Afmælisdagur hungurdiska

Ritstjórn hungurdiska þykir sjálfsagt að minnast þess að í dag (19. ágúst) eru 14 ár frá stofnun bloggsíðunnar. Það þykir sumum langur tími - og vissulega hefur ómældur tími farið í  misvelheppnuð pistlaskrifin [3241]. Umfjöllunarefnin hafa öll verið tengd veðri - og ótalmargt er óskrifað enn. En svo er komið að ritstjórinn man ekki lengur öll umfjöllunarefnin og verður jafnvel hissa þegar hann flettir gömlum pistlum. 

Pistlarnir hafa hin síðari ár verið færri en áður, minna um frumleg skrif, en meira um samantektir úr gömlum fréttum og þess háttar. Er það vonandi vel þegið hjá einhverjum lesendum. 

Á undanförnum árum hefur langstærsta verkefnið verið að taka saman pistla um veðurlag og atburði einstakra ára. Vantar nú aðeins þrjú ár upp á að pistlar hafi litið dagsins ljós um öll árin 1801 til 1974 hvert fyrir sig - auk fáeinna ára á 18. öld (eftir eru 1962, 1963 og 1944). Þegar því lýkur er ætlunin að fara á hundavaði yfir helstu atburði áranna 1975 til 2024 - ekki alveg ljóst enn hvernig að því verður staðið. Hvort þrek og heilsa endist til frekari skrifa verður bara að koma í ljós. 

Ritstjórinn notar tækifærið til að þakka góðar undirtektir í áranna rás og Morgunblaðinu fyrir hýsingu og það utanumhald sem henni fylgir. 


Hálfur ágúst

Hálfur ágúst. Meðalhiti í Reykjavík er 11,1 stig, -0,4 stigum neðan meðallags sömu daga á árunum 1991 til 2020 og -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 17. hlýjasta sæti (af 24) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2004, meðalhiti 14,0 stig, en kaldastir voru þeir árið 2022, meðalhiti þá 10,0 stig. Hitinn er nærri miðju á langa listanum, í 71. sæti af 152. Á honum er 2004 líka á toppnum (hvað annað), en kaldastir voru þessir sömu dagar árið 1912, meðalhiti þá aðeins 7,4 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta ágúst 10,8 stig, -0,5 stigum undir meðallagi 1991 til 2020 og -0,1 stigi neðan meðallags síðustu 10 ára.

Að tiltölu hefur verið kaldast á Austfjörðum, þar raðast hitinn í 20. sæti (af 24), en hlýjast að tiltölu hefur verið á Norðausturlangi og Austurlandi að Glettingi - þar sem hitinn er í 12. hlýjasta sæti (miðju röðunar).

Á einstökum stöðvum hefur verið kaldast að tiltölu á Vattarnesi. Þar er hiti -1,2 stigum neðan meðallags síðustu 10 ára. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Hraunsmúla í Staðarsveit, hiti +0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Það hefur verið úrkomusamt. Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 75,9 mm og hefur aðeins fimm sinnum mælst meiri sömu daga, síðast 1983 og 1984. Þetta er hátt i þreföld meðalúrkoma. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 32,9 mm og er það um 80 prósent umfram meðallag. Á Dalatanga hafa mælst 220,8 mm, hátt í fjórfalt meðaltal - og vantar ekki mikið upp á hæstu tölu sömu daga, 237,1 mm (2009).

Sólskinsstundir hafa mælst 57,8 í Reykjavík, 23,6 færri en í meðallagi. Á Akureyri hafa stundirnar mælst 50,7, 19 stundum undir meðallagi.

Loftþrýstingur er enn með afbrigðum lágur. Mæliröð nær aftur til 1822 og hefur meðalþrýstingur fyrri hluta ágústmánaðar aldrei verið jafnlágur þessi 200 ár rúm. En keppnin í lágþrýstingi ágústmánaðar í heild er langt í frá útkljáð. Það fer eftir því hvernig á málin er litið hversu óvenjulegt þetta telst. Líkur á því að einhver hálfur mánuður ársins slái 200 ára gamalt met sömu almanaksdaga eru alltaf töluverðar - gerist að meðaltali á fáeinna ára fresti. En okkur veðurnördum finnst þetta samt harla athyglisvert (en engum öðrum).


Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar 2024

Meðalhiti fyrstu tíu daga ágústmánaðar er 11,5 stig í Reykjavík og er það í meðallagi áranna 1991-2020 og +0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í 15. hlýjasta sæti aldarinnar (af 24). Hlýjastir voru þessir sömu almanaksdagar árið 2003, meðalhiti þá 13,5 stig, kaldastir voru þeir 2022 þegar meðalhitinn var 10,2 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 52. sæti af 152. Á honum er 2003 líka á toppnum, en kaldast var 1912, meðalhiti aðeins 6,4 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga ágústmánaðar nú 10,7 stig, -0,7 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Hitanum er nokkuð misskipt. Langkaldast að tiltölu hefur verið á Austfjörðum. Þar raðast hitinn nú í 22. hlýjasta sæti aldarinnar (þriðjakaldasta), en við Faxaflóa raðast hitinn aftur á móti í 13. hlýjasta sæti aldarinnar - eins og á Austurlandi að Glettingi.
 
Á Tálknafirði og á Lambavatni hefur hiti verið +0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast (að tiltölu) hafur verið á Vattarnesi þar sem hiti er -1,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkoma er langt ofan meðallags á öllu landinu. Í Reykjavík hefur hún mælst 59,8 mm sem er meir en þreföld meðalúrkoma. Úrkoma hefur aðeins fjórum sinnum mælst meiri í Reykjavík sömu almanaksdaga, mest 1983, en einnig 1980, 1984 og 1887. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 23,4 mm og er það rúmlega tvöföld meðalúrkoma og á Dalatanga hefur hún mælst 151,8 mm, meir en þreföld meðalúrkoma.
 
Þrátt fyrir þessa miklu úrkomu er sólskinsstundafjöldi í Reykjavík nánast í meðallagi, 52,5 stundir, einni stund neðan meðallags. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 29,8 og er það 17 stundum neðan meðallags.
 
Loftþrýstingur hefur verið sérlega lágur það sem af er mánuði, 994,8 hPa. Hann hefur aðeins einu sinni verið jafnlágur sömu daga síðustu 200 árin rúm. Það var 1842. Árið 2020 var hann þó ámóta lágur og nú.

Upprifjun á pistli um heimshita og hita hér á landi

Vorið 2016 skrifaði ritstjóri hungurdiska nokkra alllanga pistla um heimshita (og hita í Stykkishólmi) og í framhaldinu um meintan „bláan blett“ á Norður-Atlantshafi. Það er varla kominn tími til að endurskrifa þessa pistla - þeir standa enn fyrir sínu - og auðvelt að finna þá á hungursdiskum (sá fyrsti birtist í apríllok 2016 og hinir síðan frameftir maímánuði). 

Á þessum sjö árum hefur heimshlýnun auðvitað haldið áfram eins og ekkert sé og við var búist. Hér á landi hefur hins vegar lítið sem ekkert hlýnað í 20 ár - enda fór hlýnunin um og fyrir aldamót langt fram úr væntingum - skyndilega var tekin út hlýnun sem hefði staðið í marga áratugi hefði hún verið í sama takti og heimshlýnunin. Svo vill til að það var einmitt árið 1998 sem ritstjóri hungurdiska skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins þar sem hann þóttist sýna fram á með góðum rökum að hlýnun fram að þeim tíma væri meiri en heimshlýnun gæfi ein og sér til kynna - en eins og langminnugir muna hafði þá um 20 ára skeið lítið sem ekkert bólað á henni hér á landi. Svo kom stökkið mikla - og ámóta stökk höfðu átt sér stað áður - í báðar áttir - bæði til hlýnunar og kólnunar - svo lengi sem mælingar sýna (rúm 200 ár). Þessi stóru stökk geta ýmist falið eða ýkt þá undirliggjandi hlýnun sem hefur verið í gangi í heiminum í meir en 100 ár - og hefur farið vaxandi eftir 1980. 

Rétt er að taka fram að textinn hér að neðan er ekki léttlesinn - þeir sem ekki hafa sérstakan áhuga á málefninu ættu ekki að eyða tíma í að lesa hann. En þeir sem á annað borð lesa eru beðnir um að lesa vel (ábendingar um pennaglöp vel þegin). 

Fyrsti greinarstúfurinn 2016 birtist 28. apríl undir titlinum: Heimshiti - hiti hér á landi. Í honum voru þrjár myndir, línu- og punktarit. Við skulum nú líta aftur á tvær þeirra - uppfærðar til ársins 2023 (fyrri myndir náðu til 2015). Skýringartexti hér að neðan er að nokkru leyti sá sami og í fyrri pistli.

Fyrri myndin sýnir hitabreytingu frá ári til árs á heimsvísu - á móti hitabreytingu frá ári til árs í Stykkishólmi. Heimshitinn er fenginn úr gagnaröð Hadleymiðstöðvarinnar (hadcru5). Röðin er í sífelldri endurskoðun - (árið 2016 hét hún hadcru4) - tölur breytast lítillega eftir því sem þekking á hitafari fortíðar batnar. Þeir sem framleiða röðina kusu að miða hana við tímabilið 1961 til 1990 - vikin eru miðuð við meðaltal þess tímabils. það er -0,07 stigum kaldara heldur en meðaltal tímabilsins alls (1850 til 2023). 

w-blogg100824a

Lárétti ásinn sýnir mun á heimshita hvers árs og ársins á undan, en sá lóðrétti það sama fyrir Stykkishólm. Hér er Stykkishólmskvarðinn sexfaldur miðað við heimskvarðann.

Sé fylgin reiknuð (og myndin rýnd) kemur fram væg neikvæð fylgni á milli árlegra heimshitabreytinga og hitabreytingar í Stykkishólmi. Með öðrum orðum að líkur eru til þess að hlýni snögglega milli ára á heimsvísu muni kólna milli ára í Stykkishólmi. Þessi fylgni er hins vegar ekki marktæk á tímabilinu öllu (finna má styttri tímabil þar sem hin neikvæða fylgni er vægt marktæk). Hadleymiðstöðin býður upp á þáttun hitaraðarinnar, norður- og suðurhvel sér, og haf og land sér. Þegar ritstjórinn gerði samskonar rit fyrir þáttaraðirnar kom hin neikvæða fylgni heldur betur fram fyrir norðurhvel og landhlutann heldur en heiminn í heild. (Þetta var 2016 - ekki er víst að sama eigi við nú - ritstjórinn reiknaði nú aðeins fylgnina fyrir breytingar heimshitans og hitans í Stykkishólmi. 

Við sjáum að það eru þrisvar á tímabilinu sem heimshitinn hefur tekið stór stökk upp á við, í fyrra 2023, 1977 og 1877. Árið 1877 var (líklega) mesti el-nino 19.aldar í uppsiglingu. Í öllum tilvikunum þremur kólnaði milli ára í Stykkishólmi - reyndar mjög lítið í fyrra.

Á hinum vængnum finnum við árið 1879 - þá kólnaði um -0,3 stig á heimsvísu - sem er reyndar á mörkum þess trúverðuga - en við getum ekkert sagt við því, el-nino datt út. Þá hlýnaði hins vegar um 0,8 stig í Stykkishólmi frá því árið áður (sem við sjáum af myndinni að er alvanalegt). 

Við skulum nú ekki fara að gera neitt úr þessu - en það sýnir alla vega svart á hvítu að snögg hlýnun á heimsvísu er ekkert endilega vísun á einhver skyndileg aukahlýindi hér á landi - nema síður sé. Hlýnun eða kólnun á heimsvísu frá ári til árs segir ekkert um breytingar hér á landi. Finna má ýmsar skýringar á þessu háttalagi - en kannski mjög erfitt að finna rétta skýringu - við látum það liggja milli hluta. Tökum þó fram að það er skoðun ritstjóra hungurdiska að blái bletturinn svonefndi hafi ekkert með þessa mynd að gera. 

En - hins vegar hefur hlýnað bæði á heimsvísu og hér á landi síðustu 170 árin - þannig að býsna góð fylgni er á milli heimshita og hita í Stykkishólmi. Sú fylgni er hins vegar ekki tilkomin af breytileika frá ári til árs - heldur eingöngu af lengri þróun - og aðallega af mjög langri þróun (lengri en 50 ár).

Hin myndin sem við endurtökum sýnir heimshita á móti Stykkishólmshita - frá ári til árs. Rétt að taka fram að ásunum hefur verið snúið (frá birtingu 2016 - það er viljandi gert). 

w-blogg100824b

Heimshitavik eru á lárétta ásnum - ársmeðalhiti í Stykkishólmi á þeim lóðrétta. Munur á hæsta og lægsta ársmeðalhita í Stykkishólmi er nærri því 5 stig, en aðeins 1,7 stig á heimshitanum. Lóðrétta og lárétta strikalínan sýna meðaltölin - þær skerast þar sem bæði heimshiti og Stykkishólmshiti eru nærri meðallagi alls tímabilsins (1850-2023). (Það er pínulítið skemmtilegt að einmitt þar er „gat“ í punktaskýinu). 

Við sjáum vel að framan af var alls ekkert samband á milli heimshitans og hitans í Stykkishólmi - hlý ár hér á landi - eins og t.d. 1929 og 1933 eru undir meðallagi á heimsvísu. Köldustu árin í Stykkishólmi eru þó köld á heimsvísu. Kaldast var 1859 og 1866 og einnig 1892. Ritstjórinn hefur - til gamans - sett þar inn bláa strikalínu - sem liggur síðan upp á við til hægri nærri Stykkishólmslágmörkum punktadreifarinnar. Við sjáum að árið 2023 (rautt) er við þessa bláu línu - það var kaldara í Stykkishólmi heldur en heimshitinn einn og sér segir - sama má svo segja um 2015 og 1998. Á sama tíma skulum við taka vel eftir því að langflest ár á þessari öld eru ofan fylgnilínunnar (svarta punktalínan) - ár sem hafa verið hlýrri heldur en vænta mætti út frá heimshitanum einum og sér eru mun fleiri en hin. Samband Stykkishólmshita við heimshita er orðið til - en var ekki. 

En tökum nú vel eftir einu: Hin nýlegu „köldu“ ár sýna mun minni vik frá heimshitalínunni heldur en hin gömlu (bláa punktalínan nálgast þá svörtu eftir því sem á liður). Þetta leiðir af sér grunvallarspurningar: Er einhver sérstök ástæða til þess að halda að hiti hér á landi fylgi heimshitanum betur í hlýjum heldur en í köldum heimi? Getum við verið viss um að „auða svæðið“ á myndinni haldist autt - og stækki bara (hlutfallslega) eftir því sem heimshitinn hækkar? Það er hægt að búa til skýringar á því hvers vegna það kunni að vera svo. Annars vegar að hafís sé að hverfa úr sögunni við Ísland - og hins vegar (ekki alveg ótengt) að munur á hita norðurslóða og tempraða beltisins minnki - þar með verði „lengra í“ mikinn kulda en áður - þrálátari norðan- eða vestanáttir þurfi til að kæla heldur en áður. 

Ýmislegt bendir til þess að þannig hafi það verið síðustu áratugi. Ísinn hefur alla vega ekki sýnt sig - og norðanáttir hafa orðið hlýrri en áður. Við höfum því elt heimshitann betur en áður. 

Það er svo annað mál að ritstjóri hungurdiska þykist - af reynslu - vita að þegar til mjög langs tíma er litið - þúsund ár eða meira - mun þetta línurit fyllast að mestu - það munu detta inn punktar álíka - eða lengra fyrir neðan svörtu strikalínuna heldur en nítjándualdartilvikin sýna okkur - og þegar það gerist er það bara eðlilegur atburður í veðrakerfinu - sem ekki segir neitt um hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa - hún gengur sinn gang. Þessir punktar gætu birst fyrirvaralítið - en komi einn eru líkur á að fleiri fylgi í kjölfarið. Ekkert sérstakt bendir þó til þess að slíkt sé yfirvofandi. 


Þrjár nýlegar dembur

Ritstjóri hungurdiska hefur nú litið lauslega á mælingar á þremur miklum skúradembum. Tvær þeirra féllu þann 25. júlí (2024), annars vegar í Borgarfirði, en hins vegar austur í Þjórsárdal. Sú þriðja kom við á Veðurstofunni 1.ágúst. 

Til að setja demburnar í samhengi er rétt að rifja upp tvær eldri reykjavíkurdembur. Tökum fram í upphafi að það er ekki fyrr en á allrasíðustu árum að almennt er farið að mæla úrkomuákefð. Úrkoma var yfirleitt aðeins mæld einu sinni eða tvisvar á sólarhring (örfáum sinnum þrisvar). Síriti var þó snemma settur upp í Reykjavík og var hægt að mæla ákefð með honum. Einnig voru síritar lengi á Hveravöllum og Kvískerjum í Öræfum, en rekstur þeirra gekk alla vega. Það var ekki fyrr en um aldamótin síðustu að sjálfvirkum stöðvum fjölgaði - og þar með síritandi mælum. Allskonar erfiðleikar hafa þó komið upp við mælingarnar og verst er að síðustu þrjú árin hefur alls ekki verið farið yfir þær í leit að villum. Sem stendur er því ekki hægt að kalla fram tölur um dembutíðni á landinu eða einstökum stöðvum. Hugtökin „demba“ eða skýfall hafa ekki einu sinni verið skilgreind hér á landi eins og gert hefur verið í öllum nágrannalöndunum. 

Ljóst er að ákafar dembur geta valdið umtalsverðum ama og jafnvel stórtjóni þótt þær standi aðeins mjög stuttan tíma. Mikilvægt er því að ná tökum á tíðnirófi þeirra til að hægt sé að hanna frárennsli (í stóru og smáu) - en rétt hönnun er forsenda þess að koma megi í veg fyrir tjón - eða lágmarka ama af því. 

Við látum Pál Berþórsson lýsa eigin mælingu á mikilli dembu í Reykjavík 10.júlí 1948, (tekið úr merkri grein Páls: „Hvað getur úrfelli orðið mikið á Íslandi?“ Veðrið 1968 s.52-58:

Það var á júlímorgni árið 1948, að hann gerði ofsalega rigningarskúr strax eftir að úrkoman hafði verið mæld í Reykjavík. Þegar rigningin hafði staðið í klukkutíma, datt mér í hug að fara út og mæla þessa dembu. Hún reyndist vera 17,3 millimetrar, en það þýðir eins og flestum mun kunnugt, að hún hafi skilið eftir sig 17,3 mm djúpt vatn á jafnsléttu, ef ekkert hefði runnið burt eða sigið niður. Þegar þetta gerðist, var enginn síritandi regnmælir á Veðurstofunni, en í allar þær 150 þúsund klukkustundir, sem hann hefur verið í gangi síðan, er aldrei vitað til, að í Reykjavík hafi mælst svo mikið regn á einni stundu.

Getið var um þetta veður í blöðum, m.a. Morgunblaðinu sem segir að þrumuveður hafi fylgt úrhellinu og að þetta hafi verið snemma morguns. Á þessum tíma voru þrjár úrkomumælingar á dag í Reykjavík, kl.6, kl.9 og kl.18. Var nýbúið að mæla kl.6 þegar skúrin féll. Heldur heppilegt allt saman. [Sjá líka pistil hungurdiska um árið 1948]. 

Að kveldi 16.ágúst 1990 gekk einkennileg skúr yfir Reykjavík. Henni er lýst í pistli á vef Veðurstofunnar um úrkomumet á Íslandi. Þar segir um skúr þessa:

„ ... er rétt að geta óvenjumikillar dembu sem gerði í mæla Veðurstofunnar að kvöldi 16. ágúst 1991. Ekki var þá langt síðan veðurratsjá stofnunarinnar hafði verið tekin í notkun og síðdegis þennan dag kom fremur fyrirferðarlítið ský inn á sjána úr suðsuðaustri og stefndi á ströndina suður og vestur af Selvogi.

Skemmst er frá því að segja að skýið fór yfir Bláfjallasvæðið, Reykjavík og til norðurs, skammt vestur af Akranesi. Mikið úrfelli gerði á litlu svæði í Reykjavík svo frárennsli hafði ekki undan og vatn komst í allmarga kjallara, einkum í námunda við Hlemm. Fyrir tilviljum fór mesta demban því sem næst nákvæmlega yfir Veðurstofuna. Vestast í bænum og austan til rigndi mun minna og ekkert tjón varð þar.

Smáskúrir hafði gert fyrr um daginn, en kl. 21:30 byrjaði skyndilega að hellast úr lofti og þegar úrkomunni lauk kl. 23:40 höfðu, samkvæmt síritanum, fallið 21,2 mm. Klukkustundina frá 21:30 til 22:30 féllu 18,2 mm, hálftímann frá 21:30 til 22:00 13,2 mm, tuttugu mínúturnar frá 21:50 til 22:10 10,4 mm, frá 21:50 til 22:00 féllu 7,2 mm og fimm mínúturnar 21:55 til 22:00 féllu 4,7 mm. Taka verður fram að ekki er víst að klukkan í síritanum hafi verið nákvæmlega rétt og gæti hæglega skeikað 5 til 10 mínútum. Sömuleiðis er ætíð aðeins álitamál hversu nákvæmur aflesturinn er, en varla skeikar miklu.

Hér að ofan var skipt milli tímabila á heilum 10 mínútum. Hæstu 10 mínúturnar hafa væntanlega verið lítillega hærri en áðurnefndir 7,2. Sökum gagnaskorts er óvíst hversu algengar svona dembur eru hér á landi, en fráleitt er að sú mesta hafi einmitt fallið á Veðurstofunni. Í þrumuveðri í júlí 1998 féll geysimikil úrkoma í Stíflisdal og mældist heildarúrkoma dagsins 43,2 mm. Veðurathugunarmaður segir í athugasemdum að mestur hluti úrkomunnar hafi fallið á u.þ.b. 10 mínútum. Líklegt er að mestu dembur hér á landi komi einmitt í þrumuveðrum að sumarlagi.

Í þessum tveimur dembum var úrkomuákefðin annars vegar 17,3 mm/klst (1948) og 18,2 mm/klst (1990). Við vitum ekki um 10-mínútna ákefð 1948, en aðferð sú sem Páll notar í greininni áðurnefndu bendir á að hún hafi líklega verið að minnsta kosti 7 mm, svipað og mældist í úrhellinu 1990 - þar sem klukkustundarákefðin var svipuð. Í sumar (2024) hefur frést af allmiklum dembum. Þann 25. mældist mikil demba á Hvanneyri í Borgarfirði og sama dag gerði einnig mikla dembu austur við Búrfellsstöð í Þjórsárdal. Þrumuveður var samfara dembum þessum - alla vega á Hvanneyri og þar í grennd. 

w-blogg020824c

Hér að ofan má sjá 10-mínútna úrkomu á Hvanneyri (grænar súlur) og Búrfelli (rautt) þetta síðdegi, frá kl.14 til kl.22 um kvöldið. Mikla skúr gerði á Hvanneyri upp úr kl.16, mældist hún alls 6,8 mm, þar af 2,6 mm á 10 mínútum. Varla stytti alveg upp fram að skúrinni miklu sem hófst rétt fyrir kl.19. Rúmri klukkustund síðar höfðu fallið 19,9 mm, þar af 19,5 mm á 60 mínútum. Mesta 10-mínútna ákefðin mældist 9,2 mm milli kl.19:30 og 19:40 og 5,8 mm næstu 10-mínúturnar þar á undan.

Pétur Davíðsson, bóndi á Grund í Skorradal benti mér á að í grenndinni væru fáeinar stöðvar reknar af einkaaðilum. Vel má við þessar aðstæður treysta mælingum þeirra (að öðru leyti en því að ritstjóri hungurdiska veit ekki hvernig nánasta umhverfi mælanna er háttað - né hvort þeir eru í löglegri hæð).

Á Horni í Skorradal rigndi hvað ákafast í skúrinni milli kl.16 og 17. - komst upp í um 12,4 mm á klst. Í Meltúni, sem er skammt frá Skeljabrekku, rigndi svipað og á Hvanneyri - og um svipað leyti dags. 

Ekki er vitað um svona mikla úrkomuákefð áður í mælingum á Hvanneyri, en athuga ber að ekki hefur verið farið ítarlega yfir þær. 

Einnig má sjá mikla skúr við Búrfell á myndinni (rauður ferill). Þar komst 10-mínútna ákefðin reyndar upp í 10,0 mm þegar mest var, en heildarúrkoma varð aðeins minni heldur en á Hvanneyri. Þetta er svipaður atburður. Í báðum tilvikum standa skúrirnar meira en í 10-mínútur, engin vissa er því fyrir því að þær 10-mínútur sem mælirinn velur séu einmitt þær sem hittu á mestu ákefðina. Kannski var hún aðeins meiri en sýnt er. 

Síðastliðinn fimmtudag, 1. ágúst, rigndi hressilega í Reykjavík. Ekki er víst að ákefðin hafi verið mest á Veðurstofunni, reyndar ólíklegt, því eitthvað mun hafa flætt í kjallara í skúrinni. Vill til að ekki er mikið um kjallara á Hvanneyri. 

w-blogg020824d

Sem stendur eru þrír sjálfvirkir úrkomumælar í notkun við Veðurstofuna. Myndin sýnir úrkomumælingar tveggja þeirra - sá þriðji sýnir efnislega það sama. Ákveðið var að halda sama kvarða og á fyrri mynd. Við sjáum að ákefðin er mun minni heldur en á Hvanneyri og í Búrfelli, allmikil þó, mest 3,7 mm á 10-mínútum og heildar úrkoma á báðum stöðvum í kringum 9 mm á klukkustund. Það er ekki sérlega algengt í Reykjavík. Grænleitu súlurnar sýna mælingar í nýja mælireitnum við Háuhlíð - það er eins og úrkoman hafi byrjað aðeins síðar þar heldur en við mælinn á Veðurstofutúni (rauður ferill) - eða eru klukkur mælanna ekki alveg samstíga? Í báðum tilvikum dreifist mesta úrkoman á tvennar tíu mínútur. Það er því alveg hugsanlegt að mesta 10-mínútna ákefð hafi verið t.d. 5 mm. 

En notum þessar myndir - og eldri demburnar tvær - til að „norma“ okkur. Bætum tilfinningu okkar fyrir því hvað er óvenjulegt og hvað ekki. Mjög mikilli úrkomu fylgja ákveðnar breytingar á ásýnd lofts og jarðar - þeir sem oft lenda í slíku læra að mæla ákefðina gróflega með huganum einum saman. Ekki er ritstjóri hungurdiska svo langt kominn í náttúrusambandinu - en hann er samt á leið þangað - og fer enn fram þótt gamall sé orðinn. 


Smávegis af júlí 2024

Eins og fram kom í júlíyfirliti Veðurstofunnar var verðri nokkuð misskipt hér á landi í júlí. Úrkomusamt og svalt var um landið sunnan- og vestanvert, en hlýtt um landið norðaustanvert - þótt þær gerði nokkrar óþægilegar úrkomugusur líka. Vestanátt var heldur minni í háloftunum en vant er, en sunnanátt hins vegar allstríð, loftþrýstingur lágur og veðrahvörfin stóðu lágt. 

w-blogg020824a

Kortið sýnir greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), þykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Köld stroka liggur til suðurs meðfram vesturströnd Grænlands og þaðan austur um haf fyrir sunnan land. Að öðru leyti er hlýrra á kortinu heldur en að meðaltali. Kuldapollar hafa stöðugt brotist suður úr Íshafinu og sést slóð þeirra á þykktarvikunum. Loftið hér suðurundan hefur ekki bara verið svalt, heldur líka óstöðugt - hlýindi sjávar (miðað við kulda loftsins að norðan) ýta undir óstöðugleikann. 

Ritstjórinn finnur skyldleika með fyrri júlímánuðum helst árin 2014, 1994, 1947 og 1937. Óþurrkar ríktu á Suður- og Vesturlandi mestallt sumarið, 1937 og 1947, en blandaðra ástand var 1994 og 2014 - júlímánuður óþurrkasamur syðra, en síðan batnaði í báðum tilvikum. Hvað gerist nú vitum við auðvitað ekki. 

w-blogg020824b

Taflan sýnir röðun meðalhita á spásvæðunum í samanburði við aðra júlímánuði á þessari öld. Mjög hlýtt var á Norðurlandi eystra, fjórðihlýjasti júlímánuður aldarinnar. Einnig var hlýtt á spásvæðunum þar í kring, alveg suður á Austfirði. Í öðrum landshlutum telst mánuðurinn í meðallagi, svalast þó á Suðurlandi og við Faxaflóa. 

Eins og getið er um í yfirliti Veðurstofunnar var úrkoma óvenjuleg víða Vestanlands og júlíúrkoma mældist meiri en áður á fáeinum stöðvum sem mælt hafa í nokkra áratugi. 

Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina. 


Djúpar lægðir

Nú eru allt í einu komin mánaðamót, júlímánuður 2024 liðinn. Við bíðum með að tala um hann þar til Veðurstofan hefur sent frá sér hið reglubundna yfirlit - og reynum þá að gera grein fyrir hinum óvenjulága loftþrýstingi mánaðarins - sem virðist ætla að halda áfram næstu daga. 

Hver lægðin á fætur annarri hefur verið nærri landinu. Sú sem ræður ríkjum í dag varð sú dýpsta þeirra. Greiningar reiknimiðstöðva segja hana farið niður fyrir 970 hPa í gær - þá á suðvestanverðu Grænlandshafi. Þetta er óvenjulágur þrýstingur í júlímánuði. Í dag (fimmtudaginn 1.ágúst) er lægðin heldur farin að grynnast.

w-blogg010824a

Kortið sýnir stöðuna nú á hádegi (evrópureiknimiðstöðin segir frá). Lægðarmiðjan var þá rétt við 60 gráður norður, 30 gráður vestur og mjakaðist í austur. Þrýstingur í miðju er 984 hPa. Það er lágt í júlí. Sunnan við miðjuna má sjá regnþykkni - það er samfara nýrri bylgju úr vestri sem lægðin er um það bil að grípa. Bylgjan styrkir lægðina og um hádegi á morgun á hún að vera um 977 hPa í miðju, þá um 600 km suður af landinu. Úrkomusvæði bylgjunnar nálgast síðan og fer norðvestur yfir landið. Veldur væntanlega einhverri úrkomu í öllum landshlutum - langmest þó eystra. Nokkuð hvessir um stund. 

Á laugardag hefur lægðin hins vegar grynnst aftur - en heldur sig á svipuðum slóðum. Meiriháttar regnsvæði eiga þá að láta okkur í friði - en alls ekki hægt að lofa þurrki um land allt. 

Önnur styrkingarlægð á síðan að koma úr vestri á sunnudag og ganga inn í gömlu lægðina og dýpkar hún þá enn á ný - aðeins austar en áður. Spá reiknimiðstöðvarinnar segir dýpt í miðju fara aftur niður fyrir 970 hPa á mánudag - þá beint fyrir sunnan land - og þeirri dýpkun fylgir þá enn eitt stóra regnsvæðið sem fer norður og vestur um landið - með mestu úrkomumagni eystra. 

Úrkomuöfgavísar reiknimiðstöðvarinnar eru helst að leggjast á landið suðaustan- og austanvert - en vegna þess að talsverð óvissa er í komutíma og styrk allra þessara framtíðarúrkomusvæða er þeim á þessu stigi ekki mjög að treysta. 

Hvað sem mönnum kann að finnast um úrkomuna er þetta að ýmsu leyti athyglisverð staða og fremur fágæt. Við sem höfum lengi fylgst með veðri og tíð vitum að þetta tíðarfar er hluti af heildarpakkanum - og hljótum að sætta okkur við það. 


Dembur

Í dag var mikið um síðdegisskúrir. Á Vesturlandi var allbjart veður framan af degi. Ritstjóri hungurdiska ók frá Reykjavík í sólskini og var það ríkjandi allt upp fyrir Hvalfjarðargöng - þá ók hann inn í nokkuð dökkan skúravegg (var að vísu með sólgleraugu) og allt þar til komið var í Borgarnes rigndi - en mismikið að vísu. - Önnur áköf demba kom síðan upp úr kl.19. Ritstjórinn heyrði ekki í þrumum, en viðmælendur sögðust hafa heyrt undirganginn.
 
Eldingakerfið (enska) mældi fáeinar eldingar yfir landinu í dag. Það nær þeim ekki öllum. Ritstjóri hungurdiska leit nú í kvöld lauslega yfir úrkomutölur frá sjálfvirkum stöðvum. Þær reyndust afskaplega misjafnar. Athyglisverðust er tala úr svokallaðri Búveðurstöð á Hvanneyri, klukkustundarúrkoma mældist þar 19,1 mm milli kl. 19 og 20. Þetta er óvenjuleg tala þar á bæ - nærri hinu ótrúverða - en gæti samt vel verið rétt. Sé svo er næsta áreiðanlegt að úrkoman hefur ekki dreifst jafnt yfir klukkustundina - heldur hefur megnið af henni fallið á mjög stuttum tíma - kannski 10 til 15 mínútum - það verður væntanlega athugað nánar.
 
Breyting á afgangi textans (gerð sólarhring síðar):
 
Svo virtist í fyrstu sem skúrin mikla á Hvanneyri hefði ekki hitt á hinn úrkomumælinn þar. Þegar kom fram á kvöldið kom í ljós að hún skilaði sér - smátt og smátt. Að beiðni ritstjóra hungurdiska kíkti hjálplegur íbúi á staðnum (vanur maður) á mælinn og sá að í safntrekt hans var verulegt magn af flugum og skít (slíkt hefur sést áður). Skíturinn hefur verkað eins og svampur í úrhellinu - og eftir það draup úrkoman smátt og smátt niður í mælinn sjálfan. Að lokum - þegar komið var langt fram á nótt hafði ámóta úrkoma skilað sér í þennan mæli og hinn - en við vitum auðvitað ekki ákefðina. 
 
 
Búveðurstöðin - sú sem mældi hraðar stendur nokkuð vestan við skólahúsið - en hin (og eldri) ekki fjarri barnaskólanum. Búveðurstöðin fékk yfir sig aðra dembu, kl.17 mældust þar 5,3 mm á klukkustund (sem er líka mikið) - við munum aldrei vita hversu stór hluti heildarúrkomunnar sem mældist í eldri mælinn féll í þessari fyrri skúr. 
 
Hér á eftir er fyrri texti óbreyttur:
 
Önnur stöð stóð sig líka vel í ákefðinni. Það var Búrfell. Þar féllu 15,1 mm milli kl.17 og 18. - ef trúa má mælingu. Hátt í svipað og á búveðurstöðinni á Hvanneyri.
 
Ritstjórinn vill trúa því að þessar tölur verði athugaðar nánar. Því miður eru svonefnd þversnið af lofthjúpnum ekki aðgengileg á kortamiðlum Veðurstofunnar sem stendur - og því mun meira verk fyrir ritstjóra hungurdiska (og aðra) að kveða á stundinni úr um með það hvað olli ákafanum. Sennilega er skýringin þó einföld -

Bara að nefna það - þá ...

Í gær birtist hér á hungurdiskum pistill um lágan loftþrýsting í júlímánuði. Það hefur að vísu ekkert breyst frá því í gær hvað innihald hans varðar - það stendur fyrir sínu - en nú vill skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar (drauma - eða martraðarsvið hennar) stinga upp á athyglisverðu tilviki í næstu viku. Við verðum auðvitað að taka fram að hér er ekki um neinn raunveruleika að ræða - enn sem komið er að minnsta kosti - og aðrar spár sýna ekki það sama. 

w-blogg220724a

Kortið gildir eftir rúma viku, miðvikudag 31. júlí, kl.6 að morgni. Háloftalægðin fyrir vestan land er sérlega djúp og öflug - og háloftavindar með því öflugasta sem sést í júlímánuði - ekki mjög efnilegt satt best að segja. Til að þetta verði þarf stór hluti stóra kuldapollsins í Norðuríshafi að brotna frá - og fara til suðurs um Ellesmereeyju og Baffinsland - og síðan skríða til austurs inn á Grænlandshaf. Þetta er nokkuð flókin atburðarás sem er háð því að ýmislegt „gangi upp“. Líkur eru heldur gegn því að þetta gerist svona - aftur á móti er ekki ólíklegt að kuldapollurinn fari af stað. Í því fellst ákveðin von fyrir þá sem vilja gjarnan fá breytingu á veðurlagi - en jafnframt áhætta. Fleiri spár senda stóra brotið lengra til suðurs - fari svo gæti það komið veðurlaginu úr því fari sem það hefur verið í að undanförnu. 

Háloftavindarnir sem sjást á kortinu eru óvenjusterkir - en kannski ekki alveg dæmalausir. Hægt er að leita uppi svipuð dæmi. Við finnum strax 9. júlí 2018 - en þá var munurinn þó sá að kuldapollurinn var ekki eins öflugur - og allt á meiri hraða en nú er, loftið líka hlýrra. Þetta var rétt í kringum hlaupið mikla úr Fagraskógarfjalli. 

Ef við leitum lengra aftur í tímann finnum við daga bæði árið 1972 og 1964. En það tilvik sem birtist líkast þessu er frá rigningasumrinu mikla 1955. 

w-blogg220724b

Afskaplega ámóta háloftakort - en þó var sá munur að árið 1955 var sjávarmálslægðin sem fylgdi mun grynnri heldur en spá skemmtideildarinnar nú - henni er spáð niður í 970 hPa - harla óvenjulegt - eins og fjallað var um í hungurdiskapistli gærdagsins. En það þarf bara að nafna það, þá ... 


Fyrstu þrjár vikur júlímánaðar 2024

Fyrstu þrjár vikur júlímánaðar 2024 hafa verið úrkomusamar um landið sunnanvert. Meðalhiti í Reykjavík er 11,0 stig. Það er -0,4 stigum neðan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020 og -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára (en +0,5 stigum ofan meðallags 1961-90). Raðast meðaltalið í 16. hlýjasta sæti það sem af er öldinni (af 24). Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2009, meðalhiti þá 13,5 stig, en kaldastir voru þeir 2018, meðalhiti 9,9 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 64. hlýjasta sæti (af 152). Hlýjast var 2009, en kaldastir voru þessir sömu dagar árið 1983, meðalhiti þá 8,3 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu þriggja vikna júlímánaðar 12,5 stig, +1,6 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og 1,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára, áttunda hlýjasta sæti síðustu 89 ára. Jákvætt vik miðað við síðustu tíu ár er mest á Möðruvöllum í Hörgárdal, +1,7 stig, en neikvætt vik mest í Hjarðarlandi, -1,4 stig (svo mikið að grunsamlegt þykir, næstu tölur eru -0,5 og -0,4 stig).
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Norðurlandi eystra, þar eru vikurnar þrjár þær þriðjuhlýjustu á öldinni, en á Suðurlandi og við Faxaflóa eru þær aftur á móti í 15. hlýjasta sæti (9 sinnum hafa þær verið kaldari en nú).
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 56,0 mm og er það um 60 prósent umfram meðallag, hefur 20 sinnum verið meiri þessa sömu daga frá upphafi mælinga. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 8,3 mm og er það um þriðjungur meðalúrkomu. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 52,8 mm, um 60 prósent meðallags.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 89,9 það sem af er mánuði í Reykjavík, 36 stundum færri en í meðalári. Sólskinsrýrari tímabil eru þó fjölmörg í fortíðinni, allt niður í 32,6 stundir sömu þrjár vikur árið 1989. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 137,4, 36 fleiri en í meðalári.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 110
  • Sl. sólarhring: 140
  • Sl. viku: 1410
  • Frá upphafi: 2486086

Annað

  • Innlit í dag: 91
  • Innlit sl. viku: 1237
  • Gestir í dag: 77
  • IP-tölur í dag: 77

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband