Bloggfærslur mánaðarins, september 2017

Þrír fellibyljir á Atlantshafi

Fellibylurinn Irma er að vísu í aðalhlutverki - hinir tveir, José og Katia eru rétt að verða til og Katiu ekki spáð langri vist. José gæti hins vegar reikað um langtímum saman reki hann hvorki inn í vestanvindabeltið né yfir kaldan sjó. 

w-blogg060917a

Myndin er fengin af vef kanadísku umhverfisstofnunarinnar og unnin af henni. Hér má sjá Katiu yfir Mexíkóflóa vestanverðum, Irmu úti af norðurströnd Puerto Rico, en José er ekki langt utan myndar til hægri. 

Irma er óvenjuöflugur fellibylur, sérstaklega sé mið tekið af staðsetningu hans - þeir fáu sem eru öflugri á metalistum sigldu um vestar, helst þá í Mexíkóflóa - þar sem sjávarhiti er hvað hæstur í Atlantshafinu. 

Í gær (þriðjudag 5. september) var Irma enn samhverfari en hún er nú - augað nærri miðju sveipsins. Trúlega er það eyjan stóra, Puerto Rico sem aflagar hringinn lítillega. 

Spáin mun vera sú að Irma fari skammt undan landi á Hispanjólu og Kúbu - gæti þó rekið þar á land um stund. Lengra ná sæmilega áreiðanlegar spár ekki - en þó er samkomulag um snögga beygju í norðurátt í námunda við Flórída - hvort sú beygja verður tekin austan eða vestan við skagann er óljóst á þessari stundu. Sömuleiðis er styrkurinn óviss þegar þangað er komið.

Einkennileg fyrirbrigði, hitabeltisfellibyljir. 


Meira af hitametinu á Egilsstöðum

Við lítum nú aðeins á nýja septemberhitametið sem sett var á Egilsstöðum á föstudag (þann 1.). Eins og áður er komið fram sló það út eldra met sem sett var á Dalatanga þann 12. árið 1949.

Þann dag fór hiti mjög víða yfir 20 stig um landið norðaustan- og austanvert, en hámarksskotið á Dalatanga virðist ekki hafa staðið mjög lengi því hiti á athugunartímum var lengst af á bilinu 13 til 15 stig, en þó 19,0 stig kl.18. Ekki er þó sérstök ástæða til að efast svo mjög um réttmæti hámarksins því hiti var meiri en 20 stig á Seyðisfirði allan daginn, frá morgni til kvölds og var hæst lesinn 24,0 stig kl.14 (15 að okkar tíma). Enginn hámarksmælir var á staðnum þannig að við vitum ekki hvort hitinn þar fór hærra. Við flettingar í 20.aldarendurgreiningunni bandarísku kemur í ljós að þessi dagur 12.september 1949 á næsthæsta septemberþykkt safnsins, 5600 m - nokkuð sem gerir metið líka trúverðugt. 

En að mælingunni á Egilsstöðum.

w-blogg050917aa

Blái ferillinn sýnir hæsta mínútuhita hvera 10-mínútna sólarhringsins - þar á meðal þann hæsta, 26,4 stig sem mældist skömmu fyrir kl.16. Hiti hafði farið niður í 2,9 stig (lægsta lágmark) kl.5 um morguninn þannig að sveiflan var mjög stór. Hitinn var ofan við 20 stig frá því um kl. 12:30 til klukkan 17:40. Efir kl. 19 var hann kominn niður í um 15 til 16 stig og hélst á því bili fram yfir miðnætti. 

Rauði ferillinn á myndinni sýnir daggarmarkið. Við sjáum að það féll nokkuð um miðjan daginn sem bendir til þess að þurrara loft (og hlýrra) að ofan hafi blandast niður í það sem neðar var. Sólarylur hefur sjálfsagt hjálpað til að ná þeirri blöndun. Rakastig (grænn ferill - kvarði til hægri) fór þá niður í 25 prósent - svipað og þegar kalt og þurrt marsloft að utan er hitað upp innanhúss. 

w-blogg050917b

Blái ferillinn á síðari myndinni er sá sami og á fyrri mynd, en rauður ferill sýnir nú hita uppi á Gagnheiði, í 950 metra hæð yfir sjávarmáli. Um morguninn var þar hlýrra en niðri á Egilsstöðum og dægursveiflan miklu minni. Hámarkshitinn fór þó í 15,7 stig, rúmri hálfri klukkustund síðar en hitinn varð hæstur á Egilsstöðum.

Græni ferillinn sýnir mismun hita stöðvanna. Athugið að kvarðinn sem markar hann er lengst til hægri á myndinni og er hliðraður miðað við þann til vinstri sem sýnir hita stöðvanna. Hitamunurinn var mestur rétt um 12 stig - sem er ívið meira en búast mætti við af hæðarmun þeirra eingöngu. Minna má á að hiti á fjallstindum er gjarnan eins lágur og hann getur orðið miðað við umhverfi í sömu hæð - alla vega ef vind hreyfir. Hiti í 950 metra hæð beint yfir Egilsstöðum gæti hafa verið tæplega 17 stig þegar best lét.

Þó meir en 15 stiga hiti sé sjaldséður á Gagnheiði í september var hér ekki um met að ræða þar því 17,6 stig mældust 13. september árið 2009. Þá var hámarkið á Egilsstöðum ekki „nema“ 19,6 stig - hefði kannski átt að vera 28 (við bestu blöndunaraðstæður eins og nú)? En það varð ekki. Hins vegar fór hiti í meir en 20 stig á allmörgum stöðvum þennan dag. 


Þrýsti- og þykktarvik ágústmánaðar

Við lítum á tvö vikakort úr greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg040917a

Það fyrra sýnir meðalþrýstifar í nýliðnum ágústmánuði (heildregnar línur) og vik frá meðallagi (litir). Hér má sjá að þrýstingur var lægri en venjulega yfir norðanverðri Skandinavíu, en yfir meðallagi vesturundan og yfir Grænlandi. Þetta þýðir auðvitað að norðanáttir voru heldur tíðari hér á landi en að meðallagi er í mánuðinum.

w-blogg040917b

Meðalhæð 500 hPa flatarins er sýnd með heildregnum línum, meðalhæð með strikuðum og þykktarvik í lit. Bláu litirnir sýna þau svæði þar sem þykktin var undir meðallagi og hiti í neðri hluta veðrahvolfs því líka undir. Kaldast að tiltölu var á Norður-Írlandi og við Vestur-Noreg. Aftur á móti var hlýtt um Grænland sunnanvert. Þeirra hlýinda gætir þó í minna mæli yfir köldum sjónum þar um slóðir. 

Norðvestanátt í háloftum - með lægðarsveigju er að jafnaði mjög köld hér á landi á öllum tímum árs og vel sloppið að hún skuli þó ekki hafa verið kaldari að þessu sinni en raun ber vitni. 


Sumardagafjöldi í Reykjavík og á Akureyri 2017

Auk þess að reikna út sumareinkunn fyrir Reykjavík og Akureyri telur ritstjóri hungurdiska einnig það sem hann kallar sumardaga á þessum stöðum. Ber síðan saman við fyrri ár. Skilgreiningu hans á sumardegi má finna í viðhengi - hún er nokkuð „grillmiðuð“, telur helst daga þegar úrkoma er lítil síðari hluta dags, hiti fremur hár, og ekki alskýjað. 

Þetta er aðallega hugsað til gamans frekar en gagns og mætti auðvitað gera allt öðru vísi. Sumarvísitalan sem fjallað var um í pistli í gær (2. september) gefur ekki kost á samanburði milli stöðva - í henni felst eingöngu samanburður milli einstakra sumra á sama stað. Sumardagatalningin er hins vegar samanburðarhæf - og sé litið á allt tímabilið sem hér er undir kemur í ljós að þeir eru nærri tvöfalt fleiri á Akureyri heldur en í Reykjavík (sem kemur Akureyringum víst ekkert á óvart). 

w-blogg030917a

Reykjavíkurmyndin hér að ofan sýnir að á árunum fyrir 1960 voru þessir sumardagar í Reykjavík í kringum 20 að jafnaði, flesta sjáum við hér 1958, 1960 og 1950. Síðan er fátt um fína drætti í meir en 25 ár, ekkert sumar náði fleirum en 20 dögum. Alhraklegast hið fræga 1983, þar sem einn dagur er á blaði. Mikill munur þótti að fá sumarið 1987, svo ekki sé talað um 1991 þegar dagarnir urðu aftur loks fleiri en 30 á einu sumri.

Aftur seig á ógæfuhlið 1992, en frá og með 1997 fór að batna og frá 2003 tók við óheyrilega góður kafli sem stóð samfellt til ársins 2013 - toppaði 2010, 2011 og 2012 þegar sumardagarnir urðu um 50 talsins. Þó 2013 virðist liggja lágt voru sumardagar þess þó fleiri en að jafnaði á kuldaskeiðinu. Síðustu árin fjögur hafa náð mjög góðum árangri þó aðeins skorti upp á toppinn. 

Rauða línan sýnir 10-árakeðjur og fjölgunin mikla sést þar mætavel. - En höfum í huga að þessi fjölgun er auðvitað ekkert tryggð í framtíðinni - vel gæti aftur snúist til fyrri tíðar. 

Eins og áður sagði eru sumardagar að jafnaði mun fleiri á Akureyri heldur en í Reykjavík.

w-blogg030917b

Minni munur er á 10-árakeðjunum heldur en í Reykjavík. Við sjáum þó að síðustu 20 til 25 árin hafa sumardagar þó verið fleiri á Akureyri að jafnaði en var á árum áður. Meðaltalið er nú í kringum 45 dagar á sumri, en var lengi ekki nema 35 til 40. Á fyrri tíð komu nokkur afburðasumur. Þar eru efst á blaði 1955 og 1976 - bæði tvö mikil rigningasumur syðra. Sumardagarýrast á Akureyri var 1979 og svo líka 1993, 2015 var líka rýrt. 

Þess verður að geta að oft koma allmargir sumardagar í september á Akureyri - og hann er ekki liðinn í ár. Meðalfjöldi eftir ágústlok er um 5 dagar. Voru flestir 16 talsins 1996 - enn gæti því tala ársins í ár (39 á ritinu) hækkað nokkuð og bætt stöðu 2017 eitthvað. Í Reykjavík er síðsumarmeðalfjöldinn aðeins 1 dagur, en voru þó 12 sem bættust við eftir 1. september 1958.  

Við lítum að lokum á hvernig Reykjavík hefur á tímabilinu verið að „vinna á“ Akureyri.

w-blogg030917c

Rauði ferillinn sýnir 10-árakeðjuna á Akureyri, þá sömu og á fyrri mynd), og sú bláa er endurtekning á línunni á Reykjavíkurritinu. Græna línan sýnir hins vegar hlutfallið. Þegar verst lét á árunum í kringum 1980 var meðalfjöldi sumardaga í Reykjavík aðeins fimmtungur af fjöldanum á Akureyri, en var fyrir 1960 tæpur þriðjungur. Á síðustu árum hefur hlutfallið hins vegar farið upp í um 80 prósent - og það þrátt fyrir að sumardögum hafi einnig fjölgað á Akureyri. Upp á síðkastið hafa þeir verið ámóta margir í Reykjavík og þeir voru á Akureyri fyrst á tímabilinu sem hér er fjallað um. 

Þó efast megi um ágæti þessara reikninga sýna þeir þó það sem flestum þeim sem hafa fylgst lengi með veðri finnst. Að eitthvað miður gott hafi gerst í sumarveðurlagi suðvestanlands upp úr 1960 - og það ekki „jafnað sig aftur“ fyrr en undir aldamótin síðustu. Við notum gæsalappirnar auðvitað vegna þess að vel má vera að ástandið síðustu 20 árin sé það afbrigðilega - og það muni um síðir jafna sig og hverfa til hins „eðlilega“ (eins uppörvandi sem sú hugsun er - eða hitt þó heldur). 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sumareinkunn Reykjavíkur og Akureyrar 2017

Undanfarin ár hefur ritstjóri hungurdiska birt það sem hann kallar sumareinkunn fyrir Reykjavík og Akureyri. Margoft hefur verið skýrt út hvernig reiknað er og verður ekki endurtekið hér.

Þess verður þó að geta að fjórir þættir eru undir: Meðalhiti, úrkomumagn, úrkomutíðni og sólskinsstundafjöldi. Hver sumarmánuður er tekinn sérstaklega og getur mest fengið einkunnina 16, en minnst núll. Hæsta mögulega einkunnasumma sumars er því 48, en ekkert sumar tímabilsins 1923 til 2017 hefur skorað svo vel. 

w-blogg020917a

Sumarið 2017 endaði með 32 stig, 8 stigum ofan meðallags alls tímabilsins og í flokki góðra sumra. Reykjavíkurritið er mjög tímabilaskipt. Sumur voru lengst af mjög góð eða sæmileg fram til 1960 eða svo, en þá tók við afskaplega dapur og langur tími sem stóð linnulítið í rúm 40 ár. Frá og með árinu 2004 fóru sumur að leggjast langt ofan meðallags og hefur svo gengið síðan - að mestu, því sumrin 2013 og 2014 voru döpur að þessu tali.

Ágúst fékk hæsta einkunn sumarmánaðanna í ár (12 stig), en júní lakasta - en enginn mánuður kom illa út. 

En þetta er nú allt til gamans og telst vart til alvarlegra vísinda. 

w-blogg020917b

Á Akureyri er gætir tímabilaskiptingar minna en syðra, en almennt má þó segja að sumur hafi á þessari öld fengið heldur hærri einkunn en algengust var á tímabilinu 1950 til 1970. Sumrin 2015 og 2016 voru harladauf - en ekki þó í afleita flokknum. 

Sumarið 2017 var mjög misskipt á Akureyri. Heildareinkunn var 23 stig - eiginlega alveg í langtímameðaltalinu, en leynir því að júlí var afbragðsgóður, með 12 stig og júní mjög daufur með aðeins 4 stig. 


Nýtt landshitamet septembermánaðar

Óhætt er að segja að september í ár hafi byrjað með látum. Hámarkshiti dagsins (þ.1.) mældist 26,4 stig á Egilsstöðum og hefur aldrei farið hærra hér á landi í septembermánuði. Gamla metið var 26,0 stig, sett á Dalatanga þann 14. árið 1949. Þetta er annað mánaðarlandshitametið sem sett er á árinu en 12. febrúar mældist hiti á Eyjabökkum 19,1 stig, hærri en nokkru sinni hefur áður mælst í þeim almanaksmánuði. 

Eyjabakkametið vekur reyndar nokkra umhugsun um það hvað hámarkshiti er og hefur ekki enn fengið fullkomið heilbrigðisvottorð. Samt sést það nú þegar tilfært í erlendum metaskrám (met eru eftirsótt vara virðist vera). 

Egilsstaðametinu í dag fylgja engar sérstakar áhyggjur - nema þær venjulegu, sem lúta að umbúnaði hitaskynjarans og minnst hefur verið á áður hér á þessum vettvangi - og er löglegur talinn (eða þannig). 

Það er mjög sjaldgæft að hiti mælist 25 stig eða meira hér á landi í september, en það er auðvitað líklegast fyrstu daga mánaðarins. 

Ritstjóri hungurdiska fær vonandi tækifæri til þess síðar að gera nánari grein fyrir metinu. 

Fjöldi septemberhitameta féll á veðurstöðvum landsins í dag. Nördin geta séð þau í lista í viðhengi þessa pistils - þar eru aðeins nefndar stöðvar sem starfað hafa í 10 ár eða meira. 

Dagurinn varð fimmtihlýjasti dagur ársins á landsvísu, en átti hæsta hámarkshita þess á rúmlega 20 stöðvum (sjá viðhengi).

Hitasveifla dagsins var stór á Egilsstöðum því næturlágmarkshitinn þar var ekki nema 2,9 stig. Spönnin því 23,5 stig. Skyndilegar hitasveiflur komu fram á nokkrum stöðvum, t.d. á Mánárbakka þar sem hiti var 23,3 stig klukkan rúmlega 15, en féll skömmu síðar niður í 13,6 stig - ofanloft vék fyrir utanlofti. Á Siglufirði hækkaði hiti hins vegar snögglega um 8,2 stig innan klukkustundar milli 13 og 14. Svipaðar tölur sáust úr Flatey á Skjálfanda þar sem hitinn stakk sér stutta stund upp fyrir 21 stig - en var annars mun lægri. Þar kom ofanloft greinilega við sögu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 160
  • Sl. viku: 1751
  • Frá upphafi: 2348629

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1532
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband