sé sá, að kuldar haldist lengur fram á vorið á Íslandi. Bæði árin hafi gengið á með frostum fram í miðjan apríl, og 15. maí 1751 hafi jafnvel myndast hálfs þumlungs þykkur klaki á pollum yfir nóttina. Hitabreytingar eru ekki eins stórstígar á Íslandi og í Danmörku. En það ætti að vera kostur, því að „hóf er best l hverjum hlut." Höf. segir, að veðráttan á Íslandi hafi átt vel við sig, enda svipi henni miklu meira til veðráttu á Norðurlöndum en á Grænlandi, þvert á móti því, sem flestir mundu halda.

Síðan reiknar Jón mánaðameðaltöl, ber saman við meðalhita í Reykjavík 1901 til 1930- og segir að lokum:

Þessi samanburður sýnir, að öll mánaðameðaltölin geta vel staðist, en vitanlega eru þau ekki örugg, þar sem athuganatíminn er á reiki og ekkert vitað með vissu um nákvæmni hitamælis. Sennilega ætti að lækka öll meðaltölin um 0,5-0,8 stig.

arid_1749-horrebow

Myndin sýnir hita- og loftþrýsting á Bessastöðum síðari hluta árs 1749. Haustið gengur nokkuð eðlilega fyrir sig. Höfum í huga að hitamælirinn er meira varinn en sagt er fyrir um nú á dögum. Saga Reaumur-hitakvarða og mæla er afskaplega skrautleg svo ekki sé meira sagt - og hvorki komst fastur skikkur á kvarða né mælana sjálfa fyrr en um 1770. Ýmsar aðrar gerðir mæla voru örugglega áreiðanlegri á þessum tíma t.d. Fahrenheitmælarnir. 

Þann 3. september segir Horrebow frá miklu hvassviðri skall á um kvöldið og stóð alla nóttina. Aðfaranótt 9. september frysti - segir hann í athugasemd. Við sjáum á línuritinu að einnig hefur verið kalt að deginum. Í kringum fyrsta vetrardag kólnaði talsvert og snjókomu fyrst getið 30. október. Kaldast varð svo um miðjan desember. 

Á Þorláksmessu getur hann almyrkva á tungli - á sama tíma stóð norðurljósasýning yfir. Oft er norðurljósa reyndar getið. Jólaveðrið var gott - blés nokkuð á jóladag, en síðan komu nokkrir léttskýjaðir, hægir og mildir dagar. 

En við skulum athuga hvernig annálar lýsa tíðarfari ársins 1749. 

Sauðlauksdalsannáll er knappur:

Árferði á Íslandi í meðallagi. 

Vetur frá jólum byrjaðist góður. Gjörði skorpu frá geisladegi til góu. Batnaði þá og varð gott. Sá vetur var allur, bæði fyrir og eftir jól, með iðulegum vindum á austan og landsunnan, en sjaldan af öðrum áttum. [Ölfusvatnsannáll]

Frost og kuldar frá nýja árinu og allt til þorraloka. Ekki varð róið vestan Jökul allan þorra út fyrir ísalögum og norðanstormum. Jarðbönn beggja megin Jökulsins það í frekara lagi verið hafði í 40 ár. ... Hlánaði með góunni og tók víðast upp jörð nálægt. ... Hafís rak inn á þorranum fyrir norðan land; honum fylgdi í mesta máta viðarreki, því að kuldar með frostum og hörkum voru allan þorrann út, en með góu (s599) batnaði nokkuð og hlánaði, en best með einmánuði, og bærileg veðurátta var fram til krossmessu. [Grímsstaðaannáll]

Þorri var einn hinn harðasti norðan lands, með hríðum, snjóum og jarðbönnum. Kom ís. Gekk hrossafellir víða, fjár- og nautaskurður. [Höskuldsstaðaannáll]

Byrjaðist árið, so sem hið fyrra endaði, með stórum óveðrum og snjóföllum, so varla mundu menn slíkt. Féll þá fjöldi hrossa í hungri og hor, líka (s20) lógað fjölda sauðfjár af heyjum. Létti ei þessum harðindum fyrr en í miðgóu. Þá þiðnaði fyrst. [Íslands árbók]

... ok gjörði síðan hinn mesta harðinda vetur, svo at hestar féllu af hungri ok megurð víða um land, ok sauðfénadi var lógat 20 eða 30 á bæ; var það þó mest fyrir sunnan ok austan; þó getur eigi Doktor Hannes biskup þess vetrar sérílagi, en Þorsteinn prófastur Ketilsson víkur á, at þau ár hafi allhart verið austur ok norður; létti nokkuð ok hlánaði í fyrstu viku gói. Víða urðu menn þá úti í hríðum, og skip fórust. [Espólín] 

Þetta ár byrjaði eins og hitt endaði með óveðrum, snjó og harðindum svo menn mundu varla slíkt. Þorri var einn hinn harðasti norðanlands með hríðum, snjóum og jarðbönnum. Kom ís. Stærri harðindi syðra og eystra. Með góu hlánaði og batnaði veðrátta. [Djáknaannálar]

Jón (eldri) Jónsson á Möðrufelli segir (heldur ritstjórinn, en er illa læs á texta hans) að frá góukomu hafi gengið stöðug blíðviðri. 

Um afgang ársins segja annálarnir:

Vorið var kalt, vott og vindasamt til imbrisviku, batnaði þá með trinitatissunnudegi [1. júní] og varð mikið gott, bæði til lands og sjávar, svo sumarið var eitt af þeim bestu. Haustið vott og vindasamt með rosaveðráttu. ... Vetur til jóla var einn hin besti. [Ölfusvatnsannáll]

Vorið í betra lagi. (s488) ... Sumarið var, líka haustið, óstöðugt að veðuráttu. Fjúksamt undir og um jól. (s489) [Höskuldsstaðaannáll]

Vorið viðraði alls staðar vel. (s21) Þetta sumar var graslítið og ill nýting heyjanna sakir votviðra. (s22) [Íslands árbók]

Þá var vorveðrátta allgóð á landi hér, ok fiskafli vestra ok syðra, varð þó bæði grasbrestur ok nýttist illa síðan. [Espólín] 

Vorið í besta lagi um allt land; sumar óstöðug, féll því báglega heyskapur bæði vegna grasbrests og votviðra. Haust óstöðugt og fjúkasamt undir og um jól. [Djáknaannálar] 

Á Jóni á Möðrufelli er helst að skilja að vorhret hafi ekki hnekkt gróðri nema tvisvar, en frá miðju sumri til Mikaelsmessu (28. september) hafi tíð verið votsöm og höstug, málnytjar daufar. Eftir það öndvegi fram undir jól. Óþrif hafi verið í skepnum og mjólkurbrestur af þrárigndu heyi og léttgæfu sem kveikti maðka í fénaði. Hey hafi hrakist á Suðurlandi. - En takið lestur ritstjórans ekki of bókstaflega. 

Að venju er allnokkuð um slys, einkum á sjó og fáeinir urðu úti. 

Grímsstaðaannáll segir allítarlega frá óhöppum þar í grennd:

Þann 14. Februarii brotnaði skip í Beruvík af þeirri orsök: Þar reru tvennir um morguninn og gerði stórviðri norðan með hinu mesta kafaldi; komust aðrir upp undir Stórueyri, hleyptu þar upp til skipbrots, komust allir með lífi á land. ... Aðrir lentu heima, þar langt austan lendinguna; var hjálpað af mönnum, bæði þeim og skipinu, lítt eður ekki brotnu. ... Þennan sama dag voru 2 menn sendir með fé frá ... Ingjaldshóli, var nær 20 annars hundraðs, fengu stórviðri með kafaldi, hröktust svo bæði féð og mennirnir. Þriðji maðurinn bættist við frá Beruvík, misstu frá sér allt féð, ... ; fundust daginn eftir 30 sauðir lifandi, en yfir 100 hraktist út í sjó ...

Í þessari sömu viku tók sjórinn allt féð á Grímsstöðum í Breiðuvík [annálshöfundur bjó þá þar]. Tveir menn fóru að vitja þess, þá kafaldið var komið, komust í bólið og lá(gu) þar fram (s598) á nóttina, en fundu engan sauðinn; komu heim á sömu nótt nærri dauðir, en féð fór allt, sem fyrr segir, út í sjó, nema fáeinir sauðir. 17. Februarii, nær í sömu viku, varð skiptapi í Dritvík, þar í lendingunni, í norðan stórbrimi. ... Þar dóu 7 menn, en 2 komust af. Fimm skip önnur voru þar ei að komin; þorðu engir af þeim að lenda, því þá var komið fellibrim, og voru sumir þeirra á legunni, þegar fyrr á minnst skip forgekk, andæfðu svo um nóttina framundan Djúpalónssandi, en reru þó fyrst austur undir eyjar; var þar stórviðri austan fyrir. Lentu svo í Dritvík um morguninn, og tókst öllum vel. Hlánaði með góunni og tók víðast upp jörð nálægt. ... Tveir menn urðu úti í Breiðafjarðardölum og kólu til dauðs og aðrir tveir urðu úti heim í hreppum; annar fór frá Miklaholtskirkju, ... hinn varð úti á Laxárbakka með fé sínu ...

Espólín segir frá nokkrum óhöppum:

Þrjár konur urðu úti í Fellum í Ássókn, er þær fóru heim frá kirkju, en fjórðu aldraða kól til skaða; maður varð úti á Ströndum norður, annar í Borgarfirði, einn í Breiðdal, tveir drukknuðu eystra, og einn hrapaði.

Djáknaannálar segja einfaldlega að margir menn hafi orðið úti í hríðviðrum hér og hvar um landið. 

Djáknaannálar segja einnig frá jarðskjálftum og geta einnig um orm í Kleifarvatni:

Skeði jarðskjálfti, sem einkum varð að skaða í Ölvesi, jafnvel þó vart yrði við hann í Borgarfirði, svo Skrifla, sem er hver í Reykholtsdal, minnkaði og kældist. Bærinn Hjalli ásamt kirkjunni sökk 2ja álna djúpt í jörðina. (s 73).

Sáu karlar og konur, sem voru að heyverki við Kleifarvatn, mikinn orm, sem skreið upp úr vatninu á eitt rif, sem lá fram í vatnið, og var það hér um 2 stundir til þess hann fór fram í það aftur. Enginn þorði nærri honum að koma. Þessi ormur sást oft, stór sem meðal hvalur, 30 til 40 ál(na) langur. (s 73).

Vonandi eru einhverjir eftir lesturinn einhverju nær um veðurlag ársins 1749 - annálar ekki alveg sammála í smáatriðum enda sjónarhorn og ritunartími misjafn. 

Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir tölvusetningu flestra annálanna og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir tölvusetningu árbóka Espólíns (ritstjóri hnikaði stafsetningu til nútímaháttar). 


Um fyrstu tíu daga aprílmánaðar

Nú er þriðjungur aprílmánaðar liðinn. Meðalhiti fyrstu tíu dagana er 1,9 stig í Reykjavík, +0,2 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1961-1990, en -1,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er því í 13.hlýjasta sæti á öldinni (af 18), en í 73. sæti í 144-ára listanum. Það eru sömu dagar 1926 sem eru efstir á þeim lista, meðalhiti +6,6 stig, en kaldastir voru þeir 1886, meðalhiti -4,5 stig.

Á Akureyri er meðalhiti mánaðarins það sem af er -1,0 stig, -1,4 stigum neðan meðallags 1961-1990, en -3,0 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Nokkuð kalt, en þó er vitað um 17 kaldari aprílupphöf á Akureyri síðustu 83 árin. Kaldast 1961. Þá var meðalhiti sömu daga -6,1 stig.

Úrkoma hefur aðeins mælst 4,9 mm það sem af er mánuði í Reykjavík, um fimmtungur meðalúrkomu, en 16 mm á Akureyri og er það umfram meðallag.

Hiti er alls staðar undir meðallagi síðustu tíu ára á landinu, minnst er vikið á Hornbjargsvita -0,6 stig, en mest á Brúarjökli og við Kárahnjúka, -5,4 stig.

Tvö ný dægurlandslágmarksmet hafa verið sett í mánuðinum. Þann 5. mældist frostið á Brúarjökli -20,7 stig, hafði mest mælst -18,9 stig áður þennan dag, og þann 6. mældist frostið -22,8 stig, hafði mest mælst -22,3 stig áður þennan dag, í Grímsey 1968 (stendur sú tala enn sem byggðarlágmark dagsins).


Nú andar suðrið (vonandi)

Talsvert hlýindahljóð er nú í reiknimiðstöðvum (hvað sem það svo endist) og líkur á að næstu tíu dagar verði nokkru hlýrri hér á landi en verið hefur að undanförnu. Ekki eru þau hlýindi þó alveg eindregin. Hita er spáð vel yfir meðallagi þessa viku og kortið hér að neðan sýnir hugmynd evrópureiknimiðstöðvarinnar um þá næstu, dagana 16. til 22. apríl. 

w-blog100418a

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins vikuna þá. Háloftaáttin greinilega suðlæg. Þykktin er sýnd sem daufar strikalínur, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Litir sýna vik þykktarinnar frá meðallagi árstímans. Megnið af Íslandi er í litabili sem sýnir þykkt 80 til 100 metra yfir meðallagi, það eru 4 til 5 stig ofan meðallags. Í mannheimum verða vikin að vísu varla svo stór - talsverður varmi fer í að takast á við bráðnandi snjó og jarðklaka - auk þess sem uppgufun tekur sitt. 

En fái vindar að blása eitthvað og sól að skína getur hiti að deginum alveg farið vel upp fyrir 10 stig - það þykir gott á þessum árstíma. - Það er því vonandi að við fáum að sjá góða vordaga - en sumardagar láta væntanlega eitthvað bíða eftir sér eins og venjulega. 

Sumardaginn fyrsta ber upp á 19. apríl í ár - hvort hlýindin endast eitthvað fram yfir hann skal ósagt látið. 


Af árinu 1916

Árið 1916 var í heild sinni talið hagstætt hvað tíðarfar varðar, en þó ekki vandræðalaust. Fleiri slæm illviðri gerði heldur en árið áður - óvenjumikið bar á tjóni af völdum ágangs sjávar. 

Desember var að tiltölu langkaldasti mánuður ársins en einnig var kalt í mars, apríl og maí. Júlí var hlýjastur að tiltölu. Hiti var einnig yfir meðallagi í janúar, júní, ágúst og október. 

Hæsti hiti ársins mældist 25,4 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 4. júlí, en mest frost -25,0 stig í Möðrudal 2. mars. Norðaustan- og austanlands komu allmargir mjög hlýir dagar þegar hiti komst yfir 20 stig. Óvenjulegur er t.d. 22,1 stigs hiti í Papey þann 13. júní. 

Ritstjóranetið sem veiðir kalda og hlýja daga í Reykjavík fann fáa slíka á árinu 1916, engan hlýjan, en aðeins tvo kalda, 17. febrúar og 28. mars. Í Stykkishólmi fannst einn óvenjuhlýr dagur, 12. ágúst. Þá komst hiti þar í meir en 20 stig sem er óvenjulegt. Einn kaldur dagur fannst líka, 22. desember. 

Níu óvenjusólríkir dagar voru í maí á Vífilsstöðum, allir fyrir miðjan mánuðinn. Sömuleiðis voru fjórir óvenjusólríkir dagar í júlí, sá 1. og síðan þrír dagar í röð, 8. til 10. Skömmu síðar brá til rigninga. 

Mars, júní og desember teljast óvenjuþurrir á landsvísu, en janúar var óvenjuúrkomusamur um landið sunnanvert. Austlægar áttir voru óvenjuþrálátar í nóvember, en suðlægar í júlí. Meðalloftþrýstingur marsmánaðar var óvenjuhár.

Níu dagar ársins eru með á stormdagalista ritstjóra hungurdiska, 23. janúar, en þá fór sérlega djúp lægð yfir landið og blés af ýmsum áttum. Mikið sunnanveður gerði þann 30. janúar og síðan þriggja sólarhringa norðanveður dagana 24. til 26. mars. Aðrir stormdagar voru 22. apríl, 17. september, 18. október og 21. desember. Illviðri voru mun fleiri eins og sjá má í umfjölluninni hér að neðan. 

Sólarhringsúrkoma var sérlega mikil á Teigarhorni dagana 12. og 13. ágúst (mæling að morgni). Samtals 199,5 mm þessa tvo daga. Ekki ótrúlegt að einhvers staðar hafi flætt eða skriður fallið - engar fréttir eru þó af slíku. 

Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar (meðalhita og úrkomu á veðurstöðvum og fleira) í viðhenginu. 

Þorsteinn Gíslason ritar yfirlit um tíðarfar í Skírni 1917:

Árið 1916 hefir verið gróðaár fyrir landið í heild sinni, en vorharðindi krepptu mjög að norðan lands og austan og óþurrkar að sumrinu spilltu heyjaafla manna almennt sunnan lands. Veturinn var einmuna góður sunnanlands og frostalítill. Norðanlands var hann einnig góður fram í febrúar, en úr því gerði snjókomur miklar, og kvað þó einkum að þeim í mars og frameftir apríl. Lá þá óvenjulegur gaddur yfir Norðurlandi og Austurlandi, sem eigi hvarf fyrr en kom fram í júní. Um miðjan júní var jafnvel sagt að fé mætti ekki vera gjaflaust sumstaðar. Er þetta talið harðasta vor, sem menn muna á norðausturhluta landsins. Hafís kom þó ekki að landinu til neinna muna, aðeins hröngl, sem ekki hamlaði skipaferðum. Fénaðinum björguðu menn með kornmatarkaupum, svo að óvíða varð fellir, þótt heyin hrykkju ekki. Mikið tjón varð samt víða af lambadauða, sem stafaði af vorharðindunum. Sunnanlands var vorið allgott, en þurrviðrasamt, og greri jörð því seint.

Um og eftir miðjan júlí byrjaði sláttur á Suðurlandi. Í Reykjavík voru þó tún slegin nokkru fyrr. En þá kom sex vikna óþurrkakafli og stórskemmdust töður manna um alt Suðurland og Borgarfjarðarhérað og úthey sömuleiðis. Norðanlands, austan og vestan, var sumarið betra, sumstaðar gott, og grasspretta sæmileg. Var heyfengur manna þó yfirleitt talinn í lakara meðallagi. Grasmaðkur gerði mikið tjón í Skaftafellssýslum. Haustið var gott um allt land; unnið að jarðabótum í Reykjavík fram í byrjun nóvembermánaðar, og aftur síðari hluta þess mánaðar. Fyrir árslokin snjóaði töluvert sunnanlands, svo að jarðlaust varð í uppsveitum Árnessýslu og Rangárvallasýslu í byrjun jólaföstu og hélst svo fram til áramóta. Á Austfjörðum og norðausturhluta landsins hafði og komið mikill snjór í lok ársins.

Leitum nú aðstoðar blaðafregna. 

Janúar: Góð tíð framan af, en síðan stormasamt og víða talsverður snjór. Fremur hlýtt.

Fyrstu dagar ársins voru hagstæðir um landið sunnan- og vestanvert. Morgunblaðið segir frá þann 4.:

Fífill útsprunginn fannst á Stjórnarráðsblettinum á nýársdag. Það mun vera sjaldgæft hér á landi um áramót. Tún hér græn sem á vordegi.

Fréttir birta þann 6. janúar pistla „frá Þingvallavatni“ og úr Biskupstungum:

Frá Þingvallavatni. Ágætis tíð má heita hér. Í Þingvallasveit er alauð jörð allt upp undir Skjaldbreiðarrætur, en aftur er óvenjumikill snjór í Uppgrafningi og hagalaust, gera það lognin. Þingvallavatn hefir ekki lagt enn, nema einstaka vík, sem hefir brotið upp af þegar gola hefir komið. Biskupstungum í dag: Veðrið er hér svo gott að elstu menn muna ekki slíka tíð.

Eitthvað órólegra var eystra ef trúa má Austra þann 8.:

Tíðarfar hefir verið umhleypingasamt hér undanfarið. Ýmist krapahríðir og rigningar eða bjartviðri og frost. Snjór venju fremur lítill. Á gamlárskvöld var svo áköf rigning að varla var fært milli húsa.

Á þrettándanum varð hörmulegt slys á Vaðlaheiði þegar tvö ungmenni urðu þar úti. Fréttir segja frá þann 8. [taka ber fram að ekki eru allir fréttamiðlar sammála um smáatriði atburðanna]:

Tveir karlmenn og þrjár stúlkur lögðu í gærmorgun upp á Vaðlaheiði frá Illugastöðum í Fnjóskadal og ætluðu hingað [til Akureyrar]. Voru karlmennirnir Júlíus Kristjánsson héðan úr bænum og Árni Jóhannsson frá Brunná, hér innan við bæinn, en stúlkurnar voru Hólmfríður Jóhannsdóttir og Kristín Jóhannsdóttir frá Brunná, systur Árna. Þetta fólk hafði farið í kynnisför um jólin að Illugastöðum til frændfólks síns þar, og nú er það hélt heimleiðis var í förinni þriðja stúlkan, er hét Jóhanna Vilhjálmsdóttir og var frá Illugastöðum. Þegar þau lögðu upp var allgott veður og fóru þau Bíldsárskarð upp heiðina; en er nokkuð kom uppeftir, skall á þau stórhríð, héldu þau samt áfram um stund þar til Júlíus gafst upp. Grófu þau hann í snjó og héldu svo áfram, en nú leið ekki á löngu þar til stúlkurnar urðu einnig uppgefnar. Var þá ekki annars úrkostar en að þær græfu sig i snjó, en Árni sneri við og leitaði byggðar. Gekk hann það sem eftir var dagsins og næstu nótt, en í morgun kom hann loks að Steinkirkju í Fnjóskadal. Var þegar brugðið við þar og farið að leita að fólki því, sem grafið var niður. Gekk fljótt að finna stúlkurnar, því að þar hjá voru glögg merki til leiðbeiningar, var ein þeirra þá látin, það var Kristín, en hinar tvær aðframkomnar að dauða og nær meðvitundarlausar. Var þeim þegar ekið á sleða niður að Illugastöðum og þeim hjúkrað þar eftir mætti. Hyggja menn Hólmfríði fremur líf, en Jóhanna er ætlað að hafi tekið lungnabólgu og engin eða sárlítil von um hana. Þrátt fyrir sífelda leit hefur Júlíus ekki fundist enn, og er hann nú talinn örendur. Þennan dag sem fólkið lagði upp var afarmikil fannkoma, en fremur frostlítið. Systurnar frá Brúná voru börn Jóhanns bónda þar Sigurjónssonar. Eldri stúlkan var um tvítugt og hin yngri 16 ára. Það var hún sem dó á heiðinni.

Í sama veðri fórust tveir bátar úr Vestmannaeyjum, áhöfn annars bjargaðist, en fjórir fórust með hinum. Morgunblaðið segir þann 7. frá hvassviðrinu:

Afspyrnurok var hér á Suðurlandi i fyrrinótt [að kvöldi 5. og aðfaranótt 6.] og má búast við því, að það hafi valdið skemmdum viða. Frá Kjalarnesi höfum vér spurt það, að þar var ákaflega mikið brim. Braut það bryggju í Brautarholti og báta á ýmsum stöðum.

Fréttir bárust einnig af tjóni suður í Garði (Morgunblaðið 9.janúar):

Fimmta janúar var hér landnorðan afspyrnurok með sjógangi miklum; sjór gekk óvanalega hátt á land, nokkrir bátar brotnuðu áður en þeir urðu færðir undan sjóganginum. Í einu húsi, sem stóð hérum bil upp í miðju þorpi, gekk sjór inn í íbúðarkjallara. Þar bjuggu hjón með 2 börn, annað í vöggu; varð að bjarga konunni og börnunum úr kjallaranum (bóndinn var ekki heima) ásamt búshlutum; jarðarávöxtur skemmdist o.fl.

Illviðri olli tjóni á Vestfjörðum þann 9. og segir Vestri þann 12.:

Afspyrnarok var hér aðfaranótt sunnudagsins [9.], og urðu nokkur spjöll á vélbátunum hér á höfninni. Vélbáturinn „Hexa“ eign Lárusar Maríssonar, rak á land í Bótinni og skemmdist til muna, og nokkrir bátar höfðu rekist saman í Sundunum og brotnað eitthvað, en þó eigi til muna. Tíðarfar óstöðugt undanfarið. Síðustu dagana hefir fennt nokkuð.

Veður var afskaplega órólegt síðari hluta mánaðarins og héldu sjávarflóð áfram. Vísir segir frá þann 25.:

Eyrarbakka í gær. Aðfaranótt þ.21. þ.m. var hér afskaplegt brim og braut það 300 faðma langan sjógarð og flæddi upp í miðjan bæ. Skaðinn á sjógarðinum er metinn 10—15 hundruð krónur. Olíuskúr sem „Hekla“ á brotnaði og misstist eitthvað af olíu. Í Þorlákshöfn braut brimið gafl úr nýrri steinsteypubúð. 

Í Fréttum 2. febrúar kemur fram að að blíðalogn hafi verið í briminu. Segir þar:

Flóðgarðshrun. Fyrir nokkrum dögum sópaðist hér burtu flóðgarðurinn milli Einarshafnarverslunar og alt út í Óseyrarnes. Var brim allmikið en blíðalogn. Hefir garður þessi ekki verið sem traustastur. Tók þá og út ferjuskip i Óseyrarnesi. Skaðinn er metinn um 2000 kr.

Það er líklegt að sjávarflóð sem varð í Vík í Mýrdal hafi orðið þennan sama dag. Fréttir af því birtust ekki í Morgunblaðinu fyrr en 20. febrúar. 

Veðrátta hefir verið hér [í Vík] hin besta í ári og hefir sauðfénaður mestmegnis gengið sjálfala, þar til með þorra, þá fór að bregða til umhleypinga með útsynningséljagangi og brimróti miklu, enda var háflæði töluvert í miðsvetrarstrauminn svo að sjór flæddi hér upp á milli húsa, og skaut kaupstaðarbúum skelk í bringu. Ekki kvað þó eins mikið að flóði þessu sem því á 3. dag jóla í fyrra þá flæddi sjórinn hér inn í hús til manna og olli allmiklum skemmdum bæði á matvælum og verslunarvarningi hjá mér og fleirum. Síðan til umhleypinga brá, hafa ofviðri verið hér meiri, en elstu menn muna eftir.

Kauptúninu í Vík er sem sé mjög mikil hætta búin af sjávargangi. Hagar svo til, að mestmegnis er byggingin undir svokölluðum Sjávarbökkum og er skammt til sjávar. Sandkampur hryggmyndaður er á milli sjávar og húsa, og þegar stórstreymt er og hvassviðri eru, skvettist sjórinn inn yfir kampinn og hallar þá að eins upp að húsunum. Við þessu þarf auðsjáanlega að gera fyrr eða síðar, ef að bygging á að haldast þar, sem hún nú er. Kunnugir menn segja, að flóð þessi séu heldur að ágerast, áður hafi þau verið miklu strjálari og ekki eins stórvægileg. Til mála hefir komið, að húsin yrðu flutt upp á hæðina fyrir ofan, en það mundi verða æði kostnaðarsamt, og fæstir, sem mundu hafa ráð á, að leggja í kostnað þann styrktarlaust. 

Mjög djúp lægð fór hjá þann 23. með illviðri og fór þrýstingur niður í 933,8 hPa á Ísafirði. Hvort sú tala er rétt skal ósagt látið, en gæti verið það. Þrýstingur fór niður fyrir 940 hPa á allnokkrum stöðvum - en bandaríska endurgreiningin óvenju vitlaus. Símslit urðu mjög víða í veðrinu. Lögrétta segir frá þann 2. febrúar:

Skip rak upp hér á höfninni í roki aðfaranótt 23. f.m., lenti skammt frá slippnum og brotnaði nokkuð. Skipið heitir „Erling", eign Þorsteins Jónssonar kaupmanns á Seyðisfirði.

Þann 20. febrúar birti Morgunblaðið frétt úr Vík í Mýrdal:

Að morgni þess 29. jan. gerði hér svo stórkostlega hagléljahríð, að menn hugðu grjóti rigna niður á hús sín; voru élkornin á stærð við vínber. Gengu hér þrumur og eldingar svo miklar, að húsin nötruðu, og var gaurgangur svo mikill, að engu var líkara en fjöll þau, sem kauptúnið stendur undir, væru að hrynja. í ofviðrinu fauk víða járn af húsum. Fyrir mestum skaða varð Böðvar Sigurðsson bóndi í Bólstað. Hjá honum fuku 2 hlöður og þriðjungur af heyjum hans.

Morgunblaðið segir frá þann 31.:

Eitthvert hið mesta ofsaveður, sem orðið hefir í Reykjavik um margra ára skeið, skall hér á í fyrrinótt. Um háttatíma var stormur töluverður með rigningarskúrum á stundum, en skömmu eftir miðnætti tók að hvessa mjög, stórviðri skall á og um kl. 5 var komið ofsarok af suðaustan. Menn sem þá voru á ferli, segja að varla hafi verið stætt á götunum vegna storms og hálku.

Skömmu eftir kl.5 heyrðu menn skip blása i sífellu, og þóttust menn vita, að eitthvað hefði orðið að einhverju skipanna, sem í höfninni lágu. Enda kom það á daginn; þegar birta tók af degi, sást botnvörpungurinn Jón Forseti strandaður norðanvert við Örfiriseyjargarðinn eystri. Blés skipið til þess að kalla á hjálp frá öðrum skipum. Jón Forseti var á útleið á fiskveiðar i fyrrakvöld, þegar eitthvað varð að í vélinni og sneri hann því aftur hingað og varpaði akkeri fyrir utan hafnargarða. Í ofsaveðrinu, sem skall á, rak skipið og lenti á Örfiriseyjargarðinum. Við blástur skipsins komu skipverjar á björgunarskipinu Geir á vettvang, og er birta tók, hélt Geir út fyrir garðinn og náði sambandi við Jón Forseta. Með flóðinu náðist botnvörpungurinn út og lagðist inni á höfninni. Einhverjum skemmdum hafði Jón Forseti orðið fyrir, sem betur fer kváðu þær vera fremur litlar. Leki komst að skipinu á tveim stöðum, en nánar verður ekki um það sagt að svo stöddu, ekki fyrr en kafarar hafa rannsakað það utanvert. Jón Forseti er eign Fiskiveiðafélagsins „Alliance“, sama félagsins og missti Skúla fógeta á tundurdufli í fyrra. Þá rak og annað skip á land við Grandagarðinn. Var það Niels Vagn, eign Duus-verslunar. Lá skipið þar í allan gærdag og er talið víst að það sé eitthvað skemmt, því skipið rak á sjálfan garðinn, en þar er stórgrýtt mjög.

Uppskipunarskip, sem lá í vesturhluta hafnarinnar, hlaðið 6 steinolíufötum, rak á land skammt frá Alliance-bryggjunni og skemmdist eitthvað að sögn. Þar í nánd stóð á landi vélbátur, er Magnús Guðmundsson skipasmiður var um það bil að ljúka við. Stormurinn feykti honum nokkrar álnir og féll hann á hliðina, en hann skemmdist litið. Bátinn átti maður í Keflavik. Víða i bænum brotnuðu rúður og hurðir. Í einu húsi i Miðbænum töldum vér 4 brotna glugga í gær, í öðru 3, en viða brotnaði einn gluggi. Símaþræðir slitnuðu víða í bænum og lágu á strætum borgarinnar. Þetta ofsarok er eitt hið versta, sem menn muna hér á Suðurlandi.

Frá Eyrarbakka: Aftaka rok hefir verið hér síðan í fyrrinótt og hafa fylgt þrumur og eldingar. En hvergi hefir orðið tjón að, svo spurst hafi. Frá Keflavík: Vér áttum símtal við fréttaritara vorn í Keflavík. Afskapa veður var þar í fyrrinótt, stormur og rigning, en skemmdir urðu þar engar. Frá Vestmannaeyjum. Þangað símuðum vér í gær. Ofsarok hafði verið þar í fyrrinótt og brim afskaplega mikið. Skemmdir urðu engar.

Suðurland segir frekar af tjóni austanfjalls í veðrinu í frétt þann 9. febrúar:

Sunnud. 30. f. m. gerði stórviðri mikið hér eystra með þrumum og eldingum. Hefur veður þetta valdið tjóni á nokkrum stöðum, í Grímsnesi fuku hús á eftirtöldum bæjum: Á Brjánsstöðum þak af baðstofu og nokkur hluti af hlöðuþaki ; í Hraunkoti tók veðrið járnþak ofan af allstóru fjárhúsi og feykti langt í burtu og braut viðinn og í Norðurkoti tók þak af fjósi. 

Í þessum veðrum urðum mikil símaslit. Morgunblaðið segir frá þann 2. og 3. febrúar:

[2.] Símaslit hafa verið ákaflega mikil undanfarna daga. Uppi hjá Hamrahlíð var síminn gjörslitinn á kílómetrakafla og þrír staurar brotnir þar. Uppi í Kjós var hann slitinn á 4—5 kílómetra-vegarlengd og víðar munu hafa orðið skemmdir á honum. Þessi símaslit eru ekki svo mjög hvassviðri að kenna sem ísingu. Í gær voru sendir tveir menn héðan upp í Hvalfjörð til þess að gera við símaslit þar og er vonandi að í dag verði aðgerðinni lokið.

[3.] Viðtal við landssímastjórann. Símslit þau, sem urðu í byrjun þessarar viku, eru hin mestu sem komið hafa fyrir síðan síminn var lagður. Oss þótti fróðlegt að fá nákvæma vitneskju um símaslitin og fórum því á fund landssímastjórans. Þetta er miklu verra en vér hugðum í fyrstu, segir landssímastjórinn. Símaslitin voru á sunnudaginn [30.], líklega fremur af ísingu en stormi. Vegna óveðurs var ekki unnt að senda menn til aðgerða þegar í stað. Það var varla stætt þann daginn hér í bænum hvað þá heldur uppi á heiðum. — Mennirnir héldu héðan upp í Mosfellssveit á mánudaginn [31.]. Hjá Hamrahlíð lá síminn niðri á um 1 kílómeters svæði. Þar voru og margir staurar fallnir, en þó tókst að koma því í lag á mánudaginn. Hérna megin við Útskálahamar [norðan Eyrarfjalls] voru allir þræðirnir fallnir á um 8 kílómetra svæði. Vér sendum 4 menn á vélbát upp í Hvalfjörð til þess að gera við símann þar. Loks fékkst samband frá Útskálahamri að Grund í Skorradal, og fengum við þá að vita að síminn væri fallinn á milli Norðtungu og Stóra-Kropps, á um 10 kílómetra kvæði. Hvernig ástatt er þar fyrir norðan vitum vér ekki, en það má búast við því að síminn sé þar slitinn ef til vill alla leið norður að Holtavörðuheiði. — En ég býst varla við að skemmdirnar nái lengra norður.

Á morgun verða 7—8 menn sendir héðan á vélbát til Hvalfjarðar og eiga þeir að koma ritsímaþræðinum í lag sem allra fyrst, en láta talsímaþræðina eiga sig fyrst um sinn. Oss ríður mest á því að fá samband við sæsímann sem fljótast, og ég vona að það muni takast á laugardaginn. Ef ekki eru meiri skemmdir en vér þegar vitum, hygg ég að vér munum hafa samband við sæsímann á laugardaginn.

Aldrei finnur maður betur til þess hve mikils virði síminn er, heldur en þegar skyndilega tekur fyrir sambandið. Hvar sem maður hittir kaupsýslumann þessa dagana, eru símslitin aðalumtalsefnið. Enda er svo komið, að kaupmenn nota símann nær ætíð við kaup á útlendri vöru og sölu á íslenskum afurðum. Við getum ekki án símans verið — og menn finna best til þess þegar hann bilar.

Febrúar: Tíð var í fyrstu nokkuð erfið en síðan almennt talin góð þrátt fyrir mikil snjóþyngsli víða um land. Hiti í meðallagi.

Þann 4. og 5. gerði mikið norðan- og norðaustanveður með gríðarlegum sjávarflóðum og sjógangi. Mest varð tjónið á Ísafirði og nágrenni. Vestri segir frá þann 8. febrúar: 

Á laugardagsmorguninn 5. þ.m. var óvenjumikið sjórót hér við bæinn. Á föstudaginn var stórhríð af norðri, sem herti því meir sem á daginn leið; er það versta veðrið sem á vetrinum hefir komið og með verstu veðrum, sem hér koma. Um nóttina jókst sjógangur stöðugt og varð mest á flóðinu kl. 7-8 um morguninn. Var flóð óvenjumikið og olli því miklum skemmdum á og í húsum þeim er næst standa sjónum hér norðanvert í kaupstaðnum. Í Króknum urðu aðallega hús þeirra Jóns Þórólfssonar bátasmiðs og Jóns Jónssonar stýrimanns fyrir skemmdunum. Braut sjórinn smiðahús Jóns Þórólfssonar, fyllti það grjóti og tók burtu allt lauslegt úr húsinu. Í íbúðarhúsið gekk einnig sjór og eyðilagði ýmsa búshluti og matbjörg alla.

Frá húsi Jóns stýrimanns tók sjórinn algerlega burtu skúr, er stóð áfastur við húsið, og uppfyllingu þá er hann stóð á. Einnig gróf til stórskemmda undan íbúðarhúsinu, svo það má telja í fári, og gerði þar töluverðar skemmdir. Er tjón þeirra nafnanna mikið og tilfinnanlegt. Auk þess skemmdist nokkuð búshlutir og hús Einars Guðmundssonar skósmiðs, er stendur nokkru utar, og fjárkofi er stóð utanvert við húsið eyðilagðist og missti Einar þar einnig nokkuð af heyi, en hann er bláfátækur fjölskyldumaður. Í húsi Sig. Sigurðssonar á Gildrunesi urðu einnig smávægilegar skemmdir. Tvö sjávarhús (pakkhús og hjallur) er standa innanvert við hús Jóns stýrimanns skemmdust einnig nokkuð, og sjór gekk í fleiri hús í Króknum en skemmdir þar smávægilegar.

Í geymslurúmi Marísar M. Gilsfjörð urðu nokkrar skemmdir á vörum. Á. húsi Guðjóns Jónssonar næturvarðar og Jóns Sn. Árnasonar kaupmanns urðu töluverðar skemmdir; fyllti þar kjallarann með vatni. Einnig eyðilagðist bólverkið er húsið stendur á nokkuð.

Hús Karitasar Hafliðadóttur varð og fyrir miklum skemmdum. Eyðilagðist þar bólverkið og tók burt skúr norðanvert við húsið. Brotnuðu þar flestir gluggar í nyrðri hliðinni og sjórinn freyddi inn í húsið svo fólki varð ekki viðvært og eyðilagði mikið. Hjá Sigurði kaupmanni Guðmundssyni gerði sjórótið mikil spellvirki. Gekk sjór inn í neðstu hæð hússins. Átti Sigurður þar nokkrar vörubirgðir, sem eyðilögðust að mestu leyti. Einnig brotnaði pakkhús þar rétt hjá, er Guðm. Guðmundsson skipasmiður á, og vélaverkstæði hans fyllist af sjó, en skemmdir eru þar víst litlar sem betur fer. Í húsi þeirra Bergsveins Arnarsonar járnsmiðs og Friðgeirs Guðmundssonar skipstjóra skemmdist og nokkuð. Tók út skúr norðanvert við húsið og eyðilagði allmikið af matvælum en búshlutir skemmdust. Hús Kristins Gunnarssonar varð fyrir miklum skemmdum. Tók út skúr er áfastur var við húsið og braut bólverkið að heita má til grunna. Var sjórótið þar svo mikið, að brimið hafði kastað stórum sementssteypustykkjum langt upp á götu, líkt og börn henda smáskeljum.

Öll þessi hús, - að fráskildum Krókshúsunum, - standa við Fjarðarstræti og þar var sjórótið mest. Er gatan á þessu svæði öllu (ofan úr Krók og niður í Norðurtanga) alveg eyðilögð. Liggja djúpir malarhaugar og stórgrýti yfir hana. Sumstaðar hefir stórgrýti borist langt upp fyrir götu. Mun kosta mikið fé að fá það lagfært aftur.

Nær allt það fólk er í þessum húsum bjó er fátækt verkafólk. Einkum það er bjó í kjöllurum húsanna. Hefir margt af því misst aleigu sína af matbjörg og sumt nokkuð af matvælum. Var strax á laugardaginn flutt úr flestum þessum húsum, því ekki var fýsilegt að eiga þar náttstað næstu nótt, ef til vill undir sömu ósköpum. Bæjarstjórn sendi þegar sama daginn um kvöldið út samskotalista fyrir þá sem harðast urðu úti og fátækastir voru. Hefir hann fengið besta byr. Auk þess hafði velferðarnefnd um fjöruna á laugardaginn veitt mönnum aðstoð til þess að styrkja hús sin gegn frekari sjávarágangi, sem margir óttuðust.

Allmargir bátar stóðu uppi á þessu svæði og bárust sumir þeirra nokkuð til fyrir sjávarrótinu, en skemmdir á þeim urðu fremur litlar. Við Sundstræti urðu miklar skemmdir á fiskiverkunarhúsi Edinborgarverslunar. Reif sjórinn algjörlega burtu suðurhorn hússins nær að helmingi. Fiskur allur var geymdur í efri hlið hússins, svo ekkert skemmdist af honum. Einnig tók burtu lítinn fiskipall er verslunin átti utanvert við fiskihúsið. Tók sjórinn hann svo að segja í heilu lagi og bar niður fyrir Miðsund og lagði upp á salttunnur, er þangað höfðu borist, eins kyrfilega og gert væri af manna höndum. — Stórskemmdir urðu einnig á grunni svonefnds Ísafoldarpakkhúss.

Sjórinn tók einnig út um 250 salttunnur, er Karl Olgeirsson verslunarstjóri á. Skemmdust flestar tunnurnar og saltið er alveg eyðilagt. Er það bæði bagalegt og tilfinnanlegt tjón. Sami maður missti og töluvert af tómum síldartunnum. Við Sundstræti skemmdist land bæjarins víða og munu þær skemmdir nema töluverðu. — Aðrar skemmdir urðu og nokkrar. Um eignatjónið hér í bænum vitum vér enn eigi til fulls, en sennilegast þykir að það muni vera um 20 þús. kr.

Í Hnífsdal urðu einnig töluverðar skemmdir á húsum, bryggjum og nokkrar á bátum. Mest tjón hafa beðið þar Á. Ásgeirssonar verslun, Valdemar kaupmaður Þorvarðsson, Guðm. Sveinsson kaupm., Sigurður Þorvarðsson kaupm. og Helgi Kristjánsson útvegsm. Sagt er að skemmdir þar nemi um 8 þúsund kr.

Í Bolungarvík urðu miklar skemmdir. Tók sjórinn þar stórt og vandað smíðahús, sem Jóhann Bjarnason átti og eyðilagði að mestu. Ennfremur brotnaði að nokkru fiskihús Péturs kaupm. Oddssonar og verbúð er hann átti. Ennfremur tók út töluvert af síldarvörpum, er var eign Jóh. kaupm. Eyfirðings og þeirra bræðra. — Tveir hjallar brotnuðu einnig, og nokkrar aðrar skemmdir urðu. Telja má að tjónið þar sé ekki minna en í Hnífsdal.

Varla var búið að skrifa frétt Vestra um sjávarflóðið mikla þegar fregnir bárust af snjóflóðum í Hnífsdal og tókst að koma fregnum í sama blað:

Í dag [8.] um hádegisbilið féll snjóflóð í Hnífsdal, rétt utanvert við svonefnt Bræðrahús (eign Halldórs Pálssonar og db. Jóakims Pálssonar). T6k það fjárhús hlöðu og fjós er stóð ofanvert við húsið og færði langt úr stað. Höfðu þegar fundist 16 kindur dauðar og 1 kýr. Einnig tók snjóflóð þetta vélabyrgi og smiðju, er vélaverkstæði Hnífsdælinga á, og flutti smiðjuna fram á sjó. Varð þar fyrir snjóflóðinu gamall maður, Jóhannes Elíasson, en talið að hann muni lifa. — Ennfremur tók snjóflóðið hjall er Halldór Pálsson átti og skúr er Páll bróðir hans átti. Auk þessa urðu nokkrar aðrar skemmdir. 

Í sama blaði er síðan sagt frá því er bátur slitnaði upp á Súðavík föstudaginn 4. Talið var að straumhnútur hafi slitið legufærin. Um tíðina almennt segir svo:

Stanslausar norðanhríðir og stórviðri undanfarið, en alltaf mjög frostvægt. Fannkoman feikna mikil. Á götunum hér í bænum eru víða mannháir skaflar, og hefir ekki kyngt niður jafnmiklum snjó síðan fannaveturinn mikla 1910.

Morgunblaðið segir þann 7. febrúar af stórstreymi í Reykjavík:

Stórstreymt hefir verið undanfarna daga og hefir kveðið svo rammt að því að kjallarar hér i Miðbænum hafa orðið hálffullir af sjó.

Viku síðar (15. febrúar) eru enn fréttir af snjóflóðum í Vestra:

Í fyrrinótt rann snjóflóð niður hlíðina við Grænagarð, og tók annan gaflinn og þak af íveruhúskofa er þar stendur. Tvær konur, er þarna hafa búið, sakaði eigi, og höfðust þær við þarna í kofanum, eða í nánd við hann, þar til um morguninn, að menn frá Seljalandi urðu þessa varir, og voru þær þá fluttar hingað til bæjarins. Mjög óvanalegt er að snjór renni þarna niður, enda er hlíðin eigi jafn brött þar eins og utar við fjörðinn.

Milli Hrauns og Heimabæjar i Hnífsdal, rann snjóflóð í gær og meiddi einn mann lítilsháttar. Víðar í Hnífsdal hafa snjóflóð runnið nú í vikunni, en ekki orðið að tjóni. S.1. föstudag [11.] rann snjóflóð fyrir framan Hraun, þar sem býlið Augnavellir stóð til forna, og hefir að sögn ekki hlaupið þar í 98 ár.

Sama fannkoman helst daglega, en hægviðri og frostvægt. Ferðamenn úr Grunnavíkur- og Sléttuhreppum segja snjóinn nær því eins mikinn þar nú og 1910, og sama er að frétta úr Barðastrandar- og Dalasýslum. Hér í bænum hækka skaflarnir drjúgum með degi hverjum.

Þak fauk af steinsteypuíbúðarhúsi i Snartartungu í Bitru fyrir skömmu, hjá bóndanum þar Sturlaugi Einarssyni. Einnig fauk þak af baðstofu á Krossárbakka í sömu sveit, alveg niður að tóft.

Þann 11. bárust einnig fréttir um mikið flóð í Ólafsvík og að brimbrjótur hafi þar brotnað og tjón sé um eitt þúsund krónur - trúlega sama dag og flóðin á Ísafirði. Hríð gerði í Reykjavík að morgni þess 10. segir Morgunblaðið þann 11.: „Versta veður gerði hér í gærmorgun. Skall á blindhríð og stormur og kyngdi niður mesta snjó, sem komið hefir á vetrinum“. Nokkrum dögum síðar, þann 16. segir Morgunblaðið frá því að bifreiðaferðir til Hafnarfjarðar hafi verið tepptar í nokkra daga vegna óvenjumikilla snjóa á veginum. Farið var að nota sleða. Kvartað var um bjölluleysi þeirra í Morgunblaðinu þann 19.:

Áður fyrr var mönnum gert það að skyldu að hafa bjöllur á sleðum, sem ekið var um bæinn — auðvitað til þess að gangandi menn fremur gætu varast þá. Nú eru margir sleðar notaðir, en þeir hafa engar bjöllur. Er þetta því verra, sem oft er dimmt á götunum og því erfiðara fyrir gangandi fólk að varast sleðana. Það er nauðsynlegt að hafa bjöllur á sleðunum og ættu yfirvöldin að sjá um það hið fyrsta.

En allur þessi snjór hvarf og bjartsýnishljóð er undir lok mánaðarins - Suðurland segir frá þann 27.:

Eyrarbakka í gær. Besta veður er hér nú. Þó hafa fáir bátar róið til fiskjar, þar sem brim hefir hamlað þeim. Snjólaust er hér með öllu og besta veður. Muna menn hér ekki eftir öðrum eins vetri hvað veðráttu snertir.

Þann 27. febrúar birtust enn fregnir af snjóflóðum (Fréttir):

Snjóflóð í Náttfaravik. Nýlega voru þrír bræður að sækja hey, Sigurbjörn, Stefán og Kristján, synir Sigurjóns bónda Jósepssonar i Naustavík. Var heyið uppi i fjalli. En er þeir höfðu búið út ækin féll snjóflóð á þá og sópaði þeim og heyinu niður fjallið og fram af hömrum og út á sjó. Bátur var þar nálægt og varð mönnunum bjargað, voru þeir allir beinbrotnir og mjög dasaðir. Guðm. læknir Thoroddsen var sóttur til þeirra og flutti hann þá heim með sér til Húsavíkur og segir að þeir geti orðið jafngóðir. — Þykir það ganga kraftaverki næst.

Mars: Góð og sérlega hæg og þurrviðrasöm tíð um meginhluta landsins þar til síðasta þriðjunginn að veður versnaði mjög. Fremur kalt.

Þann 9. og 11. birti Morgunblaðið fréttir af hægviðri:

[9.] Svartaþoka var hér í fyrrinótt og fyrrihluta dags í gær. Komust skip hvorki héðan né hingað. Það er sjaldan að svo svört þoka verði hér í Reykjavík.

[11.] Vorbragur er nú á tíðinni hér. Sólbráð og logn á hverjum degi. Má meðal annars marka það á því, að ísinn á Tjörninni er nú ekki lengur mannheldur.

Þann 12. sögðu Fréttir frá íshrafli á Ísafjarðardjúpi og þann 16. var í blaðinu frétt frá Siglufirði:

Siglufirði í gær. Í dag kom hingað inn mótor-bátur úr hákarlaveiðum, hafði hann orðið að létta vegna hafís sem rak að. Þetta var 8 mílur norðaustur af Siglufirði. Áður  hafði hann leyst undan ísnum úti á Skagagrunnshorni. Ísinn er sagður mikill en ekki borgaris. Stillingar hafa verið hér stöðugar og mjög kalt í sjónum. — Segja gamlir menn að þetta sé fyrirboði íssins, og hafa búist við honum. Sólskin er hér á hverjum degi og því hið yndislegasta veður, er snjór nú mjög leystur upp.

Þann 24. skall á mikið illviðri af norðri og stóð dögum saman og olli mannsköðum á sjó og tjóni á landi. 

Morgunblaðið segir frá þann 25.:

Norðanrok skall hér skyndilega á um kl. hálfellefu í gærmorgun. Urðu töluverðar skemmdir í höfninni. Uppskipunarbát, hlöðnum steinolíu, hvolfdi út við Ceres. Einn maður, sem í honum var, komst í vélbát, sem þar lágu hjá. Annað uppskipunarskip rak á land fyrir austan Völund; aurferju hafnarinnar rak og á land og marga báta, sem lágu við bryggjurnar, fyllti af vatni, en vörur í þeim skemmdust.

Þann 26. bárust fréttir af bátum sem ekki höfðu skilað sér til lands eftir að veðrið skall á. Frá Sandgerði segir m.a. í Morgunblaðinu:

Laust fyrir hádegi skall hér á á ofsa norðanrok, með svo skjótum svip að einsdæmi munu vera. Hleypti þegar upp miklum sjó, en veðurhæðin tók þó út yfir. Bátarnir leituðu þegar lands og komust nokkrir hingað. 

Frá Þorlákshöfn sagði:

Botnvörpungurinn Ýmir frá Hafnarfirði strandaði í Þorlákshöfn í fyrrinótt. Mun hann hafa ætlað að leita hafnar þangað, en af landi stóð ofsarok og fylgdi mold og sandbylur svo að eigi sá út úr augunum. - [Í síðari fregnum kom fram að Ými hefði verið bjargað á flot]. 

Fjölda báta var saknað um tíma, en langflestir komu fram. Þilskip bjargaði áhöfnum fjögurra báta úr Grindavík, alls 38 mönnum. Bátur af Vatnsleysuströnd fórst með 7 mönnum. Níu bátar brotnuðu í lendingu í Grindavík, en ekkert manntjón varð í þeim óhöppum. 

Norðurland segir frá þann 1. apríl:

Snjóflóð féll á fimmtudagsnóttina [30. mars] á bæinn Kot í Svarfaðardal, sem er fremsti bær í dalnum. Fólkið vaknaði í baðstofunni um nóttina við að gluggarnir brotnuðu og snjóstrokan stóð eins og árstraumur inn í baðstofuna. Það bjargaði bænum og fólkinu að bærinn var nálega í kafi í snjó, áður en snjóflóðið kom, svo það fór yfir hann án þess að valda miklum skemmdum.

Njörður segir frá því þann 29. apríl að snjóflóð hafi orðið þremur hestum að bana nærri Hvoli í Saurbæ. Dagsetningar er ekki getið. 

Apríl: Ótíð var á Norðausturlandi en þurrviðra- og næðingasamt suðvestanlands. Kalt.

Norðanhretið hélt áfram í apríl. Suðurland sagði þann 5. frá mikilli snjókomu þar um slóðir 1. apríl. Skipatjón varð á Vestfjörðum. Morgunblaðið segir frá þann 4. apríl:

Þingeyri, 2. apríl. Aftakaveður er hér á norðaustan. Slúpp-skipið „Christian“, eign Bræðranna Proppé, sleit upp og rak á land. Þykir líklegt að það sé gerónýtt. Skipið „Fönix“ komst með naumindum inn til Bíldudals. Gullfoss kom til Patreksfjarðar i gærkveldi en enginn komst á land fyrir stormi og sjó. Þilskip rak á land á Bíldudal i gær.

[Hvað Slúpp-skip er veit ritstjórinn ekki]. Daginn eftir bárust blaðinu einnig fréttir af því að þilskip hefði strandað við Suðureyri í Tálknafirði, en skipið sem rak á land á Bíldudal hefði skemmst mikið. 

Í Morgunblaðinu þann 5. apríl má lesa um ísingu:

Í fyrramorgun [þ. 3.?] gerði ísingu mikla á Eyrarbakka, en klukkan hálf tíu tók að hvessa og gerði ofsarok. Brotnuðu þá 25 símstaurar í röð og féllu niður. Mun það einsdæmi hér á landi að svo margir símstaurar brotni i einu og allir í röð.

Enn voru vandræði á Reykjavíkurhöfn (munum að gerð hafnargarða var ekki lokið). Morgunblaðið segir frá þann 11.apríl:

Í fyrrakvöld um kl.9 skall hér á stormur með hríð. Skip lágu mörg i höfninni, og lágu þau þétt. - Flutningaskipið Olga rakst þá á botnvörpunginn Baldur og skemmdist báturinn á Olgu töluvert. Litlu síðar rakst sama skip á flutningaskipið Rigmor, eign sama félags, og kváðu nokkur plötur á því skipi hafa dalast. Skemmdir á Baldri urðu engar og hélt það skip héðan á  fiskveiðar i gærmorgun. -

Í sama blaði var sagt frá skipbroti í Vestmannaeyjum, þrír fórust og þann 14. voru í blaðinu fréttir af strandi tveggja eyfirskra skipa við Önundarfjörð. 

Vestri segir frá vondri tíð og skipbrotum þann 15.:

Kafaldshraglandi og norðannæðingur undanfarið. - Snjórinn óvenjumikill, svo algerlega er haglaust hér í nærsveitunum, og sama segja fréttir úr Norðurlandi. Skipsskaðar. Þiljubáturinn „Vonin" frá Finnbogastöðum í Víkursveit í Strandasýslu sökk i hafís á Norðurfirði 30. f.m. Var báturinn að hákarlaveiðum þar í flóanum; lenti í ísnum og liðaðist sundur, en skipverjar björguðust á ísnum að landi. Báturinn var eign þeirra bræðra Finnboga og Magnúsar Guðmundssona frá Finnbogastöðum, og var ótryggður. Fiskiskipið „Orion" frá Siglufirði rak og í land á Norðurfirði nýlega, og laskaðist svo að það er talið ósjófært.

Morgunblaðið birti þann 20. almennar tíðarfréttir úr Húnavatnssýslu:

Lækjamóti síðasta vetrardag. Norðandimmviðri á degi hverjum og í dag sérstaklega mikið fárviðri með afskapa fannkomu. Útlitið afar ískyggilegt. Hey eru þegar á þrotum víða hér um slóðir, og þó eru ástæðurnar enn þá verri i austursýslunni. Einn bóndi þar, sem á um 200 ær, er þegar þrotinn að heyjum og sækir tuggu og tuggu á sleða til þeirra sem einhverju geta miðlað, en þeir eru fáir. Hvergi sér á dökkan díl. Þeir sem eru best stæðir ætla menn að bjargist fram undir Krossmessu, en þeir hafa þegar tekið kýr og hross af þeim, sem ver eru staddir. Hvergi hafa skepnur enn farið af fóðurskorti hér um slóðir, og ekki eru menn enn farnir að skera, en hamingjan má vita hvað langt verður þess að bíða.

Þann 22. (annan dag í sumri) segir Suðurland að andi köldu og að snjóað hafi töluvert í nótt (á Eyrarbakka) og norðanskafrenningur hafi verið í morgun eftir -5 stiga frost gærdagsins. Í blaðinu er líka frétt sem okkur nútímafólki þykir einkennileg (en hestar landspóstanna þurftu hey - munum það):

Harðindi eru nú svo mikil og ótíð fyrir norðan, að til vandræða horfir. Póstmeistarinn í Reykjavík auglýsir 12. þ.m., að aðalpóstur geti ekki farið frá Akureyri til Staðar, sakir heyleysis á póstleiðinni. Illt er að vita til þess, að samgöngurnar skuli vera svo, að Sunnlendingar, sem nú eiga nóg af heyjum, geta ekki hjálpað bræðrum sínum nyrðra.

Maí: Óhagstæð tíð á Norður- og Austurlandi, þurrviðrasamt syðra. Fremur kalt.

Gróður fór að taka við sér syðra - Vísir sagði þann 8. það furðu gegna því frost væri bæði að nóttu sem degi. - Morgunblaðið segir frá 14. maí:

Tún eru nú að byrja að grænka hér í grennd. Nú vantar ekkert annað en nokkra daga rigningu.

Þann 19. er ekki gott hljóð í Austra:

Vart hefir til sólar séð fyrsta sumarmánuðinn. Norðaustrið hefir andað nágusti sínum yfir Austurland. Þokukúfarnir þakið fjöllín, og hríðarélin hulið tindana við og við. Þó hefur sólarylurinn svo mikils megnað, að klakinn hefir klökknað dálítið fram með fjörðunum og holt og hæðir smá ýtt af sér yfirhöfninni, svo nú munu kindur víða ná í kvið sinn hálfan á hnjótunum. Frá Seyðisfirði og suður eftir smáminnkar mjöllin, en nokkuð mun hún þykkri er norður eftir dregur. - Hvaðanæva heyrist um harðindi, heyþrot og hættu yfirvofandi, mun þegar á stöku stað byrjaður fjárfellir. Meirihluti Héraðs í háska statt. Fljótsdalur auður orðinn að mestu en út Hérað undir snjó. Hafa allmargir rekið hesta sína í Fljótsdal, en fé utan af Héraði órækt þangað sökum illrar færðar. 

Að kvöldi þess 18. maí var mikið veður í Vestmannaeyjum, rok og stórsjór. Þá skemmdist hafnargarðurinn sem verið var að hlaða töluvert af briminu. 

Í pistli þann 26. maí segir Íslendingur leysingum á Akureyri þann 21.:

Kátir lækir voru hér í bænum í hlákunni á sunnudaginn var [21.]. Ultu þeir áfram kolmórauðir, fylltu farvegi sína með möl og grjóti, veltu jafnvel stórbjörgum úr stað og flóðu svo yfir bakkana. Torfunefslækurinn lék sér suður um Hafnarstræti og ofan Torfunefsbryggjuna, gróf undan gangstétt við sölubúð Gudm. Efterfl., svo nokkur hluti hennar féll niður; leitaði síðan á sölubúð Kaupfélagsins og Íslandsbanka, og þótti mönnum illt að búa undir ágangi hans og slettum. Lögðu menn þegar til orrustu við lækinn, en gerðu lítið annað en verjast og hrukku ekki til, jafnvel þótt nýir og nýir sjálfboðaliðar bættust við hinn fasta her. Þótti nú mörgum ofsi hans og djöfulskapur úr hófi keyra og töldu ekki einleikið. Hlupu þá nokkrir menn, er vissu lengra en nef þeirra náðu, upp í flóa og gólu þar yfir honum galdra sína; tók hann þá að spekjast og verða viðráðanlegur. En í sama bili hljóp ofsalegt flóð í Kotárlækinn, og varð það engum að meini. Urðu leikslokin þau um kvöldið, að Torfunefslækurinn rann til sjávar í sínum gamla farvegi ofboð meinleysislegur eins og ekkert hefði í skorist, en til beggja hliða sáust greinilega verksummerkin eftir tröllalæti hans um daginn.

Morgunblaðið segir frá betri tíð þann 30.:

Túnin grænka nú óðum og tré í görðum laufgast, enda er framúrskarandi gróðrartíð, hlýindaregn á hverjum degi.

Júní: Óvenju þurrt og stóð það gróðri fyrir þrifum þrátt fyrir að fremur hlýtt væri í veðri. Snjór var nokkur á túnum nyrst á Vestfjörðum og sums staðar norðanlands í upphafi mánaðar.

Íslendingur birti þann 16. fregn af skriðuföllum í Vaðlaheiði fyrir ofan bæina Garðsvík og Sveinbjarnargerði þann 13. Syðsta skriðan af þremur tók mikinn hluta af túninu í Sveinbjarnargerði. Skriðurnar féllu alla leið niður í sjó, en áttu upptök sín ofarlega í heiðinni. Talið var að um 30 kindur hafi farist. 

Morgunblaðið segir þann 22. júní:

Mannskaðaveður var í gær af moldryki á götum bæjarins. Sú tegund veðurlags þekkist ekki nema á eyðimörkum landsins og á þéttbýlasta blettinum, sem sé höfuðstaðnum sjálfum. Nú fáum við að súpa seyðið svo girnilegt sem það er af því hvernig bærinn hefir verið látinn byggjast, hvernig hann hefir verið þaninn út í allar áttir og hvernig stórfé hefir verið kastað út til þess að búa til á milli húsanna götur, sem eru roksandsauðnir á sumrum en forarveita á vetrum. Nú má ekki opna neina loftsmugu á íbúðarhúsum ef ekki á allt að fyllast af mold, sandi og ólyfjan, og er þó hreint ekki tryggt samt, því að húsin eru ekki loftheld, — og þeir sem út koma þegar nokkur gola er, fá föt sín, húð og lungu gegnlamið af götusaur.

Júlí: Tíð talin vond suðaustanlands og síðari hlutann var óþurrkasamt á Suður- og Vesturlandi annars var tíð nokkuð hagstæð. Fremur hlýtt.

Þann 2. júlí segir Morgunblaðið frá töfum á skipasiglingum:

Þokur miklar hamla mjög skipaferðum fyrir Norðurlandi þessa dagana. Hefir skipum Goðafossi, Íslandi og Ceres seinkað mikið.

Og þann 4. er kvartað í blaðinu undan þurrkatíðinni.

„Enginn gerir svo öllum líki, og ekki guð í himnaríki“. Í vetur og vor þótti tíðin hörð. Þá kveinuðu allir og kvörtuðu undan harðindum og snjó. Nú þykir tíðin of góð. Nú kvarta allir undan sólskini, hitum og þurrkum. Það væri auðvitað betra minna og jafnara, og eigi er það skemmtileg sjón fyrir bændur að sjá tún sín og engi skrælna í ofþurrki. En ofþurrkar hafa verið að undanförnu. Útlit með grassprettu var talið mjög alvarlegt hér í öllum nærsveitunum núna fyrir helgina. Túnin „brunnu“ og engi og bithagar sviðnuðu og stiknuðu dag eftir dag. Alltaf sami hitinn. 20 stig í forsælu á Þingvöllum. 24 stig í forsælu austur i Gnúpverjahreppi. Lítið var það betra í Borgarfirði. Vestmanneyjar voru skrælþurrar og hreinustu vandræði fyrir eyjarskeggja að ná sér i vatn. Elliðaárnar voru svo litlar, að sameina varð báðar kvíslarnar til þess að laxinn geti gengið upp eftir þeim. Og alt var eftir þessu. Nú virðist þó svo, sem einhver breyting sé að verða á tíðinni og bíða bændur þess með óþreyju að dropi komi úr lofti. Þrjár undanfarnar nætur hafa verið hér þokuveður og súld og hvergi nærri svo heitt í gær og fyrradag, sem undanfarna daga.

Suðurland segir þann 5. frá því að grasmaðkur væri víða í jörð í Skaftafellssýslu, stór flæmi gereyðilögð, einkum í Mýrdal og austur á Síðu. 

Morgunblaðið birtir þann 7. tilkynningu um hafís:

Ísinn liggur yfir þveran Húnaflóða frá Horni að Skaga. Torvelt að komast þessa leið. 

Miklir vatnavextir urðu í leysingunum í Eyjafirði - en dagsetningar óljósar. Morgunblaðið hefur eftir Íslendingi þann 7. júlí að skemmdir hafi orðið á vegum og brúm, m.a. sé akbrautin fyrir framan Grund stórskemmd. 

Þann 12. rakst skipið Hjalteyri á sker við Gjögur í niðaþoku, áhöfn bjargaðist. (Íslendingur 14. júlí). 

Svo skipti um tíð. Morgunblaðið segir frá þann 15. og síðan þann 17.:

[15.] Loksins í fyrrinótt skipti um veður - gerði skyndilega suðaustanátt með rigningarskúrum.

[17.} Ofsarok af austri með rigningu við og við var í gær. Vegna óveðurs gat ekkert orðið úr kappleiknum milli Vals og Reykjavíkur í fyrrakvöld og eigi heldur i gærdag. Hefir því mótinu verið frestað um óákveðinn tíma. 

Suðurland segir þann 18. frá því að sunnudaginn 16. hafi gert óvenjumikið brim við Eyrarbakka, eitt hið mesta sem komið hefir á þessum tíma árs. Í frétt sem dagsett er á Stokkseyri þann 31. og birt er í Morgunblaðinu 6. ágúst kemur fram að í briminu hafi rekið „bæði síld og nokkuð af fuglaeggjum - hvort tveggja fáséð rekald á þessum slóðum“.

Þann 19. gat Morgunblaðið þess að töður hafi fokið allvíða í Skagafirði í sunnanofsaroki þann 17. og þann 26. er sagt að hey í Árnes- og Rangárvallasýslun séu tekin að hrekjast. Nyrðra hirtust hey vel (28.). 

Ágúst: Framan af voru óþurrkar á Suður- og Vesturlandi, en batnaði síðari hlutann. Fremur hlýtt.

Þann 10. ágúst birti Morgunblaðið frétt um tímareikning.

Í gærkvöldi var klukkan færð fram þannig, að hún er 1 klukkustund og 28 mínútum á undan miðtíma Reykjavíkur. Er það gert samkvæmt bráðabirgðalögum frá 4. ágúst 1916.

Má segja að við búum enn við þetta fyrirkomulag (þó löng hlé hafi orðið á). 

Óþurrkar héldust syðra fram undir miðjan mánuð, en síðan breytti aftur til. Morgunblaðið segir þann 14.:

Gott veður var í gær, sólskin og breiskjuhiti. Allir þráðu góðviðrið, en eigi síst sveitamennirnir, sem nú í þrjár vikur til mánuð hafa mátt horfa á hey sín blikna og fúna. Það má því búast við, að hjá þeim hafi verið handagangur i öskjunni í gær, þótt eigi nægi þeim sá dagur einn til að þurrka hey sín. Þyrfti nú þetta góðviðri að haldast óbreytt minnst hálfan mánuð, svo þeir gætu náð heyjum sínum áður en þau verða alveg ónýt.  ... Bæjarmenn notuðu óspart góðviðrið til að létta sér upp og ferðast upp um sveitirnar. [Enda sunnudagur].

Hlýtt var austur á Fjörðum og segir í Morgunblaðinu þann 15. að hitar hafi verið þar svo miklir að menn hafi eigi getað þurrkað fisk um hádaginn vegna þess að hann stiknaði í sólskininu. Síðan komu nokkrir dagar með þoku í Reykjavík og reyndar víða um land. Morgunblaðið segir þann 17.:

Þokan. Hún er sjaldgæfur gestur hér í Reykjavík. Nú hefir hún verið hér kolsvört á köflum í 3 daga og muna elstu menn ekki eftir slíku. 

Daginn eftir eru meiri þokufréttir - og nánar sagt af dreifingu hennar:

Þokur hafa verið undanfarna daga víða um land. Hafa síldveiðiskipin nyrðra tafist frá veiðum af þeim ástæðum og eins hefir verið á Ísafirði. En hér austanfjalls eru brakandi þurrkar á degi hverjum. Í gær var t.d. glaðasólskin á Þingvöllum.

Nokkur jarðskjálftahrina gekk um Suðurland þann 19. ágúst. 

Þann 26. birtir Morgunblaðið frétt um heyskap í Dalasýslu:

Afbragðs tíð hefir verið í Dalasýslu í sumar og heynýting ágæt, að sögn. Hirtu bændur jafnharðan sem þeir slógu, en á næstu bæjum í Borgarfirði hröktust heyin vikum saman. Er það einkennilegt, því að ekki er langt á milli.

En ágústmánuði lauk með norðanskoti. Vestri segir þann 31.: „Norðan stórviðri undanfarna daga, með rigningu í byggð og kafaldshríð á fjöllum“. Suðurland segir þann 7. september að snjóað hafi á Siglufirði aðfaranótt 29. Þá hafi og snjóað á Grímsstöðum á Fjöllum. 

Og Morgunblaðið daginn eftir: 

Rokstormur var hér í gær og ryk nóg fyrri hluta dags. Um miðjan daginn rigndi nokkuð. Á Þingvöllum var líka ofsastormur af austri og moldrok svo mikið að vart sá út úr augunum. Þótti „viðlegumönnum“ heldur dauflegt þar. Þurrkarnir sem gengið hafa undanfarna daga höfðu þau áhrif á vatnsveitu Hafnarfjarðar, að þar var nær vatnslaust um tíma.

September: Hagstæð tíð að slepptu áhlaupi um miðjan mánuð. Hiti í meðallagi.

Þann 5. september segir Morgunblaðið frá „meiriháttar“ flóði í Austurstræti. „Flóði þar vatn yfir þvera götuna svo að þar var eigi öðrum fært yfir en vel verjuðum mönnum. 

Og enn bárust fregnir af sjávarflóðum, í þetta sinn frá Siglufirði. Morgunblaðið segir frá þann 19.:

Siglufirði í gær: Hér var ofsa norðanstormur í nótt, hríð og sjávarflóð. Brotnuðu bryggjur þeirra Goos, Substads, Bræðings, Evangers, Bakkevigs og Ásgeirs Péturssonar. Tvö þúsund tunnur af síld fóru i sjóinn. Misstu þeir einna mest Ásgeir Pétursson og S. Goos. Tjónið er áreiðanlega nokkuð á þriðja hundrað þúsund krónur.

Vísir segir líka af Siglufjarðartjóninu og nefnir ámóta upphæðir, en telur þó að ekki virðist ólíklegt að eitthvað af síldinni sem í sjóinn fór náist aftur. Vísir segir líka að tjón hafi orðið víðar af sjógangi. Fjórar bryggjur hafi brotnað í Hrísey og líklega hefi einhverjir bátar út með Eyjafirði laskast. Morgunblaðið segir loks frá því 21. nóvember að dönsk seglskúta hafi í þessu veðri slitnað upp á Blönduósi og hleypt upp á Hjaltabakkasand, en sé þar óbrotin.

Þetta veður olli einnig tjóni á Austfjörðum. Austri segir frá þann 18. september:

Ofsaveður með ákafri rigningu geisaði hér s. l. sunnudag [17.]. Mun veður þetta hafa geisað um allt land, og valdið allmiklum skemmdum. Hér fauk fjárhús hjá Firði og þak af brauðgerðarhúsi A. Jörgensens. Auk þess skemmdust þök á fleiri húsum. Bátar skemmdust talsvert og smáskip er hér lá við bryggju brotnaði nokkuð.  Á Fáskrúðsfirði fuku tvö húsþök og eitthvað af smábátum fór i spón, tveir mótorbátar slitnuðu upp og ráku á land og skemmdust eitthvað. Svipað þessu heyrist víða að. ... Símaslit urðu allvíða, ...  

Október: Hagstæð tíð, einkum norðaustanlands. Fremur hlýtt.

Morgunblaðið segir þann 21. frá illviðri:

Afspyrnurok var hér í fyrrinótt Brotnuðu rúður víða í bænum og aðrar smáskemmdir urðu.

Vestri segir frá því sama dag að hús hafi aðfaranótt þess 19. fokið í Hnífsdal. Húsið var ekki fullsmíðað og átti að notast fyrir smíðahús. Tjón eigandans, Ólafs Andréssonar trésmiðs sé tilfinnanlegt. 

Nóvember: Hægviðrasöm og lengst af hagstæð tíð. Fremur kalt fyrir norðan, en hiti annars í meðallagi.

Illviðri gerði þó eystra um mánaðamótin október/nóvember. Austri segir frá þann 4. nóvember:

Undanfarandi hefir verið austan stórrigning og stormur, snjóað á fjöll en rignt af í byggð. Þar til í fyrradag að jörð varð hvít til sjávar. Hefir síðan verið talsverð snjókoma, en frostlaust. Símaslit hafa orðið allmikil síðustu dagana. Sambandslaust að mestu út um land i fyrradag.

Í Austra birtist þann 4. desember fregn um fjárskaða á Jökuldal. Áttatíu fjár hafi fennt. Dagsetningar er ekki getið. 

Morgunblaðið birtir fregn frá Eyrarbakka 25. nóvember:

Hér liggur snjór á jörðu nú í fyrsta sinn á þessum vetri. Fiskur er töluverður úti fyrir, en það hefir  ekki verið hægt að fara á sjó undanfarna daga fyrir brimi. 

Þann 30. nóvember strandaði Goðafoss við Straumnes - mannbjörg varð. Veður kom ekki mjög við sögu. 

Desember: Þurrviðrasöm og lengst af góð tíð við sjávarsíðuna suðvestanlands, en harðari með nokkrum snjó inn til landsins og norðaustanlands. Kalt.

Fréttir voru í blöðum af hálkuslysum í Reykjavík snemma í desember. Þá fórst bátur við Höskuldsey á Breiðafirði þann 2. í brimi og nokkrum stormi, fjórir voru á, faðir og þrír synir hans. 

Vart varð við hafís í Djúpinu þann 10. (Vestri þ.12.)

Þann 22. kvarta bæði Morgunblaðið og Suðurland um norðanstorm og kulda. Morgunblaðið segir: „Ofsastormur af norðri var hér í gær með hríð á stundum og frosti. Versta veður um land allt“. Suðurland: „Hér sífelldur norðanstormur og kuldi. 14 stiga frost í dag“. 

Fram á Siglufirði segir frá á Þorláksmessu:

Tíðin hefir verið afar vond nú lengi má heita að samhangandi stórhríð hafi verið í nærri 3 vikur, þó uppstyttur hafi verið dag og dag. Snjór er því kominn hér mjög mikill, óvanalega mikill svo snemma veturs.

Lýkur hér samantekt ritstjóra hungurdiska um veðurfar og veður ársins 1916. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fremur hæglát átök

Veður hefur nú haldist meinlítið nokkra hríð og líkur eru á að svo verði áfram. Þar með er ekki sagt að staðan sé alveg átakalaus því að landinu sækir loft úr ýmsum áttum. Austanloftið hefur lengst af haft undirtökin - en vestanloft árangurslítið reynt að sækja að - sunnan- og norðanloft hefur einnig komið við sögu, en ekki svo mjög. 

w-blogg070418a

Kortið sýnir stöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin segir hana verða síðdegis á mánudag (9. apríl). Greinileg skil eru á milli vestan- og austanlofts á Grænlandshafi - sóknin að vestan hefur runnið út í sandinn og loftið sveigt til suðurs í átt til Portúgal. Austanloftið hefur haldið völdum - ekki er það samt sérlega hlýtt enda lítið farið að hlýna í Evrópu enn sem komið er.

Mjög öflug lægð er á kortinu nærri Nýfundnalandi. Sunnan við hana sækir mjög kalt vestanloft enn á - næsta tilraun þess til að ná undirtökum hér á landi. Hvernig sú sókn gengur kemur í ljós á miðvikudag/fimmtudag sé að marka reikninga. Sér til aðstoðar hefur vestanloftið fengið sunnanátt austan lægðarinnar - hún á að reyna að stugga við austanloftinu með stungusókn. 

Hádegisspáruna evrópureiknimiðstöðvarinnar gerir ráð fyrir því að vestanloftið hafi það hingað til lands fyrir vikulok - en verði þá algjörlega magnþrota og auðveld bráð næstu austansóknar. 


Af árinu 1839

Ekki eru margar línur um árið 1839 í riti Þorvaldar Thoroddsen, Árferði á Íslandi í þúsund ár, aðeins 6 og teknar nær orðrétt úr fréttaritinu Gesti vestfirðingi (1. árgang 1847). Gestur segir um árið:

Árferði í góðu meðallagi, norðanáttir að staðaldri, oftast þurrviðri, en lítil úrfelli; grasár varð því í lakara lagi, en nýting góð. Sjáfarafli allsæmilegur, nema í Dritvík, þar varð hlutarhæð að eins 50 til 110, fiskar.

Við skulum nú reyna að grennslast nánar fyrir um tíðarfar þessa árs. Það er merkilegt fyrir einmitt það sem pistill Gests segir. Þurrviðri vestanlands og þrálátar norðanáttir. Jón Þorsteinsson mældi enga úrkomu i september. Er það eini úrkomulausi mánuðurinn í allri mælisögu höfuðborgarinnar. Ef til vill hefðu nútímaaðferðir þó skilað einhverju. Í ágúst mældist úrkoman aðeins 4 mm og aðeins 376 mm samtals allt árið. Hætt er við að þurrkur af þessu tagi væri nú kenndur hnattrænni hlýnun - enda alvarlegur. Árið áður var ekki mikið betra hvað þetta varðar - en um það fjöllum við vonandi síðar. 

Enginn mánuður ársins telst hlýr, en hiti var þó ofan langtímameðaltala í Reykjavík í apríl, ágúst og september. Sérlega kalt var í janúar og febrúar og svo einnig í desember, en líka kalt í mars, maí og október. Tölur má finna í viðhengi. 

w-ar1839-txtn

Myndin sýnir hámarks- og lágmarkshita hvers dags í Reykjavík árið 1839. Þar má sjá að hitafar vetrarins var órólegt og frost fór alloft niður fyrir -10 stig. Mest var frostið -20 stig þann 18. febrúar - og á gamlársdag (næsta vetur) fór það niður í -16. Allmargir hlýir dagar komu um sumarið og fór hiti fjóra daga í 20 stig, 13., 21., 22. og 28.júlí, en skortur var á mjög hlýjum nóttum í þurrkunum.

Enda skila engir sérlegir hlýindadagar (á langtímavísu) sér í net ritstjóra hungurdiska - en aftur á móti 18. kaldir. Oft langt mál er að telja þá alla upp, en þrír komu í röð 6. til 8. janúar, aðrir þrír 29. til 31., enn þrír í röð 17. til 19. febrúar og fjórir í röð 24. til 27. desember. Síðasta frost að vori var 27. maí og fyrsta haustfrostið 25. september, en hiti hafði þó farið niður í frostmark 31. ágúst, 1. og 2. september. 

Jón getur engrar úrkomu frá og með 26. ágúst til og með 3. október - og ekki heldur frá 14. júlí til og með 5. ágúst - og eftir smáúrkomu þann 6. var þurrt til þess 25. 

Jón sendi danska vísindafélaginu skýrslur sínar tvisvar á ári - með haustskipum í september og vorskipum í mars. Hann segir í athugasemd með haustskýrslunni 3. september - (þá var reyndar mánuður eftir af þurrkatíðinni): 

Det vil af denne Sommers Observationer erfares af den har været overordentlig tör, i det mindste 12te Julii til 31 Augusti, ligesom og at det har været særdeles behageligt og stadigt Vejr i den Tid, og Barometeret ligeledes har vist mindre Foranderlighed, en ellers i Almindelighed, her er Tilfældet.

Eða í lauslegri þýðingu:

Sjá má af veðurathugunum þessa sumars að það hefur verið sérlega þurrt, að minnsta kosti frá 12. júlí til 31. ágúst. Að auki hefur veðrið verið sérlega stöðugt og þægilegt á þessu tímabili og loftvogin hefur sömuleiðis hreyfst minna en venjulegt er hér um slóðir. 

Tínum nú til aðrar heimildir - og byrjum á Brandstaðaannál:

Eftir nýár snjógangur og vestanátt. Jólastorkan linaðist í lágsveitum, svo snöp varð. Með febrúar kom jörð að austanverðu í dölum. Í miðjum febrúar skipti um til norðanáttar með miklum hörkum. Rak þá hafís fast að landi. Var í þeim mánuði ei kafaldslaus dagur til uppsveita, með jarðbanni og líkt í dölum móti austri. 4.-6. mars kom jörð mót vestri og 12.-14. í sveitum og fór þá frá hafísinn. Einmánuður varð hinn besti og blíðasti, er menn mundu til, 8.-16. apríl stöðug heiðarleysing. Var þá að mestu unnið á túnum og litkuðust sum.

Með sumri spilltust veður með fjúkslyddum og frostum og óstöðugu veðri til 9. maí, að gróður og góðviðri kom. Eftir fardaga stillt og náttfrostasamt. Lagðist ísinn þá að aftur. Um Jónsmessu komust skip hér á höfn. (s131) Í júlí þurrkar, en stormar og kuldar ytra með gróðurleysi. Sláttur byrjaði með hundadögum. Gekk hann seint á túnum og harðlendi, því nú varð mesta þurrkasaumar og oft sterkir hitar. Grasvöxtur varð góður á flóum og flæðiengi og heyskapur æskilegur, en hinir fengu í minna meðallagi, en notagóðan heyafla. Sláttartími varð langur, því réttir urðu 26. sept.

Haustið varð allgott. 1. og 10. okt. snöggleg fönn, er tók fljótt af. Undravert þótti hér, að úti á Skaga ásamt norðurútkjálkum urðu, einkum í september, norðanþokur og þerrileysi, svo skemmdir urðu á heyi. Í nóvember góð vetrartíð til 26., að fönn lagði á og með desember frostleysur og snjókyngja. 6. gjörði norðanrigning mikla og jarðlaust fyrir hross og fé í lágsveitum. Til hálsa náðu hross niðri. Þar eftir voru stöðugar norðanhörkur með og kafaldsbarningur til nýárs og hríð á jóladaginn. Voru þá flest hross á gjöf komin. (s132)

Í annál 19 aldar (Pétur Guðmundsson) segir m.a. um árið 1839:

Vetur var mjög mislægur, kallaður góður í Þingeyjar-, Vaðla- og Skagafjarðarsýslum, en harður í Húnavatns-, Borgarfjarðar-, Gullbringu- og Árnessýslum. Kom þó víðast góður bati á góu og tók eigi eftir það fyrir jörð, og eftir páska kom æskileg hláka. [Páskadagur var 31. mars]. Vorið var víðast kalt og stormasamt; varð því gróður lítill og heyfengur í minna lagi. Nýting góð og hagfellt veður, einkum um túnaslátt, nema í Þingeyjar- og Vaðlasýslum. Haustið var ofviðra- og hretasamt. Voru kýr venju fyrr teknar á gjöf og lagði vetur snemma að. Spilliblota gerði á jólaföstu og skáru margir af fénaði þeim, er þeir höfðu ætlað sér að setja á, og þótti flestum nyrðra viðskilnaður ársins voðalegur, en betra var um sauðajörð á Suðurlandi.  

Bjarni Thorarensen amtmaður og skáld sat um þessar mundir á Möðruvöllum í Hörgárdal, amtmannshúsið nefndist Frederiksgave (líka nefnt Friðriksgáfa). 

Frederiksgave 14-2 1839 (Bjarni Thorarensen):. Hafís sást í janúar en hvarf aftur austur og norður fyrir Sléttu, vetur umhleypingasamur með sífelldri vestanátt, svo eg er hræddur um að sá hvíti komi aftur og heimsæki okkur eins og hin árin. (s140)

Jón Þorsteinsson segir í athugasemd með vorskipaskýrslunni, dagsett 28. febrúar (í lauslegri þýðingu):

Veturinn hefur annars verið mjög hvassviðrasamur og kaldur. Loftvogin oft staðið undir 27 tommum [975 hPa] og hitinn oftar en einu sinni farið niður í -15°R [-18°C] og mest í -16°R [-20°C]. 

Hér koma svo nokkrar tilvitnanir í samtímabréf: 

Bessastöðum 3-3 1839 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s179) Hér er nú mikið harður vetur og soddan sultur og seyra, að eg man ekki slíkan í tuttugu ár.

Frederiksgave 28-7 1839 (Bjarni Thorarensen):: Grasvöxtur hér vesæll og þaðanaf verri í Múlasýslum sökum kulda af landnyrðingum. (s167)

Frederiksgave 2-9 1839 (Bjarni Thorarensen): Vor kalt, bærilegur, kafli frá fardögum til Jónsmessu, en síðan oftast kalt, því „hafísinn er harla nærri“, því grasvöxtur er með versta slag, sumstaðar ekki betri en 1835, nokkrir, einkum sumstaðar í Þingeyjarsýslu, eiga fyrningar af heyjum frá því í fyrra, en í vestra parti amts þessa verður ástandið að því leyti lakara sem fyrningar eru minni af því næstliðinn vetur var þar úr hófi áfreðasamur. (s247)

Frederiksgave 7-9 1839 (Bjarni Thorarensen): Illa horfist víða á í haust vegna grasbrestarins einkum í vestra parti amts þessa og jafnvel hér, því fyrningar voru litlar afþví vetur var áfreðasamur, en betra í Þingeyjarsýslu hvar vetur var hagkvæmari og fyrningar töluverðar. (s143)

Bessastöðum 25-9 1839 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s184) Besta og hagfelldasta sumar, logn og þurrkar, má kalla gengið hafi í ellefu eða tólf vikur, fiskur mikill hér, en grasbrestur ...

Laufási 9-10 1839 [Gunnar Gunnarsson] (s86) Umhleypingsstormar þeir í fyrra héldu við af og til, til þess hallaði út vetri, eða – þó réttar sagt – með góukomu. Veturinn varð víðast snjóalítill, svo margir eftirlétu hér töluvert af heyjum. Hafís var á flækingi hér úti fyrir frá miðjum febrúar og til þess að komið var langt fram á vor. Það fór að gróa snemma, eða um sumarmálaleyti í vor, en sá gróður fór bráðum aftur vegna norðlægra kulda þræsinga og hríðarhreta í millum, svo að í sumar varð mesti grasbrestur hér nyrðra, einkum í þessari sýslu, hvar ogsvo voru svo miklir óþurrkar, einkum síðan áleið sumar, að töluvert er ennþá úti sumstaðar af heyi, sem líklega er orðið eður verður að litlum notum framar.

Frederiksgave 10-10 1839 (Bjarni Thorarensen): Bréfsefnið er að segja þér örgustu ótíðindi úr öllum eystri hluta amts okkar, nefnilega svo staklegra óþurrka sökum sífelldra landnyrðinga að töður lágu enn óhirtar í septembermánaðarlok á Sléttu ... (s147) 

Bessastöðum 28-10 1839 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s185) Eftir það þægilegasta sumar höfum við líka sæmilega gott haust ...

Frederiksgave 15-2 1840 (Bjarni Thorarensen): Tíðindin eru hvorki góð né mikil. Vetur um allt amtið með verstu jarðbönnum frá nóvemberlokum til nú. Hey lítil og skemmd. ... Hafís kominn og farinn vesturmeð en í þetta sinn er hann borgarís mest og því lengra að, vona ég því að þetta verði seinasta hafísárið einsog það 7da. ... Það dómadags snjóflóð kom útí (s148) Siglufirði á sjó niður að honum sletti upp hinumegin svo skip sem þar stóðu uppi brotnuðu nokkur í spón en hin löskuðust og sjór fór þar inní kaupmannshúsin. (s149)

Í lokin sagði Bjarni frá snjóflóðinu merkilega sem féll á Siglufirði á Þorláksmessu 1839. Í annál 19. aldar (s126) segir að flóðið hafi fallið „fyrir framan Staðarhól í Siglufirði ofan í sjó og yfir fjörðinn, sem er hér um bil 400 faðmar á breidd og 20 faðma djúpur, og ruddi sjónum undan sér upp á land fyrir framan kaupstaðarhúsin, losaði um 7 skip á hvolfum, stór og smá, og skemmdi eða braut þau meira og minna“.

Að vanda er ekki auðvelt að ráða í veðurbækur Jóns í Möðrufelli, en þó má sjá að hann segir janúar hafa verið í heldur lakara lagi og febrúar líka. Í mars hafi veðrátta hins vegar verið góð nema fyrstu og síðustu dagana og aprílmánuð segir hann yfirhöfuð í betra lagi. Maí hafi verið mjög kaldur, júní nokkuð skárri, en þó segir hann 29. júní að nýliðin vika hafi verið andköld með næturfrostum oftast. Júlí og ágúst sömuleiðis andkaldir. September yfir höfuð bágur, en samt ekki stóráfellasamur. Október óstöðugur, nóvember í meðallagi, en desember mátt heita harður og hin ákaflegustu frost. Árið allt hafi verið í bágara lagi.

Í ísannál sínum (Árferði á Íslandi) segir Þorvaldur Thoroddsen frá ferð Jónasar Hallgrímssonar á skipi til Norðurlands í júní 1839:

„Það vor var Jónas Hallgrímsson á ferð frá Kaupmannahöfn til Akureyrar og 12. júní sáu þeir hafís 14 mílur fyrir austan Langanes, veður var kyrrt en svarta þoka og hrím og ís á reiða skipsins; þó þeir væru tvær mílur frá ísnum, heyrðist þaðan brak og brestir og niður eins og af brimhljóði, þó var blæjalogn og ládeyða. Daginn eftir varð ísinn fyrir þeim, svo þeir komust eigi fyrir Langanes fyrr en 16. júní, tveim dögum síðar náðu þeir opi Eyjafjarðar og urðu að brjótast gegnum íshroða inn í fjörðinn“. (s395) 

Í annál 19. aldar er langur listi slysa sem urðu á þessu ári, bæði á sjó og landi. Sum þeirra tengdust greinilega veðri. Sagt er frá miklum hrakningum sem fáeinir bátar lentu í undan Snæfellsnesi og á Breiðafirði laugardaginn fyrsta í þorra. Segir m.a.:

„Dimmviðri var austan um morguninn, en veður buldi í fjallinu. Komust allir til veiða og lögðu sumir er fyrstir komu, tvö köst, en hinir eitt. Brast þegar á hið mesta æsingsveður, er menn drógu seinna kastið. Sagði Andrjes Bjarnason, húskarl Ólafs Sívertsens prests í Flatey, að aldrei myndi hann þvílíkt veður um 18 vetur, er hann hafði verið undir Jökli og 12 af þeim formaður“ (s124).

Tveir menn urðu úti fyrir jólin í Húnavatnssýslu (s126) og tveir nærri Raufarhöfn. Maður varð úti á Höfðaströnd 7. desember og annar á Þorláksmessu í Sléttuhlíð í Skagafirði. 

Þess má að lokum geta að árið þótti illviðrasamt á Bretlandseyjum og snemma í janúar gekk þar yfir gríðarlegt ofviðri í tenglum við eina dýpstu lægð sem þar hefur sýnt sig (þrýstingur innan við 930 hPa). 

Ritstjóri þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt á texta Brandstaðaannáls og Sjöfn Kristjánsdóttur fyrir að greiða úr athugasemdum Jóns Þorsteinssonar. Bréfatilvitnanir eru flestar úr útgáfum Finns Sigmundssonar á bréfum fyrri tíma - og er vísað í blaðsíðutöl þeirra rita. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2018
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5
  • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 72
  • Sl. sólarhring: 116
  • Sl. viku: 1696
  • Frá upphafi: 2349656

Annað

  • Innlit í dag: 66
  • Innlit sl. viku: 1537
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 60

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband